• Íslenska
  • English
  • Svenska
  • Deutsch
  • Dansk
  • Français
Eiríkur Örn Norðdahl
Ljósmynd: Erik Brunulf

Eiríkur Örn Norðdahl

Eiríkur Örn Norðdahl er rithöfundur, þýðandi og ljóðskáld. Hann hefur gefið út fimm skáldsögur, nú síðast skáldsöguna Heimsku, en þar á undan Illsku, sem hlaut Hin íslensku bókmenntaverðlaun, Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana, frönsku Transfuge-verðlaunin (sem hann hlaut aftur fyrir Heimsku) og var auk þess tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, Medici-verðlaunanna og Prix Meilleur Livre Étranger. Í október er væntanleg hans sjötta skáldsaga, Hans Blær.

Eiríkur hefur einnig gefið út sjö ljóðabækur, ritstýrt tveimur bókum um ljóðlist, gefið út safn ritgerða um ljóðlist á ensku og skrifað stutta bók um bókaþjófnað og höfundarrétt. Þess utan hefur hann þýtt fjölda bóka, þar á meðal valin ljóð eftir Allen Ginsberg, safn erlendra framúrstefnuljóða og skáldsöguna Móðurlaus Brooklyn eftir Jonathan Lethem, en fyrir þá síðastnefndu hlaut hann íslensku þýðingarverðlaunin 2008. Nýjasta þýðing hans er Hvítsvíta eftir Athenu Farrokhzad, sem kom út árið 2017 hjá Máli og menningu.

Eiríkur hefur verið staðarskáld í Vatnasafninu á Stykkishólmi, í boði Stykkishólmsbæjar og listasjóðsins Art Angel, sem og í Villa Martinson í Jonsered í Svíþjóð (2015) og í AIR Krems í Austurríki (2018). Árið 2010 hlaut Eiríkur viðurkenningu úr Fjölíssjóði. Eiríkur var Bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar 2014-2015. Hann hefur hlotið aukaverðlaun Ljóðstafs Jóns úr Vör, sérstaka viðurkenningu á kvikljóðahátíðinni Zebra Poetry Film Festival í Berlín og Rauðu fjöðrina, erótísk stílverðlaun lestrarfélagsins Krumma.

*** SKÁLDSAGAN HANS BLÆR VÆNTANLEG Í OKTÓBER ***

„Dömur mínar og lollarar, ég þakka ykkur frá innstu hjartarótum fyrir að setja ykkur í samband en háværar frásagnir af afhroði mínu, hruni, dauða, æruleysi og eignabruna eru sem sagt heldur orðum auknar: Ég lifi, sprikla og dilla mér þótt fjölmiðlar beri á mig ímyndaðar sakir og leyfi sérfræðingum (lol) að skálda í eyðurnar af sínu annálaða andríki.

Það er ekki liðin heil nótt frá því lögreglan barði að dyrum á Samastað, ekki hálf klukkustund frá því ég var sjálft hrakið á flótta, og sögurnar sem ég hef fyrir kærleika guðanna fengið að lesa um sjálft mig í þeim miðlum sem kalla sig „hefðbundna“ eða jafnvel „krítíska“ (he he) telja sennilega á annan tug. Það er að sönnu gaman að fylgjast með – svona einsog það er gaman að horfa á skordýr sem lent hefur á bakinu sprikla í þeirri von að finna fæturna aftur – en er þetta ekki pínulítið aumkunarvert? Í alvöru.

Fyrir 22 klst. 11 mín. síðan. 622 líkar við þessa stöðu. 181 hafa gert athugasemd.

***

Eiríkur Örn Norðdahl stendur í fremstu röð íslenskra samtímahöfunda og hafa bækur hans komið út og hlotið margs konar viðurkenningar um allan heim. Fyrir skáldsöguna Illsku hlaut hann Íslensku bókmenntaverðlaunin og var tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Hér skoðar hann samtíma okkar með fránum augum nettröllsins Hans Blævar sem allt sér og engum hlífir.

Mál og menning