• Íslenska
  • English
  • Svenska
  • Deutsch
  • Dansk
  • Français
Eiríkur Örn Norðdahl
Ljósmynd: Erik Brunulf

Eiríkur Örn Norðdahl

Eiríkur Örn Norðdahl er rithöfundur, þýðandi og ljóðskáld. Hann hefur gefið út fimm skáldsögur, nú síðast skáldsöguna Heimsku, en þar á undan Illsku, sem hlaut Hin íslensku bókmenntaverðlaun, Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana, frönsku Transfuge-verðlaunin og var auk þess tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, Medici-verðlaunanna og Prix Meilleur Livre Étranger.

Eiríkur hefur einnig gefið út sex ljóðabækur, ritstýrt tveimur bókum um ljóðlist, gefið út safn ritgerða um ljóðlist á ensku og skrifað stutta bók um bókaþjófnað og höfundarrétt. Þess utan hefur hann þýtt fjölda bóka, þar á meðal valin ljóð eftir Allen Ginsberg, safn erlendra framúrstefnuljóða og skáldsöguna Móðurlaus Brooklyn eftir Jonathan Lethem, en fyrir þá síðastnefndu hlaut hann íslensku þýðingarverðlaunin 2008. Nýjasta þýðing hans er Erfðaskrá vélstúlkunnar eftir Idu Linde, sem kom út árið 2014 hjá Meðgönguljóðum.

Árið 2012 var Eiríkur staðarskáld í Vatnasafninu á Stykkishólmi, í boði Stykkishólmsbæjar og listasjóðsins Art Angel. Árið 2010 hlaut Eiríkur viðurkenningu úr Fjölíssjóði. Eiríkur var Bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar 2014-2015. Hann hefur hlotið aukaverðlaun Ljóðstafs Jóns úr Vör, sérstaka viðurkenningu á kvikljóðahátíðinni Zebra Poetry Film Festival í Berlín og Rauðu fjöðrina, erótísk stílverðlaun lestrarfélagsins Krumma.

„Stutt og snörp en barmafull af hugmyndum og þráðum sem leiða djúpt inn í hjarta samtímans.“
Kristján Guðjónsson / DV
„Heimska er stór bók. Þrátt fyrir að hún sé mun styttri en systurbækur hennar, Gæska (2009) og Illska (2012), kemur hún víða við og tekur á ýmsum álitamálum samtímans af hörku. [...] Stíll Eiríks er sem fyrr beittur og hnitmiðaður. Hann hefur einstaka færni í að framsetja flóknar og margslungnar hugmyndir á hráan en jafnframt skýran hátt. [...] Í Heimsku skapar Eiríkur á mjög hugmyndaríkan og klókan hátt framtíð sem er nauðalík samtíma okkar. Í þeirri framtíð leitar fólk að tilgangi, aðalpersónurnar sækja hann í heim listarinnar, í sköpunina og viðurkenninguna, á meðan dimm saga vestrænnar menningar og óörugg framtíð vofir yfir. Þau sjálfhverfu persónueinkenni sem brjótast fram í heimi samfélagsmiðla eru sett í samhengi við viðbrögð persóna við óöruggri framtíð og meðvitund um grimman samtíma. Því hver kann að búa í vellystingum á meðan aðrir þjást? Hversu mörg kattarmynd á youtube þarf Íslendingur að horfa á til að gleyma ofhlöðnu bátunum á Miðjarðarhafi?“
Sólveig Ásta Sigurðardóttir / Tímarit Máls og menningar.

„… mjög skemmtileg.“
Friðrika Benónýsdóttir / Kiljan
„Írónísk frásögnin nær auknum styrk þegar á líður … og þá sýnir höfundurinn vel hvers hann er megnugur í frásagnartækni og snörpum stílbrögðum, í lýsingu á nöturlegum heimi sem hefur tekið við af þeim sem við þekkjum …“
Einar Falur Ingólfsson / Morgunblaðið
„Það sem er sérstakt við Heimsku er að það er fjallað um þessi mál af nærgætni og án þess að samfélagið sem slíkt sé dæmt. Það skín út úr rödd sögumannsins að þessi þörf fyrir athygli sé mannleg og að mörgu leyti eðlileg og lesandanum er aldrei sagt að hann eigi að breyta háttum sínum eða hvernig hann ætti að hegða sér í staðinn. Þetta bætir mörgum lögum af túlkunarrými við textann og gerir frásögnina að flóknu samspili persóna, samfélags, sögumanns og lesenda. Heimska er vel unnin, góð og áhugaverð bók sem óhætt er að mæla með.“
Hildur Ýr Ísberg // Sirkústjaldið
„Heimska er vel fléttuð skáldsaga, spennandi og grípandi, skrifuð á skýru og vönduðu máli og persónugalleríið er áhugavert. Líkt og Illska fjallar hún um stór málefni sem erfitt er að ná utan um, skilgreina og skilja að fullu, ræðst á samfélagsmein, bendir á breyskni mannsins og potar í auma bletti.“
Ásta Kristín Benediktsdóttir // Hugrás
„Þetta er ekki þessi dæmigerða skemmtisaga og mér fannst þau hjónaleysin sérlega ógeðfelld bæði tvö. “
Anna Kristín Halldórsdóttir / Pjatt.is
Í óskilgreindri framtíð, undir vökulum augum eftirlitssamfélagsins, gera rithöfundarnir og fyrrverandi hjónin Áki og Leníta allt sem þau geta til ganga hvort fram að öðru. Á meðan gengur lífið sinn vanagang, út koma bækur sem ýmist fá verðlaun eða ekki, sólin mjakar sér yfir fjöllin snemma árs og skín á Ísfirðinga, bakkelsislyktina leggur úr Gamla bakaríinu og listnema úr borginni hreiðra um sig í yfirgefinni rækjuverksmiðju. Svo fer rafmagnið að flökta.

Heimska er skáldsaga um að sjá allt og sjást alls staðar, um óstjórnlega forvitni mannsins og þörf hans fyrir að vekja athygli, um fánýti bókmennta og lista – og mikilvægi – um líkindi mismunarins, um hégóma, ást og svik. Og síðast en ekki síst um framtíðina.