Tuttuguogníu: Ósýnilegir Gyðingar

August 31, 2011 in Illska, Uncategorized

Ég byrjaði daginn á því að reyna að finna hina frægu sýnagógu Jurbarkasbæjar. Hún var byggð árið 1790 og þótti slík prýði að hingað komu málarar alla leiðina frá Ítalíu til þess eins að festa hana á striga. Hér bjuggu enda fleiri þúsund gyðingar í fleiri hundruð ár og hafði þegar tekið að fækka nokkuð (Eretz Yisrael) þegar helförin skall á. Á einu sumri voru engir eftir. Meðal þess sem þýskir og litháískir nasistar tóku sér fyrir hendur þetta sumar var að láta gyðingana brenna sýnagóguna frægu. Þessa sér hins vegar hvergi stað niðri í bæ. Né heldur verður maður hið minnsta var við að hér hafi nokkru sinni búið gyðingar (ef undan er skilinn þessi undarlegi minningarreitur í jaðri bæjarins, unglingasmókstoppið, sem ég skoðaði í gær).

Ég vissi hins vegar að sýnagógan stóð við Kaunasstræti (Kauno gatvé / Kovno gass) við markaðstorg gyðinga, nálægt fræðahúsi gyðinga (beth midrash), sem ég vissi fyrir víst að stóð enn á tíunda áratugnum.

Þetta er Kaunasgata, fyrir endann má sjá kaþólsku kirkjuna (sem er einnig mjög glæsileg). Fræðahúsið er þetta hvíta vinstra megin. Ég gekk sem sagt fram og aftur þessa götu í leit að þessu húsi með kýrauga á mæninum. Ég fann að vísu nokkur hús með kýrauga á mæninum en ekki þetta tiltekna og samþykkti að lokum að það hlyti að hafa verið rifið (í textanum sem ég fann stóð „still standing in the 90′s“ sem gefur líka hálfvegis í skyn að það hafi verið rifið síðar). Allavega. Þá fór ég aftur á Tourist Information, náði mér í nýtt kort fyrir það sem ég glataði einhvers staðar í gær og spurði út í staðsetningu sýnagógunnar. Starfsmaðurinn kom fullkomlega af fjöllum, hummaði og ha-aði, dró síðan upp póstkort og spurði hvort ég væri að meina þessa? Ég sagði já og hann sagðist myndu fara og athuga málið hjá yfirmanni sínum. Nokkrum mínútum síðar kom hann til baka og sagði að þeir héldu að hún hefði verið á milli Kaunasgötu og Krantogötu

Ég þangað.

Það var í sjálfu sér ekki mikið að sjá og auðvitað átti ég ekki heldur von á miklu. Það er ekki tangur né tetur af gyðingasamfélaginu að finna í þessum bæ, hvorki af sýnagógunni eða sláturhúsinu sem var þarna líka við torgið. Þetta er eiginlega alveg öfugt við tilfinninguna sem maður fær í Varsjá þar sem maður er stöðugt minntur á helförina og gyðingtrúna á öllum götuhornum, með skiltum og söfnum og litlum dúkkum af kuflklæddum, skeggjuðum mönnum sem minna okkur á fjarveru hinna raunverulegu manna:

Olga Holownia, pólskuþýðandi, sendi mér þessa mynd reyndar með þeirri spurningu hvort þetta værum við Jón Örn Loðmfjörð á Nýhilupplestri (en þá höfðum við nýverið gerst ansi skeggjaðir í Varsjá).

En ég rölti nú samt þarna um í grasinu sem líklega var einu sinni markaðstorg og gaumgæfði húsin í kringum mig sem voru flest litlir og aumlegir tréhjallar, án nokkurs vafa frá því fyrir stríð. Og ég velti því meðal annars fyrir mér hvað lóðirnar voru litlar og hvað lóðirnar á Kaunasgötu eru almennt hjárænulegar við hliðina á lóðunum annars staðar. Gyðingarnir í Jurbarkas voru kaupsýslumenn en flestir aðrir voru einhvers konar bændur og verkamenn. Gyðingar áttu 80% af öllum verslunum og fyrirtækjum, en þeir virðast samt hafa verið óttalegir hokrarar og fátæklingar. Nú eru þetta ekki allt lítil hús (þau eru þó sínu minni við Krantogötu) en lóðirnar eru meira og minna allar án garðs, sem er afar sjaldgæft sýnist mér, nema við allra nýjustu verslunarhús og kannski sovésk fjölbýlishús verkamanna.

En frá markaðstorginu mjakaði ég mér sem sagt niður að ánni Nemunas. Þegar að nasistar höfðu lokið við að láta Gyðingana rífa sýnagóguna í sundur og setja hana á bálið höfðu þeir ekki fengið nóg og siguðu þeim á nærliggjandi kjúklingasláturhús líka. Þar urðu menn löðrandi í fitu svo við þá festist fiðrið og voru síðan reknir niður að ánni til þess að baða sig og láta hæðast að sér, sparka í sig og kýla sig, áður en þeir fengu að fara „heim“ í gettóið (og þá meina ég ekki Kaunasgötu, heldur gistiheimilið, FIT þeirra nasista, á Dariaus ir Gireno stræti, þar sem menn gistu þar til nasistum þóknaðist að slátra þeim).

Í dag er þetta falleg baðströnd (ég veit reyndar ekki hvort fólk baðar sig í ánni, ég held það sé óhollt).

Áður en ég rölti upp í bæ og keypti mér (það segir sig kannski sjálft, en vondan) kebab hérna …

… náði ég að smella mynd af þessu húsi sem virðist vera að klofna …

… og þessari vinalegu áskorun, til verðandi skáldsnillings, sem hefur verið máluð á veggi víða um bæinn. Það mun koma sér vel að hafa þessi hvatningarorð í huga síðustu mánuðina sem ég vinn að bókinni:

Tuttuguogátta: Á gangi um Jurbarkas

August 31, 2011 in Illska, Uncategorized

Eftir heimsóknina í gyðingagrafreitinn byrjaði ég á því að þramma einfaldlega í kringum bæinn einsog hann var árið 1941, svona sirka. Það var ekki nema sirka klukkustundar göngutúr í rólegheitunum, með viðkomu í súpermarkaði, held ég (ég tók ekki tímann). Ég tók eftir ýmsu. Göturnar eru breiðar og miklar og bærinn rosalega strjálbýll. Margir eru með húsdýr. Jurbarkasbúar eru ennþá meira bílafólk en Íslendingar og maður sér nánast engan fótgangandi nema rétt eftir aðalgötunni, Dariaus ir Gireno götu, eða þeirri næstu, Kaunasgötu, þar sem allt er reyndar á fullu og Evrópusambandið er að endurnýja allar gangstéttir. Annars mikið af bílum og mikið af börnum lausum í mikið af bílum, sem mér fannst eitthvað lítið sjarmerandi. Ég upplifði fólkið sem ég mætti annars sem feimið og lokað, en sem feimið á lokað á einhvern annan hátt en Finnar eða Íslendingar. Einsog það væri agressíft feimið. En þá skal reyndar tekið fram að þeir sem ég hef átt bein samskipti við (fólkið á gistiheimilinu eða þeir sem ég hef beðið um ráð út af einu eða öðru) hafa alls ekki verið feimnir eða lokaðir og þaðan af síður agressífir. En það er einhver sameiginleg hegðun gagnvart utanaðkomandi; líklega er það tortryggni sem maður er ekki vanur. Annars var nokkuð horft á mig (og ég er vanur að fólk gjói augunum á mig, ég er tveggja metra hár maður með hatt, that’s the price you pay), einu sinni kallað á mig úr bíl og einu sinni kom lítil stúlka til mín og spurði að einhverju í fremur augljósu glensi en hljóp svo sem fætur toguðu aftur til vinkvenna sinna þegar í ljós kom að ég skildi ekki litháísku.

Mikið af fyrirtækjunum í Jurbarkas eru rekin í venjulegum íbúðarhúsum. Þetta er t.d. tölvuþjónustufyrirtæki.

Nær inngangurinn að þessu fjölbýlishúsi hýsir fataverslun en sams konar inngangur hinu megin hýsir sparisjóð.

Annað sem ég man eftir frá 2008 eru algerlega sléttar hliðar vissra húsa, þar sem ekkert stendur fram úr veggjum, hvorki karmar, gluggar, hurðir né annað. Ef einhver kann skýringu á því hvers vegna þetta er þá er ég afar forvitinn að vita.

Tuttuguogsjö: Grafreitur gyðinga

August 30, 2011 in Illska, Uncategorized

Ég hóf daginn í grafreit gyðinga. Réttara sagt hóf ég daginn að því að leita að grafreit gyðinga og minnisvarða um fjöldamorð nasista 1941, en fann ekki í fyrstu, enda lýkur túristakortinu mínu rétt þar sem grafreiturinn hefst. Það er viðeigandi í nokkrum skilningi. Í fyrsta lagi hafa Litháar ekki tekist við þátt sinn í helförinni nema að litlu leyti (frekar en aðrar Eystrasaltsþjóðir) og eru þar með ekkert að auglýsa svona nokkuð nema að litlu leyti; í öðru lagi fóru nasistar (og heimamenn) með fórnarlömbin þangað út eftir einmitt vegna þess að hann stendur eilítið utan við bæinn. Þangað er um fimm mínútna gangur frá gistiheimilinu mínu og há tré sem skýla manni fyrir forvitnum augum – en staðurinn er samt nógu nálægt bænum til þess að ólætin af fjöldaaftökunum hljóta að hafa borist langleiðina niður í miðjan bæ. Enda veit ég svo sem ekki til þess að neinn hafi þóst ekkert vita hér – rétt tæplega hálfum bænum var slátrað á einu sumri. Á þessari mynd sjáið þið hvernig skógurinn skilur grafreitinn og þetta svæði allt frá bænum:

Minnisvarðans er ekki getið í túristabæklingnum mínum og ég fann ekkert um hann á Tourist Information skrifstofunni í gær. Í fyrstu var það eina sem ég rak augun í og hafði með þetta tímabil að gera minnisvarði um nokkra drengi úr menntaskólanum sem sovétmenn tóku af lífi fyrir „and-litháíska starfsemi“ – og án þess að ég ætli að gera lítið úr því þá voru þeir sem sagt sirka fimm en það fer lítið fyrir þeim tvö þúsundum sem voru gyðingar (auðvitað er maður kannski samt alltaf að gera lítið úr, alveg óvart, þrátt fyrir góðan vilja og allt það, en sumt verður að segjast kannski þótt það geri lítið úr).

Þegar ég kom í grafreitinn (sem ég fann loks á stærra bæjarkorti í hinum enda bæjarins; sjá ljósmynd hér að ofan) stóð þar hópur af ungum stúlkum fyrir utan tvo bíla og reyktu sígarettur og töluðu í farsíma. Ég fékk það strax á tilfinninguna að þetta væri eins konar „núll“ – einsog það var kallað á Ísafirði, staðurinn þar sem maður lagði á rúntinum, reykti og hékk í skjóli fyrir öðrum, enda ekki von á gestkomandi (á Ísafirði fór maður niður á höfn og lagði í innkeyrslunni inn í portið á Vestrahúsinu; reyndar bara á kvöldin).

Til að fyrirbyggja misskilning er líklega best að nefna að í grafreitnum liggja ekki fórnarlömb nasista. Það ég kemst næst liggja þau nafnlaust undir minnisvarðanum, sem er þessi grasflöt hér að ofan. Í grafreitnum liggja forfeður þeirra sem létust fyrir 1941. Við eitt horn grasflatarins eru þrír legsteinar og svo stendur einn á honum miðjum og fjórði legsteinninn er málmskjöldur sem negldur er við tré utan við flötin.

Á fyrsta af þeim þremur sem standa saman eru atburðir lauslega taldir upp – 2.000 manna gyðingasamfélag var upprætt af nasistum með aðstoð heimamanna. Hér voru 300 gyðingar drepnir og nokkrir tugir litháa og rússa (kommúnistar). Ég tek fyrst eftir því núna að fyrsti legsteinninn er bara á litháísku en allir hinir voru bæði á litháísku og hebresku (en engin enska eða þýska; þetta er ekki fyrir túrista).

Í ævarandi minningu fórnarlamba þjóðarmorðsins.

Á þeim síðasta er skúlptúristans Vincas Grybas minnst sérstaklega en hann var bæði og er frekar frægur. Það er meðal annars safn um hann niðri í bæ sem ég ætla að skoða á morgun.

Ég var ekki nógu forvitinn til að taka almennilega mynd af þessum og grafast fyrir um hvað stæði á honum – vegna þess að hann er bara á hebresku og ég reiknaði með því að þetta væri prívat legsteinn sem einhver ættingi hefði komið fyrir. En svo rakst ég á þennan skjöld sem var negldur við tré:

Ég póstaði þessu á Facebook (enda gerir google translate manni lítið gagn nema maður geti slegið inn hebreska stafi með nokkru öryggi) og fékk svar frá vinkonu Inga Björns. Þetta er líka legsteinn, sem einhver hefur sett upp til minningar um ömmu sína, manninn hennar og dætur þeirra. Á honum segir ekki bara að þau hafi verið myrt með „aðstoð heimamanna“ einsog það er jafnan orðað heldur beinlínis með „blessun samfélagsins“.

Þegar ég hafði litast um og tekið myndir, rölt dálítið um gamla grafreitinn við hliðina og skoðað einn minnisvarða til (um fallna partisana) yfirgaf ég svæðið – ungu stúlkurnar stóðu enn við bílana sína, reykjandi sígarettur og talandi í farsíma. Ég náði engum myndum af þeim.

Tuttuguogsex: Að vera kominn til Jurbarkas

August 29, 2011 in Illska, Uncategorized

Nú sit ég við gluggann og horfi út á ána Nemunas, föður allra fljóta. Ég kom hingað snemma í morgun eftir 30 klukkustunda ferðalag (og 48 stunda vöku) og það fyrsta sem ég sá var að á skrifborðinu lá þessi bók.

Mér finnst það hljóti að boða gott.

Eftir að ég hafði sofið í þrjá tíma fór ég í göngutúr niður í bæ, leit við á Tourist Information og sótti mér kort af bænum, borðaði pizzu. Hér tala fáir ensku en margir þýsku. Internetið er liprara en það var þegar ég var hérna fyrir 3 árum. Í kvöld þarf ég að sinna pistli fyrir norska dagblaðið Klassekampen – sem er að mestu skrifaður en á líka að skilast í dag – og á morgun mun ég merkja inn á kortið mitt þá staði sem ég þarf að skoða sérstaklega. Svo er dálítið opið hvað ég kem til með að skrifa mikið hérna – ég hafði hugsað mér að skrifa alltaf í nokkra tíma á hverju kvöldi (þar sem ég verð einn og hef ekkert betra að gera) en kannski verð ég of þreyttur eftir skoðunarferðirnar á daginn.

Tuttuguogfimm: Að komast til Jurbarkas

August 28, 2011 in Illska, Uncategorized

Ég fór beint úr lokahófi Daga ljóða og vína í Ptuj í leigubíl til Zagreb og flaug þaðan til Vínarborgar. Héðan flýg ég til Riga í Lettlandi, þaðan sem ég flýg til Vilnius í Litháen (vona ég; afgreiðslukonan fann ekki það flug þegar ég var að tékka mig inn og sendi farangurinn minn bara til Riga, þar sem ég verð að kanna framhaldið). Frá Vilnius tek ég rútu til Jurbarkas, þar sem ég verð í tíu daga að mæla götur og litast um. Mér þykir þetta allt saman í sjálfu sér dálítið skrítið (enda er ég ósofinn og á langt ferðalag fyrir höndum – ég er ekki á áfangastað fyrren eftir um það bil sólarhring).

Það væru grófar ýkjur að segja Illsku sögulega skáldsögu þótt vitanlega sé margt satt í henni. Og þetta er dálítið fyndin grensa, það er svo undarlegt hvað maður kemst upp með og hvað ekki gagnvart lesanda, og eiginlega alveg óskiljanlegt. Til dæmis getur maður búið til fólk einsog maður vill og jafnvel kokkað upp eitt og eitt hús úr óveruleikanum. En ef maður skrifar um hús sem finnst í alvöru má maður ekki færa eldhúsið – eldhúsið verður að vera á réttum stað. Götur verða að vera á réttum stað og vegalengdir allar innan skekkjumarka. Maður getur látið geimskip lenda í miðjum bænum árið 1983 ef maður vill – en það er eins gott að þær fái sér ekki hálfslíters kók. Því það var ekki til nein hálfslíters kók árið 1983 (held ég). Annars er ekki heldur til hálfslíters kók í Slóveníu (held ég). Bara litlar 25 sentilítra flöskur. Enda eru Slóvenar óvenju grannt fólk, sýndist mér, þótt þeir slafri í sig víni allan daginn. Það munar um þessa auk 25 sentilítra.

Tuttuguogfjögur: Vinsældir / Óvinsældir

August 22, 2011 in Illska, Uncategorized

Sá sem skrifar skáldsögu – sérstaklega pólitíska skáldsögu – vill að hún setji einhvers konar mark á heiminn, dragi línu eða mynd, skapi nýjan veruleik og/eða felli gamlan úr gildi. Þetta segir sig eiginlega sjálft.

Ég hef einhvern tíma sagt að í engu sé fólgið meira frelsi en því að yrkja ljóð, einmitt vegna þess að það sé ekki nokkur maður líklegur til þess að lesa þau eða veita þeim neina athygli*, og hef það eftir öllum frá Auden til Kenny Goldsmith og Derek Beaulieu – ef enginn er að hlusta getur maður sagt hvað sem er. Það er hins vegar ósamræmanlegt að vilja forðast athygli og hafa áhrif á samtíma sinn – jaðarbókmenntir geta haft djúpsálaráhrif á staka einstaklinga og jafnvel heilu samfélögin en það eru í raun allt öðruvísi hreyfingar en eiga sér stað í pólitískum bókmenntum, eða bara prósabókmenntum almennt (og það jafnt þótt prósinn sé stundum línuskiptur). Jaðarbókmenntir liggja einhvers staðar mitt á milli þess að vera jarðhræringar og hoppukastalaferð (og eru ekki verri fyrir það að vera á öðrum enda þess litrófs en hins). Pólitískar bókmenntir eru einbeittari hreyfingar, ákveðnari hreyfingar – þær eru miklu nær því að ætla sér eitthvað tiltekið. Þær eru paradans, mökunardans, innlegg í ferli – kannski (vonandi) uppbrot en samt orð í setningum í samræðu við heiminn. Ljóðlistin er bara vondaufur en ástríðufullur regndans og stefnulaust gól á tunglið.

En góður vinur minn – við skulum kalla hann heimildamann blaðsins – sagði við mig að fólk sem hefði aldrei skrifað af herðum sér ríkisstjórn gæti bara trútt um talað, að það væri frelsi í því fólgið að enginn hlustaði á mann. Kannski er einmitt meira frelsi – að minnsta kosti einsog frelsi getur falist í persónulegu valdi – að eiga sér ótal „viðhlæjendur“ og fá alltaf fimmtán hundruð læk. Það er kannski meiri merking þar, þegar það er merking þar á annað borð (ég sem sagt undanskil t.d. menn.is og Gillz – maður öðlast ekki merkingu við lækin en lækin gefa kannski stundum vísbendingu um að merkingu megi kannski finna í nánd við þau).

* Þetta er auðvitað ekki alveg satt. Í fyrsta lagi þá er ég í þeirri öfugsnúnu andstöðu að líklega hafa ljóðin mín notið miklu meiri áhuga en prósinn – og þá fyrst og fremst hljóðaljóðin sem ég hef ábyggilega flutt fyrir alla Evrópubúa, 40 manns í einu – í öðru lagi þá er um annars konar verðmæti að ræða, eitthvað sem ég veit ekki hvort má kalla kúltúrkapítal í strangtrúuðum skilningi en er að minnsta kosti eitthvað svipað og þetta kúltúrkapítal veldur því að flestir sem yrkja, yrkja eins, yrkja af litlu sem engu frelsi og af miklum tengslaþunga við fortíð sína og annarra. Ljóðlistin er allt annað en hömlulaus.

Tuttuguogþrjú: Mín stjórnlausa athyglissýki

August 20, 2011 in Illska, Uncategorized

Hér er óþægileg mótsögn: Allir rithöfundar vilja skrifa metsölubók en enginn þeirra vill haga sér einsog mella. Eða. Svona. Sumum er reyndar alveg sama um hóreríið. Aðrir skrifa fyrir engan nema sjálfan sig. En. Almenna reglan er samt sú að nærri því allir vilja fá sem flesta lesendur og mjög mörgum líður asnalega með að trana sér fram, þröngva sér upp á fólk. Þar með talið sjálfum mér. Eða svona. Ég er alveg til í að vera húsmella með stórt neon-skilti en ég vil að fólk komi til mín og biðji um þjónustu, ég fer ekki út á götu að húkka bíla.

Kannski er maður bara svona merkilegur með sig. Nema maður óttist „óverðskuldaða velgengni“ (það var þáttur í sjónvarpinu á dögunum um „hljóðlátar metsölubækur“, það langar alla að hafa skrifað þannig bók, bók sem bara „spurðist út“, annað er svindl). Ég hef samt verið að velta því fyrir mér að fara all-in 2012 (skrítið annars að hafa „hljóðlátar metsölubækur“ í gæsalöppum en ekki all-in). Mér finnst Illska eiga það skilið að ég geri allt sem í mínu valdi stendur til þess að hún fái sem flesta lesendur (og ég vona að mér finnist það enn þegar ég er búinn að skrifa hana). Nógu púðri hef ég eytt í að skrifa hana að ég geti ekki tekið nokkrar vikur í að kynna hana. En það þýðir samt ekki að ég ætli að:

a) Bögga blaðamenn í tíma og ótíma.
b) Bögga forlagið í tíma og ótíma (um auglýsingar; ég ætla samt að fylgjast með dreifingunni).
c) Fara í ótal lífstílsviðtöl (spurningunni „hvað ertu með í vösunum“ hefur vonandi verið fullsvarað).
d) Eitthvað fleira?

En ég ætla að gera allt annað. (Annars er eitthvað sikk að vera byrjaður að spá í þessu ár fyrir tímann, segi ég einsog ég hugsi nokkurn tíma um annað en að fóðra eigin athyglissýki).

Tuttuguogtvö: Karlar kaupa Konur

August 19, 2011 in Illska, Uncategorized

Ég gaf manni mér nákomnum bók eftir góðan vin minn í afmælisgjöf á dögunum (já, þetta var Konur eftir Steinar Braga, mér skilst að karlmenn kjósi nær alltaf Steinar Braga þegar þeir velja bækur sjálfir, en sem betur fer fyrir okkur hin kaupa karlmenn yfirleitt aldrei bækur, en karlar kaupa sem sagt Konur og eru víst ekki tíðindi á sumum vígstöðvum).

Ég gef annars mikið bækur eftir vini mína. Þetta er svona samstöðufílingur. Ef við kaupum ekki bækurnar okkar kaupir þær enginn (nei, í alvöru, þá seldum við áreiðanlega engar bækur). Og svo fæ ég líka yfirleitt bækurnar þeirra í einhverjum skiptidílum og er með samviskubit yfir að hafa ekkert borgað fyrir þetta (þótt vinir mínir fái reyndar ekki tekjur af sölu, heldur frá skattgreiðendum (á krepputímum, hjálp!)).

Nema hvað. Minn nákomni spurði: Heyrðu, þú þekkir þennan náunga, er það ekki? Ég næ ekki alveg þessum endalokum á bókinni. Er séns að maðurinn hafi skrifað sig út í horn?

Ég svaraði því til (og held að ég verði bara að standa við það) að svo til allar bækur séu skrifaðar út í horn. Spurningin sé af hversu miklum þokka höfundi tekst að skrifa sig út í horn og hversu lipurlega hann tiplar á tánum til baka að hurðinni aftur, hnýtir saman herlegheitin og flögrar út í heiminn.

Tuttuguogeitt: Pólitískar skáldsögur II

August 19, 2011 in Illska, Uncategorized

Aftur að vinnutilgátunum um pólitísku skáldsögurnar: Hvar fittar Illska inn í þetta mynstur? Hún er augljóslega ekki sci-fi, gerist ekki í yfirnáttúrulegum veruleika eða fjarlægri framtíð (hún mun samt öll hafa gerst þegar hún kemur út, þótt ég sé að skrifa næsta sumar núna). Söguþráðurinn er ekki dreginn jafn skýrum metafórískum dráttum og hjá Woolf og Atwood en hún fer samt ekki í grafgötur með hvað hún telur sig vera og á köflum er hún meira einsog pólitísk ritgerð en saga. Og auðvitað má draga söguþráðinn inn í metafórískar víddir, renna honum í gegnum túlkarann – ég á ekki við það. Ég á bara við að það er ekki jafn auðvelt, það er ekki hægt að kjarna „pólitíska merkingu“ bókarinnar jafn auðveldlega og hægt er með t.d. The Handmaid’s Tale („framtíðartryllir þar sem feðraveldið hefur hólfað niður og beislað allar æskilegar fúnksjónir konunnar; aðalsöguhetjan er útungunarvél“) eða Orlando („fortíðartryllir um ungan mann sem truflar allt kynferði og verður loks kona“). Mér er það a.m.k. ekki fært.

Eigum við að segja:

Afkomandi fremjenda og eftirlifenda helfararinnar lendir í ástarþríhyrning með nýnasista frá Ísafirði og rótlausum íslenskufræðingi?

Er það ekki eitthvað ofan á brauð?

En hvernig túlkum við það? Hvað er ég að segja – umfram að nasisminn sé vondur (sem er altso, já, dálítið redundant, dálítið tilgangslaust, þá er líklega meira vit í hólmsteinskum svartbókum um kommúnisma).

Tuttugu: Pólitískar skáldsögur I

August 18, 2011 in Illska, Uncategorized

Í september í fyrra byrjaði ég að lesa (bara) pólitískar skáldsögur og ætlaði að blogga um þær svo til daglega í eitt ár. Ég gafst upp einhvern tíma í vor, af ástæðum sem ég nenni ekki að tíunda. Gafst upp á að blogga um það, ekki að lesa (bara) pólitískar skáldsögur. Þetta vafstur mitt hefur auðvitað beint með vinnuna við Illsku að gera: ég er að reyna að komast að því hvað aðrir kalla pólitískan skáldskap og til hvers ég ætlast af pólitískri skáldsögu (svörin eru annars vegar „það fer eftir hvað fólk meinar með „pólitískur“ og „skáldskapur“ og hins vegar „það má guð vita“).

Ég hef tvær vinnutilgátur – og aðra þeirra hafði ég mótað löngu áður en ég byrjaði á þessu, mótaði raunar í ritgerð sem ég skrifaði fyrir bókmenntahátíð í Litháen og flutti í smábænum Jurbarkas, en sú heimsókn varð einsog áður segir til þess að ég hóf að skrifa Illsku.

Vinnutilgáta 1: Pólitísk skáldsaga verður að innihalda bæði fulltrúnað (e. representation) og dómsafstöðu (e. adjudication). Það er að segja: hún verður að standa með einhverju(m) og hún verður að fella dóm yfir einhverju(m). Hún stillir sér upp innan stormsins, átakanna, og tekur afstöðu.

Vinnutilgáta 2: Það fer eftir því hver les og hvernig. Allur lestur felur í sér túlkun. Skáldskapur þarf ekki að taka afstöðu, hvorki með einhverju(m) né á móti, honum dugir að stilla sér upp innan stormsins, átakanna, og ekkert meir. Í raun er það þá lesturinn (móttaka skilaboðanna) sem er pólitískur frekar en skrifin (sending skilaboðanna).

Samkvæmt fyrri tilgátunni er 1984 pólitísk skáldsaga vegna þess að hún tekur afstöðu með einstaklingnum gegn yfirvaldinu. Samkvæmt seinni tilgátunni þarf hún ekki að vera pólitísk skáldsaga – hún getur til dæmis verið „fyrst og fremst“ ástarsaga hvers samfélagsumgjörð er aukaatriði eða metafóra fyrir ástina, persónuleg samskipti o.s.frv. (einsog mátti meðal annars skilja á uppsetningu Þorleifs Arnarsonar á leikgerð bókarinnar fyrir nokkrum árum).

Tvær „bestu“ pólitísku skáldsögurnar sem ég hef lesið (og já ég hef takmarkaðan áhuga á að taka þátt í best/verst skalanum, ekki vegna þess að mér finnist hann endilega eitthvað ómarktækur eða leiðinlegur, heldur vegna þess að áherslan liggur svo til alltaf þar og það er þreytandi) eru The Handmaid’s Tale eftir Margaret Atwood og Orlando eftir Virginiu Woolf.

Sú fyrri er klassísk dystópíusaga, sci-fi, skrifuð til höfuðs þeim sem vildu (að sögn höfundar) beisla kynferði konunnar – og hún hefur lagt áherslu á, og undirstrikar í bókinni, að þar á hún ekkert síður við ákveðnar fylkingar í seventís-íhaldsfemínisma og aðalsökudólgana: feðraveldið öðru megin og klerkaveldið hinu megin.

Sú síðari er þroskasaga manns sem er eins konar andrógýna og verður að lokum kona – ég kann ekki að lýsa bókinni betur en hún er jafn stórkostleg og þessi setning er fábrotin. Sú fyrri veit hverja hún á að óvinum, bæði í hugmyndum og jafnvel konkret persónum – en er sér afar meðvituð um að sínar ótal hliðar, þetta er enginn Gorkí – á meðan sú síðari býr einhvern veginn handan þess að fella dóma eða fulltrúða (halló, þetta er sögn!) fyrir nokkurn mann (eða konu eða bæði í einu eða fyrst eitt og svo hitt).

Allt sem verður sagt um þá fyrri verður ekki sagt um þá seinni – en samt eru þær, að minni upplifun, báðar fullkomlega pólitískar skáldsögur (og raunar báðar líka borderline sci-fi). Sú fyrri fellur best að vinnutilgátu 1 en sú seinni að vinnutilgátu 2.

Frh. á morgun.

Nítján: Framtíðin er hér

August 18, 2011 in Illska, Uncategorized

Síðasti hluti Illsku gerist næsta sumar, sumarið 2012. Þetta er fullkominn fávitaskapur af minni hálfu. Í til þess að gera raunsærri skáldsögu þarf frásögnin alltaf að taka nokkurt mið af þeim raunveruleika sem hún gerist í, því sem var „efst á baugi“ – sérstaklega í seinni tíð þar sem það sem er „efst á baugi“ hverju sinni virðist stýra sálarlífi fólks með sífellt áhrifaríkari hætti, við erum öll alltaf að hugsa um það sama í einu (takk, Facebook og Twitter), hvort sem það er Icesave, Anders Breivik eða stjórnarskráin, og (raunsæis) skáldskapur verður að taka mið af því (en þetta er ekkert raunsær skáldskapur! jæja … )

Einhvern tíma var sagt að hið prívata væri pólitískt (í sjálfu sér) og þá meint að uppvaskið væri pólitískur gjörningur (halló, femínistar!), hvaða plötur maður hlustaði á væri pólitískur gjörningur (Bob Dylan, U2 eða Merzedes Club?) og svo framvegis en í einhverjum skilningi er hið prívata orðið pólitíkinni að bráð í þeim skilningi að nú vaskar enginn lengur upp eða hlustar á plötur vegna þess að þeir eru svo bissí að rífast um borgarskipulagið.

Æ, fyrirgefiði, ég ætlaði ekki að segja prívata. Ég ætlaði auðvitað að segja „einkalega“.

En í öllu falli er óðs manns æði að skrifa sig inn í framtíðina, sérstaklega í pólitískri skáldsögu sem gerist (fyrst og fremst) í jafn litlu fiskabúri og Íslandi. Bara sumarið núna hefur verið til vandræða. Enn hafa fréttir ekki kallað á róttækar endurskriftir (enda myndi ég þá fyrr breyta veruleikanum en bókinni) en þetta er dálítið bókhald samt, dálitlar reitafyllingar. Sem dæmi hafði ég sent eina sögupersónu (halló, Ómar!) að leiði Rudolfs Hess í Wunsiedel næsta sumar – en nú í sumar tóku borgaryfirvöld í Wunsiedel upp á því að grafa helvítið upp og fjarlægja leiðið (til að draga úr pílagrímsferðum nýnasista). Ég get því sent minn mann að horfa á tóman reit eða látið einsog ekkert sé (og vonað að það taki enginn eftir því) eða bara hent kaflanum. Ég á eftir að laga þetta og veit ekki hvernig fer.

En hvað veit maður svo sem. Kannski verður ekkert Ísland næsta sumar. Ekkert meginland. Engar samgöngur, bara zombíar og vampírur. Og þá verður rosa skrítið ef það verða bara undirnáttúrulegir tvífætlingar (ó-ódauðir) í bókinni minni.

Átján: Harmsaga ævi minnar

August 17, 2011 in Illska, Uncategorized

Suma daga er þetta síðan allt ómögulegt. Það á sérstaklega við um þá daga sem maður er „ekki að vinna“ – en maður er líka „alltaf að vinna“ – aldrei laus, aldrei frír, í versta falli bara „að gerja“ og þá bullsýður svoleiðis á innyflunum í manni að manni er ómótt öllum stundum. Þá finnst manni sem maður hafi kannski í raun og veru ekkert að segja – hvorki í því sem maður er að vinna að né fyrri skrifum – að eigi maður nokkra lesendur og jafnvel aðdáendur, þá sé það einungis fyrir sakir eigin bredduskapar og/eða heimsku annarra, það hafi enginn lesið stafkrók eftir mann og notið þess eða grætt neitt á því, ekki í raun og veru, þetta séu allt blekkingar, svona einsog þegar frekasti strákurinn í bekknum heldur belgingslega ræðu í miðjum tíma til þess eins að fá hól þess vitlausasta í frímínútunum á eftir, en enginn varð nokkurs vísari, enginn varð stærri eða meiri og það hefði bara mátt spara þetta allt saman, maður sé sama ruslið og Gillz og ble og bla þrátt fyrir góðar fyrirætlanir og ágætis samheitabúskap (en ég hef enn ekki lært muninn á fallegri setningu og ruglingslegri setningu). Það sé bara ekki nóg.

Einsog gefur að skilja er svolítið erfitt að halda áfram þegar svona stendur á. Svolítið erfitt að rusla ekki öllu helvítis draslinu og finna sér eitthvað betra að gera. En mér dettur bara aldrei neitt betra í hug til að gera. Og þá nær þetta auðvitað ekki lengra, verður maður bara að hætta þessu væli og halda á.

Sautján: Hættur

August 12, 2011 in Illska, Uncategorized

Glugginn minn er á þriðju hæð, annar frá hægri.

Í dag er síðasti dagurinn minn í vinnunni. Ég hef setið á Ísafirði í allt sumar, setið í svonefndum Listakaupstað á efstu hæð Norðurtangans og unnið. Það var á þessum sama stað sem ég sótti um vinnu fyrst. Þegar ég var tólf ára gekk ég upp tröppurnar, hitti verkstjórann og sagðist vera sonur Krumma Norðdahl og hvort ég gæti nokkuð fengið vinnu. Maður er ekki mjög gamall þegar maður lærir að nepótisminn borgar sig, en maður er ekki heldur mjög gamall þegar veröldin bregst manni – því ég fékk auðvitað enga vinnu og þurfti að fara í (illa launaða) bæjarvinnuna fram í ágúst. Þá ég fékk nokkrar vikur í skelinni (verkstjórinn þar, Krummi Norðdahl, hafði ekki í sér hjarta til að neita mér) áður en skóli hófst á ný.

Rúmum tuttugu árum síðar sneri ég sem sagt aftur – enn í von um vinnu. Ég er ennþá hérna en útgerðarstórveldið er horfið. Á annarri hæðinni, þar sem ég hitti verkstjórann, er fánaverksmiðja og hér á þriðju hæðinni er ég. Ég hef setið hér í allt sumar en í dag er síðasti heili vinnudagurinn í bili. Í næstu viku tek ég til, bæði hér á skrifstofunni og í íbúðinni minni (sem á að fara í útleigu, halló, mig vantar leigjanda!) og svo fer ég til Slóveníu á ljóðahátíð, Litháen í rannsóknarferð, bókmenntahátíð í Reykjavík og svo heim til mín í Oulu (þar sem ég stoppa stutt áður en ég skýst á bókamessurnar í Gautaborg, Turku og Frankfurt – og svo líklega ljóðahátíð í Osló).

Ég ætlaði ekki að gefa út neinar bækur í ár, en þær verða að líkindum þrjár: Ást er þjófnaður kom út í vor, ljóðabókin Hnefi eða vitstola orð kemur út í haust og finnska forlagið Nihil Interit ætlar að gefa út enskt greina- og pistlasafn: Booby, Be Quiet! Einhvern tíma í október rís ég síðan úr öskunni. Ekki þar fyrir að auðvitað á ég eftir að vinna á kvöldin í næstu viku, þegar Aram Nói er sofnaður og ég er hættur að þrífa, í flugvélum og lestum og hótelherbergjum þar sem því verður við komið, viku í Litháen til einskis annars og einhverja daga heima hjá mér í Oulu – en þessu staka rósemdarsumri er sem sagt að ljúka, nú lokar skrifstofan mín og einhver annar listkær Ísfirðingur tekur við henni. En svo er maður auðvitað hvergi lengur, nema í besta falli hérna í eternum. Og þar verð ég áfram, hvað sem tautar og raular.

Sextán: Úrkynjuð list

August 11, 2011 in Illska, Uncategorized

Úrkynjuð List from Steingrimur Dui Masson on Vimeo.

Meðal þess sem ég hef horft á í tengslum við skrifin á Illsku er þessi ágæta heimildamynd. Það er hins vegar svo gott sem áreiðanlega ekkert um þetta í bókinni, svo ykkur er alveg óhætt að horfa á hana án þess að eyðileggja fyrir ykkur söguna.

Fimmtán: Skrifað sér til óbóta

August 11, 2011 in Illska, Uncategorized

Það er hægara sagt en gert að halda sér að verki við lygasöguskrifin á meðan veröldin virðist við það að rifna í sundur. Eða svona. Öreigarnir í Bretlandi hafa fengið upp í kok og tekið að gubba á heiminn til baka (man ég það ekki rétt að þegar Egill Skallagrímsson gubbaði upp í Ármóð forðum daga, hafi Ármóður síðan sjálfur kastað upp og Egill svo sakað hann um skrílslæti, gubbandi í eigin veislum? kannski er þetta ímyndun, ég er víst ekki sérlega góður í Íslendingasögunum). Markaðir eru líka enn að hrynja og því mun væntanlega fylgja enn frekari betliferðir í skattsjóði, enn frekari niðurskurður, enn meira gubb í fátækrahverfum. Og allt hitt. Anders Breivik. English Defense League stormar út á götur Bretlands til þess að vernda „íbúa“ fyrir „óeirðarseggjum“ (skv. dilkadrætti Textavarpsins). Dönsku leyninasistasamtökin ORG reka upp höfuðið. Og hér sit ég og lýg einhverju um nýnasista, innflytjendur, þjóðerni, ídentítet – og get ekki einu sinni drullast til þess að vera relevant og gefa bókina út í ár (vilji maður breyta heiminum er það ekki bara spurning um hvað maður gerir eða segir, heldur hvenær og inn í hvaða samhengi; það sem getur breytt öllu árið 1932 hefur enga merkingu árið 1946). Auk þess ligg ég á bakinu í sófanum með tölvuna í fanginu, sem hitnar stöðugt, og ef fer sem horfir verð ég brátt getulaus af skrifum.

Fjórtán: Að útrýma fasismanum

August 10, 2011 in Illska, Uncategorized

Það er eiginlega alveg sama hvað maður gerir í veröldinni, það er annað hvort til þess að viðhalda heiminum einsog hann er eða breyta honum. Megnið af því sem er ætlað að breyta veröldinni gerir það ekki umfram hitt sem er ætlað að viðhalda honum (en í einhverjum skilningi breytir auðvitað allt sem gert er veröldinni). Ég hugsa að flestir skrifi bækur til þess að breyta heiminum. Ég skrifa til þess að útrýma fasisma og auka á gleði og fjölbreytni. Það gengur nú bara rétt svona og svona.

Þrettán: Samfélagið á að vera í harmoníu (verið einsog við, takk)

August 10, 2011 in Illska, Uncategorized

The individual never attains his own specificity: individual self-affirmation pertains to liberalism and therefore is totally alien to the political culture of extreme right parties. Extreme right parties seek a national or subnational collective identity. They cannot conceive of a community where people are not ‘similar’ one to another, because differences would entail division. And as division is the essence of liberal-democracy, their search for unity and identity leads them to conflict with the principles of the democratic system. This search does not come from ‘fascist’ inspiration. It is the byproduct of a (widely shared) worldview that society must be a harmonious community.

Ignazi, Piero (2006) Extreme Right Parties in Western Europe, Oxford: Oxford University Press, p.215

Tólf: Eiríkur er ekki snillingur

August 9, 2011 in Illska, Uncategorized

Jón Örn: en já hmm ég var að lesa færsluna
ertu ekkert hræddur um að skemma rómantíkina
á bakvið það að skrifa með þessu?
Eiríkur Örn:
Jón Örn: „hmm eiríkur er ekki snillingur hann þurfti að hafa geðveikt mikið fyrir þessu og var alltaf grátandi“

Ellefu – óreiða á skrifborði

August 9, 2011 in Illska, Uncategorized

Þetta er líka ein birtingarmynd skáldsögu.

Tíu – að gera minna en ekkert gagn

August 9, 2011 in Illska, Uncategorized

Síðustu þrjá-fjóra (vinnu)dagana hef ég kastað á bilinu 15-20.000 orðum. Hlutinn sem ég ætlaði að stytta úr 15 þúsund niður í tíu fór þó ekki nema hálfa leið – úr 15.800 orðum í 12.700. Það er hugsanlegt að hann sé enn of langur. Mikið af hinu var non-fiction og í þær eyður verður fyllt með texta sem tekur sjálfsagt álíka mikið pláss.

Annars vefst það enn fyrir mér hvað ég er að gera hérna – í þessum orðum, á þessum stað. Ég er afar hikandi gagnvart hvorutveggja að tala mikið um söguþráð bókarinnar og delera um eiginleika persónanna (þær eiga líka vonandi eftir að koma mér á óvart), fyrir utan svo hitt að ég veit ekki hvað maður segir um prósessinn að baki því að skrifa bók sem er ekki annað hvort fullkomlega trivialt eða einhvers konar goðgerð. Suma daga líður manni einsog Drottni, suma daga einsog færibandsverkamanni og enn aðra daga einsog einföldum eftirlitsmanni. Þá er þetta meira einsog bókhald.

Óþægilegasta tilfinningin er samt hér: Það er svo auðvelt að virðast/verða vindbelgur með því að segja frá fúnksjón sköpunargáfunnar og kannski jafn auðvelt að virðast/verða ómerkilegur og andlaus klámbjálfi. Það er auðvelt að tala um aðra, tala um bókmenntir almennt – en það er erfitt að ná tökum á því sem maður er að gera með því að tala upphátt um það meðan maður er að því. Ég (þetta óþægilega orð) er að reyna að tala um eitthvað annað en sjálfan mig, eitthvað stærra – ekki bara bókina heldur ferlið, staðinn (halló, habitus!), tímann. Bókin er mér helg en ég vil afhelga vinnuna við hana.

Von mín er sem sagt sú að haldi ég áfram að röfla verði mér þessi heimur skýrari. Það gæti alveg verið misskilningur. Á meðan ég sit hér í loftbólunni minni og röfla brennur London og einhvern veginn gerir ekki nokkur skapaður hlutur gagn, og kannski allra síst ég.

Níu – Tvær birtingarmyndir xenófóbíu skv. Wikipediu:

August 8, 2011 in Illska, Uncategorized

The first is a population group present within a society that is not considered part of that society.[citation needed] Often they are recent immigrants, but xenophobia may be directed against a group which has been present for centuries, or became part of this society through conquest and territorial expansion. This form of xenophobia can elicit or facilitate hostile and violent reactions, such as mass expulsion of immigrants, pogroms or in other cases, genocide.

The second form of xenophobia is primarily cultural, and the objects of the phobia are cultural elements which are considered alien. All cultures are subject to external influences, but cultural xenophobia is often narrowly directed, for instance, at foreign loan words in a national language. It rarely leads to aggression against individual persons, but can result in political campaigns for cultural or linguistic purification. In addition, entire xenophobic societies tend not to be open to interactions from anything “outside” themselves, resulting in an isolationism that can further xenophobia.

Átta

August 8, 2011 in Illska, Uncategorized

Það erfiðasta við að skrifa um óútgefna bók er að vita hvað manni er óhætt að segja (án þess að skemma bókina) og hvað ekki. Það er hætt við að segi maður of lítið snerti maður ekki nóg við bókinni (og öðlist ekki þann skilning sem lagt var upp með – fyrir svo utan hvað loftkenndur texti er leiðinlegur) og hins vegar að maður segi of mikið, tali af sér um söguþráð eða framleiði jafnvel (sanngjarna/ósanngjarna) fordóma gagnvart bók sem er ekki einu sinni tilbúin (hvað þá lesin).

Sjö – Um það bil tvær meðgöngur

August 8, 2011 in Illska, Uncategorized

Allt byrjaði þetta einhvers staðar. Í upphafi árs 2008 skrifaði ég eitthvað niður um mann sem kveikir í húsi sínu, keyrir til Keflavíkur og fer úr landi – hripaði niður einhverjar spurningar, hvers vegna kveikir einhver í húsinu sínu og fer úr landi (ég vildi ekki að hann væri glæpamaður; ég vildi að hann væri leiður)?

Þannig varð íslenskufræðingurinn Ómar til.

Um sumarið fór ég á bókmenntahátíð í Litháen (halló, Bragi Ólafsson! halló, allir þínir týndu frakkar!) Stór hluti dagskrárinnar fór fram í smábænum Jurbarkas, skammt frá landamærum Kaliníngrad. Þar hitti ég mikið af vel gefnu fólki sem virtist vita allt milli himins og jarðar um allt milli himins og jarðar – þar á meðal Íslandssögu og íslenskar bókmenntir. Þetta varð ekki til þess að vekja mér neina sérstaka gleði; vakti bara með mér skömm á sjálfum mér, heimsku minni (ég hafði aldrei lesið neitt um Litháen eða eftir Litháa, vissi ekkert einsog Íslendingar vita oft ekki neitt). Þegar ég kom heim gerði ég það að mínu fyrsta verkefni að athuga hvað Íslendingar hugsuðu um Litháa – gúgglaði „litháar“ til að sjá hvað kæmi upp (dóp, hnéskeljar og mellur) – og skammaðist mín enn frekar. Síðan las ég mér aðeins til um Jurbarkas og sögu Litháen.

Þannig varð sagnfræðingurinn Agnes (fædd „Agné“) til. Foreldrar hennar eru frá Jurbarkas, hún er sagnfræðingur með helförina á heilanum. Afi hennar í föðurætt var litháískur þjóðernissinni sem starfaði fyrir nasista, en langafi hennar og langamma í móðurætt voru Gyðingar. Agnes er auk þess kærastan hans Ómars.

Arnór fæddist til þess að koma hreyfingu á hlutina. Hann er nýnasisti frá Ísafirði, doktorsnemi í sagnfræði frá háskólanum í Pétursborg. Hann er dálítið einsog Anders Breivik með snert af sýnískari heimssýn – í kenningunni telur hann að „evrópskri siðmenningu“ sé viðbjargandi, en það nær eiginlega ekki mikið lengra. Hann er meiri intellektúal en Breivik, hefur sterkari tök á hinum ólíku heimssýnum, meira perspektíf á sjálfan sig. Ólíkt Breivik trúir hann heldur ekki á erfðaþáttinn, hann þolir ekki Adolf Hitler, evrópskar nýnasistahreyfingar, popúlíska stjórnmálamenn eða hentistefnuhægrimenn – hann getur engum fylgt af einlægni, hann er ekki einu sinni fær um að feika það.

Þetta allt varð smám saman ljóst á næstu 16-18 mánuðunum, hægt og bítandi glósað á meðan ég lauk við að skrifa Gæsku og koma henni út (og skrifaði reyndar líka ljóðabókina Hnefa, sem er loks einhvers staðar á leiðinni í útgáfuferli). Í lok árs 2009 fór ég síðan að glósa Illsku skipulega og hef, að frátöldum pistlaskrifum, að engu öðru unnið síðan þá.

Eftir þrjár vikur fer ég aftur til Jurbarkas. Og tek ykkur auðvitað með mér.

Sex – skáldsaga í miðju kafi

August 5, 2011 in Illska, Uncategorized

Þetta er einn veggurinn á skrifstofunni minni. Ein birtingarmynd skáldsögu í smíðum. Skema númer sex eða sjö – ég var reyndar ekki nema búinn að fylla út í tvo þriðju hluta skemans þegar það varð úrelt (og allt skemað átti ekki að ná yfir nema 70% af bókinni – þriðji og síðasti hlutinn verður ekki skemalagður fyrren allt annað er komið).

Hver litur er einn söguþráður og á hverjum gefnum tíma ryðjast áfram þrír söguþræðir (og fjórði þráðurinn sem er non-fiction og birtist ekki á skemanu enn). Það var reyndar klaufaskapur af mér að raða ekki þráðunum í fyrri hlutanum rétt upp – svo hann kæmi út einsog litháíski þjóðfáninn (stór hluti bókarinnar gerist í Litháen og bókin fjallar að miklu leyti um þjóðernisídentítet). Ég áttaði mig bara ekki á þessu fyrren rétt í þessu (merkilegt nokk).

Fimm – skáldsaga er verkfæri til þess að finna fyrir veruleikanum

August 4, 2011 in Illska, Uncategorized

Ef að hefðbundin frásögn er einsog hús – eða jafnvel hellir – í einni óskoraðri einingu, allt fullkomlega samhangandi, samneglt, þá er Illska kannski dálítið einsog kubbahús – og ekkert nýtísku Lego heldur sléttir gamaldags trékubbar – kubbahús sem hægt er að taka í sundur og setja aftur saman eftir hentugleikum. Merking hennar er lokuð einungis upp að því marki sem hún inniheldur þessa tilteknu kubba, raðað í þessa tilteknu röð, og enga aðra (nema maður taki með það sem ég eða aðrir segja um hana fyrir og eftir útgáfu). Kubbunum er raðað eftir tilfinningu til þess að skapa ákveðin ris, ákveðnar tilfinningamótsagnir – togstreitur og jafnvel tilfinningarefhvörf þar sem ein (eða fleiri) tilfinning eða hugmynd útilokar aðra (eða fleiri).

Kubbarnir þurfa að passa saman svo byggingin standi – en mega ekki standa svo traust að hún hristist ekki í óveðrum eða lúti túlkunum, helst mörgum ólíkum túlkunum samtímis. Hjallurinn á að standa af sér veðrið en ekki svo hressilega að maður finni ekki fyrir því, því skáldsaga er í sjálfu sér bara verkfæri til þess að finna fyrir veruleikanum, ekki deyfingartæki.

Þessir litlu kubbar eru líka hugsaðir inn í nútímalegt lestrarmynstur. Illska er ekki endilega auðsveip bók í túlkun eða umhugsun – þótt ég haldi því raunar fram að hún sé frjó – og þessir litlu bútar eru í hentugri stærð fyrir athyglisbrostið fólk á borð við sjálfan mig. Og það hjálpar líka til hvað karakterar eru í raun fáir. Illska er að líkindum þung máltíð – bókin sem heild er hálfgerður múrsteinn, drullumallshnallþóra, en það er búið að skera hananiður í dálitla matarbita. Sem maður ræður við. Það eru snöggar klippingar, bíómyndaklippingar, snúist í hringi og sótt út í allar áttir.

Ég er enginn módernisti og hef engan áhuga á að skrifa erfiðar bækur – þótt ég vilji samtímis fást við það sem mér þykja erfiðar hugsanir og jafnvel erfiðar tilhugsanir. Þetta á ekki að vera erfitt, en maður þarf áreiðanlega aðeins að venjast þessu.

Fjögur

August 3, 2011 in Illska, Uncategorized

Bókin er andskotans helvíti löng. 600 síður lágmark, en líklega nær 800. Mér er sagt að ég verði að stytta hana, að það lesi enginn svona langa bók (ég hef verið kallaður „fullmælskur“ af töluvert minna tilefni). Ég hef samt engan áhuga á að stytta hana, lít ekki á styttingu sem lausn við einu eða neinu – bók er aldrei 100 blaðsíðum of löng, einsog klisjan hljóðar, en hún getur auðvitað verið 100 blaðsíðum of leiðinleg. Ég ætla að gera mitt besta til þess að Illska verði ekki einni blaðsíðu of leiðinleg – en ég ætla ekki að koma til móts við (og stuðla þar með að) auknum kommúnal athyglisbresti.

—-

Akkúrat núna, í þessum orðum töluðum, ætla ég samt að fækka einum hluta úr 15.000 orðum í 10.000 orð, vér biðjum hlutaðeigandi orð velvirðingar.

Þrjú

August 2, 2011 in Illska, Uncategorized

Hvers vegna leggur maður upp með að skrifa bók sem maður veit ekki hvort maður getur skrifað – veit ekki einu sinni hvort maður getur skrifað um? Bók sem maður festir ekki hönd á?

Tvö

August 2, 2011 in Illska, Uncategorized

Illska fjallar í einfaldasta skilningi um xenófóbíu – óttann við hið utanaðkomandi, xenosinn, hinn ókunnuga – og í breiðasta skilningi um það að sjá og sjást. Hún fjallar um þrjár manneskjur í einhvers konar ástarþríhyrningi; Ómar, sem er alinn upp á flækingi um allt land, Agnesi sem á rætur að rekja til þorpsins Jurbarkas í Litháen og Arnórs, sem er (yfirlýstur) nýnasisti frá Ísafirði. Hún segir einnig frá fjöldamorðum þýskra og litháískra nasista í Jurbarkas sumarið 1941 þar sem (með nokkurri einföldun) má segja að aríski helmingur íbúanna hafi slátrað gyðingahelmingi íbúanna (og auðvitað kommúnistum, sígaunum og öðru rakkarapakki).

Eitt

August 2, 2011 in Illska, Uncategorized

Sumarið 2008 byrjaði ég að skrifa skáldsögu sem kemur vonandi út haustið 2012. Skáldsagan heitir Illska en er ekki eiginlegt framhald bókarinnar Gæsku, sem kom út árið 2009. Einhvern tíma í haust – líklega seint – mun ég ljúka fyrsta uppkasti að Illsku. Þessu bloggi er ætlað að fjalla um vinnuna við Illsku, allt það sem hefur truflað mig og truflar mig enn (það eru nokkrir mánuðir í fyrsta handrit). Það fyrsta sem ég vil segja er þetta: Ég óttast ekki bara að mér takist ekki að skrifa þessa bók; ég óttast að mér takist ekki einu sinni að blogga um hana.