31. mars

March 31, 2012 in blogg

Í dag fór ég á fætur með Aram og Nadja svaf út. Við horfðum á Fuglastríðið í Lumbruskógi en ég var líklega of syfjaður til þess að ná söguþræðinum. Þetta virkaði allt á mig einsog einhver fullkomlega sundurlaus framúrstefna. En það gæti sem sagt hafa verið dagsformið.

Að því loknu lásum við nokkrar bækur. Eina ástralska bók með teikningum af dýrum sem ég náði í á spottprís á bókamessunni í Frankfurt síðasta haust, þegar ég var á flótta frá öllu havaríinu hinu síðasta daginn – síðasta daginn selja sum forlögin bækurnar sínar á slikk til þess að spara sér flutningskostnaðinn á þeim aftur heim. Svo Den farliga resan eftir Tove Jansson – sem er öðrum skáldum fremri í allri rímlist, finnst mér. Reyndar finnst mér almennt fallegra að ríma á sænsku, ég veit ekki hvers vegna. Svo lásum við aðra sænska bók sem ég snarþýddi um feðgin sem skoða alls kyns ólíka báta (einhvern veginn eru barnabækur oft framúrstefnulegustu bækurnar – aldrei myndi manni leyfast þetta í fullorðinsbókmenntunum). Þegar við höfðum legið og lesið dágóða stund fórum við á Youtube í leit að myndböndum af froskum og svo öðrum dýrum. Dýramyndböndin á Youtube eru í yfirgnæfandi meirihluta af drápum og ríðingum. Við horfðum á frosk borða annan frosk og höfrung riðlast á konu og tvo gíraffa slást með því að sveifla höfðunum hver í annan – áður en við sem sagt gáfumst upp og sögðum skilið við þennan yfirgengilega heim, National Geographic og skyldra sadista.

Yfir hádegismatnum (sem var afgangar, einsog venjulega) skæpuðum við við ömmu og afa á Íslandi. Þá var komið að lúrnum og vegna þess hve lítið ég svaf í nótt fékk ég mér líka lúr en Nadja fór út í göngutúr og skildi okkur feðgana eina eftir hrjótandi heima. Við sváfum ábyggilega langt að því þrjár klukkustundir og vöknuðum eiginlega samtímis en vöktum þó líklega ekki hver annan. Nadja gerði sagógrjónagraut í millimál („mellis“) og svo gengum við út í búð – eða Aram fór á sparkmótorhjólinu sínu og við gengum. Það tók tvo og hálfan tíma fram og til baka og þá var komið að kvöldmat. Aldrei þessu vant elduðum við öll saman. Við Aram gerðum heilhveitideig en Nadja skar álegg á pizzu. Þau léku sér síðan með lestarsettið frá langömmu á meðan ég tók til í eldhúsinu.

Aram var óvenju kresinn á lesefni fyrir háttinn og þegar hann er kresinn leitar hann yfirleitt í það einfaldasta sem hann finnur – það er altso svo til undantekningalaust hann sem velur, þótt við ákveðum auðvitað að mestu leyti hvaða bækur það eru sem koma inn á heimilið. Í þetta sinn var það einfaldasta sem til var bækurnar um hundinn Bessa og við lásum þrjár, örstuttar og svo fór hann að sofa.

Á morgun er aldrei að vita nema að við bregðum okkur niður í bæ og förum í sund og á kaffihús. Og á morgun fæ ég líka að sofa út.

30. mars …

March 30, 2012 in blogg

… var þrælslundin þjóðinni töm.

Einsog einhver söng í gamla daga.

Dagurinn hófst á því að Aram færði mér Ég vil fisk eftir Áslaugu Jónsdóttur í rúmið. Bókin fjallar um unga stúlku sem á foreldra sem hlusta ekki á hana – einsog það er orðað þá heldur mamma að hún viti hvað stelpan vill, og pabbi að mamma viti það (heteronormative alert! american sitcom alert!). Stelpan biður um fisk – og fær. Nema fiskurinn er ýmist upptrekktur, í fiskabúri, á mynd eða hreinlega fiskagrímubúningur. Allan tímann er borinn í hana alls kyns útlenskur matur, núðlur (suðaustur asía) og pizzur (ítalía) og kjötbollur (skandinavía/suður-evrópa), grillaður kjúklingur (spánn), pylsur (þýskaland) og fleira. Alltaf gargar stúlkukindin að hún vilji fisk, og alltaf gargar hún eilítið hærra heldur en síðast (þetta tekur svolítið á nývaknað foreldrið, skal ég segja ykkur, og það þótt foreldrið sé í þessu tilviki víðsiglt og þaulæft hljóðljóðskáld). Að síðustu gargar hún nógu hátt til að það kemst til skila. Boðskapurinn er þá – ofan í heterónormatífuna og útlandafyrirlitninguna – að maður fái á endanum það sem maður vill ef maður er bara nógu frekur. Og ég er ekki frá því að það sé bara satt.

(Ég ætti kannski að taka það fram hérna, svo það misskiljist ekki, að ég er ekki dogmatískur bókstafstrúarlesandi í heilögu stríði í raun og veru, ég bara leik einn slíkan á blogginu mínu. Þetta eru allt saman afskaplega góðar barnabækur og ég mæli með þeim öllum – ég er líklega að fremja einhvers konar tilraun í hversu ósanngjarn eða smásmugulegur maður getur verið í (pólitískri) umfjöllun um bókmenntir áður en það verður hreinlega absúrd, áður en maður er beinlínis hættur að „túlka“ og farinn að „ljúga“. Svona teygjustökk eru reyndar daglegt brauð í íslenskri sam- og umræðu núorðið – en flestum er altso meira alvara en mér. Það sem ég vildi sagt hafa: djók!).

Müsli, kaffi. Svo lásum við Ég elska þig svona mikið (um hérana sem metast um hvor þeirra sé með stærri „kærleik“) og fórum á leikskólann. Það hafði snöggkólnað og var mínus tíu þegar við lögðum af stað. Slabbið var orðið að íshröngli og gönguferðin var fjarska leiðinleg.

Og svo settist ég aftur niður við fjórða hluta Illsku. Bókin er öll í litlum hálfrar síðu köflum og ég var búinn að melta fyrsta hlutann í þrjár vikur, á meðan vinnslustoppi stóð, velta honum fram og aftur um heilann og hann kom fullskapaður og fullkominn af skepnunni. Þetta er langbesta hálfa blaðsíða bókarinnar og það tók mig ábyggilega ekki meira en tvær mínútur að koma henni á blað. Svo sat ég við og velti vöngum í tvo tíma, óviss um hvað myndi gerast næst. Tók mér hádegishlé, bakaði bananaogperurúgbrauð og beyglaði á mér munninn. Á endanum muldi ég undir mig fjóra hálfsíðubúta í viðbót áður en klukkan sló fimm og vinnudeginum lauk formlega og við tók helgi. Sem er ágætt – ég hef vissulega átt betri daga en ég hef líka átt miklu verri.

Þá gerði ég túnfisksalat og tók brauðið og couscousréttinn sem ég lagaði í gær og fór með Aram og Nödju til vina okkar, skoskungverskrar fjölskyldu – þar sem við hittum þriðju fjölskylduna, pólskfinnska, sem hafði eytt deginum í flutninga. Þar átum við mat og drukkum bjór og dæstum af öllum hugsanlegum orsökum, en þó aðallega gleðilegum. Nú erum við komin aftur heim og Aram er farinn að sofa.

30. mars er annars bara einsog hver annar föstudagur þegar herinn er farinn frá Íslandi og maður býr ekki einu sinni lengur undir verndarvæng NATO.

Rafbækur | Gneistinn

March 30, 2012 in blogg

Glyn Moody var aðalfyrirlesari eftirhádegisins og hann sannfærði mig um að ég er ákaflega hófsamur í mínum umbótahugmyndum um höfundarétt. Hann útskýrði útvíkkun höfundaréttar með því að segja að fólk hugsaði “höfundaréttur er góður, meiri höfundaréttur er betri”. Hann talaði um SOPA og PIPA og hvað við getum lært af því hvernig þau frumvörp voru drepin. Um nauðsyn mótmæla. Hann talaði líka um ACTA. Það verður víst kosið um það í sumar. Hann kallaði ACTA og aðra eins sáttmála “sveitaklúbbssáttmála” sem engum er boðið nema þeim sem samþykkja allt sem þýðir að enginn er talsmaður vægari skilyrða. Þar að auki eru þessir sáttmálar unnir í leynd sem þýðir að hagsmunasamtök geta ekki gerst talsmenn almennings í þessum samningaviðræðum.

Óli Gneisti hefur verið með hverja áhugaverðu rafbóka/höfundarréttarfærsluna á fætur annarri upp á síðkastið – og meðal annars haldið dagbækur frá ráðstefnum. VIA Rafbækur | Gneistinn.

HD: “en uppsluppet bubblande brygd med bitter bismak”

March 29, 2012 in blogg

En roman som handlar om ett barns död borde inte kunna vara det minsta rolig. Men i Gift för nybörjare kombinerar den isländske författaren Eiríkur Örn Norðdah l en historia om sorgen efter en påkörd treåring med en skildring av vilsna människor i Reykjaviks nattliv och kryddar det hela med en på samma gång svart, uppgiven och ömsint humor. Resultatet är en uppsluppet bubblande brygd med bitter bismak [...] Norðdahl skriver en enkel prosa med underskruvad finurlighet, och låter inga absurditeter sudda ut den oskyldiga minen.

Skrev Ann Lingebrandt i Helsingborg Dagblad.

via Vilsen i Reykjavik – hd.se.

29. mars

March 29, 2012 in blogg

Ég vaknaði við Aram og Konurnar sem vildu stöðva blásturinn. Það er amerísk bók um Ísland. Íslenskar konur fá nóg af vindinum og ákveða að gróðursetja tré svo stætt verði inni í bæ, en kindurnar éta alltaf græðlingana. SAM þýddi. Ég hugsa að hún stæðist kynjafræðiprófið. Þótt konur eigi auðvitað ekki að vera látnar sýsla með grasrækt, ég er ekki viss um að það sé nógu alvöru. Það er einsog mig minni að konurnar í nýja LEGOinu (sem mér finnst aðallega ekki nógu töff, en ég hef heldur aldrei verið LEGOmaður, ég er trúrækinn og íhaldssamur Playmokall) séu eitthvað í gróðursetningum og það hafi þótt lélegt. Bókin er annars ágæt. Svolítið beisikk saga kannski en teikningarnar eru fallegar. Íslendingarnir eru náttúrulega allir frekar búralegir, þanniglagað, þótt þeir séu líka í hálfgerðum þjóðbúningum. Það er ábyggilega eitthvert nasistablæti en það er of hlægilegt til að maður taki það nærri sér.

Müsli, kaffi. Við vélrituðum nöfnin okkar í tölvuna – ég stýrði puttanum á honum. Aram Nói. Eirikur. Nadja. Og svo grannarnir, Gabor, Jennifer, Ernest og Lilliom. Og síðan fórum við á leikskólann. Hér eru skaflar meðfram öllum göngustígum og fleiri þúsund lítrar af slabbi á sjálfu malbikinu. Það er sirka tuttugu mínútna gangur í leikskólann og við förum eiginlega hvergi yfir götu. Ég segi eiginlega vegna þess að á einum stað förum við yfir innkeyrslu inn á botnlangabílastæði. Ég held meira að segja að það sé sebrabraut undir snjónum þarna. En það telst samt varla með.

Eða á maður kannski að segja í leikskólann? Ég er að verða svo sænskuskotinn. Stend mig að því að segja „jera“ í staðinn fyrir „gera“ og þar fram eftir götunum. Svo sem maður jerir í staðinn fyrir einsog maður gerir. Búff.

Þetta var áreiðanlega leiðinlegasti dagur sem ég hef upplifað það sem af er ári. Ég gekk frá bókhaldinu – sem hafði ekki verið uppfært frá því í september – sem gengur aðallega út á að halda utan um ýmsan frádráttarbæran kostnað (skrifstofugögn, vinnuferðir (eða aukalegan kostnað sem af þeim hlýst, þær eru nú jafnan greiddar af einhverjum öðrum), hluta leigunnar, hluta símakostnaðar, vefhýsingu o.s.frv.) og hefði ekki verið svona flókið ef töskunni minni hefði ekki verið rænt í desember, með öllum kvittunum einmitt frá því í byrjun september. Þegar ég lauk við bókhaldið gekk ég frá skattaskýrslunni. Ég reyndist hafa verið í óttalega lélegum tekjum og reikna ekki með því að þurfa að greiða neitt extra. En þetta er reyndar fyrsta alvöru árið sem ég skatta í Finnlandi – síðast var ég að skatta fyrir ár þar sem ég var ritlaunalaus þá mánuði sem ég vann og ríflega hálft árið heimavinnandi hvort eð var. Þar á undan skattaði ég bara á Íslandi (og myndi gera enn ef ég mætti, en ég má það víst ekki, það er að flestu leyti einfaldara mál að skatta alltaf í sama landinu á sama tungumálinu). Svo ég veit það ekki. Kannski er þetta miklu verra en ég gæti hugsanlega ímyndað mér.

Það er að minnsta kosti útlit fyrir að á morgun geti ég sest aftur við skriftir, eftir viku í Svíþjóð og viku í vesen. Sem er gott. Fyrir bókina og fyrir geðheilsuna.

Ég gerði plokkfisk í kvöldmat – fann þetta líka fína rúgbrauð úti í búð, sætt og gott einsog það íslenska, sem var ágætt því að tilraunir mínar til þess að seyða rúgbrauð hafa ekki alveg verið að gera sig. Það byrjaði ágætlega – fyrstu 4-5 skiptin – en síðan hefur hallað undan fæti. Síðast munaði engu að ég brenndi ofan af okkur húsið þegar vatnið kláraðist um miðja nótt. Ég gerði líka couscoussalat með halloumi, kjúklingabaunum, kirsuberjatómötum og kúrbít – en það er til þess að taka með á morgun til vina okkar sem eru að flytja. Ég er að hugsa um að henda líka í eitt bananarúgbrauð (bakað, ekki seytt) á morgun í hádeginu, á milli tarna.

Við Aram lásum Veistu hvað ég elska þig mikið fyrir háttinn, en hana fékk hann frá ömmu sinni og afa. Honum fannst hún svo skemmtileg að við lásum hana tvisvar. Hún fjallar um tvo héra sem eru að metast um hvor þeirra elski hinn meira. Mjög passíf-agressíft – stemningin er svolítið einsog í sturtunni eftir leikfimi í menntó. Allir að metast. Og sá stærri og sterkari rústar þessu auðvitað. Skítfellur á rétttrúnaðarprófinu.

Djók.

Nú er Nadja farin í sánu. Í dag birtist fyrsta ritrýnda fræðigreinin hennar. Sem hún skrifaði ásamt tveimur öðrum. Við feðgarnir fögnuðum henni með tangarsókn.

Hér sit ég sem sagt einn og borða kingsize Tuplasúkkulaði einsog ég þurfi engar áhyggjur að hafa af vigtinni.

Þegar maður fer á internetið (eða réttara sagt, þegar maður fer ekki AF internetinu, internetvera er löngu orðin default staða í mínu lífi) þá fær maður það á tilfinninguna að á Íslandi búi eintómur skríll. Ég veit vel að þetta er ekki rétt og ég veit orðið líka að kalli maður annað fólk skríl er maður að í einhverjum skilningi að taka þátt í skrílslátunum, taka undir með fuglabjarginu. Maður heyrir ekki bara hávaðann heldur er maður hávaðinn. Og það sló mig í dag, einhversstaðar, að í krítísku samfélagi (sem kann ekki perspektíf, kann ekki að ástunda sjálfskrítík, kann ekki að hika) séu allir dæmdir fyrir það hve vel þeir dæma aðra – við fáum einkunn fyrir kjaftshöggin sem við veitum öðrum. Og þannig þrömmum við í hringi með ásökunarfingurinn á lofti, gaggandi og blótandi í kross, bendandi hvert á annað í þeirri von að einhverjum eigi eftir að finnast við merkileg. Sem er einhvern veginn fjarska ólíklegt, svona miðað við ástandið.

En ég var ekki búinn að hugsa þetta mikið lengra en svo.

Bæ.

“Citatet får inte ge en missvisande bild av recensionen”

March 29, 2012 in nyheter

Citat ur recension är tillåtet i enlighet med upphovsrättslagens regler.
Vid citat ska BTJ:s och lektörens namn samt BTJ-häftet anges. Citatet får inte omfatta hela recensionen, och det får inte heller ge en missvisande bild av recensionen. Vid tveksamheter beträffande rätten att citera kontakta vänligen BTJ.

Jag fick altså recension i Bibliotekskatalogen. De tyckte om boken. Av uppenbara orsaker är jag lite tveksam hur jag ska citera. Ja men okej då. Den slutar så:

Gift för nybörjare är en märkligt engagerande,inte helt lättolkad bok om livet, ödet, ensamhet, smärta. Tonen är ironisk och den svarta, drastiska komiken påtaglig. En livsskildring som både roar och oroar.

Häftepos: 12110350
Lektör: Karin Engvén

Myndir frá Svíþjóð // Bilder från Sverigeresan

March 28, 2012 in blogg

12030105

Í hvalnum fyrir gigg. Útgefandinn, Per Bergström, og ljóðskáldið Linn Hansén virða maga skepnunnar fyrir sér.

12030110

Útgefandinn kynnir. Fremst hægra megin situr þýðandinn, Anna Gunnarsdotter Grönberg.

12030112

Einn og yfirgefinn í Hansakompaníinu í Malmö – að árita engar bækur.

Í Lohrs Pocket Medmera. Lítilli sjálfstæðri bókabúð. Þar áritaði ég ólíkt meira en í verslunarmiðstöð Hansakaupmanna. Og las og spjallaði og reyndi að virðast í senn vinalegri og gáfulegri en ég er.

12030090

El Condor Pasa. Útskýrir sig sjálft.

 

Ég virðist reyndar ekki hafa verið hálft eins duglegur að taka myndir og mig minnti. Og mig minnti ekki að ég hefði verið sérstaklega duglegur. Ojæja. Þetta er hvort sem er allt saman greypt í huga mér, steypt í ennisblaðið, ritað í sandinn og blandað í sement og vatn í hárréttum hlutföllum.

27.-28. mars

March 28, 2012 in blogg

Í gær vaknaði ég við Aram og Bétvo. Svo át ég müsli, drakk kaffi og við fórum á leikskólann. Ég hafði hug á að klára að laga heimasíðuna mína, gera svo bókhaldið frá september og til dagsins í dag – án þess að vera með kvittanir fyrir fyrstu þrjá mánuðina, vegna þess að töskunni minni var stolið í byrjun desember – undirrita síðan samning vegna dvalar í Vatnasafninu í haust og gera ferðareikning vegna ljóðahátíðarinnar í Hamar um daginn (til að fá flug- og lestarmiða endurgreidd – það er leiðindaósiður hjá hátíðum að láta gesti leggja út fyrir ferðakostnaði og endurgreiða síðan, en þetta hefur þá leiðu aukaverkan að kreditkortið mitt er alltaf þanið til hins ítrasta og ég get sjaldnast notað það þegar ég þarf að nota það fyrir sjálfan mig) og svo bara tjilla. Skemmst er frá því að segja að ég lauk ekki einu sinni við fyrsta verkið. Ég gerði pæ í kvöldmat – og meðan það var í ofninum lásum við nýjar íslenskar bækur af bókasafninu, Konan sem kyssti of mikið eftir Hallgrím Helgason (X2) og svo Skrímslapest og Stór skrímsli gráta ekki. Tókum svo annan umgang eftir matinn, fyrir svefninn. Góðar, skemmtilegar bækur. En vegna þess að ég hef verið að spá í pólitískum réttrúnaðarlestri á barnabækur þá er kannski ástæða til þess að nefna hversu ótrúlega heterónormatíft þetta er allt saman. Að vísu eru skrímslin auðvitað ekki kona og karl – eða móðir og sonur – en þau fulltrúa (sögn!) fyrir eitthvað þanniglagað. Konan sem kyssti of mikið hefst á lýsingu á fjölskyldu með gati – maður átti tvö börn en ENGA KONU. Svo reddar hann því, fær sér kyssikonu. Ég held að Hallgrímur megi alveg vona að þetta verði aldrei tekið fyrir í kynjabókmenntafræði (sem ég reikna með að verði kennd niður í leikskóla fljótlega). Djók. Við horfðum á Breaking Bad.

Í morgun vaknaði ég við … uh … bók um stelpu sem fer með mömmu sinni á leikskóla, kynnist annarri stelpu. Bara konur í bókinni – eða svona. Einhverjir strákar til skrauts. Einu rúnnuðu karakterarnir eru móðirin, dóttirin, vinkonan og fóstrurnar. Át müsli, drakk kaffi – undirritaði samninginn við Vatnasafnið, gekk frá ferðareikningnum fyrir Hamar – og svo fórum við á leikskólann. Ég verslaði að venju í matinn á leiðinni heim og kom við á pósthúsinu. Dagurinn fór svo í að klára að laga heimasíðuna – sem ætti nú að fúngera á fjórum tungumálum (fyrir utan þetta blogg, sem er sérsíða). Ég held ég hafi ekki gert neitt annað. Það kom afmælispakki frá mömmu og pabba til Nödju og í honum var líka bók – sem mig minnir að heiti Ég elska þig svona mikið – og myndin Fuglastríðið í Lumbruskógi. ÉG FÉKK EKKI NEITT!

Djók.

Ég veit ekki til hvers maður er að eiga foreldra.

Djók.

Svo gerði ég holy crepes í kvöldmat – eftir uppskrift af rosalegasta matarbloggi Íslands, nema ég skipti sveppum út fyrir kúrbít og heimagerða ricottaostinum fyrir búðarkeyptan geitarost – það var alveg stöngin inn. Þá horfði ég á Andrea Bocelli syngja Elmo í svefn og nú er Nadja að lesa Aram í svefn. Ég ætla að fara í sturtu og svo ætla ég að setja inn myndir úr Svíþjóðarferðinni.

Bæ.

Intervju: Eiríkur Örn Norðdahl : Benshi

March 28, 2012 in blogg

Du vet, författare brukar vara människor med dåligt självförtroende men med en stor önskan om hur världen ska vara. Sen blir det aldrig så och det tycker man är jättejobbigt. På Littfest i Umeå nyligen sa Horace Engdahl att alla författare måste ha storhetsvansinne. Men jag tror att det är tvärtom, att alla författare förmodligen har någon form av mindervärdeskomplex.

via Intervju: Eiríkur Örn Norðdahl : Benshi.

26. mars

March 26, 2012 in blogg

Í dag bakaði ég köku fyrir konuna mína, sem sneri aftur úr ferðalagi. Ég þurfti þrjár atlögur að kreminu áður en það hafðist. Ég gaf henni vekjaraklukku og lítið ljóð í afmælisgjöf. Svo vill síðan til að hér í Oulu er besti indverski matsölustaður í heimi og þar átum við fjölskyldan á okkur gat.

Afmæliskakan

March 26, 2012 in blogg

Corren: “Med kallpressad olja av bästa tidlösa märke”

March 26, 2012 in blogg

Som modernt, postmodernt, språkligt och metalitterärt kitt är traditionen uppenbarligen unikt obruten. Förser även den säreget kärva humorn i Norðdahls andra roman, “Gift för nybörjare” i Anna Gunnarsdotter Grönbergs översättning, med kallpressad olja av bästa tidlösa märke.

via Eiríkur Örn Norðdahl: Gift för nybörjare – Böcker – Corren.se – Östergötlands största nyhetssajt.

Eiríkur Örn Norðdahl: ”Gift för nybörjare” – DN.SE

March 26, 2012 in blogg

Eiríkur Örn Norðdahl har skrivit en fascinerande roman som slår an den perfekta slackertonen och sedan låter alltihop utmynna i någonting väldigt annorlunda.

via Eiríkur Örn Norðdahl: ”Gift för nybörjare” – DN.SE.

Ég átti víst eftir að færa þetta til bókar.

25. mars

March 25, 2012 in blogg

Ég vaknaði bærilega rólegur en lenti fljótt í tímahraki og fékk svo hálfgert kvíðakast þegar ég áttaði mig á því að klukkan var heilum tíma lengra gengin en eldhúsklukkan hafði logið að mér (það er víst kominn sumartími þótt enn sé allt á kafi í snjó). Ég sat við og hamaðist við vírustortímingar – vírusinn er alveg horfinn núna, en með honum fóru stórir bitar úr síðunni, það verður nokkurt streð að koma enska, sænska og þýska hlutanum aftur í gagnið – fór svo í mat til vina minna (sem buðu upp á gúllas, eldað af raunverulegum holdsogblóðs ungverja!), keypti snakk, fékk einhverja brjóstverki af því, og lagaði og lagaði. Núna er bloggið svona. Til þess að gera hreint. En ég mæli með því að þið lítið líka á forsíðuna. Ég reikna ekki með því að færa aftur inn myndirnar í allar færslurnar – þessi þrjú hundruð þúsund ár aftur í tímann sem ég hef haldið úti heimasíðu – en ég á eftir að laga eitthvað þarna. Og svo koma sænskan og þýskan og enskan vonandi fljótlega aftur líka.

15.-24. mars

March 24, 2012 in blogg

Nú er ekkert ólíklegt að þú sért ekki hér, heldur á sóðasíðu einhvers illyrmislegs lyfjafyrirtækis á internetinu. Þessi síða, eins og allar síður á þessu blessaða léni mínu, er nefnilega útskitin í einhverjum vírusfjára.

Þú skalt samt draga andann varlega. Vírusinn er ekki að fara að gera þér neitt. Ekki fyrst þú komst inn. Og jafnvel þótt hann hefði stöðvað þig í dyrunum þá hefði hann ekki sent þig annað en út í tómið – á einhverja síðu sem er ekki til lengur. Og ef það er ekki nóg til að róa þig þá fullvissa ég þig um að ég er að vinna í málinu. Er að taka ríflega gígabætis bakköpp – sem segir sitthvað um hversu stór þessi síða er orðin, þótt hún verði væntanlega minni eftir komandi hreinsanir, en þær taka sinn tíma. Nú er ég sem sagt mest í því að drepa þann tíma.

En hvað um það. Dagbók. Það var ætlun mín að halda dagbók. Ég hef verið fjarverandi en nú verandi nærverandi færi ég til bókar það sem gerst hefur, svona í grófum dráttum.

Fimmtudaginn 15. mars vaknaði ég snemma, fór út í búð og keypti mér heddfóna og tók svo rútuna beint norður til Haparanda. Í Haparanda át ég einhvern bannsettan draslmat og beið eftir næstu rútu til Umeå. Þangað var ég kominn skömmu fyrir kvöldmat. Í Umeå beið mín sænski útgefandinn minn og við fórum saman út að borða í boði Littfest – það var grískt og gott og við fengum síðan að hlusta á samræður (á sviði) milli teiknimyndasöguhöfundanna Ninu Hemmingson og Nönnu Johanssen annars vegar og leikstjóra, sem ég man ekki hvað heitir, hins vegar, en hann hafði sett sketsa úr bókum þeirra á svið. Svo las Linn Hansén ljóð um mannkynssöguna, það sem hún er og það sem hún er ekki. Það var algert æði. Loks fengum við Per (útgefandinn) okkur göngutúr út á næsta írska pöbb og skáluðum til lokunar.

Föstudaginn 16. mars vaknaði ég seint, fór út í búð og keypti mér svitalyktareyði. Seinnipartinn sat ég fyrir svörum ásamt þýska ljóðskáldinu Önju Utler og um kvöldið las ég upp á ljóðabar. Þar var allt troðfullt af fólki en erfitt að heyra nema maður væri alveg fremst, vegna þess að hljóðkerfið var í einhverju hassi og svo músík af neðri hæðinni og mas af barnum (sem var auðvitað þeim mun meira í ljósi þess að þar heyrði enginn neitt af því sem fram fór á sviðinu). Ég las mjög, mjög hátt, einsog venjulega, og var líklega einn um að þurfa ekki að lúta í lægra haldi fyrir blessuðu sviðinu. Kvöldinu lauk í herbergi eins úkraínska skáldsins – sem hafði átt þátt í stórkostlegum gjörningi fyrrum daginn þar sem ljóðskáld og harmonikkuleikarar mættust á sviði í sentimentalískri orgíu sem náði hámarki í uppklappinu El Condor Pasa. Þar var eftirpartí og við drukkum mikinn vodka, veltumst um á gólfinu og ræddum nostalgíu og væmni/sentimentalitet – sem var þemað hjá tveimur þeirra í umræðum morguninn eftir.

Laugardaginn 17. mars vaknaði ég snemma og þrammaði yfir götuna í Folkets hus þar sem fram fóru samræður um nostalgíu, milli sænska ljóðskáldsins Linn Hansén og úkraínska ljóðskáldsins Kateryna Babkina. Þegar þær höfðu lokið sér af ræddi slóvenska ljóðskáldið Dusan Sarotar um minnið og þegar hann var búinn sjanghæjuðum við Dusan og Per með okkur harmónikkuleikarann Bostian og tókum leigubíl út á flugvöll og flugum til Stokkhólms. Þar hófum við leikinn með göngutúr í Gamla Stan áður en við héldum heim á hótel og hittum ritstjórann Henrik Enbohm og kærustu hans, hina slóvensku Luciju Stupica. Þau tilkynntu þegar í stað um trúlofun sína og við slógum upp balli inni á hótelherbergi með áköfum harmonikkuleik, söng og kampavínsþambi. Svo fórum við út að borða á einhvern afskaplega fínan veitingastað sem serveraði sænskan húsmannskost – ég fékk mér grísalegg sem hreinlega bráðnaði af tungunni – og þaðan á vínbar. Kvöldinu lukum við Per með því að skála á hótelbarnum.

Sunnudaginn 18. mars vaknaði ég til þess að gera seint, fór í langan göngutúr með Per, Dusan og Bostian áður en við Per kvöddum slóvenana, fengum okkur lúr og fórum svo í meiri göngutúr. Sá göngutúr dró okkur að kóreskum grillstað þar sem grillið var innbyggt í borðið og við fengum matinn allan hráan. Þar sátum við og átum þar til þýska ljóðskáldið Anja Utler rak inn nefið – fyrir tilviljun – ásamt þýðanda sínum, Lindu Östergaard, en við vorum öll að fara að koma fram í nágrenninu, í hinni goðsagnakenndu fornbókaverslun Rönnells. Við héldum saman þangað eftir matinn og ræddum við bókmenntavitarann Harald Hultquist og fengum að launum LP-plötu með hvískrinu úr Rönnells. Svo var haldið á veitingastað og drukkinn bjór eitthvað frameftir nóttu.

Mánudaginn 19. mars ákváðum við Per að nú væri nóg komið af þessu lúxuslífi og einsog sannir prótestantar myndum við láta okkur hafa það að ganga út á lestarstöð – með bókakassann og farangurinn allan. Og völdum auðvitað til þess daginn sem brast á með vorhreti og hríðarbyl. Við vorum gersamlega helfrosnir þegar við komum á brautarstöðina. Þar rákumst við á Lindu Östergaard, fyrir tilviljun, sem hafði fylgt Önju í fluglestina. Við Per fórum til Gautaborgar, þrömmuðum þar um götur í talsvert skárra veðri og fundum skrifstofur bókmenntatímaritsins Glänta, þar sem starfsmenn (m.a. áðurnefnd Linn Hansén, hjá hverri við gistum) voru í óða önn við að pakka niður tímariti sem þau höfðu unnið í samstarfi við Suður Afrískt forlag og átti að fara sem aukanúmer til borgandi áskrifenda. Við tókum með okkur flesta starfsmennina og fórum og tókum borgara á hárrokkbúllu og þaðan í shuffleboard – reyndar spaðalaust á upphækkuðu borði, en það var ekki minna gaman fyrir það. Per sýndi líka meistaratakta í kúluspili.

Þriðjudaginn 20. mars vöknuðum við Per á stofugólfinu hjá Linn Hansén, sem var farin í vinnuna. Við gerðum okkar besta til að þurrka þynnkuna úr andlitinu á okkur en það gekk ekki nema rétt svo eftir atvikum. Þá fórum við í hádegisverð með æskuvinkonu Pers, Brittu, sem vinnur á sjóminjasafninu Gautaborg. Hún fór með okkur í túr eftir matinn – og safnið kom eiginlega mjög ánægjulega á óvart. Bæði var það fullt af börnum og fullt af alls kyns leikföngum – líka fyrir dálítið eldri gesti, einsog fullkomnum siglingahermi – og svo var sjónarhornið oft óvenjulegt. Það var til dæmis mikið fjallað um áhrif hafnarinnar á Gautaborg í stærra samhengi en maður hefði reiknað með, hvernig hún virkaði sem op út í hinn stóra heim, með ameríkusiglingum og nasistamakki og þvíumlíku, en líka hitt hvernig búið er að fela hina eiginlegu höfn og hafnarstarfsemi í nútímanum þar sem hún liggur lengst frá borginni á bakvið há og mikil grindverk sem enginn kemst í gegnum án þess að vera með réttan passa (en var áður hjarta og stolt borgarinnar). Fyrir því eru ábyggilega alls kyns ástæður – en ein þeirra er einfaldlega sú að við viljum ekki sjá verkamenn, viljum ekki að þeir séu til, ekki fyrir framan augun á okkur að minnsta kosti. Eitt sinn voru þeir tákn um framfarir, en nú tákna þeir eitthvað annað. Um kvöldið var síðan útgáfupartí fyrir Gift för nybörjare og var það haldið á náttúrugripasafninu, inni í þeirra frægu uppstoppuðu steypireyði. Þar voru Linn Hansén og UKON mér til halds og trausts með upplestur á sænsku – en ég las sjálfur, æpti og söng, á íslensku. Að uppákomunni lokinni kom gömul kona til Pers og kvaðst aldrei á sinni áttatíu ára ævi hafa upplifað annað eins. Svo drukkum við dálítinn bjór en fórum til þess að gera snemma heim, enda farnir að verða dálítið eftir okkur.

Horft inn í steypireyðina, úr kjaftinum/sviðinu.

Steypireyðin ofanfrá.

Miðvikudaginn 21. mars hófum við með því að bera rúmið sem Per hafði sofið á upp í næsta húsagarð, hvaðan það var fengið að láni. Svo sóttum við bókakassa á skrifstofur Glänta og fórum á brautarstöðina. Þar skæpaði ég við Nödju, sem átti afmæli (veislan verður síðar), á meðan Per brá sér í Blåvittshopen til þess að kaupa IFK Gautaborg búning fyrir nýfæddan son Thomasar, sem er meðeigandi Pers í forlaginu Rámus (og sem gerði kápuna fallegu á Gift för nybörjare). Í lestinni þögðum við, hlustuðum á útvarp og lásum blöðin og störðum út um gluggann. Í Malmö fórum við heim til Pers og svo strax út á vikulegt UBU-kvöld – þar sem listamenn og rithöfundar eru fengnir til þess að velja eftirlætis efnið sitt af hinum fræga og ægilega UBUWeb (þegar Per var sjálfur fenginn til að velja einu sinni stóð hann auðvitað með sínum manni og spilaði Iceland Report fyrir lýðinn, sem tók því nú víst bara svona einsog gengur). Þar sáum við heimildamynd um holdsveikisnýlendu og hlustuðum á strjúpsöng kanadískra inúíta áður en við skelltum okkur í víetnamskt með kærustu Pers, Helenu. Eftir matinn drukkum við kók og átum nammi í stofunni þeirra, horfðum á kvöldfréttirnar og reyndum að núllstilla okkur. Eða ég reyndi að minnsta kosti að núllstilla mig.

Fyrir utan snjóstorminn í Stokkhólmi var leiðinlegasti hluti ferðarinnar líklega sá að sitja einn í bókabúð í verslunarmiðstöð að árita ekki bækur í nærri því klukkustund.

Fimmtudaginn 22. mars flutti ég mig á hótel. Þar beið mín tölvupóstur frá sveitunga mínum Gylfa Ólafssyni, sem sagðist hafa séð dóm um Gift för nybörjare í Dagens Nyheter, með morgunkaffinu, og óskaði mér til hamingju með hann. Ég las hann auðvitað strax og fylltist endurnýjuðum móð ofan í allt volkið. Svo fór ég í viðtal við tímaritið Benshi (sem birtist væntanlega á næstu dögum) – talaði svona líka reiprennandi við konuna á sænsku. Og um kvöldið var komið að lokaviðburði túrsins, bókmenntabarnum Stanza. Helena Österlund hóf leikinn í gertrudesteinískum anda með ljóði um myrkrið og ljósið og hrafninn, hin hollenska Rozalie Hirs tók við með margradda (h)ljóðverki og útfærslum á ættartrjám, þá var pása og svo Johan Jönson sem las úr einni af sínum ótrúlega þykku ljóðabókum (þær eru flestar yfir þúsund síður og koma út sirka annað hvert ár), magnaðan texta sem spannaði allt frá blóðsæði yfir í samræður við börn um dauðann. Þá var komið að mér. Þegar ég var kynntur á sviðið, einmitt þegar Per hafði snúið sér undan og ég var að koma að míkrafóninum, búinn að telja í mig kjark, setja í gang mótorinn, þá hrundi kona úti í sal í gólfið. Ég veit ekki hvað gerðist – eða hvort það er eða verður á endanum í lagi með hana – en hún sem sagt fékk aðsvif, missti aldrei meðvitund og gat fært sig aftast í salinn þar sem hún lagðist á sófa og beið eftir sjúkraliðum. Í þónokkurn tíma stóð ég á sviðinu og vissi ekki hvert ég átti að halda. Það var nokkur þyrping í kringum konuna en stærstur hluti áhorfenda horfði samt ennþá upp á svið. Einsog ég ætti að gera eitthvað. Að lokum kynnti Per mig svo bara aftur. Ég las úr Gift för nybörjare á sænsku, svo nokkra einræðisherra – las Babe, Come Onto Me fyrir Thomas, í tilefni af nýja barninu – tók svo Iceland Report (sem var nú tekið með miklum fögnuði) og lauk þessu síðan á Æra-Tobba og hef aldrei í lífinu svitnað jafn mikið. Þegar allt var búið og gestirnir farnir tókum við að raða stólum og borðum – einhvern veginn var það nú þannig, meira að segja í jafnréttisparadísinni Svíþjóð, að konurnar gerðu sig aldrei líklegar til þess að færa eða lyfta einum einasta stól, á meðan karlarnir hjálpuðust að. Og ég veitti því athygli og fannst það merkilegt. (Ég ætti kannski að bæta því við að þótt ég hafi verið í Svíþjóð alla vikuna, altalandi og allesandi, umkringdur feminískum rithöfundum, teoretíkerum og aktivistum svo til alla vikuna, þá varð ég aldrei var við umræðuna með eða á móti handarkrikarakstri, sem ku hafa skekið Svíþjóð, og nú þegar ég slæ því upp fæ ég ekki orð um femínisma en þeim mun meira um netelti (er það ekki orð annars?)). Eftir að búið var að ganga frá stólum og borðum var haldið á Mölluna – sem ég þekki aðallega vegna þess að þar hélt konan mín til þegar hún átti heima í Malmö og við heimsóttum í einhverju nostalgíutrippinu – og þambaður bjór þangað til okkur var kastað út. Þá ætlaði ég að fara heim á hótel, enda á leið í flug snemma um morguninn, en Per sannfærði mig um að við yrðum að taka að minnsta kosti eitt staup á Debaser til þess að slútta túrnum. Staupin urðu held ég þrjú eða fjögur og bjórarnir að minnsta kosti jafn margir og líklega aðeins fleiri. Það var kominn morgun þegar okkur var hent út og ég svaf ekki nema í kannski tvo klukkutíma.

Föstudaginn 23. mars vaknaði ég fyrir allar aldir, hljóp í morgunmat (sem var nýbyrjaður), át og gekk út á Triangeln þaðan sem ég náði flugvallarlestinni til Kastrup og flaug til Helsinki. Þar þurfti ég að húka í rúma fjóra klukkutíma yfir engu, dauðþreyttur og fullkomlega útkeyrður. Reyndar notaði ég góðan skerf af tímanum í að horfa á The Duellists í símanum mínum. Ég kom heim til Oulu um kvöldmatarleytið, byrjaði á að kasta af mér bakpokanum þar sem hann liggur enn, óopnaður, og fór út í búð að kaupa mjólk og ost og skinku – og stoppaði í kínamat (djúpsteiktar risarækjur) á leiðinni. Aram og Nadja eru enn í Svíþjóð hjá ættingjum og ég einn heima. Þegar ég kom aftur byrjaði ég að garfa í heimasíðunni til að sjá hvort ég gæti hreinsað út vírusruslið. Loks horfði á á The Daily Show og Colbert Report og fór að sofa. (Ég hef ekki litið í bók nema til þess að lesa úr henni upphátt alla vikuna, sem hlýtur að vera einhvers konar met).

Laugardaginn 24. mars skreið á fætur á hádegi, með höfuðverk og allra handa kroppsslæmsku, en þó helst í bakinu. Ég svaraði tölvupóstum, sem höfðu beðið of lengi, og byrjaði að garfa í heimasíðunni minni og nú er útlit fyrir að ég verði að minnsta kosti með einhvers konar skel strax á morgun, þótt hún verði nú áreiðanlega hálfköruð svona eitthvað framan af. Ég ætlaði að versla mér í matinn í Prisma, sem reyndist svo lokuð frá sex á laugardögum (en lokaði áður níu á laugardögum), svo ég neyddist til þess að éta kvöldmat á Rax Pizza Buffet (vegna þess að ég nennti ekki hálftíma göngutúr í viðbót í næstu búð eða veitingastað). Þegar maður er orðinn vanur því að borða sænskan húsmannskost á fimm stjörnu veitingastöðum og raða maríneraða kjötinu sínu sjálfur á borðgrillið í kóreskum lúxus þá liggur við að maður gubbi bara við að ganga inn á Rax Pizza Buffet. Á morgun er mér síðan boðið í mat hjá vinum okkar og á mánudaginn koma Nadja og Aram heim aftur (þetta á ekki að skiljast svo að ég sé ósjálfbjarga í eldhúsinu, ég á þetta eldhús hérna með húð og hári, bæði vask og pönnur og hnífa og kústa, ég hef bara takmarkaðan áhuga á að elda fyrir mig einan).

Vonandi verðum við svo bara vírusfrí strax á morgun.

Varje gång du torkar dig bidrar du till en bättre värld

March 17, 2012 in blogg

På drift längs kärlekens irrvägar

March 15, 2012 in blogg

Det är som om Notting Hill hade blivit filmat av en fransk existentialist som studerat i Tibet istället för i Hollywood.

Sveriges Radio

Miðvikudagur, 14. mars, 2012

March 14, 2012 in blogg

Ég vaknaði við að Aram vildi lesa Bétvo. Eða vildi að ég læsi hana fyrir sig. Nadja fer yfirleitt á fætur á undan mér og gefur Aram að borða og fer svo í skólann á meðan við Aram höngsum og förum svo á leikskólann. Og upp á síðkastið hefur hann tekið upp á því að vekja mig með ósk um bók – það er yfirleitt Rasmus klumpur, sem mér finnst erfitt að lesa sökum þess að textinn í bókunum er eintómar samræður og iðulega óljóst hver er að tala. Og þegar það verður ljóst, seint og um síðir, þá hef ég verið að gera vitlausa rödd. Sem er auðvitað kolómögulegt. Það er alveg sama hvað ég les þessar bækur oft – við eigum bara fjórar og lesum þær aftur og aftur – ég man aldrei hver sagði hvað og hvenær. Raunar væri miklu betra að Aram læsi þær bara sjálfur enda kann hann þær svo gott sem utanað. En í morgun var það sem sagt Bétveir og Nadja fór ekki í skólann heldur kláraði að pakka fyrir Svíþjóðarferðina

Müsli, kaffi og seigar flatkökur með skinku og osti. Svo lásum við meira, leituðum að sólgleraugum og símum og vesenuðumst með peningamál og ræddum daginn og veginn – meðal annars um barnabókina Tralla sem ég svo bloggaði um hérna.

Ég fylgdi síðan Nödju og Aram út í kuldann og kvaddi þau á strætóstöðinni. Kom heim, bloggaði um Tralla, glósaði Illsku og fékk svo boð frá sænska útgefandanum mínum um að Gift för nybörjare hefði fengið þrjá nýja dóma í dag – í Kristianstadsbladet, Göteborgs Posten og Tidningen Kulturen – og þar sammæltust Svíar um að ég væri stórfenglegur rithöfundur sem bara hreinlega á sér engan líkan. Restin af vinnudeginum fór þá í að uppfæra sænsku síðuna mína.

Ég er að fara yfir landamærin til Umeå á morgun – sjö eða átta tímar í rútu – og svo Stokkhólms, Gautaborgar og Malmö og einhvern veginn kom ég mér ekki að því að gera neitt nema blogga og glósa og fikta. Get ekki einbeitt mér nema ég viti að ég geti þá haldið áfram á morgun og hinn og hinn ef allt fer í gang.

Át couscous í hádeginu og hitaði mér frosnar kirjálapírökur í kvöldmat – með núðlusúpu. Svo fann ég hveitibjór sem Nadja keypti fyrir mig í ísskápnum og sit nú hérna og sötra og minni mig á að ég er fyrir lifandis löngu hættur að reykja. Sem er að mörgu leyti leiðinlegt. Því það er líka gott að vera háður einhverju sem er auðvelt að verða sér úti um (og kemur manni ekki í vímu). Það er gott að uppfylla „þarfir“ – jafnt þótt þær séu gerviþarfir. Það er bara verra að fá krabbamein og missa heilsuna. Og/eða.

Ekki þar fyrir að ég fæ mér stundum sígarettu. Aðallega þegar ég er í öðrum löndum samt.

Tidningen Kulturen: “En liten bok om stora händelser”

March 14, 2012 in blogg

Romanen utspelar sig i ett slags komatillstånd där individerna är inkapslade i sig själva och har svårt att komma varandra nära på riktigt. Lika giftig som krukväxten är hemma på skrivbordet, lika farliga visar sig människorna vara för sig själva. Det ligger något outtalat i luften som man inte riktigt kommer åt i Eiríkur Örn Nordahls roman. Det skapar en suggestiv stämning om förhållandet mellan individ och samhälle. Samtidigt finns det en slags hybris hos författarens alter ego, Halldór som bidrar till romanens styrka, humorn. Likt den grekiske filosofen Sokrates vill Halldór tömma sin giftbägare. Men vad har han gjort sig skyldig till?

Rámus förlag går ut med att Gift för nybörjare inte är en stor bok som handlar om viktiga händelser. Jag vill inte hålla med om det. För mig är det en liten bok om stora händelser. Manlighet, kärlek, barn, droger, relationer. Det är en bok att ta till sig.

via Tidningen Kulturen – nyhetstidning med kulturell prägel – Litteratur: Eirikur Örn Nordahl Gift för nybörjare.

Giftiga blad för vilsna själar – Bokrecensioner – Kristianstadsbladet – Nyheter dygnet runt

March 14, 2012 in blogg

”Gift för nybörjare” är egentligen en oerhört sorglig bok om människor som tappar kontrollen över sina liv, men Eiríkur Örn Norðdahls säregna humor gör att svärtan aldrig tar överhand. Resultatet är en läsupplevelse utöver det vanliga, även om man kan tycka att romanfigurerna ibland drabbas lite väl hårt av ödet. Som Dísa mot slutet konstaterar:

Föreställningen om att man råder över sitt eget liv är ren idioti, så galen att det gränsar till något slags autistiskt tillstånd att hålla fast vid den

via Giftiga blad för vilsna själar – Bokrecensioner – Kristianstadsbladet – Nyheter dygnet runt.

Allir tapa á höfundarréttinum | RÚV

March 14, 2012 in blogg

Á nýjafstöðnu Hugvísindaþingi hélt Kristín Atladóttir, doktorsnemi í menningarhagfræði erindi um höfundarrétt.

Kristín Atladóttir, nefndi erindi sitt Of eða van? Þar dró hún í efa skilvirkni höfundarréttar og þörf höfunda fyrir vernd. Kristín segir að frekari vöxtur höfundarréttar skapi hættu og telur hún að allir tapi, höfundar, útgefendur jafnt sem lesendur.

via Allir tapa á höfundarréttinum | RÚV.

Gillz vs. kulturkapitalen

March 14, 2012 in blogg

Sjötíuogátta: Tralli og vettlingurinn sem sprakk

March 14, 2012 in Illska, Uncategorized

Ég man ekki hvað bókin heitir – þetta er að minnir mig upprunalega úkraínskt ævintýri sem ég las á sænsku fyrir Aram þegar hann var mjög lítill. Og fjallar um vettling sem lítill drengur týnir úti í skógi. Það er skítaveður og mús nokkur leitar skjóls í vettlingnum. Síðan kemur héri og fær líka að hlýja sér – enda alltaf hægt að gera pláss fyrir þá sem eru þurfi. Þá íkorni, broddgöltur, kanína, dádýr og skógarbjörn (ég man ekki nákvæmlega hvaða dýr þetta voru eða í hvaða röð, en þið skiljið vonandi samt söguþráðinn). Loks kemur oggupínuponsulítill maur og þá rifnar vettlingurinn í tætlur og allir enda úti í kuldanum. Drengurinn kemur og finnur vettlinginn sinn – eða tægjurnar af honum – og veltir því fyrir sér hvað hafi gerst. THE END.

Þessi söguþráður truflaði mig alltaf og ég held ég hafi ekki lesið þessa bók nema tvisvar. Boðskapurinn er í jákvæða skilningnum sá að maður eigi ekki að færast of mikið í fang því þá sé hætt við að allt fari úrskeiðis. En í neikvæða skilningnum – sem mér finnst liggja beinar við – þá er þetta réttlæting á því að gera ekki neitt fyrir neinn vegna þess að maður geti það hvort eð er ekki. Svona. Þið vitið: Það eru 90 milljón flóttamenn í heiminum sem hafa ekki aðgang að hreinu vatni eða fæðu eða skjóli – en ef við færum að búa um þá á sófanum hjá okkur hérna í allsnægtunum þá myndu þeir sjálfsagt bara nauðga okkur / éta okkur út á gaddinn / valda hruni og kreppu / eða jafnvel varða þess valdandi að rasistum yxi fiskur um hrygg / og valda „menningarlegum árekstrum“.

Nú er ágætt að ég taki fram að ég held það sé full ástæða til þess að hlusta á fólk sem er óttaslegið vegna þeirra breytinga sem eiga sér stað á samfélaginu – hvort sem þar er um að ræða alþjóðavæðingu eða upplýsingafrelsi – sá ótti er raunverulegur og í seinni tíð hef ég beinlínis fengið andstyggð á öllum pólaríserandi popúlisma (og það jafnt þótt ég hafi ítrekað gerst sekur um hann í þátíðinni): það er afskaplega lítið gagn í því að segja fólki að það sé hálfvitar og vonast til þess að það hætti að vera hálfvitar. Það er raunar afskaplega lítið gagn í því að afskrifa aðra sem ýmist vitlausa eða vonda. Því jafnvel þótt það væri satt þá verður samt að vera hægt að tala við þá – nema maður ætli sér beinlínis að uppræta þá með kynbótum. Og ytri mörk hinnar pólitísku miðju – þ.e. þess sem kemst í blöðin og er tekið alvarlega – eru löngu hætt að koma mér á óvart.

En þetta eru framhjáhlaup. Ég var að ræða bókina um vettlinginn. Hún kom upp í hugann aftur í morgun vegna þess að ég var að ræða við Nödju um bókina Tralli eftir sænska rithöfundinn Viktor Mall – sem við eigum í „endursögn“ Vilbergs Júlíussonar (ég hefði raunar faglegan áhuga á að sjá orginalinn, þótt ekki væri nema til að átta mig betur á muninum á endursögn og þýðingu – hversu langt er skriðið frá frumtextanum). Bókin fjallar um grænlenska jarðálfinn Tralla sem er ofsa þreyttur og sofnar á ísjakanum sínum og ísjakann rekur lengst suður í höf á meðan Tralli sefur – eftir því sem hitnar bráðnar ísjakinn og Tralli sekkur sofandi ofan í sjóinn þar sem hvalur gleypir hann. Hvalurinn fær nóg af hrotunum í Tralla og hnerrar honum út þar sem honum skolar upp á eyju. Á eyjunni býr fjölskylda – kóngur, drottning og kóngsdóttir – og þau skoða Tralla og toga í rófuna á honum og finnst hann í hæsta máta furðuleg vera. Þegar hann svo vaknar, ægilega reiður að láta fara svona með sig, flýja kóngurinn og drottningin, en kóngsdóttirin er ekkert hrædd heldur vingast við Tralla. Þau verða mestu mátar, leika sér allan daginn í höfrungastökki og alls kyns sprelli, áður en þau fara svo að sofa til þess eins að eiga orku til að leika næsta dag líka.

Alla vega. Hér gæti maður sagt sem svo að boðskapurinn sé að maður eigi ekki og þurfi ekki að óttast ókunnuga, langtaðkomna útlendinga – að „menningarlegir árekstrar“ eigi ekki að þurfa að vera miklir, enda viljum við flest bara leika okkur og hafa það gott. Þarna er líka dálítið skot á eldri kynslóðina sem óttast – eiga erfiðara með að díla við breytingarnar (á einni nóttu verður fjórðungur íbúa suðurhafseyjunnar norrænir púkar) á meðan þau sem yngri eru, þau sem hafa ekki enn skapað sér venjur og rist hugmyndir sínar um heiminn í stein, taka ekki bara því sem verða vill heldur eru fær um að njóta þess. Það þarf hvorki að vera trámatískt að koma í nýjan menningarheim eða að aðrir komi inn í manns eigin menningarheim.


Síðan flækjast málin við að kóngurinn er negrakóngur, drottningin negradrottning og kóngsdóttirin negrakóngsdóttir. Myndirnar eru til þess að gera klassískar „golliwog“ myndir. Þetta eru suðurhafsfrumbyggjar. Í sjálfu sér eru myndirnar ekki „rasískar“ – það er ekkert við þær per se sem skilur þær að frá þeim afmyndunum sem eiga sér stað almennt í teiknimyndum. Hvíti strákurinn Stubbur – úr sama bókaflokki – er ekki „nær“ því að líta út „einsog“ hvítur strákur en konungsfjölskyldan er því að líta út „einsog“ suðurhafsfrumbyggjar á eyðieyju. Þetta eru afskræmingar – en það eru teikningar eiginlega alltaf (í gær hlustaði ég á viðtal við Art Spiegelman, sem skrifaði Maus, þar sem hann benti á að á meðan teikning af Betty Boop væri eðlileg og kynþokkafull yrði teikning af Angelinu Jolie aldrei annað en ankannaleg – samt er Betty Boop afskræmingin á meðan teikningin af Angelinu „líkir eftir“ raunveruleikanum).


En þessar teikningar verða líklega seint – ef þá nokkurn tíma – aðskildar frá rasískum bakgrunni sínum, þær tilheyra í einhverjum skilningi kúltúr sem gerði lítið úr svörtu fólki og hafði fyrir þræla og sá kúltúr bergmálar ekki bara í sakleysislegum referensum á borð við svona teikningar (og notkun orða einsog „negri“) heldur líka í efnahagslegri og félagslegri stöðu svartra glóbalt annars vegar og í tilteknum samfélögum hins vegar. Það er bara staðreynd, hvað sem maður ætlar svo að gera við þá staðreynd.

Þá er líka ágætt að hafa í huga að öll tjáning er líka einhvers konar samkomulagsatriði milli þess sem talar og hins sem hlustar. Það að þér finnist ég móðga þig er ekki það sama og ég sé að (reyna að) móðga þig. Merking skapast fyrst og fremst milli fólks – en ekki bara hjá viðtakandanum eða bara hjá sendandanum. Og ég held að það sé mikilvægt að láta ekki einsog hér sé um illvirki að ræða – eða einu sinni sakleysislega fyrirlitningu. Það er þvert á móti alveg hugsanlegt að það hafi engin fyrirlitning verið send af stað, þrátt fyrir að hún hafi borist til margra. Í samfélagslegum skilningi er það einhvers konar kommúnal fagurfræðileg ákvörðun að eitt sé óásættanlegt en annað ekki – að golliwog brúður séu yfir strikið en Uncle Ben’s Rice séu það ekki.

Í grunninn er boðskapurinn í Tralla einfaldlega jákvæður og fallegur, þótt orðanotkunin og myndastíllinn sé „óheppilegur“ – og langtum fallegri og jákvæðari en í sögunni um vettlinginn eða bara til dæmis Ljóta andarunganum (sem finnur enga hamingju fyrren hann kemur til „sinna eigin“) eða öllum þeim ótal barnabókum sem smætta kvenkyns persónur sínar í klappstýrur atburðarásarinnar, sem kemur þeim annars lítið við.

Þetta þýðir ekki að það sé alltaf hægt að kenna þeim sem móðgast um að hann móðgist – en það er heldur ekki alltaf hægt að kenna þeim sem móðgar um að hinn móðgist. Þetta er einn af ótal ófullkomleikum tungumálsins – og líklega bæði stærsti galli þess og kostur. Við skiljumst aldrei nákvæmlega frekar en við skiljum nákvæmlega og í því felst bæði hryllileg noja og afdrep fyrir undanbrögð – en líka möguleikar á annars konar yfirskilvitlegri snertingu milli mannvera, sála, hugsana, sem ég held að væri óhugsandi ef tungumálið tjáði fullkomnar hugsanir án þess að nokkurrar túlkunar væri þörf. Ef nauðsynlega þarf að skera úr um hvort móðgun hafi átt sér stað er síðan líklega skömminni skárri að sá sem særist fái að ráða því – en það er líka best að halda slíkum úrskurðum í algeru lágmarki, enda myndi það sem grunnregla fela í sér möguleikann á nýju og yfirgengilegra einelti. Allur versti yfirgangur heimsins, frá nasistum til bandarískra hernaðarafskipta til hryðjuverkamanna til afskipta Ísraelsríkis af Palestínu, hefur verið framinn í nafni hins réttláta fórnarlambs sem rís á fætur og „neyðist“ til að fella kúgara sinn. Ef menn fengju – sem prinsipp – algert sjálfdæmi í því hvort þeim hefði verið gert eitthvað þarf varla að spyrja að afleiðingunum.

Það eru til kenningar um valdastrúktúr þar sem því er haldið fram að það verði að fara „mýkri“ höndum um þá sem standa utan valdsins – fyrir sakir demógrafíu frekar en eigindlegs raunveruleika (þá bjargar það manni ekki að vera hvítt hyski, til dæmis, því maður er samt hvítur). En það er hætt við að slík skipting í þá sem má gera gys að eða afskræma og hina sem má ekki veita sömu meðferð, skapi hliðarstétt sem verði á einhvern furðulega hátt eilíflega út undan fyrir sakir þess hve valdastéttinni (þ.e.a.s. velmeinandi hvíta valdafólksins sem ákveður svona hluti) er annt um þá. Þetta vandamál kom meðal annars upp í umræðunni um múhameðsteikningarnar um árið – og jafnvel í Karlar hata konur málinu nú nýverið. Og getur verið bæði – það getur bæði þurft að veita fólki ólíka meðferð eftir demógrafískri stöðu og haft hryllilegar aukaverkanir á stöðu þeirra að það fái ólíka meðferð (sem verður þá að lækna með einhverjum öðrum lyfjum).

Altso: Ef niðurstaðan verður sú að það er talað illa um alla nema þig – í gamni og/eða alvöru – þá verður það hugsanlega til þess að undirstrika hversu utanveltu þú ert í raun og veru og hvernig þú færð aldrei að vera sentral. Þetta er það sem heitir patróníserandi umhyggja. Og hún birtist líka á hinn veginn, sem yfirdrifinn áhugi á að sannfæra mann um eigin ágæti. Þegar ég var í óléttuhópnum í Svíþjóð sagði hjúkrunarfræðingurinn okkur strákunum tíu þúsund sinnum á dag að við værum mjög, afar, fjarska, afskaplega mikilvægir í þessu öllu saman og við mættum ekki gleyma því. Mér hafði satt best að segja aldrei komið það til hugar að ég væri það ekki og þessi sannfæringarkraftur konunnar hafði einungis þau áhrif að fá mig til að efast – mér fannst einsog að þetta gæti ekki verið satt, fyrst hún fann hjá sér þörf til að ítreka það svona oft. Áróðurinn hlýtur alltaf að vera lygi. Mér verður stundum hugsað til þessa þegar ég sé hin og þessi samfélagslegu átök fara í gang – hvort sem það eru átök sem eiga að fá drengi til að elska bækur eða stelpur til að spila í rokkhljómsveitum. Kannski er það mótþróaröskunin í mér, en hún er ábyggilega líka víða. Ef ég væri kona myndi það ábyggilega hvarfla að mér í hvert einasta skipti sem ég væri beðinn um að gera eitthvað í hóp – birta ljóð í tímariti, skrifa grein í blað, o.s.frv. – að það væri bara til þess að laga kynjakvótann.

Það breytir aftur voðalega litlu um að líklega er mikilvægt að strákar lesi bækur og stelpur spili rokktónlist – og mikilvægast að fólk fái að dafna á eigin forsendum, að eins miklu leyti og það er yfir höfuð hægt.

Allavega. Voðalega getur maður farið út um allar trissur.

Ég segi aldrei negri þegar ég les bókina fyrir Aram. Enda alveg nóg að segja að þau séu kóngafjölskylda. Nú er reyndar svo komið að Aram fyrtist við þegar ég kalla kóngsdótturina í Stígvélaða kettinum kóngsdóttur – honum finnst hún ekkert líta út einsog kóngsdóttir (í öllum öðrum bókum sem hann á eru þessar verur kallaðar prinsessur). En ég velti því samt fyrir mér hvort ég eigi að lesa Tralla – mér finnst bókin bæði skemmtileg og boðskapurinn góður, myndirnar einfaldar en fallegar, þrátt fyrir allt annað. Og það er kannski líka aðalatriðið. En maður er náttúrulega ekki með pólitískan rétttrúnað í hjartastað til einskis. Ég ætti náttúrulega að vera löngu búinn að brenna helvítið. Ég sem froðufelldi yfir endurútgáfu Negrastrákana og Múhameðsteikningunum í Jyllandsposten. Þetta er ábyggilega einhvers konar yfirsjón. Linkind. Heimilið ætti að ráða sér móralskan stalínista í hlutastarf til þess að hreinsa svona viðbjóð út og láta heimilismenn heyra það þegar þeir halda að það megi vera undantekningar.

Nötur gömlu nútíðarinnar – sýnidæmi

March 14, 2012 in blogg

Fáanleg hjá Þórdísi Björnsdóttur/Út úr ýmsu: uturymsu@gmail.com

Copyright society wants royalties for library volunteers who read to kids

March 14, 2012 in blogg

p, li { white-space: pre-wrap; }

Belgian copyright society wants royalties for library volunteers who read to small groups of children – Boing Boing, http://boingboing.net/2012/03/13/belgian-copyright-society-want.html

Þriðjudagur, 13. mars

March 13, 2012 in blogg

Það er einhvers konar dyggð að merkja við dagana. Leggja við hlustir eftir sjálfum sér. Dokúmentera. Hér er einhver heima, held ég.

Í dag var Aram lasinn, einsog í gær og alla helgina – eða raunar leið honum bærilega, en var á síðasta degi heimlegu. Við hlustuðum á Kardemommubæinn, horfðum á Stundina okkar og bökuðum síðan flatkökur á pönnukökupönnunni – en ætlum að prófa að gera það á pizzasteininum næst. Átum afganga í hádegismat – kartöflugnocchi og brokkolí frá því í gær. Svo fór Aram að sofa en tilkynnti mér hátíðlega korteri síðar að hann væri vaknaður. Eftir dálítið þjark fór hann svo aftur að sofa og korteri eftir að hann þagnaði kom Nadja heim úr skólanum og við höfðum vaktaskipti. Ég skellti í mig verkjalyfjum – er hugsanlega að fá flensu sjálfur – tók stóru bókina mína og nokkra penna og gekk upp á háskólabókasafn þar sem ég hélt áfram að glósa hjá mér bygginguna í (endurskrifuðum) fjórða hluta Illsku í nokkra klukkutíma áður en ég fór í búðina og eldaði kvöldmat. Las Söguna um skessuna sem leiddist, Blómin á þakinu og eina sænska bók (í íslenskri snarvendingu) um óbugandi prinsessu sem sigrast á kjallaratrölli fyrir Aram.

Á morgun fara Nadja og Aram til Turku og þaðan áfram til Svíþjóðar að heimsækja ættingja. Ég fer sjálfur til Umeå á Littfest og svo áfram til Stokkhólms, Gautaborgar og Malmö til að kynna sænsku þýðinguna á Eitri fyrir byrjendur, sem gengur bara furðu vel held ég. Það er víst ólíklegt að við hittumst neitt í Svíþjóð – og ekkert fyrren hérna heima eftir eina og hálfa viku.

Bannað að reykja

March 13, 2012 in blogg

Tekið á hótelinu í Hamar.

Gift för nybörjare på SVT: “En halsbrytande kärlekskarusell” | Eiríkur Örn Norðdahl

March 13, 2012 in blogg

Gomorron Sveriges litteraturrecensent, Yukiko Duke, var väldig nöjd med Gift för nybörjare, som har nu kommit ut hos Rámus, och kallade boken bland annat för en “en halsbrytande kärlekskarusell” med ”svart komik som gnistrar mellan raderna”.

via Gift för nybörjare på SVT: “En halsbrytande kärlekskarusell” | Eiríkur Örn Norðdahl.

Subbuskapur og sóðarit: Kæra Kristín – 1. hluti

March 13, 2012 in blogg

Það getur líka verið algerlega yfirgengilegt og út yfir allt velsæmi að gefa bók, einsog Jón Baldvin Hannibalsson hefur sýnt fram á og var í fréttum nýlega, og skiptir þar miklu máli hvaða skilaboð fylgja með – en ekki samt endilega. Þegar ég var rétt skriðinn yfir tvítugt ljósritaði ég einu sinni sögu fyrir tvær stelpur sem ég átti að kenna ensku til samræmds prófs, og þær tóku því svo illa að þær komu aldrei aftur. Sagan var The Man Who Taught his Asshole to Talk. Og er alveg áreiðanlega yfir strikið þegar maður er fjórtán ára. En ég var þá og er reyndar enn þeirrar skoðunar að unglingar þurfi að komast í tæri við libidískar bókmenntir – bókmenntir um ofbeldi og kynlíf – ekki vegna þess að ég sé svo vondur maður (nema ég sé það alveg ómeðvitað, sem er auðvitað alveg hugsanlegt, sérstaklega á síðustu og verstu) heldur vegna þess að ég tel að libidískar bókmenntir séu sérstaklega vel hönnuð tól til sjálfskoðunar og nautnar þegar maður er á sínum hormónuðustu skeiðum.

via Subbuskapur og sóðarit: Kæra Kristín – 1. hluti.

Rasmus Klumpur & nútímalistin

March 12, 2012 in blogg