23. – 24. apríl

April 24, 2012 in blogg

Svona var gærdagurinn. Dagurinn í dag var eitthvað svipaður. Ætli ég hafi ekki sofið samt heila fimm tíma í nótt, frekar létt, en samt, það er í áttina. Ég át müsli, drakk kaffi, fór með Aram á leikskólann. Nadja var heima fyrripartinn og við spjölluðum dálítið og svo fór ég að vinna. Ég kláraði að vélrita upp allt sem þurfti að vélrita upp. Á morgun fer ég til Helsinki til þess að taka þátt í listahátíð – lesa upp með mörgum eftirlætis hljóðljóðaskáldunum mínum, Jaap Blonk frá Hollandi, Adachi Tomomi frá Japan, Leevi Lehto frá Finnlandi og Cia Rinne – hvaðan sem hún nú eiginlega er og er ekki, Danmörku, Finnlandi, Þýskalandi og sígaunalandi. Eitthvað þannig. Og get vonandi unnið í lestinni. Í Helsinki mun ég búa hjá vini mínum, rithöfundinum og bókmenntagagnrýnandanum Mathias Rosenlund og hlakka mikið til að sjá hann aftur.

Ég er að reyna að tæma frystinn – átti 300 grömm af smokkfiski sem fóru í wok með papriku, vorlauk, bambus, basil, kóríander, engifer, hvítlauk, chili, fiskisósu, sojasósu og smá hnetusmjöri. Og núðlum. Það var fjarska gott. Nadja var í jóga í dag svo við átum ekki fyrren eftir átta.

Svo lagði ég Aram. Ég hef ekki tölu á öllum bókunum sem við höfum lesið í dag – en í þokkabót horfðum við á tvo þætti af Stundinni okkar. Mér finnst einsog það séu syngjandi börn frá Hólmavík í hverjum einasta þætti. Og það er líklega meira en bara tilfinning. Það er beinlínis eitthvað samsæri. Íslenska barnaefnið er annars í bullandi samkeppni við sænskt barnaefni – eða eins bullandi samkeppni og maður getur verið í þegar maður skíttapar alltaf. Það er til hryllilega mikið af góðu sænsku sjónvarpsefni fyrir börn – en á Íslandi virðist það gilda að ef framleiðandinn hefur metnað hefur hann engan pening og ef hann hefur pening hefur hann engan metnað. Og oft hefur hann hvorki metnað né pening. Við sáum að vísu bíómyndina um Þór í flugvélinni um daginn, eða góðan hluta af henni – það var fullorðins. Eða barna, altso. Metnaðarfullt og bara hreinlega ágætt. Og svo sáum við náttúrulega Galdrakarlinn frá Oz – mikið er það furðulegt að það skuli vera hægt að gefa út almennilegar bækur fyrir börn og setja á svið stórbrotin og sýnilega dýr leikrit fyrir börn en það skuli ekki vera hægt að framleiða almennilega sjónvarpsþætti fyrir þau.

Röfl, röfl, röfl. Djöfull sem ég get röflað. Ég gæti haldið áfram í allt kvöld. Það þyrmdi yfir mig einhvern tíma í dag þegar ég fór að hugsa um öll gagnaver heimsins, afvelta af röfli.

Ég er annars að lesa Hunger Games. Maður er ekki með nema maður hafi skoðun á Hunger Games. Merkileg þráin eftir því að fylgjast með fulltrúum sínum, aðalsöguhetjunum, taka siðferðislega réttar ákvarðanir við erfiðar aðstæður. Merkilega fullnægjandi á einhvern pervertískan hátt. Einsog maður sé alltaf að tuldra við sjálfan sig hvað maður sé góð manneskja.

Share to Facebook
Share to Google Plus