14. maí

May 14, 2012 in blogg

Hvernig var þetta nú aftur? Jógúrt með müsli, kaffi, leikskóli. Leiðindaveður. Hálfblautt en ekki alveg. Kom heim og las og las. Og las og las og færði síðan inn ríflega 300 athugasemdir. Ég á eftir að laga eitthvað smáræði í þriðja hluta – eða laga, það eru kaflar sem virka ekki alveg einsog þeir eiga að virka. Nema ég hafi bara verið of þreyttur þegar ég las þá í þessari yfirferð (þetta eru nýjir kaflar og mér fannst þeir stórfínir í fyrstu yfirferð, þetta var önnur). Það kemur í ljós á morgun. Annars er þetta fáránlega nevrótísk vinna. Ég átta mig á því að ég hef allt sumarið fyrir mér, eða bróðurpart þess allavega, en það er samt alltaf síðasti séns til þess að koma í veg fyrir mistök. Þegar það er búið að prenta þetta er það endanlegt. Búið.

Ég hef einu sinni gert ófyrirgefanleg mistök. Það var í Howl-þýðingunni minni, þar sem illuminated varð flóðlýst en átti að vera (og var fyrst) uppljómaðir. Uppljómaðir menn á húsþökum urðu ósköp venjulegir menn á flóðlýstum húsþökum. Ég breytti því einhvern tíma snemma í ferlinu – a.m.k. áður en ég tók upp hljómorðadiskinn með Gímaldin því þetta er vitlaust þar líka. Sú bók fór í gegnum ritstjórn á held ég fjórum forlögum áður en hún kom út og var þess utan lesin af ótal öðrum – ég fletti upp í alls lags bókum (sérstaklega um Ýlfur) og ráðfærði mig við fólk og bar saman við þýðingar á þau mál sem ég kann eitthvað í. Það vantaði ekki að ég væri að vanda mig, að metnaðurinn væri mikill. Og samt skeit ég í brækurnar í þýðingu á einu frægasta kvæði bandarískrar bókmenntasögu. Og ég get aldrei tekið þetta til baka; þetta verður aldrei endurprentað, enda held ég að litla upplagið sem var prentað sé stjarnfræðilega langt frá því að vera búið. Fokk.

Þetta má ekki. Og þetta má ekki koma fyrir í Illsku. Ekkert ömurlegt fokkopp sem ég verð mörg ár að jafna mig á. Þau eru auðvitað annars eðlis fokköppin sem geta komið fyrir í manns eigin bók en sem geta komið fyrir í þýðingu – en ég veit líka alveg hversu blindur maður getur orðið. Maður getur orðið mjög blindur. Ég hef leiðrétt og lagað fáránlega hluti í handriti að öllum mínum bókum. Ég viðurkenndi þetta ekki einu sinni lengi, með Ýlfur – sagði bara að flóðlýst og uppljómaðir væri jafnrétthá túlkun. Og í einhverjum bókstafsskilningi er það alveg rétt. En það breytir því ekkert að ég og allir aðrir vita hvað var meint þarna.

Við átum couscoussalat í kvöldmat. Lásum Í búðinni hjá Mústafa. Horfðum á Game of Thrones.

Á næstu dögum bíður mín að panta far til Frakklands, svara síðustu spurningunum fyrir Grapevine, lesa meira og vandlegar og pakka og flytja.

Share to Facebook
Share to Google Plus