15. maí

May 15, 2012 in blogg

Ömurlegur dagur. Ég held ég sé eitthvað veikur. Nema það séu himintunglin. Loftþrýstingur. Ég held það bresti brátt á með þrumuveðri og þá líður mér alltaf einsog hausinn á mér sé að springa.

Jógúrt og banani, kaffi, leikskóli. Fór ekki í búðina á leiðinni til baka af því ég hugðist ekki elda neinn kvöldmat. Það var vorhátíð á leikskólanum sem hófst klukkan sex og lauk klukkan sjö og ég sá ekki fyrir mér að ég myndi nenna að byrja að elda kvöldmat klukkan hálfátta-átta. Ekki á virkum degi allavega. Svo við fórum út að éta á kínverskan stað sem er hér einhvers staðar í skóginum. Maturinn minn var góður (setsjúan kjúklingur) en allir aðrir pöntuðu sér eitthvað rusl og geta sjálfum sér um kennt. Ekki þar fyrir að þetta eru nú engir gourmet veitingastaðir hérna í úthverfinu, inni í miðju finnsku skóglendinu.

Nema hvað. Kom heim og svaraði spurningum Grapevine, þessum tveimur sem ég átti eftir (og hafði hugsað mér að sleppa – en Haukur Magg sýnir enga linkind, þótt hann hafi reyndar sagt að ég mætti sleppa spurningum, þá stóðst það auðvitað ekki neitt þegar til kastanna kom). Ég var mjög skemmtilegur. Þetta voru bestu svörin mín. Þeir vita hvað þeir eru að gera þessir blaðamenn.

Og svo var dagurinn ömurlegur. Ég reyndi bróðurpartinn af vinnudeginum að panta flugfar til Barcelona fyrir fjölskylduna en fékk endalaus errorboð og allir láta einsog það sé ekki þeim að kenna – flugfélög, ferðaskrifstofur, bankinn og borgun.is. Líklega þarf bara að hringja pöntunina inn með öllu því veseni og aukagjöldum sem slíku fylgir. Af þessu fékk ég feykilegan höfuðverk (nema það hafi verið himintunglin). Svo las ég þessa kafla í bókinni sem ég var efins um og ég er ekkert efins um það lengur. Þetta er alveg skotheld bók. Og ég mun samt hafa áhyggjur af henni næsta rúma hálfa árið að lágmarki. Þannig er það bara.

Svo lá ég og las svolítið um það hvernig trúarbrögð (í skilningnum hópar af fólki sem stunda sameiginleg ritúöl og líta á þau sem heilög) gera fólki auðveldara um vik að þjappa sér saman og standa sig betur í samkeppni hópa. Þar kom meðal annars fram að samkvæmt rannsóknum endast kommúnur betur ef þær krefjast fórna af meðlimum sínum, og þær kommúnur sem stofnað er til á trúarlegum forsendum endast að jafnaði lengur en þær sem stofnað er til á veraldlegum forsendum. Ástæðan er sú að þeir sem trúa efast ekki að sama marki um markmið hópsins eða þau ritúöl sem notuð eru til að skapa hóptilfinningu (svo sem bænir og messur og söngvar og leikfimi og hóphugleiðsla) – veraldlegar kommúnur (sem voru í þessari rannsókn flestar á vegum sósíalista) héngu ekki jafn lengi saman vegna þess að þar var statt og stöðugt verið að pota í allt, rýna í það og rífast og efast um tilganginn og þar fram eftir götunum. Sem meikar náttúrulega sens.

Allavega. Við fórum á vorhátíðina og það var gaman og svo átum við kínamat og gengum heim í hnapp undir regnhlíf.

Share to Facebook
Share to Google Plus