30. júní

June 30, 2012 in blogg

Það er víst ekki seinna vænna að hefja áróðursflutning vegna forsetakjörs. Ég þekki fyrirtaks fólk sem ætlar að kjósa Ólaf, Þóru og Herdísi – ég þekki fyrirtaks fólk sem hefði getað kosið Ara Trausta (ef það liti ekki á það sem forgangsatriði að losna við Ólaf) og ég hefði sjálfur alveg getað kosið Hannesi eða Andreu, enda sé ég ekki betur en þau séu fyrirtaks fólk. Ég sé ekki hvernig við getum tapað. En einsog venjulega þegar Íslendingar fara að tala saman hafa nærri allir orðið sér til skammar svo sjálfsagt eigum við ekkert af þessu góða fólki skilið.

En já. Ég reikna einsog allir aðrir með því að Ólafur Ragnar vinni. Það væri ágætt ef fólk gæti tekið því af stillingu – prinsessan á Bessastöðum situr í 2-4 ár í viðbót. Það var enginn að drepast. Ísland mun ekki sökkva í hafið og þetta mun ekki marka upphafið að endalokum lýðræðisins einsog við þekkjum það. Klappstýran vann og puntudúkkan tapaði. Big deal.

Nema hvað.

Við Aram vöktum hvor annan með hóstaköstum sem hafa farið síversnandi síðustu daga. Ég er með væga hálsbólgu og hann er í öllu falli frekar kvefaður – hann kveinkar sér eiginlega of lítið til að geta verið með hálsbólgu. Við læddumst á fætur til að vekja ekki Jocke, sem hafði eftirlátið okkur stóra rúmið sitt og svaf sjálfur á sófanum í stofunni. Ég gerði graut fyrir Aram og fékk mér sjálfur banana. Jocke vaknaði og hellti upp á kaffi. Það var eitthvað talað um að athuga með morfar sem er í sumarfríi úti á eyju nálægt Västerås en á endanum afréðum við að láta það bara vera. Aram og Jocke horfðu svolítið á Jóga björn í sjónvarpinu og svo tókum við strætó niður í bæ og lest til Norrköping þar sem við átum hamborgara og franskar á meðan við biðum eftir rútunni til Vistinge. Þar hefðum við þurft að bíða í klukkutíma eftir næstu rútu til Rejmyre, sem er 17 kílómetra upp einn afleggjara. Þess í stað ákváðum við að húkka okkur bara far.

12060500

Aram Nói í æfingarennsli.

Við biðum í sjálfu sér ekki lengi – kannski 20 mínútur í mesta lagi. En það er alveg merkilegt að fylgjast með hverjum hálftómum bílnum á fætur öðrum keyra framhjá tveggja ára dreng og pabba hans klyfjuðum í stað þess að stoppa. Ég er reyndar vanur því að þurfa bíða lengi sjálfur – það halda allir að ég ætli að nauðga þeim. Ég lít bara þannig út. En ég hef húkkað mér far með stelpum og það svínvirkar (fyrir utan bílstjórana sem segjast þvííííí miiiiiðuuuur bara hafa pláss fyrir einn og það verði að vera stelpan – þeir eru líka nauðgaralegir einsog ég). En ég reiknaði bara með því að fyrir manni með lítið barn á sveitaafleggjara úti í rassgati myndi fólk stoppa. En það tók samt alveg þrjátíu bíla að fá far – sem betur fer var óvenju mikil traffík.

Puttaferðalög eru annars merkileg tilraun í að gæða og svipta mann tiltrú á mannkyni til skiptis. Á endanum kom eldri maður sem var alinn upp í Rejmyre en á þar nú sumarhús. Hann byrjaði á því að flytja draslið í aftursætinu í skottið, setja upp sætin og gera fínt fyrir okkur – og var ekkert að sleppa því að stoppa þótt það væri smá vesen því samfara. Hann sagði mér að glerverksmiðjan (sem pabbi hans átti á árunum 1950-1975) hefði verið 300 manna vinnustaður hér í denn, ein allra stærsta glerverksmiðja Svíþjóðar, og þótt þar ynnu nú bara 25 manns væri hún enn hjartað í atvinnulífi bæjarins – sem þrífst nú að mestu á túrisma (því fólk vill koma og skoða glerverksmiðjuna). Hann spurði eilítið út í mína hagi og ég fékk að segjast vera leggja lokahönd á helfararskáldsögu. Það er yfirleitt gjöfulast að spjalla um þann hluta bókarinnar sem er sögulegur – fólk kveikir bæði mest á sögulegu efni og maður verður aldrei uppiskroppa með deleringar (það er erfiðara að tala um ástina). Þegar við kvöddumst bað hann mig innvirðulegast að skrifa bók um Rejmyre í framtíðinni og ég skyldi þá leita hann uppi, hann vissi allt sem nokkur maður gæti þurft að vita um bæinn. Ég lofaði því.

Tengdamamma var ein í húsinu. Bíll þeirra hjóna hafði bilað svo þau þurftu að slaufa fríi sem þau höfðu planlagt að eyða hjá vinum í Luleå og hún kom bara hingað í staðinn til að taka því rólega – maðurinn hennar, Janne, varð eftir heima. Mágkona mín og öll hennar fjölskylda voru hjá sínu eigin tengdafólki. Tengdó lá í sólbaði þegar við komum og hefði ábyggilega bara viljað liggja þar og slaka á í friði fram á kvöld. Hún lék samt við Aram í svona korter á meðan ég gekk frá töskunum. Svo bauðst ég til að elda kvöldmat en hún sagðist vilja fara út og borða pizzu og hvort við vildum ekki koma með. Lesendum þessarar dagbókar ætti að vera kunnugt hversu margar pizzur ég hef étið síðustu daga – svo ég afþakkaði kurteislega fyrir hönd okkar feðga. Við fórum í búðina í staðinn. Aram horfði svo á Tímon og Púmba og tengdó lá og las á meðan ég eldaði spaghetti bolognese – og alvöru í þetta sinn, ekkert sojakjaftæði, heldur svína/nautahakk og feitt beikon. Það var ógeðslega gott.

Ég las einhverja sænska barnabók um strák sem er með alvarlegan hegðunarbrest (hann sparkar og sparkar og tryllist og tryllist og fótbrotnar í endanum á hamaganginum), söng og svo fór Aram að sofa. Hann kom einu sinni fram og spurði hvort hann mætti taka til. Sem hann mátti. Síðan hefur ekkert heyrst í honum.

Ég ætlaði að vinna fram á nótt en ég hugsa að í þetta sinnið skili ég bara seint og taki því rólega. Klukkan er hálftíu og ég þarf að reyna að tjúna mig niður. Svo er mér líka illt í hálsinum. Ég lít svo á að ég hafi einfaldlega hringt mig inn veikan í kvöld.

29. júní

June 29, 2012 in blogg

Ég stóð á fætur til að fara á klósettið að míga rétt fyrir klukkan átta. Dyrnar voru opnar á ganginum og Aram kom auga á mig þar sem hann var, að mér virtist, að leika sér inni í stelpnaherberginu. Hann kallaði – yfir sig glaður: Pabbi, är du också vaken? (Það hljómar einsog hann tali bara sænsku við mig, en það hefur skánað mikið frá því um daginn, hann talar núna svona fiftí-fiftí íslensku og sænsku við mig). Svo fórum við öll á fætur.

Nadja var miklu skárri þegar hún vaknaði en þegar hún sofnaði. Hún fór til læknisins skömmu eftir níu sem sagðist varla nokkru sinni hafa séð aðra eins sýkingu og gaf henni heilu ruslapokana fulla af allra handanna lyfjum. Ég var frekar stressaður í morgunsárið og fúll einsog ég er jafnan fram undir kvöldmat. En um það leyti sem við fórum úr húsi og röltum saman á lestarstöðina tók það að rjátla af mér.

Við feðgar tókum tvær lestir til Girona. Fyrst ókum við í korter til Port Bou og biðum þar í klukkutíma áður en við héldum áfram til Girona. Ég held að ég hafi áður beðið í Port Bou – þá var ég með amerískri kærustu minni, haustið 1999, á leiðinni frá Barcelona til Genfar. Sú lestarferð, og stoppið í Port Bou, var ekkert nema rifrildi og þögn til skiptis. Ég man samt ekki hvað við vorum að rífast um. Eða hvað við þögðum um þess á milli. Við vorum líka næstum hætt saman (í fyrra skiptið, við hættum saman tvisvar).

Í Port Bou settumst við feðgar á kaffihús og pöntuðum pizzu og franskar. Pizzan reyndist hafa verið frosin og líklega úr pappakassa (sem er annar standard en ég var farinn að venjast í Banyuls). Spænskumælandi asíumaður (eða asískur spánverji) – sem fyrir augljósar sakir minnti mig á spænskukennarann í Community – fór að daðra við Aram og gaf honum á endanum tvær evrur fyrir ís. Aram valdi sér til þess að gera penan kex-ís. Við kláruðum matinn og fórum í lestina.

Í Figueres var einum manni kastað frá borði fyrir að eiga ekki fyrir miða. Ég skil mjög litla spænsku en ég held að hann hafi annað hvort sagst vera á leiðinni í vinnuna eða á leið í atvinnuviðtal. Ég dauðsá eftir viðbragðsletinni og sljóleikanum að hafa ekki bara keypt handa honum miða. Ferðin frá Banyuls til Girona kostar ekki nema 7 evrur. Það var í öllu falli glatað að skilja hann eftir á brautarpallinum. Og miðaverðinum virtist finnast það líka. Allt saman bara ömurlegt. Þetta er kreppueymd. Ég kannast svo sem við kreppueymdina líka frá Helsinki þótt kreppan þar hafi riðið yfir löngu áður en ég flutti þangað – hún var bara svo endingargóð. Bergmálaði vel og lengi.

Í Girona fundum við strax flugvallarrútuna. Ég hafði haft áhyggjur af því að vera með yfirvigt – því Ryan Air blóðrukkar mann fyrir yfirvigt – en slapp með 15,2 kg. Ég vona þá að Nadja verði ekki með yfirvigt á mánudaginn (ég tók með mér megnið af matinum – ostinum, kryddpylsunum, víninu – en skildi eftir föt af Aram og fleira þvíumlíkt). Inni á flugvellinum keyptum við kaffi og vatn og Aram valdi sér Bounty sem hann vildi svo ekkert borða. Þá fundum við krakkahorn þar sem Aram sat nærri því klukkustund í leikfangaflugvél.

Aram sat við gluggann, ég sat í miðjunni, og við ganginn sat arabísk stúlka, kannski fjögurra ára. Þau döðruðu hvort við annað svo til stanslaust fyrsta hálftímann – en við sátum föst þann tíma út af einhverju flugvallarveseni. Þegar við vorum komin í loftið fór Aram að sofa í sætinu, svo til möglunarlaust. Hann stóð sig einsog hetja alla ferðina reyndar og kvartaði eiginlega ekkert nema síðustu mínúturnar í flugvélinni að hann var orðinn svolítið óþolinmóður. Þegar hann vaknaði fékk hann að horfa á teiknimyndir í tölvunni. Svo svaf hann aðeins meira og horfði aðeins meira á teiknimyndir. Þess á milli spjölluðum við.

Við yfirgáfum Girona í tæplega 35 stiga hita og skínandi sól – og lentum í Västerås í tíu stiga hita, roki og rigningu. Við stukkum upp í leigubíl og létum hann keyra okkur í Råby Centrum, þar sem við keyptum egg, pylsur og banana og gengum yfir götuna til Jocke, mágs míns. Bróðurpartinn af flugferðinni hafði ég lagt kapal í símanum mínum og  þegar að batteríisviðvaranirnar hófust hugsaði ég ekkert út í að ég þyrfti að nota símann síðar um daginn. Þegar við komum til Jocke náði ég að kveikja á símanum, náði að skrifa skilaboðin og rétt á því sama augnabliki og síminn tengdist sænska símanetinu kláraðist batteríið. Ég æpti svolítið á húsið í þeirri veiku von að Jocke myndi heyra til mín (í þessu landi eru auðvitað ekki dyrabjöllur á húsum, enda fellur slíkt víst undir einhvers konar barbarisma í mörgum evrópulöndum). Á endanum blessaði drottinn okkur feðga með þremur unglingsstúlkum sem voru á útleið – svo við komumst inn á stigagang og gátum einfaldlega bankað upp á. Ég steikti eggin og pylsurnar upp úr bregott (það var ekki til smjör eða olía), við horfðum á einhverja refabrúðumynd upp úr sögu eftir Roald Dahl, lásum um bílana hans Örnis, ég söng Hættu að gráta Hringaná og Aram sofnaði einsog ég hefði slegið hann í rot. Þá var klukkan reyndar nærri orðin ellefu. Ég var svo stoltur af Aram að hafa spjarað sig svo til vandræðalaust allt ferðalagið að mér fannst hann ekki eiga það skilið að ég ræki hann í rúmið áður en myndin kláraðist. Hann fékk meira að segja að borða smá snakk.

Ég var búinn að steingleyma því í öllu þessu veikindastússi að ég þarf að skila „poetic statement“ á sunnudag fyrir Berlínarævintýrið í haus –  og ég er hvorki byrjaður né kominn heim. Kannski sefur Aram í lestinni á morgun og svo get ég kannski unnið eitthvað fram á nótt á morgun. Þetta kemur allt í ljós. En svo þarf ég að finna mér glugga fljótlega til þess að sofa í svona hálft ár til níu mánuði. Einhvern tíma áður en ég verð lagður inn á hæli með burn-out syndróm (ég er ekki heldur viss um að þetta sé besta andlega eða líkamlega formið til þess að þola heilt jólabókaflóð). En þetta fer einsog það fer. Ég er að reyna að temja mér einhvers konar fatalíska afstöðu til tilverunnar.

28. júní

June 28, 2012 in blogg

Ég svaf út. Þegar ég vaknaði, hálftólf, var Nadja komin með eyrnabólgu. Ég borðaði morgunmat og við fórum á markaðinn til að ná í nokkra hluti til að taka með heim, svo fóru Nadja og Aram að sofa og ég gerði mér ferð á lestarstöðina til að kaupa miða fyrir morgundaginn, til Girona. Þegar ég kom á lestarstöðina var auðvitað síesta svo ég rölti aftur niður í bæ, gekk nokkra hringi í hitanum, litaðist um á ströndinni, fór aftur upp eftir á lestarstöðina, húkti og keypti svo miðana. Þegar ég kom heim vaskaði ég upp og tók til og þreif í eldhúsinu og pakkaði í töskur. Aram og Nadja vöknuðu og ég nefndi að kannski þyrftum við að íhuga að Nadja yrði eftir og kæmi síðar – þar sem það er afskaplega slæm hugmynd að fljúga með eyrnabólgu. Síðan drifum við Aram okkur á ströndina í síðasta sinn, í sjóinn í síðasta sinn, á leikvöllinn í síðasta sinn, og í hoppukastalann í síðasta sinn. Við ætluðum líka í hringekjuna í síðasta sinn en hún var því miður lokuð. Svo keyptum við pizzur og fórum heim. Nadja var að drepast úr sársauka – búin að panta tíma hjá lækni í fyrramálið og strækaði á flugið. Ég keypti nýjan miða fyrir hana „heim“ á mánudagsmorgun. Svo fór ég niður í bæ og keypti sex kúlur af rjómaís í tveimur brauðformum. Fyrir hana eina (Aram fékk að vísu smá). Svo las ég fyrir Aram, kláraði að pakka og drakk einn stóran bjór á meðan við horfðum á Community.

Ég reikna ekki með því að við stoppum neitt í Västerås fyrst við erum bara einir á ferð feðgarnir. Planið var að fá Jocke frænda/bróður/mág til að passa Aram á meðan við hjónin færum út á laugardagskvöld – til að fagna afmælinu mínu sem er daginn eftir, en þá ætluðum við að brenna út í Björnö og njóta lífsins í sumarbústað áður en við færum aftur til Rejmyre. Það er einfaldara að vera með Aram í Rejmyre, meira við að vera, börn að leika við, trampólín og svona. Hér mætast reyndar tvær bölvanir. Annars vegar hefur Nadja alltaf (þrisvar) orðið fárveik á leiðinni heim úr fríum frá því að við kynntumst (og yfirleitt líka orðið veik á jólum og þá stundum við bæði), og hins vegar er ég mjög oft einn á afmælinu mínu. Um og yfir tvítugt gerðist það ár eftir ár að vinir mínir færu á Hróarskeldu og ég yrði einn eftir á Ísafirði af einni eða annarri ástæðu. Á átján ára afmælinu mínu voru mamma og pabbi meira að segja í útlöndum og bróðir minn í Reykjavík á Pulp tónleikum – þá fagnaði ég með því að vinna 14 tíma í rækjuverksmiðju og panta mér pizzu. Einu sinni ákvað ég að þetta gerðist bara vegna þess að ég ætti svo marga vini í Reykjavík en væri alltaf erlendis eða á Ísafirði – og fékk leyfi til að halda veisluna mína heima hjá Hildi Lilliendahl. Þá mætti enginn fyrren eftir tvo tíma (fyrir utan Hildi auðvitað) – og þá bara tveir. Hún á(tti) heima alveg korters strætóferð frá miðbænum og það þótti fulllangt fyrst ég var á leiðinni í bæinn um kvöldið hvort eð var. Í fyrra voru margir vinir mínir úr Reykjavík fyrir vestan vegna listahátíðar í Bolungarvík og ég bauð þeim öllum í sumarbústað til vinar míns en þeir afvegaleiddust eitthvað – en Háli slikk bætti upp fyrir þá alla og dreif mig á ærlegt ball á Flateyri. Fyrir tveimur árum var ég aleinn á Prince tónleikum í Danmörku, loksins komin á Hróarskeldu (ég var í vinnunni, var boðið að lesa þar upp) og sendi konunni minni tilfinningaþrungið fylleríis-SMS í miðju Purple Rain. Árið þar á undan var sæmileg veisla – þá fagnaði ég með Hauki Má. Það hefur yfirleitt gefist vel. Fólk mætir í afmælið hans.

27. júní

June 27, 2012 in blogg

Í síestunni dreymdi mig að fjölmiðlar hefðu ítrekað kallað Þóru Arnórsdóttur „klappstýru“ og fengið afar bágt fyrir. En þegar ég vaknaði mundi ég að það var ekki þannig. Ekki alveg þannig að minnsta kosti.

En fyrst þegar ég vaknaði. Þegar ég vaknaði eftir alveg þriggja og hálfs tíma svefn, vaknaði ég við orðin sem bárust inn af baði: „Men Aram, mamma är fortfarande sjuk“. Ég stundi. Vissi varla hvort ég væri veikur sjálfur. Kvartmaður af svefnleysi. Manntíund af svefnleysi. Og skrepp sífellt meira saman. Við Aram fórum nú samt á fætur, átum morgunverð og fórum á ströndina. Ég held að ég geti sagt með ágætis vissu að eitt parið af ströndinni hafi verið að gera það í flæðarmálinu. Þau voru að minnsta kosti nógu nakin og nógu innileg til þess að maður gæti ekki að því gert að velta þessu fyrir sér. Ég hefði tekið myndir ef það hefði verið viðeigandi. Sem það hefði ekki verið. Þau voru samt með dálitla sýnifíkn. Hún stóð heillengi sjálf með vatnið upp að hnjám, ber að ofan, sneri að strandargestum og fiktaði í geirvörtunum á sér. Eða ég veit það ekki. Kannski klæjaði hana bara svona mikið. Þetta voru bóhemtýpur, vinaleg að sjá, hann kannski 45 og hún ríflega þrítug, og eftir að þau höfðu lokið sér af og voru sest og byrjuð að sóla sig gat ég ekki betur séð en þau væru á kafi í mjög gáfulegum samræðum. Það er reyndar eitthvað við Frakka. Þeir eru mjög góðir í að virðast gáfulegir. Ég skil ekki hvað þeir segja og ber því lítið skynbragð á hvort nokkuð er til í því. En þau voru jafnvel gáfulegri en gengur og gerist í þessu gáfulandi.

Við kipptum með okkur spínat- og geitaostapizzu á heimleiðinni, sem var í hádegismat ásamt leifum af Coca Frita. Nadja var vöknuð og át með okkur. Heilsan var eitthvað skárri og hún sagðist í öllu falli ekki getað sofið meira. Eftir matinn fór ég því að sofa en hún lagði Aram. Ég svaf í rúma klukkustund en lá síðan og bylti mér í tvo tíma í viðbót – á meðan nágrannarnir boruðu göt í steypu, flugurnar suðuðu í eyrunum á mér og það varð sífellt heitara og heitara. Mér leið svolítið einsog ég get ímyndað mér að saltbornum sniglum líði. Eða undnum tuskum. Á endanum stóð ég á fætur til að fara í sturtu og þá vaknaði Aram í næsta herbergi. Ég hjálpaði honum niður til Nödju og sturtaði mig.

Svo vesenuðumst við svolítið, óviss um næstu skref. Hvorki ég né Nadja höfðum lyst á að fara í sjóinn meira. Á endanum fórum við á leikvöllinn með Aram og þaðan í hringekjuna. Hann var afar alvarlegur og kyrrstæður á báðum stöðunum og virtist hundleiðast – nema þegar við ætluðum að fara að í ljós kom að hann hafði aldrei skemmt sér betur um ævina og vildi helst aldrei yfirgefa þessar paradísir. Sérstaklega ekki hringekjuna. En við fórum nú samt af stað.

Planið var að fara heim, skila reiðhjólinu hans Arams og ná í vagninn, fá okkur að borða og leggja svo Aram í vagninum á meðan við kynntum okkur „næturlífið“ – þetta hljómar einsog við séum mjög óábyrgir foreldrar. En við vorum sem sagt meira að spá í að sitja fyrir utan einhverja krá og spjalla í rólegheitunum fram undir miðnætti. Eiga svonefnda gæðastund. Nadja drekkur ekki einu sinni svo heitið geti (ég hef enn ekki séð hana fá sér meira en hálft glas og ég hef aldrei séð hana klára það). En við breyttum um plan – fórum beint á veitingastað. Ég fékk mér carpaccio og calamares; Nadja fékk sér veiði dagsins – sem var margvísleg; og Aram fékk gazpacho og franskar (og át mestmegnis bara franskar). Svo færðum við okkur niður götuna og fengum okkur ís og pönnukökur.

Ég fór að velta því fyrir mér – upphátt við Nödju – hvað teldist slíkur viðburður að það fengi að enda í dagbókinni og hvað lenti milli þilja. Ýmislegt er undanskilið, að sjálfsögðu. Ég er til dæmis bara opinskár um kynlíf annarra. Ég nefndi það aldrei að ömmu líður miklu betur en ég nefndi það þegar ég hélt að þetta væri svo gott sem búið. Nefndi harminn en ekki léttinn. Ég nefni stundum átök milli okkar hjónanna en ekki alltaf. Og svo eru hlutir sem eru eiginlega aldrei viðburðir einir og sér en verða það þegar þeir safnast saman. Einsog það hvernig Aram hefur hefur tekið sér að áhugamáli að „hræða dúfur“ – hann hleypur á eftir þeim út um allt. Eða hvernig hann fylgist með mótorhjólum – æpir upp yfir sig ef hann sér vespuna með pizzakassanum eða þegar einhver mótorhjól eru horfin á kvöldin (hann sem sagt veit hvar öll mótorhjólin og vespurnar í bænum eiga að vera og bendir á þegar þau eru ekki á réttum stað).

Dokumentasjón er náttúrulega líka form af yfirsjón. Maður er alltaf að missa af einhverju. Lífið er svo stórt.

Nú lagði Nadja Aram – við ætlum ekki út að skoða næturlífið heldur að taka því rólega hérna heima. Hún liggur á sófanum og ég ætla að hætta að blogga áður en hún sofnar.

26. júní

June 26, 2012 in blogg

Það leiðinlegasta við að vera ég er að verða reglulega andvaka – og jafnvel stöku sinnum svefnvana í lengri tíma. Þá er ég einsog uppvakningur, dag eftir dag – nema kannski sýnu viðskotaillri og meira inn í mig. Þetta var í sjálfu sér ekki skelfilegt þegar ég var einn og barnlaus, þótt það væri leiðinlegt, en þegar maður er meðlimur í barnafjölskyldu er ekkert endilega spurt hvort maður hafi sofið eitthvað þegar veröldin fer á fætur. Í nótt var ég t.d. enn að bylta mér klukkan fimm – ég heyrði kirkjuklukkurnar hringja inn tímann og sofnaði skömmu síðar – og hafði ekki um neitt að velja nema fara á fætur klukkan átta. Nadja var lasin og Aram vaknaður.

Við átum morgunmat, ég drakk tvær könnur af espresso, og við drifum okkur á ströndina. Þar busluðum við í nokkra klukkutíma, fórum svo í búðina og keyptum spagettí og pestó – og svo heim að borða. Aram skreið upp í hjónarúmið til mömmu sinnar og ég ætlaði að skrifa Hauki Má afmælispóst – sem varð aldrei lengri en „til hamingju með afmælið“ áður en ég lognaðist út af á sófanum. Eftir tvo tíma vaknaði ég og las svolítið í Blood Meridian, sem heldur áfram í Morgan Kane stíl – og á reyndar meira skylt við The Road en ég hélt (mikil auðn, mikil ganga, mikið ofbeldi) eða mér hafði verið sagt.

Einhvers staðar um þetta leyti lét ég framboð Þóru Arnórsdóttur fara í taugarnar á mér. Það fer reglulega í taugarnar á mér. Þetta er eitthvað svo yfirgengilega mikill sólheimafílingur. Ég er mikill fylgismaður bættrar umræðu – ég lít beinlínis svo á að samræðan sé grundvöllur alls lýðræðis og finnst samræðan á Íslandi meira í ætt við handónýtt fjölskyldurifrildi en raunverulegt lýðræði. En mér finnst þessi „sameinumst“ og „framtíðin er nú“ og „forseti allrar þjóðarinnar“ vaðall allur saman  bara vera bull. Vandamál íslenskrar samræðu er vissulega að hluta til reiðin – en það er kannski ekkert mikilvægara en að einmitt viðurkenna að þessi reiði sé til staðar og að hún sé ekki innistæðulaus, hún sé ekki tómur kjaftavaðall heldur raunveruleg vonbrigði, raunveruleg særindi. Og manni getur alveg þótt að forsetinn eigi ekki að vera pólitískur en samt viljað að hann sé eitthvað annað en klappstýra. Mér finnst Ólafur Ragnar aldrei verri en þegar hann er klappstýra. Sem er ansi oft.

Og svo verður enginn forseti „allrar þjóðarinnar“ nema vera með alla þjóðina að baki sér. Það sjá það allir sem vilja sjá að Þóra sameinar ekki nokkurn skapaðan hlut – það er fullt af fólki sem þolir hana ekki.

Í pirringskastinu rétt áður en ég reyndi að skrifa afmælisbréfið skrifaði ég þetta á plúsinn:

Ég áttaði mig annars á því þegar ég horfði á framboðsræður og framboðsauglýsingar í gær að Þóra er – í sænskri þýðingu – Söder-Malm frambjóðandinn. Frambjóðandi eftirveruleikans þar sem allir eru alltaf glaðir með sojalatté, grænmetisverslanir eru risavaxin rakabox og það er ekkert ógeð í heiminum nema neikvæðni annarra. Þóra Arnórsdóttir er kannski kitsframbjóðandinn – með orðum Kundera er hún „hin algera afneitun skítsins“. Söder Malm er í senn yndislegt og fullkomlega ógeðslegt hverfi. Allir sem búa þar eru grafískir hönnuðir. Svona einsog í Prenzlauer Berg í Berlín. Nema þar er a.m.k. smá fjölbreytni – alveg 20-30% íbúanna eru núorðið hostel-bandaríkjamenn með bakpoka með kanadíska fánanum. Smjörkúkar heimsins, sameinist! Ég meina, sameinumst!

Ég kýs annars ekki. Ég hef ekki kosið neitt síðan ég kaus VG 2009. Og veit ekki hvort ég kýs nokkurn tíma aftur. Það er óvíst. Lýðræðið er svo miklu meira en bara þessi blessaði kosningaréttur. Ég veit heldur ekki hvort ég er með kosningarétt og er auðvitað alveg sama.

Eftir síestuna fórum við Aram aftur á ströndina. Við busluðum í sjónum, þóttumst ætla að róa til Kattalands, Hundalands, Hænulands og Refalands. Sóluðum svolítið. Svo fórum við í hoppukastalalandið. Nú var Aram einn, án eldri barnanna sem voru með okkur síðast. Hann klifraði upp stigann í stærsta kastalanum – þar sem er mikil, há og breið rennibraut – og gerði tilraun til þess að renna sér niður stigann. Hann valt í ábyggilega fjóra-fimm stjórnlausa kollhnísa og var afskaplega hræddur þegar hann staðnæmdist – en sem betur fer bara hræddur og ekki nema sjónarmun hræddari en pabbi hans. Til allrar hamingju var ég enn of sljór af svefnleysi – annars hefði ég ábyggilega farið að háskæla líka. Hann sagðist vera með illt í nefinu og vilja fara heim til mömmu en jafnaði sig svo fljótlega eftir að við komum út. Við komum við á matsölustað á leiðinni heim og tókum með okkur tvær Coca Frita, tvær Quiche Lorraine og stóran skammt af grísku salati. Nadja lá í sófanum niðri þegar við komum og horfði á Grizzly Man eftir Herzog. Enginn var sérstaklega svangur svo Aram fékk að horfa á Ice Age 2 áður en ég hitaði bökurnar og við átum saman. Klukkan var komin fram yfir tíu þegar maturinn kláraðist og Aram bað sérstaklega um að fá nú að fara að sofa – venjulega þarf að tæla hann í rúmið með bókum. Við lásum Einar Áskel og svo fór hann að sofa. Ég át dálítið meiri Quiche Lorraine, poppaði og við hjónin horfðum á nokkra þætti af Community. Nú er Nadja ábyggilega sofnuð og ég sit niðri í stofu og er að hugsa um að lesa smá og sjá svo til hvort ég sef ekki almennilega. Mér finnst hálfvegis einsog ég hljóti að verða veikur á morgun. Sem væri leiðinlegt því fimmtudagurinn fer ábyggilega mestmegnis í að pakka og ganga frá og svo er sumarfríið bara búið. Þá er bara eftir allra síðasta rimman við Illsku. Og það er auðvitað ekkert gefið að Nadja verði orðin frísk á morgun. Í síðustu tvö skipti sem við höfum farið til „heitu landanna“ þá varð hún fárveik rétt fyrir brottför – í bæði skiptin lá við að ég þyrfti að halda á henni á flugvöllinn.

Mér finnst annars leiðinlegt hvernig mér tekst aldrei að slappa almennilega af í meira en smástund í senn. Það er mikið til svona óheppni sem veldur. Jólaflensur, páskaflensur og sumarflensur. Einsog líkaminn sé bara að bíða eftir því að lúterska vinnusálin leyfi honum að krassja – sem hún gerir auðvitað bara í fríum. En mér finnst sem sagt einsog það sé árafjöldi frá því ég var áhyggjulaus að njóta mín í meira en nokkrar klukkustundir í senn. Og það er langt síðan að ég áttaði mig á því að ef þetta héldi áfram svona þá yrði það ekki ókeypis fyrir líkama eða sál. Og það er það auðvitað ekki.

25. júní

June 25, 2012 in blogg

Ég fór á fætur með Aram og Nadja lá aðeins áfram í rúminu. Við átum brauð – hann fékk líka banana en hann fékk enga sultu á brauðið vegna þess að ég er hreinræktað kvikindi. Hann fékk smjör og það er bara nóg. Ég svaf eitthvað illa í nótt og var allur einsog hálfur maður fram á hádegi. Gekk fram og til baka. Leit á Klassekampen greinina. Breytti smá. Gekk. Fékk mér kaffi. Geispaði. Heimilismenn voru í óða önn að pakka saman til að koma sér til Japan. Svo kvaddi ég þau rétt áður en þau lögðu af stað, fór í búðina og keypti dót í tapas hádegisverð. Sem var stórfenglegur. Við sátum undir vínberjarunnunum í garðinu og átum og stundum. Svo lagði ég Aram á meðan Nadja las í gegnum pistilinn fyrir mig – svo þurfti ég að stytta hann smá og sendi hann frá mér. Mér var mikið létt að þurfa nú ekki að vinna meira í sumarfríiinu. Ég átti alls ekki að þurfa að skrifa pistil núna – en Íslendingurinn sem er á móti mér, Halldór Guðmundsson, sagði upp með litlum fyrirvara út af önnum með tónlistarhúsið, og ég þurfti að hlaupa í skarðið. Þetta er dálkur þar sem norrænir höfundar býttast á. Allavega. Þegar þetta var farið úr húsi kastaði ég mér í hjónarúmið, keypti mér nýja bók í kindilinn – Blood Meridian eftir Cormac McCarthy og hóf að lesa. Fyrst fór stemningin aðeins í taugarnar á mér – ég hef bara lesið The Road og veit því að McCarthy getur verið feykilega tilgerðarlegur höfundur – en svo sökk ég ofan í þetta og leið einsog ég væri þrettán ára að lesa Morgan Kane.

Svo sofnaði ég, vaknaði, fór og tékkaði tölvupóst og þá vildi ritstjórinn breytingar á pistlinum. Og þetta voru ágætis breytingartillögur – ég þurfti að að fella út mikið um tilurð erindis Helgu Kress og fara aðeins nánar í saumana á því hvaða viðbjóði Hallgrímur væri að ljúga upp á Brynhildi. Ég þurfti að koma kústskaftinu að. En ég fékk algert svona fæ-ég-aldrei-að-fara-í-frí-þarna-helvítin-ykkar áfall og steytti hnefann að guðunum. Því þótt þetta hafi bara tekið upp síestuna hingað til – þá kostar það mig bóklestur og ég er þess utan alltaf í viðbragðsstöðu, eiginlega, rithöfundur á bakvakt, alltaf að hugsa um pistilinn. Nadja og Aram fóru á ströndina á meðan ég kláraði – nú er pistillinn að vísu 200 slögum of langur, og ég á eftir að fá viðbrögð á það – og ég kom til þeirra sirka hálfsjö. Náði samt að synda fullt og sóla fullt – við fórum ekki fyrren rétt fyrir átta. Þá keyptum við müsli í búðinni og gengum upp í hlíð, þar niður einhverja krákustiga niður í fjöru, upp á höfnina og meðfram kantinum aftur upp á strönd. Svo tókum við með okkur pizzu á leiðinni heim og átum undir vínberjarunnanum.

Hér erum við feðgar uppi í hlíðinni.

12060448

24. júní

June 24, 2012 in blogg

Í gærkvöldi dundaði ég mér við að skoða timarit.is.

Orðið „nauðgun“ kemur fram 4334 sinnum í dagblöðum og tímaritum á árabilinu 2000-2009, samkvæmt timarit.is. Þar af 76 sinnum með forskeytinu „meint“ – eða í 1,7% tilvika . Í báðum tilvikum eru talin öll föll í eintölu. Á sama tímabili er 9 sinnum notað orðasambandið „meintur nauðgari“, 3 sinnum orðasambandið „meintur ofbeldismaður“, 15 sinnum „meintur gerandi“, 13 sinnum „meintur hryðjuverkamaður“, 3 sinnum „meintur liðsmaður“, 19 sinnum „meintur fjárdráttur“, 15 sinnum „meintur árásarmaður“, 4 sinnum „meintur þjófur“, 15 sinnum „meintur barnaníðingur“, 14 sinnum „meint fórnarlamb“, 11 sinnum „meint morð“, 2 sinnum „meintur brotaþoli“ (í báðum tilvikum er verið að tala um fyrirtæki) og heilum 55 sinnum „meintur morðingi“.

Alls staðar nema í fyrstu tveimur tilfellunum er bara talið nefnifall.

Þetta segir auðvitað ekki nema hluta sögunnar. En þetta segir samt eitthvað.

Ég er reyndar sjálfur þeirrar skoðunar að þennan fyrirvara sé sjálfsagt að hafa í öllum tilvikum þar sem sök hefur ekki verið sönnuð fyrir rétti. Maður er meintur innbrotsþjófur jafnt þótt maður hafi verið staðinn að verki – eða allavega á meðan maður neitar sök. Það á aldrei að gefa sér sök fólks nema hún sé sönnuð.

Með Klemperer í höfðinu velti ég því líka fyrir mér hvaða merkingu það hafi að orðið „gerandi“ sé orðið jafn neikvætt og raun ber vitni – því orðið þýðir auðvitað bara sá sem gerir. Maður er líka gerandi í góðverkum. Sá sem berst gegn nauðgunum er gerandi – sá sem kærir nauðgun er gerandi í því ferli. En það er orðið að skrauthvörfum fyrir nauðgara. Sem mér finnst slæmt.

Annað sem mér finnst … tja allavega undarlegt … er sá siður að tala um kæranda og kærða sem þolanda og geranda án þess að nokkuð hafi verið sannað. Maður er ekki „gerandi“ í nauðgunarmáli nema maður hafi nauðgað.

En allavega. Dagur. Það kom dagur (þetta röfl hér að ofan er mestmegnis frá því í gærkvöldi, skrifað undir flugeldaregni og fréttalestri, fréttakommentalestri).

Bas er lærður bakari (og lærður húsasmiður) og bakaði fyrir okkur brauð sem við borðuðum með sultu í morgunmat. Svo fór Nadja á markaðinn og ég í sturtu. Nadja kom heim og tók börnin með sér á ströndina, öll nema Liv, sem ég tók síðan með mér þegar ég var búinn í sturtu. En ég stoppaði ekki heldur fór á markaðinn. Þar keypti ég mér fernar nærbuxur (einar með Che Guevara, aðrar í bresku fánalitunum, en hinar nondescript), nýja regnhlíf (hin brotnaði í bílnum á leiðinni frá flugvellinum), tvö tapenöð, flösku af Banyuls, nokkra banana, dálítinn hvítlauk, gataspaða úr plasti (í wokið mitt) og eitt glas af kornóttu sinnepi. Síðan fór ég á ströndina, synti með Aram, synti sjálfur, sólaði mig og svo fórum við heim. Það var steikt grænmeti í matinn.

Ég tók mér síestu á hverjum einasta degi – eða svo gott sem – í Rejmyre en hef ekki beinlínis fundið til sömu þreytu í Banyuls. Hér sofa allir síestu nema ég. Ég dundaði mér aðeins við Klassekampen pistilinn – sem ég þarf bara að slá lokahöggið á og geri það á morgun. Hékk síðan aðeins á netinu og spjallaði við Mariu og Nödju. Þegar börnin vöknuðu af síestunni fórum við á ströndina, syntum og sóluðum okkur. Síðan tókum við Pierre börnin í hoppukastalaland sem var afar vinsælt. Þaðan fórum við í búðina, keyptum steiktan kjúkling sem var étinn með eggaldinskarríi sem Maria lagaði.

Ég las Pettson og Findus fyrir Aram í simultan-þýðingu minni. Ég hef stundum gert þetta en aldrei með jafn langa bók – og heilinn á mér var alveg straujaður eftir ósköpin. Þegar ég var búinn að stama mig í gegnum þessa fínu bók (um pönnukökutertuna) kallaði Aram Nói upp yfir sig: Du kunde det!

Það var nú svolítið erfitt samt, sagði ég.

Men du kunde det i alla fall! sagði þá Aram, stoltur af pabba sínum.

Nú voru að koma gestir til að drekka te. Þeir sitja úti í garði og tala frönsku . Ætli sé ekki best að ég sé með þótt ég skilji ekki það sem fram fer. Á morgun fer stórfjölskyldan í húsinu til Japan og við verðum þrjú ein eftir fram á föstudag að við fljúgum aftur til Svíþjóðar.

23. júní – Fête de la Saint-Jean (eða kvöldið þar á undan)

June 23, 2012 in blogg

Mér er sagt að Frakkar fagni Jónsmessu á morgun. Internetið segir það. 24. júní. En þá er líklega Jónsmessukvöld í dag. Aðfararnótt Jónsmessu. Því á ströndinni er bálköstur og allir niður frá nema ég, þrír steinsofandi drengir og húsfreyjan sem var búin á því eftir tólf tíma shiatsu námskeið á frönsku. En það verða víst einhver hátíðahöld á morgun líka svo líklega stenst þetta. Mér hefur enn ekki tekist að upplifa skandinavíska Jónsmessu – þrátt fyrir að hafa verið giftur sænskri konu í hartnær fimm ár og búið allan þann tíma í Svíþjóð og Finnlandi. Og nú sit ég einn heima og missi af þeirri frönsku. Hér er samt engin maístöng (enda júní í Frakklandi) heldur bara þessi bálköstur.

Dagurinn hófst einsog venjulega á brauði með sultu. Það voru talsvert meiri læti í eldhúsinu en venjulega (enda tvö aukabörn) og ég var talsvert fljótari á fætur en venjulega og fann því einstaklega til með sjálfum mér þar sem ég stóð aftan við morgunverðarborðið í barnaópunum öllum saman og beið þess að kaffið yrði tilbúið. Á endanum drulluðust síðan börnin upp á loft og við færðum morgunverðinn út í garð. Það var ægilegur léttir. Ég var ekki gerður til þess að vera í góðu skapi fyrir klukkan fimm eftir hádegi og sérstaklega ekki klukkan átta á morgnana.

Eftir morgunmat … mikið er alltaf erfitt að muna þetta. Jæja. Ég ætlaði í sturtu en komst aldrei vegna þess að Nadja vildi fá mig með sér út til að hantera barnafjöldina. Ég er grár af sjávarsalti – mörgum lögum af sjávarsalti. En já, einmitt. Við fórum á leikvöllinn. Sem er nýbúið að renovera og það var ekki fyrren heimilisfaðirinn, Pierre, mætti á svæðið að við tókum eftir því (eða hann tók eftir því) að leikvöllurinn var lokaður samkvæmt að minnsta kosti sex ólíkum reglugerðum.

12060296

Svona leit textinn út. Eftir að við fórum inn á leikvöllinn fylltist hann síðan af fólki. Það kom aldrei neinn til að kvarta í okkur – samt er meira að segja lögreglustöð þarna beint við hliðina. En þeir kannski skipta sér ekki af svona smáglæpum. Við hljótum að láta okkur þetta að kenningu verða („he got into the magic bullets and that leads straight to the Devil’s work, just like marijuana leads to heroin“).

Eftir leikvöllinn héldum við heim og átum brennda omelettu í hádegismat (glataðar þessar frönsku pönnur). Ég lagði Aram og fór svo að vinna í pistlinum fyrir Klassekampen og færa inn breytingar í Illsku. Ég þurfti sífellt að færa mig til í húsinu. Fyrst komu franskir gestir sem vildu mjög augljóslega sitja við garðborðið svo mér fannst ekki stætt á að ég tæki það undir vinnuna mína og færði mig inn í sófa. Þá byrjaði sonur gestanna, sem tekur annað hvort of mikið eða of lítið ritalín, að hlaupa öskrandi út um allt svo ég flúði upp á loft. Þar stóð Nadja frammi á gangi og hafði verið að sinna Aram sem var þá rétt svo sofnaður og hafði verið með vesen. Ég kom mér fyrir í svefnherberginu handan gangsins og vann þar.

Þegar Aram síðan vaknaði fórum við öll saman á ströndina. Við Aram syntum alveg heilan helling og fórum meira að segja dágóðan spöl frá landi (miðað við að annar okkar er ósyntur og nær ekki niður í botn ef vatnið er dýpra en sextíu sentimetrar og hinn þarf að troða marvaðann með hann spriklandi í fanginu). Það voru fleiri á ströndinni í dag en í vikunni enda helgi – meðal annars ærslafullir unglingar. Strákar að henda stelpum í sjóinn – það virðist aldrei ætla að verða gamalt. Svo gengum við Aram aðeins niðureftir strandlengjunni og fengum okkur tvo rúnta í hringekju. Aram sat undir stýri í bíl – sem hann sagði ýmist að væri slökkviliðsbíll eða „gamall bíll“ (fornbíll) – og ég stóð álengdar og horfði á. Þegar við komum aftur á ströndina var hluti gengisins farinn að sækja pizzur sem við átum svo í flæðarmálinu. Nadja fór með stelpurnar að leita uppi tónlist sem barst niður götuna og ég sendi Aram einan á eftir henni – en fylgdist með úr fjarlægð. Honum gekk vel framan af en missti síðan þráðinn. Þegar hann fór að kalla fór ég til hans og hjálpaði honum að finna mömmu sína.

Svo aftur á ströndina. Meiri bjór. Meiri sjór. Nú voru eiginlega engir eftir nema við – kannski einn eða tveir aðrir hópar í pikknikk – maður á eftirlaunaaldri sem sat á skýlunni í ljósaskiptunum og réð krossgátur og svo hópar af fólki á ýmsum aldri en allt ungt í anda sem dró með sér bjórkippur og jónur svo marijúanafnykinn lagði yfir alla ströndina. Þá tókum við að tygja okkur heim með yngstu piltana – annar þeirra var valtur af þreytu og hinn kominn með galsa. Þriðji pilturinn, sá elsti, hafði farið heim með móður sinni tveimur tímum fyrr – vegna óþekktar. Nadja lagði Aram og svo fóru þær Bas aftur niður á strönd. Ég sit úti í garði og sýp síðasta bjórinn í húsinu.

22. júní

June 22, 2012 in blogg

Victor Klemperer hét merkilegur maður. Hann dokumenteraði hluta þeirra breytinga sem urðu á tungumálinu í Þriðja ríkinu – hann var málfræðingur af gyðingaættum sem fékk sífellt færri ábyrgðarhlutverk eftir tilkomu nasista en var aldrei sendur í útrýmingarbúðir vegna þess að hann var trúskiptingur og þar að auki giftur lúterskri konu. Og tók upp þessa iðju upp úr hálfgerðu iðjuleysi í bland við ótta og ógeð. Mér varð hugsað til hans um daginn þegar ég sá að Jónas Kristjánsson bloggaði um hrunið og talaði um „gerendur“, sem er yfirleitt notað yfir þá sem beita kynferðislegu ofbeldi og þótt það fyrirfinnist augljóslega víðar fannst mér það eitthvað skakkt hjá Jónasi. Mér varð svo aftur hugsað til Klemperers í dag þegar ég sá að Árni Johnsen notaði (næstum því) orðið „nauðgun“ yfir aðgerðir ríkisstjórnarinnar í kvótamálum – og vísaði í „kynferðislegt ofbeldi“. Slík mál hafa náttúrulega verið mikið í umræðunni – fyrir utan Assange, Strauss-Kahn, Gillzenegger, Jón Baldvin, Ólaf Skúlason, John Travolta og alla hina – þá hafa verið regluleg átök til þess að minna á þessi mál síðustu ár og misseri og sjálfsagt aldrei verið meira um þau rætt en akkúrat núna. Og myndmál smitar. Tungutak smitar. Það nær skriðþunga og stjórnar að talsverðu leyti því hvernig við erum líkleg til þess að hugsa, í hvaða farveg hugsun okkar leitar. Ég hef ekkert skoðað það frekar en mér þykir heldur sem tungutak úr heimi kynferðislegs ofbeldis verði fyrirferðarmeira – og ekkert bara hjá femínistum heldur alls staðar. Enda spyr tungumálið ekkert endilega að því hvort maður aðhyllist það sérstaklega – þannig benti Klemperer til dæmis á að fyrir útgáfu Mein Kampf hefðu gyðingar í Þýskalandi yfirleitt ekki talað um sig sem þjóð, ekki notað orðið „þjóð“ til að lýsa gyðingdómi, en fáeinum árum síðar var það eina orðið sem gilti. Ekki bara hafði Hitler notað orðið til að lýsa gyðingum heldur umfram allt Þjóðverjum (og raunar eiginlega bara öllum). Orðið þjóð var einfaldlega úti um allt. Það var meðal annars þetta sem Burroughs átti við þegar hann sagði að orðið væri vírus. Og kannski þetta sem Drottinn átti við þegar hann sagði að í upphafi væri orðið, orðið væri hjá Guði og orðið væri Guð. Þetta er ábyggilega líka það sem gerðist í hagfræðinni á síðari hluta 20. aldar – frjálshyggjumenn náðu tökum á tungumáli hagfræðinnar og þar með var sigurinn í sjálfu sér unninn. En tungumálið er reyndar afskaplega erfitt að beisla og það bítur mann yfirleitt í rassinn að lokum.

En jæja. Ég sem sagt hætti að blogga í gær rétt fyrir fullorðinskvöldmat. Svo fór allt út um þúfur. Í fyrsta lagi var maturinn allur í staðinn fyrir annan mat. Það voru ekki til bulgur í búðinni svo við notuðum einhverja hveitiklumpa. Það er of hallærislegt að borða appelsínur á sumrin í Frakklandi (þær eru vetrarmatur og mér var tjáð þetta og fann ekki upp á því) svo ég notaði blóðappelsínur í staðinn. Ég var að leita að fljótandi grænmetiskrafti í búðinni og Nadja (sem er með masterspróf í frönskum málvísindum) las á flösku og rétti mér en hún reyndist síðan innihalda einhvers konar sojasósublöndu. Húsfreyjan, sem er norsk en á fjögur frönskumælandi börn með frönskum manni og hefur búið hér árum saman, sagði mér síðan aðspurð að melónuvínsflaskan sem ég rétti henni væri hvítvín (einsog ég hafði haldið, en ekki verið viss um, þegar ég spurði). Það voru svo ekki til nein sinnepsfræ og munaði minnstu að ég hefði notað sólblómafræ í staðinn – en Nadja stoppaði mig af. Nema hvað. Rétt áður en það átti að bera matinn á borð kom upp lúsafaraldur á heimilinu. Ég hélt matnum heitum á meðan hinir kembdu og þvoðu börnin. Svo lögðum við matinn á borðið og þá þurftu tveir drengjanna skyndilega að kúka. Þegar þeir voru búnir kallaði Aram – ég hljóp upp til hans en kom of seint og allt var komið í bleyjuna. Maturinn var skítkaldur og allir eiginlega búnir að borða þegar ég kom aftur niður.

Eftir það var þetta reyndar bara mjög fínt. Við drukkum hvítvín og svo Banyuls – sem er einsog nafnið gefur til kynna staðarvínið. Eins konar púrtvín. Og spjölluðum.

Í morgun át ég brauð með sultu og drakk kolsvart kaffi. Svo fórum við í bæinn að leita að nýjum sundfötum fyrir Nödju en fundum ekki. Svo syntum við svolítið, sóluðum okkur smá, ég keypti mér nýjan hatt og svo fórum við heim. Ég steikti smá grænmeti og blandaði í það afgöngum frá því í gær og svo átum við úti í garði. Ég lagði Aram og fór svo að vinna í grein fyrir Klassekampen sem ég ætla að skila á mánudag. Nú er ég að skrifa um debattinn í kringum Konuna við 1000° og hlustaði á Helgu Kress einsog það var klippt í Víðsjá. Mér fannst þetta eiginlega frekar þunnt. Hún talar meðal annars um þetta að staður konunnar í skáldsagnaskrifum sé „í rúminu“ – ég man ekki hvað hún heitir konan sem setti fram þá kenningu, sem er í sjálfu sér áhugaverð og áreiðanlega að miklu leyti rétt. En það er óttalegur dólgskapur að ætla að troða henni upp á Konuna hans Hallgríms – því sú kenning, hafi ég skilið hana rétt, á fyrst og fremst við þetta að flestar skáldsögur fjalla um karlmenn, hafa karlmenn í sentral hlutverki, og konur þjóna þar því hlutverki einu að vera viðföng ástar þeirra og ástarleikja. Í Konunni við 1000°er þessu eiginlega öfugt farið – Herbjörg María ríður sínum mönnum yfirleitt sjálf. Þeir eru viðföng hennar – og þegar hún dásamar breska hermanninn á ströndinni er hún bókstaflega að hlutgera hann og hans „báli gyllta böll“ (eða hvernig sú líking var nú aftur). Herbjörg María er líka þess utan alltof skyld öðrum persónum Hallgríms, sem flestar hafa verið karlkyns, til þess að réttlætanlegt sé að smætta búkblæti hennar niður í kvenfyrirlitningu. Skrif Hallgríms hafa lengið vegið salt á milli líkamlegrar grótesku – meira Bret Easton Ellis light en Bataille light, en Hallgrímur á bæði París og New York til í sér – og fimmaura fretbrandara og það þarf talsverðan vilja til að álíta það séreinkenni á nýjustu bókinni.

En ætli það verði ekki minnst um þetta í pistlinum. Þetta er mestmegnis reportage og Helga fær ekki meira pláss en dóttir Brynhildar – ég er bara að segja frá því sem sagt var, eiginlega, og vonandi dreg ég einhverja snaggarlega ályktun af öllu saman í fáum orðum.

Eftir að Aram vaknaði fór ég í búðina og restin að sækja stelpurnar í skólann. Svo fóru þau á ströndina en ég að elda kvöldmat – spínatgnocchi. Heimilishjónin voru að fara í partí ásamt vinum sínum og við fengum tvær aukastelpur í kvöldmat – auk vinkonu okkar, Bas hinni finnlandssænsku, sem birtist hérna aldeilis óvænt. Ég man ekki hvar hún á heima og vil ekki kalla (börnin eru sofnuð – 7 talsins) en það er í sjö tíma fjarlægð með lest. Eftir matinn lagði ég Aram og svo fóru hjónin í partí. Nadja og Bas sitja úti í garði og drekka Banyuls og ég er að hugsa um að fara bara til þeirra.

21. júní

June 21, 2012 in blogg

Ég byrjaði daginn á því að dást að konunni minni á meðan hún klæddi sig. Síðan át ég brauð með sultu og smjöri í morgunverð á meðan ég skipti mér sama og ekkert af Aram Nóa og Viktori sem léku sér í garðinum. Aðrir voru í skóla, vinnu eða nýfarnir á markað. Þegar konurnar komu heim af markaðnum pökkuðum við saman og keyrðum til Perpignan. Þar fór gestgjafinn í shiatsu-nám á meðan við hin skunduðum á leikvöllinn. Aram og Viktor fundu brunn með krana og tókst að rennbleyta sig. En það þornaði fljótt. Annars var mest gaman að hræða dúfurnar, sem munu aldrei bíða þessa bætur.

Svo fórum við út að borða – karlmennirnir átu krækling og franskar og allir við aldur drukku bjór á meðan kvenfólkið át rækjusalat (sem var kræsilegra en það hljómar á íslensku – með risarækjum, þúsund grænmetum, einhverjum ávöxtum og var almennt álitið besta salat 21. aldarinnar). Kvenfólkið drakk vatn enda kellingar. Djók.

Svo þvældumst við. Drukkum kaffi á meðan drengirnir sváfu í sama vagninum. Skoðuðum ár og byggingar. Keyrðum svo aftur til baka. Ég eldaði plokkfisk fyrir börnin sem fara nú að sofa – í fullorðinsmat verður steiktur þorskur með capers, haricot vert, wokuðu brokkolí og hvítvínssósu ásamt einhverju bulgurlíki með blóðappelsínum. Verði okkur að góðu.

20. júní – sumarsólstöður

June 20, 2012 in blogg

Það var ábyggilega heil teskeið af heilhveiti í morgunbagettunni. Og einhver fræ. En við átum það með smjöri og sultu. Og drukkum kolsvart kaffi með. Baguette cereales, segir Nadja. Og hún segir líka að við höfum borðað þetta í hádeginu. Ég man orðið ekki neitt (einsog hefur margoft komið fram). Við átum bara eitthvað annað brauð í morgunmat. Kannski var það bara úr hvítu hveiti. Mér finnst það líklegt.

Í dag er miðvikudagur í Frakklandi og á miðvikudögum í Frakklandi fara börn ekki í skóla. Það voru því allir heima í dag. Eftir morgunverð brugðum við okkur á sædýrasafnið – sem er ríflega hundrað ára gömul stofnun í bænum (og stendur auðvitað til að flytja í nýtt og hundljótt hús öllum til ama). Þar sáum við hákarla og marhnúta og sjóvartara og alls kyns ála og krabba og humra. Börnin stóðu öll sem límd við eitt búrið – en þar stóð maður og var að gera við. Eftir sædýrasafnið fórum við heim. Við Aram drógumst dálítið aftur úr og þurftum að haska okkur – ég hljóp en Aram gaf í á hlaupahjólinu.

12060256

Ég steikti grænmeti í hádeginu og við átum það með brauði, kryddpylsu og ólífum. Svo lagði ég Aram og fór út í garð að vinna í Illsku. Nadja lagði sig sjálf og fór að lesa Illsku. Hún rakst þar á orðasambandið „gera dodo“ og spurði mig út í það – því „faire dodo“ (gera dodo) á frönsku er að fara að sofa. Við bjuggum til þá kenningu að franskir sjómenn á austfjörðum hefðu kennt heimasætunum þetta og það svo smitast út um allar trissur.

Þegar börnin fóru á fætur skelltum við í okkur svolítið meiri mat og fórum á ströndina. Ég fór í smá einkaleiðangur og keypti mér ný sólgleraugu, sandala og sundskýlu. Ég velti því fyrir mér að kaupa mér nýjan stráhatt líka, þar sem minn er að trosna í sundur. Hann brotnaði eiginlega. Ég keypti hann í Rauma í Finnlandi fyrir nokkrum árum, þar sem við heimsóttum vin okkar Tapio Koivukari, og hann kostaði morðfjár en er eiginlega ekki nógu góður. Hann er svo déskoti viðkvæmur. En ég keypti engan hatt í þetta skiptið heldur fór bara niður til hinna á ströndinni og tók að busla og sóla mig. Ég stakk svo af og fór heim og bjó til pestó úr basilikunni í garðinum, gerði salat með kjúklingabaunum, papriku, tómötum og gúrku – og svo átum við á okkur gat. Nadja lagði Aram, Pierre og Maria lögðu börnin sín og ég vaskaði upp.

Í tengslum við umræðuna um grein Guðbergs spurði einhver hvort að satíra yrði ekki að vera skiljanleg sæmilega læsu fólki. Mér finnst þetta áhugaverð spurning. Og einhvers staðar er þetta líklega spurning um jafnvægi. Maður verður að geta fundið einhverja (sæmilega ódogmatíska) leið til þess að nálgast textann á sama tíma og maður vill auðvitað ekki geta séð í gegnum hann. Verstu bókmenntirnar eru þær sem maður sér í gegnum – hverra tilgangur er augljós, hverra bendingar segja sig sjálfar. Kennslubókardæmið í satíru, pistillinn A Modest Proposal eftir Jonathan Swift er afskaplega augljós texti en skemmtilegur. Maður veit að hann er að grínast. Maður veit ekki hvort De Sade er að grínast með sams konar texta og maður veit að Hitler er ekki að grínast í Mein Kampf. Staða manns í heiminum skiptir máli – en það er líka eitthvað í textanum sjálfum. 1984 er líka augljós texti – og það er að hluta til þess vegna sem Milan Kundera hefur svo gott sem hafnað því að bókin sé kölluð skáldsaga (hann segir eitthvað á þá leið að hún sé misheppnuð skáldsaga sem hefði kannski orðið ágætis ritgerð). Og 1984 og A Modest Proposal eiga það í öllu falli skylt að vera ekki sérstaklega djúpur eða ágengur skáldskapur, þótt þær séu báðar ágætis ádeilur.

En þetta eru ekki alveg skýrar línur og á þeim eru fáir en mikilvægir kraftaverkapunktar.

Nú ætla ég að hætta þessu röfli og fara út í garð að kjafta við lifandi fólk. Á morgun ætlum við til Perpignan í hálfsdagsferð.

19. júní – kvennadagurinn

June 19, 2012 in blogg

Fyrsti dagur í Banyuls. Í morgunverð var baguette með smjöri og sultu. Og kolsvart kaffi. Ég er ennþá allur í keng eftir sætin í Ryan Air vélinni. Þetta er svolítið einsog að láta kasta sér fimm þúsund kílómetra í lofttæmdri niðursuðudós. Svo morguninn fór í að jafna sig. Dagurinn fór reyndar allur mikið til í að jafna sig. Við fórum í bæinn, horfðum á ströndina. Það var þungbúið. Keyptum í matinn og fórum heim. Banyuls er bara aðeins stærri en Ísafjörður svo þetta allt tók ekki nema örfáar mínútur. Átum pæ með tómötum í hádegismat. Það er engu logið upp á grænmetið í suður Evrópu. Þetta er bara allt annar matur en tómatarnir í Coop í Svíþjóð.

Eftir matinn gekk ég frá pappírum fyrir Þýskalandsferð í haust – bæði til þýðingar og svo einhvers konar steitment/cv – og Nadja fékk Shiatsu nudd hjá gestgjafanum (þegar að í ljós kom að nuddkúnni kæmi ekki). Þegar börnin vöknuðu (gestgjafarnir eiga fjögur börn og það fimmta er á leiðinni) fórum við á ströndina að busla og sóla okkur (það var samt engin sól, en ég held maður verði brúnn engu að síður). Í kvöldmat átum við slaufupasta með kúrbít. Ég lagði Aram – lásum Stúf og Gosa – og svo sat ég ásamt Nödju og heimilisfrúnni í stofunni og spjallaði um barnauppeldi og eldhúsinnréttingar (ég er brennheitur fyrir hvorutveggja) fram til ellefu á meðan herrann gerði skattskýrslu þeirra hjóna.

Fyrir utan líkamlegu ónotin undan endasendingunum hingað suður eftir í gær þá verð ég náttúrulega allur mjög andlega órór strax og útlit er fyrir að einhver fari að gera athugasemd á bloggið mitt. Viljiði ekki bara yrða á mig líka, þarna helvítis skepnurnar ykkar?

En svona án gríns þá finnst mér alltaf erfiðara og erfiðara að eiga „bein“ samskipti við fólk sem ég á ekki nú þegar í langvarandi samræðu við. Það er náttúrulega hluti af þessari einhverfu sem ég hef verið að rækta með mér undanfarin misseri. Og er áreiðanlega ekki holl. En maður verður víst að gera fleira en gott þykir.

Að láta þvinga uppá sig gjallarhorni

June 19, 2012 in blogg

Mér finnst dagbókin mín persónulega ekki vera efni í fréttir og það jafnt þótt í hana riti ég stundum hugleiðingar mínar um „umdeild málefni“. En ég veit samt að ég get sjálfum mér um kennt og maður þarf víst að búast við því að einhver beri gjallarhorn upp að vörum manns ef maður talar upphátt. Shit happens og maður lifir við það.

En ef það sem sagt skyldi einhver reka hér inn nefið sem hefur áhuga á því sem ég hef um Gillzenegger að segja þá er hér miklu betri pistill – hann er að vísu á sænsku en birtist fyrst á norsku í dagblaðinu Klassekampen. Ef einhver vill vita hvað ég hef um nauðgunarkærur í garð fræga fólksins að segja þá má svo lesa um það hér.

18. júní

June 19, 2012 in blogg

Ég át brauð með osti í morgunverð. Í Hrábæ hjá Jocke. Sat svo og fiktaði í skáldsögunni minni í nokkra klukkutíma, gekk niður í bæ, fékk mér pylsu og náði í Nödju og Aram í lestina. Við fengum okkur kaffi, keyptum okkur takeaway af Spicy Hot og tókum leigubíl á flugvöllinn. Þar keyrði ég Aram í þúsund hringi í farangurskerru á meðan við átum matinn. Svo flug. Aram sofnaði fljótlega og við Nadja horfðum á Mad Men. Í Girona tók Pierre á móti okkur og keyrði okkur til Banyuls. Klukkan var að verða tvö þegar Aram fékk loksins að sofa. Hann gubbaði einu sinni í bíltúrnum og grét talsvert af þreytu. Við sáum villisvín á leiðinni, sem honum fannst gaman (en margtók samt fram að við skildum ekki taka það með okkur heim). Svínið hljóp margsinnis yfir götuna og virtist frekar ráðvillt. Alveg efst á fjallinu, á þröngum fjallvegi þar sem Spánn mætir Frakklandi. Svo fórum við bara að sofa.

17. júní

June 17, 2012 in blogg

Í dag var þjóðhátíðardagur. Ég vaknaði á hádegi á sófanum hjá Jocke. Við spjölluðum um kapítalisma í svona klukkustund og þá rölti ég niður í bæ, fékk mér Elsa’s Kyckling á Viking Pizzeria (sem er gamalt uppáhalds) og kaffi á Wayne’s Coffee (sem var meira svona tilfallandi vegna þess að það byrjaði að rigna). Þar bloggaði ég gærdeginum í (alltof) löngu máli og færði mig síðan yfir á Kalla á Spönginni og skrifaði tölvupósta og tók út blaðsíðunúmerin úr Kiru Argunova. Væntanlega er manni svo óhætt að dreifa þessu. Sagan liggur bæði í hlutum inni á timarit.is og með ritgerð á skemmunni.

Eftir hangsið á Kalla fékk ég mér 13c á Spicy Hot og rölti aftur upp í Hrábæ og horfði á Danmörk-Þýskaland (sem fór 1-2 og var bara frekar spennandi). Bæði á röltinu upp eftir og niðureftir hlustaði ég á Min Kamp eftir Knausgård. Hann er eiginlega betri en ég átti von á. Skrítið líka – ég reiknaði með því að þetta væri „eldri maður“, að lágmarki hálfsextugur. En svo er hann bara tíu árum eldri en ég – og bara fimm árum eldri þegar hann skrifar fyrstu bókina. Altso 39 ára. Og það er miklu meiri og persónulegri speglun þarna en ég reiknaði með. Annar kafli fjallar að miklu leyti um samþættingu rithöfundalífs eða köllunar við hversdagslega hamingju, fjölskyldulíf og barnauppeldi. Eða hvernig þetta samþættist einmitt eiginlega ekki neitt og verði að existera hlið við hlið frekar en blandast.

Ég átti von á meira karlagrobbi, egótistískari texta. Kannski verður hann það seinna. En ég er ekki vonsvikinn, þetta kemur mér gleðilega á óvart.

Frétt dagsins er svo Guðbergur og textinn sem fjallar um geðslag Íslendinga og Gillzenegger. Guðbergur er einhvers konar ljóðmælandi – ég held að texta hans eigi hreinlega ekki að taka alveg bókstaflega – hann er rithöfundur en ekki stjórnmálamaður, frjáls andi en ekki bundinn. En Íslendingar í stöðugu mórölsku uppgjöri kunna auðvitað ekki lengur að lesa nema bókstaflega. Þannig segir ljóðskáldið Ingólfur Gíslason í athugasemd á DV, sem hefur fengið næstum 200 læk – lækuðustu ummæli dagsins á Íslandi, sigurummælin – að þetta hljóti að vera „ógeðslegasti pistill síðari tíma á íslensku máli“. Ingólfur fékk nota bene þau ummæli sjálfur hjá bókmenntagagnrýnanda Morgunblaðsins um árið að hann væri „siðlaus að eigin ósk“ en hefur síðan þá útskrifast inn í móralska meirihlutann sem þrammar um Ísland og bendir í allar áttir, skipar í raðir sekra og saklausra og útdeilir þolenda- og gerendamerkjum, svo allir viti hvar þeir standi. Aðrir vinir mínir hafa, skilst mér, lækað og dreift ummælum á Facebook þar sem þess er beinlínis óskað að Guðbergur drepist.

Guðbergur „gengur auðvitað alltof langt“ – einsog maður segir. En hann gengur samt ekkert mikið lengra en hefur verið normið að ganga – hann gengur bara í öfuga átt við flesta. Talar um ákæranda af sömu óvirðingu og fólk hefur almennt talað um ákærða. Án þess að nokkur hafi minnstu hugmynd um hvað gerðist nema upp úr einhverju slúðri. En þannig er líka Ísland. Raðir af samhangandi kjaftaklúbbum sem hver um sig heldur að hann sé með hinn eina sanna putta á hinum eina sanna púlsi. Það er sami skríll sem bjó til Gillz og rústaði honum – þótt það verði mannaskipti. Skríllinn er alltaf bara einn.

Guðbergur „gengur auðvitað alltof langt“ – en hann gengur ekkert lengra en þeir sem kalla hann geðsjúkan, elliæran eða athyglissjúkan æsingamann. Og talsvert skemur en þeir sem óska honum dauða. En hann gengur auðvitað alltof langt og hlutar af pistli hans eru týpískt íslenskt karlagrobb – þessi pungstíll sem notar búkorð á borð við „stelpupussur“ til að skapa léttúðuga stemningu, innanklúbbsstemningu. Hann þjónar að vísu líka því hlutverki að gera strik í sandinn – teprur hinumegin og aðrir velkomnir – en var hugsanlega bæði gagnlegri og kraftmeiri á sjöunda áratugnum. Hann fer að minnsta kosti instiktíft í taugarnar á mér. En kannski er ég bara tepra að eðlisfari, sjálfshatandi tepra.

Nema hvað.

Ljóðmælendur – eða frjálsir andar eða hvað það er sem maður vill kalla fólk einsog Guðberg, rithöfunda einsog Guðberg – eru ekki síst til þess fallnir að hreyfa við hugsunum. Sínum eigin og annarra. Annað en til dæmis móralistar sem vilja negla hugsanir fastar, hala þær inn og stýra. Sem er ástæðan fyrir því að móralskar skáldsögur (og þar með flestar pólitískar skáldsögur) misheppnast svona skelfilega. Ég veit að vísu ekki hvað Guðbergi tókst, hvað hann gerði – enda væri hann varla frjáls andi ef að slíkt væri einfalt reikningsdæmi – kannski blæs öllum sandkornum stormsins aftur á sinn stað þegar yfir lýkur. En það er eitthvað þarna. Eitthvað að. Og eitthvað fleira.

Einhvern tíma var hreinlega ætlast til þessa af skáldum. Að þau döðruðu við andskotann. Nú eru þau líklega bara til skrauts.

Eftir fótboltaleikinn horfðum við á Office Space og nú ætla ég að fara að lesa. Á morgun koma Nadja og Aram og við fljúgum saman til Frakklands annað kvöld. Þá verður nú gaman.

16. júní

June 17, 2012 in blogg

Nú er víst 17. júní en ekki sá sextándi. Í dag er þjóðhátíðardagur Íslands en í gær var Bloomsday. Í gær þegar ég skrifaði dagbókina fyrir fimmtánda júní var sextándi júní. Það er annað að halda dagbók að kvöldi dags en að skrifa hana daginn eftir. Við höldum okkur við Bloomsday og geymum þjóðhátíðarfílinginn til morguns.

Ég fór úr lestinni á járnbrautarstöðinni í Stokkhólmi. Át hamborgara með wasabimajonesi og lagði svo af stað til Skarpnäck þar sem anarkistarnir héldu bókamessuna sína. Ég gat ekki keypt miða í metróið með korti og þurfti að taka út. Að borga fyrir almenningssamgöngur í Svíþjóð með reiðufé er alls staðar vesen. Ég kom á bókamessuna hálftíma fyrir upplestur, hitti skipuleggjandann og manninn sem átti að kynna mig á svið. Samkvæmt planinu átti ég að lesa upp á sviði úti í almenningsgarðinum en vegna óhóflegrar rigningar hafði þurft að breyta um kúrs og búa til lítið rými baksviðs inni í Skarpnäck Kulturhus. Eða „baksviðs“, þetta var eiginlega bókstaflega uppi á sviði. Bókamessan sjálf var í salnum og upplesturinn fór fram handan við leiktjöldin. Ég hafði fimmtíu mínútur til að gera það sem ég vildi en las í fjörutíu. Ég byrjaði á að lesa úr Hnefa í enskri þýðingu og var farinn að missa röddina eftir svona fimm mínútur í elska-elska-hata-hata-þrá-þrá-óttast-óttast kaflanum. Sem var ekki alveg nógu gott. Ég las síðan Ég er bréfshaus á þremur tungumálum samtímis, Iceland Report (svo einhverjum ofbauð og gekk út), nokkra einræðisherra og endaði á Æra-Tobba (einsog venjulega). Ég hef bara einu sinni á ævinni svitnað svona mikið en það var þegar ég las upp í Póllandi fyrir nokkrum árum – eftir að hafa eytt öllum deginum í epískri þynnku, gubbandi kranavatninu í Varsjá (sem ég vissi ekki fyrren daginn eftir að maður á ekki að drekka). En nú var ég sem sagt ekki þunnur. En ég hafði sofið frekar illa í húsvagninum í Fridhem kvöldið áður. Og sofið lítið nóttina þar á undan. Þetta gekk annars mjög vel og svitinn skemmir eiginlega ekkert fyrir, hann eykur bara á áhrifin. Enda er þetta líkamleg ljóðlist, hljóðaljóðlistin.

Einn gestanna, sirka tvítug stelpa, kom hlaupandi upp til mín eftir upplesturinn og sagði ítrekað að ég hefði verið stórkostlegur. Ég vissi eiginlega ekki hvað ég átti að segja við hana, einsog ég veit aldrei hvað ég á að segja – annað en takk, altso – og ég held að hún hafi annað hvort farið með þá tilfinningu í brjóstinu að mér þætti hún fábjáni eða að ég væri sérdeilis óáhugaverð og leiðinleg og ókurteis manneskja, svona utan við ljóðlistina. Ég þarf að fara að lesa einhverja bók um mannleg samskipti. Fara á námskeið. Það er ekki hægt að koma svona fram við fólk. Svo kom líka íslenskur strákur búsettur í Svíþjóð og var eilítið lágstemmdari í hólinu (þótt hann hefði verið ánægður) en ég hafði voða lítið við hann að segja líka.

Bókamessan var sjálf áhugaverð. Þetta voru róttæku forlögin og róttæku félagasamtökin og svo einhver nördaforlög (með teiknimyndasögur). Það var svo gott sem ekkert um fagurbókmenntir. Fyrir utan mig, sem sagt. Flestir róttæklingana voru mjúkir – talsvert um veganfólk og straight-edge góðtemplara – nema kannski femínistarnir, sem voru gegnumgangandi afar harðir (minna passíf-agressíft knúz og meira bara agressíft knos). Á svona Black Panthers vísu. Trotskíistavísu. Eða þannig. Í aðskilnaðarfíling. Einn hópurinn var með stórt slagorð upp á að allt misrétti heimsins ætti upphaf sitt í ofbeldi og nú væri kominn tími til að láta hart mæta hörðu. Það er í sjálfu sér stórmerkilegt hvað fólk í pólitík (eða annarri hugmyndafræði) getur orðið blint í eigin sjálfsréttlæti(ngu). Hvernig fólk missir meðvitund, sér ekki eigin mótsagnir. Upplifir ekki kjánahrollinn. Upplifir ekki ógeðið. En þetta var nú vinalegt fólk þarna í Skarpnäck, svona upp til hópa, ég gat að minnsta kosti ekki séð annað.

Sober Anarchist Feminist Trans Crew sem áttu að stíga á svið á eftir mér boðuðu forföll. Ég fékk því aldrei að fræðast um hreyfinguna og þykist illa svikinn. Ég stakk þá bara af eftir örlítið hangs og tók metró og lest til Västerås (sem er um 100 kílómetra frá Stokkhólmi og þar sem ég bjó fyrir tveimur árum). Á ferðalaginu las ég mastersritgerð Óla Gneista um rafbókavefinn (og þar með rafbókavæðingu, höfundarrétt og fleira). Hún var bæði afar læsileg og fróðleg, þótt eðlilega sé mikið af óþarfa upplýsingum (ég hafði til dæmis lítið gaman af kaflanum um wordpress-viðbæturnar sem hann notaði á vefnum) – enda eru háskólaritgerðir víst yfirleitt ekki skrifaðar á sömu forsendum og textar fyrir almenning. Sem er í sjálfu sér miður. Mér hefur löngum þótt sem margt vanti upp á að byggja brýr milli háskólastarfs og umheimsins. Skemman er auðvitað liður í þeirri brúargerð. En það er augljóst á mörgum ritgerðum sem þar má lesa að þær eru alls ekki ætlaðar til birtingar fyrir almenning – sumar eru ekki einu sinni prófarkalesnar, málið á sumum þeirra er fullkomlega ömurleg – aðrar eru á innmúruðum sérmálum, stundum án þess að þurfa það, held ég. Sumir virðast gangast upp í því að nota sem flest sérfræðiorð (og myndu skrifa hér „íðorð“ svo að við sem höfum aldrei farið í háskóla þyrftum nú áreiðanlega að teygja okkur í orðabókina). Þetta er félagslegur gjörningur. Hann er ekki alltaf út í loftið, stundum þarf önnur orð fyrir aðra hugsun. Ég neita því ekki. En þetta er líka liður í því að múra sig af frá pöplinum. Flutningur upp um stétt, árétting á stétt – stöðutákn. Nema hvað menntafólk (og sérstaklega vinstrisinnað menntafólk) telur sig yfirleitt yfir slíkt hafið og kannast ekki fyrir nokkra muni við nokkrar slíkar kenndir. Og skrifast á stofnunina sem reiknar með þessu og gerir það jafnvel að skyldu, frekar en á einstaka nemendur sem eru mismikið mótaðir, missjálfstæðir í hugsun.

En ritgerðin hans Óla er altso bæði vel skrifuð og fróðleg og líður ekki fyrir neitt af ofangreindu. Hún er þess utan gefin út á rafbókaformatti – .mobi og .epub – auk PDF og því hægt að hala henni niður fyrir flesta lesara.

Þegar ég kom til Västerås settist ég á kaffihúsið Kalle på Spången. Þar sat ég iðulega þegar ég bjó hérna og vann – byrjaði á Illsku fyrir alvöru þá um veturinn, aðallega á Kalla en líka á bæjarbókasafninu. Ég fékk mér að borða og renndi í gegnum nýjasta yfirlestur á bókinni. Svo ætlaði ég að taka strætó til Råby þar sem mágur minn býr. En lenti aftur í peningavandræðum. Í þetta sinnið var það öfugt við Stokkhólm. Það er ekki hægt að borga í strætó með reiðufé. Eða korti heldur. Það þarf að eiga miða eða borga með SMS. Það eru sjálfsalar við sum strætóskýli en þeir taka bara mynt – og svíar eru með seðla niður í 20 krónur svo ég var alls ekki með nóg af mynt. Ég hljóp inn í búð til að kaupa mér Läkerol til að eiga skiptimynt (því hér fær maður ekki skiptimynt nema kaupa eitthvað) en fékk ekki nóg og hann vildi ekki skipta fyrir mig meiru. Þá vældi ég einsog stunginn grís sem varð til þess að hann sagðist selja strætómiða. Ég keypti miða og komst upp í Råby. Þar horfðum við mágarnir á fótbolta – Tékkland og Pólland (Tékkar unnu 0-1 – en það munaði minnstu að Pólverjar hefðu jafnað þegar það voru fjórar sekúndur eftir – hundleiðinlegur leikur framan af en síðustu tíu mínúturnar voru góðar).

Svo las ég svolítið í Kíru Argúnova eftir Ayn Rand – sem ég fann líka á Skemmunni á PDF og breytti í .mobi fyrir kindilinn, skáldsagan fylgir sem aukaefni með ritgerð sem Frosti í Mínus skrifaði hjá Hannesi Hólmsteini. Hún birtist í bútum í morgunblaðinu fyrir þúsund árum í þýðingu sem enginn veit víst hver gerði. Ég er ekki frá því að Ayn Rand sé betri í þýðingu en á frummálinu. Og svo er þessi bók reyndar (dálítið röflkennd, auðvitað) krítík á Sovétríkin, sem er skömminni skárri en sú óforskammaða upphafning hetjukapítalismans sem lesa má um í Atlas Shrugged. Rétt einsog bækur sósíal-realista sem krítísera kapítalismann eru betri en þær sem ídólísera Sovétríkin. En svo er ég líka bara nýbyrjaður.

15. júní

June 16, 2012 in blogg

Vaknaði. Jógúrt. Kaffi. Leitaði að bókakassanum mínum. Kassanum með bókunum mínum. Sem ég skrifaði altso. Til að finna eintak af Gift för nybörjare til að gefa (norskum) vinum okkar í Banyuls-sur-mer, hvert við fljúgum á mánudag. Fann ekki. Við brunuðum til Åtvidaberg og fórum í útskrift mágs míns, hálfbróður konunnar (hálfmágs?) – altso Simons. Hann fékk tónlistarverðlaun skólans, hafandi, að mér skilst, bæði sungið og spilað í Phantom of the Opera í vetur. Åtvidaberg framleiðir annars fyrst og fremst húsasmiði, kaupsýslumenn og íþróttahetjur. Golf og fótbolti eru brautir í skólanum. Einsog við er að búast voru drengir fjölmennir þarna, frekar en stúlkur – og þótt verðlaunin (sem voru ábyggilega 20 talsins) hafi flest fallið að kynjamynstrinu voru samt einhverjar undantekningar. Drengur fékk barnfóstruverðlaun. Stúlka fékk hagfræðiverðlaun. Fyrstu fimm verðlaunin féllu til stúlkna. Næstu fimm til drengja. Þá steig upp maður til að veita þrenn verðlaun og sagði að það væri kannski ástæða til þess að leiðrétta þennan kynjahalla. Ég held að hann hafi annað hvort ekki kunnað að telja eða byrjað að semja ræðuna sína tíu mínútum fyrr, þegar það stóðu bara stelpur á sviðinu, og ekki þorað að endursemja hana. Í öllu falli voru það þrír drengir sem fengu þessu verðlaun.

Þetta fór allt fram á stórum íþróttaleikvangi en að athöfn lokinni fórum við að skólanum þar sem bekkirnir komu hver af öðrum fram á svalir, við dúndrandi undirleik teknótónlistar, þar sem nemendur hleyptu af konfettifallbyssum á ættingja sína og svo stormuðu allir út og fundu sitt fólk áður en þau fóru upp í gripavagna og keyrðu burt. Á borðunum sem héngu á gripavögnunum mátti klárlega sjá muninn á bekkjunum. Hjá Simon og félögum stóð CTRL+C -> CTRL+V = Þannig náðum við stúdentinum. Hjá strákunum í húsasmíðinni var lítil vísa:

Nu sticker vi grabbar i bygg,
i kväll ligger era döttrar på rygg

(Þetta þýðir sem sagt: „Nú stingum við af, strákarnir í húsasmíðinni, og í kvöld munu dætur ykkar liggja á bakinu“).

Einn bekkurinn, sem var augljóslega vinsælu krakkarnir, stærsti bekkurinn og ábyggilega allur fótboltalýðurinn, var með borða sem á stóð: Boys, bärs och rakade brudar (bärs er bjór, brudar er gellur).

Stelpurnar voru allar í hvítum sumarkjólum og strákarnir í svörtum jakkafötum. Mér varð mikið hugsað til þess hvernig fólk performerar „heild“ með því bæði að skipa sér í sveit, klæða sig eins og hreyfa sig eins. Í upphafi athafnarinnar var dansatriði frá yngri bekkingum (stelpum) sem voru samt bara klæddar hver í sín sparifötin. En svo voru stúdentarnir allir samræmdir – en þó mismunandi innan þessa ramma, allir höfðu valið fötin sín sjálfir samkvæmt ofangreindum reglum. Þetta var síðasti dagurinn sem þau voru þessi heild. Síðasti séns til að vera fjölskylda, sami líkami. Og kannski er aldrei jafn óhætt að leyfa sér einfaldlega að vera sami líkaminn þegar augljóst er að hann verður tekinn í sundur á morgun og aldrei settur saman aftur – forsendur hans eru að hverfa.

Annars er alveg magnað hvað þetta getur orðið mikið klisjuflóð. Kaflaskil. Ferðalok. Að verða fullorðinn. Útskrifast út í lífið. Endalok bernskunnar. Mann var alveg farið að svima þegar söngkonan í einni hljómsveitinni sem kom fram hélt gegnumíróníska ræðu sem var einsog ljósrit af öllu sem hafði verið sagt fram til þess.

Eftir að þessu var lokið fórum við (ásamt heimasætunum frá Rejmyre, sem komu með okkur) á veitingastað og átum hádegismat og brunuðum svo út í sveit til Fridhem þar sem tengdó býr. Þar var sól og blíða og við lékum okkur í garðinum. Reyndum að spila krokkett. En vorum aðallega bara eitthvað að hnoðast í grasinu. Pabbi Alexöndru og Feliciu kom og sótti þær. Við Nadja fórum í bíltúr að leita að jarðarberjasölu en það var búið að loka. Átum einhvern fiskrétt í kvöldmat. Reyndar var þetta svepparéttur en ég borða ekki sveppi svo það var bara fiskur í mínum mat. Ufsi.

Svo bjuggum við um okkur í húsvagninum úti í garði og fórum að sofa. Það varð svolítið kalt um nóttina enda opnar tvær lofttúður og svo þakglugginn. Og við of rænulaus til að fatta það fyrren við vöknuðum.

Ég stakk svo af í morgun til að fara á bókamessu anarkista í Stokkhólmi. Er í lestinni. Einhver hérna inni (líklega maðurinn við hliðina á mér) er skelfilega andfúll. Mér finnst það reyndar næstum í sænskum afskiptaanda að standa bara upp og spyrja: HALLÓ! HVER YKKAR GLEYMDI AÐ BURSTA TENNURNAR Í MORGUN???

Besta sænska afskiptasagan sem ég kann gerðist í Stokkhólmi. Þar kvörtuðu nágrannar við dýraeftirlitið yfir að hundurinn í næsta húsi fengi aldrei að fara út að ganga. Þau hefðu hreinlega aldrei séð hann útivið. Í ljós kom svo auðvitað að hundurinn, sem stóð jafnan úti í glugga og starði á heiminn löngunarfullum augum, var úr postulíni. Svíar eru reyndar duglegri að skipta sér af fyrir milligöngu yfirvalda en svona maður á mann.

Hlustaði á fyrstu kaflana í Min Kamp eftir Karl Ove Knausgård í rútunni til Linköping en Prins Póló meðan ég blogga. Hef komist að því að platan þeirra, Jukk, er betri í öfugri lagaröð. Einsog hún er nú líka góð í réttri lagaröð. Karl Ove byrjar líka vel. Byrjar sjálfsævisöguna á langri pælingu um dauðann og greftranir, meðferð dauðra skrokka. Ég sá einhvers staðar að talað var um áratugs égsins í skandinavískum bókmenntum. Og fyrst og fremst vísað til Knausgård og svo Lars Norén sem gaf út einhverja dagbókardoðranta á dögunum. Min Kamp er í sex hlutum og hver þeirra er held ég næstum þúsund síður. Og allt gefið út 2009-2011.

Byrjaði líka á Jóni eftir Offa í fyrradag. Er að spá í að geyma hana kannski samt aðeins. Ég er ekki alveg stemmdur fyrir þetta skrítna landsbyggðafólk. Ekki stemmdur fyrir íslenskri náttúru. Ég held svei mér þá að ég sé bara með einhvers konar fjallaofnæmi. En kannski kemur stemningin seinna. Mér sýnist allavega að þetta sé bók sem maður geti notið þegar maður er rétt stemmdur. Hann skrifar náttúrulega einsog guð, hann Ófeigur.

14. júní

June 14, 2012 in blogg

Ég fór ekki á skólaslitin. Það var varla að ég tæki eftir því að Nadja færi á fætur. Samt var vekjaraklukkan mín megin og ég veit að ég slökkti á henni (þegar Nadja var búin að klifra hálfa leiðina yfir mig). En ég man það svona einsog maður man eigin fæðingu. Það er meira einsog ég viti að þetta gerðist þótt enginn hafi sagt mér það. Þegar ég skreið á fætur skömmu fyrir tíu voru allir fyrir utan á leiðinni í burtu aftur – í stuttu stoppi fyrir tertuveisluna. Og svo var ég einn. Ég garfaði í káputextanum mínum og horfði á The Daily Show. Át restina af valhnetubrauðinu með hnetusmjöri og sultu. Gerði kvöldmatar- og innkaupaplön. Garfaði meira í káputextanum.

Ég hef aldrei áður tekið þennan texta alvarlega. Ég skipti mér lítið af káputextunum á Gæsku, Hugsjónadruslunni og Ú á fasismann. Hinar bækurnar mínar komu út hjá Nýhil og þá leit ég yfirleitt á káputextann sem aukapláss fyrir eitt til listaverkið. Eða þannig. Og bað einhvern annan að gera það. Treysti einhverjum fyrir því, einsog ég treysti fólki fyrir kápum og umbroti. Það eru yfirleitt ágætis textar, jafnvel mjög góðir. En það var ekkert endilega mikið lagt upp úr því að þeir væru réttir – í merkingunni sannir. Ég hef aldrei tekið þetta alvarlega sem inngang að bók, sem anddyri. Að textinn sé ekki bara heillandi heldur heillandi fyrir rétt fólk á réttum forsendum. Að hann segi hreinlega eitthvað af viti um bókina – um innihaldið. Að það kaupi enginn bókina í misgripum fyrir eitthvað annað. Í misgripum fyrir Schindler’s List.

Og þetta er náttúrulega líka hystería. Og afleiðing af því að hafa tímann fyrir sér. Bókin er tilbúin. Eða þannig. Smá fiff eftir og ég tek júlí í það – nú er ég í fríi og stelst til að vinna. Og þá er best að vinna í einhverju sem er hægt að detta inn og út úr. Nittpikking á káputexta.

Þegar fólkið kom heim borðuðum við hádegismat, afganga og viðbætur. Svo fór ég að lesa og fikta og húka. Þegar Aram vaknaði eftir lúrinn fórum við út og átum bollakökur í sólinni. Þetta er nú meira letilífið. Það er kannski þess vegna sem maður er alltaf þreyttur. Eftir bollakökurnar var nú bara að koma kvöldmatur. Ég gerði tvö wok. Teriyakitófú og teriyakikjúkling.

Á morgun förum við til Linköping á önnur skólaslit. Þessi í menntaskóla. Nú verð ég að fara með vegna þess að ég á að keyra bílinn. Það er örverpið bróðir Nödju sem er að útskrifast. Ég sé reyndar bara sjálf skólaslitin en missi af veislunni því ég fer til Stokkhólms morguninn eftir til að lesa upp á bókamessu anarkista. Á eftir mér á dagskránni eru samtökin Sober Anarchist Feminist Trans Crew með erindi. Sem gæti verið alveg stórkostlegt en gæti jafn auðveldlega verið alveg skelfilegt. Það hlýtur að minnsta kosti að verða áhugavert, annað er óhugsandi.

Þetta er í annað skipti sem ég kem fram á anarkískri bókamessu. Ég sem er ekkert nema skeptíkin á allt milli himins og jarðar og get ekki einu sinni verið sammála sjálfum mér í meira en korter í einu. Og svo var ég náttúrulega á þessari hippahátíð þarna í Belgíu um daginn. Með dýrameðvituðum. Það verða einhverjir þannig líka í Stokkhólmi. Anti-spesíistar. Altso sem vilja ekki að maður geri upp á milli dýrategunda. Vilja ekki að maður borði dýr eða komi fram við þau öðruvísi en menn.

Ég dæmi ekki. Ég reyni bara að fylgjast með. Ég fylgist að vísu meira með mönnum en dýrum.

12.-13. júní

June 13, 2012 in blogg

Ég vaknaði í gær. Ég get svarið að ég man ekki hvað ég gerði. Borðaði morgunmat. Jú. Það fór af stað dálítið drama í kringum íslenskuna hans Arams. Og hversu fast ég geti staðið á því að hann eigi að tala íslensku við mig. Sem hann gerir altso ekki lengur, nema afar sjaldan – ég þýði jafn óðum allt sem hann segir og hann segir já eða nei eftir því sem við á. Og í gærmorgun lét ég sem ég skildi ekki hvað hann væri að segja þegar hann talaði sænsku og Nödju þótti sem hann tæki því fremur illa. Og upp úr því spratt dramað. Rifrildið. Sem endaði síðan í góðri sátt, vel að merkja. Í sem stystu máli snerist það sem sagt um hvort að það væri ekki ástæða til þess að taka þann möguleika „alvarlega“ að íslenskan verði ekki eitt móðurmála hans, og hvort það væri ekki ástæða til þess að taka það „alvarlega“ að honum gæti sárnað að pabbi hans þvingaði hann til að tala tungumál sem honum finnst erfiðara að tala, þvingaði hann til þess að vera mállausari en hann þarf að vera. Og það gæti jafnvel orðið til þess að afstaða hans til íslenskunnar yrði neikvæðari.

Og í sem stystu máli held ég að niðurstaðan hafi verið sú að þetta væri dálítið bæði og. Við verðum hálft ár á Íslandi í haust – eða fimm mánuði allavega – og það mun væntanlega breyta miklu. Og ég verð að passa mig að taka þetta ekki of nærri mér heldur. Ég get ekki beitt son minn sækóterror til þess að hann læri íslensku. Og auðvitað tengist þetta, fyrir mér, líka einhverjum útlegðarpælingum. Að finnast ég stundum dálítið einn í heiminum. Það er vandinn við að hafa ekki bara skipt um tungumál. Ég er ennþá til á íslensku en það er enginn í kringum mig til á íslensku. Og ef heimilið verður á sænsku – ef við eignumst til dæmis fleiri börn og þau tala bara sænsku sín á milli – þá er ég í einhverjum skilningi útlendingurinn á heimilinu. Sem er bara frekar óþægileg tilhugsun. Hún dregur úr tilheyrileika manns (ég var að ræða það við Nödju einmitt í gær líka, í annarri samræðu, að það væri ekki til neitt gott orð fyrir tillhörighet á íslensku – því ástandi að tilheyra).

Ég er í þeirri asnalegu stöðu að vilja ekki búa á Íslandi og finnast ég vera að gufa upp og hverfa alls staðar annars staðar. En það er ekki sanngjarnt að ég láti það bitna á neinum nema sjálfum mér.

Rétt áður en samræðan hófst fékk ég líka bréf frá mömmu með öppdeit á líðan ömmu, sem er við það sama. Það hefur ábyggilega spilað rullu. Maður hlýtur að reikna það inn í allar hugsanir.

Við átum afganga í hádegismat. Ég svaf eftir matinn eða reyndi það. Ég er eilíflega þreyttur. Ég veit ekki hvað það er. Þegar ég slæ þessu upp á netinu passar allt við mig. Sem þýðir að ég sé með áunna sykursýki, hjartveikur og með alvarlegar svefntruflanir. Og ýmislegt fleira.

Eftir drekkutímann hjóluðum við Aram og Nadja niður á strönd og syntum dálítið í stöðuvatninu. Djöfull sem það var samt ógeðslega kalt. Ég held að endorfínþröskuldurinn minn sé hærri en flestra. Ég fæ bara ekki þetta æðisgengna kikk af því að hjóla eða synda í köldu vatni sem fólk talar um. Mér líður aldrei einsog ég sé guð og ég gæti haldið áfram að eilífu. Mér verður bara kalt og ég verð þreyttur. Í besta falli að örlítill vellíðunarhrollur hristist um mig í svona fimm sekúndur og svo búið. Mér finnst það varla þess virði. En það var samt fínt að fara á ströndina. Sóla sig. Og jújú, alltílagi að baða sig líka. Ég stakk svo af á undan Nödju og Aram til að fara í búðina. Í kvöldmat hafði ég brokkolísúpu og foccaciu.

Um kvöldið horfðum við á Spiderman. Ég get aldrei horft á Spidermanmyndir eða hugsað um Spiderman án þess að Ágústi Borgþór skjóti upp í huga mér. Hann skrifaði svo ógurlega fauskslega færslu um þessa endemis vitleysu á bloggið sitt fyrir einhverjum áratugum síðan. Þegar við vorum ennþá ung. Sem er einhvern veginn einsog að fást við því að unglingar blási tyggjókúlur.

Í morgun vaknaði ég aftur. Dauðþreyttur einsog venjulega. Við átum morgunmat úti í sólinni. Húktum eitthvað. Fórum öll saman í bæinn – í bakaríið og búðina og einhverja minjagripaverslun. Miðbærinn hérna er eiginlega bara lítil stoppistöð fyrir túrista. Ég fór fyrstur heim og tók til hádegismatinn, sem við átum líka úti í sólinni. Eftir matinn svaf Aram í vagninum og ég fór upp og reyndi að hvíla mig. En tókst sem sagt ekki sérstaklega vel. Las í Gombrowicz. En það fór að mestu fyrir ofan garð og neðan. Skrifaði nokkra tölvupósta. Fór svo á fætur og út – Aram var vaknaður. Hann og frænka hans fóru að hlaupa á sundfötunum í gegnum vökvarann í garðinum. Ég gerði tvær omelettur í kvöldmat. Eina með skinku og tómati og hina með mozarella og tómati. Eftir matinn fórum við Aram upp í herbergi að leika okkur áður en við síðan lásum Bétvo (hægt og skýrt, af pedagógískum ástæðum) fyrir háttinn.

Í fyrramálið ætla allir eldsnemma á fætur til að fara á skólaslit hjá heimasætunum. Ég veit ekki hvort ég meika það samt. Maður þarf að vera mættur klukkan korter í átta. Ekki það ég verð ábyggilega dauðþreyttur allan daginn hvað sem ég geri.

Vardagligt och vidunderligt gift « nytid.fi

June 12, 2012 in blogg

Allt går åt helvete i den här boken. Dísa börjar trots sin nya älskare Högni – eller är det på grund av honom? – må ännu sämre än tidigare, och Halldórs galenskap eskalerar. Ändå sker inga stora skiftningar i intrigen. Allt som sker sker på mikronivå. Vi får genom skickligt konstruerade sprickor i Norðdahls prosa tag på en detalj här och en misstanke där. Det som vid en första anblick kan verka som en hemtam och ospektakulär berättelse övergår alltså så småningom i ett mångbottnat och gripande skeende. Förvandlingen fås till stånd genom författarens skickliga handlag med en stil som antyder mycket men avslöjar lite.

via Ny Tid/ Mathias Rosenlund:Vardagligt och vidunderligt gift « nytid.fi.

11. júní

June 11, 2012 in blogg

Ég hef verið í vægu kvíðakasti í allan dag. Í fyrsta skipti held ég. Altso með einhverja öndunarverki og allur eitthvað skrítinn. Einsog ég sé að kvíðaköstum er lýst á internetinu – nema bara ekki alveg jafn slæmt. Ég lagðist í rúmið í tvo tíma eftir matinn og það var verst skömmu eftir að ég stóð aftur á fætur. Ég grét samt ekki eða sýndi nein klassísk þunglyndisteikn. Mér var bara illt í brjóstholinu og átti erfitt með andardrátt á meðan hugsanirnar hringsnerust í höfðinu á mér.

Í gærdag fékk ég að vita að amma mín er orðin mjög veik. Hún hefur að vísu verið mjög veik í talsverðan tíma en nú er þetta sem sagt að versna. Fyrst áttaði ég mig held ég ekki alveg á því. En svo um kvöldið þegar ég var að fara að sofa og var að tala um þetta við Nödju var einsog það rynni upp fyrir mér. Að nú væri þetta kannski að verða búið. Hugurinn leitar í alls kyns praktísk vandamál þessu tengt. Hvernig maður komist í jarðarför. Hvað maður segi í minningargrein. Hvað maður segi við hina – mömmu sína, pabba, frændur og frænkur og systkini – alla hina sem eru líklega að missa ömmu. En það er samt ekki beinlínis þar sem sorgin býr, frekar en hún býr í verkjunum í brjóstholinu á mér. Við Aram hittum hana þegar við vorum á landinu um daginn. Fengum kaffi og kökur og djús og lékum okkur að dótinu hennar. Við komum að líkindum ekki aftur til landsins fyrren í ágúst og það síðasta sem ég sagði við hana var að við sæjumst þá. Hún er ekki dáin og kannski sjáumst við þá.

Ég svaf illa og vaknaði hálfníu. Át valhneturúgbrauð með hnetusmjöri og hindberjasultu í morgunverð. Drakk kaffi. Hjálpaði mágkonunni að færa húsgögn í herbergi sem átti að mála, skrúfa niður eitthvað drasl af veggjunum. Fór svo út og lék við Aram og Liam. Við fórum á trampólínið og í sandkassann. Svo átum við afganga í hádegismat og Nadja lagði Liam en ég lagði Aram. Ég reyndi svo að sofa sjálfur. Sofnaði í tvær mínútur en vaknaði við að Aram vildi fara á klósettið. Svo sofnaði hann en ég lá vakandi. Andvaka um miðjan dag. Blaðaði í Gombrowicz. Hann talar um Pólland einsog ég tala um Ísland. Hann er landflótta í Argentínu og finnst allir heima full uppteknir af því að verja sósíalismann. Hann óttast fólk sem er trúað á stjórnmál – tekur upp kenningar einsog þær innihaldi augljósa lykla að mennskunni. Hann fór frá Póllandi rétt fyrir stríð. Og svo talar hann um minnimáttarkennd smáþjóðarinnar sem er haldin óstjórnlegri þörf fyrir að tíunda afrek sín í hvert sinn sem hún lendir í selskap. Telja upp nóbelsverðlaunahafa. Koma Mickiewicz, Chopin og Kópernikusi að í öllum samræðum. Koma Björk, Laxness og Eyjafjallajökli að í öllum samræðum. Koma Ólafi Ragnari Grímssyni að.

Svo fór ég á fætur og ofandaði svolítið. Við ræddum ástríðu- og örvæntingarfull skiptingu á matarreikningnum og bensínreikningnum. Svo kom svilinn heim með nýjar hjólbörur og tölvustýrðar hljómflutningsgræjur í eldhúsið. Einmitt þegar við vorum öll að býsnast yfir því hvað við þyrftum að spara mikið til þess að geta lifað af. Svo fórum við í búðina og keyptum ódýrari mat en við höfðum ætlað og ég eldaði gulrótagnudi í kvöldmat. Ég hafði misst sjónar á tímanum þegar ég var að ofanda og kvöldmaturinn var alveg hálftíma of seint á ferðinni. Nadja sá um fráganginn og ég fór að leggja Aram. Eitt af helstu verkefnum dagsins var reyndar að fá Aram til að að tala íslensku við mig en ekki sænsku. Hann skilur allt sem sagt er á íslensku – eða að minnsta kosti jafn mikið og ætlast má til af tæplega þriggja ára barni – en íslenskan er alltaf að verða passífari og passífari vegna þess að ég læt það alveg óátalið þótt hann ávarpi mig á sænsku. Ég geri það nánast ómeðvitað. Af vana. Nadja talar náttúrulega alltaf sænsku við mig (og ég svara henni á íslensku). Sænskan hans Arams er lang sterkust en finnskan er orðin sterkari en íslenskan og mér þykir af einhverjum orsökum alveg ómögulegt að við deilum ekki móðurmáli, feðgarnir, þegar fram í sækir. Og sjálfsagt gerum við það en það er ekki víst að það gerist alveg af sjálfu sér.

Mér er annars hætt að verkja í brjóstholið og ég anda eðlilega. Ég hef samt svitnað svo mikið í dag að ég er allur frekar myglaður. Ligg á bakinu í rúminu með tölvuna í fanginu og stari tómlega út í internetið. Mér skilst að þar séu allir að rífast, einsog endranær, og margir séu helst til lítilmótlegir í framkomu sinni við aðra. Það sé mikið af litlum sálum á félagsmiðlunum. En ég sel það ekki dýrara en ég keypti það.

10. júní

June 10, 2012 in blogg

Ég vaknaði níu. Nadja og Aram voru að klára morgunmatinn þegar ég kom niður og fóru svo út. Ég át jógúrt og fór síðan með kaffi út til Nödju. Við lékum okkur í barnakofanum á lóðinni, sippuðum og fórum svo aftur inn þegar tók að kólna aðeins. Svilinn gerði mat í hádeginu (quornfars og spagettí). Eftir mat fóru Nadja og Aram til Linköping að hitta „mummo“ – móðurömmu Arams – og fara með henni í leikhús á Pettson og Findus. Ég settist niður til þess að skrifa káputexta fyrir bókina mína út frá glósum. Gerði sjö stykki sem voru öll stórgölluð. Las tillögu forlagsins og leist ekkert á hana heldur. Verstu lesendur sem maður getur fengið eru lesendur sem eiga von á einhverju öðru en finna má í bókinni. Þannig lesendur verða bara fyrir vonbrigðum og kvarta við alla sem vilja hlusta. Og ég hef miklar áhyggjur af þessu. Textinn þarf að vera réttur/sannur og líka lokkandi án þess að vera of slepjulegur. Hann þarf að vera fallegur. Hnitmiðaður. Laus við fíflalæti (að minnsta kosti í þetta sinnið). Á endanum steypti ég saman það besta úr þessum átta textum, fékk athugasemdir frá vinum, og er með skítsæmilegan texta núna, held ég. Ég ætla að liggja á honum í viku, líta á þetta aftur, og senda hann svo til baka á forlagið. Ritstjórinn minn er hvort eð er í fríi fram undir mánaðarlok svo það liggur ekkert á.

Á meðan ég íhugaði og pældi bakaði ég valhnetubrauð. Svo íhugaði ég meira við rakstur. Íhugaði svolítið meðan ég lagaði vaskinn, sem var stíflaður. Íhugaði dálítið í verslunarferð og íhugaði loks meðan ég eldaði kvöldmat – soðinn lax með appelsínum, graskersfræjum, bulgur og salati (það var fáránlega gott, en ég fer nú ábyggilega bráðum að venjast því að maturinn sem ég laga sé stórkostlegur og hætti þá vonandi að nefna það, en þið, kæru lesendur, takið því þá bara sem gefnu að ef annað er ekki tekið fram hafi allir fallið í stafi og étið yfir sig af stjórnlausri áfergju). Nadja og Aram komu heim rétt fyrir átta og þá átum við. Það hafði verið mjög gaman í leikhúsinu. Það rigndi að vísu í Linköping, líkt og hér, með þrumum og látum, einsog hér, en stytti upp áður en sýningin hófst sem var eins gott því þetta var útileikhús. Aram þótti þó helst í frásögur færandi að hann hefði fengið að keyra með tveggja hæða strætó.

Ég lagði frá mér Lólítu í gær og byrjaði að glugga í dagbækur Witolds Gombrowicz sem Nadja á á sænsku. Þetta er helvítis torf einsog fagurbókmenntir í þýðingu eru oft. Það er enginn þjóðflokkur á jörðinni með stærri orðaforða en fagurbókmenntaþýðendur enda liggur þetta í orðabókum árum saman, kann enginn fleiri blæbrigði í setningamyndun en þýðendur. Og er ofsalega gott þegar maður á málið að móðurmáli en flækist fyrir þegar maður er að lesa á máli sem maður talar ekki eins vel. Mér finnst ekkert mál að lesa skáldsögur frumsamdar á sænsku en að lesa þýðingar er moj. Og raunar á það sama við enskuna þótt ég kunni hana afskaplega vel – ég er lengur að lesa þýðingar en frumsamdar bækur. Sumir þeirra höfunda sem skrifa á ensku en eiga önnur tungumál að móðurmáli – einsog Joseph Conrad sérstaklega, og kannski Nabokov að einhverju leyti líka – eru síðan svo uppteknir af að sanna tök sín á þessu öðru tungumáli sínu að þeir blása allt út og skrifa kraftaskáldskap á heljarstökkum.

Annars er ég ekki búinn að lesa nóg af Gombrowicz til þess að koma með digurbarkalegar yfirlýsingar. En mér skilst á Nödju að dagbækurnar innihaldi einmitt fyrst og fremst digurbarkalegar yfirlýsingar um allt milli himins og jarðar. Og hann er víst ekkert að láta fólk geta sér til um að hann sé hæfileikaríkur heldur segir það bara beint út. Og það er auðvitað gott.

9. júní

June 9, 2012 in blogg

Við hjónin sváfum yfir okkur. Anna vakti okkur klukkan korter í átta vegna þess að við höfðum lofað að skutla henni á flugvöllinn. Ég hellti í mig einum kaffibolla og brunaði svo til Norrköping í einum grænum. Að því loknu keyrði ég í gegnum miðbæinn í leit að nærbuxnabúð en fann ekki. Ég fann hins vegar Hemköp þar sem má kaupa ætan mat. Ég verslaði svolítið og keyrði svo heim. Svo át ég morgunmat og fór í fótbolta við Aram og Alexöndru. Svilinn tók sig til og lagaði gamalt hjól sem Alexandra átti svo Aram gæti notað og við æfðum okkur svolítið í heimkeyrslunni, sem er bæði löng og frekar brött. Að því loknu átum við afganga í hádegismat og fengum okkur lúr. Aram var einstaklega erfiður að sofna einsog í gær, en í dag lenti það að mestu leyti á Nödju.

Svo fór ég að leita að rakdótinu mínu en fann ekki. Leitaði að nærbuxum en fann ekki. Fór í sturtu. Þegar Aram vaknaði fórum við öll saman út í búð – og Aram fór á hjólinu, hjólaði (með hjálparadekkjum auðvitað) einsog hann hefði aldrei gert annað. Þar keyptum við nammi og nærbuxur. Þegar heim var komið eldaði ég tofurétt í hoi sin sósu, sem var algert æði. Wokið svínvirkar líka eftir aðfarir gærdagsins (var það ekki í gær annars? fyrradag? á ég að fletta því upp?)

Ég les Lólítu orðið á hraða snigilsins. Síðustu tvö kvöld hef ég lesið matreiðslubækur í rúminu. Í sjálfu sér er hægt að leyfa sér að delera gáfulega um Lólítu ansi lengi en þegar allt kemur til alls er þetta bara bók um eigingjarnan barnapervert – og andúð höfundar eiginlega full gegnsæ á köflum, einsog hann óttist reglubundið að fólk muni halda að hann sé að tala máli níðingsins. Annars er það að verða regla frekar en undantekning að mér þyki meistaraverk heimsbókmenntanna áhugaverð fyrst og oft frekar skemmtileg framan af en svo óþolandi leiðinleg löngu áður en ég er búinn með þau. Svoleiðis að ég nenni ekki að klára þau. Það hefur ekki alltaf verið svoleiðis. Eiginlega þvert á móti. Þetta er kannski eitthvert skeið. Aldurinn. Fagurfræðilegt mótþróaskeið.

Ég held reyndar að ég hafi lesið Lólítu þegar ég var unglingur en man það ekki frekar en svo margt annað. Frá sirka 16-17 ára til 21-22 las ég slík reiðinnar býsn og margt af því held ég hálfsofandi í einhverju kapphlaupi við að komast yfir sem mest áður en ég dræpist. Og svo situr auðvitað ekki mikið eftir. Eða svona. Sumar bækur las ég glaðvakandi. Og þær sitja jafnvel í mér þótt ég geti ekki nema í afskaplega grófum dráttum þulið söguþráðinn. Einsog Glæpur og refsing, sem ég hef lesið 5-6 sinnum síðan, og mér finnst alltaf bara vera um mann sem drepur kellingu og sér eftir því. Allt annað er bara aukaatriði. Hismi. Gott ef hún var samt ekki líka dálítið þreytt í annan endann.

Það er kannski kominn tími til að lesa Ulysses. Vinur minn var að þýða hana á finnsku. Er það ekki ágætis áramótaheit? Læra finnsku og lesa Ulysses. Tvær flugur í einu höggi. Verst að það eru ekki áramót.

4. – 8. júní

June 8, 2012 in blogg

Það er svo mikið að gera í sumarfríinu að maður hefur ekki tíma til þess að skrá hvað maður étur í morgunmat, hvað þá annað. Ekki það ég sé beinlínis að gera neitt. En það er nú líka punkturinn með þessu. Að maður sé ekki að gera neitt. Stressa sig á neinu.

Allavega. Ég tók rútu frá Skavsta til Nyköping, lest þaðan til Norrköping, rútu til Vistinge og rútu til Rejmyre. Aram tók á móti mér hlaupandi og æpandi einsog sögupersóna í Disney teiknimynd. Hann hefur náttúrulega ekki lært að skammast sín fyrir plebbaskapinn – og ég er óforskammaður einsog allir vita svo ég hljóp á móti honum einsog Disneypabbinn sem kemur heim úr langri sjóferð. Eða úr stríðinu. Svo knúsaði ég Nödju og gekk með fjölskyldunni minni í búðina. Að því loknu fékk ég mér lúr. Ég vaknaði um kvöldmatarleytið og hjálpaði Nödju að gera kvöldmatinn … sem var bara einhver redding, grænmeti og hrísgrjón og eitthvað. Það átti að vera fiskur en herrann á heimilinu, svili minn, sem var á bílnum í Finspång tafðist svo það varð ekkert úr því. Um kvöldið höngsuðum við.

Þriðjudag. Hmm. Það er merkilegt hvað hlutirnir eru fljótir að hverfa. Dagarnir snöggir að gufa upp ef maður notar ekki tækifærið og grípur þá. Ég reikna með að ég hafi borðað jógúrt og banana í morgunmat. Ég man að ég fór frekar snemma á fætur vegna þess að það var vond hugmynd. Nadja bauð mér að sofa út en ég þáði það ekki. Og var hálfvegis lasinn allan daginn. Ég gerði kvöldverðar- og innkaupalista fyrir komandi viku og fór á bílnum til Finspång með Aram að kaupa í matinn. Það gekk ekki alveg nógu vel. Til að byrja með var ég bara með kort og ekkert klink og það þurfti að setja klink í kerrurnar. Ég dröslaðist því um alla búð með margar matarkörfur sem ég flutti síðan að kassanum. Þar að auki var alveg hálf vinna auðvitað að fylgjast með Aram sem hljóp um alla búðina og skoðaði ísskápa og hillur. Í ofanálag er bara andskotinn ekkert til í þessum búðum. Ég man eftir þeirri tíð að ég dáðist að sænskum kjörmörkuðum fyrir vöruúrval en þetta var bara ekki nógu gott. Ekkert tofu. Ekkert tahini. Og svo framvegis og svo framvegis. Við pökkuðum öllu í átta innkaupapoka og fengum hjálp frá gömlum manni við að bera þá út í bíl. Þegar heim var komið var mér sagt að maður gæti fengið lánaðan gervipening til að setja í kerrurnar ef maður bæði um hann – en það hafði nú samt enginn fyrir því að nefna það við mig í búðinni, þótt ég væri í augljósum vandræðum með hlassið.

Um kvöldið eldaði ég aspas frítötu sem var nú bara la-la, enda ferski aspasinn í henni ekki til neinnar fyrirmyndar, seigur og bragðlaus. Þetta kvöld komu foreldrar svilans í mat enda voru þau hjónin (það er að segja mágkonan og svilinn) á leiðinni á Sweden Rock daginn eftir og foreldrar hans höfðu boðist til að passa. Það var að vísu áður en það varð ljóst að við yrðum hér á sama tíma en þau vildu nú samt koma. Svo höngsuðum við og horfðum á Game of Thrones.

Daginn eftir áttum við von á heimsókn frá vinkonu okkar sem er hálffinnsk og hálfbandarísk en býr í Bandaríkjunum. Þennan dag þáði ég boðið um að sofa út og stærstur hluti morgunsins fór í það. Þungarokkshjónin höfðu fengið sendibíl lánaðan hjá foreldrum hans, til þess að sofa í á festivalinu, og við vorum á gamla rauða heimilisvolvonum. Við lögðum af stað á flugvöllinn í Norrköping með fyrra laginu því við ætluðum að leita uppi asíska búð í borginni – og fundum en þar var hvorki til tofu né sítrónugras. Á endanum fundum við samt sæmilega stóra ICA verslun þar sem var til það sem okkur vanhagaði um. Að því loknu lögðum við af stað á flugvöllinn. Nadja var með GPS-ið í símanum mínum og sagði mér til vegar – en svo fórum við óvart út af hraðbrautinni á vitlausum stað sem varð til þess að Nadja ruglaðist í ríminu og stýrði mér aftur að ICA-versluninni. Þar lögðum við aftur í hann og komum á flugvöllinn rétt í þann mund sem Anna Bergman kom út á gangstétt.

Svo brunuðum við til Finspång þar sem Anna og Nadja fóru í göngutúr en við Aram skelltum okkur í sirkus. Aram var búinn að vera mjög spenntur fyrir sirkusnum. Við lögðum í brekkunni fyrir ofan tjaldið og gengum í gegnum skóginn, keyptum okkur poppkorn og fengum okkur sæti fyrir miðju. Fyrsta atriðið var einhvers konar súludansari – akróbat – og tónlistin of há fyrir Aram sem vildi strax komast út. Við sátum samt aðeins lengur og næst kom Spiderman sem þeyttist upp og niður í reipisfimleikum. Aram vissi ekki hvort hann ætti að sitja sem negldur eða hlaupa út. Við eitthvað tilfelli byrjaði hann einfaldlega að háskæla og þá munaði nú minnstu að við færum einfaldlega. Þegar Spiderman var búinn jafnaði hann sig síðan, horfði á hunda og trúða og hesta og úlfalda og fannst mjög gaman. Í hléinu ákvað hann nú samt að fara og mér fannst óþarfi að vera að pína hann inn aftur. Þegar ég spurði hann hvað honum hefði þótt skemmtilegast svaraði hann Spiderman. Þetta er bara allt svolítið mikið held ég. Einsog þegar við fórum á Galdrakarlinn í Oz með mömmu og stungum einmitt líka af í hléi. Of mikill hávaði, of mikil læti, of intensíft. Hann er ekki einu sinni vanur því að horfa á sjónvarp. Honum fannst síðan miklu þægilegra að skoða úlfaldana og hundana úti í hléinu. Ég hugsa að myrkrið og hávaðinn hafi spilað miklu stærri rullu en nokkuð sem gerðist beinlínis þarna inni. Nema hvað. Við röltum aftur í bílinn og náðum í Önnu og Nödju í Finspång, keyrðum heim og elduðum couscoussalat í kvöldmat. Svo gengum við frá, Nadja og Anna spjölluðu eitthvað fram á kvöld og síðan horfðum við á nýjasta þáttinn í Game of Thrones.

Í gær … fórum við til Finspång í leit að skóm fyrir Aram. Við uppgötvuðum á dögunum, okkur til mikillar skelfingar, að skórnir hans voru orðnir alltof litlir. Og keyptum nýja skó sem voru alltof stórir. Og nú sem sagt ætluðum við að finna eitt passlegt par. Við stoppuðum í flóamarkaði á leiðinni þar sem við fengum eitt buxnapar, nokkrar barnabækur og ég keypti mér þrjár matreiðslubækur. Eina með grænmetismat, eina með sjávarréttum og eina sem heitir Kärlek, oliver og timjan (Ást, ólífur og garðablóðberg). Grænmetisbókin er eftir sömu konu og gerði þessa og í sænskri þýðingu:

Myndirnar í henni eru af sama tagi og forsíðumyndin hér. Og Sarah Brown er eins á þeim öllum. Hún er svolítið einsog uppblásanleg dúkka. Svona fer grænmetisfæðið með mann. En í þessari bók er meðal annars kennt hvernig maður getur búið til tofu og jógúrt og kvarg og ég veit ekki hvað og hvað.

Síðan fórum við alla leið inn í bæ, keyptum þrjú pör af skóm (þar af eitt sem passar og eitt sem Aram vill ganga í, en það er því miður ekki sama parið). Að því loknu / svo / síðan / þar á eftir fórum við á skemmtilegan leikvöll í bænum, fengum okkur síðan ís og kaffi og keyrðum aftur heim. Ég lagði Aram og húkti á meðan Nadja og Anna tóku sig til og tæmdu kerruna – sem var alltaf eftir. Ég hjálpaði svo til á lokasprettinum (þegar ég hafði verið látinn vita hvað stóð til – þessar nútímakonur eru alltaf í einhverjum svona testósterónleik og halda að við karlarnir getum ekki hjálpað neitt) við að bera kassana upp á þriðju hæð og stinga þeim upp í skápa hér og hvar í húsinu. Svo tók ég til við kvöldmatinn, sem var einstaklega veglegur í þetta skiptið – Tom Yum súpa í forrétt og Nasi Goreng í aðalrétt. Um kvöldið leigðum við mynd í gegnum sjónvarpið og fyrir valinu varð The Trip með Steve Coogan og Rob Brydon – sem var kynnt til sögunnar svo að þetta væri Sideways með mat. Það var nota bene ekki ég sem valdi myndina, ég var ekki einu sinni á svæðinu þegar hún var valin – ég var einni hæð neðar að poppa ofan í lýðinn. En ég var samt alveg sáttur. Og myndin var skemmtileg.

Í dag vaknaði Nadja á undan Aram og fór með hann niður án þess að vekja mig. Ég kom tæpum klukkutíma síðar. Við drukkum kaffi úti í sólinni, spásseruðum í skóginum og höfðum það gott. Þegar Anna var vöknuð gengum við niður í bæ. Við ætluðum að kíkja á bókasafnið en það reyndist bara opið milli eitt og tvö á þriðjudögum og fjögur og fimm á fimmtudögum og þess utan var starfsmaðurinn á leiðinni í mánaðarlangt sumarfrí. Við kíktum þá í glersmiðjuna, sem er hjarta bæjarins, og fengum að skoða. Svo litum við líka í járnsmiðjuna en þar voru allir í pásu. Við komum við í bakaríinu og þá var Aram orðinn svo þreyttur að ég hélt á honum heim á meðan Nadja og Anna héldu áfram röltinu. Ég gaf Aram afganga af Nasi Goreng (sem fól meðal annars í sér að tína burt pínulitla chilibitana, aðallega svo hann sæi þá ekki, frekar en að hann taki mikið eftir þeim, held ég). Svo kom Nadja heim, hún fann bók á finnsku sem að Anna gat lesið fyrir hann og þau fóru saman upp. Ég tók að laga plokkfisk fyrir þá sem voru heima og vakandi. Rétt áður en maturinn var tilbúinn hringdi elsta dóttirin, sem er að verða þrettán ára, og sagðist vera með svo mikið dót að hún gæti ekki borið það heim. Við skutluðumst þá á bílnum og sóttum hana. Allt þetta dót reyndist þá vera skólataska og gítar. Skólinn er fimm mínútur í burtu. Æskan! Sic transit gloria mundi, hugsaði ég, sem gekk með skólatösku og gítar um allan bæinn frá því ég var tíu ára – og stundum hjólabretti líka – og fannst ég ægilega, óskaplega, yfirgengilega gamall að vera farinn að kvarta yfir leti unga fólksins. En djöfull er unga fólkið samt latt.

Við átum plokkfiskinn með dönsku rúgbrauði sem passaði mjög vel. Síðan gekk ég frá og fór upp til að kíkja í tölvuna. Þá var Aram kominn fram á gang, búinn að kúka í bleyjuna sína og tæta í sundur kerti í glugganum. Og hafði að eigin sögn ekkert sofið. Ég þreif hann, skolaði bleyjuna (hann er yfirleitt með taubleyjur), setti á hann nýja, las fyrir hann og lagði hann aftur. Svo húkti ég uppi í svefnherbergi þar til ég var viss um að hann væri sofnaður. Rétt eftir að ég var viss um að hann væri sofnaður – eftir svona tuttugu mínútur, hálftíma – heyrði ég síðan einhver skarkala og tíu sekúndum síðar var hann farinn að gráta. Ég fór inn til hans og þá útskýrði hann fyrir mér að tvær styttur, sem standa á arninum hinumegin í herberginu, hefðu dottið á nefið á honum. Ég söng fyrir hann, kyssti hann á nefið og lagði hann aftur. Svo húkti ég meira og sofnaði á endanum sjálfur í smástund.

Þegar ég vaknaði fór ég niður að laga wokið mitt. Maturinn hefur tekið að festast svo við botninn á því og það er ekki nógu gott. Þetta er heldur ekkert teflondót heldur kolstálspanna sem ég fékk í afmælisgjöf frá Nödju fyrir tveimur árum. Ég las mér til um þetta og skrúbbaði hana síðan vel með stálull, þvoði úr sápu og hitaði grænmetisolíu í henni að brunamarki í þrígang. Það reddar þessu vonandi. Á meðan gerði ég líka hummus fyrir kvöldmat og byrjaði á falafelinu sem var í kvöldmat.

Aram vaknaði síðan og var kominn næstum alla leiðina niður áður en ég varð hans var. Nadja og Anna höfðu farið í göngutúr út í skóg, þar sem þær köstuðu sér víst naktar til sunds í stöðuvatnið, yngri dótturinni til gríðarlegrar hneykslunar. Nema hvað. Aram hafði byrjað á því að finna sér dálítið af naglalakki og þegar hann kom niður var önnur höndin á honum fjólublá og hann vildi meina að sér sviði undan þessu. Ég skrúbbaði það af honum við merkilega lítið kvabb og hélt síðan áfram að dunda mér við matinn, á meðan hann fór að leika við yngsta heimilismeðliminn, Liam, og ömmu hans. Nadja hjálpaði mér svo að steikja á lokametrunum á meðan ég skar grænmeti.

Einhvernveginn svona var maturinn: falafel, gúrku-tómata-og-fetasalat, rifnar gulrætur, couscous, ajvar, tahini, hummus, nýbakað hvítt brauð úr bakaríinu, eitthvað indverskt mangópikkles sem Nadja keypti í Helsinki og er æðislegt og … ekkert fleira. En þetta var líka alveg nóg. Og feykilega gott.

Eftir matinn fékk ég í bakið – ég er alltof hávaxinn fyrir eldhús heimsins – og notaði tækifærið til þess að leggjast í rúmið og færa til bókar síðustu daga.

–––––

Við þetta er svo sem ekki mörgu að bæta. Ég hef verið að velta því fyrir mér að slökkva á kommentakerfinu hérna (sem er lítið notað hvort eð er) og hætta á plúsnum líka (þar sem eru fáir). Það er margt við internetið fullkomlega óþolandi og meðal annars þetta hópsálarbúnkermentalítet sem grípur fólk, þessi pólarísering og undarlega high-five stemning. Þessi liðastemning, þar sem allar markalínur og niðurstöður eru fyrirframgefnar, þar sem allt sem sagt er dregst í dilka og er skilgreint fyrst og fremst út frá því hvar samúðin liggur, hjá hvaða demógrafíu samúðin liggur. Einsog samræðan sé ekki til. Einsog sannleikurinn sé í einum skilningi ekki til og í öðrum alltaf aðeins og eingöngu einn (og aldrei þinn, bara hinna). Ég veit ekki hvort fólk er að grafa sér grafir eða skotgrafir en það er erfitt að standa utan við þetta. Nú nýlega hef ég auk þess áttað mig á því að það er aldrei hægt að treysta því að það liggi ekki einhver á hleri, og það er aldrei hægt að treysta því að það sé ekki einhver að dokumentera – skjáskjóta öllu sem sagt er svo hægt sé að standa einhver bókstafstrúarreikningskil á öllu heila klabbinu.

Það er einsog margir Íslendingar eigi sér orðið bara einn gír í samskiptum: uppgjör. Ef að stærsta félagslega vandamál góðærisins var eilíf og óþolandi krafa um að allir væru stanslaust í gúddífíling og gagnrýndu aldrei neitt þá er eitt stærsta vandamál eftirgóðærisins að fyrir þetta á að bæta með heift og einstrengingshætti. Ég er jafn mótfallinn því að samfélagið standi í stanslausu uppgjöri, einn einstaklingur við annan, og ég er mótfallinn því að lífið eigi að vera ein áhyggjulaus gleðireið sem aldrei megi bera skugga á. Hvorutveggja er í algerri andstöðu við alla lýðræðislega hugsun. Lýðræðið þrífst hvorki þar sem gagnrýni leyfist ekki né þar sem ekki er óhætt að ræða saman fyrir óvild.

En altso. Internetið – og sérstaklega samfélagsvefirnir – hafa verið mér kaffihús í útlegðinni. Ég á mér engin önnur kaffihús. En mér er farið að líða einsog allir á kaffihúsinu mínu vinni fyrir Stasi, séu með diktafón og láti upplýsingar ganga. Segi ég eitthvað um einhvern í hálfkæringi eða pirringi – jafnvel í lokuðum hópi – er það svo til samstundis komið á skjáskoti til viðkomandi (og einsog allt gott slúður lekur það í marga hringi). Einsog þeim komi í raun eitthvað við hvort að ég er að pirrast við vini mína. Ég skil ekki hvernig þetta þykir í lagi. Ég á ekki við að það eigi að vera ólöglegt – ég á bara við að það er fáránlegt að vinir og kunningjar njósni hver um annan og hafi um það gögn og jafnvel litla persónulega gagnabanka sem hægt er að grúska í eftir þörfum. Að við séum hvort öðru til skiptis Stasi og Wikileaks. Meðal annars vegna þess að þetta grefur undan trausti. Það er ekki hægt að tala upphátt í samfélagi þar sem allt er tekið upp.

Ef að allur almenningur hefði aðgang að eftirlitsmyndavélunum í Reykjavík – ef þær væru bara á netinu – myndum við aldrei anda létt aftur (eða sem sagt, þið sem búið í Reykjavík, það eru engar eftirlitsmyndavélar í Rejmyre). En það myndi heldur aldrei neinn aftur brjóta rúðu eða halda framhjá eða hlaupa á typpinu yfir götu. Nema í yfirlýstu raunveruleikasjónvarpi. Það yrðu þá bara Auddi og Sveppi. Það er ekki hægt að eiga vini sem njósna um mann. Það er ekki einu sinni hægt að eiga nágranna sem njósna um mann. Og samfélög þar sem slíkt er normið – sérstaklega ofan í móralska dómhörku – verða fljótt hysterísk, heft og brjótast út í ofsafengnum kviðum, fæstum til mikillar ánægju. Fyrir utan hvað hversdagurinn verður grár og ömurlegur. Því er reglubundið haldið fram að þetta séu bara óhjákvæmilegar afleiðingar tækniframfara sem við getum ekkert gert við nema fylgjast með úr fjarlægð – sem er reyndar alveg einstaklega passíf afstaða til heimsins. Við hefðum allt eins getað haldið því fram þegar diktafónninn var fundinn upp að þar með væri veruleikinn einfaldlega breyttur og punktur basta, ekkert í því að gera þótt allir taki allt upp. Það breytir því ekki að einmitt því höfnuðum við – víðast hvar með löggjöf, en alls staðar siðferðislega.

Það sem ég vildi sagt hafa. Þegar maður er farinn að upplifa samfélagið á þennan veginn er kannski best að eiga bara einræðu. Því er kannski ekki svo farið að ég hafi alveg misst trúna á samræðuna – enda stendur það, einsog ég hef nefnt, því næst að lýsa yfir fasískum tilhneigingum – heldur meira hitt að ég veit ekki hvað maður segir við fólk sem ætlar manni alltaf það versta og heldur jafnvel um mann skrár til þess að geta sýnt og sannað með orðhengilshætti, bókstafstrú og sannfæringarkrafti að maður sé barasta víst skíthæll og hafi helst alla tíð verið það. Ég veit ekki hvað maður segir við fólk sem hefur fyrir löngu síðan gert upp hug sinn, læst honum og kastað lyklinum af ótta við að það leynist eitthvað í heiminum sem það hafi ekki komið auga á. Fólk sem talar einsog jarðýtur. Fólk sem gefur manni aldrei annan valkost en uppgjöf eða ósigur. Þá er betra að tala bara upphátt í einrúmi og vona að það heyri einhvern tíma einhver til manns, það sé einhver að hlusta.

The Reykjavik Grapevine: Hooray for Boobies!

June 5, 2012 in blogg

Through it all he still somehow found time to get married, conceive and raise a child and write dozens of awesome poetry columns for Reykjavík Grapevine—most of which have now been collected in an omnibus of his English-language writing. We wrote him some emails to ask about it.

Hi Eiríkur. We hear you’ve compiled in a new book some of the many fine columns you wrote for us back when we were younger and more innocent. Is this true?

It is!

What is it called?

‘Booby, Be Quiet!’

via The Reykjavik Grapevine – Life, Travel and Entertainment in Iceland / Hooray For Boobies!.

IWF! IWF! OMG! OMG!: “Empfehlenswerter Experimental-Lyrik-Band”

June 5, 2012 in blogg

In der konkreten Poesie von Eiríkur Örn Norðdahl formt sich die Schrift zum Zeichen eines großen Copyrights. Wo beginnt eigentlich geistiges Eigentum, von wem stammt welche Idee und wo endet ihr Schutz? Eiríkur kopiert tausend Seiten einer Lyrikseite, wählt die Funktion »Auto-Zusammenfassen« und erhält 0,1 Prozent des ursprünglichen Textes gleichsam als die Essenz seiner Lyrik. In deutscher Übersetzung von Jón B. Atlason und Alexander Sitzmann ist nun sein empfehlenswerter Experimental-Lyrik-Band »IWF! IWF! OMG! OMG!« erschienen.

via 02.06.2012: Klartext gesucht (Tageszeitung junge Welt).

1.-3. júní

June 4, 2012 in blogg

Ég fór á fætur skömmu eftir fimm á föstudagsmorguninn, stökk af stað og tók strætó til Vistinge, þaðan til Norrköping, lest til Nyköping og strætó út á Stockholm Skavsta þaðan sem Ryanair ætlaði að fljúga með mig til Charleroi flugvallar í Belgíu. Það gekk svo sem allt einsog í sögu. Ég svaf einhvern veginn kengboginn með andlitið í lófanum á mér. Ég hef aldrei flogið með Ryanair áður og skilst að maður eigi ekki að gera það enda sé þetta skíthælafyrirtæki sem misþyrmi starfsfólki sínu og taki öryggisreglur bara svona rétt sæmilega alvarlega. Ekki það ég viti neitt um það og sjálfsagt er alltaf best að taka þannig upplýsingum með dálítilli saltklípu. En það var í öllu falli mjög lítið pláss í vélinni og stemmningin inni í vélinni var einsog á klósettinu á McDonalds.

Í Charleroi tók á móti mér töffarinn Dave, sem var einn af bílstjórum hátíðarinnar. Hann var svolítið einsog aukapersóna í kvikmynd, einhvern veginn. Ofsalega töff maður og kunni óhemju af töff frösum. Hann keyrði með mig á hátíðarsvæðið í Ghent þar sem ég hitti skipuleggjendurna. Ég komst meðal annars að því að einn af stuðningsaðilum hátíðarinnar er Sea Shepherd og það var hægt að kaupa boli á svæðinu þar sem samtökin hreyktu sér af sigruðum og særðum hvalbátum – þar á meðal Hvölum 6 og 7. Svo skutlaði annar bílstjóri hátíðarinnar mér heim til Maju Jantar, sem er hljóðaljóðskáld og listamaður og vinur Angelu Rawlings vinkonu minnar og hafði boðið mér að gista hjá sér frekar en að fara á hótel.

Það sló mig fljótt hvað róttæku græningjarnir voru „kynjaðir“. Þar flugu ýmsar athugasemdir sem hefðu kostað kjöldrátt í íslenskum hippaklíkum. Til dæmis sagði ónefndur karlmaður eitthvað á þessa leið: „Í Belgíu erum við kommúnistar þegar kemur að bjór, sígarettum, eiturlyfjum og – sumir – þegar kemur að konunum okkar.“ Og hinn bílstjórinn, sem var stúlka og næstum jafn töff og Dave, sagði eitthvað á þessa leið: „Alveg er ég viss um að þeir sem taka fram úr hægra megin eru bara með lítið undir sér, þarna niðri þú veist, og eru að reyna að bæta sér það upp.“ Og svo var fólk líka alltaf að spyrja mig hvort mér þættu ekki belgískar stelpur fallegar.

Þegar ég kom til Maju byrjaði ég einfaldlega á því að bæta mér upp nætursvefninn. Svo eldaði Maja yndislegan wok-rétt og dældi í mig belgískum lúxusbjór af hinum ólíkustu tegundum. Við sátum og spjölluðum fram á kvöld þar til að kærastinn hennar, Ásgeir (sem er, einsog athugulir lesendur hafa kannski getið sér til, íslenskur) og Illugi, vinur þeirra hjónaleysanna, bættust í hópinn. Þegar líða tók á nóttina var bjórnum skipt út fyrir viskí (sem fannst einnig í tíu þúsund ólíkum tegundum) og setið fram á morgun.

Daginn eftir var borinn fram morgunverður klukkan tvö eftir hádegi. Alls kyns skinkur og spægipylsur, fjöldinn allur af ostum og ólíkum brauðum, ofan í biksvart espresso. Eftir tveggja tíma morgunverð fórum við Maja aftur niður á hátíðarsvæðið – hún hjólandi en ég í strætó. Maja hafði sagt mér hvar ég ætti að fara úr og ætlaði að taka á móti mér þar, en svo var búið að loka einni götunni á leiðinni svo strætóinn fór einhverja tóma vitleysu og ég fór út á kolvitlausum stað. Ég átti að fara á svið klukkan fimm og rétt náði á svæðið fimm mínútur í. Þegar ég var búinn að lesa upp (sem gekk ekkert alltof vel, fannst mér, en fólk var samt alveg ánægt með þetta) stakk Maja af í sándtékk fyrir tónleika og ég hékk á hátíðarsvæðinu, hlustaði á tónlist, drakk bjór og át veganmat. Svo tók ég upp símann og gekk í gegnum bæinn með GPSið á lofti og fann barinn þar sem Maja var að fara að spila.

Vinur hennar, sem er raftónlistarmaður, átti afmæli og ákvað að gefa sjálfum sér það í afmælisgjöf að fá að spila með hljómsveitinni, sem heitir Invisible Cities. Þetta er mikil tilraunamúsík og þrjár konur sem spila, ein á saxafón, ein í röddum og svo kúbanskur trommari. Og var mjög flott. Þegar þær voru búnar að spila með afmælisbarninu var hann dreginn út í garð þar sem vinir hans reistu honum kross, festu hann við krossinn með köðlum, færðu hann í kufl og svívirtu síðan á alla hugsanlega vegu, meðal annars með því að slá hann frekar harkalega með alls kyns eldhúsáhöldum. Hann fékk að húka á krossinum í tæpa klukkustund meðan önnur hljómsveit – trommur og syntar – lék í garðinum.

Loks var svo hefðbundnari rokkhljómsveit inni á barnum – eða rokk … líklega meira ska, meira pönk, meira polka, meira apókalypsó. Ég dansaði og dansaði af ofsafenginni gleði, einsog reyndar fleiri, í rúma klukkustund og var orðinn gegndrepa af svita áður en yfir lauk.

Maja stakk upp á því að við myndum skipta um stað og við færðum okkur yfir á barinn þar sem Ásgeir var að vinna við að skenkja. Þar fékk ég meðal annars einhvern munkabjór sem var svo fágætur að hann var ekki til sölu, ekki einu sinni hægt að panta hann inn á barinn því klaustrið ræður ekki við þannig fjöldaframleiðslu – Ásgeir átti bara einn undir borðinu. Það var mjög góður bjór, einsog reyndar nærri því allir bjórarnir sem ég drakk í Belgíu. Við héngum þarna eitthvað fram undir þrjúleytið og fórum síðan heim (nema Ásgeir og Illugi sem héldu áfram langleiðina fram á hádegi).

Morgunmatur klukkan tvö eftir hádegi. Ostar og skinkur og spægipylsur og nýbökuð bakaríisbrauð. Maja var að performera á hátíðinni þennan daginn og bauð mér að taka þátt og lesa stutt hálfimpróvíserað verk sem var unnið upp úr Lísu í Undralandi og samið af fyrrverandi kærastanum hennar (sem ég er búinn að gleyma hvað heitir). Á síðustu stundu bauð hún líka ljóðskáldinu Philip Meersman, sem var að lesa á eftir henni, að vera með. Það var fjarska skemmtilegt og við náðum vel saman. Laugardaginn hafði verið sól og blíða en núna var rigning – og um morguninn hafði verið hellirigning. Við horfðum á Philip Meersman lesa og fórum svo og fengum okkur döner kebab, að minni uppástungu (eða Maja fékk sér falafel, stelpur fá sér alltaf falafel). Það var ágætt, svo sannarlega miklu betra en nokkuð sem býðst manni í Finnlandi og víðast hvar í Svíþjóð. En stórt kebab í Belgíu er af annarri stærðargráðu en ég á að venjast – það er einsog fjögur eða fimm berlínarkeböb (en ekki eins gott, að minnsta kosti ekki á þessum stað). Við röltum í gegnum innflytjendahverfið þar sem grillað var shish kebab á hverju götuhorni og reykinn lagði yfir allt og það var furðu mikið líf á götunum miðað við hvað veðrið var leiðinlegt. Við tókum síðan með okkur keböb fyrir Ásgeir og Illuga sem voru þá að skríða á fætur.

Svo sátum við Ásgeir og Maja og spjölluðum fram á kvöld og gæddum okkur á ferskum ananas, þurrkuðum kryddpylsum, svörtum og grænum ólífum og tyrknesku brauði með grískum fetaosti. Það er alveg merkilegt hvað kaþólsku löndin standa hinum lútersku langtum framar í hedónisma og gastrónómískum lystisemdum (mér skilst til dæmis að handan við hornið í Hollandi mótmælismans sé þetta ekki svona lengur). Það er hreinlega einsog matur sé bragðmeiri og safaríkari í hlutfalli við hversu margir íbúanna játast kaþólskan sið. Drottinn sér um sína. Nema það sé helvítis andskotinn, auðvitað, sem afvegaleiðir sálir með mat og drykk.

Dave sótti mig svo í morgun. Hann var korteri of seinn og þetta var allt saman á tæpasta vaði. Ég rétt náði fluginu. Nú sit ég á Stockholm Skavsta og bíð eftir strætó sem kemur eftir klukkutíma.