17. júní

June 17, 2012 in blogg

Í dag var þjóðhátíðardagur. Ég vaknaði á hádegi á sófanum hjá Jocke. Við spjölluðum um kapítalisma í svona klukkustund og þá rölti ég niður í bæ, fékk mér Elsa’s Kyckling á Viking Pizzeria (sem er gamalt uppáhalds) og kaffi á Wayne’s Coffee (sem var meira svona tilfallandi vegna þess að það byrjaði að rigna). Þar bloggaði ég gærdeginum í (alltof) löngu máli og færði mig síðan yfir á Kalla á Spönginni og skrifaði tölvupósta og tók út blaðsíðunúmerin úr Kiru Argunova. Væntanlega er manni svo óhætt að dreifa þessu. Sagan liggur bæði í hlutum inni á timarit.is og með ritgerð á skemmunni.

Eftir hangsið á Kalla fékk ég mér 13c á Spicy Hot og rölti aftur upp í Hrábæ og horfði á Danmörk-Þýskaland (sem fór 1-2 og var bara frekar spennandi). Bæði á röltinu upp eftir og niðureftir hlustaði ég á Min Kamp eftir Knausgård. Hann er eiginlega betri en ég átti von á. Skrítið líka – ég reiknaði með því að þetta væri „eldri maður“, að lágmarki hálfsextugur. En svo er hann bara tíu árum eldri en ég – og bara fimm árum eldri þegar hann skrifar fyrstu bókina. Altso 39 ára. Og það er miklu meiri og persónulegri speglun þarna en ég reiknaði með. Annar kafli fjallar að miklu leyti um samþættingu rithöfundalífs eða köllunar við hversdagslega hamingju, fjölskyldulíf og barnauppeldi. Eða hvernig þetta samþættist einmitt eiginlega ekki neitt og verði að existera hlið við hlið frekar en blandast.

Ég átti von á meira karlagrobbi, egótistískari texta. Kannski verður hann það seinna. En ég er ekki vonsvikinn, þetta kemur mér gleðilega á óvart.

Frétt dagsins er svo Guðbergur og textinn sem fjallar um geðslag Íslendinga og Gillzenegger. Guðbergur er einhvers konar ljóðmælandi – ég held að texta hans eigi hreinlega ekki að taka alveg bókstaflega – hann er rithöfundur en ekki stjórnmálamaður, frjáls andi en ekki bundinn. En Íslendingar í stöðugu mórölsku uppgjöri kunna auðvitað ekki lengur að lesa nema bókstaflega. Þannig segir ljóðskáldið Ingólfur Gíslason í athugasemd á DV, sem hefur fengið næstum 200 læk – lækuðustu ummæli dagsins á Íslandi, sigurummælin – að þetta hljóti að vera „ógeðslegasti pistill síðari tíma á íslensku máli“. Ingólfur fékk nota bene þau ummæli sjálfur hjá bókmenntagagnrýnanda Morgunblaðsins um árið að hann væri „siðlaus að eigin ósk“ en hefur síðan þá útskrifast inn í móralska meirihlutann sem þrammar um Ísland og bendir í allar áttir, skipar í raðir sekra og saklausra og útdeilir þolenda- og gerendamerkjum, svo allir viti hvar þeir standi. Aðrir vinir mínir hafa, skilst mér, lækað og dreift ummælum á Facebook þar sem þess er beinlínis óskað að Guðbergur drepist.

Guðbergur „gengur auðvitað alltof langt“ – einsog maður segir. En hann gengur samt ekkert mikið lengra en hefur verið normið að ganga – hann gengur bara í öfuga átt við flesta. Talar um ákæranda af sömu óvirðingu og fólk hefur almennt talað um ákærða. Án þess að nokkur hafi minnstu hugmynd um hvað gerðist nema upp úr einhverju slúðri. En þannig er líka Ísland. Raðir af samhangandi kjaftaklúbbum sem hver um sig heldur að hann sé með hinn eina sanna putta á hinum eina sanna púlsi. Það er sami skríll sem bjó til Gillz og rústaði honum – þótt það verði mannaskipti. Skríllinn er alltaf bara einn.

Guðbergur „gengur auðvitað alltof langt“ – en hann gengur ekkert lengra en þeir sem kalla hann geðsjúkan, elliæran eða athyglissjúkan æsingamann. Og talsvert skemur en þeir sem óska honum dauða. En hann gengur auðvitað alltof langt og hlutar af pistli hans eru týpískt íslenskt karlagrobb – þessi pungstíll sem notar búkorð á borð við „stelpupussur“ til að skapa léttúðuga stemningu, innanklúbbsstemningu. Hann þjónar að vísu líka því hlutverki að gera strik í sandinn – teprur hinumegin og aðrir velkomnir – en var hugsanlega bæði gagnlegri og kraftmeiri á sjöunda áratugnum. Hann fer að minnsta kosti instiktíft í taugarnar á mér. En kannski er ég bara tepra að eðlisfari, sjálfshatandi tepra.

Nema hvað.

Ljóðmælendur – eða frjálsir andar eða hvað það er sem maður vill kalla fólk einsog Guðberg, rithöfunda einsog Guðberg – eru ekki síst til þess fallnir að hreyfa við hugsunum. Sínum eigin og annarra. Annað en til dæmis móralistar sem vilja negla hugsanir fastar, hala þær inn og stýra. Sem er ástæðan fyrir því að móralskar skáldsögur (og þar með flestar pólitískar skáldsögur) misheppnast svona skelfilega. Ég veit að vísu ekki hvað Guðbergi tókst, hvað hann gerði – enda væri hann varla frjáls andi ef að slíkt væri einfalt reikningsdæmi – kannski blæs öllum sandkornum stormsins aftur á sinn stað þegar yfir lýkur. En það er eitthvað þarna. Eitthvað að. Og eitthvað fleira.

Einhvern tíma var hreinlega ætlast til þessa af skáldum. Að þau döðruðu við andskotann. Nú eru þau líklega bara til skrauts.

Eftir fótboltaleikinn horfðum við á Office Space og nú ætla ég að fara að lesa. Á morgun koma Nadja og Aram og við fljúgum saman til Frakklands annað kvöld. Þá verður nú gaman.

Share to Facebook
Share to Google Plus