31. júlí

July 31, 2012 in blogg

Í dag lauk ég við Illsku. Hún er búin í síðasta sinn. Fyrsta kláraða handrit var í lok janúar og nú er þetta búið – ekkert eftir nema prófarkalestur og umbrot. Einsog ég hef nefnt áður þá eru margar lokadagsetningar þegar maður skrifar bók – sérstaklega langa bók – en þessi er kannski einna veigamest. Eða mér finnst það. Ég er samt enn ekki búinn að átta mig á þessu. Er ekki í neinu rúsi. En ég er ánægður með bókina mína. Ég gerði þetta eins vel og ég gat.

Ég vaknaði smám saman á bilinu sjö og níu, einsog svo oft. Sjö kom Aram inn, hálfníu fóru þau mæðginin niður og klukkan níu elti ég þau. Ég vakti til þrjú í gær yfir Illsku – og svipað í fyrrakvöld. Við átum morgunmat og svo fór ég að lesa og breyta, lesa og breyta. Svo átum við pasta í hádeginu (sem Daniel eldaði) og Nadja fór í göngutúr með systur sinni en ég las fyrir Aram og lagði hann. Og svo lesa meira og breyta, lesa og breyta. Aram vaknaði og við lásum meira og svo gaf ég honum seríos í drekkutímanum. Nadja kom síðan heim og ég fór aftur að lesa og breyta, lesa og breyta. Uppúr fimm fór ég að færa inn síðustu breytingar – 125 talsins, mestmegnis smáatriði, nokkrar innsláttarvillur, skáletranir, inndrættir, textafitl og kannski 5-6 eiginlega „breytingar“ (sem voru þá aðallega til þess að gæta innra samræmis). 170 þúsund orð – milljón slög með bilum. Ég veit ekki hvað það gerir í blaðsíðum, satt best að segja. Meira en fimm hundruð, minna en átta hundruð – en það fer mikið eftir umbrotinu. Eitur fyrir byrjendur var 34 þúsund orð, Gæska var 65 þúsund – í sama broti yrði Illska 711 blaðsíður. En hún verður styttri en svo – eftir því sem bækur eru lengri þeim mun fleiri orð eru sett á hverja síðu. Ég held að það sé alltaf stefnt að einhverri optimal lengd – á bilinu 250-400 síður.

Þegar ég var búinn fór ég niður og Nadja pantaði pizzur á fjölskylduna. Við Daniel fórum svo og sóttum þær. Eftir matinn héngum við Aram svolítið og horfðum á teiknimynd um digurbarkalega bjöllu, lékum okkur svolítið, tókum pensilín án þess að blikna (eða hann tók sem sagt pensilín), fengum okkur súkkulaði og hindber, burstuðum tennurnar og lásum um Lottu Skottu og frekjudósirnar.

Í dag lauk ég við fjórðu skáldsöguna mína og á morgun eru liðin tíu ár frá því fyrsta ljóðabókin mín kom út. Verst hvað ég er vita vonlaus að halda upp á svona. Einsog ég er annars áfram um að maður fagni sjálfum sér – og bara almennt gleðjist.

30. júlí

July 30, 2012 in blogg

Ég stal Sjálfstæðu fólki og Íslandsklukkunni á netinu. Í enskri þýðingu. Í einhverju bríaríi. Til að vita hvort það væri hægt. Þá fyrri hef ég reyndar aldrei lesið. Ég á alltaf Atómstöðina líka á mp3 frá því að Forlagið gaf hana á vefnum um árið. Það stendur til að gera eitthvað með hana. Einhvern tíma þegar ég nenni.

Fyrir 12-18 mánuðum síðan týndum við hleðslutækinu í Sony digitalmyndavélina okkar og höfum ekki getað tekið myndir síðan. Við héldum alltaf að það hlyti að koma í leitirnar. Og vorum viss um að það myndi allavega gerast þegar við flyttum. En það gerði það sem sagt ekki – einsog reyndar ýmislegt annað sem bara hvarf (einsog t.d. hvítlaukspressa sem mér finnst ólíklegt að við höfum borið úr húsi). Í gær fór ég svo loksins á netið til að skoða hvað kostaði að kaupa nýtt hleðslutæki og ef við hefðum haft almennilegt, áreiðanlegt heimilisfang þá hefði ég pantað það. En ég gerði það ekki. Skömmu síðar fór ég niður og kom auga á hleðslutækið okkar uppi á skáp. Ég þekkti meira að segja módelnúmerið af netinu. Batteríið fór í hleðslu í nótt og það fyrsta sem ég gerði þegar ég vaknaði var að athuga hvort myndavélin virkaði ekki og fiska út af henni myndir. Svo fór ég niður og át seríos í morgunmat.

Ég man ekki alveg hvað gerðist svo. Jú, bíddu. Ég tók saman stutt ferilságrip og sendi mynd og nokkur ljóð á Vatnasafnið – fyrir heimasíðuna þeirra. Svo hjálpaði ég Nödju að hengja upp þvott og við átum nasi goreng leifar í hádegismat. Já og ég skrifaði líka bankanum til að lækka yfirdráttinn minn – og fékk out-of-office sumarleyfissvar frá fyrstu FJÓRUM þjónustufulltrúunum sem ég reyndi að ná í. Fimmti kippti þessu svo í liðinn fyrir mig.

Eftir matinn fór ég að lesa í Illsku og las eiginlega langleiðina fram á kvöldmat. Ég fór svolítið út og lék við Liam og Aram í kannski tæpan klukkutíma og henti mér svo í sturtu og rakaði mig og svona. Aldrei þessu vant lagaði ég ekki kvöldverðinn – heldur Jessica og Nadja. Það var ýmislegt í matinn. Þetta var svokölluð kräftskiva (vatnakrabbaveisla). En auk vatnakrabba var lax, tómata-og-jarðaberjasalat, kartöflubaka, osta-og-vatnakrabbasalat, stappaðar hvítlaukskartöflur og asnalegir hattar, bjór og síder.

Í vor þegar við komum til Svíþjóðar brá mér að sjá hversu ameríski fáninn er orðinn vinsæll á tískufatnaði. Meira af forvitni en nokkurri hneykslan. Þetta var óhugsandi þegar ég var unglingur – nema kannski hjá einhverjum harðkjarna körfuboltalýð. Í mínum kreðsum hefði maður verið drepinn. Og raunar grunar mig að þetta hafi verið svona alla tíð frá fyrra Íraksstríði – hvað sem leið allri apólitík á tíunda áratugnum. Nadja segir sömu sögu af unglingsárum í Svíþjóð. En núna er þetta úti um allt. Á gallabuxum, bolum, prjónapeysum, húfum. Aðallega á stelpum og aðallega yngra fólki – en ég hef líka séð fullorðna karla í svona fánabolum. Fyrir nokkrum vikum spurði Nadja yngri heimasætuna útí þetta – hún var í svona bol – og hún brást bara reið við. Í dag var litli bróðir Nödju hérna ásamt kærustunni sinni – þau eru nýútskrifuð úr menntaskóla og hún var með ameríska fánann málaðan á neglurnar. Við spurðum og hún bara yppti öxlum. Upp úr því varð talsverð umræða um ameríska pólitík – hvort Obama væri nokkuð skárri en hver annar og hvernig hann væri í samanburði við Clinton og hvernig Clinton hefði valdið stöðugum vonbrigðum allan sinn feril (þrátt fyrir að vera kannski miklu „skárri“ forseti en bæði forverinn og eftirmaðurinn). Allavega, það sem sló mig var að unglingarnir – sem eru að skríða upp undir tvítugt – duttu líka út úr samræðunum.

Æskan! Sic transit gloria mundi! Alltaf í tölvunni!!!

Næst fórum við af einhverjum orsökum að ræða Bobcat Goldthwait. Það var ekki til þess að auðvelda unglingunum aðgengið.

Aram fékk bók að gjöf frá Jessicu – um köttinn Snurran sem vill bara borða tómatsósu. Nadja las hana fyrir hann strax og svo fórum við upp og ég las hana í simultanþýðingu og hann fór að sofa. Nú eru allir niðri í stofu að spila keilu í Wii-tölvunni.

29. júlí

July 29, 2012 in blogg

Stundum get ég ekki greint einlæglega frá mínum degi án þess að afhjúpa einhver leyndarmál, útmála drömu einhvers annars fólks. Og það er ekki alveg hægt. Annað fólk á rétt á eigin hugarvílum, vandamálum, sjúkdómum og dramatík. En í öllu falli get ég sagt ykkur þetta: Við fengum enga pössun og þurftum því ekki að gera upp á milli þess hvort við vildum sjá Batman eða fara út að borða. Þetta er reyndar farið að verða daglegt brauð. Eða fjarska algengt. Við gerum plön og þau fara út um þúfur. Við ætluðum að vera ein í miðbænum meðan morfar og Aram færu á Skansen en það gekk ekki heldur. Við ætluðum saman öll fjölskyldan til Noregs á fjósafestivalið en það gekk ekki. Við ætluðum að fara tvö saman og halda upp á fimm ára brúðkaupsafmæli á leikhúshátíð við fallegt vatn í Finnlandi – spölkorn frá staðnum sem við giftum okkur. En það gekk ekki. Í tvígang hefur verið útlit fyrir að við gætum tekið því rólega fjölskyldan – bara við þrjú, ekki í vinnu, ekki uppá aðra komin – og í bæði skiptin komu veikindi í staðinn fyrir að af því yrði. Eða þau breyttu svolítið stemningunni að minnsta kosti. Við ætluðum fyrst að taka okkur heilan dag í Norrköping hjónin, síðasta þriðjudag, fara út að borða og nota þennan blessaða frímiða í bíó sem mér áskotnaðist á afmælinu – en þá fékk Aram 41 stiga hita. Þá drógum við saman plönin og ætluðum okkur bara nokkra tíma – í dag. En það gekk ekki. Við höfum búið í tvö ár í norður Finnlandi þar sem við höfðum engan sem gat/vildi passa fyrir okkur – og þar á undan bjuggum við ár í Västerås þar sem sama var uppi á teningnum. Nú erum við að fara til Stykkishólms þar sem við þekkjum engan. Ég sagði við Nödju að ég væri að verða mjög sínískur af þessu öllu saman – hún sagði mér að slaka á og taka hlutunum einsog þeir koma, margir hafi það miklu verr en við. Og ég veit það alveg. En finnst samt einsog ég hafi rétt á að vera vonsvikinn. Við fengum einu sinni pössun til að halda upp á afmælið mitt, reyndar – eða nokkrum dögum síðar, á afmælinu var ég einn með Aram og Alexöndru – Nadja varð eftir í Frakklandi og restin af fjölskyldunni gerði sér bæjarferð. Af og til hefur þetta tekist – en í langflestum tilvikum gerum við plön sem fara út um þúfur. Þegar við héldum loks upp á afmælið kom samt auðvitað í ljós að veitingastaðurinn sem við ætluðum að fara á hér í bænum var lokaður svo við þurftum að keyra til Norrköping – og ég gat ekki einu sinni fengið mér bjór með matnum (því Nadja er ekki með bílpróf).

Ég gerði reyndar ekki meira ráð fyrir að þetta myndi ganga upp en svo að ég var búinn að kaupa í matinn – gerði það í gær. Sem er að vera sínískur alveg þangað til að í ljós kom að síníkin var raunsæi.

Allavega. Dagurinn byrjaði ekki á þessum fréttum. Dagurinn byrjaði á því að við gáfum Aram lyfið sitt – og glíman var ekki jafn hryllileg og í gærkvöldi en nógu slæm samt. Sérstaklega þegar maður var hvorki búinn að fá vott né þurrt. Að því loknu fékk ég fréttirnar.

Svo fór ég að bera kassa og pakka og ganga frá á meðan Nadja fór með Liam og Aram á leikvöllinn. Las örlítið í Illsku og fór svo niður og át plokkfiskinn frá því í gær með Nödju, Aram og Daniel. Svo fór Aram að sofa og ég hélt áfram að lesa og breyta, lesa og breyta. Aram vaknaði og vildi seríos – svo við fórum í búðina og keyptum seríós og sendum dálítinn póst. Öll þrjú saman. Svo bar ég meiri kassa. Það eru margar hæðir í þessu húsi og þetta var talsvert verk – en nú er því lokið. Allir kassar, það best ég veit, komnir á sinn stað. Svo gerði ég kvöldmatinn – nasi goreng. Það var mjög gott. Þá tók ég til í eldhúsinu með morfar, gekk frá eldhúsdótinu mínu – pönnunum, hnífunum, matvinnsluvélinni, voginni, hamborgarapressunni, þykka skurðarbrettinu (sem ég nota sem upphækkun til að eyðileggja ekki í mér bakið), heinistálinu og brýninu. Ég tek ekkert með mér til Íslands nema hnífana (plús heini og brýni), hamborgarapressu og töfrastaf. Jú og espressokönnuna.

Við áttuðum okkur reyndar á því áðan að fyrsti er ekki á þriðjudag, einsog við héldum, heldur á miðvikudag. Sem þýðir að við höfum aukadag í Rejmyre áður en við höldum til Stokkhólms. Og það léttir á stressinu. Ekki það ég sé neitt sérstaklega stressaður reyndar. Nema yfir bókinni minni. En maður er náttúrulega samt alltaf í tímahraki þótt maður sé ekki stressaður. Alltaf alveg að fara að deyja. Lífið er stutt.

28. júlí

July 28, 2012 in blogg

Þá fer að styttast í Skandinavíu/Frakklandssumrinu og Íslandssumrið að taka við. Við eigum flug til Keflavíkur 2. ágúst (ég skrifaði fyrst „flug heim“ en þurrkaði það út … af tillitssemi við eitthvað sem ég er ekki alveg viss hvað er).

Ég er að verða vitlaus á þessum lestri. Les og les. Breyti og breyti. Til batnaðar yfirleitt. Ég er alltaf að koma auga á eitthvað.

Byrjaði daginn á brauði og kaffi. Það gekk bölvanlega að koma í Aram pensilíninu í gær svo við breyttum reseptinu og fengum fljótandi pensilín í staðinn – sem gekk svo ekki mikið betur. En það var ekki fyrren rétt fyrir háttinn að það gekk ekki betur. Dagurinn byrjaði á reseptbreytingu og svo rúnti í apótek í Finspång og Coop til að kaupa í matinn. Aram kom með mér en Nadja var heima. Þegar við komum heim var tilbúinn hádegismatur – steikt grænmeti fyrir Aram og Liam en brokkolí-ostasúpa fyrir fullorðna. Hún var úr pakka og brimsölt. Ég man ekki hvenær ég borðaði pakkasúpu síðast en það er langt síðan og ég held að maður þurfi að vera vanur þessu. Ég ét núðlusúpur úr pakka – og jafnvel stöku sinnum bollasúpur. Þetta var nú samt svo sem alveg ætt. Ég er bara að verða svo mikið óþolandi matarsnobb.

Við stöndum frammi fyrir því hjónin að fá pössun á morgun. Að minnsta kosti í nokkra klukkutíma undir kvöldið. Og þurfum að ákveða hvort við ætlum út að borða eða í bíó á Batman. Ég er spenntari fyrir Batman en Nadja. Við fórum á síðustu myndina í Ísafjarðarbíó rétt fyrir kreppu, nokkrum dögum áður en við snerum aftur til Helsinki eftir sumardvöl fyrir vestan – nema hún bilaði í endann og gestir fengu nýja miða á næstu sýningu sem var ekki fyrren eftir að við vorum farin. Ég bætti mér þetta einhvern tíma upp en Nadja gerði það aldrei. En ég hugsa að ég sé líka spenntari fyrir því að fara út að borða. Mér finnst mjög gott að borða. Og maður slakar kannski meira á.

Auðvitað ætti maður að vera á leiðinni á einhverja tilraunatónleika eða gjörningasjó. Eða á fyllerí. Maður er bara orðinn svo lélegt bóhem. Éta mat og horfa á Batman. Það er líka ábyggilega fínt. Bóhem eru líka ömurlegt fólk. Næstum því jafn lélegt og vinstrimenn.

Ég las og las eftir hádegismatinn. Las og las og las. Breytti og breytti. Svo stökk ég niður og eldaði plokkfisk í fljótheitum. Við átum og ræddum áhyggjur okkar af tímaskiptingu – hvernig við skipuleggjum dagana svo allir nái að klára það sem þeir ætla að klára. Við höfum hvorugt náð að vinna jafn mikið í júlí og vonir stóðu til og fáum ekki inni á leikskóla í Stykkishólmi fyrren 22. ágúst. Nadja er að klára master og ég er að klára skáldsögu. Þetta er ekki alveg optimalt en gengur vonandi upp. Sem breytir því ekki að við erum bæði með kvíðahnút í maganum og gjörn á að slást um framtíðartíma – hvern einasta dag gengur þetta frekar smurt – en það er alltaf einhverjir dagar eftir viku, tvær, þrjár, hálft ár og ár sem virðist alveg fullkomlega ómögulegt að púsla saman nema ég fresti (eða klúðri) skáldsögu og hún fresti (eða klúðri) mastersritgerð. Sem altso breytir því ekki að við vitum held ég bæði að þetta gengur upp. Og erum held ég dugleg að hjálpa hvort öðru.

Svo reyndi Nadja að sannfæra Aram um að taka lyfin sín. Það gekk ekki. Ég kom líka. Við rökræddum, buðum alls kyns mútur, höfðum í hótunum – en á endanum þurftum við einfaldlega að þvinga þessu í hann. Sem er alveg það viðurstyggilegasta sem maður tekur sér fyrir hendur.

Nadja lagði Aram og ég kláraði að vinna. Færði inn síðustu breytingar og setti ferska útgáfu á Kindilinn. Og nú ætlum við að horfa á eitthvað í tölvunni og reyna að tjúna okkur niður.

27. júlí

July 27, 2012 in blogg

Ég er að drepast úr hungri og ætla að drífa mig að þessu, svo það sé frá. Ég vaknaði einhvern tíma. Var vakinn réttara sagt. Át morgunmat. Byrjaði aftur á Illsku (en byrjaði nú á 2. hluta) og gerði rétt um 50 breytingar áður en ég fékk mér hádegismat. Þá kom í ljós að Aram var aftur orðinn lasinn svo við plöntuðum honum fyrir framan Strumpana á meðan Nadja pantaði tíma hjá lækni og fór út að ganga með systur sinni. Ég fór að bera upp kassa með eigum okkar, svo allt sé á sama stað þegar við förum (á bakvið spegilinn í „dansherberginu“ ef einhver spyr). Svo fórum við til læknisins sem sagði okkur meðal annars að vera ekkert að halda aftur af okkur með Iprenið – það geri ekkert illt (í ráðlögðum skömmtum) – og hélt fyrst að þetta væri líklega bara önnur sýking en síðast og nefndi að börn á þessum aldri fái 20 sýkingar á ári – svo þau séu í mörgum tilvikum oftar veik en ekki veik, þótt það beri ekki endilega alltaf mikið á veikindunum. Og að það sé gott því vilji maður búa yfir góðu ónæmiskerfi sé best að fá einmitt um 20 sýkingar á ári meðan maður er barn. En svo kom í ljós að hann er með streptókokka og var væntanlega með þá líka þarna um daginn. Og fékk fúkkalyf. Í annað sinn á ævinni. Mamma hans tekur líka oft fúkkalyf. Ég veit ekki til þess að ég hafi nokkurn tíma gert það – það hefur þá verið þegar ég var of lítill til að vita hvað það var. Svo það er alveg ljóst hverjum er um að kenna, meina ég.

Ég gerði engan kvöldmat á meðan á þessu stóð en fjölskyldan í húsinu át það sama og var í matinn síðast þegar ég gerði ekki kvöldmat – sem er aðallega brauð með osti og krukkur úr ísskápnum (það eru allir bjargarlausir án mín!). Nú ætla ég að fara niður og grilla mér samlokur.

26. júlí – Dagur kúbönsku þjóðbyltingarinnar

July 26, 2012 in blogg

Þið munið þetta ábyggilega betur en ég. Þetta er alltaf eins. Og ég ruglast alltaf hvort eð er. Í nótt svaf ég í rúminu mínu en Aram svaf í rúminu sínu. Ég vaknaði ekki fyrren Nadja kom upp og vakti mig. Þá var klukkan að verða tíu. Ég var samt ekki úthvíldur frekar en vanalega. Ég man ekki hvað mig dreymdi en ég man að Nadja dó í draumnum – af slysförum, held ég – og ég var jafn andlega úrvinda og ég var ótrúlega glaður að sjá hana þegar ég vaknaði.

Kaffi. Brauð. Banana. Svo fór ég að vinna. Eyddi svona korteri í að athuga hvers vegna RSS-ið á síðunni virkar ekki lengur (sjá hérna XML-error kjaftæði vinstra megin á síðunni). Þetta veldur því meðal annars að bloggið birtist ekki á blogggáttinni. Og birtist þá hvergi nema á plúsnum. Sem er í sjálfu sér bara ágætt. Nema þegar ég þarf að plögga einhverju (það er alveg að fara að koma út bók eftir mig). Plögg plögg plögg. Best ég byrji bara aftur á Facebook. Stofni viðburði. Geri sérsíðu. Breyti prófílmyndinni minni í forsíðumynd af bókinni. Úthúði gagnrýnendum fyrir að vera ólæsir hálfvitar. Deili, læki og kommenti. Efni til samkeppni um besta illskuslagorðið (í verðlaun verðið þið að lesa bókina mína). Eitthvað þannig.

Svo hélt ég áfram að lesa og breyta Illsku. Kláraði, færði inn allar breytingar (270 stykki) og setti hreina útgáfu inn á Kindilinn. Ég þarf að lesa hana einu sinni í viðbót áður en ég sendi hana í prófarkalestur. Setti líka nýjustu útgáfuna á Kindilinn hennar Nödju. Hún er reyndar langt komin – en ég gerði voða litlar breytingar í fyrsta hluta.

Ég fór í búðina. Það er sjúklega heitt hérna. Ég var á stuttbuxum og bol og var kófrennandibullusveittur þegar ég kom til baka. Bakaði fetapæ með ólífum og tómötum. Það var gott en ég er ekki nógu ánægður með þessi smjördeig úr búðinni. Ég hef aldrei vanið mig á að nota þau og gerði það bara núna vegna þess að ég hélt það myndi spara tíma. En það sparaði ekki nema svona tíu mínútur og var bara ekki þess virði. Svo notaði ég líka nýmjólk í staðinn fyrir rjóma sem voru mistök. Gullna reglan í eldamennsku er sú að maturinn er ekki góður nema maður verði feitur af honum. Því feitari því betra. Eða þannig. Maður á allavega ekki að nískast með rjóma og smjör. Eða sjerrí.

Ég át nú samt á mig gat og ligg hérna afvelta bloggandi. Þannig held ég að allir bloggi. Ég hef það á tilfinningunni. Að þeir séu á blístrinu bara við það að fara að gubba.

Ég fékk miða í bíó í afmælisgjöf. Við hjónin ætluðum að taka okkur góðan dagpart í Norrköpingferð, með heimsókn á matsölustað og bíó, síðasta þriðjudag – en þá var Aram óvígur og vonlaust að skilja við hann. Við getum hugsanlega farið á sunnudag en annars verðum við bara að slaufa þessu. Kannski verður úr einhver stuttur skreppitúr. Líf mitt er ekkert nema málamiðlanir.

25. júlí – Markaðsdagur í Rejmyre

July 25, 2012 in blogg

Ég svaf í barnaherberginu. Drengurinn var heltekinn af ödipusarduld og vildi ekki hleypa mér uppí hjá móður sinni. Og vegna þess að hann var með 41 stiga hita þá fékk hann allt sem hann vildi. Ég vaknaði svo á mettíma þótt ég hefði sofið illa. Var svo ringlaður í morgunmatnum að ég gleymdi eiginlega hvorutveggja að borða og drekka kaffi. Reyndi að vinna eitthvað, dauðþreyttur og sársvangur og skildi ekkert í neinu. Ég breyti og breyti. Aðallega smáatriðum – eða auðvitað bara smáatriðum. Það væri ekkert hægt að fara að breyta neinum aðalatriðum héðan af.

Nadja kom með Aram upp klukkan eitt. Þá var hann með svepp á tungunni og hún ætlaði út í búð að kaupa sódavatn. Það er gott við sveppi. Við fórum niður og poppuðum (hann er frekar matvandur í flensunni). Ég reyndi að bæta mér upp fæðu- og koffínskort. Svo kom Nadja heim og ég brá mér í búðina. Það var markaðsdagur í Rejmyre og ég rölti aðeins um markaðstorgið.

Nei, bíddu. Nú er krónólógían eitthvað að stríða mér. Þegar Nadja kom heim … átu þau hádegismat … og Aram fór að sofa. Ég sat yfir honum – í barnaherberginu en hann svaf í hjónarúminu. Las Illsku og gerði breytingar. Þegar hann vaknaði var morfar kominn með Gunnel og þau ákvaðu að bregða sér á markaðinn. Við Aram fórum og horfðum á Stígvélaða köttinn (altso þessa sem er með Antonio Banderas í ensku útgáfunni). Svooo kom Nadja heim og ég fór á markaðinn.

Nei, þetta er aftur eitthvað bogið. Hmm … Já, einmitt – Nadja fór tvisvar á markaðinn. Sem þýðir að ég fór víst út í búð og á markaðinn eftir poppkornið. Þegar ég kom heim var Aram nýsofnaður og ég fór og sat yfir honum. Svo komu morfar og Gunnel og þá fór Nadja aftur á markaðinn en við að horfa á Stígvélaða köttinn (ég var samt aðallega bara að lesa Illsku og breyta, breyta, breyta). Þegar myndin var búin kom Nadja heim og ég fór að laga matinn. Byrjaði á því að pilla rækjur en settist svo út í sólina og drakk kaffi og át sætabrauð með gestunum. Svo gerði ég soðið í Tom Yum súpuna, dundaði mér við að steikja tófu og marínera (í þeirri röð), skera grænmeti, leggja á borð og svo kom kvöldmatur á endanum. Tom Yum og núðlutófu. Ég hafði það alveg sósulaust og grænmetið (aðallega sykurbaunir og paprika) til þess að gera brakandi.

Aram var svo alveg orðinn hress og fór með frænkum sínum, morfar og Gunnel á ströndina (þar sem hann sat innvafinn í teppi í sandinum og horfði á hafið). Við Nadja dunduðum okkur ein við uppvaskið – og var mjög gaman, reyndar. Við höfum varla verið ein nema dauðuppgefin frá því einhvern tíma í síðustu viku. Og Nadja er bara alltof vel gefin og skemmtileg til að það sé ásættanlegt. En lífið tekur bara svo mikinn tíma. Note to self: vera minna upptekinn.

23.-24. júlí

July 24, 2012 in blogg

Og svo heldur allt áfram að ganga á afturfótunum. Eða þannig.

Í gær vaknaði ég í Melhus og tók strætó til Þrándheims. Þar þrammaði ég aðeins um í bænum og litaðist um, reyndi að rifja upp eitthvað sem ég mundi varla þá, át fáránlega dýran mat og tók svo flugvallarrútuna til Vœrnes og flaug beint til Arlanda. Þar fékk ég þau skilaboð að Nadja og Aram væru lyklalaus í Linköping og enginn heima í Rejmyre fyrren undir miðnætti. Sem betur fer var ég með lyklana mína með mér. Við mæltum okkur mót í Norrköping og tókum rútuna saman síðasta spölinn. Aram var búinn að vera hálflasinn en fékk Ipren hjá vinkonu Nödju, sem er læknir, og virkaði hress. Þegar við komum heim versnaði það hins vegar strax til muna og hann var orðinn sjóðbullandi heitur þegar ég lagði hann um kvöldið. Þá uppgötvaði ég líka að síminn minn hlyti að hafa orðið eftir í strætónum – þetta er 600 evru Nokia N9 sem ég safnaði mér fyrir í hálft ár (eða réttara sagt: ég keypti hann fyrir Ást-er-þjófnaður peningana). Og svo var mér tjáð að ég hefði eyðilagt (gert gat á) pottaleppa sem unglingurinn á heimilinu hafði gert í handavinnu síðasta vetur. Sem bætist þá ofan á hrærivélina sem ég bræddi úr og puntuviskastykkin sem mér varð á að nota til annars en að strjúka varlega af tandurhreinum diskum. Mér líður stundum einsog fíl í postulínsbúð. Þetta hús er líka svolítið einsog risavaxið dúkkuhús. Hlutirnir hérna eru ekki beinlínis ætlaðir til notkunar.

Aram kom svo upp í til okkar áður en við fórum að sofa sem þýddi að við sváfum svo gott sem ekki neitt. Hann var sjóðbullandi heitur. Í morgun byrjaði ég á því að bruna til Finspång til að kaupa fljótandi Ipren. Þegar ég kom heim var mér sagt að síminn hefði fundist og væri á skrifstofu strætófyrirtækisins í Finspång – ég aftur þangað (þetta er 30 km leið). Og notaði tækifærið til að kaupa í matinn í leiðinni. Gerði svo omelettu í hádegismat og fór að horfa á sjónvarpið með Aram. Sem var ennþá sjóðbullandi. Ég reyndi að lesa í Illsku – ég þarf þrátt fyrir allt að klára þennan yfirlestur fyrir 1. ágúst (og færa inn allar breytingar). En það gekk lítið. Svo fór ég að gera kvöldmat, sem var túnfiskpasta. Akkúrat þegar það var lagt á borðið brotnaði glas sem setti allt í uppnám – það þurfti að fínkemba eftir glerbrotum eftir öllu borðinu og gólfinu og einsog venjulega virtist enginn hafa gert ráð fyrir því að það yrði matur og þegar allt var yfir gengið 20 mínútum síðar var maturinn kaldur. Hann var góður en hann var kaldur.

Á morgun kemur tengdapabbi í heimsókn með nýju kærustunni sinni. Hann hefur verið með tvær í takinu í dálítinn tíma núna og er loksins búinn að gera upp hug sinn og ætlar að flytja út frá konunni sem hann hefur búið með síðustu árin. Ég held í sjálfu sér að sé ekkert nema að óska honum til hamingju með það – það er leiðinlegt að vera í limbó og vonandi er hann sáttur við þetta. Það er ekkert grín að róta upp lífinu fyrir fullorðinn mann.

Nú er Nadja farinn út í göngutúr og ég ætla að leggjast með Illsku og lesa svolítið. Ég hugsa að ég sofi bara inni hjá Aram í nótt.

20. – 22. júlí

July 22, 2012 in blogg

Jæja. Ég svaf sama og ekki neitt og tók rútuna til Norrköping klukkan hálfsjö um morguninn. Lest til Arlanda og flaug þaðan beint til Þrándheims. Konan sem sótti mig á flugvöllinn spurði hvort ég væri „glaður í“ Íslandi – sem ég held að þýði hvort ég sé skotinn í Íslandi. Hún spurði um náttúruna og Björk (hún var með Biophiliu í bílnum) og ég varð allur vandræðalegur, afsakaði mig í bak og fyrir að ég skyldi ekki bara getað dásamað fjöllin eða einu sinni Björk (ég hef eiginlega aldrei hlustað neitt á Björk). Svo spurði hún hvort ég væri ekki ánægður með að „okkur“ skyldi hafa tekist að sigra útrásarvíkingana, stjórnmálamennina og kreppuna. Ég sagði að lífið væri flókið. Að allt væri í senn satt og logið; rétt, rangt og ýkt.

Þegar við komum til Melhus hitti ég Kristian P – ljóðmyndamanninn á bakvið Gasspedal Animert – hann sýndi mér húsið sem okkur var ætlað að búa í og ég fékk mér lúr. Svo kvöldmat og fyrirlestur hjá Kristian, tónleikar í kirkjunni, bókmenntasprell í fjósinu og djamm fram eftir nóttu. Ég vaknaði fjarska þunnur – það er líka málningarlykt í herberginu mínu og það hefur ábyggilega ekki hjálpað til. Fyrstu tímar dagsins fóru að mestu bara í að jafna sig. Ég át nokkrar pulsur, drakk kaffi, fór í sturtu og undirbjó mig fyrir kvöldið. Fyrst á dagskrá var Vigdis Hjorth sem spjallaði við Ane Nydal (og var afskaplega skemmtileg og sjarmerandi). Svo las Aina Villanger – sem er mjög áhugavert ljóðskáld, skrifar á díalekt og er fanta upplesari – og loks ég. Mér hefur ekki gengið svo vel upp á síðkastið – eða ég hef ekki sjálfur verið nógu ánægður með upplestrana. Hvorki í Belgíu eða á Bókamessu Anarkista í Stokkhólmi. Ég hef mismælt mig eða ekki náð almennilegum kontakt eða eitthvað bara – það hefur vantað einhvern galdur. En ég held ég hafi bara aldrei gert þetta betur en í gærkvöldi. Ég bara negldi þetta. Sem var ótrúlega gaman.

Eftir bókmenntahlutann voru fjórir tónleikar í röð – ein hljómsveitin lét stýrast af áhorfendum sem völdu tóntegundir og nótur í viðlög og umfjöllunarefni textana og sneru lukkuhjóli til að velja tónlistartegundina (frá joiki til köntrí til þungarokks). Svo fórum við í sánu og böðuðum okkur í fossinum – eða réttara sagt lækjarsprænunni þarna við hliðina. Meira partí og svo sofa.

Í dag er ég einn eftir. Í fyrsta lagi hafði upphaflega staðið til að halda einhvers konar 22. júlí minningarathöfn – hélt ég allavega. En það gerðist ekki. Í öðru lagi hefði ég þurft að fara um kvöldið ef ég hefði flogið í dag og þá hefði ég ekki náð síðustu lest til Norrköping og þurft að gista í Stokkhólmi. Sem ég nennti ekki. Þess vegna er ég hérna einn eftir í Melhus 22. júlí. Ég var eitthvað að spá í að fara til Þrándheims (sem er bara 20 km í burtu) en svo var ég bara þreyttur og hitti illa á strætó þegar ég var niðri í bæ (ég hefði þurft að bíða í klukkutíma og hefði ekki getað stoppað mjög lengi ef ég ætlaði að ná síðasta strætó til baka). Svo ég keypti mér bara dagblöðin, sem eru full af minningum fórnarlamba. Það er eiginlega alveg merkilega lítið um Breivik – hann er bara í bakgrunninum, einsog hvert annað náttúruafl. Og auðvitað mikill sentimentalismi og klisjur. Norðmenn gera líka mikið af því að klappa sjálfum sér á bakið fyrir það hversu vel þeir hafa höndlað málið. Það er minna gert af því að útskýra hvað það þýðir, hvað þeir eigi við – fyrir utan að vitna í falleg orð og symbólískar gjörðir (án þess ég vilji gera lítið úr orðum eða symbólískum gjörðum).

Það hefði sjálfu sér verið gaman að fara til Þrándheims – og líklega legg ég snemma af stað á morgun til að geta litið aðeins í bæinn. Ég bjó þar í nokkra mánuði 2001 – var þar 11. september. Þýddi Allen Ginsberg og orti hluta af Heimsendapestum. Mig minnir reyndar að ég hafi til þess að gera sjaldan verið í bænum. Ég man að minnsta kosti ekki mikið eftir honum. Það var einhver hommaklúbbur sem að Melli dró mig stundum á. Og svo var barinn 3B. Ég sótti fleiri bari en ég man ekki eftir þeim. Á 3B kom einu sinni maður upp að okkur Mella og spurði hvort hann mætti setjast hjá okkur. Það var sunnudagskvöld og enginn þar inni. Hann byrjaði á því að segja okkur að um morguninn hefði hann vaknað með byssu í rúminu hjá sér – sem hann vissi ekki hvaðan kom. Og svo hefði hann skotið sig í fótinn. Hann tók af sér skóna og fór úr sokkunum og sýndi okkur ljótt sár á ristinni – þetta var loftbyssa. Eftir að barinn lokaði bauð hann okkur heim til sín. Þar var hann hálfnaður að brugga bjór sem við drukkum hlandvolgan og ógeðslegan. Hann bjó með öldruðum rithöfundi sem kom á fætur og drakk með okkur. Þeir voru held ég dálítið miklir alkohólistar þessir menn. Það var ekkert klósett í íbúðinni – en það mátti míga í eldhúsvaskinn, sem var annars hálf fullur af matarleifum. Nokkrum dögum síðar sá ég síðan þennan mann framan á einhverju tímariti – þá kom í ljós að hann er frægur teiknimyndasöguhöfundur sem skrifar undir nafninu Rhesus Minus. RH- Það er einsog mig minni að hann heiti Rolf Hansen.

En maður heimsækir ekkert fortíðina. Hún er löngu farin. Karen vinkona mín sem bjó í Þrándheimi er þar ekki lengur og ekki heldur Melli. Ég veit ekki hvort Rhesus Minus er á lífi. Mér finnst það hálft í hvoru ósennilegt. Ég kynntist líka tveimur útigangsmönnum sem hétu minnir mig Lasse og … ég man ekki hvað hinn hét. Þeir voru hálfdauðir haustið 2001 – eftir að hafa sofið úti frostaveturinn á undan því þeir gátu ekki verið edrú og fengu þá hvergi inni. Það var líka íslensk stelpa þarna sem ég kunni vel við – en ég hef líka gleymt hvað hún heitir. Hún var vinkona hennar Karenar (sem er samt norsk) og var fyrsta manneskjan sem ég heyrði tala um Fair Trade. Allavega svo ég hafi tekið eftir. Svo var líffræðingurinn Javier sem við bjuggum með. Hann var frá Spáni og mjög aktíft að leita sér að norskri konu – eða kannski bara einhverri konu. Eða kannski var hann bara að leita að innantómu kynlífi. Það var eitthvað þannig. Gott ef hann var ekki í svo mikilli ástarsorg – vildi aldrei aftur elska. En þarfnaðist innantóms kynlífs. Hann sótti hryllilega lélega dansklúbba en gekk ekki neitt að fá á broddinn. Samt var hann bæði fallegur, skemmtilegur og fjarska indæll. Það gæti hafa skemmt fyrir honum hvað hann var einlægur. Ég gæti alveg trúað því að hann hefði byrjað allar samræður á að segjast vera í ástarsorg. Ekki dapur heldur brosandi – bara svona svo að maður vissi. Og svo hefur hann ábyggilega beðið um innantómt kynlíf fljótlega eftir það. Svona einsog maður biður um að fá lánaða sígó.

Svo var líka stelpa sem ég var skotinn í. Ég man ekki hvað hún heitir og myndi ekki þekkja hana þótt ég gengi framhjá henni á götu. Man ekki hvernig ég kynntist henni eða hvað varð um hana. Ég man að hún nuddaði einu sinni á mér axlirnar af slíkri færni að ég byrjaði að stynja og réð ekkert við það.

Hér í málningarfýlunni í Melhus er ekkert net en ég er að vonast til að mér takist að flytja textann úr tölvunni yfir í símann og geti póstað þessu úr honum. Ef þetta birtist í dag 22. júlí þá hefur það tekist. Annars ekki.

19. júlí

July 19, 2012 in blogg

Ég dröslaðist á fætur með erfiðismunum. Það geri ég á hverjum morgni. Mér þykir ekkert í lífinu jafn krefjandi og að vakna. Og engar stundir í senn jafn tilþrifalitlar, óáhugaverðar og óviðráðanlegar einsog þær fyrstu. En einhvern veginn kemst ég alltaf upp á endanum. Líklega var það í gær frekar en í dag sem ég vaknaði við ítarlegar samræður um fiðrildager sem var að kúka yfir allt í rúminu. Ég fékk mér kornfleks og hunangsseríos í morgunmat. Drakk kaffi, hellti upp á meira kaffi og drakk meira kaffi og tók svo með mér bolla upp í herbergi til þess að vinna. Sem þessa dagana er bara að lesa þessa blessuðu skáldsögu. Það er alltaf hægt að gera einhverjar breytingar. Flestar þeirra eru samt smávægilegar. Smávægilegar fyrir heildina – en kannski stórmerkilegar fyrir hverja setningu fyrir sig. Ég hef gerbylt nokkrum setningum. Ég veit ekki hvað það hefur að segja fyrir heildina en þessar setningar eru betri fyrir vikið. Þetta er til skiptis (eða hugsanlega í senn) guðdómlega skemmtilegt dútl og ótrúlega leiðinlegur smámunalestur Ég hef aldrei áður verið „búinn“ svona snemma – aldrei getað gert þetta í rólegheitunum. Sem er annað og öðruvísi. Og gott. Þægilegt. Og þá er bara að vona að maður eyðileggi ekki bókina með fiktinu. Það er víst líka hægt.

Hálfþrjú höfðum við hjónin vaktaskipti og Aram vaknaði stuttu síðar. Við lékum okkur og fórum í búðina. Ég tók til í eldhúsinu, gerði focacciu og grænmetissúpu úr tilfallandi grænmeti sem var að verða gamalt (nokkrar gulrætur, kartöflur, ein sæt paprika, laukur, púrrulaukur og brokkolí) – sem varð yndisleg með smá broddkúmeni, grænmetiskrafti og salti og pipar. Nadja og Alexandra bökuðu pönnukökur í eftirrétt. Svo tók ég til í eldhúsinu. Mér finnst einsog hálft sumarið hafi farið í að taka til í þessu eldhúsi og er stundum (oft) pínulítið (geðveikislega) pirraður að fá ekki meiri hjálp. Það eru iðulega einhverjar ástæður fyrir því að ég enda þarna einn eða í mesta lagi með hálfan aðstoðarmann en þetta eru líka hlutir sem komast upp í vana – rútínur sem myndast. En við erum altso að lágmarki átta í mat í húsinu svo þetta er dálítið mikil vinna.

Svo þurfti ég að pakka fyrir ferðina til Noregs á morgun, millifæra peninga á Nödju, leggja Aram og blogga. Mér finnst einsog ég sé að gleyma einhverju. Ég þarf að taka strætó klukkan 6.30 hérna fyrir utan og verð ekki kominn til Þrándheims fyrren uppúr tvö eftir hádegi. Ég reikna heldur með því að ég haldi dagbókina jafn óðum frekar en að ég fylli upp í eyðurnar þegar ég kem til baka – en ég skrifa þá kannski frekar á morgnana en á kvöldin.

18. júlí

July 18, 2012 in blogg

Jæja. Gott að vera kominn aftur á ról. Spennan sem fylgir því að raða niður viðburðum dagana í eina færslu sem verður ekki lengri en svo að ég nenni að minnsta kosti að lesa hana sjálfur (ég reikna frekar með því að hafa hrist af mér lesendur en hitt), sú spenna er altso taugatrekkjandi. Eðlilegast hefði verið að skrifa bara stikkorð. Ég man eftir því að Siggi Gunnars/Hoxha vinur minn sagði mér einhvern tíma frá dagbók sem hann hélt sem barn og því þegar hann las hana aftur fullorðinn og dagarnir birtust honum ljóslifandi – þótt það stæði kannski ekkert nema að hann hefði borðað franskbrauð með osti í hádeginu og séð Eirík Fjalar í Hemma Gunn um kvöldið ásamt Rokklingunum. Allt hitt kom með í kaupbæti. Kannski myndu mér duga stikkorð.

Ég verð stundum hugsi yfir því hvers vegna ég fæ aldrei læk. En Hermann Stefánsson vinur minn segir mér að allt sem sé nokkurs virði fái engin læk. Og ég verð náttúrulega bara að trúa því. Verst að ég er ekki á Facebook sjálfur, annars myndi ég læka allar mínar færslur.

Í dag hóf ég daginn á að lesa dálítið í Klassekampen. Anneli Jordahl skrifaði um bókmenntadebatt í Svíþjóð þar sem Susanna Alakoski hafði svarað ritdómi eftir Aase Berg – eða dregið ritdóm eftir Aase Berg inn í umræðu um fátækt. Alakoski var að velta því fyrir sér hvers vegna fólk ætti svona erfitt með að trúa skýrslu frá Rädda Barnen um að barnafátækt hefði aukist og tiltók ritdóm eftir Berg þar sem sú hafði sagt fátækt í tiltekinni bók (eftir höfund sem er svíþjóðarfinni einsog Alakoski) væri ótrúverðug. Sítatið er eitthvað á þá leið að henni finnist ótrúlegt að á þessum tíma hafi tvær fyrirvinnur ekki dugað til að skaffa mat á borðið. Aase Berg svaraði þessu öllu saman mjög vel.

Mér finnst þetta flókið. Í fyrsta lagi finnst mér ekkert ótrúlegt að Rädda Barnen ýki sínar tölur – eða séu sem sagt líklegri til þess að túlka það svo að vandamálið vaxi. Fólki sem starfar við að leysa stór félagsleg vandamál finnst yfirleitt alltaf að þau vaxi. Manni finnst alltaf að veröldin sé verri í dag en í gær – sic transit gloria mundi – en svo reynist það nú yfirleitt samt vera á hinn veginn. Við drepum færra fólk, nauðgum og berjum minna, færri svelta og færri látast úr viðráðanlegum sjúkdómum. En það þýðir ekki sjálfkrafa að fátækt minnki – það fer nefnilega allt eftir því hvernig maður skilgreinir það. Ég held að það lifi fleiri í dag í einhvers konar skuldaþrældómi og það er alveg rétt sem Alakoski bendir á að við slíkar aðstæður má mjög lítið bregða út af til þess að „raunveruleg“ fátækt skjóti upp kollinum annað hvort tímabundið eða til lengri tíma. Sá sem týnir strætókortinu og fær sveppasýkingu í sömu vikunni á kannski mjög, mjög erfitt með matarinnkaup í lok mánaðarins. Mörg fátæktin er líka félagslegs eðlis – fátækt er fylgifiskur alls kyns sjúkdóma, og sérstaklega fíknar. Og þá er hægt að vera kaldranalegur og gefa skít í spilafíkilinn, innkaupabrjálæðinginn og fyllibyttuna – en slíku fólki fylgja börn og makar sem hafa ekkert til saka unnið. Það er meðal annars þess vegna sem er svo mikilvægt að allt skólastarf – að meðtöldum ferðalögum, hádegismat, skólabókum og pennum og blýöntum – sé einfaldlega ókeypis.

Ég veit ekki hvort sú fátækt fer vaxandi – og það skiptir í sjálfu sér engu máli hún er alveg jafn ólíðandi hvort sem hún er í vexti eða rénun.

Mér sýnist Alakoski hins vegar snúa út úr því sem Aase Berg var að segja – hún var að tala um aðstæður í tiltekinni bók (sem ég hef ekki lesið) sem eiga kannski að lýsa tilteknum tíma. Að henni finnist það ekki ganga upp að tveir fullfrískir einstaklingar í tiltölulega vandræðalausu lífi geti ekki skaffað fyrir fjölskyldu – ef það eru þá aðstæðurnar í bókinni – er kannski bara ekkert skrítið. Og fáránlegt að ætla að gera Aase Berg að poster child fyrir firrtan intellektúal sem skilur ekki að fátækt sé til í Svíþjóð út frá þessu litla sítati.

Við Nadja ræddum þetta svolítið. Ég tók afstöðu með tilraunaskáldinu og súrrealistanum Aase Berg og hún tók afstöðu með sósíal-realíska Svíþjóðarfinnanum Susönnu Alakoski. En það er mest tilfallandi. Vegna þess að hún er sósíal realískur svíþjóðarfinni og ég er tilraunaskáld. Eitthvað þannig.

Þessu tengt þá á ég mjög auðvelt með að upplifa stéttir burtséð frá eiginlegum tekjum (þær tengjast tekjum sterkum böndum en ekki órjúfanlegum). Hins vegar er fátækt í huga mér eitthvað sem hefur ekki með neitt að gera nema ráð og efni – og sá sem eyðir tekjum sínum í óþarfa og sveltur er ekki fátækur í sama skilningi og sá sem gerir það ekki og sveltur.

Svo fór ég að vinna. Gekk frá leigu á bílaleigubíl, las í gegnum enska þýðingu á broti úr Illsku – fyrir berlínarævintýrið í haust. Og kom mér mjög ánægjulega á óvart. Yfirleitt verð ég fyrir miklum vonbrigðum með þýðingar á ensku – líka þegar ég geri þær sjálfur. En þetta var fjári gott. Það var Steingrímur Teague sem þýddi. Svo sendi ég reikninga vegna residensíunnar í Stykkishólmi og las í Illsku og færði inn athugasemdir. Mér finnst mjög skrítið að nú þurfi ég að sætta mig við að bókin sé búinn. Ég sé hættur að skrifa hana og geti ekki gert fleiri breytingar. Stundum heillar mig tilhugsunin um að rífa upp einhvern kaflann og skrifa hann alveg upp á nýtt – sérstaklega endann. Gera eitthvað róttækt. En ég held að það sé þráhyggja. Að vilja ekki sleppa af bókinni hendinni. Ég er ánægður með endann. Ánægður með alla bókina held ég barasta.

Um þrjúleytið voru vaktaskipti og Nadja fór að vinna. Ég náði að borða hádegismat áður en Aram vaknaði af lúrnum. Við lékum hesta og drauga, fórum svo út í sólina svolítið, hoppuðum á trampolíni, gengum í búðina og til baka, Alexandra kenndi Aram á hjólabretti og við þrjú spörkuðum fótbolta. Upp úr sex gerði ég kvöldmat – bolognese upp úr pizzasósu frá því um daginn. Það var mjög gott en ég hefði mátt kaupa meira hvítlauksbrauð til að hafa með matnum (eða bara drullast til að baka það en ég er svo trámatíseraður eftir að ég bræddi úr hrærivélinni um daginn, þegar ég gerði milljón pizzur í afmælisveislu – það tókst reyndar að laga hana en ég þori samt ekkert að baka). Vaskaði upp. Nadja lagði Aram og nú ligg ég á bakinu og blogga.

Á föstudaginn fer ég til Noregs á Fjösfestival. Þetta er skammt frá Þrándheimi, þar sem ég bjó einu sinni í nokkra mánuði. Vinir mínir hjónin Smári Karls og Sigga Gísla, sem eiga heima lengst norður í noregsrassgati, ætla kannski að kíkja og vera klappliðið mitt á upplestrinum – en það byggir víst á veðri og mér sýnist veðurspáin ekki vera mjög hagstæð. Þau vilja (eðlilega) ekki liggja í tjaldi í rigningu. Ég vona samt að þau komi því það væri mjög gaman fyrir mig því þau eru svo skemmtilegt fólk.

7. – 17. júlí

July 17, 2012 in blogg

Í tíu daga var ég tölvulaus.

Það er reyndar ekki alveg satt. Fyrstu tvo dagana vann ég á daginn og var stressaður á kvöldin. Eða upptekinn af að slappa af. Eitt kvöldið fórum við hjónin í göngutúr að þarnæsta stöðuvatni þar sem hún baðaði sig en ég stóð á bakkanum og sótbölvaði mýflugum.

En upphafslínan stuðlar svo hún fær að standa. Ég man ekki hvað ég át í morgunmat eða hvað ég lagaði í kvöldmat þessa fyrstu tvo daga. En mér tókst að færa inn síðustu breytingar á Illsku og fara í gegnum athugasemdir og er nú að lesa bókina í allra síðasta sinn fyrir próförk.

Mánudaginn í síðustu viku fórum við til Björnö rétt utan við Västerås þar sem tengdafaðir minn er með lítinn bústað á leigu. Þetta er friðland og afar fallegt. Fyrst hittum við mág minn á lestarstöðinni í Västerås, sendum hann með Aram út í sveit og fórum að versla í matinn – og afmælisgjafir fyrir Dísu og Hauk Má, sem við hugðumst hitta en þau voru í heimsókn hjá bróður Dísu í Helsingborg og litu við hjá okkur líka. Við fórum í fornbókaverslunina Leanders og keyptum The World According to Garp fyrir Hauk og tvær listaverkabækur fyrir Dísu (einn katalóg með mail-art verkum og svo ljósmyndadagbók). Svo brunuðum við í sveitina (með næsta strætó), komum okkur fyrir og elduðum mat – fisk og kartöflur. Og tengdapabbi leit líka við í stutta stund. Ég fékk lánaðan bílinn hans, skutlaði honum til mágsins og fór að ná í Hauk og Dísu á lestarstöðinni. Þar var dálítið um róna – harkalegri en mig minnti að Västerås ætti til – og rigning. Lestin var sein. Mér var kalt. Ég átti bara eina krónu í stöðumælinn og hann rann út eftir fjórar mínútur en ég fékk enga sekt. Svo keyrðum við út í sveit og spjölluðum svolítið á leiðinni og fórum að sofa.

Þriðjudaginn keyrðum við í bæinn og mæltum okkur mót við tengdapabba. Litum við í Myrorna og svo skildust leiðir – Nadja, tengdapabbi og Aram fóru að kaupa stígvél á litla manninn en við hin fórum á bókasafnið og svo smá rúnt um bæinn. Strætisvagninn til Björnö fer mjög sjaldan svo við þurftum að bíða dálitla stund. Við notuðum tímann meðal annars til þess að líta í H&M – einsog sannkallaðir Íslendingar. En þangað hafði ég aldrei komið áður, þrátt fyrir að hafa búið í Västerås í ár og þrátt fyrir að þetta sé söguleg H&M verslun. Altso sú fyrsta. Í heiminum. Fæðingarstaður ævintýrisins. Nema hvað. Ég keypti mér buxur fyrir 75 kr.

Couscoussalat í kvöldmat. Vín. Spjallispjall. Meira vín. Dálítið tóbak. Snakk ef ég man rétt. Og svo seint að sofa.

Það var ekki pláss fyrir okkur öll í kofanum. Meðan ég man. Svo það var tjald. Fyrstu nóttina sváfu Nadja og Aram í tjaldinu, því Haukur og Dísa komu ekki fyrren hálfeitt um nóttina. En svo fluttu þau út í tjald.

Altso. Miðvikudagur. Við vöknuðum. Átum morgunmat. Og svo. Og svo.

Já, auðvitað. Þetta var afmælisdagurinn. Hennar Dísu – Haukur átti afmæli nokkru fyrr. Gjafir. Svo röltum við á hinn enda eyjunnar, sirka fimm kílómetra, þar sem er veitingastaður. Þar átum við rækjusamlokur og ís og gengum aftur til baka. Í gegnum friðlandið. Sáum fiðrildi, tré vafin inn í einhvers konar skordýrapúpur og dádýr. Mjaðurjurt. Eða hvað það heitir. Sem mjöður er gerður úr. Fræddi okkur afmælisbarnið um.

Hugmyndin var að grilla og það var líka svo sem reynt. En gekk illa. Hitinn bara var ekki með mér í liði. Kartöflurnar bökuðust ekki. Laxinn grillaðist ekki. Á endanum steikti ég hann á pönnu og hafði couscousafganga með – en henti kartöflunum. Þá var komin nótt. Við drukkum vín og spjölluðum. Reyktum svolítið úti með mýflugunum.

Fimmtudagur. Haukur og Dísa fóru eftir langan morgunverð. Annað hvort bara til Västerås eða alla leiðina til Stokkhólms, þar sem þau ætluðu að eiga fund og fljúga aftur til Berlínar. Við sátum eftir. Við ætluðum til Rejmyre á föstudaginn og eyða þessari nótt í Västerås en fengum þær fréttir frá Rejmyre að þar væri heimilið allt lagst í kossageit (sem er sjúkdómur). Svo við fórum ekki neitt. En hjá okkur varð Nadja samt aftur veik – eyrnabólgan tók sig upp á föstudeginum. Við fórum í bæinn og keyptum meira í matinn og verkjalyf og átum á Kalla á Spönginni. Ég keypti mér hamborgarapressu.

Mikið er erfitt að muna þetta allt saman. Ætli það hafi nú margt gerst. Ég keypti bókina sem ég gaf Hauki í Kindilinn minn og fannst hún stórkostleg (hún fjallar um áttavilltan rithöfund og fjölskylduföður sem er giftur fræðikonu og er haldinn eldamennskudellu – honum finnst líka afar mismikið til femínista koma). Las mikið í nokkra daga. Laugardaginn kom mágurinn aftur til okkar og við grilluðum – grillið rétt réð við nokkrar pylsur. Sunnudaginn fór ég í bæinn á undan Nödju og Aram til að versla meira í H&M – ég meina, buxur fyrir 75 krónur! – meðal annars vegna þess að Aram hafði kastað upp á buxurnar mínar kvöldið áður, eftir svolítið mikið af pönnukökum og pylsum. Einu síðbuxurnar sem ég hafði með mér. Og ég hafði keypt þarna nokkrum dögum fyrr. Svo ég keypti tvö pör í viðbót. Slatta af sokkum og nærbuxum. Svo keypti ég mér heinarstál og brýni. Þegar Nadja og Aram komu, tókum við lestina til Stokkhólms og hittum morfar – tengdapabba minn.

Ég tek alveg andköf hérna af rembingnum við að rifja upp einföldustu hluti. Sjálfsagt gæti ég gert betur ef ég einbeitti mér. Ef ég legði mig allan í það. En mér finnst kannski ekki síst áhugaverður þessi staður – að vera hér þar sem maður man ekki neitt. Þetta hverfula líf. Þessi ósnertanlega eilífð.

Tengdapabbi bauð upp á ufsa í rjómakavíarsósu. Ekki svona sparikavíar heldur svona Kalle’s Kaviar. Hann hefur mjög oft gefið mér betri mat. Fjölskylda eiginkonu minnar missir öll vitið þegar það kemur að kavíar. Mér finnst hann ágætur á egg. En svo má varla minnast á þetta í kringum Aram – því auðvitað er þetta ekki hollt. Þetta er bara rotvarnarefni og salt. Hann hefur held ég ekki smakkað. Annars er hann mjög lítið hrifinn af sósum almennt. Vill ekkert jukk í matinn sinn.

Nema hvað. Í sjónvarpinu var Tími nornarinnar eftir Árna Þórarinsson. Ég horfði auðvitað á það en átti erfitt með að setja mig inn – kom inn í miðjan þátt sem ég veit ekki hvar var í seríunni (en líklega hvorki fyrsti og mér finnst ótrúlegt að hann hafi verið síðasti). Svo kom eitthvað annað. Sem var líka svona í lausu lofti – sjónvarpsmynd í X mörgum hlutum. Og við vissum ekki fyrren það var alltíeinu bara búið. Óþægileg tæki, sjónvarpstæki. Einsog sjónvarpsefni er nú oft fínt.

Daginn eftir fórum við á Skansen að skoða birni og apa og fleiri dýr. Hugmyndin hafði verið sú að morfar og Aram færu einir svo við hjónin gætum verið svolítið saman í rólegheitunum – tekið langan, langan, langan morgunverð fram eftir öllum degi. En það gekk ekki upp. Það hvílir á okkur einhver svona pössunarbölvun. Svo við fórum bara öll á Skansen og átum svo kvöldmat á Kungsen – við morfar fengum okkur ítalskar kjötbollur, Aram fékk tortelloni og Nadja fékk laxasalat.

Um kvöldið horfðum við á The Million Dollar Baby af einhverjum hörðum diski á heimilinu. Hún hefði mátt vera búin þegar [SPOILER!!!] stelpan lamast – allt eftir það var bara vella. En hún var fín fram að því. Ég byrjaði að lesa Chronic City eftir Jonathan Lethem í gær. Hún virkar mjög vel á mig.

Og þá er kominn þriðjudagur í þessari viku. Kominn dagurinn í dag. Við átum morgunverð í Nacka. Hádegisverð á lestarstöðinni. Ég át svo hratt og við hlupum með svo miklum látum til að ná lestinni að ég var næstum búinn að gubba wasabiborgaranum mínum. Ég gerði svo grænmetisborgara ofan í alla fjölskylduna með nýju hamborgarapressunni (strax og ég var búinn að brýna hnífana mína). Svaraði milljón tölvupóstum í frekar miklum flýti.

Þetta er nú dálítið gisið allt saman. Þessi frásögn. En svona er að vera tölvulaus.

Yfirlýsing: Allt sem ég skrifa er krimmi

July 6, 2012 in blogg

I

Ég fer allur í hnút þegar ég þarf að ræða merkingu bókmennta – verð í senn hástemmdur og vonlaus. Lífskraftur bókmennta er óendanlegur, kraftur þeirra til skilnings er meiri en við fáum nokkru sinni skilið [SIC!], þær má aldrei nálgast af léttúð vs. Bókmenntir eru ekki færar um neitt af því sem við ætlum þeim, þær eru dægrastytting sem við höfum upphafið til þess að gæða líf okkar sýndarmerkingu.

Að ónefndu: Mikið er þetta nú samt skemmtilegt vs. Djöfull er þetta leiðinlegt.

Og á jafnt við um mínar eigin bókmenntir sem annarra.

Það hefur ekki alltaf verið þannig. Lengst af þótti mér duga að skrúfa bara upp í alvarleikanum, stíla það svolítið þrungið – og voilá! Ljóðlistin gerir göt á veruleikann. Skáldsagan er farartæki fyrir sálir. Tungumálið skilgreinir tilveruna og skáldskapurinn stækkar tungumálið og þar með tilveruna.

Eitthvað þannig. Þið skiljið. Við höfum öll séð þetta áður, heyrt þetta áður. Þegar til kastanna kemur leiðast mér þessar klisjur jafn mikið og mér leiðast bækurnar sem eru skrifaðar með þær að leiðarljósi. Ég gefst yfirleitt upp á bókum eftir great white dead authors – jafnvel þótt þeir séu enn á lífi. Gefst upp á bókum eftir höfunda sem taka sig of alvarlega. Og …

… ég ætlaði að skrifa að ég þyldi ekki heldur bækur skrifaðar af léttúð. En það er ekki satt. Ég elska bækur skrifaðar af léttúð. Mér finnst Felix Krull jafn æðisleg og mér finnst Búddenbrúkks glötuð. Og höggið meira af Krull – áhrifin stórkostlegri. Bókin situr lengur í mér og segir mér meira. Einhver sagði mér líka að Thomas Mann hefði verið sestur í helgan stein þegar hann skrifaði bókina. Hafði ekkert lengur að sanna. Gat skrifað hvað sem er. Og sett punkt hvenær sem hann vildi.

Það sem ég hefði átt að skrifa er …

… ég þoli ekki Dan Brown. Er það skoðun? Er það ekki bara núllpunktur? Upphafsreitur? Ég trúi því að bókmenntir geti haft jafn eyðileggjandi áhrif á fólk og þær geta verið uppljómandi. Maður er það sem maður innbyrðir.

Það er ekki heldur að ég þoli ekki lágkúru. Ég dái lágkúruna fyrir að vera sameinandi afl – elska að sjá Evrópu hreyfa sig í takt við Eurovision eitt kvöld á ári. Það er mikilvægt að vera endrum og eins öll í sama partíinu á sömu forsendunum.

Ég þoli samt ekkert Dan Brown.

En á sama tíma dáist ég að kitsi – að minnsta kosti kaldhæðnu kitsi. Engu að síður vitna ég mörgum sinnum í viku í það sem Kundera sagði um að kits væri hin algera afneitun skíts – og vilji ég eitthvað vil ég játast skítnum. En kaldhæðið kits er eins skítugt og það verður – bleikir demantsskreyttir víbradorar í laginu einsog höfrungar? Ég vildi óska þess að ég væri kona – eða að minnsta kosti ekki svona djöfulli anal. Þetta er sannleikurinn og hann er sár.

 

II

 

Einu sinni var ég framúrstefnuskáld. Stundum leik ég ennþá framúrstefnuskáld á sviði. Ég skammast mín ekki fyrir það – mér finnst það skemmtilegt og mér finnst skemmtilegt að öðrum finnist það skemmtilegt þegar þeim finnst það skemmtilegt. Ég á bágt með að skilja þegar nokkur tekur það nógu alvarlega til að geta fundist það leiðinlegt.

En ég dáist ekki lengur að tilgangsleysinu. Sem er eiginlega frumforsendan fyrir því að geta verið framúrstefnuskáld (eða listamaður, segja sumir). Ég dáist að framúrstefnuljóðlistinni fyrir sitt innra hreyfiafl, fyrir að kunna að dansa – fyrir Gertrude Stein og Kurt Schwitters í óendanlegri sveiflu – en mér finnst dygð hennar ekki vera jafn óumdeilanleg og mér þótti einhvern tíma. Trú mín á afleiðingum þess að teygja tungumálið er heldur ekki lengur sú sama.

Litháískur bókmenntafræðingur spurði mig einu sinni, eftir upplestur, hver væri eiginlega munurinn á mér og Bobby McFerrin – þessum sem söng „Don’t Worry Be Happy“ – og ég svaraði að það væri í raun enginn munur. En ég meinti það kaldhæðið. Ég meina það ekki kaldhæðið lengur – og það alveg að Bobby McFerrin ólöstuðum. Hann er frábær. Við erum frábærir, ég og Bobby McFerrin, en það þarfnast ekki endilega frekari útskýringar. Og ég er ekki framúrstefnuskáld lengur. Ekki avant, ekki post-avant. Ekki einu sinni róttækur.

Ég var pólitískt framúrstefnuskáld og þykist stundum ennþá vera það í góðra vina hópi. En það var á meðan ég bar ennþá nokkra virðingu fyrir pólitísku starfi – áður en mér varð ljóst hvað það getur haft í för með sér að skapa sér gegnheilar hugmyndir um réttlæti og beita þeim síðan á veröldina af einlægni, undanbragðalaust. Þarna myndast gjá, myndast hola. Ef réttlæti er ekki í flúxus, ekki á hreyfingu, ekki bundið aðstæðum, ekki ótal margir hlutir – altso, ef við höldum að maður beiti sér fyrir réttlætinu einsog maður keyrir jarðýtur þá er maður í pólitík. Ég er ekki í pólitík.

Það var einhver breskur rithöfundur – ég man ekki hver en ég man að ég heyrði þetta í bókaþætti á BBC – sem sagði að það skelfilegasta við Hitler og nasistana væri að þeir hefðu unnið allt sitt starf með vonina að vopni, með drauma og þrár um betri heim að vopni.

Ég tek þátt í lýðræðinu. Ég kýs ekki í kosningum (hef ekki mætt fimm sinnum í röð núna og kann vel við þá stöðu í lífinu) en ég tek þátt í lýðræðinu. Ég reyni að tala upphátt. Reyni að tala af perspektífi – reyni að tala í nafni ljóðmælenda frekar en sannleikans. Og á sama tíma þykir mér vænt um að tala umbúðalaust. Kalla spaðann spaða, einsog þeir segja í Ameríku. Og kalla þá líka ekki-spaðann ekki-spaða.

Ég á nefnilega ekki við að allt sé bara einhvern veginn. Ég er ekki afstæðissinni. Ég veit ekki alveg hvað ég er – ég er ekki heldur ekki-afstæðissinni. En ég er samt ekki afstæðissinni.

Ég reyni að muna að lýðræðið er samræða. Kosningar eru bara meðferð á valdboði – þar er lýðræðið skorið úr snörunni til þess að það drepist ekki. Og kannski eru bókmenntir einmitt þetta fyrir mér: verkfæri til þess að finna fyrir heiminum. Einsog ratsjárpípið sem fyllir höfin eru bókmenntirnar kannski ekki svo merkilegar sjálfar – heldur notum við þær til þess að finna fyrir einhverju öðru. Einhverju sem er stærra en þær, stærra en við sjálf, og raunverulegra. Einhverju sem við munum aldrei sjá, aldrei heyra, einhverju sem við getum – með aðstoð fáeinna vísbendinga – bara ímyndað okkur.

Ég er þá að reyna að skrifa vísbendingar. Leita að viti bornu lífi. Sem þýðir líklega að ég sé krimmahöfundur. Allt sem ég skrifa er krimmi. En ég trúi hvorki á sekt né sakleysi. Ég trúi ekki. Þið afsakið hvað ég er hástemmdur en kannski er það mikilvægasta afstaða sem rithöfundur getur tileinkað sér: að trúa ekki.

Og ljúga aldrei.

Hafna sannleikanum og horfast í augu við hann.

Beita ekki tólum skáldskaparins af óheiðarleika. Til þess að ná sínu fram. Eða sanna mál sitt.

Og svo framvegis.

Og svo framvegis.

Og svo framvegis.

Með öllum heimsins fyrirvörum.

(Þetta er flókið og það á að vera flókið).

Skrifað fyrir rithöfundakampus í Berlín sem haldinn verður næsta haust.

6. júlí

July 6, 2012 in blogg

Vaknaði. Át brauð í morgunmat. Með osti. Drakk kaffi. Nú á maður víst ekki að heita í sumarfríi lengur svo ég stakk upp á því við Nödju að ég fengi fyrripart dags en hún seinnipartinn. Það var samþykkt og ég fór með því sama upp á loft að vinna. Fixaði nokkur atriði í Illsku, skrifaði nýtt „poetic statement“ fyrir Berlín (set það kannski inn á eftir), svaraði tölvupóstum. Áðan var mér boðið formlega á ljóðahátíðina Stanza í Skotlandi á næsta ári. Í St. Andrews. Það verður gaman. Ég á eftir að svara þeim tölvupósti sem var alls ekki kominn í morgun þegar ég var að vinna.

Þegar ég kom niður klukkan tvö var Aram ennþá vakandi. Nadja hafði samþykkt að fara á leikskólann að sækja Liam og gerði það og lagði Aram í leiðinni. Hann svaf í vagninum. Ég sat úti bókarlaus og lagði kapal í símanum mínum í ábyggilega klukkutíma. Þegar Aram vaknaði gaf ég honum að borða og við fórum á hjólinu út í búð (hann hjólaði og ég ýtti). Nadja færði mér þær fréttir þegar ég kom til baka að finnska féló – KELA – væri með eitthvert vesen út af barnabótunum. Út af mér. Ég passa rosalega illa inn í finnska kerfið. Hef margsinnis þurft að dikta upp einhverjar yfirlýsingar um ætlaðar tekjur og hvaða vinnu ég er að vinna – og nú þegar ég er ekki einu sinni á landinu vilja þeir helst bara losna við mig. Samt meikar engan sens fyrir mig að breyta um lögheimili til þess eins að þurfa að skatta í mörgum löndum – sérstaklega þegar það er allt eins líklegt að við snúum aftur til Finnlands þegar þessari sígaunatörn lýkur á áramótum (ef henni þá lýkur þá).

Svo fór ég að reyna að meðhöndla steypujárnspottinn hennar mágkonu minnar – sem er iðulega skilinn eftir blautur svo hann er að breytast í ryðskran. Ég tók hann bara í diet-meðferð – skrúbbaði hann vel og reykti svo olíu í honum. En til þess að gera þetta almennilega þarf víst helst að leggja hann í eld í smá stund – helst svo hann verði rauður – og baka hann svo olíuborinn á miklum hita í svona klukkutíma og endurtaka það 3-4 sinnum (en leyfa honum að kólna og olíubera hann meira inn á milli). Ég ætlaði að nota hann í blómkálssúpugerðina svo ég hafði ekki alveg tíma í það.

Blómkálssúpan var æði. Við vorum að vísu aðeins færri í mat í dag. Heimasæturnar tvær fóru til pabba síns yfir helgina og tengdamamma fór aftur til Fridhem. Mágkonan er svo á næturvöktum og borðar ekki kvöldmat með okkur. Þannig að við vorum ekki nema fimm.

4.-5. júlí

July 5, 2012 in blogg

Vaknaði. Seint. Ellefu. Nadja fór á fætur með Aram. Ég bara svaf og svaf einsog ég hefði aldrei gert annað. Einsog það hefði aldrei komið annað til greina. Svo fór ég á fætur. Og vann. Ég borgaði reikninga, millifærði peninga, svaraði tölvupóstum, undirritaði samninga, afbókaði ljóðahátíðir, pantaði flugmiða, gerði nokkrar athuganir fjármálalegs eðlis, reyndi að skrifa „poetic statement“ (sem er ókleifur múr sem stendur – ég veit ekkert til hvers bókmenntir eru nema kannski til dægradvalar) og þar fram eftir götunum. Svo las ég svolítið meira í Eeeee eee eeee, sofnaði í nokkrar mínútur og fór niður.

Við Nadja ætluðum út að borða til að fagna afmælinu mínu – því við vorum ekki á sama stað á sjálfan daginn. Við ætluðum á Wärdshúsið hér í bænum en þar komum við bara að lokuðum dyrum. Þá fengum við lánaðan bílinn og keyrðum inn í Norrköping, fundum okkur steikhús og átum góðan mat. Nadja gaf mér Sabatier hníf frá Mexeur et Cie – hann er aðeins minni en Wusthofinn. Ég orðinn svo vanur Wusthofnum að ég sker ábyggilega bara af mér fingurgómana fyrstu vikurnar með þessum. En þetta er mikið gæðastál.

Svo keyrðum við heim. Mér tókst að skemma tvær perur í tveimur leslömpum áður en ég stal lampa heimasætunnar í næsta herbergi og kláraði að lesa Eeeee eee eeee (titillinn er s.s. á nokkurs konar höfrungamáli).

Í dag vaknaði ég. Fór á fætur. Þá hefur klukkan verið rétt yfir 9. Nadja fór á fætur með Aram þremur korterum fyrr. Ég skellti í mig morgunverði og svo fórum við saman á ströndina við stöðuvatnið, busluðum og sóluðum fram undir þrjú. Ég las hálfa Doris Deyr eftir vinkonu mína Stínu. Ég bæði dáist og hræðist fólk sem skrifar af svona miklu öryggi. Ekki stílfimi, beinlínis, eða neinum ógurlegum tilþrifum – bara svona með styrkri hönd.

Þetta er sem sagt æðisleg bók. Ég stenst samt aldrei freistinguna þegar ég les smásagnasöfn að byrja að bera saman – hugsa við hverja sögu hvort hún sé jafn góð og sú síðasta eða kannski betri eða verri. Og alveg burtséð frá því að það er kannski ágætt að geta lagt mat á „gæði“ bókmennta – eða umfram allt að leyfa sér að finnast hlutir góðir eða vondir – þá er vont að festast í þeim hugsunarhætti. Einsog maður ætti aldrei samræður við fólk án þess að vera stöðugt að velta því fyrir sér hvort það væri leiðinlegt eða skemmtilegt.

Fyrstu tvær sögurnar náðu reyndar til mín líka fyrir sakir staðsetningar – sú fyrsta gerist að hluta rétt hjá Kensington Market í Toronto, sem er einn af uppáhalds stöðunum mínum í heiminum, og að hluta við Niagarafossa (sem koma svo aftur fyrir síðar í bókinni). Bæði Kensington Market og Niagarafossar koma fyrir í Illsku. Hin sagan gerist síðan að hluta á elliheimilinu Grund, á sjúkradeild – þar sem ég, einsog sögupersónan, vann og var þunglyndur og sagði á endanum upp. Ég þekki reyndar alveg nokkra sem hafa verið í þessum sporum – enda mikið rennirí af starfsfólki þar sem launin eru léleg og kröfurnar litlar.

Eftir ströndina gengum við aftur heim. Ég fór í búðina og bakaríið – fann ekki blómkál og þurfti því að breyta matarplönunum (ég ætlaði að gera blómkálssúpu). Gerði wok með hoi sin sósu sem varð af einhverjum orsökum alltof sæt – mér fannst hún ekki góð. Samt gerði ég hana alveg einsog síðast. Eða ég hélt það allavega.

Ég lét uppvaskið vera og flúði hingað upp á loft til að blogga. Á morgun þarf ég líklega að skrifa nýtt „poetic statement“ þar sem ég útlista hvað það er sem ég ætlast til af mínum eigin bókmenntum og hvernig ég hyggist ná markmiðum mínum í verkunum sem ég sendi frá mér. Verst hvað ég verð alltaf ógeðslega hástemmdur þegar ég hugsa um tilgang bókmennta. Hástemmdur og vonlaus.

3. júlí

July 3, 2012 in blogg

Í dag eiga þau afmæli tengdasysturdóttir mín, systir mín og Tom Cruise. Það er stórafmæli hjá Tom, sem lék einu sinni mann sem á afmæli á morgun. Voðalegt annars að heyra þessar fréttir af honum. Hann sem var svo góður í Top Gun. Og hún ekki síðri í Dawson’s Creek. Ég hafði alla tíð mikla trú á henni.

Ég vaknaði þreyttur. Við fórum og sungum heimasætuna á fætur með afmælissöng og gjöfum. Átum morgunmat. Aram fór svo ásamt hinum börnunum og ömmu sinni (eða „mummo“ – „amma“ er önnur kona) að stöðuvatninu að svamla og busla. Ég reyndi að hvíla mig. Las eilítið. Fór í sturtu. Svo gerði ég hádegismat og allir komu heim. Eftir hádegismatinn fór ég að undirbúa afmæliskvöldverðinn – sextán pizzur. Í gær sauð ég pizzasósuna langt fram eftir kvöldi svo hún var tilbúin. Ég skar grænmeti, steikti hakk í hvítlauki, reif ost. Svo skaust ég eftir Nödju út á strætóstoppistöð. Á leiðinni til baka kvartaði ég meira yfir hlutskipti mínu í lífinu en manni er hollt og fékk eiginlega bara að heyra það fyrir. Eða svona. Ég áttaði mig að minnsta kosti á að ég yrði að passa mig. Maður getur svo auðveldlega látið sjálfsvorkunnina stýra lífi sínu. Minnimáttarkenndina. Fyrir utan félagsfælnina auðvitað. Ég er vanur því að vera al-aleinn í átta tíma á dag og finnst það eiginlega lágmark.

Svo hélt ég áfram við pizzaundirbúning – þar af fór þónokkur tími í að finna pizzastein og pizzaspaða. Við drukkum kaffi og átum kökur. Nadja og börnin fóru aftur að vatninu. Svo brenndi hrærivélin úr sér (hjónin segja að þetta hljóti að varða ábyrgð og þau fái nýja ókeypis). Í þokkabót er ég óvanur hrærivélum, hnoða yfirleitt bara í höndum, og áttaði mig ekki á því að deigið var í raun alltof blautt þótt það væri þurrt að utan. Sem þýddi að þegar ég var búinn að setja á það sósu og álegg var fjandanum erfiðara að ná því upp á spaðann – þótt borðið væri alsett hveiti. Deigið drakk bara hveitið einsog ískalt vatn og saug sig fast á borðið. Einsog blaut hveitiklessa. Verst var það á mozzarella pizzunum, sem voru þær sem afmælisbarnið hafði pantað sjálf. Því osturinn var líka blautur. Ég er svo mikið djöfulsins strá að ég var nærri farinn að gráta. Nærri farinn að öskra. Nærri hlaupinn út úr húsi. Farinn á flótta einsog einhver karakter úr Paasilinna bók – farinn aftur til norður Finnlands að faðma grenitrén og gráta með hérunum, detta í það með hreindýrunum.

En svo blessaðist þetta. Sósan var mjög góð og þótt pizzurnar hefðu getað tekist betur – þrjár fóru beint í ruslið, tvær voru verulega afmyndaðar og tveimur var reddað með að breyta þeim í Calzone – þá voru þær nú samt alveg ágætar og allir mjög glaðir. Ég stóð og bakaði pizzurnar eina af annarri í tvo tíma. Át svo sjálfur einn í þögninni, með rauðvínsglas og internetið í símanum. Nadja lagði Aram og ég heyrði mótþróaöskrin berast niður stigann. Það hafa verið svo miklir lúxusdagar upp á síðkastið – fyrst í sumarfríi með börnum sem fengu nammidaga og fólki sem vildi éta ís alla daga (og okkur finnst grundvallaratriði að hann sé í það minnsta ekki skilinn út undan), svo heimferðin þar sem ég gaf honum eiginlega bara það sem ég vissi að hann vildi borða, svo afmælisdagurinn minn, svo nammidagur heimasætanna, svo bíódagur, svo afmælisdagurinn hennar Alexöndru …

Við Nadja ætlum ein út að borða á morgun. Hér í bænum. Það verður gott.

2. júlí

July 2, 2012 in blogg

Ég ætlaði að skrifa: suma daga er allt einfaldlega óþolandi. En kannski væri réttara að segja að suma daga sé maður sjálfur einfaldlega óþolandi. Og þá daga hafi maður óþol fyrir öllu milli himins og jarðar. Ég hef allavega ekki verið neitt þægilegur í umgengni í dag og á stundum fannst mér hreinlega einsog heimurinn væri í samsæri gegn mér – en ég var erfiðastur og leiðinlegastur við mig sjálfur. Einsog gengur.

Ég reyni stundum að játa á mig þessa bresti. Að vera skapvondur til dæmis. En svo hika ég alltaf líka því ég veit það af reynslunni að þá á fólk það einfaldlega til að afskrifa mann þegar svo ber undir, þegar það hentar. Æ, hann Eiríkur, hann er svo mikill „listamaður“. Svo mikil „tilfinningavera“. Svo „dramatískur“. Hann „er bara svona“ – „ekkert við því að gera“. En á sama tíma og ég játa þetta á mig vil ég undirstrika að tilfinningar mínar eru hvorki grín né látalæti – ég hef jafn mikinn rétt á þeim einsog hver annar á sínum – og þær segja bara einfaldlega ekkert, einar og sér, um það hvort ég hef réttmæta ástæðu til þess að finna til þeirra. Hvort sem þær eru sorg, gleði eða reiði. Stundum má maður bara vera reiður. Stundum þarf maður þess. Ég reyni einsog ég get að láta það ekki bitna of mikið á öðrum og ég reyni að sjá þetta allt í samhengi. En þetta er einsog um svo marga samræðu – samskipti fólks eru svo hírarkísk, fólk leitast eftir því að ná taki, hanka aðra á einhverju og þetta er náttúrulega tilvalið. Sá sem viðurkennir að hann sé skapvondur er búinn að „tapa“ öllum samræðum sem hann tekur þátt í þaðan í frá og getur ekki lengur gert tilkall til þess að hugmyndir hans (og hvað þá ástríður) séu teknar alvarlega, enda eru þær, einsog allt annað, afsprengi karakterbrests.

Ég vil samt ekkert að það hljómi einsog ég gangi um gargandi á fólk. Því það geri ég ekki.

Nema hvað.

Ég glaðvaknaði klukkan fimm í nótt og var vakandi í klukkutíma – tók meira að segja upp kindilinn og fór að lesa. Svo sofnaði ég aftur og skömmu síðar kom Aram – ég barðist við að fá hann til að sofa meira alveg fram til níu að ég druslaðist á fætur með hann. Það var svo náttúrulega einsog við manninn mælt að strax og hann hafði fengið að borða fór hann bara að leika við frænkur sínar. Aðrir fóru á flóamarkað – ég er alltaf skilinn eftir til að passa. Ég hafði svo sem ekkert á móti því og naut morgunsins ágætlega. Kláraði að lesa Shoplifting in American Apparel og keypti mér strax aðra bók eftir Tao Lin – Eee Eeeee Eeee. Shoplifting var að vísu ekki frábær, þótt hún væri á köflum mjög skemmtileg, en fyrsti fjórðungurinn af Eee er fullkomlega yndislegur.

Ég held að ég sé bara búinn að missa alla ánægju fyrir literary classics bókmenntum – bæði nýjum og gömlum. Skáldsögum eftir íbyggna karla og íbyggnar konur sem ætla að útlista eitthvað ótrúlega stórt og krassandi um rétt og rangt („illsku“ og „gæsku“) fyrir aumingjans pöplinum. Þetta festist ýmist í eigin stílsnilld, stemningasmíð eða narratífri sjálfsþrælkun – risum og hengjum – og kynlegum kvistum á þjóðlegum greinum. Það heitir ekkert persónusköpun nema allir séu sírífandi kjaft.

Ég hneigist hins vegar til contemporary fiction. Og hef mikið til misst ánægjuna af framúrstefnu – það er að minnsta kosti alveg jafn erfitt að finna góð framúrstefnuverk og góð literary classic verk (og það falla fleiri verk í kategóríuna literary classics en verða klassísk bókmenntaverk). Ég nýt þess mest – hvernig sem á því stendur, ég ætla svo sem ekkert að réttlæta þetta nema sem smekksatriði – að lesa samtímabókmenntir sem taka sig ekki of alvarlega en eru heldur ekki of mikið léttmeti. Það er einhver kraftaverkalína þarna mitt á milli Dostojevskís og Dan Brown. Tao Lin nær henni þegar vel lætur. Og það gera svo sem fleiri.

Þegar fólkið kom aftur af flóamarkaðnum byrjuðu síðan ófarir mínar. Fyrst voru það bara almenn læti – æpandi börn og svona og ég með höfuðverk. Síðan gerði ég innkaupalista fyrir vikuna og bað mágkonu mína að sjá um Aram meðan ég skytist til Norrköping og fékk það strax á tilfinninguna að það væri kannski ekki alveg nógu þægilegt. En síðast þegar ég fór einn með Aram út að versla svona mikið var það of mikið vesen. Mágkonan sagðist hafa áhyggjur af því að hún vissi ekki hvenær hann ætti að pissa – Aram hefur verið bleyjulaus í meira en ár en það þarf að fylgjast með honum ef maður vill að hann sé þurr (og gengur ekki einu sinni alltaf þá).

Ég hljóp svo fram og aftur að finna töskuna mína, bíllykla – einhvern veginn var ekkert á réttum stað. Svo fór ég út í bíl, tók úr lás, settist undir stýri – og var aftur búinn að týna lyklunum og skildi ekkert hvar þeir gætu verið. Ég reyndist á endanum hafa sest á þá. Og keyrði af stað. Það var sjúklega heitt og sætið fór ekki almennilega aftur svo ég sat allur í klemmu. Á endanum uppgötvaði ég að sætisvermarinn var á – og slökkti. En það var svo bara áfram svínheitt.

Í Norrköping byrjaði ég á að keyra í hringi í leit að Hemköp. Sem mig minnti að liggi á Drottningargötu – sem ég komst hvergi inn á. Einu sinni var ég næstum farinn inn götuna þegar ég áttaði mig á að ég var á akrein fyrir sporvagna eingöngu. Þá sneri ég við og ætlaði að fara inn aðra götu sem var líka bara fyrir sporvagna. Ég keyrði í heilan hring á torgi sem var sundurskorið teinum. Svo stoppaði löggan mig, skrúfaði niður rúðuna og spurði hvert ég væri að fara. Ég útskýrði að ég væri í tómu rugli að reyna að komast út úr sporvagnaveröldinni aftur yfir í bílaveröldina. Hann benti mér ekki beinlínis á rétta leið en sagði að ég yrði að koma mér aftur út á „alvöru götuna“ og að ég slyppi við að borga sekt í þetta sinnið – sem var vafalaust annars vegar vegna þess hve kurteis og vinalegur ég er í viðkynningu og hins vegar vegna þess að hann var einn með tvo glæpamenn í aftursætinu sem þurfti væntanlega að flytja strax í gæsluvarðhald.

Um þetta leyti hringdi mágkonan í mig (í finnska númerið) og sagðist hafa beðið Aram að fara á klósettið og hann hefði sagt nei og hvenær hann hefði eiginlega farið síðast og hvað hún ætti eiginlega að gera (hún á þrjú börn sjálf og var heima með mömmu sinni sem á fimm). Ég svaraði einhverju í pirringskasti um að ef hann pissaði í buxurnar gæti hann engum um kennt nema sjálfum sér.

Á endanum tókst mér að finna Hemköp. Sem var ekki á Drottningargötu heldur Kóngsgötu. Keypti í matinn, allt nema blómkál og vorlauk. Keypti mér pylsu í Pressbyrån og keyrði aftur heim. Mér var ennþá heitt, ég var ennþá stressaður og mér þótti allt ennþá mjög erfitt. Kannski spilaði það líka inn í að ég var að hlusta á Min Kamp á hljóðbók og það gekk allt á afturfótunum hjá Karl Ove Knausgård, fimmtán ára, sem var að reyna að detta í það og komast í partí á áramótunum og láta ekki stelpurnar sem þráðu líkama hans sjá á sér hárlaust typpið.

Þegar heim var komið var mér tjáð að Aram hefði verið stunginn af geitungi. Ég fór upp til hans þar sem hann sat og horfði á stelpurnar spila tölvuleiki, skoðaði sárið og spurði hvort hann vildi fara á klósettið. Hann sagði nei. Ég spurði hvort hann væri alveg viss og hann sagðist vera alveg, alveg viss. Ég er alveg á báðum áttum með að vera að ýta á eftir honum eða draga hann á klósettið. Annars vegar vil ég að hann láti mig vita þegar hann þarf að pissa (frekar en að ég fari bara með hann og tappi af á klukkutíma fresti) en hins vegar nenni ég ekki að vera alltaf að skipta um föt á honum og veit vel að hann er utan við sig og spáir oft ekkert í þessu fyrren of seint – hann vill heldur gera eitthvað skemmtilegt en fara að pissa, jafnvel þótt honum sé mál.

Svo fór ég niður að gera matinn. Fimm mínútum síðar kom yngri dóttirin og lét vita að Aram hefði pissað í sófann. Ég hélt einhverja vonlausa ræðu yfir honum sem hann hefur ekki haft neina burði til að skilja – í einhvers konar tilraun til þess að verða þó ekki reiður. Svo tók ég hann með mér niður í eldhús í refsingarskyni – eða þannig.

Ég gerði tvær omelettur. Eða eina omelettu og svo Quiche Lorraine. Omelettuna ætlaði ég að baka í formi og spurði mágkonu mína sérstaklega hvort það læki nokkuð. Svo þegar ég hellti eggjablöndunni út í lak það auðvitað – síðar kom í ljós að ég hafði sett botninn í á hvolfi. Mér tókst sem betur fer að hella henni í pönnu áður en það fór allt á gólfið.

Áður en maturinn hófst setti ég síðan í gang pizzasósu fyrir morgundaginn. Hún fékk að sjóða allan kvöldverðinn, fram yfir tiltekt og uppvask og alveg þangað til að við settumst niður með poppkorn til að horfa á Lemony Snickets. Sem var talsvert skelfilegri en ég hafði reiknað með og við byrjuðum líka að horfa talsvert síðar en ég hélt þegar ég lofaði Aram að hann mætti. Hann spurði mig stanslaust alla myndina, enda var hún bara textuð. Mest spurði hann hvar pabbinn væri („hann dó“) og hvar mamman væri („hún dó“). Reynsla hans af dauðanum er takmörkuð við flugu sem hann drap í Banyuls (hann var einmitt líka að reyna að „taka burt“ geitunginn sem stakk hann í dag). Síðar, þegar ég var að leggja hann og leita að hjartalaga stein sem hann fann á ströndinni í Banyuls og ætlar að gefa frænku sinni í afmælisgjöf á morgun, og ég fann ekki, spurði hann ítrekað hvort að steinninn væri nokkuð dauður. Svo fann ég reyndar steininn. Ég vona bara að hann dreymi ekki illa og hann verði ekki handónýtur af nammiáti, sjónvarpsglápi, geitungsbiti, dauðadaðri og þvagslysum þegar mamma hans kemur á morgun. Því þá verð ég drepinn. Og enginn sem getur útskýrt dauðann fyrir honum lengur.

1. júlí – afmælisdagurinn minn

July 1, 2012 in blogg

Þrátt fyrir að ég hafi í gær hælt tilteknum kjósendum hvers frambjóðanda fyrir sig er ljóst að svona heilt yfir fá íslenskir kjósendur miklu betri stjórnmálamenn en þeir eiga nokkru sinni skilið. Þeir fá meira að segja betri frambjóðendur en þeir eiga skilið. 

Mamma benti mér annars á það í dag að skandallinn við þessar kosningar er að Ástþór hafi verið dæmdur úr leik vegna þess að einhver fábjáni eyðilagði fyrir honum. Skemmdarverk af þessu tagi hefði auðveldlega mátt fremja á hverjum hinna frambjóðendanna sem er – en ef þetta hefði komið fyrir Þóru eða Ara er óhugsandi að þau hefðu verið dæmd úr leik. Það hefði fundist „lausn“. Vegna þess að Ísland er ættbálkur en ekki þjóð – klíka en ekki ríki. Og Ástþór er bara ekki einn af vinsæla fólkinu.

Aram skreið upp í klukkan þrjú. Svo lá hann í rúminu og sparkaði í mig til klukkan sjö að hann vaknaði. Ég sannfærði hann um nauðsyn þess að við svæfum lengur – en bara rétt nógu lengi til þess að hann gæti kúkað í bleyjuna og við þyrftum að hefja daginn á því sem hér um slóðir nefnist „bajskalas“.

Svo fór ég niður í morgunmat. Tengdó gaf mér svuntu með mynd af ítölskum brauðhleifum. Mágkonan gaf mér frímiða í bíó. Síðan fóru allir í bæinn nema ég, Aram og Alexandra – meðal annars vegna þess að bíllinn var fullur, en ekki síður vegna þess að tilgangur ferðarinnar var að kaupa afmælisgjöf fyrir Alexöndru, sem á afmæli á þriðjudag. Við fórum út á trampólín og svo fór ég að leita að uppskriftum fyrir kvöldið. Við átum bologneseleifar í hádeginu og svo fór Aram að sofa. Ég ætlaði að bæta mér upp nætursvefninn sem ég missti af en svaf ekki nema í rúman hálftíma. Það var fjarska heitt í Rejmyre í dag og þrumuveður í lofti um eftirmiðdaginn. Svo fór ég fætur, hékk á netinu. Ég nenni ekki að lesa meira í Blood Meridian. Ég get svarið það ég er alveg kominn með upp í kok. Ég hef enga þolinmæði fyrir þessum merkikertabókmenntum lengur. Nýbúinn að gefast upp á Lolitu. Rétt í þessu keypti ég mér Shoplifting in American Apparel eftir Tao Lin og vonandi er hún góð. Hún er afmælisgjöfin mín til mín. Ég verð brjálaður ef hún er bara áhugaverð fyrstu fjörutíu síðurnar og endurtekur sig síðan aftur og aftur.

Aram vaknaði og ég skildi hann eftir hjá Alexöndru á meðan ég fór í búðina að kaupa í matinn. Það gekk bara mjög vel – ég var reyndar ekki nema 20 mínútur í burtu. Svo fór ég að dunda mér við matargerðina – það var cacciatore kjúklingur í kvöldmat. Hann var afar góður á bragðið. Nadja skæpaði frá Banyuls – þar sem hún er nú með fyrrverandi kærastanum sínum (sem er franskur og hluti af sama vinahóp og fjölskyldan sem á húsið sem við bjuggum í); mamma og pabbi skæpuðu frá Ísafirði. Svo komu allir heim, ég kláraði að laga matinn, drakk svolítið rauðvín með. Svo tæmdi ég uppþvottavélina og gekk frá. Ég á líka bjór í ísskápnum sem ég opna kannski á eftir með bókinni þegar ég er búinn að leggja Aram.

Annars á maður náttúrulega ekki afmæli nema maður sé á Facebook. Síðustu þrjú-fjögur árin hef ég fengið óteljandi afmæliskveðjur á vegginn minn. En það á enginn afmæli á plúsnum, á enginn afmæli á blogginu og einhvern veginn er ég alltaf svolítið einn, svona í fýsíska andanum, á afmælisdaginn minn. Einsog ég rakti hér á dögunum. Haukur Már sendi mér afmæliskveðju í hittifyrradag. Ég gleymdi reyndar sjálfur að skrifa Jóni Bjarka – litla DV-manninum – boð í fyrradag þegar hann átti afmæli. Hann rekur reyndar einstöku sinnum inn nefið hérna. Til hamingju með afmælið í fyrradag, Jón, ef þú heyrir þetta.

Bónusflickan botar de panka och de sjuka

July 1, 2012 in blogg

Hopplösheten, rädslan och ilskan som kom upp kring själva kollapsen har odlats sedan dagarna i början av oktober 2008. Ilska är en nödvändig demokratisk känsla, ett  verktyg för ändringar. Innan krisen hade Island ingen ilska alls, det var ‘feel good’ alla dagar och de som inte spelade med var ‘party poopers’. Men den här nödvändiga demokratiska känslan har börjat förgifta själva samhället – där människorna blir allt mer populistiska, envisa och rakt ut hotfulla, vilket också gör att samma människor känner sig allt mer attackerade, blir mer misstänksamma, rädda och ilskna. Det är en ganska ond cirkel och vi vet inte hur vi kommer ur den. Det är in i det samhället som Bónusflickan Diljá Magnúsdóttir kommer. Den mest meningslösa människa man kan tänka sig. En konststudent – en ny mun att föda, ett parasit i ett samhälle som ständigt oroar sig för pengar.

via Bónusflickan botar de panka och de sjuka | Eiríkur Örn Norðdahl – Svenska.