1. júlí – afmælisdagurinn minn

July 1, 2012 in blogg

Þrátt fyrir að ég hafi í gær hælt tilteknum kjósendum hvers frambjóðanda fyrir sig er ljóst að svona heilt yfir fá íslenskir kjósendur miklu betri stjórnmálamenn en þeir eiga nokkru sinni skilið. Þeir fá meira að segja betri frambjóðendur en þeir eiga skilið. 

Mamma benti mér annars á það í dag að skandallinn við þessar kosningar er að Ástþór hafi verið dæmdur úr leik vegna þess að einhver fábjáni eyðilagði fyrir honum. Skemmdarverk af þessu tagi hefði auðveldlega mátt fremja á hverjum hinna frambjóðendanna sem er – en ef þetta hefði komið fyrir Þóru eða Ara er óhugsandi að þau hefðu verið dæmd úr leik. Það hefði fundist „lausn“. Vegna þess að Ísland er ættbálkur en ekki þjóð – klíka en ekki ríki. Og Ástþór er bara ekki einn af vinsæla fólkinu.

Aram skreið upp í klukkan þrjú. Svo lá hann í rúminu og sparkaði í mig til klukkan sjö að hann vaknaði. Ég sannfærði hann um nauðsyn þess að við svæfum lengur – en bara rétt nógu lengi til þess að hann gæti kúkað í bleyjuna og við þyrftum að hefja daginn á því sem hér um slóðir nefnist „bajskalas“.

Svo fór ég niður í morgunmat. Tengdó gaf mér svuntu með mynd af ítölskum brauðhleifum. Mágkonan gaf mér frímiða í bíó. Síðan fóru allir í bæinn nema ég, Aram og Alexandra – meðal annars vegna þess að bíllinn var fullur, en ekki síður vegna þess að tilgangur ferðarinnar var að kaupa afmælisgjöf fyrir Alexöndru, sem á afmæli á þriðjudag. Við fórum út á trampólín og svo fór ég að leita að uppskriftum fyrir kvöldið. Við átum bologneseleifar í hádeginu og svo fór Aram að sofa. Ég ætlaði að bæta mér upp nætursvefninn sem ég missti af en svaf ekki nema í rúman hálftíma. Það var fjarska heitt í Rejmyre í dag og þrumuveður í lofti um eftirmiðdaginn. Svo fór ég fætur, hékk á netinu. Ég nenni ekki að lesa meira í Blood Meridian. Ég get svarið það ég er alveg kominn með upp í kok. Ég hef enga þolinmæði fyrir þessum merkikertabókmenntum lengur. Nýbúinn að gefast upp á Lolitu. Rétt í þessu keypti ég mér Shoplifting in American Apparel eftir Tao Lin og vonandi er hún góð. Hún er afmælisgjöfin mín til mín. Ég verð brjálaður ef hún er bara áhugaverð fyrstu fjörutíu síðurnar og endurtekur sig síðan aftur og aftur.

Aram vaknaði og ég skildi hann eftir hjá Alexöndru á meðan ég fór í búðina að kaupa í matinn. Það gekk bara mjög vel – ég var reyndar ekki nema 20 mínútur í burtu. Svo fór ég að dunda mér við matargerðina – það var cacciatore kjúklingur í kvöldmat. Hann var afar góður á bragðið. Nadja skæpaði frá Banyuls – þar sem hún er nú með fyrrverandi kærastanum sínum (sem er franskur og hluti af sama vinahóp og fjölskyldan sem á húsið sem við bjuggum í); mamma og pabbi skæpuðu frá Ísafirði. Svo komu allir heim, ég kláraði að laga matinn, drakk svolítið rauðvín með. Svo tæmdi ég uppþvottavélina og gekk frá. Ég á líka bjór í ísskápnum sem ég opna kannski á eftir með bókinni þegar ég er búinn að leggja Aram.

Annars á maður náttúrulega ekki afmæli nema maður sé á Facebook. Síðustu þrjú-fjögur árin hef ég fengið óteljandi afmæliskveðjur á vegginn minn. En það á enginn afmæli á plúsnum, á enginn afmæli á blogginu og einhvern veginn er ég alltaf svolítið einn, svona í fýsíska andanum, á afmælisdaginn minn. Einsog ég rakti hér á dögunum. Haukur Már sendi mér afmæliskveðju í hittifyrradag. Ég gleymdi reyndar sjálfur að skrifa Jóni Bjarka – litla DV-manninum – boð í fyrradag þegar hann átti afmæli. Hann rekur reyndar einstöku sinnum inn nefið hérna. Til hamingju með afmælið í fyrradag, Jón, ef þú heyrir þetta.

Share to Facebook
Share to Google Plus