2. júlí

July 2, 2012 in blogg

Ég ætlaði að skrifa: suma daga er allt einfaldlega óþolandi. En kannski væri réttara að segja að suma daga sé maður sjálfur einfaldlega óþolandi. Og þá daga hafi maður óþol fyrir öllu milli himins og jarðar. Ég hef allavega ekki verið neitt þægilegur í umgengni í dag og á stundum fannst mér hreinlega einsog heimurinn væri í samsæri gegn mér – en ég var erfiðastur og leiðinlegastur við mig sjálfur. Einsog gengur.

Ég reyni stundum að játa á mig þessa bresti. Að vera skapvondur til dæmis. En svo hika ég alltaf líka því ég veit það af reynslunni að þá á fólk það einfaldlega til að afskrifa mann þegar svo ber undir, þegar það hentar. Æ, hann Eiríkur, hann er svo mikill „listamaður“. Svo mikil „tilfinningavera“. Svo „dramatískur“. Hann „er bara svona“ – „ekkert við því að gera“. En á sama tíma og ég játa þetta á mig vil ég undirstrika að tilfinningar mínar eru hvorki grín né látalæti – ég hef jafn mikinn rétt á þeim einsog hver annar á sínum – og þær segja bara einfaldlega ekkert, einar og sér, um það hvort ég hef réttmæta ástæðu til þess að finna til þeirra. Hvort sem þær eru sorg, gleði eða reiði. Stundum má maður bara vera reiður. Stundum þarf maður þess. Ég reyni einsog ég get að láta það ekki bitna of mikið á öðrum og ég reyni að sjá þetta allt í samhengi. En þetta er einsog um svo marga samræðu – samskipti fólks eru svo hírarkísk, fólk leitast eftir því að ná taki, hanka aðra á einhverju og þetta er náttúrulega tilvalið. Sá sem viðurkennir að hann sé skapvondur er búinn að „tapa“ öllum samræðum sem hann tekur þátt í þaðan í frá og getur ekki lengur gert tilkall til þess að hugmyndir hans (og hvað þá ástríður) séu teknar alvarlega, enda eru þær, einsog allt annað, afsprengi karakterbrests.

Ég vil samt ekkert að það hljómi einsog ég gangi um gargandi á fólk. Því það geri ég ekki.

Nema hvað.

Ég glaðvaknaði klukkan fimm í nótt og var vakandi í klukkutíma – tók meira að segja upp kindilinn og fór að lesa. Svo sofnaði ég aftur og skömmu síðar kom Aram – ég barðist við að fá hann til að sofa meira alveg fram til níu að ég druslaðist á fætur með hann. Það var svo náttúrulega einsog við manninn mælt að strax og hann hafði fengið að borða fór hann bara að leika við frænkur sínar. Aðrir fóru á flóamarkað – ég er alltaf skilinn eftir til að passa. Ég hafði svo sem ekkert á móti því og naut morgunsins ágætlega. Kláraði að lesa Shoplifting in American Apparel og keypti mér strax aðra bók eftir Tao Lin – Eee Eeeee Eeee. Shoplifting var að vísu ekki frábær, þótt hún væri á köflum mjög skemmtileg, en fyrsti fjórðungurinn af Eee er fullkomlega yndislegur.

Ég held að ég sé bara búinn að missa alla ánægju fyrir literary classics bókmenntum – bæði nýjum og gömlum. Skáldsögum eftir íbyggna karla og íbyggnar konur sem ætla að útlista eitthvað ótrúlega stórt og krassandi um rétt og rangt („illsku“ og „gæsku“) fyrir aumingjans pöplinum. Þetta festist ýmist í eigin stílsnilld, stemningasmíð eða narratífri sjálfsþrælkun – risum og hengjum – og kynlegum kvistum á þjóðlegum greinum. Það heitir ekkert persónusköpun nema allir séu sírífandi kjaft.

Ég hneigist hins vegar til contemporary fiction. Og hef mikið til misst ánægjuna af framúrstefnu – það er að minnsta kosti alveg jafn erfitt að finna góð framúrstefnuverk og góð literary classic verk (og það falla fleiri verk í kategóríuna literary classics en verða klassísk bókmenntaverk). Ég nýt þess mest – hvernig sem á því stendur, ég ætla svo sem ekkert að réttlæta þetta nema sem smekksatriði – að lesa samtímabókmenntir sem taka sig ekki of alvarlega en eru heldur ekki of mikið léttmeti. Það er einhver kraftaverkalína þarna mitt á milli Dostojevskís og Dan Brown. Tao Lin nær henni þegar vel lætur. Og það gera svo sem fleiri.

Þegar fólkið kom aftur af flóamarkaðnum byrjuðu síðan ófarir mínar. Fyrst voru það bara almenn læti – æpandi börn og svona og ég með höfuðverk. Síðan gerði ég innkaupalista fyrir vikuna og bað mágkonu mína að sjá um Aram meðan ég skytist til Norrköping og fékk það strax á tilfinninguna að það væri kannski ekki alveg nógu þægilegt. En síðast þegar ég fór einn með Aram út að versla svona mikið var það of mikið vesen. Mágkonan sagðist hafa áhyggjur af því að hún vissi ekki hvenær hann ætti að pissa – Aram hefur verið bleyjulaus í meira en ár en það þarf að fylgjast með honum ef maður vill að hann sé þurr (og gengur ekki einu sinni alltaf þá).

Ég hljóp svo fram og aftur að finna töskuna mína, bíllykla – einhvern veginn var ekkert á réttum stað. Svo fór ég út í bíl, tók úr lás, settist undir stýri – og var aftur búinn að týna lyklunum og skildi ekkert hvar þeir gætu verið. Ég reyndist á endanum hafa sest á þá. Og keyrði af stað. Það var sjúklega heitt og sætið fór ekki almennilega aftur svo ég sat allur í klemmu. Á endanum uppgötvaði ég að sætisvermarinn var á – og slökkti. En það var svo bara áfram svínheitt.

Í Norrköping byrjaði ég á að keyra í hringi í leit að Hemköp. Sem mig minnti að liggi á Drottningargötu – sem ég komst hvergi inn á. Einu sinni var ég næstum farinn inn götuna þegar ég áttaði mig á að ég var á akrein fyrir sporvagna eingöngu. Þá sneri ég við og ætlaði að fara inn aðra götu sem var líka bara fyrir sporvagna. Ég keyrði í heilan hring á torgi sem var sundurskorið teinum. Svo stoppaði löggan mig, skrúfaði niður rúðuna og spurði hvert ég væri að fara. Ég útskýrði að ég væri í tómu rugli að reyna að komast út úr sporvagnaveröldinni aftur yfir í bílaveröldina. Hann benti mér ekki beinlínis á rétta leið en sagði að ég yrði að koma mér aftur út á „alvöru götuna“ og að ég slyppi við að borga sekt í þetta sinnið – sem var vafalaust annars vegar vegna þess hve kurteis og vinalegur ég er í viðkynningu og hins vegar vegna þess að hann var einn með tvo glæpamenn í aftursætinu sem þurfti væntanlega að flytja strax í gæsluvarðhald.

Um þetta leyti hringdi mágkonan í mig (í finnska númerið) og sagðist hafa beðið Aram að fara á klósettið og hann hefði sagt nei og hvenær hann hefði eiginlega farið síðast og hvað hún ætti eiginlega að gera (hún á þrjú börn sjálf og var heima með mömmu sinni sem á fimm). Ég svaraði einhverju í pirringskasti um að ef hann pissaði í buxurnar gæti hann engum um kennt nema sjálfum sér.

Á endanum tókst mér að finna Hemköp. Sem var ekki á Drottningargötu heldur Kóngsgötu. Keypti í matinn, allt nema blómkál og vorlauk. Keypti mér pylsu í Pressbyrån og keyrði aftur heim. Mér var ennþá heitt, ég var ennþá stressaður og mér þótti allt ennþá mjög erfitt. Kannski spilaði það líka inn í að ég var að hlusta á Min Kamp á hljóðbók og það gekk allt á afturfótunum hjá Karl Ove Knausgård, fimmtán ára, sem var að reyna að detta í það og komast í partí á áramótunum og láta ekki stelpurnar sem þráðu líkama hans sjá á sér hárlaust typpið.

Þegar heim var komið var mér tjáð að Aram hefði verið stunginn af geitungi. Ég fór upp til hans þar sem hann sat og horfði á stelpurnar spila tölvuleiki, skoðaði sárið og spurði hvort hann vildi fara á klósettið. Hann sagði nei. Ég spurði hvort hann væri alveg viss og hann sagðist vera alveg, alveg viss. Ég er alveg á báðum áttum með að vera að ýta á eftir honum eða draga hann á klósettið. Annars vegar vil ég að hann láti mig vita þegar hann þarf að pissa (frekar en að ég fari bara með hann og tappi af á klukkutíma fresti) en hins vegar nenni ég ekki að vera alltaf að skipta um föt á honum og veit vel að hann er utan við sig og spáir oft ekkert í þessu fyrren of seint – hann vill heldur gera eitthvað skemmtilegt en fara að pissa, jafnvel þótt honum sé mál.

Svo fór ég niður að gera matinn. Fimm mínútum síðar kom yngri dóttirin og lét vita að Aram hefði pissað í sófann. Ég hélt einhverja vonlausa ræðu yfir honum sem hann hefur ekki haft neina burði til að skilja – í einhvers konar tilraun til þess að verða þó ekki reiður. Svo tók ég hann með mér niður í eldhús í refsingarskyni – eða þannig.

Ég gerði tvær omelettur. Eða eina omelettu og svo Quiche Lorraine. Omelettuna ætlaði ég að baka í formi og spurði mágkonu mína sérstaklega hvort það læki nokkuð. Svo þegar ég hellti eggjablöndunni út í lak það auðvitað – síðar kom í ljós að ég hafði sett botninn í á hvolfi. Mér tókst sem betur fer að hella henni í pönnu áður en það fór allt á gólfið.

Áður en maturinn hófst setti ég síðan í gang pizzasósu fyrir morgundaginn. Hún fékk að sjóða allan kvöldverðinn, fram yfir tiltekt og uppvask og alveg þangað til að við settumst niður með poppkorn til að horfa á Lemony Snickets. Sem var talsvert skelfilegri en ég hafði reiknað með og við byrjuðum líka að horfa talsvert síðar en ég hélt þegar ég lofaði Aram að hann mætti. Hann spurði mig stanslaust alla myndina, enda var hún bara textuð. Mest spurði hann hvar pabbinn væri („hann dó“) og hvar mamman væri („hún dó“). Reynsla hans af dauðanum er takmörkuð við flugu sem hann drap í Banyuls (hann var einmitt líka að reyna að „taka burt“ geitunginn sem stakk hann í dag). Síðar, þegar ég var að leggja hann og leita að hjartalaga stein sem hann fann á ströndinni í Banyuls og ætlar að gefa frænku sinni í afmælisgjöf á morgun, og ég fann ekki, spurði hann ítrekað hvort að steinninn væri nokkuð dauður. Svo fann ég reyndar steininn. Ég vona bara að hann dreymi ekki illa og hann verði ekki handónýtur af nammiáti, sjónvarpsglápi, geitungsbiti, dauðadaðri og þvagslysum þegar mamma hans kemur á morgun. Því þá verð ég drepinn. Og enginn sem getur útskýrt dauðann fyrir honum lengur.

Share to Facebook
Share to Google Plus