Yfirlýsing: Allt sem ég skrifa er krimmi

July 6, 2012 in blogg

I

Ég fer allur í hnút þegar ég þarf að ræða merkingu bókmennta – verð í senn hástemmdur og vonlaus. Lífskraftur bókmennta er óendanlegur, kraftur þeirra til skilnings er meiri en við fáum nokkru sinni skilið [SIC!], þær má aldrei nálgast af léttúð vs. Bókmenntir eru ekki færar um neitt af því sem við ætlum þeim, þær eru dægrastytting sem við höfum upphafið til þess að gæða líf okkar sýndarmerkingu.

Að ónefndu: Mikið er þetta nú samt skemmtilegt vs. Djöfull er þetta leiðinlegt.

Og á jafnt við um mínar eigin bókmenntir sem annarra.

Það hefur ekki alltaf verið þannig. Lengst af þótti mér duga að skrúfa bara upp í alvarleikanum, stíla það svolítið þrungið – og voilá! Ljóðlistin gerir göt á veruleikann. Skáldsagan er farartæki fyrir sálir. Tungumálið skilgreinir tilveruna og skáldskapurinn stækkar tungumálið og þar með tilveruna.

Eitthvað þannig. Þið skiljið. Við höfum öll séð þetta áður, heyrt þetta áður. Þegar til kastanna kemur leiðast mér þessar klisjur jafn mikið og mér leiðast bækurnar sem eru skrifaðar með þær að leiðarljósi. Ég gefst yfirleitt upp á bókum eftir great white dead authors – jafnvel þótt þeir séu enn á lífi. Gefst upp á bókum eftir höfunda sem taka sig of alvarlega. Og …

… ég ætlaði að skrifa að ég þyldi ekki heldur bækur skrifaðar af léttúð. En það er ekki satt. Ég elska bækur skrifaðar af léttúð. Mér finnst Felix Krull jafn æðisleg og mér finnst Búddenbrúkks glötuð. Og höggið meira af Krull – áhrifin stórkostlegri. Bókin situr lengur í mér og segir mér meira. Einhver sagði mér líka að Thomas Mann hefði verið sestur í helgan stein þegar hann skrifaði bókina. Hafði ekkert lengur að sanna. Gat skrifað hvað sem er. Og sett punkt hvenær sem hann vildi.

Það sem ég hefði átt að skrifa er …

… ég þoli ekki Dan Brown. Er það skoðun? Er það ekki bara núllpunktur? Upphafsreitur? Ég trúi því að bókmenntir geti haft jafn eyðileggjandi áhrif á fólk og þær geta verið uppljómandi. Maður er það sem maður innbyrðir.

Það er ekki heldur að ég þoli ekki lágkúru. Ég dái lágkúruna fyrir að vera sameinandi afl – elska að sjá Evrópu hreyfa sig í takt við Eurovision eitt kvöld á ári. Það er mikilvægt að vera endrum og eins öll í sama partíinu á sömu forsendunum.

Ég þoli samt ekkert Dan Brown.

En á sama tíma dáist ég að kitsi – að minnsta kosti kaldhæðnu kitsi. Engu að síður vitna ég mörgum sinnum í viku í það sem Kundera sagði um að kits væri hin algera afneitun skíts – og vilji ég eitthvað vil ég játast skítnum. En kaldhæðið kits er eins skítugt og það verður – bleikir demantsskreyttir víbradorar í laginu einsog höfrungar? Ég vildi óska þess að ég væri kona – eða að minnsta kosti ekki svona djöfulli anal. Þetta er sannleikurinn og hann er sár.

 

II

 

Einu sinni var ég framúrstefnuskáld. Stundum leik ég ennþá framúrstefnuskáld á sviði. Ég skammast mín ekki fyrir það – mér finnst það skemmtilegt og mér finnst skemmtilegt að öðrum finnist það skemmtilegt þegar þeim finnst það skemmtilegt. Ég á bágt með að skilja þegar nokkur tekur það nógu alvarlega til að geta fundist það leiðinlegt.

En ég dáist ekki lengur að tilgangsleysinu. Sem er eiginlega frumforsendan fyrir því að geta verið framúrstefnuskáld (eða listamaður, segja sumir). Ég dáist að framúrstefnuljóðlistinni fyrir sitt innra hreyfiafl, fyrir að kunna að dansa – fyrir Gertrude Stein og Kurt Schwitters í óendanlegri sveiflu – en mér finnst dygð hennar ekki vera jafn óumdeilanleg og mér þótti einhvern tíma. Trú mín á afleiðingum þess að teygja tungumálið er heldur ekki lengur sú sama.

Litháískur bókmenntafræðingur spurði mig einu sinni, eftir upplestur, hver væri eiginlega munurinn á mér og Bobby McFerrin – þessum sem söng „Don’t Worry Be Happy“ – og ég svaraði að það væri í raun enginn munur. En ég meinti það kaldhæðið. Ég meina það ekki kaldhæðið lengur – og það alveg að Bobby McFerrin ólöstuðum. Hann er frábær. Við erum frábærir, ég og Bobby McFerrin, en það þarfnast ekki endilega frekari útskýringar. Og ég er ekki framúrstefnuskáld lengur. Ekki avant, ekki post-avant. Ekki einu sinni róttækur.

Ég var pólitískt framúrstefnuskáld og þykist stundum ennþá vera það í góðra vina hópi. En það var á meðan ég bar ennþá nokkra virðingu fyrir pólitísku starfi – áður en mér varð ljóst hvað það getur haft í för með sér að skapa sér gegnheilar hugmyndir um réttlæti og beita þeim síðan á veröldina af einlægni, undanbragðalaust. Þarna myndast gjá, myndast hola. Ef réttlæti er ekki í flúxus, ekki á hreyfingu, ekki bundið aðstæðum, ekki ótal margir hlutir – altso, ef við höldum að maður beiti sér fyrir réttlætinu einsog maður keyrir jarðýtur þá er maður í pólitík. Ég er ekki í pólitík.

Það var einhver breskur rithöfundur – ég man ekki hver en ég man að ég heyrði þetta í bókaþætti á BBC – sem sagði að það skelfilegasta við Hitler og nasistana væri að þeir hefðu unnið allt sitt starf með vonina að vopni, með drauma og þrár um betri heim að vopni.

Ég tek þátt í lýðræðinu. Ég kýs ekki í kosningum (hef ekki mætt fimm sinnum í röð núna og kann vel við þá stöðu í lífinu) en ég tek þátt í lýðræðinu. Ég reyni að tala upphátt. Reyni að tala af perspektífi – reyni að tala í nafni ljóðmælenda frekar en sannleikans. Og á sama tíma þykir mér vænt um að tala umbúðalaust. Kalla spaðann spaða, einsog þeir segja í Ameríku. Og kalla þá líka ekki-spaðann ekki-spaða.

Ég á nefnilega ekki við að allt sé bara einhvern veginn. Ég er ekki afstæðissinni. Ég veit ekki alveg hvað ég er – ég er ekki heldur ekki-afstæðissinni. En ég er samt ekki afstæðissinni.

Ég reyni að muna að lýðræðið er samræða. Kosningar eru bara meðferð á valdboði – þar er lýðræðið skorið úr snörunni til þess að það drepist ekki. Og kannski eru bókmenntir einmitt þetta fyrir mér: verkfæri til þess að finna fyrir heiminum. Einsog ratsjárpípið sem fyllir höfin eru bókmenntirnar kannski ekki svo merkilegar sjálfar – heldur notum við þær til þess að finna fyrir einhverju öðru. Einhverju sem er stærra en þær, stærra en við sjálf, og raunverulegra. Einhverju sem við munum aldrei sjá, aldrei heyra, einhverju sem við getum – með aðstoð fáeinna vísbendinga – bara ímyndað okkur.

Ég er þá að reyna að skrifa vísbendingar. Leita að viti bornu lífi. Sem þýðir líklega að ég sé krimmahöfundur. Allt sem ég skrifa er krimmi. En ég trúi hvorki á sekt né sakleysi. Ég trúi ekki. Þið afsakið hvað ég er hástemmdur en kannski er það mikilvægasta afstaða sem rithöfundur getur tileinkað sér: að trúa ekki.

Og ljúga aldrei.

Hafna sannleikanum og horfast í augu við hann.

Beita ekki tólum skáldskaparins af óheiðarleika. Til þess að ná sínu fram. Eða sanna mál sitt.

Og svo framvegis.

Og svo framvegis.

Og svo framvegis.

Með öllum heimsins fyrirvörum.

(Þetta er flókið og það á að vera flókið).

Skrifað fyrir rithöfundakampus í Berlín sem haldinn verður næsta haust.

Share to Facebook
Share to Google Plus