25. júlí – Markaðsdagur í Rejmyre

July 25, 2012 in blogg

Ég svaf í barnaherberginu. Drengurinn var heltekinn af ödipusarduld og vildi ekki hleypa mér uppí hjá móður sinni. Og vegna þess að hann var með 41 stiga hita þá fékk hann allt sem hann vildi. Ég vaknaði svo á mettíma þótt ég hefði sofið illa. Var svo ringlaður í morgunmatnum að ég gleymdi eiginlega hvorutveggja að borða og drekka kaffi. Reyndi að vinna eitthvað, dauðþreyttur og sársvangur og skildi ekkert í neinu. Ég breyti og breyti. Aðallega smáatriðum – eða auðvitað bara smáatriðum. Það væri ekkert hægt að fara að breyta neinum aðalatriðum héðan af.

Nadja kom með Aram upp klukkan eitt. Þá var hann með svepp á tungunni og hún ætlaði út í búð að kaupa sódavatn. Það er gott við sveppi. Við fórum niður og poppuðum (hann er frekar matvandur í flensunni). Ég reyndi að bæta mér upp fæðu- og koffínskort. Svo kom Nadja heim og ég brá mér í búðina. Það var markaðsdagur í Rejmyre og ég rölti aðeins um markaðstorgið.

Nei, bíddu. Nú er krónólógían eitthvað að stríða mér. Þegar Nadja kom heim … átu þau hádegismat … og Aram fór að sofa. Ég sat yfir honum – í barnaherberginu en hann svaf í hjónarúminu. Las Illsku og gerði breytingar. Þegar hann vaknaði var morfar kominn með Gunnel og þau ákvaðu að bregða sér á markaðinn. Við Aram fórum og horfðum á Stígvélaða köttinn (altso þessa sem er með Antonio Banderas í ensku útgáfunni). Svooo kom Nadja heim og ég fór á markaðinn.

Nei, þetta er aftur eitthvað bogið. Hmm … Já, einmitt – Nadja fór tvisvar á markaðinn. Sem þýðir að ég fór víst út í búð og á markaðinn eftir poppkornið. Þegar ég kom heim var Aram nýsofnaður og ég fór og sat yfir honum. Svo komu morfar og Gunnel og þá fór Nadja aftur á markaðinn en við að horfa á Stígvélaða köttinn (ég var samt aðallega bara að lesa Illsku og breyta, breyta, breyta). Þegar myndin var búin kom Nadja heim og ég fór að laga matinn. Byrjaði á því að pilla rækjur en settist svo út í sólina og drakk kaffi og át sætabrauð með gestunum. Svo gerði ég soðið í Tom Yum súpuna, dundaði mér við að steikja tófu og marínera (í þeirri röð), skera grænmeti, leggja á borð og svo kom kvöldmatur á endanum. Tom Yum og núðlutófu. Ég hafði það alveg sósulaust og grænmetið (aðallega sykurbaunir og paprika) til þess að gera brakandi.

Aram var svo alveg orðinn hress og fór með frænkum sínum, morfar og Gunnel á ströndina (þar sem hann sat innvafinn í teppi í sandinum og horfði á hafið). Við Nadja dunduðum okkur ein við uppvaskið – og var mjög gaman, reyndar. Við höfum varla verið ein nema dauðuppgefin frá því einhvern tíma í síðustu viku. Og Nadja er bara alltof vel gefin og skemmtileg til að það sé ásættanlegt. En lífið tekur bara svo mikinn tíma. Note to self: vera minna upptekinn.

Share to Facebook
Share to Google Plus