Illska: Augu sjáandans

March 21, 2013 in blogg, Illska

Fjölmiðlamaðurinn Sölvi Tryggvason uppskar nokkurn hlátur fyrir skemmstu þegar hann benti auðmjúklega á – í viðtali við DV minnir mig – að það „að elska“ væri sögn en ekki lýsingarorð. Því er einmitt líkt farið með illskuna, hún er sögn en ekki lýsingarorð, og þess utan loðin sögn – varla hönd á henni festandi (sem er svo aftur ástæðan fyrir því að við getum ekki hætt að ræða hana). Það er ekkert eitt tiltekið einkenni eða heilkenni, sem veldur eða útskýrir hið slæma í heiminum – en illt gerist og er gert engu að síður og það gerist og er gert fyrir ýmsar orsakir, sem ekki eru allar illar í þeim skilningi að gerandinn leggi upp með illskuna að markmiði eða þjáist af henni. Hann getur jafnvel – kannski oftast – hafa ætlað að uppræta illskuna sjálfur, hafandi greint hana í öðrum. Á öðrum stundum, sem eru víst ekki mikið sjaldgæfari, virðist hann einfaldlega ekki gera sér grein fyrir því að nokkuð sé bogið við gjörðir hans – flaggar þeim jafnvel, einsog gerðist í Steubenville nauðgunarmálinu sem hefur verið í kastljósi fjölmiðlanna síðustu daga.

En illska alltaf spurning um perspektíf, um sjónarhorn. Trúi maður því að maður megi – að aðrir séu ekki mennskir í sama skilningi og maður sjálfur – þá leyfir maður sér og verður bókstaflega hissa, finnst maður svikinn, einsog maður hafi hlaupið á vegg, ef samfélagið ætlar svo að banna manni það sem manni þykir sjálfsagt. Og trúi maður því síðan að gyðingar, íslamistar, kapítalistar, femínistar, hvítir karlmenn eða aðrir demóníseraðir þjóðfélagshópar ætli sér að snúa allan heiminn undir sig og byggja upp róttæk kúgunarkerfi til að valda jafnt smælingjum sem öðrum miska, eða hafi jafnvel þegar gert það, þá er illska að bregðast ekki við því. Það getur jafnvel verið illska öðrum þræði að bregðast ekki við því með ítrasta hætti – það getur hreinlega virst eða verið hið eina rökrétta og siðaða í stöðunni að bæla þann náttúrulega viðbjóð sem flest okkar hafa á ofbeldisverkum til þess að ná einhverju æðra markmiði, til þess að takmarka þann harm sem verður í heiminum tótalt. Við setjum einn náttúrulegan eða sjálfsskipaðan misyndismann í gasklefa, gapastokk eða rafmagnsstól og björgum með því samfélaginu, björgum heildinni, björgum börnunum, konunum og smælingjunum, björgum dýrunum: hvölunum, kjúklingunum, grísunum og minkunum.

Illskan er oft verkfæri til þess að útrýma illskunni. Með illu skal illt út rekið – illskan er örþrifaráð, realpólitík, hún er að vera með fæturna á jörðinni og hnefann á lofti, tilbúinn til að gera það sem af manni er krafist, hún er allar erfiðu ákvarðanirnar í lífinu, hver fær að lifa og hver ekki, hver fær að njóta réttlætis og hver ekki, hverjum er réttlætanlegt að refsa – annað hvort með aðstoð kerfisins eða á eigin vegum, hver á skilið vatnsglas í andlitið, hver á skilið mannorðsmissi, hver löðrung og hvern skal hýða, læsa inni, hengja, gera eignalausan eða reka úr landi. Og svo framvegis. Þetta er einhvers konar hagkerfi, einhvers konar kappleikur og einhvers staðar er haldið utan um stig, utan um gróða og skuldir.

Illskan er sem sagt í auga sjáandans, en því lýkur ekki þar, því illskan – sem er ennþá sögn, að illska – verður líka til fyrir tilverknað auga sjáandans. Það sem þú horfir á breytist við áhorfið, verður líkara því sem þú telur þig sjá, færist einu skrefinu nær. Fáirðu illan bifur á einhverjum – af rökstuddum eða órökstuddum ástæðum – verður sá hinn sami hugsanlega að illmenni á endanum, ekki bara í þínum augum eða þinna nánustu heldur jafnvel samkvæmt eigin skilningi, og þá er baráttan töpuð. Sá sem upplifir sjálfan sig sem illmenni er laus við allar hömlur gæskunnar. Það hvernig samfélagið sér mann – eða réttara sagt það hvernig maður ímyndar sér að samfélagið sjái mann – hefur talsverð áhrif á það hvernig maður sér sig sjálfur og hvernig maður hagar sér. Gangist samfélagið ekki við tilvist manns eða sjálfsmynd er tilgangslaust að halda henni fram – við ráðum því ekki nema að litlu leyti hver við erum, við getum komið með uppástungur en það eru þeir sem sjá okkur sem úrskurða. Það þýðir þannig ekkert fyrir hægri-græna að segjast vera femínistaflokkur – eða einu sinni umhverfisverndarflokkur – ef ekkert mark er á þeim tekið. Þá er ekki nóg með að femínistar og umhverfisverndarsinnar – eða þeir sem telja sig hafa skilgreiningarrétt á þeim stefnum – hafni flokknum heldur eru allar líkur til þess að flokkurinn hafni í kjölfarið málefninu sem slíku, enda ekki eftir neinu að slægjast. Það er tilgangslaust að halda fram orðum sem enginn tekur mark á, tilgangslaust að berjast fyrir hugmyndum ef heiminum finnst maður ekki hafa innistæðu fyrir þeim.

Sá sem er ævinlega grunaður um græsku hefur engu mannorði að glata – ef allir halda að maður sé þjófur hvort eð er þá glatar maður engu á að stela ekki, nema auðvitað ránsfengnum. Flestir þeirra sem verða fyrir stigmatíseringu af þessu tagi berjast enda gegn henni með kjafti og klóm – því engu reiðist maður líkt og vantrausti heimsins – annað hvort með því að gerast undirgefnir ákærendum sínum og nota hvert tækifæri sem gefst til þess að fagna þeim og málstað þeirra, svo þeim megi verða ljóst hversu réttlátur maður er í raun, eða með því að láta hart mæta hörðu og kasta sér út í pólaríserandi rifrildi sem verður jafnvel til þess að hinir stigmatíseruðu virðast enn grunsamlegri í augum sjáenda sinna, auk þess sem líklegra er að allir herðist einfaldlega í afstöðu sinni – maður virðist enn verri fyrir öðrum og upplifi sig enn óréttlátari, verði enn reiðari og taki enn harðar á móti þeim sem upplifa sig enn óréttlátari – fá jafnvel samviskubit – og taka enn harðar á móti. Ég ýti þér út í þetta horn og þú ýtir mér út í hitt hornið og á endanum erum við bæði skíthælar, hvort í sínu horninu.

Sjáandinn breytir þeim sem hann sér og breytist sjálfur við að vera séður. Kannski liggur illskan þarna í átökunum, í því að láta þau eftir sér. Hvort heldur sem það er af heift gagnvart raunverulegu eða ímynduðu óréttlæti – eða af einhvers konar blindu. Og kannski er það alltaf eitt og hið sama – einfaldlega þetta að missa sjónar á mennsku annarra, hvort sem það er vegna þess að þeir tilheyri einhverjum hópi eða vegna einhvers sem þeir hafa gert af sér eða við höldum að þeir hafi gert af sér, þetta að telja sig í rétti með að hætta að sýna öðrum samlíðan, hætta að vorkenna þeim þegar þeim líður illa eða fagna þeim þegar þeim líður vel – að nasistar séu líka fólk, nauðgarar, gyðingar og múslimar séu líka fólk, konur séu fólk, börn séu fólk, það sé ekkert sem maður getur verið eða gert sem svipti mann mennskunni. Eitthvað þannig.

Illska hlýtur Bóksalaverðlaunin

December 13, 2012 in Fréttir, Illska

Tilkynnt var um Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana í Kiljunni í gær. Verðlaun voru veitt í ótal flokkum og þremur sætum og varð Illska hlutskörpust í efsta sæti íslenskra skáldsagna. Í næstu sætum komu Undantekning Auðar Övu Ólafsdóttur og Ósjálfrátt Auðar Jónsdóttur. Við hjá norddahl.org (við höfundurinn) erum auðvitað í skýjunum.

Í öðrum fréttum: Á dögunum birtist afar jákvæður dómur um bókina á Bókmenntavefnum, þar sem Björn Unnar Valsson ræddi hana af ástríðu og innsæi og sagði meðal annars:

Líkt og veröldin sem hún lýsir býður Illska lesandanum skínandi tækifæri til sjálfsblekkingar, en það sem ber henni og færni höfundarins best vitni er það hvernig hún afhjúpar blekkinguna um leið – og hefur í raun læst öllum dyrum og neglt fyrir hlerana löngu áður en völin er borin upp. Við getum hvorki valið annað né hitt og þaðan af síður bæði, heldur hvorugt. [...] hér er á ferðinni fallegt og viðamikið skáldverk, þrekvirki liggur mér við að segja, um laskaðar manneskjur sem leiðast um sjúklega veröld í allri sinni depurð – og dýrð.

Illska, sem er í efsta sæti kiljulista Eymundsson, hefur nú verið endurprentuð í harðkápu og ættu fyrstu eintök þeirrar útgáfu að berast í búðir á næstu dögum. Þá er rafbókin í fjórða sæti á metsölulista Skinna.is.

DV um Illsku: Hreint stórvirki, aldrei dauður punktur

November 21, 2012 in Fréttir, Illska

Í dag birtist ítarlegur (4ja stjörnu) ritdómur um Illsku í DV, þar sem Jón Bjarki Magnússon segir meðal annars:

Eiríkur er algjör stílsnillingur og það getur verið hrein unun að lesa sum textabrotin. [...] aldrei dauður punktur í verkinu [...] Í Illsku er orðum komið að hlutum sem við sem samfélag höfum verið allt of hrædd við að orða hingað til. Og kannski höfum við hreinlega ekki haft hæfileikann til þess fyrr en nú? Þegar Eiríkur Örn Norðdahl hefur loksins rofið þögnina. Sem pólitískt verk er Illska hreint stórvirki. Hún talar inn í kjarnann á þjóð sem hneigist til að forðast sannleikann um sjálfa sig. Allir þeir sem vilja horfast í augu við sannleikann um Ísland og heiminn sem er allt í kring verða hreinlega að lesa. Eftir það getum við byrjað að tala saman.

Illska: Að skrifa bók í útlegð

November 19, 2012 in Illska

Erindi flutt á Opinni bók, Edinborgarhúsinu á Ísafirði, 18. nóvember, 2012.

Ég veit ekki beinlínis hvað ég get sagt ykkur um að vera rithöfundur í útlöndum – einsog ég var eiginlega beðinn um að gera. Þegar maður er rithöfundur, þessi augnablik sem það á annað borð tekst, þá er maður einfaldlega einn og hvergi, einsog einhver líkamslaus andi. Maður er í besta falli í Word eða Bean eða Text Editor eða Scrivener eða einhverri stílabókinni. Landslagið er annað, veröldin önnur, og tengsl hennar við þessa eru hvorki hrein né einföld.

Það er svo sjálfsagt hálftilgangslaust fyrir mig að ætla að segja ykkur hvernig það er að búa í útlöndum. Svo til allir hafa búið í útlöndum, eða að minnsta kosti ferðast nógu mikið til að geta ímyndað sér hvernig það er. Skandinavía er tæpast neinum hér framandi heimur. En ég get sagt ykkur hvernig það var fyrir mig að búa í Finnlandi og Svíþjóð þau ár sem það tók mig að skrifa þessa tilteknu bók. Því hvað sem öðru líður hlýtur sú reynsla að hafa smitast inn í bókina – þótt ég láti ykkur eftir að túlka nákvæmlega hvernig
Það er kannski best að ég byrji á að útskýra aðeins bókina Illsku. Hún fjallar fyrst og fremst um Agnesi Lukauskaite, sem er dóttir litháískra innflytjenda sem komu til Íslands árið 1979. Afar og langafar Agnesar tóku þátt í og urðu fyrir fjöldamorðunum sem mörkuðu í einhverjum skilningi upphaf helfararinnar og áttu sér stað í Jurbarkas sumarið 1941 –og öllum þessum áratugum síðar er Agnes með þráhyggju fyrir öllu sem hefur með þjóðernisöfgar og helförina að gera. Kærastinn hennar heitir Ómar og er til þess að gera áttavilltur íslenskufræðingur. Hún hefur skrifað BA-ritgerð um téð fjöldamorð og vinnur að Mastersritgerð um ysta hægrið á Íslandi og við störf sín kynnist hún meðal annars ísfirska nýnasistanum Arnóri.

Þrátt fyrir að gerast að stórum hluta í Litháen – og reyndar víða annars staðar í Evrópu – er Illska fyrst og fremst skáldsaga um Ísland. Hún fjallar um það hvað það er að vera annar á Íslandi, að vera utanaðkomandi, jaðraður, rekinn út í horn og rata ekki aftur til baka. Hún fjallar um það hvernig maður getur verið utanveltu fyrir sakir hugmynda sinna um lífið, fyrir sakir einhverrar arfleiðar sem maður á eða á ekki sameiginlega með öðrum, hvernig allir fæðast utanveltu og læra að verða það alveg upp á nýtt, jafnvel aftur og aftur, hvernig maður getur málað sig út í horn með gjörðum sínum – gagnvart öðrum og gagnvart sjálfum sér – og hvernig það getur verið erfitt að feta sig þegar maður er á valdi annarra.
Fyrir tæpum tveimur árum settist ég niður með textann sem ég hafði þá skrifað og reyndi að átta mig á því hvað þetta þýddi eiginlega allt, hvert ég væri að fara með því, hver væri hugsanleg niðurstaða þessarar tilgátu sem maður kallar skáldsögu. Og þá smættaði ég verkefnið fyrir mér svo að Illska væri bók sem fjallaði um þá verknaði að horfa á eitthvað annars vegar og að láta horfa á sig hins vegar.

Svona orðar Agnes þetta sjálf í bókinni:

Einhvern tíma var spurt hver sjálfsmynd mín væri. Hvort ég væri sú sem ég teldi mig vera eða sú sem aðrir teldu mig vera. Svarið við þessari spurningu, í þetta skiptið, var að ég væri sú sem ég teldi að aðrir teldu mig vera. Heimspekingar tala um Hinn, með stóru H-i, þennan ímyndaða aðila sem situr einhvers staðar uppi á ímynduðum fjallstindi og horfir niður á okkur gapandi af stanslausri fordæmandi undrun. Hinn er ímyndun okkar en ekki minna sannur fyrir það. Hann er fulltrúi þess sem við teljum að aðrir telji okkur vera – Hinn er augað á veggnum, skráargatið, gægjugatið, vefmyndavélin. Ef hann öðlast einhvers staðar raunverulegt form er það í ómerktum og földum eftirlitsmyndavélum, þessu grunsemdarfulla auga sem vakir yfir okkur en segir okkur aldrei hvað sér finnst, spyr aldrei hvað klukkan sé eða biður um eld, en húkir samt á öllum götuhornum.

* * *

Þar sem Ísraelsmenn stóðu uppgefnir og hraktir í Babýlon sagði Guð við þá: Þið eruð vottar mínir, leiðarljós eilífðarinnar, og ég er Guð. Í Midrash-ritum Gyðinga er þetta túlkað svo: Þegar þið eruð vottar mínir er ég Guð, og þegar þið eruð ekki vottar mínir er ég, svo að segja, ekki Guð.
Því ekki einu sinni Drottinn Ísraelsmanna er til, ef enginn horfir á hann.

Tilvitnun lýkur.

Mig langaði sumsé að gaumgæfa merkingu þess að horfa og láta horfa á sig. Og þá verður maður strax meðvitaður um það hvernig maður horfir á aðra og hvaða áhrif það hefur á mann að aðrir skuli horfa á mann og hafa um mann einhverjar meiningar – eða jafnvel bara ímyndaðar meiningar. Sá sem er gerður mannorðslaus við fæðingu – til að mynda sígaunar, sem fæðast stimplaðir í bak og fyrir – hefur augljóslega engu mannorði að tapa. Ræni hann einhverju stendur hann siðferðislega á núlli, hefur hvorki unnið sig áfram eða fallið í áliti hjá einum eða neinum. Ef við því er búist að barn fái 10 á prófi er 8,5 mikil vonbrigði – ef krafan er bara sú að barnið brenni ekki skólann af sér er 5,5 stórsigur. Maður er alltaf að einhverju leyti dæmdur til þess að verða sá sem maður ímyndar sér að aðrir haldi að maður sé.

Illska er sem sagt skáldsaga um það að vera utanveltu á Íslandi. En þann tíma sem ég skrifaði hana var ég sjálfur mismikið utanveltu einhvers staðar annars staðar – þótt ég væri í sjálfu sér aldrei langt að heiman, og alltaf með mikið bakland, annað en þeir innflytjendur sem mest fara í taugarnar á rasistum. Bókina skrifaði ég fyrst og fremst í Svíþjóð og Finnlandi, þar sem ég var búsettur, en einnig í fríum á Íslandi, í vinnuferðum til Gotlands og Litháen og í flugvélum og hótelum á leiðinni til og frá einhverjum bókmenntahátíðum – og hún ber þess alveg áreiðanlega merki. Á meðan það er satt að hægri popúlisminn hafi beðið hálfgert afhroð á Íslandi fyrst eftir hrun – þegar hin blinda heift færði sig, til góðs eða ills, að nokkru leyti yfir á vinstri kantinn – er ekki hægt að segja hið sama um hægri popúlismann í Finnlandi og Svíþjóð, þar sem Svíþjóðar-demókratarnir og Hinir sönnu Finnar hafa sótt stöðugt í sig veðrið síðustu ár og misseri, og staðan er svipuð á hinum norðurlöndunum.

En ég byrjaði sem sagt að skrifa bókina sumarið 2008. Þá bjó ég á Ísafirði, brottfluttur og sem gestur í bláu húsi hér hinumegin við götuna. Krónan stóð í rétt um hundrað krónum og við hjónin höfðum komið hingað til þess að safna okkur peningum áður en við færum aftur til Helsinki, þar sem við áttum heima. Nokkrum mánuðum síðar sleikti evran tvö hundruð kallinn. Þá var ég kominn aftur til Finnlands og borgaði leiguna í evrum, keypti mjólk í evrum og bjór í evrum og banana, tómata, strætómiða og bækur í evrum. Fyrir verðlausa sumarhýruna. Hinn pólitíski bakgrunnur þessara ára markast sem sagt fyrst og fremst af vaxandi þjóðernisöfgum í skandinavíu og hruninu og reiðinni á Íslandi.

En veröldin er víst annað og meira en hinn pólitíski bakgrunnur.

Þegar maður flytur til útlanda tekur maður fyrst eftir því sem er öðruvísi en heima hjá manni. Í Kallio og Kontula – þeim tveimur ólíku hverfum Helsinkiborgar þar sem ég hef verið skráður til heimilis – er það alkohólisminn sem fyrst vekur athygli manns. Fólk sem situr í strætó og er búið að pissa í sig. Allt þetta eilífa, þunga fyllerí. Eymdin. Og hún verður svo áberandi fyrstu vikurnar og mánuðina að maður áttar sig varla á því að hún er undantekningin en ekki reglan. Finnar eru nefnilega engar fyllibyttur upp til hópa. Þeir eru ekki einu sinni þunglyndir. Og þegar maður loksins rankar við sér og fer að kanna málin kemst maður að því að Svíar drekka meira en Finnar. Í alkohóllítrum á ári á mann. Þeir drekka bara þeim megin við gluggatjöldin sem ekki sést til þeirra.

Þegar við fluttum til Svíþjóðar bjuggum við í Västerås, sem er lítið eitt minni en Reykjavík. Ótrúlega hrein og fín og fögur borg, einhvern veginn slétt og felld. Það var varla að maður sæi áfengi á nokkrum manni – þaðan af síður að maður þyrfti að klofa yfir dauða róna til að komast inn í lyftuna eða díla við allsbera dauðadrukkna glaumgosa úti á götu eða hreinsa til eftir heimilislausa fólkið uppi á háalofti eða einu sinni bara hlusta á lætin í barnum hinumegin við götuna. Og svo fór maður að lesa dagblöðin. Og átta sig á ofbeldinu sem var þarna einhvers staðar. Nauðgunum sem áttu sér stað í garðinum rétt handan götunnar, morðum sem framin voru í stuttu göngufæri – rétt við búðina þar sem við versluðum fisk og kartöflur og tannkrem og tóbak. En það sást aldrei. Og kannski voru þetta engin ósköp en það var eiginlega óþægilegra að vita af þessu bakvið tjöldin en að hafa vitleysuna og ógæfuna bara fyrir augunum einsog í Helsinki. Lesa um ofbeldið í blöðunum en verða annars aldrei var við það.

Þeir segja að gests augað sé glöggt og það má áreiðanlega til sanns vegar færa, upp að vissu marki, en gests augað er náttúrulega líka dálítið rangeygt. Maður skilur ekki allt í kringum sig, kann ekki að setja hlutina í samhengi, veit ekki hvernig þeir tengjast. Stundum hefur maður næmari skilning á því sem er augljóst en þeir sem hafa verið lengur í heiminum – maður er ekki jafn markaður af því sem manni hefur verið sagt að halda, því það hefur enn ekki unnist tími til að útskýra alla skapaða hluti í burtu – en fávísi manns kemur samt ekki í staðinn fyrir þekkingu.

Eftir tæpt ár í Västerås fluttum við til Oulu í Norður-Finnlandi. Þessir flutningar höfðu verið á planinu lengi og þegar ég sagði fólki árið áður í Helsinki að ferðinni væri heitið norðureftir dæsti það og krossaði sig. Norður-Finnar eru svo þunglyndir, sagði það. Og drykkfelldir. Einn sagðist hafa fengið gott djobb þarna einu sinni, verulega vel launað, en gefist upp eftir þrjá mánuði. Því það væri bara ekki hægt að kynnast Norður Finnum, þeir væru svo lokaðir. Sem var nákvæmlega það sama og ég og hinir innflytjendurnir í Helsinki höfðum sagt um suður Finnanna. Norður Finnar eru fyrir suður Finnum einsog suður Finnar eru fyrir Spánverjum.

Við komum sem sagt skjálfandi á beinunum til Oulu í sumarbyrjun 2010. Og komumst fljótlega að því að norður Finnar – í það minnsta fólkið sem bjó í kringum okkur í háskólaúthverfinu okkar – eru bara mjög vinalegt og opið fólk og alls ekkert félagsfælið. Ég var ábyggilega langfélagsfælnasti maðurinn í hverfinu. Kannski var þetta öðruvísi niðri í bæ eða í öðrum úthverfum – það má vel vera. En svona var þetta hjá okkur.
En það var ekki allt jafn vinalegt. Allan veturinn birtust auglýsingar á trjánum í skóginum frá finnsku varnarsveitinni, Suomen Vastarintanliike – það var skógur allt um kring og þeir límdu auglýsingarnar á trjástofnana. Auglýsingar þess efnis að við ættum að hypja okkur. Fjölmenningin er hættuleg þér og börnunum þínum, skrifuðu þeir og vissu greinilega ekkert um mig eða börnin mín. Stöndum vörð um land og þjóð. Stundum fengum við líka dreifibréf frá þeim í póstkassann. Við brúnna sem við sonur minn gengum undir á leiðinni á leikskólann á hverjum degi var risastór hakakross. Við brúnna sem við fórum undir til að komast á strætóstoppistöðina var annar. Á klósettunum í háskólabókasafninu, sem var rétt hjá, mátti sjá kristilega hakakrossinn triskelion ásamt tölunum 14 og 88. Fjórtán stendur fyrir fjórtán orða boðorð bandarískra nýnasista: We must secure the existence of our people and a future for White Children en 88 er áttundi bókstafur stafrófsins tvítekinn –HH, Heil Hitler.

En einsog fjarvera ofbeldisfólks og sýnilegra fyllibyttna markaði Västerås – og gerði mann einhvern veginn tvöfalt meðvitaðri um tilvist þeirra – þá sá maður aldrei neina nýnasista í Oulu. Maður sá aldrei neitt nema ummerkin um þá. Ég vissi að þeir gengu sömu leiðir og ég – í leikskólann, í strætó og út í búð – en ég sá aldrei neinn hengja upp auglýsingar eða haga sér einsog nýnasisti, hvernig sem sú hegðun annars lýsir sér.
En ég var að mörgu leyti hræddur við þá. Einhvern veginn. Ég man eftir því þegar það sló mig að ég ætti kannski ekki að merkja póstkassann okkar með fornöfnum fjölskyldunnar – konan mín heitir Nadja og sonur okkar Aram, sem eru bæði algeng nöfn meðal araba. Og líklega er ekki góð hugmynd að setja þannig nöfn á póstkassa í hverfum þar sem finna má nýnasista. Og einhvern veginn er algert brjálæði að þora ekki að setja nöfn fjölskyldunnar sinnar á póstkassann. Hvernig í ósköpunum ætli sé þá að vera arabi?

Og það sló mig síðan líka að maður er alltaf hræddari við það sem maður telur sig vita um en sér ekki, heldur en hitt sem maður veit um og sér skýrt og greinilega. Skrímslið er skelfilegast á meðan það heldur sig undir rúminu eða inni í skápnum, á meðan það bankar á rúðuna. Þegar maður kveikir ljósin og býður því í bæinn kemur yfirleitt eitthvað miklu vinalegra í ljós en maður hafði gert sér í hugarlund. Og það sló mig, sumsé, að það var engin leið fyrir mig að vita hversu mikið af fólki stóð á bakvið umræddar auglýsingar. Það þarf engin ósköp af fólki til að hengja upp nokkrar auglýsingar. Kannski voru þetta bara nokkrir ráðvilltir krakkar. Kannski margir ráðvilltir krakkar. En þeim var áreiðanlega vorkunn.

Það sló mig líka að ef ég hefði ekki verið sérstaklega meðvitaður um þessi tákn hefði ég kannski aldrei tekið eftir þeim. Finnskan mín er skelfileg – slagorðin hefðu auðveldlega getað farið framhjá mér. 14/88 eru bara tölur fyrir flestu fólki. Triskelion hakakrossinn er þríarma og hann þekkja ekki allir – hann er tákn kristilegra nýnasista.

Öðrun – að aðra – er sú list að láta einsog heimurinn skiptist í okkur og þau, norm og frávik. Það er mikilvægt að átta sig á því að þetta er ekki bara eitthvað sem vondir rasistar gera – þessar línur eru ekki bara dregnar milli heimamanna og gestkomandi, heldur drögum við þær ekkert síður á milli þeirra sem við upplifum sem réttláta og þeirra sem við upplifum sem rangláta. Og þessi siður, að stunda samfélagið með ipponi – með uppnefnum, dilkadrætti, einföldunum og dónaskap – er ekki bara algengur heldur þarf maður að leggja talsvert á sig til þess að forðast hann, til þess að muna að skilningi manns er alltaf ábótavant, það eru alltaf fleiri sjónarhorn, alltaf eitthvað mikilvægt sem maður á eftir ólært, sem maður kom ekki auga á við fyrstu sýn, aðra, þriðju, fjórðu og svo framvegis. Þegar maður gleymir því eða hunsar það viljandi – til þess að flækja hlutina ekki óþarflega – færir maður samræðuna niður á lægsta, versta plan. Og þar vinnur einfaldlega sá sem einfaldar mest – sá talar skýrast sem flækir ekki hlutina fyrir sér. Og því stigi málsins verður ekki um neitt réttlæti að ræða.

Eitthvað þannig vildi ég sagt hafa.

Takk fyrir.

Illska: Fimm stjörnur dómur í Fréttablaðinu

November 14, 2012 in Fréttir, Illska

Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir skrifar um Illsku í Fréttablaðið og gefur henni fimm stjörnur og hefur meðal annars þetta að segja:

„Illska er stór og mikil bók (540 síður) en aldrei fær lesandi á tilfinninguna að það hefði mátt stytta hana. Hún er bara nákvæmlega eins og hún á að vera: Fróðleg, skemmtileg, sorgleg og fyndin. Hún miðlar sagnfræði, ástarsögu, heimspekilegum pælingum og gamanmálum – (hér vantar meira pláss). Allt er þetta svo vel gert, frumlegt og flott að það er eiginlega óhugnanlegt.

Niðurstaða: Klikkuð bók. Lesið hana!“

 

Lesa má allan dóminn hér.

Illska: Fyrsta rafbók jólabókaflóðsins – frítt sýnishorn!

November 12, 2012 in Fréttir, Illska

Illska afrekaði það síðastliðinn föstudag að verða fyrsta rafbók jólabókaflóðsins. Hana er hægt að kaupa á vef Forlagsins fyrir litlar 2.990 krónur. Í tilefni af því fæst hér að neðan frítt sýnishorn úr bókinni sem hægt er að lesa á öllum helstu lesbrettum, spjaldtölvum, fartölvum, borðtölvum og símtækjum. Sýnishornið inniheldur fyrstu þrjá kafla bókarinnar óstytta.

Smellið hér til að ná í pdf-skjal.

Smellið hér til að ná í epub-rafbók.

Smellið hér til að ná í mobi-rafbók.

Þá er rétt að benda á að auk þeirra viðtala sem talin voru upp hér í síðustu færslu hafa birst ný viðtöl í Fréttablaðinu nú á laugardaginn (bls. 42) og á Smugunni.

Illska – kápa

September 17, 2012 in Illska

 

Mér skilst að bókin ætti að vera komin í búðir upp úr mánaðamótum. Þangað til er hægt að læka hana á Facebook. Þetta er einn aðalliðurinn – gott ef ekki bara sá eini – í umfangsmikilli markaðsherferð minni. Ég veit allavega ekki hvað ég ætti að gera fleira. Ef ég get ekki fengið ykkur til að læka bókina er líklega vonlaust að ég get fengið ykkur til að kaupa hana.

Illska – ritgerð 5

September 16, 2012 in Illska

Það var talsvert meira af non-fiction af ýmsu slagi í Illsku á einhverjum tímapunkti en er núna. Samband Illsku við veruleikann er ekki og átti aldrei að vera í hlutföllunum einn á móti einum – en hún átti að nudda sér og nuddar sér vonandi enn talsvert upp við heiminn einsog hann er, þótt margar ritgerðir og talsvert af sögulegum skáldskap og alls kyns anekdótum hafi verið þurrkað út.

Í handritinu einsog það leit út í febrúar síðastliðnum voru átta stuttar ritgerðir í þriðja hluta sem þræddu sig í gegnum alls kyns popúlisma (1. Hreinlæti; 2. Tilfinningarök; 3. Pólitískar bókmenntir; 4. Klám sem pólitík; 5. Múhameðsteikningarnar og málfrelsi; 6. Hvað er fasismi?; 7. Fallið; 8. Sönn saga úr stríðinu).

Ég hugsa að ég birti þær bara allar hérna á næstu dögum – ég hef ekkert betra við þær að gera. Þær eru ágætar, held ég, þótt þær hafi ekki endað í bókinni, að minnsta kosti sumar þeirra. Þessi hérna, sem er númer fimm af átta, er ég held ég alveg ágæt í samhenginu núna – þessari umræðu um múslimamyndina á Youtube. Mér finnst einsog þessar sömu skotgrafir séu að myndast aftur á svipuðum forsendum. Það er meira að segja eitthvað um að sama fólkið kasti sér í sömu skotgrafirnar og noti sömu afsakanir og síðast til þess að ræða ekki saman heldur kasta ásökunum hvert í annað.

Allavega. Svona var hún, þessi ritgerð, eða þanki eða hvað á að kalla það. Sem kom einsog millispil í bókina – ég held að þetta heiti að Kúndera á íslensku.

——–

Ritgerð nr. 5

Eitthvert liðinna ára, ég er minnislaus og man ekki hvert þeirra, birtust skopteikningar af Múhameð spámanni í danska blaðinu Jyllandsposten. Þær voru síðan endurbirtar í öðru hverju dagblaði í Evrópu á meðan hitt baðst undan því af siðferðislegum eða pólitískum ástæðum. Myndirnar þóttu niðrandi við múslima og víða varð trúuðum mönnum mjög heitt í hamsi þeirra vegna. Danski fáninn var brenndur í mótmælaskyni, mótmæli breyttust í óeirðir og ótal manns létu lífið í átökum við lögreglu.

* * *

Upphófst samræða þar sem allir fóru hamförum. Tjáningarfrelsissinnar vs. andstæðingar kynþáttahaturs.

* * *

Tjáningarfrelsissinnar – sem andstæðingar kynþáttahaturs kölluðu skáparasista – vörðu myndbirtinguna og sökuðu alla sem mæltu gegn henni um að daðra við ritskoðun. Þeir sögðu myndbirtinguna lið í því að hjálpa íbúum miðausturlanda að brjótast undan trúarkúgun heima fyrir. Það væri óverjandi að ekki mætti birta myndir af Múhameð spámanni – að ekki mætti gera gys að honum einsog öllu öðru. Maður gefur ekki afslátt af tjáningarfrelsinu, sögðu þeir.

* * *

Andstæðingar kynþáttahaturs – sem tjáningarfrelsissinnar kölluðu pólitíska rétttrúnaðarmenn – hörmuðu myndbirtinguna og sökuðu alla sem hana vörðu um að daðra við íslamófóbíu. Þeir sögðu myndbirtinguna lið í viðstöðulausum áróðri gegn múslimum í dönskum fjölmiðlum, áróðri sem yrði sífellt meira áberandi með hverju árinu og væri fyrir löngu síðan normalíseraður í danskri stjórnmálaumræðu. Það væri óverjandi að nota tjáningarfrelsið til að skýla sér fyrir gagnrýni – myndirnar væru rasistaskítur og ættu engan afslátt að fá, þótt þeir sem þær birtu væru vel versaðir í retórík.

* * *

Allir fóru offari. Eða svo gott sem. Voðalega fáir virtust hafa áhuga á því að setja orð sín í annað samhengi en sem hentaði rullunni eða láta þá sem á öndverðum meiði stóðu njóta vafans – að þeim sem þættu myndirnar niðrandi við danska innflytjendur væri kannski líka annt um tjáningarfrelsið, að þeim sem þætti mikilvægt að standa vörð um sjálfstæða ritstjórnarstefnu Jyllandsposten hefðu kannski líka áhyggjur af vaxandi rasískum tendensum í dönsku samfélagi.

* * *

Það er í sjálfu sér engin nýlunda að flest rifrildi fari fram á tveimur eða fleirum tungumálum og þeir sem rifrildin stundi virðist leggja sig í líma við að orðin nái aldrei saman neinsstaðar. En ég held að pólitískur rétttrúnaður hafi aldrei náð jafn áköfu skriði og í orðasennum þessara tveggja hópa, enda báru báðir hóparnir fyrir sig gildi sem samfélagið lítur í senn á sem sjálfsögð og heilög, ritskoðun og rasismi eru pottþéttar upphrópanir, það dettur engum nema hálfvitum í hug að mæla þeim bót. Og það alveg burtséð frá því að við líðum alls kyns grá svæði í báðum geirum meira og minna möglunarlaust – og dugir að nefna útlendingastofnun annars vegar og meiðyrðalöggjöfina hins vegar.

* * *

Maður getur verið mótfallinn einhverju án þess að maður vilji banna það. Manni getur fundist það andskotans dónaskapur að uppnefna útlendinga eða fólk af öðrum kynþáttum, konur eða börn eða karla eða hvern sem er, en maður vill kannski samt ekki að það sé hægt að refsa fólki fyrir að vera fávitar. Og það jafnt þótt við gerum okkur grein fyrir því að dónaskapurinn getur verið verulega særandi, hann getur valdið fólki ægilegri sálarkröm. Sumt fólk er líklegt til þess að komast aldrei yfir ítrekaðan dónaskap af hálfu annarra. Sumir þurfa að lifa við það dag hvern að vera demóníseraðir – að heilu og hálfu flugvélarnar bresti út í svitakasti þegar maður stígur um borð. Og manni getur fundist það asnalegt, manni getur fundist það helvítis fávitaskapur að uppnefna þá sem eru í þeirri stöðu. Það er ekki samasemmerki milli þess að gagnrýna eitthvað og að þagga það niður, krefjast ritskoðunar eða opinberrar afsökunarbeiðni.

* * *

Maður getur talið öðru mikilvægara að standa vörð um tjáningarfrelsið án þess að maður sé endilega sammála öllu sem sagt er alls staðar í heiminum. Manni getur þótt mikilvægt að rétta einhverjum hjálparhönd sem heldur fram einhverri djöfuls vitleysu, vegna þess að manni finnst að fólk eigi að mega það – og manni þætti sjálfum vænt um að einhver kæmi manni til sjálfum til varnar ef maður vildi segja einhverja djöfuls vitleysu. Því sannleikurinn verður til á sama stað og lygin. Á sama stað og einhver djöfuls vitleysa.

* * *

Ef manni finnst það sem sagt er vera fullkomin fjarstæða er ágætt að reyna að gera sér í hugarlund hvers vegna því er haldið fram – hvernig manneskjan hafi komist að þessari niðurstöðu um veröldina. Telji maður næsta víst að mannvonska eða heimska sé að verki þá er hollast að byrja aftur upp á nýtt, því raunveruleg mannvonska og heimska eru miklu sjaldgæfari en flestir halda.

* * *

F. Scott Fitzgerald sagði að það væri merki um fyrsta flokks greind að geta geymt í huga sér tvær andstæðar hugmyndir samtímis án þess að missa hreinlega getuna til þess að hugsa eða starfa.

* * *

Það áhugaverðasta við múhameðsteikningamálið, svona löngu eftirá, er að jafn fáir skuli bæði hafa reynst færir um að halda með tjáningarfrelsinu og vera á móti kynþáttahatri og raun bar vitni. Og það þrátt fyrir að margir æðislegustu hugsuðir heimsins hefðu blandað sér í samræðuna. Samt var þar alls ekki um andstæðar hugmyndir að ræða, heldur tvær hugmyndir sem teflt var saman líkt og um andstæður væri að ræða. Og svo gott sem allir sem tóku þátt í samræðunni urðu fyrirfram gröfnum farveginum að bráð. Annað hvort varstu ein tegund af fasista eða önnur tegund af fasista – það var ekkert annað í boði.

 

Áttatíu: Önnur birtingarmynd skáldsögu

April 16, 2012 in Illska, Uncategorized

Sjötíuogníu: Róttækni og öfgar

April 3, 2012 in Illska, Uncategorized

Öll hugtök eiga sér fleiri en eina „raunverulega“ merkingu. Það sem þú segir er ekki endilega alltaf það sama og aðrir heyra – og það sem skiptir máli eru yfirleitt ekki orðin sjálf heldur samhengið sem þau falla í. Samskipti eru samkomulag – ég reyni að segja eitthvað svo að þú skiljir og þú reynir að skilja hvað ég er að meina. Ef það gengur illa útskýrum við frekar. Tölum saman. Rekjum sundur þræðina. Endurtökum. Að hanga á orðunum einum – og hunsa samhengið – er einmitt það sem er kallað „orðhengilsháttur“. Þannig þýðir til dæmis orðið „sósíalisti“ ekki það sama í félagsfræðiritgerð, í grein á Smugunni, í Le Monde, í kjallara í Fréttablaðinu eða leiðara í Morgunblaðinu. Guð einn veit hvað það þýðir í Kína.

Fyrir utan hugtakið „femínisti“ – sem flestir andstæðingar og fylgismenn virðast hafa sæst á að þýði „manneskja sem hefur áttað sig á því að jafnrétti kynjanna er ekki náð og vill gera eitthvað til að breyta því“, þótt túlkunin á „jafnrétti“ og „eitthvað“ sé langt í frá hin sama – nú gæti einhver hváð og sagt að andstæðingar femínista gætu aldrei verið sammála þessu, og það er kannski ekki alveg svart-hvítt, en ég bendi á máli mínu til stuðnings að flestir „and-femínistar“ (sem þeir eru held ég ekki) hafa skilgreint knúzfeminismann (eða hvað maður á að kalla íslenska meginstrauminn) sem eitthvað annað en eiginlegan femínisma, sem dólgafemínisma, búrkufemínisma, rétttrúnaðarfemínisma, nærbuxnafemínisma o.s.frv., yfirleitt, að ég held, vegna þess að fólk vill ekki setja sig upp á móti femínismanum sem slíkum, að minnsta kosti ekki einsog hann birtist í þessari einföldu skilgreiningu (sem er í sjálfu sér ágæt, þótt hún beri líka keim af flokksstefnuskrám þar sem lofað er að „styrkja velferðakerfið“ og „efla menntun“ – og er altso þess eðlis að það er eiginlega ekki hægt að hafna henni, nema maður ætli að stíga út fyrir ramma almenns velsæmis og mennsku).

En sem sagt. Byrjum upp á nýtt. Fyrir utan hugtakið femínisti eru fá hugtök sem skjóta upp kollinum jafn oft og „öfgar“ og „róttækni“ (og mjög oft einmitt í sambandi við femínisma). Og án þess að ég vilji beinlínis hlutast til um það hvernig fólk notar tungumálið sitt þá finnst mér áhugavert að þessi tvö orð virðast hálfvegis komin í graut. Sá sem er öfgafullur er róttækur og sá sem er róttækur er öfgafullur. Munurinn virðist fyrst og fremst felast í því hvort sá sem mælir er í einu liðinu eða hinu. Ég er róttækur, þú ert öfgafullur, en við erum eins.

En það er sem sagt alls ekki minn skilningur.

Mín innri orðabók skilur orðið „róttækur“ mjög bókstaflega – það sé sá sem ætli að leysa vandamál frá rótinni en ekki bara að fást við einkenni vandamálsins. Það er svona einsog munurinn á að ætla að laga bakverk með því að taka verkjalyf annars vegar og fara í líkamsrækt hins vegar. Það þarf ekki að vera neitt öfgafullt við róttækar aðgerðir, þær geta þvert á móti verið fullkomlega hófsamar.

Orðið „öfgafullur“ er síðan, að mér heyrist, orðið að hálfgerðu samheiti við „vondur“ – svona einsog „fasisti“. Mín innri orðabók skilur það hins vegar nær því að „taka of djúpt í árinni“, bregðast harkalega við og af mikilli festu – líklega óþarflega mikilli festu. Öfgar eru oft skiljanlegar, og næstum því alltaf – sá sem skilur ekki að aðrir reiðist, þeim sárni, og þeir bregðist við með óþarflega mikilli heift, býr líklega sjálfur við meira jafnaðargeð en flestir (og má vera þakklátur fyrir). En heiftin getur líka orðið sjúkdómur, hún getur kraumað undir friðsemdaryfirborði árum og áratugum saman, án þess að sá sem lifir við hana verði þess einu sinni almennilega var nema þegar hann er ertur. Þannig er til dæmis langræknin.

En öfgar geta líka verið taktísk viðbrögð. Að sjokkera til þess að ná áhrifum. Þannig held ég að það sé alveg rétt að það hafi verið öfgar af Hildi Lilliendahl að setja fræga karla með væg ummæli í albúmið sitt eða tala um hatur í titlinum – mig minnir að hún hafi sjálf borið fyrir sig praktískar ástæður frekar en sanngirnis aðspurð einhvers staðar – en það er ekki endilega vont fyrir það. Öfgar eru ekki það sama og illska (þótt þær GETI falið hana í sér). Þegar talað er um að tilgangurinn helgi eða helgi ekki meðalið þá verður að taka með í reikninginn hver tilgangurinn er og hvert meðalið er. Sá sem er ekki mótfallinn því að krabbameinssjúklingar undirgangist geislameðferð skilur að í vissum tilfellum helgar tilgangurinn meðalið. Sá sem er ekki mótfallinn því að geðsjúklingar, sem öðrum stafar hætta af, séu læstir inni, skilur að í vissum tilfellum helgar tilgangurinn meðalið. En það er auðvitað ekki þar með sagt að maður vilji að lögreglan taki fólk af lífi fyrir hraðakstur. Sá tilgangur helgar ekki meðalið. Öfgar birtast ekki bara í aftökum án dóms og laga – þær birtast líka í geislameðferðum, fangelsunum og svo framvegis.

Öfgar eru ekki góðar í sjálfum sér – ég held meira að segja að afleiðingar þeirra séu yfirleitt í verri kantinum. Það er svo sannarlega oft fyrir þeirra sakir sem pólitíkin bregst – þær eiga bæði þriðja ríkið, kapítalismann og sovétríkin tiltölulega skuldlaust. En þær eru ekki heldur vondar í sjálfum sér. Þær eru fyrst og fremst kraftmikil viðbrögð sem fela í sér nokkurn skaða – hvort sá skaði er síðan ásættanlegur fer eftir því hversu mikill hann er og hver tilgangurinn er. Líklega er síðasti þröskuldurinn (fyrir mína parta) einhvers konar mannhelgi – við fórnum ekki lífum fólks, heilsu þeirra eða mannorði, í (svo gott sem) neinum tilgangi. (Og með mannorði meina ég ekki að maður megi ekki segja að einhver sé fífl, ekki frekar en ég meina með „heilsu“ að maður megi ekki reykja úti á götu eða keyra bíl nálægt mannabyggðum).

Öfgar eru ekkert alltaf róttækar. Þær geta þvert á móti verið mjög yfirborðskenndar og eru það oft í pólitíska samhenginu – þeim er enda ætlað að hreyfa við hlutunum, vekja athygli á sjúkdómnum frekar en að lækna hann endanlega. Í karlar-sem-hata-konur dæminu þá er kannski einmitt hægt að sjá hvernig öfgarnar (lági þröskuldurinn fyrir frægukallana og orðalagið – og jafnvel bara nafnbirtingin öll) gerðu það að verkum að albúmið hlaut vissa athygli sem það hefði ekki fengið annars, en sem flæktist síðan fyrir umræðunni í kjölfarið, sem snerist (kannski eðlilega) um aðferðirnar sem beitt var frekar en ábendinguna sjálfa. Ég get alveg ímyndað mér að umræðan hefði sótt meira á djúpið, verið sanngjarnari og nýtilegri, ef að meiri sanngirni hefði verið beitt, meiri distans og minni persónulegheitum – en hún hefði verið miklu lágværari og færri tekið þátt í henni. Þannig má kannski segja að öfgarnar hafi að nokkru leyti staðið róttækninni fyrir þrifum.

Þetta er veruleikinn sem er sjúkur í persónuleikafréttir og uppslátt. Og veruleikinn sem matar sjálfan sig sífellt á persónuleikafréttum og uppslætti. Og það er alltaf af praktískum ástæðum. Til þess að í manni heyrist í öllum hávaðanum.

Það má kannski samt líka spegla þetta í afsökunum Sölva Tryggvasonar sem bloggaði einhvern tíma um að það nennti enginn að horfa á vönduðu úttektirnar hans úr fjármálaheiminum – fólk vildi bara viðtöl við Jón stóra og Hildi Líf og engar refjar (ég man ekki hvað hann sagði nákvæmlega en ég held að þetta hafi verið megininntakið). Og kannski almennt baráttuna um að segja eitthvað af viti versus að ná til sem flestra – sem er ekki síst aktúel í bókmenntaheiminum. Það fer ekki endilega vel saman, en það getur farið saman í einhverjum fáeinum kraftaverkatilvikum. Ekki það, ég veit ekki hvort það er ástæða til þess að kalla metsöluhöfunda öfgafulla. Þeir eru yfirleitt frekar íhaldssamir og trúir reglunum, held ég. Nema Margit Sandemo, skilst mér, hún er víst alveg snar. En ég á hana alveg eftir.

Fyrst og fremst er kannski áberandi samt – á síðustu misserum – hversu mikið orð eru notuð til að dæma frekar en lýsa, benda frekar en útskýra. Og þá skipta núansar auðvitað engu máli. Þá er allt tungumálið smættað niður í tvö orð: þú-ert-góður og þú-ert-vondur.

Ég póstaði þessu fyrst á „venjulega“ bloggið mitt en áttaði mig síðan á því að þetta ætti kannski líka/betur heima hérna.

Sjötíuogátta: Tralli og vettlingurinn sem sprakk

March 14, 2012 in Illska, Uncategorized

Ég man ekki hvað bókin heitir – þetta er að minnir mig upprunalega úkraínskt ævintýri sem ég las á sænsku fyrir Aram þegar hann var mjög lítill. Og fjallar um vettling sem lítill drengur týnir úti í skógi. Það er skítaveður og mús nokkur leitar skjóls í vettlingnum. Síðan kemur héri og fær líka að hlýja sér – enda alltaf hægt að gera pláss fyrir þá sem eru þurfi. Þá íkorni, broddgöltur, kanína, dádýr og skógarbjörn (ég man ekki nákvæmlega hvaða dýr þetta voru eða í hvaða röð, en þið skiljið vonandi samt söguþráðinn). Loks kemur oggupínuponsulítill maur og þá rifnar vettlingurinn í tætlur og allir enda úti í kuldanum. Drengurinn kemur og finnur vettlinginn sinn – eða tægjurnar af honum – og veltir því fyrir sér hvað hafi gerst. THE END.

Þessi söguþráður truflaði mig alltaf og ég held ég hafi ekki lesið þessa bók nema tvisvar. Boðskapurinn er í jákvæða skilningnum sá að maður eigi ekki að færast of mikið í fang því þá sé hætt við að allt fari úrskeiðis. En í neikvæða skilningnum – sem mér finnst liggja beinar við – þá er þetta réttlæting á því að gera ekki neitt fyrir neinn vegna þess að maður geti það hvort eð er ekki. Svona. Þið vitið: Það eru 90 milljón flóttamenn í heiminum sem hafa ekki aðgang að hreinu vatni eða fæðu eða skjóli – en ef við færum að búa um þá á sófanum hjá okkur hérna í allsnægtunum þá myndu þeir sjálfsagt bara nauðga okkur / éta okkur út á gaddinn / valda hruni og kreppu / eða jafnvel varða þess valdandi að rasistum yxi fiskur um hrygg / og valda „menningarlegum árekstrum“.

Nú er ágætt að ég taki fram að ég held það sé full ástæða til þess að hlusta á fólk sem er óttaslegið vegna þeirra breytinga sem eiga sér stað á samfélaginu – hvort sem þar er um að ræða alþjóðavæðingu eða upplýsingafrelsi – sá ótti er raunverulegur og í seinni tíð hef ég beinlínis fengið andstyggð á öllum pólaríserandi popúlisma (og það jafnt þótt ég hafi ítrekað gerst sekur um hann í þátíðinni): það er afskaplega lítið gagn í því að segja fólki að það sé hálfvitar og vonast til þess að það hætti að vera hálfvitar. Það er raunar afskaplega lítið gagn í því að afskrifa aðra sem ýmist vitlausa eða vonda. Því jafnvel þótt það væri satt þá verður samt að vera hægt að tala við þá – nema maður ætli sér beinlínis að uppræta þá með kynbótum. Og ytri mörk hinnar pólitísku miðju – þ.e. þess sem kemst í blöðin og er tekið alvarlega – eru löngu hætt að koma mér á óvart.

En þetta eru framhjáhlaup. Ég var að ræða bókina um vettlinginn. Hún kom upp í hugann aftur í morgun vegna þess að ég var að ræða við Nödju um bókina Tralli eftir sænska rithöfundinn Viktor Mall – sem við eigum í „endursögn“ Vilbergs Júlíussonar (ég hefði raunar faglegan áhuga á að sjá orginalinn, þótt ekki væri nema til að átta mig betur á muninum á endursögn og þýðingu – hversu langt er skriðið frá frumtextanum). Bókin fjallar um grænlenska jarðálfinn Tralla sem er ofsa þreyttur og sofnar á ísjakanum sínum og ísjakann rekur lengst suður í höf á meðan Tralli sefur – eftir því sem hitnar bráðnar ísjakinn og Tralli sekkur sofandi ofan í sjóinn þar sem hvalur gleypir hann. Hvalurinn fær nóg af hrotunum í Tralla og hnerrar honum út þar sem honum skolar upp á eyju. Á eyjunni býr fjölskylda – kóngur, drottning og kóngsdóttir – og þau skoða Tralla og toga í rófuna á honum og finnst hann í hæsta máta furðuleg vera. Þegar hann svo vaknar, ægilega reiður að láta fara svona með sig, flýja kóngurinn og drottningin, en kóngsdóttirin er ekkert hrædd heldur vingast við Tralla. Þau verða mestu mátar, leika sér allan daginn í höfrungastökki og alls kyns sprelli, áður en þau fara svo að sofa til þess eins að eiga orku til að leika næsta dag líka.

Alla vega. Hér gæti maður sagt sem svo að boðskapurinn sé að maður eigi ekki og þurfi ekki að óttast ókunnuga, langtaðkomna útlendinga – að „menningarlegir árekstrar“ eigi ekki að þurfa að vera miklir, enda viljum við flest bara leika okkur og hafa það gott. Þarna er líka dálítið skot á eldri kynslóðina sem óttast – eiga erfiðara með að díla við breytingarnar (á einni nóttu verður fjórðungur íbúa suðurhafseyjunnar norrænir púkar) á meðan þau sem yngri eru, þau sem hafa ekki enn skapað sér venjur og rist hugmyndir sínar um heiminn í stein, taka ekki bara því sem verða vill heldur eru fær um að njóta þess. Það þarf hvorki að vera trámatískt að koma í nýjan menningarheim eða að aðrir komi inn í manns eigin menningarheim.


Síðan flækjast málin við að kóngurinn er negrakóngur, drottningin negradrottning og kóngsdóttirin negrakóngsdóttir. Myndirnar eru til þess að gera klassískar „golliwog“ myndir. Þetta eru suðurhafsfrumbyggjar. Í sjálfu sér eru myndirnar ekki „rasískar“ – það er ekkert við þær per se sem skilur þær að frá þeim afmyndunum sem eiga sér stað almennt í teiknimyndum. Hvíti strákurinn Stubbur – úr sama bókaflokki – er ekki „nær“ því að líta út „einsog“ hvítur strákur en konungsfjölskyldan er því að líta út „einsog“ suðurhafsfrumbyggjar á eyðieyju. Þetta eru afskræmingar – en það eru teikningar eiginlega alltaf (í gær hlustaði ég á viðtal við Art Spiegelman, sem skrifaði Maus, þar sem hann benti á að á meðan teikning af Betty Boop væri eðlileg og kynþokkafull yrði teikning af Angelinu Jolie aldrei annað en ankannaleg – samt er Betty Boop afskræmingin á meðan teikningin af Angelinu „líkir eftir“ raunveruleikanum).


En þessar teikningar verða líklega seint – ef þá nokkurn tíma – aðskildar frá rasískum bakgrunni sínum, þær tilheyra í einhverjum skilningi kúltúr sem gerði lítið úr svörtu fólki og hafði fyrir þræla og sá kúltúr bergmálar ekki bara í sakleysislegum referensum á borð við svona teikningar (og notkun orða einsog „negri“) heldur líka í efnahagslegri og félagslegri stöðu svartra glóbalt annars vegar og í tilteknum samfélögum hins vegar. Það er bara staðreynd, hvað sem maður ætlar svo að gera við þá staðreynd.

Þá er líka ágætt að hafa í huga að öll tjáning er líka einhvers konar samkomulagsatriði milli þess sem talar og hins sem hlustar. Það að þér finnist ég móðga þig er ekki það sama og ég sé að (reyna að) móðga þig. Merking skapast fyrst og fremst milli fólks – en ekki bara hjá viðtakandanum eða bara hjá sendandanum. Og ég held að það sé mikilvægt að láta ekki einsog hér sé um illvirki að ræða – eða einu sinni sakleysislega fyrirlitningu. Það er þvert á móti alveg hugsanlegt að það hafi engin fyrirlitning verið send af stað, þrátt fyrir að hún hafi borist til margra. Í samfélagslegum skilningi er það einhvers konar kommúnal fagurfræðileg ákvörðun að eitt sé óásættanlegt en annað ekki – að golliwog brúður séu yfir strikið en Uncle Ben’s Rice séu það ekki.

Í grunninn er boðskapurinn í Tralla einfaldlega jákvæður og fallegur, þótt orðanotkunin og myndastíllinn sé „óheppilegur“ – og langtum fallegri og jákvæðari en í sögunni um vettlinginn eða bara til dæmis Ljóta andarunganum (sem finnur enga hamingju fyrren hann kemur til „sinna eigin“) eða öllum þeim ótal barnabókum sem smætta kvenkyns persónur sínar í klappstýrur atburðarásarinnar, sem kemur þeim annars lítið við.

Þetta þýðir ekki að það sé alltaf hægt að kenna þeim sem móðgast um að hann móðgist – en það er heldur ekki alltaf hægt að kenna þeim sem móðgar um að hinn móðgist. Þetta er einn af ótal ófullkomleikum tungumálsins – og líklega bæði stærsti galli þess og kostur. Við skiljumst aldrei nákvæmlega frekar en við skiljum nákvæmlega og í því felst bæði hryllileg noja og afdrep fyrir undanbrögð – en líka möguleikar á annars konar yfirskilvitlegri snertingu milli mannvera, sála, hugsana, sem ég held að væri óhugsandi ef tungumálið tjáði fullkomnar hugsanir án þess að nokkurrar túlkunar væri þörf. Ef nauðsynlega þarf að skera úr um hvort móðgun hafi átt sér stað er síðan líklega skömminni skárri að sá sem særist fái að ráða því – en það er líka best að halda slíkum úrskurðum í algeru lágmarki, enda myndi það sem grunnregla fela í sér möguleikann á nýju og yfirgengilegra einelti. Allur versti yfirgangur heimsins, frá nasistum til bandarískra hernaðarafskipta til hryðjuverkamanna til afskipta Ísraelsríkis af Palestínu, hefur verið framinn í nafni hins réttláta fórnarlambs sem rís á fætur og „neyðist“ til að fella kúgara sinn. Ef menn fengju – sem prinsipp – algert sjálfdæmi í því hvort þeim hefði verið gert eitthvað þarf varla að spyrja að afleiðingunum.

Það eru til kenningar um valdastrúktúr þar sem því er haldið fram að það verði að fara „mýkri“ höndum um þá sem standa utan valdsins – fyrir sakir demógrafíu frekar en eigindlegs raunveruleika (þá bjargar það manni ekki að vera hvítt hyski, til dæmis, því maður er samt hvítur). En það er hætt við að slík skipting í þá sem má gera gys að eða afskræma og hina sem má ekki veita sömu meðferð, skapi hliðarstétt sem verði á einhvern furðulega hátt eilíflega út undan fyrir sakir þess hve valdastéttinni (þ.e.a.s. velmeinandi hvíta valdafólksins sem ákveður svona hluti) er annt um þá. Þetta vandamál kom meðal annars upp í umræðunni um múhameðsteikningarnar um árið – og jafnvel í Karlar hata konur málinu nú nýverið. Og getur verið bæði – það getur bæði þurft að veita fólki ólíka meðferð eftir demógrafískri stöðu og haft hryllilegar aukaverkanir á stöðu þeirra að það fái ólíka meðferð (sem verður þá að lækna með einhverjum öðrum lyfjum).

Altso: Ef niðurstaðan verður sú að það er talað illa um alla nema þig – í gamni og/eða alvöru – þá verður það hugsanlega til þess að undirstrika hversu utanveltu þú ert í raun og veru og hvernig þú færð aldrei að vera sentral. Þetta er það sem heitir patróníserandi umhyggja. Og hún birtist líka á hinn veginn, sem yfirdrifinn áhugi á að sannfæra mann um eigin ágæti. Þegar ég var í óléttuhópnum í Svíþjóð sagði hjúkrunarfræðingurinn okkur strákunum tíu þúsund sinnum á dag að við værum mjög, afar, fjarska, afskaplega mikilvægir í þessu öllu saman og við mættum ekki gleyma því. Mér hafði satt best að segja aldrei komið það til hugar að ég væri það ekki og þessi sannfæringarkraftur konunnar hafði einungis þau áhrif að fá mig til að efast – mér fannst einsog að þetta gæti ekki verið satt, fyrst hún fann hjá sér þörf til að ítreka það svona oft. Áróðurinn hlýtur alltaf að vera lygi. Mér verður stundum hugsað til þessa þegar ég sé hin og þessi samfélagslegu átök fara í gang – hvort sem það eru átök sem eiga að fá drengi til að elska bækur eða stelpur til að spila í rokkhljómsveitum. Kannski er það mótþróaröskunin í mér, en hún er ábyggilega líka víða. Ef ég væri kona myndi það ábyggilega hvarfla að mér í hvert einasta skipti sem ég væri beðinn um að gera eitthvað í hóp – birta ljóð í tímariti, skrifa grein í blað, o.s.frv. – að það væri bara til þess að laga kynjakvótann.

Það breytir aftur voðalega litlu um að líklega er mikilvægt að strákar lesi bækur og stelpur spili rokktónlist – og mikilvægast að fólk fái að dafna á eigin forsendum, að eins miklu leyti og það er yfir höfuð hægt.

Allavega. Voðalega getur maður farið út um allar trissur.

Ég segi aldrei negri þegar ég les bókina fyrir Aram. Enda alveg nóg að segja að þau séu kóngafjölskylda. Nú er reyndar svo komið að Aram fyrtist við þegar ég kalla kóngsdótturina í Stígvélaða kettinum kóngsdóttur – honum finnst hún ekkert líta út einsog kóngsdóttir (í öllum öðrum bókum sem hann á eru þessar verur kallaðar prinsessur). En ég velti því samt fyrir mér hvort ég eigi að lesa Tralla – mér finnst bókin bæði skemmtileg og boðskapurinn góður, myndirnar einfaldar en fallegar, þrátt fyrir allt annað. Og það er kannski líka aðalatriðið. En maður er náttúrulega ekki með pólitískan rétttrúnað í hjartastað til einskis. Ég ætti náttúrulega að vera löngu búinn að brenna helvítið. Ég sem froðufelldi yfir endurútgáfu Negrastrákana og Múhameðsteikningunum í Jyllandsposten. Þetta er ábyggilega einhvers konar yfirsjón. Linkind. Heimilið ætti að ráða sér móralskan stalínista í hlutastarf til þess að hreinsa svona viðbjóð út og láta heimilismenn heyra það þegar þeir halda að það megi vera undantekningar.

Sjötíuogsjö: Það er ekki að fara að hefjast neitt stríð

March 1, 2012 in Illska, Uncategorized

Þetta rann upp fyrir mér í dag einhvern tíma þar sem ég þrammaði í gegnum frostið á leiðinni upp í háskóla, þennan þarna háskóla sem fann upp irkið, og ég ætti kannski að taka það fram að ég meina ekkert sérstakt með þessu. En sem sagt, þetta ljóð, ég fékk dálítið bágt fyrir það frá „femínistum“, árið 2003, eftir upplestur á Grand Rokk og svo síðar þegar ég las upp fyrir karlhóp feminístafélagsins í Skífunni, líklega hefur það verið á menningarnótt. Og tók mjög nærri mér enda hafði mér aldrei dottið í hug áður að nokkur maður væri með svo yfirgengilegt ímyndunarafl að halda að ég væri ekki femínisti. Og tók nærri mér bókstafsskilning á orðum, að einhver skildi efast svo mikið um mig að sjá ekki orðalögin, merkingarheimana, uppkokkeríið, árekstrana. Að ljóðmælendur væru allir alltaf ég. Og þetta er hvorki meint sem meðmæli með Hildi (sem ég get reyndar alveg mælt með annars, hún er fín) né einhver krítík á framtakið hennar, nú eða fyrr eða í nokkrum málum. Ég bara mundi þetta alltíeinu og langaði að deila því með einhverjum. Og ljóðið finnst mér ennþá gott sjálfum og kannski bara betra en það var, vegna þess að nú, annað en þá, minnir það mig líka á mann sem ég þekkti og kann betur við nú en þegar ég var hann. Einu sinni voru öll blogg persónuleg. Þetta er svona persónulegt blogg – þótt það fjalli auðvitað um pólitískar bókmenntir einsog allt annað hér inni (þótt það fari kannski framhjá sumum stundum, fari jafnvel framhjá mér stundum).

—-

Það er ekki að fara að hefjast stríð

Hér er verkefni fyrir gáfaðri mann.

Maður minn! Pólitíkin!

Ég hef loks afráðið að segja eitthvað sem skiptir máli.

En fyrst verð ég að hætta að góna á afgreiðslustúlkur.

Það verður ekkert vont í þessu ljóði.

Það verður ekkert vont í þessu ljóði

(maður á aldrei að endurtaka sjálfan sig,
nema maður hafi einhverju við að bæta)

Það vont ekkert ljóði í verður þessu.

Sá sem á síðasta orðið, hefur alltaf rétt fyrir sér.

George W. Bush er frankenluðra (og pólitíkin flýtur með).

Ég er enginn helvítis einfrumungur.

Ég er ekkert lamb!

Ég hef sál!

The real american taste…

Oder

Ísland ögrum skorið

Es ist mir ein Wurst!

Ég ber á brjóstum slorið

úr tíu þúsund frystihúsum og hverju einasta útfluttu þorskígildistonni

en hverjum er ekki sama um mat?

Þegar maður á Menningu! (he he he)

Þegar maður á starspangled-lopahúfu og vel útilátinn gamlan og góðan golþorsk!

The best blend that can be made

Stanz!

Ég er hættur að góna á afgreiðslustúlkur.

Ég er hættur að góna á afgreiðslustúlkur.

Best að vinda sér í að segja það sem skiptir máli, í kosmísku samhengi allra hluta. Hér verður einungis drepið á fullkomnum alhæfingum.

Í venjulegum hljómi eru sömu nóturnar iðulega endurteknar, í öðrum áttundum.

Það er ekki að fara að hefjast stríð.

Hafi allir hljómar verið spilaðir, fýsir menn eins og mig að lýsa frati í hljóma, og spila þess í stað línulega uppraðaðar kombinasjónir nótna. En svo er það alltsaman vitlaust hugsað hjá okkur. Hljómarnir sem birtast oftast, gera það vegna þess að tónlistinni er eðlilegt að besta sig.

I saw the best minds of my…

Ég er koverlagaskáld. Skrifa ljóð eftir aðra. Það er ekki vegna þess ég sé lélegt skáld, því fer fjarri. Það er vegna þess að ég er ekki besta skáldið, og bestu ljóðin hafa þegar verið ort (nú má vel vera að betri ljóð verði einhverntímann skrifuð, en ég skrifa þau þá bara líka).

Það er ekki að fara að hefjast stríð.

Ég er enginn helvítis einfrumungur.

The real american taste?

Ég er með typpi þakka þér kærlega fyrir þarna hóran þín!
Ó hver hlustar á eintal sálar? Hversu hátt bergmálar ekki í nafla mannsins? Hversu langt er í að naflinn svari fyrir sig, allri þessari óáran sem ég dæli í og úr honum? Segi hingað og ekki lengra vinur, þetta gengur engan veginn, ég er ekki hér til að veita þér fróun! Ég er hér til að safna ló, og til einskis annars. Hættu þessu og láttu mig í friði.
Bíðið, ég missti mig aftur í afgreiðslustúlkurnar. Það var í alvörunni ekki viljandi.
Nafli mannsins hefur talað.

Jæja. Þú ert nú staddur/stödd á mínum forsendum. Hér gilda ekki beinlínis reglur en þér er best að gera eins og ég segi.

Á morgun fæ ég mér kannski í tánna og skýt mig í fótinn.

Örstutt um annað sem máli skiptir:

Ég held einlægnin geti aldrei risið upp gegn kaldhæðninni. Ég held hinsvegar að kaldhæðnin geti risið upp gegn kaldhæðninni, og orðið sér báðum að falli. Svona eins og ef ég myndi segja: “Nú? Aldeilis þú ert kaldhæðinn!”

Akkúrat! Var ekki einhver að tala um að hafa sál? Hann vill kannski aðeins passa sig á að fullyrða ekki um hluti sem hann kannski bara veit voða lítið um, ha? Fúkyrða um hluti. Akkúrat!

Bölvaður sé þessi kaldhæðni djöfull.

Nútíma-bíbopp er samansett af fyrirfram ákveðnum likkum. Þess vegna er það ekki frjórra en t.d. ljóðagerð. Bara stagl. Þó næturgalarnir þagni annað veifið, þá byrja þeir undantekningarlaust aftur síðar. Ekkert hverfur. Ég veit ég er ekki einn um að finnast skrítið að kristni og Dresden séu enn til staðar, þó borgin hafi verið jöfnuð við jörðu, og hvárir tveggja sonurinn og faðirinn steindrepnir og hæddir. Enn eru til menn sem yrkja sonnettur.

Jæja. Tökum þankapásu. Sjáum hvort nokkuð af þessu gengur upp. Í mér búa mergðir… Ég er aldrei í mótsögn við sjálfan mig, ekki beinlínis. Ég er einungis fær um að segja eitt í einu.

Ég skal viðurkenna að það getur verið að hún sé drusla, en hún er í það minnsta sæt og nennir að tala við mig. Auk þess viðurkenndi hún fyrir mér að hún væri drusla. En þú ert nú barasta líka drusla, svo þú skalt kannski bara aðeins passa þig svolítið og líta í kringum þig til að sjá hvort ekki hrynja yfir þig glerveggir þegar þú talar. Ég meina þetta ekkert illa, ég meina þetta rosalega vel, en bara passaðu þig aðeins, ha? Annars verð ég bara fokkins brjálaður. Skilurðu hvað ég er að fara?

Það er ekki að fara að hefjast neitt stríð.

Hvernig fer maður eiginlega að því að bera upp tillögu við vini sína, hvort hann (ég) (þeir) ættu/i að hópnauðga einhverjum? Hvernig ýjar maður að slíku? Með þessum orðum er ég ekki að segja að mig fýsi að hópnauðga einhverjum, en það er ekki laust við að hugmyndin komi upp annað veifið.

Einhverstaðar lofaði ég að yrkja bara um pólitík.

Örstutt um pólitík:

Ég hef rétt í þessu frétt að bandarísk yfirvöld gerir efnavopnatilraunir á lifandi fólki.

Ég læt ykkur um að álykta hvort umrætt lifandi fólk eru arabískir hryðjuverkamenn á Guantanamo, eða sárfátækir ólöglegir innflytjendur, eða svona líka rosalega þjóðernissinnaðir ameríkanar. Það út af fyrir sig skiptir ekki höfuðmáli.

Örstutt.

Blár heiður himinn (það er ekki að fara að hefjast stríð)

Höfug næturþögn (það er ekki að fara að hefjast stríð)

Skattalækkanir (það er ekki að fara að hefjast stríð)

Þjóðhátíðardagar ýmissa landa (það er ekki að fara að hefjast stríð)

Sandkassasigti (það er ekki að fara að hefjast stríð)

Blár heiður himinn (það er ekki að fara að hefjast stríð)

Sólarupprás séð í eyðimörk (það er ekki að fara að hefjast stríð)

Logn og spegilslétt malbikið í snjólausri vetrarstillu (það er ekki að fara að hefjast stríð)

Kosningakaffi og kökuát og gáfulegar samræður um allt sem skiptir máli (það er ekki að fara að hefjast stríð)

Rússar með mikla peninga káfa á brjóstum og læra að haga sér (það er ekki að fara að hefjast stríð)

Brosið til forsætisráðherra, hann á svolítið bágt (það er ekki að fara að hefjast stríð)

Konur brenna brjóstahöld sín og þurfa þess vegna fáeinum árum seinna að fá sér ígræðslu til að halda geirvörtunum uppi (það er ekki að fara að hefjast stríð)

Svo er alltaf vorið (það er ekki að fara að hefjast stríð)

Það má lifa af við furðulegustu aðstæður, og ef maður heldur vel á spöðunum má jafnvel græða á þeim (það er ekki að fara að hefjast stríð)

Í fullkomnum heimi neyðist enginn til að hugsa um pólitík, í framtíðinni verða fulltrúar okkar á þingi kosnir til hundruða ára í senn (það er ekki að fara að hefjast stríð)

Að lemja mann af öllu afli í hausinn er ekki bara kjánalegt, það er líka íþrótt (það er ekki að fara að hefjast stríð)

Hafnfirðingur gekk inn á bar …

(það er ekki)

[hóst!]

Nákvæmlega!

BLÓÐTAUMAR STRÍÐBLÓMA BERJANDI BOMBUSLÁTTUR TRAPÍSUR OG BYSSUSTINGIR OG LÍTTU EKKI UNDAN ÞEGAR ÉG ER AÐ DEYJA VIÐ ÞIG – LÁTTU EKKI EINS OG ÉG SÉ MÓÐIR ÞÍN MÓÐURMÓÐIR ÞÍN – ÞÚ SKALT GERA EINS OG ÉG SEGI ÞÉR OG SNÝTA ÞÉR Í TÓMAR ERMAR FYRIR FÓSTURJÖRÐINA MÓÐURJÖRÐINA MÓÐURMÓÐURJÖRÐINA VIÐ ERUM UNDIR ÞAÐ BÚIN AÐ STANDA OKKUR/OKKAR PLIGT MEÐ ÖLLUM TILTAKANLEGUM RÁÐUM! BRÁÐUM! ÆTLAR HJARTAÐ ÚT ÚR MÉR OG ÉG Á EKKI VIÐ LÍKAMANN HELDUR FIKTA ÉG VIÐ ANDANN OG VONA BARA AÐ ÞAÐ KOMI ALDREI AFTUR DAGRENNING SVO ÞAÐ KOMIST EKKI UPP AÐ HVAR Í NÓTTINA ÞÚ STAKKST TYPPINU Á ÞÉR – LÁTIÐ EKKI SVONA ÞAÐ ER EKKI AÐ FARA AÐ HEFJAST STRÍÐ SJÁIÐ BARA HVERNIG ALLT DEYR GRÍPIÐ TIL VOPNA EKKI VERA BARNALEGIR ÞETTA STRÍÐ ER EKKI AÐ FARA AÐ GERAST GRÍPIÐ TIL VOPNA ÞETTA STRÍÐ ER FYRIR ÞÁ SEM GRÍPA TIL VOPNA ÞETTA STRÍÐ ER FYRIR ÞJÓÐVERJA SEM GRÍPA TIL VOPNA FRAKKAR ÞETTA STRÍÐ ER FYRIR SPÁNVERJA SEM GRÍPA TIL VOPNA ÞETTA STRÍÐ ER FYRIR GYÐINGA SEM GRÍPA TIL VOPNA SÍGAUNAR GRÍPIÐ TIL VOPNA EKKI VERA BARNALEGIR ARABAR ÞETTA STRÍÐ ER EKKI AÐ GERAST GRÍPIÐ TIL VOPNA FÆREYINGAR OG ÍSLENDINGAR OG LICHTENSTEINAR OG EISTAR OG LETTAR OG LITÁAR OG FINNAR OG DANIR OG NORÐMENN OG SVALBÖRÐUNGAR OG GLEYMUM EKKI SUÐUR-AMERÍKÖNUM OG FIDEL MÁ VERA MEÐ (loksins erum við sammála um eitthvað) ÞAÐ VERÐUR EKKERT BLÓÐ HELDUR EITRAÐASTA SAMSÆTI ÁRÞÚSUNDANNA Í TRYLLTUSTU GLJÚFRUM LANDSINS ÚTVARPIÐ VERÐUR Á STAÐNUM TÍU DANSGÓLF ÞVÍ ÞETTA STRÍÐ ER ALLS EKKI AÐ GERAST OG TUTTUGU PLÖTUSNÚÐAR ÞVÍ ÞETTA STRÍÐ ER ALLS EKKI OG ÖRSTUTT OG WELTSCHMERZ OG ÖRSTUTT OG FLUTT VERÐUR ÖRSTUTT TAUGAVEIKLAÐ ÞJÓÐERNISGAMANMÁL OG BORNAR FRAM ÖRSTUTT FRÍAR VEITINGAR SEM ENGINN FRAMLEIDDI EN RÍKISSTJÓRNIN BLÆÐIR SAMT Í TILEFNI DAGSINS OG HVAÐ GET ÉG SAGT ANNAÐ ÖRSTUTT EN BARA TÖKUM SAMAN HÖNDUM ÞVÍ SAMEINUÐ STÖNDUM VIÐ OG SUNDRUÐ ÞIÐ VITIÐ HVAÐ…

(spurst hefur að með aðstoð ljóss og skugga, megi láta líta svo út sem hlutir hverfi hreinlega af yfirborði jarðar, bara sisona eins og smellt hafi verið fingrum. ég veit ekki hversu mikið er að marka þetta, en hitt er þó víst, að ekki er laust við að mér finnist eitthvað vanta).

Úr bókinni Nihil Obstat (pdf).

Sjötiuogsex: Ég rifja upp eitt og annað um irkið

February 29, 2012 in Illska, Uncategorized

Ég fékk fyrsta lestur í hús á helginni og reif upp bókina strax á mánudag, eftir dálitlar bollaleggingar sunnudag og aðfararnótt mánudags. Í nýjum skrifum skaut irkið upp kollinum. IRC spjall á netinu. 1997. Og ég sat sem sagt á bókasafninu í Ouluháskóla og mundi ekki eitthvað um irkið. Skrifa tölvulaus með penna og slæ upp irkinu á wikipediu í símanum. Til að rifja upp hvað forritin hétu sem maður notaði til að komast á irkið. Og komst þá sem sagt að því að irkið var fundið upp af manni sem heitir Jarkko Oikarinen. Í Ouluháskóla. Þar sem ég sat. Mér leið skyndilega einsog ég gæti fundið fyrir irkeindunum í loftinu. Einsog þær hefðu smogið inn í mig. Og væru að smygla sér út í bókina mína í von um eilíft líf.

Sjötíuogfimm: „Í stríði útdeilir maður orðum“

February 23, 2012 in Illska, Uncategorized

Á síðustu helgi réðst ungur maður inn á pizzeriu í verslunarmiðstöð hér í Oulu og skaut á mennina þrjá sem voru þar inni og síðast sjálfan sig. Einn maðurinn dó strax, annar særðist alvarlega en er ennþá lífs og sá þriðji slapp út ómeiddur. Árásarmaðurinn lést af sárum sínum í vikunni.

Mennirnir þrír voru allir innflytjendur, tveir þeirra frá Marokkó, en ekki hefur komið fram hvaðan sá þriðji er – sá sem slapp við líkamleg meiðsli. Árásarmaðurinn var finnskur og þrátt fyrir að vera ekki nema rétt rúmlega tvítugur átti hann langan og ofbeldisríkan feril og hafði þegar orðið einum öðrum manni að bana og var nýsloppinn úr fangelsi. Samkvæmt lögreglunni var árásin framin í hita leiksins en ekki að yfirveguðu máli og þótt hún útiloki ekki að kynþáttahatur geti verið hluti skýringarinnar, þá vegi aðrar ástæður líklega þyngra.

Einsog ég hef nefnt áður þá finnur maður talsvert fyrir nærveru nýnasista hérna í bænum – meira að segja í háskólanum er nasistakrot víða á veggjum – og stjórnmálamennirnir hérna í bænum, frambjóðendur Hinna sönnu Finna, eru sumir hverjir snargeðveikir kynþáttahatarar og biblíubullarar einsog Perus-Jussi (sjá: Sannastur Finna).

Í vikunni heyrðist síðan í bæjarstjórnarmanninum Tommi Rautio frá Kjulo (sem er bær á stærð við Ísafjörð, norðaustur af Turku). Rautio er meðlimur í Hinum sönnu Finnum og situr í stjórn flokksins í Satakuntahéraði (sem telur tæplega 250 þúsund íbúa). Tommi var eitthvað að tjá sig um kynþáttahatur á Facebook (hann var að halda því fram að hann væri ekki rasisti) og nefndi í framhjáhlaupi að sá sveitungi minn sem bar ábyrgð á áhlaupinu á pizzeriuna ætti að fá orðu. „Við erum í stríði“ skrifaði Rautio. „Í stríði útdeilir maður orðum.“

En auðvitað er hann ekki rasisti. Að vísu hefur formaðurinn, Timo Soini, lagt til að honum verði vísað úr flokknum – og sagt að þetta sé yfir strikið, hann hefur bekennt að þetta sé vissulega rasismi, þótt hið sama gildi reyndar ekki þegar nánasti samstarfsmaður Soinis, Jussi Hallo-aho, aðalmaður flokksins í Helsinki, segist vera í stríði við múslima – því múslimar eru ekki „kynþáttur“ (annað en pizzabakarar).

Og það er sem sagt ekki laust við að maður sé stundum svolítið uggandi um sig og sína – en mest er maður þó uggandi um þetta samfélag. Við getum nefnilega farið en hér þurfa aðrir að búa. Það geta ekki allir farið. Nema þeir geti það. Þá verða þeir bara fjórir eftir, Hallo-aho, Soini, Tommi Rautio og Perus-Jussi. Og þá verður eflaust gaman að vera til.

Sjötíuogfjórir: Hvenær kemur eiginlega að okkur?

February 21, 2012 in Illska, Uncategorized

I – Laun listamanna

Það er fátt í heiminum jafn leiðinlegt og að misskilja aðra, nema ef vera skyldi að misskiljast ítrekað sjálfur. Þess vegna er ástæða til þess að endurtaka þetta, svo allir heyri, einu sinni enn: enginn þeirra sem vill endurskoða hina sífellt umfangsmeiri höfundarréttarlöggjöf; löggjöf sem stangast á við skynsemi, meðalhóf og almannaheill; löggjöf sem notuð er til þess að réttlæta gróf einkalífsbrot ríkis og einkaaðila um allan heim; löggjöf sem sviptir okkur ekki bara aðgengi að þekkingu og listaverkum hverra höfundar og uppgötvendur eru löngu látnir, heldur líka lögvörðum rétti okkar til þess að búa til eintök til einkanota – að ljósrita eigin bækur, svo að segja – eða endurnýta, endursemja og endurlista eldri verk; löggjöf sem beitt hefur verið til þess að leggja líf ótal fólks í rúst í nafni almennrar viðvörunar … enginn þeirra, ekki einn einasti, er á þeirri skoðun að listamenn eigi ekki að fá greitt fyrir list sína eða að þeir eigi að þurfa að standa á betli við fólk úti á götu.

Einu sinni enn: Enginn vill svipta listamenn launum sínum. Nema kannski þeir sem kommenta á DV.is. En það er víst efni í aðra grein.

Guðmundur Andri, einsog reyndar fleiri, virðist halda að þetta sé raunin. Það vilji einhver hafa lífsviðurværið af listamönnum. Og í umræðu um það kom hann með pípulagningalíkingu:

Ég ímynda mér að heim til mín komi maður til þess að gera við þvottavélina hjá mér. Þetta er viðkunnanlegur maður og það er gaman að spjalla við hann. Hann klárar verkið með glæsibrag og sýnir mér hvernig þvottavélin virkar sem ný. Og ég segi: Þetta er alveg frábært hjá þér og svo var líka svo gaman að spjalla við þig. Veistu, ég er svo ánægður með þessa heimsókn þína að ég er hreinlega að hugsa um að borga þér fyrir verkið …

[…]

En hvað sem [framtíðinni] líður, og réttlætinu og lýðræðinu og hinu illa eðli vörunnar, þá stendur listamaðurinn nú á götuhornum heimsins og fremur sínar kúnstir með hattkúf fyrir framan sig í þeirri von að vegfarendur hrífist svo að þeir láti smámynt af hendi rakna.

Listamenn eru reyndar alla jafna ekki of fínir til þess að standa á betli. Við stöndum á betli á forlagsskrifstofum í hvert sinn sem við viljum nýjan samning. Hún er fræg anekdótan um forlagið sem frestar útgáfu bókar ítrekað fram í september, þegar það er orðið of seint fyrir höfundinn að leita annað – sá sem hefur ekki lent í neinu þvílíku hefur líklega aldrei gefið út bók, flestir hafa séð það miklu verra.

Við stöndum á betli við úthlutunarnefnd listamannalauna á hverju ári – reynum að útlista eigið ágæti það best við getum, sýna hvað við höfum búið til á liðnum árum og segja frá því eftir bestu getu hvað stendur til að gera nú („kanntu ekki að spila Honky Tonk?“ var ég ítrekað spurður þegar ég var í böskinu og ég sagði alltaf nei). Og fæst okkar bera nokkuð úr býtum.

Við stöndum á betli við ýmsa aðra sjóði – ferðasjóði, kynningarsjóði, þýðingasjóði og svo framvegis.

Sum okkar standa á betli við erlenda agenta og senda ferilskrár og úttektir og prufuþýðingar á útlensk forlög.

Önnur standa eða hafa staðið á betli hjá Thorsurum hinum síðri.

Og listamaðurinn – hvort sem hann er meðvitaður um það eður ei – hyllist til þess að gera sig viðkunnanlegan, fer smám saman nánast að smjaðra fyrir viðtakanda sínum.

Og það er allt satt og rétt.

II – Alltaf sama pípið

Ég ímynda mér að maður skrifi grein í tímarit. Hann leggur sig allan fram, leggst jafnvel í dálitla rannsóknarvinnu, stílar og stílar, reynir að skilja hismið frá kjarnanum, finna alvöru málsins á meðan hann kæfir ekki hugsanlega lesendur sína úr leiðindum – prentar herlegheitin jafnvel út og sendir ritstjóranum í umslagi með alvöru frímerki, svona svo þetta virðist ekki bara vera eitthvað djók. Ritstjórinn skrifar honum síðan til baka – eða bjallar í hann úr skífusímanum, alvöruþrungans vegna – og segir: „Veistu, ég er svo ánægður með þessa grein þína að ég er hreinlega að hugsa um að borga þér fyrir verkið!“

Nema hann sé svo óánægður að hann ætli bara alls ekkert að borga – ætli ekki einu sinni að prenta greinina, helvískur!

Þetta er útúrsnúningur, það veit ég vel, en hann er ekkert verri eða ónákvæmari en að líkja rithöfundastarfinu við pantaðar pípulagningar. Rithöfundastarfið á Íslandi, líkt og víðast hvar annars staðar, hefur alltaf verið þess eðlis að menn vinna fyrst vinnuna sína og biðja síðan, innvirðulegast, um að fá greitt – og yfirleitt fá þeir bara ekki neitt. Einsog t.d. Bjarni Bjarnason fékk ekki neitt núna síðast og Jónína Leósdóttir fær yfirleitt ekki neitt og Þorgrímur Þráinsson, það skiptir engu hvað hann betlar, hann fær bara skít og skömm. Aðrir fá listamannalaun en engin höfundarlaun, vegna þess að svo fáir kaupa bækurnar að það nær ekki upp í kostnað. Alveg sama hvað höfundurinn spriklar mikið í bókabúðum, viðtölum og blaðasmælki, sama þótt hann þvælist á milli upplestra um allan bæ og beinlínis grátbiðji fólk að kaupa bækurnar hans. Tekjurnar rétt duga til að borga umbrotið, prentið, kápumyndina, höfundarljósmyndina, prófarkarlesturinn, kynningareintökin, ritstjórnina, dreifinguna, lagerstarfsmanninum og bóksalanum (fyrir utan alla framkvæmdastjórnina hjá öllum þessum fyrirtækjum, að ónefndu kaffinu!) – en ekki höfundinum, nema kannski oggulitla fyrirframgreiðslu, og stundum er ekki einu sinni hún í boði.

En það breytir sem betur fer ekki hinu að margir fá samt laun fyrir að skrifa bækur. Bæði beinar tekjur og afleiddar. En laun listamanna, fræðimanna og annarra þeirra sem skapa þekkingu, skemmtun og uppljómun eru ekki bundin hugverkasölu órjúfanlegum böndum. Sannast sagna hafa fæstir íslenskir rithöfundar höfuðtekjur sínar af bóksölu – það er eiginlega varla hægt að lifa á íslenskum bókamarkaði, hann er einfaldlega of lítill (það þykir meira að segja mjög tæpt að lifa af bóksölu á sænska bókamarkaðnum, þótt þar séu 30 lesendur á hvern 1 íslenskan). Meðal annars þess vegna fá rithöfundar svona stóran skerf listamannalauna – ef þetta væri einu sinni nálægt því að vera sjálfbær iðnaður væri það óverjandi. Fræðimenn starfa jafnan í (há)skólum og þiggja þannig laun sín líka frá ríkinu – fyrir utan þá sem fá sérstaka styrki. Við hugverkendur fáum semsé bróðurpartinn af tekjum okkar í gegnum opinbera sjóði almennings, skattgreiðenda, þess sama íslenskumælandi fólks og við treystum ekki betur en svo að við læsum þeim fáu rafbókum sem þó koma út með rándýrum (en gagnslausum) afritunarvörnum til þess eins að geta hækkað á þeim verðið upp úr öllu hugsanlegu valdi.

Ég hef sagt það áður og ég segi það enn: No es bueno.

III – Veruleikinn á Íslandi í dag

Íslenskar rafbækur kosta nú talsvert meira en sömu bækur í harðkápu og það án þess, vel að merkja, að höfundar fái hærri prósentu. Íslenskar rafbækur eru líka dýrari þótt framleiðslukostnaður sé ekki nema brot af því sem kostar að framleiða bækur í harðkápu, og það séu engir milliliðir nema forlagið sjálft (og bókabúðir smyrja yfirleitt 20-40% ofan á bókaverð frá forlagi). Þannig kostar Valeyrarvals Guðmundar Andra 2.499 krónur frá Eymundsson, fallega innbundin – og þá er innifalin þjónusta bókabúðarinnar, dreifing, lagerkostnaður, blekprent, band og pappír og þjónusta prentsmiðju – en 3.999 krónur sem rafbók frá Forlaginu – beint af býli, óefnisleg og án milliliða.

Því hefur verið haldið fram að kostnaður við frágang á rafbókum sé miklu hærri en fólk geri sér grein fyrir – það þurfi líka að brjóta um rafbækur (þótt umbrot sé auðvitað bara lítið brot af kostnaði við útgáfu bókar). Nú vill svo til að ég hef talsverða reynslu af bæði umbroti rafbóka – sem ég hef gefið út sjálfur – og af umbroti annarra bóka, fyrst og fremst í gegnum Nýhil en líka Perspired by Iceland. Ég braut um Ást er þjófnaður, bæði fyrir rafbókaútgáfu og prentsmiðju – og það tekur sirka tíu sinnum lengri tíma að ganga frá stuttri bók fyrir prentsmiðju (en maður hefur líka tíu sinnum meira um það að segja hvernig bókin kemur út – rafbókatexti er flæðandi og lýtur ekki sömu fagurfræðilegu stjórn). Ég braut líka sjálfur um Af Steypu – sem var mikið verk, enda eru í henni margar myndir og alls kyns flóknar uppsetningar á ljóðum – og hef setið með vini mínum Hauki Má, margar kaffiþrungnar nætur í gegnum tíðina, hugsanlega stundum vínmettar í þokkabót, og hjálpað honum við umbrot á ljóðabókum, afbókum og skáldsögum. Afbragðs fallegt umbrot.

Ég er semsé ekki bara að fullyrða þetta út í loftið. Ég veit hvað ég er að tala um.

Fyrir fáeinum dögum lauk ég við handrit að nýrri skáldsögu – Illsku. Handritið er lítið eitt lengra en Konan við 1000° eftir Hallgrím, sem ég krakkaði á dögunum – þetta er altso feit og mikil skáldsaga í 70-80 köflum og fjórum hlutum. Ég tók tímann á því hvað ég var lengi að ganga frá henni í skjal sem væri sambærilegt við það sem ég keypti beint af býli (altso Konu Hallgríms) – með réttum inndráttum, kápumynd, titilsíðum o.s.frv. Svo sendi ég hana á Egil Örn hjá Forlaginu með dálítilli skýrslu um framvinduna. Ég gerði dálítil mistök í fyrstu tilraun – ég gleymdi að ganga frá inndráttum í wordskjali þannig að þeir væru þýðanlegir á mobi-formatt – og þá tók það mig þrjú korter. Ég endurtók svo ferlið daginn eftir og áætla að það hefði bætt korteri við tímann (en þá var ég auðvitað búinn að gera ýmislegt, svo sem að hlaða inn forsíðumynd og þvíumlíkt – það tók ekki nema hálftíma eða svo). Með vitleysismistökum tók þetta sem sagt klukkutíma og korter, en hefði ekki þurft að vera nema klukkustund. Það tæki mig ekki minna en viku – og líklega nær tveimur – að brjóta um bók af þessari lengd í InDesign.

Þetta fer að vísu auðvitað nokkurn veginn eftir því í hvaða ásigkomulagi bókin er þegar maður fær hana í hendurnar. Ef greinarskilin eru öll út í bláinn og allt í kaosi í wordskjalinu – þá tekur þetta auðvitað lengri tíma. Einsog það tók lengri tíma að ganga frá skjali þegar það barst handskrifað eða vélritað – ekki að sá sparnaður hafi nýst höfundum mikið, það ég veit. En sæmilega frágengið skjal er ekki erfitt viðfangs.

Til samanburðar keypti ég nýlega bók á stærsta rafbókavef Svía, Dito.se, Hjälp vem är jag, sem ljóðskáldið, sálgreinandinn og fyrrum herbergisfélagi minn í Slóveníu, Ulf Karl Olov Nilsson, skrifaði í félagi við sænsku poppstjörnuna Caroline av Ugglas. Hún kostaði sléttar 55 sænskar krónur – það er rúmur þúsundkall í fallinni krónu (fimmhundruðkall, hrunlaust) – og ég fékk hana án afritunarvarnar, sem þýðir að við frúin getum lesið hana saman (hvort í sínum kindlinum) og rætt hana jafn óðum á koddanum á kvöldin. Þetta er nota bene ekki ljóðabók, heldur viðtalsbók í fullri lengd. Á Dito.se virðist það vera reglan að sænskar bækur eru seldar án afritunarvarnar en útlenskar bækur – amerískar, aðallega – eru seldar með afritunarvörn (vegna þess að krafan kemur utan að). Það vill síðan svo skemmtilega til að amerísku bækurnar getur hver tölvulæs maður auðveldlega fundið stelkeypis á netinu – á meðan fæstar ef þá nokkrar hinna sænsku eru fáanlegar nema gegn greiðslu (verð á bilinu 19-169 SEK – 350-3000 krónur). Ný rafbók á Amazon kostar á bilinu 10-15 dollara (1200-1800 krónur) – með afritunarvörn. Ný íslensk rafbók kostar 4.000 krónur – beint frá býli, milliliðalaust.

Íslenska rafbók með afritunarvörn getur maður auk þess ekki notað nema á ákveðið mörgum tækjum (að því tilskildu að maður krakki hana ekki). Ég man ekki hvort þau eru fimm eða sex – það skiptir heldur ekki öllu – en eftir að maður hefur endurnýjað lestölvuna sína ákveðið oft fær maður ekki lengur að lesa bókina sem maður keypti á okurverði, nema maður brjóti lögin (eða haldi upp á 10 ára gamla tölvu inni í geymslu til þess eins að geta lesið Jójó Steinunnar árið 2022). Þetta módel er komið úr tölvuforritabransanum – en það virkar betur þar, einfaldlega vegna þess að tölvuforrit eru fljótt forgengileg – það notar enginn 15 ára gamalt Word og saknar þess enginn heldur. En maður myndi sakna bókanna sinna. Ég myndi sakna bókanna minna. Ég gæti ekki lengur lesið Glæp og refsingu í þýðingu Ingibjargar, vegna þess að ég hefði keypt hana fyrir 20 tölvum síðan – í 286 Victor tölvuna hennar mömmu.

Af sömu ástæðu er áskriftarmódelið ónýt hugmynd – „skýið“ virkar ekki vegna þess að ég vil ekki láta hneppa mig í þann þrældóm að borga fyrir áskrift að bókasafninu mínu eða glata því ella. Og ég vil ekki heldur sitja fastur í hjónabandi við vonda bókabúð og fá ekki aðgang að öðrum – ég vil stunda bókabúðasaurlifnað og leggjast með öllum þeim sem ég vil. Skýið festir mann við Amazon eða iTunes – vegna þess að skýið vill halda í mann, takmarka möguleika manns til þess að eiga viðskipti við aðra. Og einmitt vegna þess að ég á Kindle reyni ég að kaupa bækur annars staðar en á Amazon, þótt það kosti mig aðeins meira vesen. Ég vil ekki að Amazon fái einkaleyfi á mér.

IV – Frjáls hugverk? 

Kannski tekst mönnunum að koma sér niður á þjóðskipulag sem snýst ekki um peninga og samkeppni heldur frelsi og jöfnuð og sátt við Móður Jörð – einhvern tímann – þarna úti í framtíðinni – og þá fremjum við list allan daginn handa hvert öðru og okkur sjálfum og guðdóminum; en þangað til það gerist er ekki nema sanngjarnt að listamenn fái greitt fyrir framlag sitt til tilverunnar.

Skrifar Guðmundur Andri í lok greinar sinnar.

Í mörgum löndum eru rithöfundar upp á markaðsöflin komnir – sérstaklega norður í Ameríku – en sú er sem betur fer ekki raunin á Íslandi, nema að afar litlu leyti. Við getum kallað listamannalaun það sem við viljum – við getum kallað þau sníkjur, fjárfestingu, velferð, bætur – en þau eru umfram allt annað lifibrauð. Listamenn fá auðvitað líka inn tekjur héðan og þaðan. Sumt eru beinar tekjur af útgefnum verkum, svo sem tekjur úr bókasafnssjóði (sem eru okkar STEF-gjöld). Annað eru afleiddar tekjur. Ég fengi ekki að lesa upp á bókmenntahátíðum eða skrifa langar greinar um íslenskar bókmenntir í pólsk menningarrit eða stutta pistla í norsk dagblöð ef ég væri bara einhver nilli og ef ég hefði ekki gefið út bækur sem hefðu notið nokkurrar virðingar í „réttum“ kreðsum þá myndi ég einfaldlega mælast sem nilli – ég hefði einfaldlega ekki sama aðgang að menningartímaritum eða útvarpi eða dagblöðum. Bækur eru kúltúrkapítal, aðgöngumiði – þær duga ekki einar og sér, en þær gera það að verkum að þeir sem ráða menningunni veita manni næga athygli til þess að maður nái að sanna sig (eða ekki). Sá sem hefur gefið út bók er ekki nóbóddí, per definition. Hann er með kjöl.

Auðvitað er ekki þar með sagt að ég eigi ekki að fá neitt fyrir seldar bækur – það er í öllu falli ekkert náttúrulögmál sem ég ætla að mæla fyrir. Síðasta bókin mín á íslensku, Ást er þjófnaður (sem fjallar einmitt um skyld efni), er nú loksins komin í sölu á Íslandi – í bókabúðinni Útúrdúr og fáein eintök ættu að detta inn í Eymundsson við Austurstræti eftir svona tvær vikur – og á þau hef ég lagt sex hundruð krónur stykkið, bara fyrir mig (en ég greiði svo tekjuskatt af þessu). Selji ég öll eintökin sem pöntuð voru til Íslands fæ ég því tæplega 40 þúsund krónur fyrir skatt – talsvert minna en ég fékk í frjáls framlög fyrir rafbókina (þótt hver og einn hafi ekki greitt háa upphæð og sumir ekki neitt). Ég er ekki fílósófískt mótfallinn því að maður taki við fé fyrir list sína, jafnvel þótt svo vel vilji til að maður hafi fengið 9 mánuði frá nefndinni. Því síður. En það er ekki fjarri mér heldur að vilja sjá möguleikana í því að hafna einfaldlega markaðnum.

Segjum að við semdum um meiri listamannalaun – fleiri mánuði fyrir fleira fólk – og gæfum eftir dálítið af höfundarréttinum. Segjum að bókasöfn – öll bókasöfn – gætu fengið allar íslenskar bækur ókeypis í rafbókaformi. Það yrði áfram greitt fyrir útlán – við fengjum áfram borgað úr bókasafnssjóði samkvæmt samningum – og það yrði tiltekið sérstaklega í samningum að þetta svigrúm mætti ekki nota til þess að spara fé í innkaupum á harðkápum og kiljum, en öll bókasöfn á landinu, allir skólar, fengju nýjustu bækur forlaganna í ótakmörkuðu rafupplagi sama dag og þær koma út, án endurgjalds.

Eða eitthvað sambærilegt. Segjum eitthvað sambærilegt. Segjum að ríkisútvarpinu yrði heimilt að endurspila upplestur á bókmenntum án frekara endurgjalds – það væri hægt að endurspila bækur á nóttunni, það væri jafnvel hægt að setja á fót heila útvarpsrás sem væri helguð ljóðum og framhaldssögum, bara með því efni sem er þegar búið að taka upp fyrir RÚV og búið að borga fyrir einu sinni. Það væri hægt að setja þetta í streymi á netinu. Ef það væri hægt að sleppa frekari greiðslum fyrir höfundarrétt. Þetta mætti svo færa yfir á allt sjónvarps og útvarpsefni – sem gæti einfaldlega verið aðgengilegt, enda búið að greiða framleiðendum þess laun, og við litum svo á að endalausar greiðslur væru enginn sérstakur réttur, það væri búið að borga og væri haldið áfram að borga í gegnum aðra opinbera sjóði, listamannalaun, fræðimannalaun, ferðastyrki og la tí da. Þið skiljið hvert ég er að fara. Möguleikarnir eru óþrjótandi. Það mætti jafnvel hugsa sér rafbókavef sem allir gætu haft aðgang að ókeypis – en greitt væri fyrir niðurhal með meiri listamannalaunum og í gegnum bókasafnssjóð. Þá gæti ég, búandi í Oulu, haft aðgang að nýjum og gömlum bókum. Fyrir utan alla þýðendurna í þúsund löndum, sem gætu rótað í rafræna bókahaugnum. Auðvitað hefði þetta alls konar afleiðingar – hingað og þangað – þetta gæti komið við tekjustofn forlaganna (rétt einsog það að gera bókasöfn hjólastólavæn rænir forlögin hjólastólabókakaupendum – nema það vill til að í þessu dæmi eru við mjög mörg bundin við hjólastól). Það sem ég á við er: það eru til önnur viðbrögð við afleiðingum en að draga að sér hendur og skelfast. Lífið hefur afleiðingar. Stundum eru kostirnir meiri en gallarnir – en við getum reynt að dempa gallana fyrir því. Og svo heldur lífið áfram. Að hafa afleiðingar.

Fyrst og fremst vil ég að þetta sé til umræðu. Að við sitjum ekki bara hérna hrædd og lemjum í borðið og heimtum að fá borgað samkvæmt hundgömlu lögmáli sem var allt öðruvísi hugsað í upphafi, heimtum að fá borgað samkvæmt bókstafnum, samkvæmt orðinu því orðið er frá guði, í samræmi við lögorð sem er harkalegar sótt með hverju árinu – nú er svo komið að stærstu ríkisstjórnir heimsins eru farnar að íhuga stórfelld mannréttindabrot til þess að gulltryggja réttinn til að rukka fyrir óefnislega hluti – og framlengt í hvert sinn sem eitthvert fyrirtækið sér fram á að missa höfundarréttarvarinn spón úr aski sínum, að eilífu og eilífu amen.

Og framtíðin, þið vitið þarna þegar það snýst ekki allt um peninga og samkeppni heldur frelsi og jöfnuð og sátt? Hún kemur ekki af sjálfu sér. Framtíðin kemur aldrei af sjálfu sér. Við verðum að vinna fyrir henni. Og heimur þar sem listamenn svelta ekki, en þar sem samt er hægt að deila óefnislegum hugverkum þeirra hömlulítið á milli sín, þarf ekki að vera svo fjarlægur – ekki nema við kjósum frekar að óttast framtíðina, að bíða eftir því að hún komi og bíti okkur í rassinn, í stað þess að sækja á og skapa hana sjálf. Framtíðin er ekki ein heldur margar – og fæstar þeirra eru jafn óhjákvæmilegar og þú heldur.

Að gamalli venju minni ég á bókina Ást er þjófnaður fyrir þá sem vilja lesa meira um sama efni. Hún fæst hér sem rafbók gegn frjálsu framlagi og það er hægt að kaupa hana í bókabúðinni Útúrdúr á Hverfisgötu eða panta hana á netinu hérna. Að gefnu tilefni vil ég nefna að þetta með að selja hana gegn frjálsu framlagi var aðallega hugsað sem tilraun. Ég held ekki að það sé lífvænlegt módel til framtíðar, þótt það hafi virkað ágætlega í þetta sinn.

Sjötíuogþrír: Málfrelsi, Snorri og Múhameð

February 17, 2012 in Illska, Uncategorized

Þetta er í raun einfalt mál, þótt augljóslega sé hægt að hafa um það ótal orð, hvert öðru mikilvægara: annað hvort ríkir tjáningarfrelsi eða ekki. Ef maður er dæmdur fyrir það sem hann segir verður dómurinn að byggja á því að raunverulegur glæpur hafi verið framin, annar en sá að tjá sig upphátt: til dæmis að upplýsingar sem óleyfilegt er að láta uppi séu birtar eða sökum logið upp á nafngreinda (eða þekkjanlega) einstaklinga. Annars er ekki um neitt tjáningarfrelsi að ræða, nema tjáningarfrelsi þess sem ræður.

Það er nefnilega ekkert bæði og. Engar skoðanir svo varhugaverðar að það verði að vernda heiminn fyrir þeim með lögboði. Því burtséð frá því hvað okkur finnst um tilteknar skoðanir þá viljum við ekki að ríkið (eða einkaframtakið, ef því er að skipta) taki sér það vald að segja okkur hvað okkur má finnast. Það vald gæti einfaldlega snúist gegn okkur. Við getum verið mótfallinn útgáfu Tíu lítilla negrastráka, en við viljum ekki að ríkið banni hana eða sekti útgefandann. Ekki nema við séum hreinlega mótfallin tjáningarfrelsinu.

Í öðrum samfélögum sem rækta gildi sem okkur þykja síðri er þetta vald notað á einmitt þennan hátt – með öfugum formerkjum – sá barnaskólakennari í Íran sem mælti samkynhneigð bót myndi ekki kemba hærurnar í starfi (og við myndum senda hjartnæm skeyti þar sem mikilvægi tjáningarfrelsisins væri tíundað – þótt það mikilvægi gildi að mér sýnist bara þegar okkur hugnast skoðanirnar). Og þrátt fyrir að sú skoðun sé ólíkt mannúðlegri en hin – að þeir séu bersyndugir – þá breytir það engu um eðli valdsins þegar það er fengið. Valdið spyr ekki hvort það hafi rétt fyrir sér, það bara seilist þangað sem það fær að fara og beitir sér eftir hentugleikum – kærir Geir einn daginn en vill sleppa honum hinn. Ef við segjum í dag að barnaskólakennari megi ekki hafa eina skoðun, játum við því samtímis að á morgun megi hann ekki hafa aðra, allt eftir því hvað er viðmið dagsins, vikunnar, mánaðarins, ársins, áratugarins, aldarinnar, árþúsundsins. Kannski verður það að maður eigi ekki að láta lífið fyrir föðurlandið, kannski að óhefðbundnar lækningar séu tvatl, kannski að blóðgjöf sé synd, sjálfsfróun sé góð skemmtun, lýtaaðgerðir séu mannskemmandi hórdómur eða að kyn sé val sem hver geti lagfært eftir hentugleikum. Það er einfaldlega engin leið að vita. Og einmitt þess vegna höfum við þetta prinsipp, að fólk sé frjálst til skoðana sinna, þótt að því fylgi ýmsir augljósir vankantar.

Við þetta má því svo bæta að auðvitað ætti foreldrum líka að vera í sjálfsvald sett hvort þau senda börnin sín í nám hjá Snorra í Betel. Niðurstaðan þarf ekki að vera önnur – orð hafa afleiðingar en þær afleiðingar eiga að vera persónulegar en ekki bundnar valdstjórninni. Alveg einsog meiðyrði eiga að hafa það í för með sér að maður glati trausti – dagblöð glati trausti lesenda sinna, við glötum trausti hvert annars – en ekki fjársektir og hótanir af hendi valdsins.

Það má auk þess (í framhjáhlaupi) spyrja sig hvaða afleiðingar það hefði að taka upp prinsippið: að þeir sem trúi því að samkynhneigð sé óeðli megi ekki hafa aðgang að ómótuðum hugum. Hvað gerist ef við fylgjum þeirri lógík til enda? Má sá sem er óhæfur til að vera kennari, sökum skoðanna sinna, vera faðir eða móðir? Má hann skrifa barnabækur? Kennslubækur? Fullorðinsbækur? Má hann blogga – það best ég veit var það ekki hegðun Snorra í kennslustofunni sem fór fyrir brjóstið á neinum, heldur hegðun hans í netheimum (hann er hins vegar sviptur kennslustofunni en ekki netinu) og börnin sem hann kenndi munu áfram geta fylgst með honum á netinu (en þau hafa auðvitað nú lært það sem fyrir þeim var haft, að það borgi sig ekki að tala upphátt um skoðanir sínar nema maður sé viss um að allir séu sammála manni, og þegja því áreiðanlega meira en forfeður þeirra, hræðast meira). Mega nasistar ala upp börn? Satanistar og fjölkvænismenn? Klámstjörnur, vændiskonur og lauslátir? Kommúnistar? Heittrúaðir frjálshyggjumenn? Hvar er þessi lína – mega börn bara umgangast fullkomið fólk? Bara líta upp til þeirra sem eru siðferðislega réttlátir í augum vísitöluborgarans?

Tjáningarfrelsið þarf að vera absolút einmitt vegna þess að með því tölum við upphátt og án þess erum við mállaus um annað en það sem sjálfsagt þykir. Það nýtist ekki bara til þess að segja það sem öllum þykir gott og blessað heldur líka hitt sem fer fyrir brjóstið á öðrum, særir þá og meiðir. Ef við viljum geta sagt að konur eigi að fá að kjósa þurfum við að geta sagt að þær eigi ekki að fá að kjósa; ef við viljum geta sagt að hommar eigi að fá að ættleiða verðum við að geta sagt að þeir megi ekki ættleiða; ef við viljum geta sagt að einhleypir táningar eigi að fá að leigja sér einfættar tælenskar staðgöngumæður til að fæða börn með erfðabreytt snillingaaspergers þá verðum við að geta sagt að þeir megi það ekki, vegna þess að það sé óeðli samkvæmt Bókinni um Veginn eða hvernig sem það nú stendur – án þess að þær fullyrðingar ógni stöðu okkar gagnvart vinnuveitendum eða yfirvaldinu sem slíku. Okkur á að standa til boða, sem einstaklingum, að eiga ekkert saman við fólk að sælda ef við svo kjósum – rétturinn til þess að hunsa í hel er líka mikilvægur, þótt ég mæli ekki sérstaklega með því – en við skulum ekki rugla því saman við réttinn til þess að pína fólk til að halda kjafti, vegna þess að okkur klæjar svo ógurlega í smáborgaraleg rassgötin. Þann rétt megum við ekki taka okkur.

Og það snýst ekki um að vernda trúarbrögð heldur tjáningarfrelsið: réttinn til þess að tjá fyrirlitningu, hvort heldur sem það er undir rós eða gleitt og galið. Til þess að vernda hatrið. Vegna þess að það er hluti af tilverunni. Við höfum rétt til þess að hata það sem okkur sýnist af þeim ástæðum sem okkur sýnist. Án þess réttar er engin mennska heldur bara siðferðisleg skylduboð og valdsmannskeyri meginstraumshugsunar til að fylgja þeim eftir. Þegar manni er beinlínis farið að bera lagaleg skylda til þess að sýna öðrum virðingu – þegar réttur manns til þess að sýna öðrum vanvirðingu er ekki lengur helgur – er orðið fullkomlega ómögulegt að virða neinn fyrir neinar sakir og allir orðnir jafn djöfulli ómerkilegir. Við getum ekki gert þá kröfu á aðra að þeir tjái sig aldrei nema af kærleika og virðingu – það er ekki samfélag sem nokkurt okkar langar að byggja.

Að síðustu: Mér hefur þótt undarlegt að sjá hvernig sumir þeirra sem fóru hvað mestu offari í að verja rétt danska dagblaðsins Jyllandsposten til þess að jafna múslimum við hryðjuverkamenn og ofsatrúarseggi – sem er ekki minni hatursáróður en að segja það standa í biblíunni að maður skuli ekki leggjast með öðrum manni, enda sé það viðurstyggð – skuli nú fullir vilja til þess að ræða „takmörk“ tjáningarfrelsisins, að skerpt verði skilin milli haturstals og tjáningarfrelsis. Sérílagi vegna þess að Jyllandsposten stóð aldrei hætta af öðru en einmitt jaðrinum – ofsatrúarseggjum sem æstu sig – á meðan hér grípur yfirvaldið inn í og sendir mann í útlegð úr starfi fyrir að lýsa skoðunum sínum opinberlega. Í því máli lá mér sjálfum mikið á hjarta og talaði áreiðanlega niður tjáningarfrelsið meira en nokkur maður ætti að gera, enda leit ég ekki svo á að í raun væri það í nokkurri hættu. Og hatursáróður er ömurlegur, honum ber að mæta með staðfastri og yfirlýstri fyrirlitningu. En tjáningarfrelsið á sér engin takmörk (eða það á ekki að eiga sér nein takmörk) – það nær yfir alla okkar fyrirlitningu, bæði réttláta og rangláta og svo ótal margt fleira. Skoðanir okkar, sama hversu viðurstyggilegar þær eru, mega sem slíkar einfaldlega aldrei vera ólöglegar, alveg sama hversu ógeðfelldar þær geta verið.

Sjötíuogtveir: Rúm til að hugsa

February 9, 2012 in Illska, Uncategorized

Ókosturinn við Facebook er að þar gefst sjaldan næði til að hugsa. Þar er sjaldan rúm fyrir samræðu – ég er ekki viss um að það sé fólkinu að kenna, sjálfsagt sjaldnast, það meina allir vel og fæstir eru vitlausir. En formið er svo hratt. Hugsuninni er ýtt áfram, henni er hrint – maður getur valið að fylgjast með hringiðunni eða fylgja henni eftir en það er lítið þar á milli (nema maður sé þeim mun rórri í hugsun, sem ég er ekki og verð líklega aldrei). Því fylgja margir kostir en líka talsverðir ókostir. Ég hætti á Facebook í dag. Eftir sennu. Hraktist af Facebook. Lét undan og lét krossfestast, lét sem ég krossfestist. Það heitir að vera dramadrottning en það breytir bara engu um að mér var ekki líft.

Tilgáta. Það er ekki hægt að ræða neitt sem hefur með femínisma að gera. Nema til þess að vera sammála. Í öllu falli eru fáir færir um það og eiginlega enginn sem ég þekki eða man eftir í svipinn (hvorki femínistar né andfemínistar eða aðrir). Strax og fólk er orðið ósammála um minnstu atriði – hvað þá stærri og veigameiri atriði – byrjar fólk að gelta. Pungfýlur, fasystur, nauðgaravinir, leggöng, píkur, typpi og forréttindafemínistar. Voff, voff, voff. Og þá sem sagt verður ólíft. Að minnsta kosti fyrir mig.

Þetta er ekki algilt en þetta er alltof algengt.

Og það er ekki hægt að vera sammála um allt. Það heitir að vera í kór en ekki í samræðu. Engin samræða þrífst nema þeim sem taka þátt í henni finnist þeir frjálsir, eða þær frjálsar, til þess að hreyfa andmælum, til þess að koma með nýtt perspektíf, benda á vankanta (sem heitir að styðja ekki málstaðinn, að þykjast bara vera femínisti, að þykjast ekki vera andfemínisti, gera ekkert FYRIR femínismann (því það að taka þátt í samræðu um hann er víst ekki að gera neitt fyrir hann)). Og það hefst ekki nema maður sýni lágmarks virðingu, nema maður líti á þá sem eru manni ósammála sem manneskjur en ekki óvini hverra skoðunum verði að tortíma með öllum tiltækum ráðum – og það hefst ekki heldur nema með lágmarks umburðarlyndi fyrir skensi og upphrópunum. Samræða sem gengur út frá því að ætla hinum aðilanum allt illt (eða allt heimskt, allt heilaþvegið, allt blint) ratar beint í skotgrafirnar og þegar þangað er komið er málið dautt. Bókstaflega.

Þetta er ekki feminískt atriði, per se – ekki einu sinni Facebook atriði – þetta er íslenskt atriði. Ísland er úniform, Ísland kann bara að spila mónókúltúr. Maður performerar Ísland með því að þola ekki frávik, með því að skipa sér í fylkingu og vaka ástríðufullt yfir því að allir í manns eigin fylkingu gangi alveg áreiðanlega alltaf í takt og aldrei í takt við neinn í hinni fylkingunni. Alveg einsog miðmenning Íslands þolir ekki athugasemdir femínista þolir miðmenning femínista ekki neinar athugasemdir og miðmenning andfemínista þolir ekki athugasemdir – fokkitt, íslensk ljóðlist þolir ekki einu sinni að hreyft sé andmælum án þess að málsvarar hennar hrökkvi í sálgreiningargírinn, ad hominem, ad hominem, hér er maðurinn, hér er boltinn, það má tækla en það má ekki sparka í sköflunginn á fólki (það sem heitir sjálfsagt í hinum prímitífu boltaíþróttum er of sívílíserað fyrir venjulega samræðu).

Ekkert er flókið, ekkert orkar tvímælis; veröldin er þolendur í öðru horninu og gerendur í hinu – enginn getur verið til samtímis í germynd og þolmynd – þú hefur alltaf valdið og ég aldrei, ég hef alltaf valdið og þú aldrei. Annað hvort ertu með eða á móti. Annað hvort ertu með í að vera á móti eða þú ert á móti í að vera á móti (andandfemínistar versus andandandfemínistar og svo framvegis). Hér er línan, þú getur valið þér lið en þú hefur ekki samræðu og viðrar ekki efasemdir. Ekki frekar en ég. Enda er þetta stríð. Í húfi er bæði hinn frjálsi heimur og stolt konunnar, skaut konunnar og líf hennar líka. Með stóru k-i og ákveðnum greini, stóru f-i og stóru h-i. Andvörp og andköf.

Þetta snýst um að ná marki. Afla málstaðnum fylgjenda. Og þegar komið er í mark á allt að verða gott. En við náum aldrei marki, það er löngu ljóst, það er ekkert mark. Jafnrétti er leið en ekki staður, aðferð en ekki niðurstaða og ef aðferðin er ekki falleg – ef við getum ekki talað saman án þess að ætla hvort öðru heimsku, viljaleysi, vonsku eða ýlfrandi minnimáttarkennd – þá verður einfaldlega aldrei um neitt jafnrétti að ræða, heldur bara fæting.

Ég ætla mér ekkert sakleysi. Ég var hérna allan tímann og tók þátt frá upphafi.

Í samræðu við (suma) aðra finnst mér einsog ég hafi ekki rétt á sjálfum mér – ég er smættaður niður í sjúkdómseinkenni, ýmist veikur sjálfur eða til marks um veiki heimsins. Skoðanir mínar eru ekki skoðanir, ekki hugsanir, ekki eitthvað sem ég deili með mér  – að minnsta kosti ekkert réttmætt – þær eru heift, dónaskapur, yfirlæti, typpafýla (og það ekki frá mér ókunnugu fólki, heldur vinum mínum, nánum og innilegum vinum mínum – hvernig tæklar maður það?). Kannski vegna þess að þá er hægt að flokka þær í burtu, einsog óþarfa drasl á desktopnum. Empty Trash. Kannski vegna þess að ég er alger fantur í samræðu og óræðandi við mig á neinum grundvelli. Hvað sem veldur, er þetta augljóslega ekki gott. Fyrir neinn og síst af öllu mig.

Stundum þarf maður rúm til þess að hugsa. Tíma og athvarf til þess að hugsa. Til þess að sleppa við geltið – sleppa undan valdinu sem heldur stöðugt að það sé ekki vald, valdinu sem byggir tilvist sína á að það sé aldrei undir neinum kringumstæðum vald – og kannski ekki síður til þess að sleppa við lækið, til þess að verða ekki lækþræll, leitandi að samþykki annarra, flytjandi sig til í veröldinni til þess að varpa ekki skugga á konsensusmyndina. Ég þarf rúm til að hugsa, tíma og athvarf til þess að hugsa. Ég ætla að taka mér frí frá Íslandi hugans og sjá hvort mér batnar ekki óþolið. En verð þá líklega meira hér í staðinn. Mér gekk ekkert að hugsa í samræðu við aðra og tek því upp einræðu. Gefst upp, hættur og rétt að byrja. Einsog alltaf. Gleðilegt nýtt ár.

PS. Ég get ekki svarað neinu í þessu kommentakerfi og ætla að leita leiða til þess að slökkva á því.

Sjötíuogeitt: Fáeinar myndir úr hverfinu mínu í Oulu

February 8, 2012 in Illska, Uncategorized

20120206_003

Þetta er hér fyrir aftan hús. Áletrunin þýðir: Fjölmenningin er hættuleg börnum þínum og barnabörnum. Samtökin heita Patriootti vastarintaliike – Andspyrnuhreyfing föðurlandsvina.

20120206_002

Þetta kunnuglega tákn er undir brúnni á leiðinni á leikskólann.

20120105_008

Önnur skilaboð frá samtökunum Patriotti. Hér stendur: Berjumst á móti! Við höfum líka fengið skilaboð frá þessum samtökum í póstkassann og svipaðir límmiðar skjóta upp kollinum reglulega á skiltum og strætóskýlum í hverfinu. Ég ríf þá venjulega niður en það koma alltaf nýjir.

20120202_001

Þetta er á klósettinu í háskólanum. Sams konar krot er víða á karlaklósettunum. Fyrri talan i 14/88 stendur fyrir 14 orða slagorðið: „We must secure the existence of our people and a future for White Children“ en sú síðari fyrir áttunda bókstaf stafrófsins, H, tvítekinn: Heil Hitler. Hakakrossinn sem eru notaður þarna er þríarma útgáfa sem nefnist Triskelion. Armarnir eru þrjár sjöur og standa fyrir sigur Drottins yfir Djöflinum (777 yfir 666) – þetta eru s.s. kristnir nýnasistar.

Ég gerðist mjög pirripú yfir þessu öllu saman í vikunni og sagði nasistunum að fokka sér.

20120202_004

Annars sá ég á netinu áðan að samtökin eru að leita að fólki í útburð í Oulu, ef einhver skyldi hafa áhuga.

Sjötíu: Búinn að klára og rétt að byrja að verða búinn

January 31, 2012 in Illska, Uncategorized

Á sunnudag, inni á ölkránni Kukko í Kemi, skrifaði ég síðustu orðin í Illsku. Ég er aldrei alveg viss hvenær ég byrjaði að skrifa hana. Ekki fyrir sumarbyrjun 2008 – og ekki síðar en í janúar 2010. Ég byrjaði að byrja að skrifa hana í sumarbyrjun 2008 og ég hætti að byrja að skrifa hana fyrir nærri því akkúrat tveimur árum – síðan þá hefur þetta verið svo til stanslaus keyrsla, með einungis einu raunverulegu hléi (þegar ég gaf mér mánuð til þess að skrifa Ást er þjófnaður).

Og nú byrja ég að verða búinn. Það tekur sjálfsagt ekki jafn langan tíma og að byrja að byrja (sem tók þá í það heila rúmlega eitt og hálft ár) en það fara í það nokkrir mánuðir engu að síður. Það eru ennþá tvær til fjórar vikur þar til ég sendi handritið til útgefanda og yfirlesara. Fyrst þarf ég að lesa það í heild og færa inn breytingar.

Helsti kosturinnn við að vera kominn þetta langt í ferlinu er að fá nú dálítið frí frá því að sitja við tölvuna. Að fá að lesa pappír. Ég hefði að vísu allt eins getað vistað hana fyrir kindilinn en blætisfíkillinn í mér heimtaði að fá blaðabunkann og finnsku nytjaskógarnir verða bara að sætta sig við það. Ég hef þurft að anda að mér óþefnum úr pappírsverksmiðju bæjarins í nærri því tvö ár – ég á skilið að fá nokkrar skitnar arkir. Blætisfíkillinn ætlar meira að segja í bæinn á morgun til að kaupa sér almennilega penna. Ég veit ekki hvað ég hef gert til þess að eiga það skilið en það er áreiðanlega eitthvað.

Handritið er einsog stendur næstum því nákvæmlega milljón slög með bilum.

Sextíuogníu: Afritunarvarnir (eru þjófnaður)

January 9, 2012 in Illska, Uncategorized

I: Til hvers eru afritunarvarnir?

Fyrir fáeinum vikum hóf Forlagið að gefa út rafbækur sem eru til sölu á vef Forlagsins og vef Eymundsson. Bækurnar eru seldar á epub-formatti með Adobe afritunarvörn sem er takmörkuð við fimm lestæki og einungis hægt að nota í tækjum sem styðja aflæsingu slíkra varna – þ.e.a.s. borð- far- og spjaldtölvum auk valinna rafbókalesara, svo sem Sony Reader, Nook og Kobo. Það er hins vegar ekki hægt að lesa bækurnar í Kindle, sem styður einungis eitt formatt með afritunarvörn, .azw, en notast annars við hið opna og ólæsta formatt .mobi. Bækurnar kosta flestar um 4 þúsund krónur – um þúsund krónum minna en sömu bækur í harðkápu (munurinn er minni ef tekið er tillit til afsláttar á harðkápubókunum, sem er svo gott sem alltaf einhver).

Það er skemmst frá því að segja að ég lét og læt þetta fara í taugarnar á mér. Afritunarvörnin hefur í för með sér að maður getur ekki flutt bækurnar á milli tækja nema þeirra sem afritunarvörnin leyfir. Sem er svona einsog að kaupa bók sem maður má lesa í eldhúsinu en ekki í svefnherberginu – afritunarvörnin setur manni óþarfa skilyrði, að eiga samskipti við afritunarvarnir er einsog að vera illa giftur, maður er stöðugt að kýta og alltaf í vondu skapi.

Fimm tölvu takmörkunin getur síðan haft í för með sér að bókasafnið manns hreinlega úreldist – á síðustu tíu árum hef ég átt næstum því jafn margar tölvur og konan mín annað eins. Við værum búin að þurfa að endurnýja bókasafnið okkar (sem við eigum saman, við erum gift og eigum allt saman) fjórum sinnum. Þá getur maður hvorki endurlesið bækurnar úr jólabókaflóðinu í ár eftir tíu ár né fært afkomendum sínum þær í arf. Þetta gerir það líka að verkum að þegar skólar fjárfesta í kindlum fyrir heilu bekkina eru þeir bundnir við að endurnýja tækin með öðrum tækjum af sömu gerð – eða þurfa að endurnýja allan bókakostinn ella. Nema þeir hreinlega krefjist þess að fá bækurnar á mobi-formatti.

Tilgangurinn er sá að koma í veg fyrir að fólk deili bókum, eða réttara sagt, til þess að tryggja að höfundar (og útgefendur) fái tekjur af lestri bóka. Tilgangurinn er góður. Ég er því mótfallinn að fólk deili hugverkum án þess að hugverkandinn fái nokkuð fyrir sinn snúð – ég hef beinlínis hag af því sjálfur að fá borgað. Maður er að reyna að lifa af þessu og það er ekki auðvelt – þetta er eilífðarhelvítishark þetta líf. Mér finnst ekki að maður hafi nokkurn rétt til þess að brenna heilu diskana og gefa öðrum í afmælisgjöf, sem dæmi (að gera mixteip er svolítið annað samt). En ég hleð stundum niður diskum ólöglega og hlusta á þá tvisvar-þrisvar áður en ég ákveð hvort ég vil kaupa þá – og stundum geri ég það löglega, streymi þeim af Gogoyoko eða Spotify. Það eru mörg grá svæði þarna – og margar ástæður til þess að hugsa siðferðislega (sem er í sjálfu sér gott, við höfum öll gott af því).

Þessi vandamál með afritunarvörnina eru ekki ný og niðurstaðan er ekki ófyrirséð. Þegar byrjað var að selja tónlist á stafrænu formi fyrir rúmum áratug lagði Sony allt kapp á að þróa betri afritunarvarnir og berjast gegn mp3 væðingunni. Í dag eiga allir iPod. Sem betur fer er tónlistarstandardinn opinn – annað en .azw standardinn hjá Amazon eða Adobe Digital Edition standardinn – og það er því að þakka að hægt er að kaupa tónlist líka á Gogoyoko eða beint af heimasíðum hljómsveita og útgefenda.

Hið óleysanlega vandamál afritunarvarnanna er þetta: Ef að tölvan þín getur afkóðað bókina svo þú getir lesið hana, afkóðað tónlistina svo þú getir hlustað á hana, þá getur hún endurskapað hana ÁN afritunarvarnar vandræðalaust. Það er ekki hægt að selja læst skjöl nema lykillinn fylgi með. Hvað varðar dreifinguna þá þarf ekki nema að krakka eitt skjal – það þarf ekki nema einn mann sem getur komist í gegnum vörnina og þá getur skjalið tæknilega séð puðrast út í internetið og allir fengið það í tölvupósti. Þá skipta milljónir afritunarvarðra eintaka engu máli.

II: Skáldsagan við 1000°

Í gærkvöldi á meðan konan mín var að leggja son okkar (ég er ekki karlrembusvín, við skiptumst á) ákvað ég að gera tilraun með afritunarvarnir á íslenskum bókum. Ég hef oft haldið því fram að það sé ekkert mál að krakka afritunarvarnir – vegna þess að ég hef heyrt aðra halda því fram – en ég hafði aldrei reynt það sjálfur. Ég er sæmilega fær á tölvur, í mjög almennum skilningi þess orðs. Ég kann ekki að forrita – ef frá eru taldar fáeinar html-skipanir (sem ég held að teljist ekki forritun, það heitir að kunna að skáletra orð) – en ég hef alltaf verið duglegur við að dútla við hitt og þetta, svo sem photoshop og flash og upptökuforrit og þvíumlíkt. Ef það þurfti að stilla VHS-tækið í Sundstrætinu til þess að taka upp Hemma Gunn af því fjölskyldan ætlaði í Flókalund í sumarbústað, þá kom það í minn hlut.

Ég byrjaði á því að setja í gang skeiðklukku.

Síðan fór ég fram á gang og náði í töskuna mína, tók fram veskið og kreditkortið. Ég fór á heimasíðu Eymundsson, keypti eitt stafrænt eintak af Konan við 1000° eftir Hallgrím Helgason, halaði niður forritinu Adobe Digital Editions og setti upp reikning. Síðan gúgglaði ég „how to remove adobe digital editions drm“ (án gæsalappa) og fann þessa síðu – hlóð niður forritinu (sem notast við Python, en það fylgir með öllum mactölvum, en er líka til fyrir PC). Ef maður er búinn að setja upp ADE á tölvunni og er með slíkan lykil þá þarf maður ekkert frekar að gera – nema tvísmella á krakkforritið, velja bókina sem maður vill krakka og búið. Þá er maður með óvarið epub-skjal. Kindillinn les hins vegar ekki epub og þess vegna notaði ég Calibre til þess að breyta því í opna formattið mobi. Þá fór ég inn í svefnherbergi, náði í kindilinn minn, stakk honum í samband við tölvuna og flutti bókina yfir. Tók kindilinn aftur úr sambandi og athugaði hvort það væri ekki allt í lagi.

25 mínútur og 23 sekúndur.

III: Hvenær stelur maður bók og hvenær stelur maður ekki bók?

Ég játaði þetta á mig strax á Facebook í gær (sjá þráð) og var þess fullviss að ég hefði framið lögbrot. Tilgangurinn var einfaldur: ég vildi sýna rithöfundum og útgefendum (ég er með óhemju af hvorutveggja á vinalistanum mínum) að afritunarvörnin, sem að sögn kostar svo mikla peninga að hún (ásamt uppsetningar- og hýsingarkostnaði, sem hlýtur að vera minimal) er notuð sem réttlæting fyrir því að höfundar fái sömu 25% af sölutekjum (og enga fyrirframgreiðslu), þrátt fyrir að prent- og dreifingarkostnaður sé enginn – að afritunarvörnin gerir nokkurn veginn ekkert gagn. Það væri allt eins hægt að selja þessar bækur án nokkurra varna – einsog þær eru reyndar seldar á hljóðbók, á óvörðu mp3-formatti, einsog öll tónlist er seld. Peningarnir og vesenið sem fer í afritunarvörnina eru bara ekki þess virði – einsog ég benti á hérna að ofan þá getur afritunarvörnin einfaldlega aldrei virkað. Það er hægt að kóða skilaboð þannig að nasistarnir skilji þau ekki – það er að vísu mjög erfitt – en það er ekki hægt að kóða þau þannig að sá sem á að skilja þau á endanum geti ekki skrifað þau aftur upp á mannamáli.

Ég er ekki lengur jafn viss um að ég hafi framið lögbrot. Ég var eitthvað að reyna að gúggla þessu og fann ekkert endanlega út úr því – en ég rakst meðal annars á þetta á frá lögmanni neytendasamtakanna þar sem segir:

Samkvæmt lögum á ég nefnilega rétt á að afrita verk til einkanota þ.e. ef ég ætla ekki að græða á afrituninni. Þessi heimild er afar mikilvæg í ljósi aukinnar tækni og þýðir að mér er heimilt að kaupa mér mp3-spilara eða flakkara og afrita löglegu diskana mína inn í þessi tæki. Þessi réttur minn er þó í nokkurri mótsögn við önnur ákvæði laganna og Evróputilskipun um höfundarétt. Höfundarétthöfum virðist nefnilega vera heimilt að „læsa“ diskum þannig að lögleg eintakagerð til einkanota er gerð ómöguleg. Þetta er gert í þeim tilgangi að koma í veg fyrir framleiðslu og dreifingu ólöglegra eintaka, sem er auðvitað skiljanlegt, en er þó dulítið í ætt við það að banna akstur einkabifreiða af því að sumir aka drukknir.

Hvað er þá til ráða fyrir neytendur sem vilja nýta sér þá tækni sem til er, eins og mp3-spilara og flakkara? Ef lögleg afritun er ekki tæknilega möguleg?

Ef ég vil setja afrit af öllum löglegu diskunum mínum á flakkara er eina leiðin að fara á vafasamar síður og sækja ólögleg eintök. Ef ég vil nýta mér lögleg tæki á borð við mp3-spilara og flakkara verð ég því í raun að gerast lögbrjótur.

Það er alveg ljóst að ég var búinn að greiða fyrir vöruna – og það fjórum sinnum hærra verð en fyrir óafritunarvarðar bækur frá Sögum á emma.is (meðal annars Síðustu dagar móður minnar, Vormenn Íslands eða Áttablaðarósina – sem eru að vísu árinu eldri en bók Hallgríms, en ekki verri fyrir það, að minnsta kosti ekki fjórum sinnum verri). Siðferðislega er ég ekki á vafasamara svæði en sá sem skilar bókum degi of seint á bókasafnið. Mér líður ekki einsog ég hafi stolið neinu. Mér líður miklu meira einsog það hafi verið okrað á mér. Það vill reyndar til að bókin er þrællöng – og fjögur þúsund kall er kannski ekkert ógurlegt okur fyrir mjög langa bók, þótt það sé í hærri kantinum. Mér finnst eiginlega verst að hafa þurft að borga fyrir afritunarvörnina. Að Hallgrímur hafi fengið minna í sinn snúð vegna afritunarvarnarinnar. Að Forlagið – sem er nota bene líka útgefandinn minn (vona ég) – hafi fengið minna fyrir sitt vegna þess að hluti ágóðans hafi þurft að renna til Adobe. Fyrir að flækjast fyrir. Sem er einhvern veginn alveg út í hött.

Líklega er þetta spurning um hvort að ég mátti losa um afritunarvörnina – og samkvæmt því sem ég kemst næst er það ekki sama í hvaða landi maður fremur verknaðinn, en ég hef ekki fundið neitt sem tiltekur sérstaklega Ísland eða Finnland. Og lögmaðurinn nefnir það ekki í pistlinum sem ég vitna í hér að ofan enda virðist hún telja að eintakagerðin sé þar með ómöguleg – á meðan raunin er sú að afritunarvörn virkar meira einsog plastið sem vafið er utan um dagblaðabunkana sem liggja úti um alla borg, hún tefur dálítið fyrir manni. Hún er einsog plastið ef plastið væri gert úr dýrasta hrásilki sem væri notað sem réttlæting fyrir að rukka stórfé fyrir áskriftina.

Auk þess er þetta ekki nein heildarlausn – ég gæti að vísu dreift óvarða eintakinu (en það væri strax orðið ólöglegt) en ég get t.d. ekki tekið að mér að gera þetta fyrir neinn annan. Ég get bara losað um afritunarvarnir á bókum sem ég hef sannanlega greitt fyrir og eru skráðar á Adobe Digital Editions reikninginn minn. Þeir sem gerðu forritið ætlast ekki til þess að það sé notað til að stela bókum og taka það skýrt fram.

IV: Að stuðla (óvart?) að einræði Amazon

Flestir sem lesa rafbækur eiga kindil. Allir þeir sem ég þekki og nota iPad lýsa því svo að þolið gagnvart lesnum textum fari úr 2-3 blaðsíðum (á venjulegum tölvuskjá) upp í 15-30 blaðsíður en enginn þeirra notar iPad til að lesa skáldsögur. Á þessu eru áreiðanlega undantekningar. En þeir sem eiga kindil nota hann allir til þess einmitt að lesa skáldsögur – hann er ekki til neins annars en að lesa prósa. Og jú, einhverjir eiga Sony Reader, Nook eða Kobo – en sá fjöldi bliknar við hlið kindilnotenda. Þetta eru ágætis tæki sem er engin ástæða til þess að endurnýja jafn oft og tölvu – enda þurfa þeir ekki að geta neitt merkilegt, þurfa ekki nýrri og frábærari forrit á ári hverju, þurfa ekki að geta keyrt alls lags youtube og facebook og flash og guðveitekkihvað.

Sem stendur tekur Amazonverslunin ekki við bókum á íslensku – hvorki frá forlögum né sjálfsútgefnum. Sem þýðir ekki að það sé ekki hægt að selja bækur fyrir kindilinn í gegnum aðrar síður. En það þýðir að það þarf annað hvort að setja upp mobile-síðu sem kindlar á þráðlausu neti geta komist inn á eða færa bækurnar af tölvunni yfir á kindilinn með snúru. Fyrr eða síðar mun Amazon byrja að selja íslenskar rafbækur. Þegar það gerist munu íslenskir útgefendur hugsanlega hafa slugsað sig tryllta á afritunarvörnunum – á Adobe Digital Editions – og Amazon hirðir smásöluna, með sínum eigin afritunarvörnum og hin tækin – Nook, Kobo, Sony Reader o.s.frv. deyja út (sem væri jafn mikið miður og það væri miður að Amazon hirti smásöluna). Amazon er þannig fyrirtæki að það getur sett sína eigin skilmála hvað varðar til dæmis skiptingu á tekjum, sem mun að lokum kosta íslenska útgefendur og íslenska höfunda stórfé – að ónefndum íslenskum bókakaupendum sem munu áfram þurfa að punga út álíka miklu fyrir stafræna útgáfu af bók og harðkápuútgáfuna.

Einsog sjá má á þessum lista yfir rafbókaverslanir notast þær fæstar (lengur) við afritunarvarnir.

Það er mikið hagsmunamál (segi ég íbygginn með röddu Kristjáns Bje) fyrir íslenska bókaútgáfu, rithöfunda og bókmenningu að hún taki af skarið um framtíð sína en láti ekki bara reka undan veðri og vindum. Það er sýnt og sannað að afritunarvarnir gera minna en ekkert gagn – þær gera hreinlega mikið ógagn. Við eigum ekki að sitja og bíða eftir því að sjá hvert okkur rekur, við eigum að sigla þangað sem okkur langar að fara.

Hafi einhver áhuga á að kynna sér þessi mál frekar þá hef ég skrifað heila bók – Ást er þjófnaður – sem er fáanleg á ótal rafbókaformöttum gegn frjálsu framlagi (og líka sem prentuð bók) hérna.

Sextíuogátta: SORI og satíran

December 9, 2011 in Illska, Uncategorized

In “The ‘Sweet Assassin’ and the Performative Politics of the SCUM Manifesto,” Laura Winkiel gives her due to the woman who shot this naïf-trickster down. Over the course of her argument, Winkiel asserts that Valerie Solanas belongs in the satiric tradition of Jonathan Swift (think “A Modest Proposal”) as well as in the company of Judith Butler, Sue-Ellen Case, and other postmodern performance theorists for whom the play is always the thing. Solanas’s sloganeering may have appeared radical on the surface, Winkiel posits, but she was rather dismayed when the feminist movement appropriated the tenets of SCUM (an acronym for “Society for Cutting Up Men”) for its agenda. Similarly, Solanas was chagrined when her 1968 shooting of Warhol was taken as a sign of insanity and not as an artistic “event”

Periodizing Postmodernism – Timothy Gray

Eyja Margrét Brynjarsdóttir heldur því fram í grein á Knúzinu að SORI eftir Valerie Solanas sé satíra, henni eigi ekki að taka bókstaflega – þetta sé grín. Hún spyr síðan hvernig það fari saman að taka ekki djókinu þegar um nauðgunarbrandara er að ræða – en fagna því þegar það snýst um að slátra karlmönnum.

Svarið er að þegar fyndni og írónía eru annars vegar þá skiptir samhengi máli, sem það gerir reyndar í sambandi við alla merkingu. Þegar karlar grínast með nauðganir eru þeir sem meiri völd hafa í samfélaginu að gera að gamni sínu á kostnað þeirra sem hafa minni völd. Jafnframt eru nauðganir karla á konum

Hér hefur hún nota bene þegar borið verkið saman við ritgerð Swifts – líkt og tilvísuð Winkiel hér að ofan (og skrilljónir skrilljóna frá því að hún sagði það).

(það er ágætt að hafa þann formála á öllu sem hér er sagt að í meginatriðum er ég sammála pistli Eyju – ég er femínisti og þekki marga femínista og við hötum ekki karlmenn frekar en kvenmenn – vissulega leysist kynjaumræðan oft upp í stelpur á móti strákum og verður óttalega vitleysislegt þvaður einsog mörg önnur pólitík, en það er einfaldlega annað mál og á ekkert skylt við eiginlegt hatur (og já, það eru til femínistar sem hata karlmenn, en þeir eru ekkert hlutfallslega fleiri en íþróttamenn sem hata karlmenn eða sjómenn sem hata karlmenn eða … o.s.frv))

Það er hins vegar ekki vandalaust að túlka SORA sem satíru. Til dæmis þarf að huga að ætlun höfundar. Einsog Eyja bendir á hélt Solanas því fram við útgáfu að henni væri fullkomlega alvara (annað en t.d. Swift) – og þótt Eyja bendi einnig á að Solanas hafi síðar talað um bókina sem satíru, hef ég hvergi fundið því stað nema sem gróusögu frá annarri hendi („Alexandra DeMonte, however, argues that Solanas “later claimed that her manifesto was simply a satire.”“ stendur t.d. á wikipediu). En fyrst og fremst þá stendur hún með verkinu þegar það kemur út – vísar í það þegar hún hefur skotið Andy Warhol – og talar yfirleitt um hvorutveggja sem gjörning (sem minnir á listamanninn í Konum eftir Steinar Braga, sem finnst alltílagi að fórna fólki, því listin sé svo merkileg – Steinar benti á það í viðtali í Frankfurt að þetta viðhorf væri mjög algengt meðal listamanna, þeir væru margir hverjir egósentrískir sósíópatar og það finnst mér að megi alveg heimfæra á Valerie Solanas). Það að Solanas hafi sjálf verið ofbeldismanneskja setur hana eiginlega úr flokki með Swift og í flokk með de Sade – sem líkt og Solanas leyfði sér að framkvæma (a.m.k.) brot af því sem hann skrifaði um.

Hin fræga paródía Swifts, A Modest Proposal, gengur í skemmstu máli út á þá uppástungu að hungursneyðin í Írlandi verði leyst með því að hinir fátæku selji hinum ríku börn sín sem fæðu. Í fyrsta lagi ber að nefna að í því samhengi eru fátæklingarnir bæði raunveruleg fórnarlömb (það er að segja, þeir eru í alvöru fátækir, alvöru að drepast úr hungri) og fórnarlömb brandarans. Þeir sem „meiri völd hafa í samfélaginu“ (hvíti yfirstéttarmenntamaðurinn Jonathan Swift) voru að gera grín á kostnað þeirra sem „hafa minni völd“ (sveltandi barna). Lausnin er fáránleg, vegna þess að hún níðist á þeim sem eru minnimáttar, þeim sem raunverulega eiga bágt. Þetta á augljóslega ekki við um SORA, sem gerir atlögu upp á við – boðar útrýmingu genetískt og félagslega gallaðrar yfirstéttar.

Án þess að ég vilji líkja satíru Swifts við nauðgunarbrandara Gillz – þá vill nú samt til að þar á húmorinn það sameiginlegt að ráðast að þeim sem síst skyldi. Munurinn liggur þá í „ætlaðri ætlun“ höfundar – því sem lesandinn telur sig vita um höfundinn a) út frá almennum viðhorfum b) út frá því sem er vitað um höfundinn og c) út frá tilfinningunni sem lesandinn fær fyrir textanum. Við efumst ekkert frekar um að Gillzenegger fyrirlítur Drífu Snædal en að við efumst um að Jonathan Swift hafði samúð með fátækum. Ef að Hildur Lilliendahl hefði skrifað hina frægu bloggfærslu Gillzeneggers þá liti þetta einfaldlega öðruvísi út – þá væri textinn meira einsog Southpark en Breivik. SORI væri líka önnur bók ef að Hildur hefði skrifað hana. Hún væri enn fremur önnur bók ef Solanas hefði skrifað hana fyrir hönd karlmanns sem hataði konur og vildi útrýma þeim af yfirborði jarðar (þá fyrst gæti hún kallast „swiftian satire“). Hún beinist hins vegar að þjóðfélagshópi sem hægt er að færa nægileg rök fyrir að Solanas hafi í raun og veru fyrirlitið. Sem aftur setur hana í hóp með de Sade en ekki Swift.

Húmor er auðvitað afar misjafn. Mér var alveg jafn illt af því að lesa SORA og mér af því að lesa 2083 eða 100 daga í Sódómu – og í sjálfu sér er þetta allt merkileg verk. Samt finnst mér Jonathan Swift sniðugur og ég skil mannúðina sem hann boðar. Ég skil líka mannúðina að baki því sem William S. Burroughs skrifar – ég dýrka hreinlega Burroughs, sem er metafórískur höfundur miklu frekar en satírískur. En ég skil ekki „meinta“ mannúð Valerie Solanas. Það þarf ekkert að hrútskýra það fyrir mér („sérðu ekki hvað þetta er fyndið, margbrotið, æðislegt“) og verður ekki skárra fyrir gáfulegar umbúðirnar – ég þarf ekki á því að halda að upplifun mín af bókinni sé dregin í efa, svo ég bregði fyrir mig feminísku málfari. Valerie Solanas var ofbeldismanneskja sem færði óra sína á blað – og já orðalagið er oft krassandi og það er ekki allt sem hún segir fullkomlega út í loftið – en það sama má segja um bæði Gillz, de Sade og Hitler (en ekki t.d. um Swift – enda gengur satíran meðal annars út á að vera augljóslega skrifuð út í loftið).

Hluti af satírutúlkuninni gengur út á að orðræða bókarinnar sé spéspegill af ofbeldisorðræðu karlmanna. Vandamálið við þann hluta er að orðræða feðraveldisins er alls ekkert explisitt – hún er (yfirleitt) ekki krassandi. Orðræða feðraveldisins á miklu meira skylt við Brynjar Níelsson en Sverri Stormsker – það eru að öðru jöfnu hirðfíflin og þrælarnir sem tala í ýkjum og hrópum. Gillzenegger er þar undantekning sem hefur þurft að tóna niður orðfærið eftir að hann varð hluti af fjölmiðlastofnuninni (sem þýðir ekki að hugmyndir hans séu minna skaðlegar, eiginlega því síður). Orðræða feðraveldisins er fyrst og fremst þung og föst í skorðum og hún tekur sjálfa sig alvarlega, starfar svo gott sem aldrei í hýperbólu (og hvað sem öðru líður er SORI augljóslega ýkjurit; ég held að höfundur meini það sem hún skrifar, en hún meinar það áreiðanlega ekki alla leið, hún tekur viljandi djúpt í árinni til að særa fram tilfinningar, einsog Breivik eða de Sade eða Gillzenegger). Valerie Solanas dregur heldur ekki dám af (mun) íhaldssamari feðraveldisorðræðu síns tíma heldur einmitt róttæklingaumræðunni – frá Black Panthers, byltingarsamtökum og jafnvel nýnasistahreyfingum.

Eina hugsanlega satírutúlkunin sem mér finnst ganga upp – og er ekki jafn óhugsandi og maður gæti ætlað, í ljósi þess að Solanas varð æf að kvennahreyfingin skyldi eigna sér manifestóið – er að hún sé hugsuð sem satíra á kostnað „karlhatandi femínista“. En ég er ekki viss um að það sé það sem helstu fylgjendur satírutúlkunarinnar ætla sér að segja. Og jú, kannski að Solanas hafi ætlað að gera grín að öðrum róttæklingahreyfingum – hvort sem þar var um að ræða bítníska listamenn eða marxískt þenkjandi háskólafólk með róttæknigreddu. Fyrst og fremst held ég að Valerie Solanas hafi samt verið mjög, mjög, mjög reið – út í (einstaka) karlmenn sem beittu hana ofbeldi og urðu tákngervingar fyrir karlkynið allt. Og þessi reiði braust út meðal annars í ofbeldi – og ég tel SORA einfaldlega falla einsog flís við rass í hillu ofbeldisbókmennta.

(Ef að Hermann Stefánsson hefði ekki læst Norðanáttinni bakvið lykilorð myndi ég vísa ykkur þangað. Hann skrifaði þar góðan pistil um Solanas sem ég hefði líka endurlesið ef ég væri boðsgestur, lyklabarn.)

(það skal einnig tekið fram að lokum ég átti hlut í þeim félagsskap sem gaf bókina út – og sé ekki eftir því – SORI er vond bók, en hún er hins vegar bæði áhugaverð og hluti af menningarsögu 20. aldarinnar, og því á hún að vera til á íslensku, þótt hún sé ekki mikið fyndnari en nauðgunarbrandarar – ég hefði líka stutt útgáfu á 100 dögum í Sódómu (en kannski sett stopp við Mein Kampf)).

Sextíuogsjö: Hégómi

December 2, 2011 in Illska, Uncategorized

Ég þarf stöðugt að minna mig á að þótt erfiðlega gangi að skrifa bók – þótt það sé á köflum sársaukafullt, á köflum leiðinlegt, þótt ég reyti á mér hárið og steyti hnefann að himnum, þótt þetta sé stundum allt voðalega rómantískt, ég hérna berklaveikur að berjast við bókina sem á að bjarga og breyta heiminum, þá er ekki þar með sagt að hún sé góð, þetta sé þess virði, þetta sé nokkuð nema hégómi.

Ég reikna frekar með því að þetta sé reglan en undantekningin. Þetta sé klisjan. Og kannski hefur það meira að gera með það hvað maður heldur að maður eigi að gera, hvernig maður heldur að maður eigi að haga sér – hvernig við í þessari stétt, við með þessa sjálfsmynd, höfum hagað okkur í 3-400 ár. Mig vantar bara glas af absintu.

Stundum finnst mér líka að gáfur mínar eigi að vera meiri. Ekki svo að skilja að mér finnist ég eitthvað vitlaus – ég er meðalgreindari en Össur Skarphéðinsson og Guðni Ágústsson samanlagt – en mér finnst það skylda mín að vera gáfaðri en annað fólk, mér finnst að ég eigi að vera andlegur og vitsmunalegur risi sem gnæfir yfir samborgurum sínum (á gamla landinu). Það er víst til nóg af meðalgreindum bókum eftir fólk sem er jafnvel meðalgreindara en ég. Og hvers vegna í ósköpunum er ég að gera tilkall til þess að fólk eyði fleiri klukkustundum – jafnvel tugum klukkustunda – í að lesa það sem ég hef að skrifa ef ég hef ekkert að segja sem það gæti ekki látið sér detta í hug sjálft? Er einhver skortur á góðri afþreyingu?

Sextíuogsex: Sáttmálinn

December 1, 2011 in Illska, Uncategorized

Í greininni „Mr. Difficult“ leggur Jonathan Franzen út með að til finnist tvær tegundir af skáldskap: Stöðuskáldskapur og sáttmálaskáldskapur.

It turns out that I subscribe to two wildly different models of how fiction relates to its audience. In one model, which was championed by Flaubert, the best novels are great works of art, the people who manage to write them deserve extraordinary credit, and if the average reader rejects the work it’s because the average reader is a philistine; the value of any novel, even a mediocre one, exists independent of how many people are able to appreciate it. We can call this the Status model. It invites a discourse of genius and art-historical importance.

In the opposing model, a novel represents a compact between the writer and the reader, with the writer providing words out of which the reader creates a pleasurable experience. Writing thus entails a balancing of self-expression and communication within a group, whether the group consists of “Finnegans Wake” enthusiasts or fans of Barbara Cartland. Every writer is first a member of a community of readers, and the deepest purpose of reading and writing fiction is to sustain a sense of connectedness, to resist existential loneliness; and so a novel deserves a reader’s attention only as long as the author sustains the reader’s trust. This is the Contract model. The discourse here is one of pleasure and connection. My mother would have liked it.

Hann nefnir síðan að til séu skáldsögur sem hefja sig yfir þetta – t.d. Pride and Prejudice – og heldur síðan út í langhund um bækur Williams Gaddis og þá sérstaklega The Recognitions, sem er hryllileg og erfið og fáránleg og tæplega þúsund síður, en hann naut engu að síður – þótt hann sé sjálfur sáttmálalesandi en ekki stöðulesandi og hafi m.a.s. gefist upp á Don Kíkóta (sem er bara 800 blaðsíðna endurtekin skrítla og ekki meira krefjandi lestur en hver annar krimmi, þótt hún sé kynngimögnuð).

Þessi skipting er áhugaverð vegna þess að hún er svo algeng. Ég held að við lítum meira og minna öll á okkur sem sáttmálalesendur eða stöðulesendur. Ég myndi kalla sjálfan mig óforbetranlegan heilsubótarlesanda, þrátt fyrir að ég hafi ítrekað haldið því fram að bækur séu ekki vítamín og við eigum ekki að njóta þeirra einsog þær væru það – en þegar það er búið að fletta af mér snobbinu er ég samt sáttmálalesandi. Ég vildi óska þess að ég væri minna snobb, ekki jafn upptekinn af því að næra sjálfan mig – en það er kannski öfgafullt og ofbeldisfullt viðbragð við því að búa í heimi sem mér finnst að sinni ekki sjálfum sér. Að búa í heimi þar sem börn horfa á Latabæ (það liggur við að ég myndi heldur gefa syni mínum rafgeymasýru en Latabæ).

En þetta er líka flóknara módel en virðist í fyrstu. Stundum er sáttmálinn sem við gerum við bækur sá að þær standist einhverjar uppljómunarkröfur sem einungis krefjandi bækur eru færar um að veita.

Naked Lunch uppfyllti þann sáttmála sem ég gerði við hana þegar ég settist niður til að lesa hana (í fimmta sinn; hin fjögur voru katastrófísk).

Í gærkvöldi gafst ég upp á The Stand eftir Stephen King – eftir að vera búinn að lesa í henni sem nemur einni venjulegri skáldsögu (eða tíu prósent af þessari extended version director’s cut). The Stand er sú bók sem Stephen King aðdáendur elska heitast. Og ég ætlaði að endurupplifa eitthvað – ég hef ekki lesið Stephen King í næstum því 20 ár en ég er í tilvistarkreppu og er að leita að neistum. Og fann hann ekki og er hættur. Nenni þessu ekki – ekki frekar en ég nenni að lesa Ulysses (sem ég er alltaf alveg að fara að gera).

Ég las Moby Dick – þrælaði mér í gegnum hana. Og þótt mér hafi þótt hún leiðinleg svo gott sem allan tímann þá hefur mér þótt gott að hafa lesið hana, áhugavert að hugsa um hana eftir á.

Ég sporðrenndi Dexter skáldsögunum í fyrra. Þegar ég var í Visby að skrifa yfir jól og áramót – einn í bænum og þurfti að flýja eitthvert á kvöldin. Ég hef stundum horft á þættina og þótt þeir ágætir. Og ég las alveg bækurnar, þær voru spennandi – en mér leið svolítið einsog ég hefði étið yfir mig af Maarud flögum.

Dexter og Moby Dick sviku báðar sáttmálann, hvor á sinn mátann. Og heilsubótarsjónarmiðið á kannski við hérna – Moby Dick var vond á bragðið en ægilega holl, Dexter var sykursætur en hryllilega óhollur.

Ég nenni ekki að lesa Dickens eða Austen – bækur þeirra standast ekki mína sáttmála. Mér finnst þetta bara leiðinlegt. Og því fylgir óorðuð krafa um að ég biðjist afsökunar á að finnast þetta leiðinlegt. En ég þráast við og biðst ekki afsökunar.

Ég hef enn ekki þrælað mér í gegnum Hómer – þótt ég hafi byrjað og fundist sumir dagar stórkostlegir (en flestir einhvern veginn bara vinna).

Óvíd er líka uppi í hillu. Kominn úr plastinu – en ekkert meira.

Ég nota bókmenntasöguna fyrir púlt. Ásamt þúsundogeinninótt í þremur bindum (sem ég sporðrenndi fyrir rúmum þremur áratugum og fannst stórkostleg) og Apakóngi á silkiveginum (sem ég hef gluggað í og notið) og Einari Ben (bleee…). Fyrst og fremst er þetta þó púlt, svo ég geti staðið við vinnuna.

Freedom eftir Franzen stóðst sáttmálann – þótt ég hefði margt út á hana að setja. Hún var hvorki óholl né leiðinleg, heldur holl og skemmtileg þótt hún væri ekki tiltakanlega frumleg eða lífsbreytandi.

De Sade er bara þreytandi viðbjóður. Líka SCUM. Líka 2083. Það má mín vegna taka þessu tongue-in-cheek eða af einhverjum irreverens en karlabækurnar eru fyrst og fremst þreytandi ofbeldissýki og kellingabókin hefur sér það helst til málsbóta að vera mjög stutt. Bækur geta verið vondar og þetta eru vondar bækur.

Ég hef lesið reiðinnar býsn af ljóðum sem mér finnast leiðinleg – en heilsubótarlestur er það ekki. Ég les til að finna þessi fáu góðu. Einsog maður grefur sig ofan í kompóstið af því maður henti óvart jólaskinkunni (en ekki vegna þess að maður vilji éta kaffikorginn og bananahýðið).

Það er tilviljunum háð hvað stenst sáttmálann. Hvað upplýsir mig, kætir mig, tengir mig öðru fólki og ristir sundur einmanakenndina.

Vinir mínir stinga upp á bókum sem mér þykja leiðinlegar. Amazon stingur upp á bókum sem mér þykja leiðinlegar. Ég fæ gefins bækur sem mér þykja leiðinlegar. Fólk dásamar bækur sem mér þykja leiðinlegar. Ekki alltaf en oft.

Þetta er farið að hljóma einsog mér finnist allar bækur leiðinlegar. Það er ekki satt. Mér þykja langflestar bækur alltílagi og jafn margar góðar og mér þykja vondar. En kannski hef ég meiri faglegan áhuga á leiðinlegum bókum. Hvers vegna er bók leiðinleg? Hvers vegna er hún vond, ill – getur bók skemmt manneskju? Getur góð bók logið? (Ég held það, raunar er ég viss um að góð bók getur logið, getur skilið við lesandann vitlausari og verri).

Og ekki vil ég að vinir mínir, Amazon eða bókabúðarstarfsmenn, bókagagnrýnendur, hætti að stinga upp á góðum bókum við mig.

Ég naut þess að lesa Atlas Shrugged – beinlínis af skemmdarfýsn. Ég var farinn að hata bókina eftir tíu blaðsíður (af ríflega þúsund) og mér fannst hreinlega gaman að hata hana, gaman að leyfa mér að hrífast með fyrirlitningunni – einsog manni finnst maður réttlátur að hata fasista. Ég er ekki viss um að það sé hollt, en í einhverjum skilningi stóðst hún samt sáttmálann.

Ég þoldi ekki að lesa Hreinsun eftir Oksanen, fannst það hryllilegt. Vegna þess að nærri því allir sem stóðu mér næst höfðu lesið hana og þótt hún frábær. Og mér fannst hún ógeð. Ég reif hana í mig af skyldurækni – bæði fannst mér ég þurfa að orða það gagnvart sjálfum mér hvers vegna hún væri ógeð (einsog mér mætti ekki finnast það nema ég kæmi því í orð) og svo þyrfti ég hreinlega að vara annað fólk við. Einsog hlutverk gagnrýnandans sé neytendavernd.

Stundum verð ég fyrir því að lesa bækur af skyldurækni, stundum eyðileggur skylduræknin fyrir mér bækurnar. Ég hætti að lesa 2666 eftir Bolaño eftir tvær bækur (hún er fimm eða sex) vegna þess að mér fannst að ég ætti að lesa hana – og vegna þess að ég átti að lesa hana var ég ekki að lesa hana fyrir sjálfan mig lengur heldur fyrir einhvern annan, eitthvað samfélag. Ég held hún sé góð – ég þóttist sjá að hún væri bæði góð og skemmtileg. En ég náði því samt ekki, tengdi ekki.

Ég hef aldrei lesið Sjálfstætt fólk af einmitt þeim sökum. Ég á að lesa hana. Það er ófyrirgefanlegt að lesa hana ekki. Og óhugsandi að ég geti notið hennar.

Ég byrjaði aftur á Karamazov bræðrunum um daginn. Ég las hana síðast í menntaskóla – þegar ég reif í mig Dostojevskí af fullkominni og heiðarlegri og ungæðislegri áfergju. Núna gafst ég upp eftir 10-20 blaðsíður.

Fáa höfunda hef ég lesið af jafn mikilli nautn og Bukowski. Þegar ég var 17-18 ára. Kannski er það aldurinn – en ég held það sé líka bara hitt að maður klárar Bukowski. Ef maður nær kontakt við hann þá les maður hann upp til agna og þegar maður er búinn að því les maður hann aldrei aftur eins – það verður alltaf einsog að tala við gamla kærustu sem maður skilur ekki hvað maður sá við (og hugsar með sér að maður hafi verið óttalega vitlaus, en maður var ekki endilega vitlaus, maður var bara annar).

Ég las Saturday eftir McEwan nýlega. Hún situr í mér þótt ég þoli ekki stílhreinsaðar skáldsögur. Kannski vegna þess að það gekk upp með þessa anal söguhetju. En allavega – það sem ég man mest er eldamennskan. Hvað hann kastar miklu af lauknum. Sker djúpt og flettir hann í sundur svo helmingurinn fer í ruslið. Mér verður í alvöru hugsað til þessa svo til daglega.

Ég byrjaði að endurlesa Réttarhöldin eftir Kafka um daginn – lýsti því yfir á Facebook að fólk ætti stöðugt að lesa Kafka, aftur og aftur og aftur, sérstaklega vinstrimenn, hann lýsti því einhvern veginn, næði einhverjum tökum á einhverjum grundvallarfeil í pólitískum samskiptum – 20. öldin fór öll í að endurtaka Kafka og 21. öldin virðist ætla að vera eins. Ég hætti samt sjálfur eftir 40 blaðsíður og sneri mér að öðru.

Fight Club kom mér á óvart. Ég hélt hún væri meira léttmeti.

Stranger in a Strangeland reyndist meira léttmeti en ég hafði haldið. Og furðulegri. Yndislega furðuleg hugsun. Sexploitation sci-fi hippismi.

Disgrace eftir Coetzee er næstum því jafn mikilvæg og Kafka.

Orlando var einsog draumur – ég man ekki nema helminginn en tilfinningin sem situr eftir hana er ótrúleg.

Ég les Margaret Atwood. Steinar Bragi verður hissa í hvert skipti sem ég segi honum þetta. Hann segir alltaf: Hvað ert þú að lesa Margaret Atwood? Einsog það sé eitthvað sem annað fólk eigi að gera. Einsog ég megi það ekki. Ekki það – ég hef reyndar bara lesið tvær bækur eftir hana. En mér þóttu þær góðar.

Candide eftir Voltaire – ef ég ætla að lesa klassík vil ég að það séu kómedíur. Candide og Don Kíkóti og svona. Skemmtilegar bækur. Án langra og leiðinlegra lýsinga á engu.

Ég reyndi að lesa eina bók eftir Terry Pratchett – hún stóðst ekki væntingar mínar og ég hætti. Ég hafði þá lesið eina eftir Neil Gaiman og Terry Pratchett saman og fannst hún mjög skemmtileg, svona Hitchhiker’s Guide skemmtileg. Ég las líka einu sinni nokkrar bækur eftir Ben Elton. Og fannst þær skemmtilegar.

Ég hef ekki lesið nýja íslenska bók í tvö eða þrjú ár. Sem er voðalegt.

En hér er ekkert niðurlag. Þetta er ekki niðurlag. Það er hér sem bloggfærslunni lýkur. Ég þarf að fara að horfa á sænska jóladagatalið. Bæ.

Sextíuogfimm: Tilgangsleysið

November 30, 2011 in Illska, Uncategorized

Að finnast allar sögur vera litlar og ómerkilegar.

Gisnar.

Sundurlausar.

Hégómlegar.

Tilgangslausar.

Að finnast deginum betur varið í að fara í langan göngutúr. Ekki til að hugsa, endilega. Kannski bara til að halda blóðinu á hreyfingu svo maður drepist ekki.

Að finnast jólahreingerningin ekki getað beðið.

Ég lagði Illsku frá mér fyrir tveimur vikum og hef síðan skrifað hálfa stutta skáldsögu. Ég skrifaði hana í ofboði vegna þess að ég var að flýja Illsku. Nú er ég byrjaður að uppfæra heimasíðuna mína, vaska upp, taka upp Eitur fyrir byrjendur á hljóðbók, skrifa tölvupósta, leika mér að símanum mínum, baka brauð … til þess að forðast að skrifa bókina sem ég er að skrifa til þess að forðast að skrifa bókina sem ég er að skrifa.

Kannski eru allar skáldsögur skrifaðar á flótta. Að minnsta kosti allar mínar.

Suma daga skil ég fólk sem segir að þetta sé skemmtileg vinna. En ég er ekki viss um að þeir dagar séu fleiri en hinir, þegar ég vildi óska þess að ég starfaði við eitthvað annað. Ég væri bóksali, tímaritstjóri, verkamaður. Við látum á tyllidögum einsog bókmenntir séu eina næringin sem skiptir máli en mér finnst oftast bara einsog þær séu að kremja mig til dauða.

Á eftir fer ég út í skemmu að boxa. Einsog aðra miðvikudaga, lýg ég (en ég ætla að fara alla miðvikudaga, einsog ég ætla í sund með fjölskyldunni alla laugardaga og elda eitthvað sérlega spennandi og tímafrekt alla sunnudaga). Boxa poka, nota bene, ekki fólk. Þar er ekki beinlínis gott að hugsa en það er ágætis staður til þess að tortíma þeim hugsunum sem eru að þvælast fyrir manni. Ágætis staður til að hreinsa höfuðið.

Það er meiri heift í þessum flótta en leiði.

Á morgun þarf ég að vinna betur en í dag, betur en í gær og betur en í fyrradag. Betur en á föstudag og fimmtudag. Ég þarf að vinna jafn vel og vikurnar þar á undan. En ég veit ekki hvort ég ætti heldur að vinna við Illsku eða bókina sem gengur undir vinnuheitinu „stutt, hröð dystópía“. Mín bíður líka ljóðabók og sundurglósað leikrit. Grein fyrir Klassekampen. Óskrifað ávarp fyrir rithöfundaþing norðursins í janúar. Í dag las ég yfir leikgerð af Eitur fyrir byrjendur sem Erlingur Grétar Einarsson gerði, bráðum les ég yfir þýðingu á sömu bók yfir á sænsku. Ég segi stundum við sjálfan mig að ég vildi að ég hefði ritara, vefhönnuð og umboðsmann til að sjá um allt þetta vesen fyrir mig. En það er ekki heldur satt. Ég myndi drepast úr hræðslu ef ég hefði ekkert athvarf til þess að fela mig fyrir óskrifuðu bókunum mínum. Og einhvern veginn hef ég aldrei byrjað að skrifa bók sem hræðir mig jafn mikið og Illska – vegna þess að ég skil hana ekki og kann ekki að skrifa hana og sé ekki fram á að það breytist neitt.

Og þess vegna verð ég reiður. Þess vegna legg ég á flótta. En kannski get ég ekki án flóttans verið. Kannski þarf ég bara að geta setið hérna og starað út í loftið. Kannski er ég að melta og gerja og guðveitekkihvað án þess að ég hafi hugmynd um það – án þess að mér finnist ég gera annað en andskotann ekki neitt (og þá tel ég ekki með þetta að hella upp á meira kaffi og stara út um gluggann til að kvarta undan því hvað dimmir snemma, að hér sé alltaf myrkur).

Sextíuogfjórir: Pólitískar heimsóknir í Kiljunni

November 24, 2011 in Illska, Uncategorized

Við skulum hafa þetta stutt, ég er tímabundinn. En mig langar að merkja þetta í dagbókina.

Fyrir nokkrum vikum birtist Steinunn Sigurðardóttir í Kiljunni og dásamaði Huang Nubo, fyrrverandi áróðursstjóra í Kína og margmilljarðamæring – sem hún heimsótti ásamt fleirum á ljóðahátíð á dögunum. Í boði hans (og allt sem er í boði kínverskra margmilljarðamæringa er augljóslega líka í boði kínverska ríkisins – þar eru ekki skörp skil á milli).

Í gær kom Ingunn Snædal, sem var í ferðinni með Steinunni, í sama þátt og hló að því að hún hefði ekki þorað að segja pabba sínum að hún væri að fara í boði þessa manns. Á meðan hún sagðist ekki vera pólitískt þenkjandi, bara ekki þannig týpa.

Það var ekki boðið upp á neitt perspektíf, enga krítík – og Egill spurði það ég man ekki heldur neinna ágengra spurninga (ef svo var þá viku gestir sér a.m.k. undan fimlega).

Í öllu falli. Þátturinn í gær hófst á því að Kolbrún, Páll og Egill líktu nánast við barnsmorð ferðum módernískra skálda (og annarra sósíalista) til Rússlands fyrir hálfri öld. Til að komast í sólarlandaferðir til Svartahafsins, sagði Páll, og þótti greinilega mjög ómerkilegt. Þau hlógu að vísu svolítið en undirtónninn var þungur; fólk var samsekt í ógeðinu – þvær ekkert af sér kommúnismann og trúna á Stalín.

Það finnst kannski engum nema mér að þessu felist einhver þversögn. En mér finnst þetta svo skrítið að ég hef ekki undan við að hrista höfuðið, finnst einsog ég hljóti að vera lasinn, eitthvað að misskilja. Heimurinn er svo geðklofinn.

Ég minni annars bara á þessa grein, sem var skrifuð þegar kínversk-íslenski ljóðasjóður Nubos var standsettur – þarna er meira um afstöðu mína til þessa máls – en greinin er úr bókinni Booby, Be Quiet! (sem fæst hér sem rafbók gegn frjálsu framlagi eða á prenti frá finnska forlaginu poEsia).

Sextíuogþrír: Alræði plotts

November 17, 2011 in Illska, Uncategorized

Ensk-íslenska orðabókin þýðir nafnorðið „plot“ sem söguþráð, fléttu. Þegar flett er upp á söguþræði í bókinni Hugtök og heiti í bókmenntafræði er vísað á orðið föflu. Plot er þannig fafla, flétta. En fafla og flétta eiga við sitthvorn hlutinn.

Fafla: sem bókmenntafræðilegt hugtak á fafla ættir að rekja til rússnesku formalistanna og síðar þeirra fræðimanna sem kenndir hafa verið við nýrýni. – Fafla er efniskjarni atburðarásar í frásögn af einhverju tagi; aðalatriði sögunnar án þess að þau séu tengd ákveðnum einstaklingum, tíma eða umhverfi, rakin í réttri tímaröð (þ.e. án tillits til sögutíma verksins).

Flétta: Gagnstætt föflunni er flétta sértæk atburðarás frásagna: atburðir þeirra í sömu röð og þeir koma þar fyrir, tengdir tilteknum einstaklingum, stað og tíma. [...] Síðari fræðimenn hafa skipt fléttum í ytri og innri fléttur: ytri flétta varðar skiptingu verksins í kafla, erindi og þætti og efnisflokkun þessara eininga í stærri heildir. Innri flétta varðar fyrst og fremst röklega byggingu; orsakasamhengi milli viðburða. Henni er oft skipt í kynningu aðstæðna, flækju og lausn; þessi skipting er einkum gagnleg við leikrit.

Það er gjarnan nefnt bókum til lasts að þær séu ekki plottaðar – höfundur beri ekki næga virðingu fyrir fléttunni, söguþræðinum (en faflan er þó sjaldan nefnd, þótt flestir þeir sem tala upphátt um bækur séu með einhvers konar gráðu í bókmenntafræði). Í einhverjum skilningi – kannski eina raunverulega bókstafsskilningnum – eru auðvitað allar bækur plottaðar. Og í einhverjum skilningi (sama skilningi? öðrum skilningi?) eru það kannski síst þær bækur sem kallast „vel plottaðar“ – þær sem drifnar eru áfram af gátu sem miðar að lausn og fullnægju – sem bera mikla „virðingu“ fyrir söguþræði eða sýna honum alúð (nema maður kalli hlýðni virðingu, sem ég geri ekki). Ef maður leyfir sér þennan skilning (/þessa skilninga) getur maður jafnvel fullyrt að Í leit að glötuðum tíma eftir Proust sé miklu betur plottuð bók heldur en Austurlandahraðlestin eftir Christie – þótt sú fyrri fjalli um mann sem fer varla framúr rúminu en sú síðari sé æsispennandi morðtryllir.

Það er fullkomlega ómögulegt að skrifa nokkuð sem ekki hefur söguþráð – meira að segja í orðalausu bulli er (með góðum vilja) greinanlegt plott – og það er svo sannarlega ómögulegt að skrifa atburðarás sem hefur ekki söguþráð. Þótt eitt reki annað einsog fyrir tilviljun þýðir það ekki að söguþráður sé ekki til staðar eða einu sinni að hann sé lélegur, það hafi lítið verið í hann lagt (það getur vel verið að svo sé, það getur meira að segja verið vísbending um að svo sé, en það er ekki sönnun þess).

Ég ætla að leyfa mér að setja fram þá tilgátu að þegar fólk segi bækur ekki nægilega vel plottaðar, það sé ekki nógu mikill söguþráður í þeim, eigi það við að bækurnar séu ekki nógu spennandi. En ég held að spenna þyki almennt ekki nógu fín til að maður hafi mikið orð á henni. Kannski er það vegna þess að á íslensku er ekki gerður greinarmunur á „excitement“ – tryllisspennunni – og „suspense“ – krimmaspennunni, óvissuspennunni.

Ég hef þýtt nokkra alþjóðlega metsölukrimma. Sú vinna leiddi mér í ljós að tryllisspennan snýst um að láta ekkert gerast á meðan einhver heldur á byssu. Hver senan rekur aðra þar sem einhver dregur upp byssu og miðar á söguhetjuna á meðan við bíðum. Í einni senu sem ég þýddi fílósóferaði harðjaxlinn um byssurnar sem miðað var á hann í nærri því tíu blaðsíður – það voru reyndar margar byssur og hann fór í gegnum þær allar, rifjaði upp hvar hann hafði séð slíkar byssur fyrst, hverjir væru þeirra helstu kostir og gallar. Loks var ein deyfibyssa sem minnti hann á náttúrulífsmynd sem hann hafði séð fyrir langa löngu á einhverju móteli – og hann rifjaði upp hvernig björninn hafði lyppast út af la tí da og la tí da. Svo í lok kaflans var hann skotinn með deyfibyssunni og lognaðist út af (cliffhanger!).

Í bókinni Í leit að glötuðum tíma er fræg sena af magðalenukökunni sem setur upprifjun höfundar í yfirgír, kallar fram ólíklegustu minningar. Það eina sem skilur að Proust og tryllisspennuna er byssan. Ef einhver hefði staðið yfir sögumanni Prousts með byssu þegar hann fékk magðalenukökuna, þá hefðu allir skitið í sig af spenningi.

Óvissuspennan er náskyld tryllisspennunni. Í sinni einföldustu mynd er hún whodunnit – bók byrjar á morði og er drifin til enda á spurningunni: hver framdi morðið. Stundum er tryllisspennunni blandaði í – og þá byrjar bókin á því að einhver er freimaður fyrir morð. Sá hinn sami er þá á flótta alla bókina á meðan hann Erlendar lausnina. Það er svo gott sem alltaf einhver óvissuspenna – sé manni ekki alveg fullkomlega nákvæmlega sama um söguhetjurnar er maður alltaf að minnsta kosti pínu forvitinn hvað gerist hjá þeim næst, jafnvel þótt allt virðist í stakasta lagi og ekkert útlit fyrir annað en kósí hversdagslíf. Óvissuspennan verður síðan meiri eftir því sem ójafnvægið er meira, eftir því sem meira rask er á lífum sögupersóna (að því gefnu að okkur standi á sama um þær, auðvitað).

Óvissuspennunni fylgir auðvitað fyrst og fremst bið – „suspense“; „suspended animation“ – og kannski vangaveltur í bland. Það er eitthvað sem við vitum ekki, svo gerast 300 blaðsíður og loks vitum við það. Á þessum 300 blaðsíðum þarf að gerast eitthvað áhugavert. Í reyfara fylgir því yfirleitt að farið er frá einum punkti til annars (og hér getur verið ágætt að muna að það að reikna hnit heitir á ensku „to plot coordinates“), ein vísbending kallar á þá næstu og þannig koll af kolli þar til (sögu)þráðurinn hefur allur verið rakinn upp. En það er í sjálfu sér ekki nauðsynlegt. Það er að verða æ vinsælla að þessar 300 blaðsíður séu fylltar með sögulegum fróðleik eða trúarlegum vangaveltum eða einhverju táknfræðibulli – einhverri skemmtun sem látið er sem hafi eitthvað með lausn glæpsins að gera en er oft meiri detour en annað (og þarf ekki að vera neitt af því, á meðan detourinn er góður, merkingarbær). Og í Glæp og refsingu – sem er ægilega spennandi bók, þrungin óvissu – gerist ekkert frá því að Raskolnikov drepur gömlu konuna nema að hann vorkennir sjálfum sér og delerar eitthvað um gott og illt í 400-500 blaðsíður – áður en hann að lokum [SPOILER FJARLÆGÐUR].

Fyrst gerist eitthvað, svo gerist ekki neitt á meðan við höldum í okkur andanum. Svo er okkur fullnægt og við snúum okkur að öðru.

Sumar bækur innihalda svo gott sem ekkert nema spennuna, ekkert nema cliffhangera, og hafa sér ekkert annað til ágætis en að þær er ekki hægt að leggja frá sér. Ég lenti í þessu með Da Vinci lykilinn – las hana til enda, þrátt fyrir að mér þætti hún víðáttuvitlaus, illa skrifuð, heimsk og vond. En mér fannst hún spennandi. Og mér leið einsog mér hefði verið nauðgað í forvitnina á eftir og sór þess dýran eið að taka aldrei upp bók eftir þennan mann aftur (og hef staðið við það). Að þýða svona bækur er síðan einsog að láta nauðga sér í forvitnina mjög hægt og mjög lengi.

Og svo eru aðrar bækur sem eru mjög óspennandi en afskaplega gefandi – en það er líka djöfuls fantaskapur að rumpa sér í gegnum þær stundum. Og stundum rembist maður og rembist og fær ekkert út úr því – annað hvort vegna þess að maður er of vitlaus eða of latur eða of þreyttur eða af því að bókin er bara feik. Úr því fæst víst sjaldnast skorið.

Ég hef stundum gefið fullkominn skít í að draga lesandann í gegnum bækurnar mínar – og lagt alla þá ábyrgð á herðar lesandanum, breytt honum úr þolanda í geranda, þvingað hann í nýtt hlutverk án þess að spyrja leyfis – en ég er alltaf að verða meðvitaðri og meðvitaðri um þá skyldu eða nauðsyn að skemmta fólki með fleiru en merkikertalátunum í mér (ég sýni samt enga miskunn á blogginu, hér röfla ég og ræð algerlega einn, þetta er tól en ekki ritgerð, mónómanískur mónólóg).

Sextíuogtveir: Tungumál fasismans

November 16, 2011 in Illska, Uncategorized

Þau eru ófá hugtökin og tilfinningarnar sem [mál nasismans] hefur svívirt og eitrað! Í svokölluðum kvöldmenntaskóla Alþýðuháskólans í Dresden og í umræðunum sem Kulturbund [Menningarsambandið] og Freie Deutsche Jugend [Frjáls þýsk æska] efndu til hef ég hvað eftir annað tekið eftir því að unga fólkið heldur í sakleysi sínu fast við nasískt hugarfar þó það leggi sig fram um að fylla upp í götin og eyða villunum í bágborinni menntun sinni. Þau vita ekkert af því; leifar af málnotkun tímaskeiðsins, sem er að baki, ruglar þau í ríminu og villir þeim sýn. Við töluðum um merkingu menningarinnar, mannúðar, lýðræðis, og mér fannst að það væri að kvikna ljós, margt væri að skýrast í þessum góðviljuðu höfðum – og þá, það hlaut auðvitað að koma að því, það varð ekki umflúið, þá fór einhver að tala um hetjulega afstöðu eða hetjulega andspyrnu af einu eða öðru tagi eða hetjuskap yfirleitt. Á sama andartaki og þetta orð bar á góma, hvarf allur skýrleiki og við sátum aftur inni í þoku nasismans miðri. Ungu mennirnir sem voru nýkomnir heim af vígvellinum eða úr fangavist og fannst lítið tillit til sín tekið, hvað þá að þeim væri fagnað, voru ekki þeir einu sem voru bundnir af mjög vafasömum skilningi á því hvað væri hetjuskapur. Nei, sama var að segja um stúlkurnar sem höfðu ekki gegnt neinni herþjónustu. Það eina sem fór ekki milli mála var að ekki var nokkur leið að skilja eðli mannúðar, menningar og lýðræðis, ef menn hugsuðu um hetjuskap á þennan hátt eða nákvæmar orðað, höfðu slíkar ranghugmyndir um hann.

En við hvaða aðstæður hafði þessi kynslóð, sem varla var búin að læra stafrófið árið 1933, komist í kynni við orðið hetjulegur og allan frændgarð þess? Því var frekast til að svara að orðið var aldrei borgaralega klætt heldur alltaf einkennisklætt

LTI – Minnisbók Fílólógs – Victor Klemperer
Þýðing María Kristjánsdóttir
.

Það er rétt að árétta þetta: Það hefur enginn, það best ég veit, haldið því fram að Framsóknarflokkurinn fasistaflokkur. Eiríkur Bergmann hélt því fram að Framsóknarflokkurinn hefði gefið nokkrum, tilteknum og þekktum fasískum töktum undir fótinn. Það hefur enginn haldið því fram að Framsóknarflokkurinn hafi einkarétt á fasískum töktum – og ég hef sjálfur reynt að benda á hversu víða þeir leynast. Ég efast ekkert um að Eiríkur Bergmann er marginnviklaður í íslenskt stjórnkerfi og flokkapólitík og hefur sínar eigin skotgrafarskoðanir á því hverjum maður líkir við fasista og hverjum ekki – en það gerir ekki greiningu hans sem slíka ranga (þótt hún hefði gjarnan mátt vera víðtækari/almennari).

Það er rétt að árétta líka þetta: Það er (stór og mikill) munur á því að gera Adolf Hitler að fyrirmynd lífs síns í einu og öllu og að láta sér vaxa yfirvaraskegg. Það þýðir ekki að ekki sé til tiltekin týpa af skeggi sem flestir kalla einfaldlega hitlersskegg (en kallaðist þar áður chaplinskegg og þar áður tannburstaskegg) – að mörgum þyki það ósmekklegt og það sé jafnvel í einhverjum skilningi tákn um hryllilega atburði í til þess að gera nálægri fortíð. Og það þýðir ekki heldur að það skipti engu máli hver lætur sér vaxa skeggið – Michael Jordan komst upp með það en var skammaður dálítið. Larry Bird hefði aldrei nokkurn tíma átt afturkvæmt í sviðsljósið. Gerhard Schröder hefði verið tekinn af lífi. Vegna þess að skeggið hefur mismunandi þýðingu eftir því hver ber það og hvar.

Eitt af vandamálunum við fasismann, helförina, Hitler – er að við höfum gert þessi element svo fjarlæg okkur, þau tilheyra næstum því öðrum víddum, og við gleymum því hversu hversdagsleg þau voru. Við gleymum því að þetta var fyrst og fremst frekar normalt fólk. Lúðar. Stertimenni. Rugludallar. Ábyrg séntilmenni. Og allt þar á milli. Þetta voru ekki forsögulegar skepnur. Þetta var bara fólk einsog ég og þú.

Eiríkur [Bergmann] er glöggur en ég held samt að við eigum að fara varlega með orð eins og „fasisma” – slík orð verða að merkja eitthvað svo að við getum brugðist við þeirri stefnu þegar hún skýtur upp kollinum. Þótt Framsóknarmenn bauli Ísland er land þitt á fundum og mæni á glímumenn hnykla vöðvana með íslenska fánann eru þeir ekki þar með orðnir að fasistum.
Þeir eru bara skringilegir.

Skrifar Guðmundur Andri í ágætis grein á Vísi. En það er líka einmitt þetta sem fasisminn er. Hann er skringilegur, furðulega yfirgengilegur einhvern veginn. Fullkomlega hallærislegur. Og hann var það líka – fyrir öllum sem utan við hann stóðu – í Þýskalandi árið 1929. Félagasamtök Hitlers stóðu fyrir hverju fáránlega ritúalinu á fætur öðru og það tók það enginn alvarlega, það táraðist enginn af þjóðernisást, nema þeir sem tóku þátt, það reiknaði heldur aldrei neinn með því að þeir hefðu neitt um þýska pólitík að segja fyrren alltíeinu að það gerðist.

Sem þýðir ekki að Sigmundur Davíð sé öfgasinnaður stjórnmálamaður – hvað þá morðóður geðsjúklingur eða hann eigi eftir að breytast í einn slíkan. Hann er fyrst og fremst bara óttalegur kjáni.

En það má líka benda á að það er í hinni hófsömu stjórnmálastarfsemi – sem stýrir bjúrókrasíunni – sem mikið af versta og ljótasta „fasismanum“ á sér stað. Kerfisbundnu óréttlæti – hvort sem þar er um að ræða þann lagaramma sem styður við einkaleyfi á lyfjum sem gætu bjargað hundruð þúsund mannslífa (fyrir skít og kanil) eða þann sem heldur 90 milljón flóttamönnum á vergangi án aðgengis að hreinu vatni eða viðheldur stéttskiptingu og fátækt eða ræktar smáborgaralega fordóma eða réttlætir stríðsrekstur, þrælafataverslun, og vinnuleiguánauð – er viðhaldið af Sigmundum Davíðum. Og það jafnt þótt þeir gelti aldrei að það eigi að drepa alla Gyðingana. Helfarir dagsins fara ekki fram með offorsi (enda slíkt bara í boði á stríðstímum, einsog Hitler var líka mjög ljóst) heldur með þögulu og viðvarandi samþykki við því að óréttlæti megi réttlæta með því að benda á lagatexta – sem virðast spretta fullskapaðir og óbreytanlegir úr djúpinu. Æi, Dublinsamkomulagið, best þú deyir. Það stendur. Við sendum fólk aftur til þrælahaldara sinna, vegna þess að það getur ekki sýnt fram á stimplaða pappíra þess efnis að þeim verði nokkuð meint af því. Það tekur kannski lengri tíma að drepa smælingjana og hottintottana með þessum aðferðum en að gasa þá, skjóta eða þræla þeim á slig – en það hefst nú samt á endanum.

Og það má líka benda á hversu mikill bjúrókrataflokkur þýski nasistaflokkurinn var – þegar þeir gerðu innrásina í Sovétríkin gáfu þeir hermönnum sínum sérstakt leyfi til þess að haga sér einsog illmenni, að fara um með morðum og ofbeldi og þyrma engum. Og réttlættu það með því að Sovétmenn hefðu aldrei skrifað undir Genfarsáttmálann og því væri ekkert sem héti stríðsglæpir innan landamæra Sovétríkjanna. Lögin eru lögin eru lögin. Og þannig tókst nasistum til dæmis að útrýma 70% af öllum litháískum gyðingum – hálfu ári fyrir Wannsee-ráðstefnuna.

Sem gerir samt ekki Sigmund Davíð að Hitler. Þeir eru líka báðir með tvo fætur, munn og tvö augu … þeir eiga báðir ýmislegt sameiginlegt með Gandhi og Móður Teresu, Ómari Ragnarssyni og Tyrkja-Guddu.

Ekkert af þessu þýðir heldur að aðrir stjórnmálaflokkar eða aðrir stjórnmálamenn taki ekki allt eins mikinn þátt í leiknum. Það segir enda ekkert um notkun fasískra takta í Framsóknarflokknum hvort að Samfylkingin eða VG beitir þeim eða ekki. Ein breytan hefur engin áhrif á hina. Og í sjálfu sér er líka ágætt að minna á að Framsóknarflokkurinn er hvorki stjórnmálahreyfing á borð við nasistaflokkinn né Sverigedemokraterna – hann er einfaldlega öðruvísi. Og eitt af því ótal marga sem skilur þessar hreyfingar að er að Sverigedemokraterna gætu varla leyft sér að halda opinberar fánahyllingar – einmitt vegna þess að stefna þeirra er svo nátengd útlendingahatri. Þeir eru að berjast fyrir því að teljast húsum hæfir. Nú er öllum sem fylgjast með alveg ljóst að Sigmundur Davíð hefur á undanförnum misserum verið að gæla við að sækja atkvæði útlendingahatarana – þau atkvæði sem liggja á lausu eftir að Frjálslyndi flokkurinn tortímdist – og hefur minna að gera með fánahyllingar og fasísk tákn en klassíska xenófóbíu í bland við tækifærismennsku (sem eru kannski bæði líka fasískir taktar). Og ef hann ætlar að halda áfram á þeirri braut – þegar og ef hann verður farinn að tala einsog Magnús Þór Hafsteinsson, Jón Magnússon eða Viðar Guðjohnsen, þá verða fánahyllingarnar líklegast algert tabú.

Ég kem alltaf aftur að Victor Klemperer – og ekki að ástæðulausu. Þegar hann, í stórmerkri bók sinni, greinir fasíska þætti tungumálsins, sirka frá því að nasistar ná völdum í Þýskalandi, þá undanskilur hann ekki þá sem eru ekki fasistar. Einmitt vegna þess að tungumálið er alls staðar. Táknmálið er alls staðar. Hann bendir þannig á að fyrir tíð Hitlers hafi Þjóðverjar (og þýskir gyðingar) sjaldan talað um gyðinga sem þjóð – en þegar Hitler hafði hamrað á því í nokkur ár var sjaldan talað um þá öðruvísi. Það þýðir ekki að Hitler hafi búið til hugtakið „gyðingaþjóð“ – raunar bendir Klemperer á að nasistar hafi í raun „búið til“ mjög fá ef þá nokkur orð, en þeir breyttu um áherslur, ýttu nýjum orðum í forgrunn og leyfðu öðrum að gleymast – en það hvernig hugtakið Gyðingaþjóð verður ráðandi, fyrir tilstuðlan Hitlers og nasista, hefur alveg jafn mikil áhrif á Gyðingana, þeir smitast jafn auðveldlega af tungumálinu, og tala fljótlega aldrei um sig öðruvísi en sem þjóð. Og þá hafa þeir í einhverjum skilningi ómeðvitað leyft nasistum að skilgreina sig.

Sem gerir ekki Gyðingana að nasistum. Það er nefnilega munur á því að láta sér vaxa skegg – eða verða fyrir áhrifum af fólki sem lætur sér vaxa skegg – og því að vera Hitler. Það er munur á bendingunni og því sem hún bendir á og bendingin getur haft ólíkar merkingar eftir því hvar og hvenær og hvernig hún kemur upp. En það þýðir ekki að það sé gáfulegast að hunsa bendinguna. Vegna þess að, einmitt einsog Guðmundur Andri bendir á, þá er mikilvægt að bera kennsl á fasismann svo hægt sé að bregðast við honum þegar hann skýtur upp kollinum.

Sextíuogeitt: Eiríkur Bergmann og birtingarmyndir fasismans

November 12, 2011 in Illska, Uncategorized

Það er margt í sjálfu sér athugavert við grein Eiríks Bergmann um þjóðernissinnaða hægrið í Fréttatímanum á dögunum. Þar má (helst) nefna tilhæfulausa fullyrðingu um að öfgahægrið í Svíþjóð og Finnlandi sé „heldur hófsamara“ en í Evrópu almennt. Þetta er einfaldlega þvæla – og svo sannarlega ekkert sem maður skellir fram sem staðreynd án nokkurrar sérstakrar röksemdafærslu.

Svíþjóðardemókratarnir eru í fyrsta lagi skilgetið afkvæmi nýnasistahreyfingarinnar – sem Hinir sönnu Finnar eru ekki. Ótalmargir frambjóðendur flokksins í nútíð og fortíð voru meðlimir í ofbeldisfullum nýnasískum götuhreyfingum – flokkurinn sjálfur hefur reynt, með afar litlum og lélegum árangri, að fjarlægja sig þessari fortíð sinni, en það koma sífellt upp ný og ný mál (og nýjar og nýjar hreinsanir). Og nýnasistahreyfingin í Svíþjóð er ekki beinlínis upp á grín – fyrir um það bil tíu árum var ofbeldið (bensínsprengjur, barsmíður, aftökur) orðið svo yfirgengilegt að sænskir fjölmiðlar sáu sér þann einan leik á borði að „afhjúpa“ nýnasistana – þeir birtu einn dag allir sömu forsíðuna, sömu aðalgreinina, um „hættulegustu menn í Svíþjóð“. Öll stærstu dagblöðin. Frá mestu sorpsneplum yfir í virðulegustu borgaralegu dagblöð. Getið þið ímyndað ykkur hvað þyrfti til, til þess að DV og Morgunblaðið hefðu bókstaflega sömu forsíðuna? Einn af þeim sem þar var á lista rændi síðan Auschwitz skiltinu fyrir fáeinum misserum.

Hinir sönnu Finnar eiga ekki rætur í nýnasistahreyfingunni – þótt þeir sæki sjálfsagt styrk í hana – en þeir hafa engu að síður fólk á þingi sem talar um blökkumenn einsog húsdýr, sígauna einsog rottur, og hefur stungið upp á því að Sómalir og hommar verði sendir til Álands og geymdir þar. Hinir sönnu Finnar eiga þannig um margt meira skylt við hægrikúltúr Sirinovskís en Haiders – þótt þar sé auðvitað líka að finna klassíska íslamófóba og rasista, einsog t.d. Jussi Halla-aho.

Meðfram því sem ég hef unnið aðIllsku hef ég lesið ótal margar bækur („ég hef lesið ótal bækur“ – djöfull get ég verið mikill kúkur stundum, en þetta er altso satt, ég hef lesið margar bækur, ég er samt ekki að reyna að keppa í því við nafna minn Bergmann hver hefur lesið fleiri bækur) um öfgahægrið og popúlismann í Evrópu – og ég hef aldrei séð því haldið fram, hingað til, að skandinavíska hægrið sé hóti saklausara eða hófsamara en hægrið annars staðar, og reikna með því að það sé heimatilbúin kredda (svona einsog þegar Bubbi Morthens heldur því fram að íslenskir glæpamenn séu ekki nándar nærri jafn hættulegir og rúmenskir). Í öllum þessum bókum, eða að minnsta kosti nokkrum þeirra, hefur meðal annars komið skýrt fram – og ítrekað – að þar sem hægriöfgamenn hafa ekki náð fótfestu á þingi (einsog t.d. í Svíþjóð, þegar flestar téðra bóka voru skrifaðar) er yfirleitt meira um pólitískt ofbeldi en annars staðar og/eða meiri hægriöfgar í hefðbundnum stjórnmálaflokkum (einsog t.d. í Eistlandi).

Ég veit ekki hvort að Eiríkur Bergmann telur norska framfaraflokkinn og danska þjóðarflokkinn líka til „hófsamari“ þjóðernishægriflokka – en hann nefnir þá þarna líka. Og þá ber að minnast þess að danski þjóðarflokkurinn er stofnaður upp úr framfaraflokk Mogens Glistrup, sem hélt því beinlínis fram að það þyrfti að útrýma múslimum í Danmörku, annars ættu dönsk börn á hættu að vera drepin af þeim. Framfaraflokkur Sivjar Jensen er stundum dreginn út fyrir mengi evrópska öfgahægrisins – hann sé meiri demogógaflokkur en nokkuð annað, og þótt ég sé því ekki alveg sammála að þar sé nauðsynlegt að skilja í sundur (einsog Göbbels hafi ekki verið demógóg, einsog Hitler hafi ekki verið valdasjúkur), þá skal ég ekki gefa mér meiri þekkingu á honum en ég hef og einfaldlega jánka því, á sama tíma sem ég minni ykkur á að hann gat samt af sér hinn hófsama Anders Breivik. Þar starfa auk þess margir skoðanabræður Breiviks.

Ég veit ekki hvaða flokka Eiríkur vill kalla róttækari eða öfgasinnaðri hægriflokka en norðurlandaflokkana fjóra. Hvort það eru líberalistarnir undir stjórn Geerts Wilders – hvort Marine Le Pen sé svona miklu öfgasinnaðri en Pia Kjærsgaard, hvort Lega Nord sé svona miklu ofsafengnari en Hinir sönnu Finnar, hvort Frelsisflokkurinn eigi sér skuggalegri fortíð en Svíþjóðardemókratarnir. Kannski er bara vestur Evrópa ekki nógu alvöru – kannski þarf Eiríkur Bergmann á einkennisbúningum Jobbik að halda (en þá mætti kannski einhvern benda honum á að einn helsti leiðtogi flokksins er „nútímaleg“ kona sem sver sig í ætt við þær Marine, Piu og Siv). Það eina sem mér dettur í hug eru hugsanlega Jobbik, BNP og kannski Vlaams Belang – en það er meira að þeir flokkar einmitt skeri sig úr, en þeir séu dæmigerðir (og auk þess má finna dæmi um viðlíka hreyfingar á öllum norðurlöndunum nema Íslandi – þar sem húliganar hafa að mestu verið óskipulagðir og kennitölulausir, með fáeinum ómerkilegum undantekningum).

En þá að hinu. Það er fullkomlega réttmæt ábending að Framsóknarflokkurinn daðri við fasisma – fánahyllingar eru fasismadaður og ungmennafélagsandinn er líka andi fasismans (horfið á Sigur viljans ef þið trúið mér ekki, stórir hlutar hennar hefðu allt eins getað verið teknir í Vatnaskógi – nú eða í ungmennafélagsbúðum kommúnista í Ameríku). Þar hitti nafni minn naglann einfaldlega á höfuðið.

Honum hefur mikið verið brigslað um það sem heitir reductio ad hitlerum – sagður hafa sannað lögmál Godwins. Hvorutveggja er ævinlega og svo til undantekningalaust nefnt um leið og einhver nefnir fasisma eða Hitler, einsog fasisminn eða Hitler séu í sjálfu sér óviðjafnanleg fyrirbæri, fyrirbæri sem ekki er hægt (eða ekki má) með nokkru móti jafna neinu öðru við, og sá sem það geri „tapi“ – þetta er sem sagt svolítið einsog reglurnar í Frúnni í Hamborg. En lögmál Godwins er fyrst og fremst skemmtileg skrítla, lýsandi fyrir tiltekna tendensa, og reductio ad hitlerum nær ekki bara yfir Hitler – heldur allt slæmt – og þeir sem slá um sig með þessari svonefndu rökvillu gera yfirleitt aldrei greinarmun á lýsandi umfjöllun eða dæmandi.

Staðreyndin er sú að fasisminn er víða. Hans birtist ekki bara í fánahyllingum Framsóknarflokksins heldur einnig (í afar mismiklum mæli) í annarri hverri auglýsingu, annarri hverri kjallaragrein, öðru hverju rifrildi – og þarf ekki að vera þjóðernissinnaður, andi fasismans felur í sjálfu sér ekki endilega í sér þjóðernisstefnu eða fullkomið ofbeldi. Hann felur í sér yfirgang, súpremasíu – þetta að finnast maður vera æðri og/eða fróa þeirri tilfinningu í öðrum. Það má sjá anda fasismans í því hvernig við tölum – svo gott sem allri pólitískri samræðu – hvernig við vöðum áfram á efsta stiginu, bendandi Hitler þangað og reductio ad Hitlerum hingað í þeirri sannfæringu að þetta sé samtal en ekki slagsmál. Því auðvitað bendir fólk á Hitler þegar það er komið í rökþrot gagnvart hrokafullum andstæðingi – sú óþolandi tilhneiging gat síðan af sér þá óþolandi tilhneigingu að svara því alltaf með reductio ad hitlerum einsog það væri svar en ekki áfellisdómur (svo úr verður reductio ad reductio ad hitlerum og er jafn innihaldslaust og hið fyrra). Og með því sama gerði hún fleira – hún gerði það að verkum að lýsandi krítík varð dæmandi krítík. Það er nefnilega ekki það sama að segja: „Þú ert einsog Hitler“ og „Þegar þú réttir svona fram handlegginn minnirðu dálítið á Hitler“.

Þegar Eiríkur Bergmann segir að ungmennafélagsandi Framsóknarflokksins – nýendurlífgaður Hriflismi – feli í sér daður við fasisma þá meinar hann ekki að Framsóknarmenn ætli að taka að slátra útlendingum í stórum stíl. Hann meinar ekki að Sigmundur Davíð sé Hitler. Hann meinar að Sigmundur Davíð sé að beita skyldu agni á öngul sinn og Hitler gerði og ótal manns hafa gert bæði fyrir og eftir, að hann sé (vitandi eða óvitandi) að taka upp orðræðu og táknræðu sem er hreinlega svo mikið tabú í sumum löndum að fólki þar yrði um og ó (og ekki endilega að ástæðulausu).

Það er mikilvægt að geta komið auga á fasíska tendensa snemma, að stöðva þann snjóbolta áður en hann breytist í Viðar Guðjohnsen, Siv Jensen, Piu Kjærsgaard, Jobbik, Breivik, Göbbels eða Rosenberg. Þessi hugmynd um að engu megi líkja við Hitler eða helförina felur í sér að nasisminn sé einstök einangruð hugmyndafræði sem geti aldrei endurtekið sig í neinni mynd – á meðan staðreyndin er sú að hann endurtekur sig og endurframleiðir sig stöðugt, alls staðar í öllum – í tungumálinu sem við tölum, stjórnmálunum sem við stundum, í fasískum kröfum á annað fólk (jafnvel í persónulegum ópólitískum samskiptum), í andlitslausri bjúrókrasíu, hefðbundnum stjórnmálaflokkum – auk auðvitað skipulagðra og óskipulagðra ofbeldishreyfinga og öfgahægriflokka (sem eru mishúsumhæfir og misjafnir í áherslum og misöfgafullir í málflutningi, en þær átakalínur liggja ekki milli norðurs og suðurs og skandinavía sker sig ekkert sérstaklega úr).

Og það er sömuleiðis mikilvægt að muna að þótt maður hafi fasíska tendensa, þýðir það ekki að hann ætli að drepa neinn. Fasisminn er stjórnmál sem höfða til hugmynda einsog „heima“, „kraftur, friður, frelsi“, „Ísland í vonanna birtu“ – stjórnmál sem höfða til tilfinningana umfram vitsmunina – hann á sér ótal birtingarmyndir. Það var líka ótal margt sem skildi að Mussolini, Franco, Salazar og Hitler (að ónefndum Stalín), það var líka ótal margt sem skildi að Göring og Rosenberg, Himmler og Göbbels, Eichmann og Mengele, Ernst Röhm og Baldur von Schirach. Það þýðir ekki að þeir hafi ekki átt ýmislegt sameiginlegt, þeir hafi ekki lagt hönd á sama plóginn. Og það var ýmislegt afskaplega misfagurt sem Churchill og Hitler áttu sameiginlegt – einsog t.d. að veigra sér ekki við að slátra því fólki sem þeir álitu neðanmáls, Churchill fyrst og fremst Indverjum en Hitler Gyðingum, Sígaunum og öllum hinum. Orðræða Angelu Merkel um fjölmenninguna er millistéttarfasísk, rétt einsog hugmyndir Sarkozy um sígauna og ótti Jakobs Frímanns við Rúmena og Búlgari. Fasisminn er alls staðar.

Wagner bar ekki ábyrgð á Hitler, en hann átti hlutdeild í hjarta Hitlers og nýttist honum í vopnabúrinu. Það þýðir ekki að Wagner hafi verið nasisti – en fagurfræði hans, þær tilfinningar sem hann nýtti sér í verkum sínum, sú upphafning sem hann stundaði, þau gildi sem hatrið, ofbeldið og alræðið voru og eru réttlætt með, voru Wagners. Hann fann þau ekki upp, en hann setti þau í öndvegi og risti þau óafmáanlega í hjarta Hitlers.

Þjóðernisstefnan er fyrst og fremst hættuleg vegna þess að hún er kraftmikið tól – hún klýfur fólk í herðar niður, dregur það á endanum í dilka. Það hvort að dilkarnir enda síðan í breskum gettóum eða pólskum gettóum – hvort að eymdin er fátækt eða þjóðarmorð – hvort þeir enda í strangara eftirliti með fólki af einu þjóðerni eða öðru, hvort þeir enda í ólíkum biðröðum hjá féló fyrir útlendinga en heimamenn, hvort þeir enda í normalíseringu útlendingafyrirlitningar í ljósvakamiðlum, snýst meira um ólíkar afleiðingar en ólíkar orsakir, ólíka hugmyndafræði. Þjóðernisstefnunni er nefnilega ómögulegt annað en að skilja fólk í sundur – þegar maður skipar fólki í eitt mengi eftir meðfæddum eiginleikum (hvort sem sá eiginleiki er kynþáttur eða fæðingarstaður) og hampar síðan menginu – sjáið hvað við erum frábær, við erum frábær, frábær, frábær og eigum að vera stolt af því! – felur það ósjálfrátt í sér að þeir sem standa utan mengisins séu síður frábærir, þeir séu ekki fyrsta flokks heldur annars flokks. Og sú pólitík kemur meðal annars fram í fánahyllingunni – mig minnir að það hafi verið Victor Klemperer, gyðingurinn og málvísindamaðurinn sem umfram aðra stúderaði táknmyndir þriðja ríkisins, í því miðju, dag frá degi, sem sagði að fáninn væri tótemsúla hins fanatíska nasista. Enda hafa fáir fánar verið jafn tignaðir og hakakrossfáninn

Sextíu: Enn ein birtingarmynd skáldsögu

November 10, 2011 in Illska, Uncategorized(við þetta mætti svo reyndar bæta pólitísku skáldsögunum, bókasafnsbókunum og fáeinum sem ég skildi bara eftir á Íslandi í sumar (m.a. ævisögu Miriam Bat Yosef og Íslenska nasista Illuga og Hrafns) – en það mætti líka draga frá mikið, ég er ekki búinn að lesa allar þessar bækur, sumar hef ég bara gluggað í og aðrar eru einfaldlega í biðröðinni, aðrar hef ég lesið illa – en ég er í öllu falli hættur að bæta við nema því sem dettur í fangið á mér og uppljómar mig og reynist fullkomlega algerlega nauðsynlegt)

Fimmtíuogníu: Háðungargæsalappir

November 8, 2011 in Illska, Uncategorized

Ætla mætti að LTI [Lingua Tertii Imperii / Tungumál þriðja ríkisins] notfærði sér upphrópunarmerkið líkt og Sturm und Drang af því að það er að stofni til rhetorískt og beinist ætíð að tilfinningum. En svo er naumast að sjá; þvert á móti virðist mér það fara sparlega með þetta greinarmerki. Það er eins og það formi allt á svo sjálfsagðan hátt í hróp og köll að það hafi engin sérstök not fyrir greinarmerki – því hvar eru hógværu orðin sem hrópin ættu að greinast frá?

Hins vegar ofnotar LTI það sem ég kýs að kalla háðungargæsalappir svo keyrir um þverbak.

Hinar einföldu upprunalegu gæsalappir merkja ekkert annað en að orðrétt sé haft eftir það sem einhver annar sagði eða skrifaði. Háðungargæsalappirnar eru ekki bundnar við hlutlausar tilvitnanir af því tagi, heldur draga í efa að það sem tilvitnunin segir sé satt, lýsa því yfir að það sé lygi. Háðungargæsalappirnar eru nátengdar rhetorískum einkennum LTI af því að þær sýna það sem kemur fram í tali sem vottur af hæðni.

Lingua Tertii Imperii – dagbók fílólógs eftir Victor Klemperer í þýðingu Maríu Kristjánsdóttur.