Varðturninn

Woke er ekki hugmyndafræði heldur heiti á tilhneigingu. Hnjóðsyrði, fyrst og fremst, til þess að hafa um hina skinhelgu. Þá sem eru stöðugt að leita að misfellum í hegðun náungans. Þá sem eru með prótókol og siðferðislega fágun á heilanum. Hnjóðsyrðið þjónar þeim tilgangi að tjá gremju yfir því að við sem þjóðfélag séum of æst í að dæma rangstæðu hvert á annað. Réttlætanlega gremju, finnst mér, því þótt ég myndi áreiðanlega sjálfur mælast frekar hátt á wokeskalanum í hvaða skoðanakönnun sem er, þá finnst mér þetta oft verða óþolandi lögguleikur.

Mörgum finnst að þeir geti ekki „verið þeir sjálfir“ innanum hina skinhelgu – ekki vegna þess að þeir þurfi stöðugt að vera að segja einhverja rasistabrandara heldur vegna þess að maður verður (eðlilega) svo sjálfsmeðvitaður þegar manni finnst að fólkið í kringum mann sé í lögguleik, verður hræddur um að stíga á línur sem einhver annar hefur teiknað, sem maður veit ekki nákvæmlega hvar liggja fyrren það er búið að flauta (og einsog gildir um rangstæðuregluna færist línan líka stöðugt til í leiknum eftir því hvar hinir leikmennirnir eru staddir). Maður veit að það hefur enga þýðingu að „hafa meint vel“ og það skiptir engu máli hver bakgrunnur manns er – hversu læs maður er á þessa prótokolla, hversu vanur maður er. Það er brot í sjálfu sér að kunna þá ekki.

Skinhelgin er síðan líka óþægileg vegna þess að við vitum öll að hin skinhelgu eru ekki syndlaus sjálf (engin er syndlaus; en þau eru heldur ekki syndlausari en aðrir). Hin skinhelgustu reynast meira að segja stundum vera svona upptekin af eigin skinhelgi einmitt vegna þess að þau eru að breiða yfir eitthvað ljótt í eigin fari. Þau eru að tryggja stöðu sína í hjörðinni – markera sér stað með „góða fólkinu“ vegna þess að þau óttast að verða útlæg ger. Og stundum eru þau að vinna yfirbót – svona einsog manni gæti dottið í hug að ganga í klaustur af því maður gerði eitthvað ljótt, og endað svo í heiftúðugu og fanatísku stríði við syndina í fari annarra. Með reyr og belti.

Þetta er að mörgu leyti skiljanleg og jafnvel nauðsynleg hegðun í hjörð. Að hjörðin setji sér reglur um rétta framkomu og einstaklingarnir framfylgi þeim með skömm og jafnvel útskúfun. En dómharka og fyrirgefningarleysi á samt ekki að vera dyggð og skömm er ekki gagnlegt stjórntæki til lengdar. Ekki heldur þegar hún birtist okkur í nafni kærleikans.

Að því sögðu finnst mér rétt að taka fram að mannréttindabarátta sem er ekki líka transréttindabarátta er ekki neitt sem maður ætti að taka mark á. Og mannréttindabarátta sem gerir í því að skilja transréttindi – eða önnur réttindi minnihlutahópa – útundan er belgingsleg minnimáttarkennd sem á heima á bekkjum sálfræðinga en ekki pistladálkum dagblaðanna.

Því má svo líka alveg halda því til haga að mannréttindabarátta getur verið frekari á athygli en hin efnahagslega barátta og það getur alveg verið ástæða til þess að markera henni tiltekið pláss innan t.d. verkalýðshreyfingarinnar, svo hún taki ekki yfir þá mikilvægu baráttu heldur styðji hana frekar. Við sjáum að fjölmiðlar veita mannréttindabaráttu meiri athygli en stéttabaráttu – það er meira krassandi að skrifa um einhvern sem var laminn fyrir það hver hann er en allt það fólk sem þarf að lifa af smánarlaunum eða bótum. Bæði er allrar athygli vert, bæði eru systemísk vandamál sem þarf að leysa – en annað er frétt vegna þess að það brýtur á velsæmishugmyndum okkar flestra og hitt er veruleiki sem við virðumst hafa sætt okkur við. Það er hægt að halda hundrað ráðstefnur um launamun kynjanna – sem er mannréttindamál – en það eru engar ráðstefnur haldnar um launamun stéttanna. Fyrirtæki, smá og stór, eyða peningum í að vera (og sýnast) græn og feminísk og hossa sér fyrir að veita fólki af ólíkum bakgrunni tækifæri – en það þætti hálfgert brjálæði að reyna að jafna laun skúringakonunnar og forstjórans (og reyndar ímynda ég mér að mörg þeirra fyrirtækja sem hafa jafnlaunavottað sig hafi meðal annars gert það með því að „útvista“ skúringunum – skítadjobbin, sem eru oft kvennastörf, tilheyra öðrum fyrirtækjum).

Við þær aðstæður skil ég að hin frjálslynda skinhelgi fari í taugarnar á þeim sem standa í því stappi að reyna að hífa upp laun skúringakvenna. Afsakið, skúringastarfsfólks.

Þreytan er raunveruleg

Þreytan er raunveruleg og þreytan er djúp. Síðasta vika var rosaleg.

Aino kom heim á miðvikudag. Hún hafði verið á sundm´óti í Ungverjalandi og orðið 12 ára í ferðinni. Á pálmasunnudag. Fyrsta mál á dagskrá var að fagna því með pompi og prakt. Út að borða og svo morgunmatur og gjafir að morgni skírdags.

Sama dag lék Aram á tónleikum við setningu Skíðavikunnar. Fyrst sem trommari Lúðrasveitar tónlistarskólans og síðan sem trommari og söngvari í bílskúrsbandinu Ulla (ekki nefnd eftir sænskum konum, heldur sögninni – sem mér skilst að sé bara til á íslensku). Þau eru botnlausir snillingar, með skemmtilegra fólkið og hafa leikið nokkrum sinnum áður koverlög en voru nú í fyrsta sinn með eitt frumsamið á prógraminu. Og stóðu sig ótrúlega vel – þótt það hafi verið afar kalt í veðri (sem kallaði á stillingarvesen) og hljóðkerfið hafi verið með ákveðin leiðindi. Og sérstaklega var frumsamda lagið gott.

Á skírdag var generalprufa hjá Gosa. Vinkona Arams kom líka í heimsókn að sunnan og við fengum af því tilefni unglingastóð í kvöldmat. Já og samdægurs birtust vinir mínir Jóel og Michael (sem ég var reyndar að kynnast þar) óvænt í kaffi.

Á föstudaginn langa byrjaði Aldrei fór ég suður. Þar naut ég þeirra forréttinda að fá að spila á bassa með Gosa og gosalýðnum – sem var óvenju stór í þetta skiptið, auk okkar Andra og Baldurs voru Ásta Kristín á víólu og röddum, Sara Hrund á lykla og röddum, Valgeir Venna á slagverk og Marta í röddum. Við lékum sjö lög, mest af væntanlegri plötu, Á floti, sem kemur á vínyl og stafrænu í maí (það verða rosalegir útgáfutónleikar, sennilega í júní). Og stóðum okkur bara mjög vel, þótt ég segi sjálfur frá. Ég var frekar rólegur á sviðinu eftir að hafa fengið hálfgert spennufall á sándtestinu um daginn – í tveggja hljóma byrjunarlaginu varð hugurinn á mér svo heiður að ég mundi aldrei hvaða hljómur átti að koma næsta (sem var þá alltaf bara hljómurinn sem ég var ekki að spila, hinn hljómurinn í laginu). Og eftir sándtestið fór ég heim, lagðist í rúmið dauðuppgefinn – klukkan 15 um daginn – og steinsvaf í 90 mínútur. En var þá bara búinn með stressið um kvöldið, sem var ágætt.

Um kvöldið buðu himinhvolfin upp á stærstu og fallegustu norðurljós sem ég hef séð síðan 1994.

Á laugardeginum byrjaði ég á því að drífa mig upp í netagerð að þeyta skífum fyrir Skúla frænda minn mennska sem var þar með plötumarkað. Svo f´ór ég að róta trommusetti með Aram – sem var aftur að spila með lúðrasveitinni en nú á Dokkunni. Þaðan lá leiðin upp í Oddfellowhús þar sem við Ingi Björn söxuðum grænmeti af miklum móð, til þess að preppa fyrir hádegisverð á poppstefnu AFÉS daginn eftir. Svo beint á lúðrasveitartónleika og að róta settinu aftur til baka með trommuprinsinum.

Um kvöldið las ég ljóð með hljómsveitinni Reykjavík! Við erum vinir frá því á menntaskólaárunum og gerðum þetta oft í gamladaga, bæði þannig að þeir komu á ljóðahátíð með mér og drógu mig á svið á tónleikum hjá sér. Ég skrifaði líka „liner notes“ fyrir allar plöturnar þeirra. Ég átti meira að segja að gera þetta á Aldrei 2005 eða 2006 en gleymdi mér eitthvað og var bara á Langa Manga (hellaður) þegar ég var kallaður á svið – og varð auðvitað ekkert úr neinu. Það var því sérstaklega ánægjulegt að fá loksins að bæta upp fyrir það lúðalega klúður. Og alveg burtséð frá minni eigin þátttöku í gigginu var brjálæðislega gaman að sjá hljómsveitina aftur – sem ég hef líklega síðast séð spila á Norræna bókasafninu í Helsinki 2007 (Aino finnst mjög fyndið að Reykjavík! hafi spilað á bókasafni, og það er rétt, það er mjög fyndin tilhugsun).

Eftir ofsalegt lokaatriði kvöldsins – FM Belfast – fór ég heim að klára krossgátuna mína á meðan Nadja fór út á lífið. Ég er í seinni tíð undir áhrifum einhverrar bölvunar sem veldur því að ég sofna aldrei fyrren hún kemur heim – bara einhver algerlega óþörf óró (Nadja er ekki týpan sem fer sér að voða). Og af því ég er miðaldra karl vakna ég samt klukkan sjö. Ég sem sagt svaf alveg fáránlega lítið.

Það var samt meira að gera á sunnudaginn. Það byrjaði á því að við Ingi og Geiri kláruðum að gera matinn. Svo var poppstefna þar sem við Kristján Freyr – hinn ótrúlega ötuli rokkstjóri – reyndum að hafa smá fororð og stýra samræðum við tónlistarmennina. Ég gekk út frá pistli sem ég flutti fyrir mörgum árum en tókst ekki að finna – reyndi bara að muna pælingarnar. Eftir matinn fórum við Smári Karls svo með hersinguna í sögugöngu um Ísafjörð – ég sagði frá árinu 1925 (sem er árið sem Náttúrulögmálin gerast) en Smári tók að sér að fjalla um „gasasvæðið“, sem er staðurinn á milli Krúsarinnar og Sjallans þar sem Jet Black Joe voru gasaðir á sínum tíma.

Eftir göngu var farið í siglingu. Í svona klukkustund húktum við úti á þilfari úti á miðju djúpi og horfðum á hnúfubaka skemmta okkur. Og fallegustu raddir landsins sungu saman lagið um hann Jörund hundadagakonung. Í blíðskaparveðri. Um þetta væri áreiðanlega hægt að kveða mörg falleg ljóð og sannarlega var ég hrærður en þetta er þess konar fegurð sem þarf aðra fagurfræði til að miðla en þá sem ég kann – ég verð bara vandræðalegur þegar ég byrja að tvinna saman nógu mikið af lýsingarorðum til að ná utan um þetta. En þetta verður í minnum haft og maður verður áreiðanlega alltaf svolítið mjúkur inni í sér af tilefninu.

Næst var áð við Vébjarnarnúp til að dást að fjallinu. Svo var sangría á Verbúðinni í Bolungarvík og Pálmi Gests hélt tölu um bæinn og sýndi svo fólki húsið sitt. Fordrykkur var drukkinn á Skarfaskeri – í blíðskaparveðri, það var alltaf blíðskaparveður, lognið sinnti sínu lögheimili alla helgina. Og kvöldmatur og partí í Félagsheimilinu í Hnífsdal. Þar var mikið sungið og dansað og meira að segja samin lög og stofnaðar hljómsveitir og einsog það hafi ekki verið nóg var farið á Pallaball í Edinborgarhúsinu og ég leit meira að segja við í eftirpartí með eftirlætis tónlistargagnrýnandanum mínum.

Einsog gefur að skilja gerði ég ekki margt annan í páskum. En nú, á þeim þriðja, er ég allur að skríða saman. Næstu páska verð ég áreiðanlega orðinn svo gott sem nýr.

Aldrei

Það eru komnir páskar. Skírdagur. Þá er hefð fyrir því að láta mannkynsfrelsarana skrúbba á manni fæturna áður en maður svíkur þá í hendur auðvaldinu.

Ætli Jesús sé ekki annars með betri týpum? Svona ef maður ætlar að fara að leyfa sér að gera upp á milli góða fólksins þá held ég að ég kunni best við hann. Sennilega mest vegna þess að hann útdeildi dómhörku sinni fyrst og fremst til valdsmanna en bað almúgann að vera ekki að gr´ýta steinum innbyrðis – nema að vera handvissir um eigið syndleysi, sagði hann, sem er trikk question því það er enginn syndlaus og sá sem heldur að hann sé það er augljóslega fyrst og fremst sósíópati. En líka af því hann átti sjálfur misgóða daga. Hreytti jafnvel ónotum í fólk. Honum til afsökunar þá átti hann mjög erfiðan föður. En fyrst og fremst þetta með fyrirgefninguna. Við lifum á tímum þar sem valdið á mjög auðvelt með að etja smælingjunum saman og telja þeim trú um að hagsmunir þeirra séu ósamræmanlegir – incels séu frá mars en wokesters frá venus. Allir eru syndlausir og allir grýta steinum og allir eru sannfærðir um að ef þeir hættu að grýta steinum muni siðmenningin „einsog við þekkjum hana“ líða undir lok – síðasta vígið sé grjótkast smælingja. Þar sem ég sit og skrifa þetta á ég meira að segja bágt með að trúa því ekki sjálfur. Bágt með að rifja það upp að málsvörum incel/white trash/íhaldsins á valdastólum er drullusama um skjólstæðinga sína. Að þetta snýst ekki um að stoppa fjölbreytileikann. Snýst ekki um „the woke mind virus“. Snýst ekki einu sinni um frjálslyndið. Þetta snýst um peninga og völd. Óreiðan er bara verkfæri til þess að sölsa undir sig peninga og völd. Ef það borgaði sig að styðja transfólk og málfrelsi og jafnrétti til náms myndu þeir allir snúa við á punktinum. En það borgar sig fyrir þá að kynda bálið og því skíðlogar.

Annars er orðið langt síðan ég las guðspjöllin í gegn. Styttra síðan ég sá Jesus Christ Superstar. Eða las Passíusálmana (og eru þó sjálfsagt að verða 20 ár síðan ég gerði það). Ég held að þar sé ekkert um syndlaust fólk og grjótkast. Jesús veltir þar borðum víxlaranna – en ekki man ég til þess að sá Jesus hafi velt við „stólum dúfnasalanna“. Kannski eru dúfnasalar ekki lengur jafn umdeildir.

Ég ætti að rifja þetta allt upp í tilefni af páskum. Það verður þó kannski ekki mikið af því – ég er að spila með Gosa á Aldrei fór ég suður annað kvöld og svo er bara lífið svo sósíalt á páskum á Ísafirði. Enginn tími fyrir guðdóminn eða fyrirgefninguna. Bara tími fyrir stuð.

Þorvaldur um Fimm ljóð

Þorvaldur S. Helgason skrifar um Fimm ljóð fyrir Bókmenntavef Borgarbókasafnsins:

Fimm ljóð er óvenjuleg bók í höfundarverki Eiríks Arnar Norðdahl, ívið átakaminni og ópólitískari en fyrri ljóðabækur höfundar en þeim mun hófstilltari, fagurfræðilegri og kjarnyrtari. Þeim sem hrifust af Óratorreki og koma með þær væntingar til verksins gæti þótt Fimm ljóð daufleg við fyrstu sýn. En eitt af því sem síðari bókin hefur umfram þá fyrri er að hún ber meira traust til lesenda sinna. Með því að forðast fyrirframgefna merkingu gefur höfundur lesendum rými til að nálgast verkið á eigin forsendum og túlka ljóðin eftir eigin höfði. Fimm ljóð er bók sem stækkar með hverjum lestri og ljóðin fimm sem við fyrstu sýn virðast hversdagsleg eru þegar nánar er að gáð bæði margræð og útpæld.

Meira hér.

Nef Hilmis

Í gær var helst í menningarfréttum – heimsins – að bandarískur sjónvarpsþáttur hafði gert grín að tönnunum í breskri leikkonu. Sú kona er fjarska fögur en með mjög áberandi tennur sem eru almennt ekki taldar til bóta – jafnvel þannig að það er alls ekkert ósennilegt að það hafi verið erfitt að bera þær á vissum skeiðum æskunnar. Eru tennurnar þó vel að merkja mjög sjarmerandi á henni í dag og óaðskiljanlegur hluti af hennar „star quality“. Konan tók þetta grín eðlilega aðeins inn á sig þótt ekki væri að heyra að hún væri neitt eyðilögð – „svolítið glatað“ væri líklega réttust þýðing á viðbrögðunum, og þau áreiðanlega m.a. tilkomin af því konan hefur tekið sér stöðu með þjáðum tannsystkinum sínum um víða veröld sem njóta þess fæst að vera brjálæðislega aðlaðandi Hollywood-stjörnur. Og eru sum unglingar á viðkvæmu skeiði. Hún tjáði sig um þetta á sínum persónulega fjölmiðli – þar snýst allt um hana, einsog hér snýst allt um mig – og fylgdi því svo skömmu síðar eftir með fréttum um að hún hefði fengið afsökunarbeiðni frá fólkinu sem stendur að sjónvarpsþættinum.

Ég er í fréttabindindi sem gengur út á að fara bara inn á f´réttasíður-skástrik-menning. Skástrik-kultur. Skástrik-books. Til þess að fá frið fyrir rorrandi síbyljunni sem segir mér ekkert. En þegar ég fer inn á þessar menningarfréttasíður spyr ég mig stundum hvers vegna ég sé alltíeinu byrjaður að lesa fréttir um instagramyfirlýsingar fræga fólksins. Hvers vegna er þetta frétt á Vísi á Íslandi? Í sænska ríkissjónvarpinu? Dagens Nyheter? Hvers vegna fer þessi frétt hringinn í kringum heiminn og hvers vegna heitir hún „menningarfrétt“? Kannski vegna þess að menning snýst svo mikið núorðið um það sem bandaríkjamenn kalla „representation“? Það er fréttapunkturinn.

Aðrar „menningarfréttir“ í gær voru til dæmis að einhver … fyrirgefið orðbragðið … óstabíl rasistakelling í Reykjavík hefði tapað máli gagnvart Icelandair – sem hafði bannað henni eitthvað, hún hafði komið með of stóra tösku, vildi ekki vera með grímu í covid, ég man þetta ekki og neita að smella aftur á þetta athyglisbilaða rugl – en þetta var sem sagt menningarfrétt af því konan hélt því fram að ferðin sem var ekki farin hefði átt að vera farin til að gera heimildarmynd sem ekkert varð úr. (Það er áreiðanlega einhver góður brandari hérna um kött Schrödingers en ég er bara ekki búinn að drekka nóg kaffi í dag til að finna upp á honum). Og að nefið á Hilmi Snæ hafi gengið aftur. Snúið heim.

Ég er ekki að reyna að vera hneykslaður (kannski bara smá; það er default hjá okkur öllum, við kunnum ekkert nema það); ég er allavega að einbeita mér að því að reyna að skilja. Og átta mig á einhverjum breytingum. Þegar ég … nei, nú segi ég bara „í mínu ungdæmi“, ég er kominn á þann aldur að það er viðeigandi. Í mínu ungdæmi var skemmtanabransinn/slúðrið og menningarsíðurnar á ólíkum stöðum í dagblöðunum. Samliggjandi oft en á ólíkum opnum. Þá var Hilmir þegar orðinn frægur og nefið á Hilmi var slúðurfrétt; Hilmir í Hamlet var menning. (Sama lögmál gilti um tennur og nef og flesta líkamshluta; sennilega hét það „Dægurmál“ eða eitthvað álíka). Og rasistakellingar-fara-í-mál-við-flugfélög var „moli“ einhvers staðar annars staðar í blaðinu. Ef efnið var of intellektúalt fór það í Lesbókina – sem var ekki sama og menningarsíðurnar. Ef það var póststrúktúralísk greining á viðtökum almennings gagnvart endurkomu nefs Hilmis Snæs var það greinaflokkur. Með heimildaskrá. Þótt það væri í raun bara um nefið á frægum manni. Sem væri snúið heim.

17 ára ég las allar dægurmálafréttirnar en fannst þær samt furðu plássfrekar og skildi ekki þá frekar en nú hvers vegna ég var að lesa þetta. Svona einsog maður skilur ekki alltaf hvernig nammiskálin fer að því að tæmast eða hvers vegna manni líði einsog maður hafi ekkert étið nema sykur svo dögum skipti.

Munurinn er ekki endilega fólginn í lág- og hámenningu þótt þetta snúist um fræga fólkið og sé auðvitað alltaf svolítil lágkúra – ekki málefnin sem slík, hvorki nefin né tennurnar, heldur botnlaus áhugi okkar á nefum og tönnum. Þannig var umfjöllun um sjónvarpsþátt oftast menningarumfjöllun en umfjöllun um ástarlíf leikarana í sama sjónvarpsþætti almennt ekki menningarumfjöllun – þótt hún ætti snertiflöt við menningarlífið.

Reyndar hvarflar að mér að tengingin þarna á milli sé trúarleg – ef við trúum á kvikmyndastjörnur einsog við trúum á guði og gyðjur, sem ég held að við gerum, þá eru dægurmálaskáldin Hómerar samtímans. Um þetta mætti áreiðanlega skrifa safaríka grein í Lesbókina ef hún væri ennþá til. Og þegar ég hugsa út í það var hún áreiðanlega skrifuð einhvern tíma.

Þá er ótalin önnur tegund af menningarumfjöllun sem er menningarpólitík. Nú standa til dæmis yfir deilur um framtíð Kvikmyndaskóla Íslands sem eru mjög plássfrekar í menningardálkum fréttasíðna. Þær eru mikilvægar og þær eru mikilvægar fyrir menninguna en þær eru annars eðlis en umfjöllun um menningarafurðir.

Ég veit að einstaka blaðamanni er uppsigað við menningarumfjöllun sem er ekkert nema pöff-pís – kynning/upphafning á verki/listamanni – og vilja finna á hana fréttavinkilinn. Sem er t.d. augljós í nefmálinu – þar er ósátt, deila, hot topic (líkamssmánun) og meira að segja lausn. „Nýr sjónvarpsþáttur í sjónvarpinu“ er ekki jafn augljós frétt og þótt slíkar fréttir séu stundum sagðar þá eru þær líka í grunninn óréttlátar – hvers vegna fá ekki allir sjónvarpsþættir þannig umfjöllun? Það er helst að þeir sjónvarpsþættir sem taki einmitt fyrir eitthvað hot topic – Adolescence er nýjasta dæmið – geti fengið þess lags aukaumfjöllun sem er þó ekki endilega vegna þess að þeir séu góðir heldur vegna þess að efni þeirra á einhverja beinni snertifleti við „ytri heiminn“ eða þær áhyggjur sem drífa áfram fréttalestur („er allt að fara til andskotans?“) Það er hægt að ræða við sérfræðinga um það hvort ástæða sé til þess að hafa áhyggjur af raunverulegum börnum, það er hægt að rifja upp sambærileg mál úr raunveruleikanum o.s.frv. Sem er ekki jafn auðvelt með … segjum bara Hamlet. Þótt hann fjalli reyndar líka um þjáð ungmenni með minnimáttarkennd sem kostar aðra lífið.

Þá er líklega mjög eðlilegt fyrir listamenn sem vilja athygli að leita uppi kastaraljósið – finna hvað það er sem vekur á þeim athygli. Maður verður ekki frægur nema maður kunni það og vilji það (a.m.k. innst inni – slagsmál fræga fólksins við frægðina eru víst ekki einföld).

Einn munur á sænskri og íslenskri menningarumfjöllun er að af og til er reynt að koma af stað uppnámi í s´ænska menningarheiminum – á meðan sá íslenski er meira í því að lægja öldurnar svo allir í skóginum séu vinir og viðheldur þannig ráðandi fagurfræði og valdastrúktúr („öldur í skóginum?“ ég ber fyrir mig að ég sé áhugamaður um góða nykrun). Um daginn stakk t.d. einn af stóru menningarritstjórunum upp á því að allar bókmenntahátíðir væru blásnar af enda væru þær hundleiðinlegar. Það kallaði á fjaðrafok – og gáfulegar varnir. Tvær hlaðvarpskonur tóku upp á því að verðlauna „slátrun ársins“ í bókmenntagagnrýni – það hefur verið mjög hress debatt, m.a. um það til hvers gagnrýni sé. Einhver tók saman „bækur vikunnar“ hjá Dagens Nyheter og komst að þeirri niðurstöðu að auðveldasta leiðin til þess að koma skáldsögunni sinni á þann lista væri að vinna fyrir Dagens Nyheter eða þekkja fólkið sem stendur að listanum. Það þarf að hafa auga með nepótismanum (nú er reyndar nepó-hugtakið orðið alveg máttlaust í sænska menningarheiminum – enginn slagkraftur). Af og til snýst þetta líka um fagurfræðilegan ágreining – t.d. um orðalag í þýðingum eða að það sé of mikið af hinu og þessu í tísku (allir að skrifa um mömmu sína, allir að skrifa óskýrt og dreymandi, allir að skrifa krimma). En þetta er alltaf einhver að leita að fæting. Íslendingar eru átakafælnari – ekki endilega blaðamennirnir en menningarfólkið. Kannski vegna þess að við erum færri og nándin er meiri. Um daginn kastaði Hermann Stefánsson t.d. hanskanum – grýtti honum vígreifur í gólfið – í langri grein sem allir lásu en enginn deildi, allir hvísluðu um en enginn ræddi. Enginn tók upp hanskann, sem liggur þarna enn. Og það virðist enginn vita hvað eigi að gera við hann.

Sjálfsagt er nálægðin ekki eina skýringin. Sænskur menningarheimur er ekki svo miklu stærri en íslenskur og fólkið sem tekst þar á er oft í sams konar nálægð. Þetta er líka spurning um menningarmun. Íslendingar sjá sig oft sem skoðana- og átakaglaða en ég er ekki viss um að það sé raunsætt mat. Við erum mjög fljót að þagna þegar umræðan kemur að einhverju sem er hið minnsta viðkvæmt. Þar sem einhver gæti orðið sár. Og ef einhver snertir við hinu viðkvæma garga annað hvort allir saman í kór (eða tveimur gagnstæðum kórum) í fáein augnablik án þess að maður í raun greini orðaskil – og raunar mikið til þess að afvegaleiða umræðuna, til þess að tala um sárindin sem slík – eða að allir bara þegja og stara út í loftið.

Og kannski er munurinn sá að sænsk menning er ekki alveg mónókúltúr. Maður gerir ekki út af við sig á sama hátt þótt maður lendi upp á kant við einhvern. Það er ekkert voða mikið af fólki sem stýrir t.d. íslenskum bókmenntaheimi – að hverju kastljósið leitar – og það er allt meira og minna úr sömu klíkunni. Ef hún afskrifar mann fyrir vandræði er maður sjálfsagt bara doldið fucked.

Annars vil ég bara óska Hilmi til hamingju með nýja nefið. Flott nef.

Með bláa lambhúshettu

Að gefa út ljóðabók og bíða eftir viðbragði er einsog að sleppa grjóti ofan í brunn og bíða eftir skvampi, bergmáli, myrkrinu sjálfu. Óratorrek fékk á sínum tíma ekki umfjöllun fyrren það var búið að þýða hana á sænsku.

Annars á ég líka smásögu í nýjasta TMM. Það er enn lengra síðan ég hef gefið út smásögu en síðan ég gaf út ljóðabók. Talið í áratugum, ekki árum.

Kannski segir það eitthvað um ástandið á mér. Ég sagði upp áskriftinni minni að Snöru og veit því ekki hvernig maður segir regression á móðurmálinu. Ég geng í barndóm. Slít fullorðinsskónum. Stíg aftur í gömul fljót. Klappandi með annarri.

Annars er ég alltíeinu að vinna að þremur verkefnum eftir að hafa verið villuráfandi um skeið.

Í bænum er að bresta á með Fossavatnsgöngu. Mjög mikið af skrítnum íþróttatýpum á ferli. Ég held að svona gönguskíðafólk sé miklu furðulegra en listamenn. Að minnsta kosti álengdar. Í gær birtust öldruð hjón í líkamsræktarstöðinni og gengu milli tækja horfandi á allt og alla. Hann var með bláa lambhúshettu – inni. Lét hökuna standa út. Og í morgun sá ég mann um sextugt sem hoppaði til skiptis á hvorum fæti – fimm hopp á einum, fimm hopp á hinum – niður alla götuna. Sjálfsagt verið að hita sig upp. En gangan er ekki fyrren á laugardag. Þá verður hann orðinn sjóðheitur.

Sjálfur fór ég út að hlaupa og meiddi mig í hásininni. Ekki mikið en nóg til þess að taka því allavega rólega fram yfir helgi.

Sjón er farinn / Sjón er að koma

og heimkynnin sem þú yfirgefur
eru aldrei heimkynnin sem þú vitjar á ný

Söngur breytinganna – Sjón

Það hanga gjarnan uppi plaköt á Ísafirði með orðunum „Sjón er að koma“. „Sérstök tilboð fyrir íbúa.“ Plakötin eru tekin niður á um það bil þriggja mánaða fresti og mánuði síðar birtast þau á ný. Þá kemur Sjón í bæinn og selur fólki gleraugu og svo fer Sjón aftur og plakötin hanga uppi þar til einhver tekur þau niður. Á þessu hefur gengið árum saman. Sjón kemur og Sjón fer. Nú er Sjón t.d. nýfarinn. En/og Sjón kom ekki í dag.

Í dag átti Sjón að koma til Ísafjarðar. Næturverkaskáldið. Oscar nominee Sjón. Það er bókmenntahátíð á Flateyri og ég hafði tekið að mér að sækja minn kæra kollega á flugvellinn í rauðabýtið en einsog þeir vita sem horfðu á Kiljuna í síðustu viku eru eilíf vandræði á flugsamgöngum. Fyrst var seinkað til 11.15, svo 12.15 og þannig koll af kolli þar til það var seinkað til 16.25 og sú er staðan ennþá, ef marka má heimasíðu Flugfélagsins. Sem er ekkert að marka – órannsakanlegir vegir þeirrar stofnunar liggja allir bara eitthvað út í loftið. Það er engin flugvél. Það er ekkert flug og það fer í loftið fyrir klukkustund síðan. Þetta eru óhrekjanlegar staðreyndir málsins.

En það kemur annar dagur og það verða fleiri flug – allavega eitt ár í viðbót (en svo verður allt flug víst lagt niður, í kjölfarið verða símalínur rifnar úr jörðu og samskiptamöstrin felld, það verða engin myndsímtöl, engin sms, engar samgöngur eða samtöl, bensínið er að klárast einsog jöklarnir, ástundun vísinda verður hætt, háskólum lokað und so weiter und so weiter).

Samtali okkar Sjóns sem fara átti fram í dag hefur samt bara verið frestað til morguns. Það er gálgafresturinn. Heimurinn ferst einhvern annan dag.

Tveir aðrir viðburðir verða í kvöld – Maó Alheimsdóttir, Elías Knörr og Gerður Kristný eru í panel klukkan hálfátta og Angela Snæfellsjökuls Rawlings og Elee Kralji Gardiner spjalla þegar klukkuna vantar 20 mínútur í níu. Þar ætla ég að vera.

Af barnamálaumræðum og bókmenntahátíðum (what about the children???)

Ég skrifaði heila færslu um barnamálaráðherramálið í síðustu viku sem ég svo eyddi. Það er gaman að velta sér upp úr þessu, með og á móti – gaman að hneykslast auðvitað og gaman að verja og ekki síst gaman að relatívisera. Hvað ef bæði hefðu verið ári eða tveimur yngri eða eldri? Hvað ef kynjahlutverkunum væri svissað? Hvað ef þetta hefði gerst í fyrra? Gaman að velta sér upp úr því hvað sé trúnaðarbrestur, hvað sé tálmun, hvað sé fullorðinn einstaklingur – hvar allar þessar línur liggja. Því það er bara langt í frá eitthvað augljóst. Þetta eru æsandi umræðuefni. En kannski einmitt þess vegna eiga þau betur heima á kaffistofum en bloggsíðum og samfélagsmiðlum. Við þurfum áreiðanlega að geta speglað okkur í þessu – borið þetta saman við önnur siðferðismál, sett okkur í spor hinna ólíku þátttakenda, fundið til með fólki, jafnvel hlegið svolítið, hneykslast smá – þannig skiljum við okkur sjálf. Hvað hefðum við sjálf gert 15 ára? Hvernig vorum við sjálf 22 ára? En það er eitthvað hræðilega klámfengið við opinbera birtingarmynd þessa á samfélagsmiðlum. Hvernig fólk stekkur til og túlkar alla fréttapunkta linnulaust – með fingurinn á lofti, fýlusvip í framan og augun upp á gátt – á meðan myndin er enn að skýrast – til að óa sig og æja í þessu sífellt háværara fuglabjargi þar sem þeir sem augljóslega vita og hugsa minnst garga undantekningalítið af mestum ákafa.

Ég sem sagt stóð mig að því að hafa raðað mér í gargröðina og undirbúið ræðuna en mér bar gæfa til að eyða henni. Sjálfur hef ég ákveðið að hafa enga skoðun á þessu aðra en þá að það sé ágætt að fólk víki úr mikilvægum embættum hafi það ekki almennt trúnaðartraust til þess að sinna sínum störfum – og það getur líka gerst án þess maður hafi gert eitthvað sem er raunverulega siðferðislega ámælisvert, það getur alveg gerst að ósekju. Traust snýst líka um ímynd – ef ímyndin er löskuð er líklegt að það hamli manni í starfi. Maður þarf kannski ekki að vera flekklaus – það væri ekki gott – en maður getur ekki verið með mikinn farangur heldur. Af því maður þarf líka að mæta fólki sem hefur ekki samúð með manni.

Og svo getur það auðvitað gerst af því maður hagaði sér einsog alger djöfuls drulluháleistur – t.d. af því maður varð uppvís að því að reka skúffufyrirtæki á aflandseyjum til að skjóta fé undan skatti. Það þýðir kannski ekki að maður eigi einhverja allsherjar slaufun skilið – en maður ætti helst ekki að sitja á þingi. Slíkt snýst hins vegar yfirleitt og því miður um sómakennd hvers einstaklings – og því getur kannski ekki verið öðruvísi farið – og einsog við vitum hefur fólk mjög mismikla sómakennd. Og því fer sem fer. Fólk með sómakennd segir af sér, fólk án sómakenndar situr sem fastast.

***

Er þetta færsla um barnamálaráðherramálið? Er þetta einhvers konar metagagnrýni á „umræðuna“ – er gagnlegt að stunda slíka gagnrýni? Ég veit það ekki.

Ég fór til Patreksfjarðar á föstudag og las upp á Prentverkstæðinu hjá Birtu Ósmann og Grími manni hennar. Þau eru miklir höfðingjar heim að sækja. Buðu upp á humarsúpu og heimagerðan harðfisk. Ég fékk að gista hjá þeim um nóttina og keyrði svo heim daginn eftir. Þetta er samt ótrúlega stutt þegar leiðin er opin yfir Dynjandisheiði. Rétt rúmir tveir tímar á lölli – ég keyri mjög hægt. Á móti kemur að heiðin er ekkert mokuð á helgum og ef það hefði eitthvað snjóað aðfararnótt laugardags hefði ég þurft að fara lengri leiðina – í gegnum Reykhóla og yfir Þröskulda og upp Ísafjarðardjúp. Það tekur sjö tíma að keyra þá leið. Samt á þetta að heita sama svæði út frá margri stjórnsýslu – þetta er t.d. sama lögregluumdæmi.

Á fimmtudag hefst síðan B´ókmenntahátíðin á Flateyri. Þar verður mikið að gerast. Fyrir utan lókal höfunda – mig, Helen Cova (sem á veg og vanda að hátíðinni), finnska metsöluhöfundinn Satu Rämö, leikarann og leikhúsgrúskarann Elfar Loga, pólska þrillersmiðinn Jarek Czechowicz, og litháíska skáldsagnahöfundinn og ritlistarkennarann Gretu Lietuvninkaite – koma hingað höfundar einsog Sjón, Gerður Kristný, Angela Rawlings, Elee Kraljii Gardiner, Elías Rúni, Bergrún Íris, Sindri Sparkle, Tessa Rivarola, María Rut Kristinsdóttir, Maó Alheimsdóttir, Elías Knörr og fleiri.

***

Ég hef verið að sinna samfélagsmiðlum síðustu vikurnar og það er alveg ótrúlegt hvað þetta hefur neikvæð áhrif á allan minn lestur. Strax og ég opna fyrir þessa vítisgjá missi ég alla einbeitingu – og jafnvel lestrarnautnina líka. Ég er þarna einsog venjulega til að prómótera og kannski er það tilgangslaust en mér finnst samt alltaf einsog ég eigi að gera það – að ég skuldi bókinni það. Þegar hurðin er á annað borð opin skrolla ég samt bara einsog heilalaus draugur. Og þegar ég tek upp b´ók fylgir lestrarmynstrið mér – augun skima bækurnar og taka ekki inn nema hluta af því fyrir þau ber.

En eftir Bókmenntahátíðina á Flateyri eru engar skipulagðar uppákomur fyrirliggjandi (nei, ég verð ekki á bókmenntahátíð í RVK frekar en fyrri daginn – a.m.k. ekki sem þátttakandi í neinu bókmenntaprógrammi, það er ekki 100% óhugsandi að ég fari sem gestur) og þá slekk ég aftur á vítisvélinni. Þið verðið bara að lofa mér að vera dugleg að fylgjast með Mogganum og Kiljunni og Bókmenntavefnum og Lestrarklefanum og Heimildinni ef það skildi berast einhver krítík – það er ósennilegt að ég dreifi henni.

Dinnerljóð

Einhvern tíma á Nýhilárunum þegar ég var orðinn þreyttur á ljóðapartíum – þreyttur á endurtekningunni – bloggaði ég um einmitt það. Að þetta væri alltaf eins. Fyrirsjáanlegt. Við værum að breytast í allt sem við þoldum ekki. Paint-by-numbers flón að látast vera ljóðskáld frekar en að vera það. Þetta vakti skiljanlega litla lukku hjá vinum mínum sem höfðu skipulagt ljóðakvöldið þar á undan – kvöldið þar sem ég varð fullsaddur. En á þessum tíma var samt einhvern veginn eðlilegra að vera ósammála um hluti. Og eðlilegra að skipta um skoðun. Eðlilegra að takast á. Það var ekki uppi nein krafa um harmoníu. Við bara þrættum og ég útskýrði hvað ég ætti við og baðst afsökunar á að hafa sært þá sem ég særði. Sennilega baðst ég meira að segja efsökunar og það þótti bara alls ekki glæpur.

Um svipað leyti – sennilega bara beint í kjölfar þessa kommentakerfisstríðs við vini mína – gekk ég með þá hugmynd í maganum að snúa ljóðapartíinu alveg á hvolf. Að hanna ljóðaviðburð þar sem ljóðlistin væri einsog dinnertónlist. Hún væri viðstöðulaust í bakgrunni. Lágt en ekki þannig að maður heyrði hana ekki. En gestir væru í raun að fást við eitthvað annað. Sósíalísera. Borða mat af hlaðborði. Þessari hugmynd var álíka vel tekið og þegar ég stakk upp á því að við myndum halda ljóðakvöld á strippklúbbnum Vegas. Sem sagt bara alls ekki vel. Og því varð aldrei neitt úr neinu heldur.

Um daginn tók ég upp eitt ljóð úr Fimm ljóðum. Ég var að fara að lesa upp einhvers staðar og var að æfa mig og ákvað að taka það upp til að hlusta. Svo fiktaði ég aðeins í hljóðinu af því mér finnst þanniglagað gaman og úr varð þessi upptaka sem hefur legið á harða drifinu mínu í nokkrar vikur. Og hún sem sagt minnir mig á þessa hugmynd mína um dinnerljóðakvöld.

Lyklavöld – úr Fimm ljóðum

Af sprúðlandi fullnægingarlýsingum og smørrebrødsnautninni

Þriðjudagur. Ég var í Víðsjá í dag. Viðtalið hefst þegar það er svona hálftími liðinn af þættinum. Ég hlusta mjög sjaldan á viðtöl við sjálfan mig en ég hlustaði á þetta og þetta var alltílagi þótt ég hefði mátt segja sjaldnar „hérna“ og „sko“ og „sem sagt“ og kannski tala aðeins hægar.

Annars hef ég tekið eftir því að fólki finnst það ekkert tala hratt þegar það talar hratt. Því finnst það bara tala eðlilega.

Í morgun fékk ég þau skilaboð að kontrabassinn minn væri kominn til Reykjavíkur og færi af stað vestur ´a morgun eftir uppsetningu. Ég er rosalega peppaður.

„Fullnægingarlýsingarnar þóttu mér vægast sagt framandlegar“. Þetta var fyrirsögn á bókadómi í Dagens Nyheter í morgun. „Jag känner mig djupt främmande inför beskrivningarna av orgasmer.“ Um daginn var önnur fyrirsögn í sama blaði: „Skilnaðarskáldsaga Helle Helle er jafn mikil nautn og smørrebrød.“ Sennilega væri þjálla að segja „Að lesa skilnaðarskáldsögu Helle Helle er jafn mikil nautn og að borða smørrebrød“ en ég er bara ekki viss hvert gagnrýnandi var að fara með þessu og þori ekki neinum túlkunarþýðingum. Mér finnst það samt skemmtilegt enda er ég sérstakur áhugamaður um það hvernig maður tjáir sig um nautnina að lesa – mér finnst ekki endilega að gagnrýni eigi alltaf að vera analýtísk fyrst og fremst, heldur megi hún líka bara lýsa lestrarupplifun tiltekins einstaklings. Og þessi smurbrauðslýsing segir eitthvað. Einsog þetta með fullnægingarlýsingarnar. Þetta er allavega skemmtilegra en konfektviðlíkingarnar og allt það.

Annars tók ég eftir því að orðið „sprúðlandi“ var notað í auglýsingu fyrir Fimm ljóð á dögunum. Reyndar var það notað til þess að lýsa Náttúrulögmálunum. „Frá höfundi hinnar sprúðlandi skáldsögu“ stóð, minnir mig. Ég held að þetta orð sé eiginlega bara notað til þess að lýsa skáldsögum. Arngrímur Vídalín skrifaði aðeins um orðið fyrir nærri 20 árum síðan (þegar hann var sennilega 13 ára) og ég fann líka Facebook-umræðu um það en allir stóðu svolítið á gati. Hins vegar þykir mér alveg ljóst að hér sé komin sænska sögnin „sprudla“ – sem þýðir að búbbla eða tindra eða iða af lífi. Mér skilst að Þórbergur hafi notað þetta í ljóði en ég hef Pál Baldvin grunaðan um að hafa komið þessu í umferð í bókadómum. En ég finn líka eldri dæmi frá Soffíu Auði, sem hefur haldið upp á þetta á tímabili – og elsta dæmið úr bókadómi er frá Dagnýju Kristjáns 1980, sem fjallar um Hvunndagshetju Auðar Haralds.

Framan af virðist þetta líka hafa verið mikið notað um leikhús en tekið stökk í notkun upp úr miðjum fyrsta áratug þessarar aldar og þá aðallega um bókmenntir. Og kannski bara skáldsögur. Er ljóðabókum lýst sem sprúðlandi? Eru plötur nokkurn tíma sprúðlandi? Sjónvarpsþættir?

***

Á RÚV er viðtal við framkvæmdastjóra kvikmynda´hátíðarinnar Stockfish sem segir fjölda kvikmyndahátíða á Íslandi „umhugsunarefni“.

Þessar hátíðir fylgja ekki beint framboði og eftirspurn. Þetta veltur meira á því hverjum dettur í hug að vera með kvikmyndahátíð og framkvæmir það. Það er hollt að taka stöðuna og spyrja okkur hvað þurfum við margar kvikmyndahátíðir og hverju eru þær að þjóna?

Ég verð að viðurkenna að ég skil ekkert. Eiga kvikmyndahátíðir að fylgja framboði og eftirspurn? Eru það ekki Marvel-st´údíóin sem eiga að gera það? Ef manni dettur í hug að halda kvikmyndahátíð og kemur henni í framkvæmd – er maður þá að valda einhverjum skaða? Hefði maður betur sleppt því? Hver á að „taka stöðuna“ og ákveða hversu margar kvikmyndahátíðir eru nógu margar kvikmyndahátíðir og hversu margar of margar? Hver eru þessi „við“ sem eiga að spyrja að þessu?

Á Ísafirði er eitt bíó og þar eru tvær kvikmyndahátíðir á ári. Ég myndi alveg lifa það af þótt þær væru fjórar. Hugsanlega myndi ég meira að segja ráða við fimm.