• Íslenska
  • English
  • Svenska
  • Deutsch
  • Dansk
Eiríkur Örn Norðdahl
Ljósmynd: Erik Brunulf

Eiríkur Örn Norðdahl

Eiríkur Örn Norðdahl er rithöfundur, þýðandi og ljóðskáld. Hann hefur gefið út fjórar skáldsögur, nú síðast skáldsöguna Illsku, sem hlaut Hin íslensku bókmenntaverðlaun, Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana og var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.

Eiríkur hefur einnig gefið út sex ljóðabækur, ritstýrt tveimur bókum um ljóðlist, gefið út safn ritgerða um ljóðlist á ensku og skrifað stutta bók um bókaþjófnað og höfundarrétt. Þess utan hefur hann þýtt fjölda bóka, þar á meðal valin ljóð eftir Allen Ginsberg, safn erlendra framúrstefnuljóða og skáldsöguna Móðurlaus Brooklyn eftir Jonathan Lethem, en fyrir þá síðastnefndu hlaut hann íslensku þýðingarverðlaunin 2008. Nýjasta þýðing hans er Erfðaskrá vélstúlkunnar eftir Idu Linde, sem kom út árið 2014 hjá Meðgönguljóðum.

Árið 2012 var Eiríkur staðarskáld í Vatnasafninu á Stykkishólmi, í boði Stykkishólmsbæjar og listasjóðsins Art Angel. Árið 2010 hlaut Eiríkur viðurkenningu úr Fjölíssjóði. Eiríkur er Bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar 2014-2015. Hann hefur hlotið aukaverðlaun Ljóðstafs Jóns úr Vör, sérstaka viðurkenningu á kvikljóðahátíðinni Zebra Poetry Film Festival í Berlín og Rauðu fjöðrina, erótísk stílverðlaun lestrarfélagsins Krumma.

„[Eiríkur] rífur upp gengi ljóðsins um leið og hann fylgist með krónunni verða að engu. “
Jakob Bjarnar Grétarsson // Fréttablaðið
„Þetta er eins og hríðskotabyssukveðskapur.“
Egill Helgason // Kiljan
„Hrátt og tilgerðarlaust … hressileg lesning.“
Friðrika Benónýs // Kiljan
„Æðisleg bók, ort í æðiskasti yfir voðanum í íslensku samfélagi i hruninu miðju.“
Þorgeir Tryggvason // Kjarninn
Einu sinni sat ég í útlöndum og orti ljóð á meðan Ísland brann, bankar hrundu og ráðherrar buguðust. Einu sinni sat ég í útlöndum og orti ljóð og svitnaði á meðan ég endurhlóð fréttasíður í von um nýjar og betri byltingar. Einu sinni sat ég í útlöndum og orti ljóð og horfði á tekjur mínar verða að engu í gengisfimleikum. Þetta er það ljóð.

Taktu mig! Taktu mig! Taktu mig! Taktu mig! Taktu mig! Taktu mig!
Taktu mig! Taktu mig! Taktu mig! Taktu mig! Taktu mig! Taktu mig!
Taktu mig! Taktu mig! Taktu mig! Taktu mig! Taktu mig! Taktu mig!
Taktu mig! Taktu mig! Taktu mig! Taktu mig! Taktu mig! Taktu mig!

Hnefi eða vitstola orð er sjötta ljóðabók höfundar.