Kallfæri – listin að hljóða í ljóðum

September 11, 2009 in Fjallabaksleiðin, Greinar, Um ljóðlist, Útvarp

Hljóðaljóðskáldið Hugo Ball

Hljóðaljóðskáldið Hugo Ball

Fyrir um tveimur árum síðan tók ég upp útvarpsþætti fyrir Rás 1 sem nefndust Kallfæri – listin að hljóða í ljóðum. Þar var um að ræða fjóra þætti. Í fyrsta þættinum tók ég fyrir nokkur klassísk verk hljóðaljóðlistarinnar og spurði mig hvað hljóðaljóð væru. Í öðrum þætti skoðaði ég notkun framburðar í hljóðaljóðlist. Í þeim þriðja spilaði ég pólitíska hljóðaljóðlist og þar var nokkuð af „spoken word“ verkum. Í fjórða og síðasta þættinum tók ég fyrir samtímahljóðaljóðlist, íslenska og erlenda – og spilaði m.a.s. verk eftir Músifölsk, Þór Eldon og Dag Sigurðarson.

Upptakan af fyrsta þættinum er týnd og tröllum gefin, en hinir þrír verða aðgengilegir hér á síðunni. Ég á hins vegar handritið að fyrsta þættinum og hef sett inn skjöl með þeim verkum sem voru spiluð. Allt er þetta hér að neðan.

Kallfæri – 1. þáttur – Hvað er hljóðaljóð?

Gagi beri bimba

Kæru hlustendur. Ljóðið sem rétt í þessu rak á fjörur ljósvakans nefnist Gadji beri bimba og var samið af þýska ljóðskáldinu og dadaistanum Hugo Ball árið 1915, en heyrðist hér í flutningi Skotans David Hopkins. Gadji beri bimba er eitt fyrstu dæmanna um 20. aldar hljóðaljóðlist, en auðveldlega má finna fyrirrennara listgreinarinnar allt aftur til árdaga mannsandans – frá allra fyrstu muldrum frummannsins sem ætluð voru til annars en tjáningar eða leiðbeiningar, í gegnum árþúsund af skáldskap sem saman var settur með ákveðna hljóðræna eiginleika að augnamiði – svo sem rím, stuðla og atkvæðaskipan – þó þeir gegndu kannski ekki sama aðalhlutverki þar og í þeim seinni tíma verkum sem verða hér til umfjöllunar í dag og næstu vikur.

„Ég skapaði nýja tegund ljóðlistar,“ er haft eftir Ball. „„Kveðskap án orða“, eða hljóðaljóð, og ég hóf að kyrja.“ Ljóðið, Gadji beri bimba, kyrjaði hann fyrst á hinum goðsagnakennda næturklúbbi dadaista, Cabaret Voltaire í Zurich í Sviss, íklæddur heiðbláum, skarlatsrauðum og gullnum pappa með hólklaga hatt á höfðinu – skáldabúningi sem öðlast hefur sess í ljóðsögunni, og mun, eftir því sem ég kemst næst, vinsæll á grímuböllum framúrstefnuskálda.

Ljóðið hefst á orðunum „gadji beri bimba glandridi laula lonni cadori, gadjama gramma berida bimbala glandri galassassa laulitalomini.“ Orðin eru engin, og þó alger – þeim er ætlað að vera hreinum, lausum úr fjötrum tungumálsins, eða nýtt hlekkjalaust tungumál – tungumál frummannsins, einhvers innra með nútímamanninum sem hefur komist óskaddaðan í gegnum úrkynjun mennskunnar.

Dadaistarnir höfnuðu eins og þekkt er allri heimspeki sem á undan þeim kom og gagnrýndu allan þann sannleik sem kynntur hafði verið til sögunnar sem argaþvælu. Hljóðaljóðlistin, sem þó var ekki alveg ný – fútúristarnir rússnesku og ítölsku höfðu áður tekið skref í þessar sömu áttir – hæfði því heimspeki þeirra fádæma vel, verandi laus undan þeirri merkingarsköpun sem hafði átt sér stað árhundruðin á undan, og í þessum mikilvægu frumskrefum listgreinarinnar er að finna öflugan og ákafan merkingarflótta, en sá þráður sköpunar hefur að nokkru leyti fylgt framúrstefnu- og tilraunakveðskap fram til dagsins í dag, mis-þvældur, -gisinn, -hnýttur, -skreyttur og -öflugur, eins og gengur. Tungumálið hefur verið strípað af samtíma sínum og flutt aftur til frummannsins, gert að muldri hellisbúans, hjali barnsins, máli þeirra sem heillast af tungumálinu án þess að skilja það og gera ekki endilega neina kröfu um að skilja það, og eftir standa nakin fónemin, hinar minnstu einingar talaðs máls, og möguleikar til samsetningar þeirra á þann hátt að ekki verði úr skiljanleg orð.

Eins og áður segir höfðu fútúristarnir áður sýnt hljóðaljóðlistinni áhuga, og hafið tilraunir innan listgreinarinnar. Einn höfuðstofnenda ítalskra fútúrista, og höfundur fútúristamanifestósins, Fillippo Tomasso Marinetti, var meðal frumkvöðla hljóðaljóðlistarinnar. Það ljóð sem hann er líklega frægastur fyrir er Zang Tumb Tumb, sem fjallar um orrustuna um Adrianópólís, í Tyrklandi. Oftsinnis hefur verið barist um Adrianópólís, en ljóð Marinettis er um þá orrustu sem hófst síðla árs 1912, þegar Búlgarir réðust inn í borgina. Orrustunnar er minnst ekki síst þekkt fyrir að þar áttu sér stað fyrstu sprengjuárásir úr lofti, þegar Búlgarar flugu yfir borgina og létu sérsmíðuðum handsprengjum rigna yfir andstæðinginn til að valda usla meðal tyrknesku hermannanna. Það er alkunna að fútúristarnir voru feykilegir aðdáendur stríðs, sem og framfara – og voru þessir tveir þættir líklega meðal sterkustu þráðanna í fagurfræði fútúrismans – og hefur þessi bardagataktík Búlgarana án nokkurs vafa fengið hinn harðfasíska Marinetti til að kikna í hnjánum af höfugri lotningu.

Ljóðið er ekki hreint hljóðaljóð, í þeim skilningi að í því sé ekki að finna skiljanleg orð, heldur er það eins konar sambræðingur orða, orðleysa og meininga, sem hljóðrænt er ætlað að kynda upp stríðsstemningu.

Þess er reyndar best að geta, áður en lengra er haldið, að fæst hljóðaljóð eru samansett úr óskiljanlegum hljóðum, eins og verk Hugos Ball, og fást þau jafnan heldur við hljóðræna eiginleika orða og setninga, frekar en að einblína á fónemin ein og sér. Mörg hljóðaljóð, sérílagi í seinni tíð, eru jafnvel samsett úr setningum sem eru blátt áfram og auðskiljanlegar.

Zang Tumb Tumb kom fyrst út í myndskreyttri útgáfu í tímaritum á árunum 1912 til 1914, eða sömu ár og orrustan stendur yfir, og var undir lok þess tímabils gefið út á bók. Í bókinni, hinni rituðu útsetningu verksins, er notast við týpógrafíska framsetningu til að koma áhrifunum til skila – margar leturtegundir koma við sögu, orð og bókstafir eru misstór og raðað á síðuna svo að úr verður myndverk til fylgis við hljóðverkið, þar sem tungumálið vefur sér leið um síðurnar og ákallar stríð sem eina möguleika heimsins til hreinsunar.

Við skulum nú hlýða á brot úr ljóðinu, í flutningi Marinettis sjálfs. Brotið nefnist einfaldlega Orrustan um Adríanópólís, og er tekið upp árið 1935, ríflega tveimur áratugum eftir útgáfu bókarinnar. Takið eftir því hvernig Marinetti hermir upp óhljóð styrjaldarinnar, skothríðirnar, ópin, söngvana, þrammið, suðið í sprengjum sem svífa til jarðar og sjálfa sprengjuhvellina – Zang Tumb Tumb.

Marinetti

Það verk í sögu hljóðaljóðlistarinnar sem hefur orðið listamönnum hvað drjúgast til eftiröpunar er líklegast Karawane, eftir Hugo Ball, en það er eitt fyrsta verk listgreinarinnar og án efa það áhrifamesta. Eins og önnur hljóðaljóð Balls er Karawane sambræðingur fónema sem mynda engin orð, en treystir þess heldur á hljóðrænuna:

jolifanto bambla o falli bambla

großiga m’pfa habla horem

egiga goramen

higo bloiko russula huju

hollaka hollala

Verkið er ekki ósvipað Gadji beri bimba, enda hefur þessi tiltekna aðferð Balls þann ókost í för með sér að verða frekar einhæf – og því miður, ef ég leyfi mér að taka svo sterkt til orða, eru margir sem enn apa upp þennan stíl, tæplega hundrað árum eftir að Ball drakk hann til þurrðar. Hins vegar eru til útgáfur af ljóðum Balls, sem vinna kreatíft með útsetningar ljóðsins, og munum við nú heyra nokkrar slíkar útgáfur.

Meðal þeirra sem hafa látið vaða í kvæðið, og gert því góð skil er pólski bandaríkjamaðurinn Jerome Rothenberg, sem er ekki síst þekktur sem safnari gamallar etnópóesíu – eða heimsljóðlistar. En Rothenberg er líka fært hljóðaljóðskáld, og við skulum heyra hann flytja Karawane, eftir Hugo Ball. Hér er verkið útsett fyrir margar raddir, slagverk og strengi, og er tekið úr hljóðaljóðleikriti Rothenbergs, Der Dada Ton, eða Dada-andanum, sem var eins konar virðingarvottur við fyrirrennara Rothenbergs og annarra hljóðaljóðskálda, og samsett úr nýjum útsetningum á verkum eftir Tristan Tzara, Kurt Schwitters, Francis Picabia og Hugo Ball.

Karawane

Eins og áður segir hefur Karawane verið flutt af mörgum ólíkum skáldum af mörgum ólíkum tímabilum, en efalaust er óvenjulegasta útgáfan – eða öllu heldur, sú útgáfa sem á ólíklegasta flytjandann af ólíklegasta tilefninu – sú sem Marie Osmond flutti í Ripley’s Believe It Or Not þættinum um miðjan níunda áratuginn. Marie Osmond er bandarísk leikkona og söngkona, og meðlimur í sjóbissness fjölskyldunni The Osmonds. Um tíma starfaði Marie við Ripley’s Believe it or Not, sem einhverjir íslenskir sjónvarpsáhorfendur ættu að kannast við, en í þættinum er fjallað um hin ýmsustu furðufyrirbæri sem oft er bágt að trúa. Um miðjan níunda áratuginn voru kynnar í þættinum tveir, annars vegar Marie og hins vegar Jack Palance, og sá siður var tekinn upp að kynnarnir tækju upp stutt brot þar sem þeir sögðu frá einhverri furðu sjálfir, og eitt þeirra verkefna sem Marie fékk var að fjalla um hljóðaljóð, í kafla sem tileinkaður var furðum tungumálsins. Sagan segir að þegar kveikt var á myndavélunum hafi Marie fært augun af textaspjöldunum og þulið Karawane utanbókar.

Karawane

Flutningur Marie Osmond er einhvern veginn tær og saklaus, og má jafnvel segja að hann sé í aðra röndina úr flútti við fagurfræði dadaismans – frummannsrödd Osmond er tær og fögur eins og smáfuglsraust.

Áður en við segjum alveg skilið við meistara Hugo Ball, skulum við heyra hljóðaljóðskáldið Christian Bök, sem tvisvar hefur sótt Ísland heim og komið fram á ljóðahátíðum Nýhils, flytja annað af höfuðverkum Balls, sem nefnist Sæhestar og flugfiskar. Sæhestar og flugfiskar er léttleikandi verk, næstum því tiplandi, kyrjandin í ljóðinu, ef svo má að orði komast, er hálfgeggjuð í rytma sem minnir að einhverju leyti á frumbyggjasöngva og að einhverju leyti á gól geðbilaðs manns – og ítónun flytjandans, sénísins Christian Bök, spillir ekki fyrir.

Seahorses and flying fish

Í upphafi lék hljóðaljóðlistin sér aðallega utan orða, fékkst við orðleysur og upphrópanir, en síðar hefur það verið upp og ofan hvort listaverk greinarinnar eru framsett í fónemum, orðum, setningum, málsgreinum eða jafnvel heilum frásögnum, og koma þá ýmis önnur element inn í spilið – element sem jafnan eru fengin að láni úr bókaljóðlist, sem á jú rætur sínar að rekja til hinnar munnlegu hefðar: endurtekningar, stuðlun, rím og svo framvegis – eiginleikum sem var líklega í upphafi ætlað að auðvelda mönnum að leggja sögur á minnið.

Meðal þeirra hljóðaljóðverka sem má standa hvað næst bókaljóðshefðinni eru upptökur Gertrude Stein á sumum þeirra portretta sem hún skrifaði af eða um þau mikilmenni sem hún umgekkst í París á öndverðri tuttugustu öldinni. Portrettin voru vissulega skrifuð fyrir bækur og blöð, en ritlist Stein var að nokkru leyti syngjandi þó hún væri prentuð á síður – Stein var heltekin af hljómi setninga, og sú ástríða hennar skilar sér í upptökur sumra verka hennar, svo málamiðlunarlaust að hefð hefur myndast fyrir að telja upplestra hennar, og þá sérílagi upplestra á portrettunum, til hljóðaljóðlistarinnar. Einn bestu vina Stein var eins og kunnugt er myndlistarmaðurinn Pablo Picasso, og hefst portrett hennar um hann, í íslenskri þýðingu þess sem hér mælir, svo:

Ef ég segði honum, kynni hann við það,

kynni hann við það ef ég segði honum,

kynni hann við það, kynni Napóleon kynni Napóleon,

kynni, kynni hann við það?

Við skulum hlýða á lestur skáldkonunnar á portretti sínu um Picasso, If I told him:

If I told him

Hér er óljóst hvaða þáttur ákveður skilgreiningu textans sem hljóðaljóðs – það má jafnvel geta sér þess til að ákallandi rödd Gertrudar sjálfrar eigi hlut í því, í bland við óhefðbundna setningaskipanina og endurtekningarnar, auk þess mikilvæga hlutverks sem Stein annars gegnir í sögu framúrstefnubókmennta. Í öllu falli er sá sem hér mælir þeirrar skoðunar að portrett hennar séu að stærri hluta önnur verk í upplestri en þau eru á blaði. Sú skoðun er líklega ekki byggð á neinu nema tilfinningu, reyndar, en svo verður stundum bara að vera.

Viðfangsefni framúrstefnuljóðlistar er oftar en ekki það að teygja á tungumálinu. Framúrstefnuskáldið spyr sig fyrst, áður en það hefur skriftir, tveggja spurninga: Í fyrsta lagi: Hvað er tungumál? Og í öðru lagi: Hvað get ég gert með tungumál? Þegar þessara spurninga eru spurt innan hljóðaljóðlistarinnar, verður sú spurnarvídd ráðandi sem kalla mætti: Hvað eru fónem? Samkvæmt lýð-alfræðiritinu Wikipediu, eru fónem hinar minnstu merkingargreinandi einingar málsins. Þar segir: „Ólíkt málhljóðum eru fónem huglægar eindir í hljóðkerfi málsins sem finnast með því að skoða venslin milli hljóða“.

Það finnast hins vegar hljóðaljóð sem hvorki innihalda orð né raddir – og því í raun engin fónem – en sem dæmi um slíkt má nefna sunnudagsljóð sænsku skáldanna Idu Börjel og Mathiasar Kristersson, þar sem hljóðin í ljóðinu koma, að því ég best get heyrt, úr tölvuprentara. Við skulum heyra stuttan bút úr Sunnudegi við Disponentgötu.

Söndag

Hér er engin rödd á ferð, en þó hljóð sem tengja má við tungumál, sem tengjast orðum þó engin leið sé að fá botn í það hvaða orð það eru – hvað eru þau Ida og Mathias eiginlega að prenta út? Eru þau að prenta út ljóð? Og ef þau eru ekki að prenta út ljóð, er þá prentarahávaðinn ljóð? Eða, er prentarahávaðinn ljóð þótt þau séu að prenta út ljóð?

Það er ljóst að hljóðin sem prentarar gefa frá sér eru ein afurð tungumálsins. Án tungumálsins, væru þessi hljóð líklega ekki til. Það má jafnvel geta sér þess til að í hinum einmanalega heimi skáldsins hljómi ljóð jafnan einmitt svona, þegar þau skríða úr tölvunni út í heiminn – að þegar kemur að hljóðum ljóðanna séu prentarahljóðin reglan, en upplesturinn undantekning.

Við skulum hlusta á eitt sunnudagsljóða þeirra Idu og Mathiasar frá byrjun til enda – það er um tvær mínútur – og ég bið hlustendur að ímynda sér hvað hér sé á ferðinni. Hversu mikið heyrist prentað í hverja línu, áður en prentarinn færir sig einn paragraf niður, og hversu mikið er prentað á hverja síðu. Ég bið ykkur að leggja við hlustir og spyrja ykkur þessarar eilífu spurningar: Er þetta ljóð?

Söndag II

Bandaríski listamaðurinn Vito Acconci hóf feril sinn sem ljóðskáld, en færði sig síðar yfir í arkítektur, innsetningar og performans-list. Næsta verk sem við hlustum á kallast „Now do you believe the dirty dogs are dead“ eða „Trúirðu því nú að hundingjarnir séu dauðir“ af kassettunni „Live to Air: Artist’s soundworks“, eða „Líf í loft: hljóðverk listamanna“. Hljóðaljóðið er að finna á D-hluta kassettunnar, sem helguð er verkum sem fjalla á einn eða annan hátt um samskipti einstaklingsins við þéttbýlisumhverfið.

Kassettan var gefin út árið 1982 í tilefni af hljóðlistasýningu í Tate-galleríinu í London, sama haust og verkin komu út. Í fylgiefni með kassettunni segir meðal annars: „Þessi verk eiga sér enga aðra birtingarmynd en sem afspilun á kassettu, annað en mörg önnur verk þar sem upptakan er notuð „óvirkt“, sem aðferð til að festa á band hlustunarviðburð, eða sem tækni til að styðja við bakið á öðru verki.“

Í „Trúirðu því nú að hundingjarnir séu dauðir“ má heyra galið geltið í taugaveikluðum borgarhundum, sem svarað er af röddu, sem ekki mælir mikið skýrara en hundarnir, þó hún sé yfirvegaðri, allt að því blíð í einfeldni sem virðist daðra við sína eigin tegund taugaveiklunar.

The dirty dogs

Því fer ekki fjarri að áheyrendur hljóðaljóðlistarinnar spyrji sig hvað það er sem einkenni hljóðaljóðið – hvað skilur að söng frá ljóði, ljóð frá samræðu, hljóð frá ljóði, hljóðfæri frá hljóðaljóði? Svarið er í raun flókið og einfalt – hljóðaljóðið, eins og önnur ljóð, er það sem með einhverjum anga sínum bendir á tungumálið, gerir tungumálið að einum aðalfókuspunkti sínum. En þar með er ekki sagt að hljóðaljóðið geti ekki verið fleira – söngur getur vissulega verið hljóðaljóð, og samræða getur það líka, rétt eins og myndverk getur líka verið ljóð. Það er jafnvel í myndinni að hljóðfæri geti bent á tungumálið með þeim hætti að kalla megi hljóðljóðlist – þó venjulegur hljóðfæraleikur falli ekki undir þann hatt.

Áður en við leggjumst í dvala næstu vikuna skulum við hlusta á kanadíska hljóðaljóðskáldið bp Nichol flytja verk sitt The Alphabet Game, eða stafrófsleikinn. Nichol má nefna höfund samtímahljóðaljóða, og hafði hann gríðarleg áhrif meðan hann lifði og fram á okkar dag, en hann lést langt fyrir aldur fram, 44 ára árið 1988. Nichol var einnig meðlimur í hljóðaljóðsveitinni The Four Horsemen, ásamt þeim Rafael Barreto-Rivera, Paul Dutton og Steve McCaffery, en þeim síðastnefnda fáum við að kynnast betur síðar.

Í stafrófsleiknum leikur Nichol sér með upptökutækni, söng og konsept stafrófsins, eins og sá maður getur einn sem elskar tungumálið af allri sinni sál.

Alphabet Game

Kallfæri – 2. þáttur – Framburður hljóðaljóða

Kallfæri – 2. þáttur

Kallfæri – 3. þáttur – Pólitísk hljóðaljóð

Kallfæri – 3. þáttur

Kallfæri – 4. þáttur – Nýrri hljóðaljóð

Kallfæri – 4. þáttur

Share to Facebook
Share to Google Plus