Gat ekki haldið í sér lengur – Viðtal í DV

December 22, 2009 in Fréttir

dvvidtal

Rithöfundurinn Eiríkur Örn Norðdahl flutti til Finnlands fyrir þremur árum og ætlar að búa í Svíþjóð næstu tvö ár með sænskri eiginkonu sinni og nýfæddum syni þeirra. Á meðan eiginkonan stundar nám í Svíþjóð ætlar Eiríkur að halda áfram að „harka“. Skrifa, þýða og reyna að krækja sér í einhverjar evrur með því að sækja ljóðahátíðir. Hann er nýbúinn að senda frá sér sína þriðju skáldsögu, Gæsku, sem fjallar um upplausnarástand á Íslandi í kjölfar efnahagshruns. Hann var byrjaður á bókinni fyrir hrun en þurfti að hugsa sinn gang þegar heimurinn breyttist og veruleikinn varð skrýtnari en skáldskapurinn.

Ísfirðingurinn Eiríkur Örn Norðdahl hefur að mestu haldið sig fjarri Íslands ströndum síðustu þrjú ár og missti því meðal annars af búsáhaldabyltingunni fyrir utan það að hann fylgdist með Austurvelli brenna á internetinu. Efnahagshrunið og afleiðingar þess eru honum þó engu að síður yrkisefni í Gæsku, þriðju skáldsögunni sem þessi rúmlega þrítugi ólátabelgur sendir frá sér.

„Málið með bókina er að ég byrjaði á henni töluvert áður en hrunið varð. Allur fyrri hlutinn er skrifaður fyrir hrun,“ segir Eiríkur en í þeim hluta skáldsögunnar verður afdrifaríkt krónufall sem síðar varð að bitrum raunveruleika. Þótt krónan falli í bók Eiríks og æstir mótmælendur fylli Austurvöll fer höfundurinn að vissu leyti með þessa atburði út í fantasíu þar sem Esjan logar og þykkan mökkinn leggur yfir Reykjavík auk þess sem skæðir sandstormar geisa á Skerinu. Eiríkur segir fantasíuna að vissu leyti hafa verið viðbragð við því þegar raunveruleikinn fór að líkja eftir skáldskap hans.

„Ég lagði upp með að skrifa pólitíska hysteríu og svo dansaði veruleikinn bara einhvern veginn upp í fangið á mér einhvers staðar um miðja bók. Þetta var enginn raunveruleiki þegar ég byrjaði að skrifa bókina. Það sem átti að vera myndlíkingar og hafa einhvern symbólískan kraft, eins og krónufallið eða eitthvað, breyttist á einhverjum tímapunkti í asnalegar tíðarandaveiðar. Þetta var ágætis ástæða til að sitja í taugaáfalli úti í Finnlandi yfir því að það væri bara búið að eyðileggja bókina mína.“

Lof og last

Gæska hefur fengið misjafna dóma og eiginlega má segja að þar sé ýmist í ökkla eða eyra. Bókmenntafræðingurinn Jón Yngvi Jóhannsson gefur bókinni fjórar stjörnur á vefnum pressan.is og segir að Eiríkur sé „fádæma stílisti“ og sýni mikil tilþrif í bókinni. Þá gaf Hrund Ólafsdóttir bókinni einnig fjórar stjörnur í Morgunblaðinu en þau Páll Baldvin Baldvinsson og Kolbrún Bergþórsdóttir, sem koma vikulega saman í Kilju Egils Helgasonar til þess ýmist að gefa höfundum líf eða slá þá af, voru ekki jafn hrifin.

En hvernig fara svona bókadómar með sálarlíf rithöfundar í miðju jólabókaflóði.

„Langar mann ekki alltaf að drepa alla sem tala illa um mann?“ spyr Eiríkur og skellir upp úr. „Ég veit það ekki. Svo kemur alltaf líka fólk og klappar manni á bakið og segir að sé svo gott að vera umdeildur, þá sé eins og maður hafi eitthvað að segja. Ég held þetta hafi minnst með bækurnar mínar að gera. Ég fæ það á tilfinninguna. Ég sé ekki hvernig fólk ætti að geta verið svona pirrað út í bækurnar mínar og þá sérstaklega ljóðabækurnar. Hver verður pirraður út í ljóðabækur? En það gerist nú samt. Eins og Páll Baldvin kom inn á í Kiljunni hefur verið svolítill gassagangur á mér. Ég hef verið með dálítið mikil læti og það held ég að hafi pirrað fólk. Miklu frekar en það sem ég hef skrifað.“

Spurning um að halda í sér

Páll Baldvin sagði í áðurnefndum Kiljuþætti að þeim ungu höfundum að Eiríki meðtöldum, sem nú kæmu fram með hrunsbækur sínar, væri mikil mál en þeir hefðu ekki nokkurn skapaðan hlut að segja. Þessir ungu menn ættu því að íhuga að halda í sér í nokkur ár þangað til þeir geti sagt fólki eitthvað nýtt um það sem gerðist.

„Jú, jú. Hann sagði það,“ segir Eiríkur þegar meiningar Páls ber á góma. „Páll les náttúrulega svo mikið að hann tekur kannski ekki eftir öllu. Aftast í bókinni er sem sagt tekið fram hver ritunartími bókarinnar er. Þessi bók átti upphaflega að koma út í fyrra. Ég lagði hana svo frá mér í maí í fyrra til að klára ljóðabók vegna þess að ég sá fram á að ef ég myndi klára hana þá myndi ég klára hana á hlaupum. Og í stað þess að klára hana á hlaupum ætlaði ég að sitja yfir þessu og skila þessu almennilega frá mér. En Páll vill kannski að ég bíði ennþá lengur. Ég er búinn að taka þrjú ár í þessa bók og held nú bara að það sé ágætis tími í ekki lengri bók.“

Eiríkur segist hafa verið í þeirri stöðu að hann hafi verið byrjaður að skrifa „hrunsbók“ fyrir hrun. „Ég var búinn að skrifa annan seinni hluta sem ég þurfti að henda bara vegna þess að ég þurfti að bregðast við því að heimurinn breyttist. Þetta er náttúrulega samtímaskáldsaga og þegar Páll Baldvin segir að það sé ekki hægt að skrifa um hrunið þegar það er svona stuttur tími liðinn þá er ekkert hægt að skrifa samtímaskáldsögu. Ekki ef það á bara að líta alveg framhjá hruninu. Gæska fjallar um pólitískan veruleika. Hún fjallar um þingmann og hrunið er stór partur af því hvernig heimurinn breyttist.“

Missti af byltingunni

Eiríkur fylgdist með efnahagshruninu og búsáhaldabyltingunni úr hæfilegri fjarlægð þar sem hann bjó í Finnlandi þegar ósköpin dundu yfir. Hann segir það hafa verið undarlegt fyrir strögglandi rithöfund að fylgjast svona með landinu sínu fara til fjandans. „Þetta var rosalega skrýtið í fyrra þegar blessuð búsáhaldabyltingin var í gangi. Þá sat maður og endurhlóð fréttasíðurnar og gerði ekkert annað allan daginn. Og þar sá ég ekkert nema myndir af vinum mínum. Steinar Bragi að ota hnefanum að lögregluþjónum og þar fram eftir götunum. Það var svo mikið af fólki þarna sem ég þekkti þannig að ég var að verða alveg vitlaus. Svo kom ég hingað í desember í fyrra og ætlaði að taka þátt. Vera með og sjá þetta allt gerast og þá gerðist ekki neitt. Ég lenti á Keflavíkurflugvelli og þegar ég var að keyra í bæinn var umsátur um Seðlabankann og rétt um það leyti sem ég kom til Reykjavíkur leystist umsátrið upp og svo gerðist ekkert alla vikuna. Það voru þrjátíu manns á Austurvelli næsta laugardag og það gerðist ekkert fyrr en svona hálftíma eftir að vélin mín fór í loftið til baka, þá var ráðist aftur á Seðlabankann. Þannig að ég fékk ekkert að vera með. Myndin sem maður fær af veruleikanum þegar maður horfir bara á Ísland í gegnum fréttamiðlana og blogg er afskaplega móðursýkisleg. Þetta á sérstaklega við um bloggin. Ef maður les bara bloggið hans Ástþórs Magnússonar þá verður maður geðveikur.“

Sælir eru fátækir

Einhverjir lifa enn í voninni um að upp úr rústum kreppunnar muni nýtt og heilbrigðara samfélag rísa. Eiríkur segist ekki alveg átta sig á því hvert þetta stefnir. „Þetta er flókið. Ég á hægrisinnaðan vin sem er doktor í viðskiptafræði. Þegar við vorum í menntaskóla sagði hann alltaf að það besta sem gæti komið fyrir Ísland væri að það kæmi kreppa. Að við yrðum bara fátæk og fengjum að takast á við það. Kannski hefur þetta legið einhvers staðar að baki þegar ég fór að skrifa Gæsku. Vandamálið eða munurinn á því sem gerist í Gæsku og svo því sem gerist í raunveruleikanum er að í Gæsku verður fólkið í alvörunni fátækt. Fólk verður heimilislaust og þarf að selja hlutina sína. Eða allavegana reyna það.

Íslendingar eru ekkert fátækir. Við erum bara í kreppu í gæsalöppum og eins og Davíð [Oddsson] segir þá varð hrun í gæsalöppum. Haukur Már Helgason lýsti þessu ágætlega þegar hann líkti þessu við það þegar Wile E. Coyoto hleypur fram af brúninni og á meðan hann lítur ekki niður þá er allt í lagi. Þá hrynur hann ekki niður. Við erum ekki enn þá búin að líta niður. Einhvern veginn finnst mér að það hljóti að koma að því að það skelli á okkur fátækt. Gengi krónunnar er í algeru óefni. Það eru yfirvofandi gjaldþrot hér og þar en einhvern veginn er það eina raunverulega að bjórinn hefur hækkað. Þegar ég er úti finn ég einhvern veginn strax fyrir sveiflum á genginu. Þetta eru rauntímaáhrif. Maður vaknar á morgnana og kíkir á gengið á evrunni eða sænsku krónunni og þá veit maður hvað mjólkurlítrinn kostar þann daginn eða hversu mikið maður þarf að borga í leigu. Síðan eru einhverjir stopperar, sem halda enn þá, á því hvernig þetta lekur inn í íslenskt samfélag. Það er einhver sem stendur enn með fingurinn í gatinu á stíflunni. Ég hef ekki vit á hagfræði en þetta er tilfinningin sem ég hef fyrir þessu. Að fyrr eða síðar hljóti þetta að bresta á af fullum þunga og það er spurning hvað gerist þá. Ég held að þessi vinur minn hafi alveg haft á réttu að standas. Að Íslendingar megi við því að verða fátækir. Í fyrsta lagi til að átta sig á því að hamingjan liggur annars staðar en í því hversu mörg sjónvörp þú átt eða getir skipt um sófa á hverju ári. Og síðan bara til að ná að slappa aðeins af. Þetta er búið að vera svo brjálæðislegt.“

Harmur kreppunnar

„Maður vill samt ekki beinlínis óska neinum kreppu heldur. Maður sá það rosalega vel í Finnlandi hvernig kreppan á tíunda áratugnum lék þá þjóð. Það er samt náttúrulega meira sem liggur á þeirri þjóð. Þar var gegnumgangandi harmur alla 20. öldina. Finnar eru náttúrulega ekki í neinu vetrarstríði núna eða neinni kreppu,“ segir Eiríkur en á móti kemur að afleiðingar kreppu geta verið langvarandi og þrúgandi. „Það verður einhver atvinnulaus og fer svo að drekka og berja konuna sína. Svo er einhver sem skýtur sig. Þetta heldur síðan áfram og börnin taka þetta í arf og verða eins þannig að það skapast ægilegt ástand. Er ekki Mikael Torfason búinn að segja að Íslendingar séu allir alkóhólistar? Allir meira eða minna? En hann ætti að sjá hvernig þetta er í Finnlandi. Það er bara ekkert grín. Þar sem ég bjó í Helsinki lágu menn bara áfengisdauðir fyrir framan lyftuna og rónar lágu úti á götu. Munurinn á íslenskum róna og finnskum er að íslenski róninn drekkur til að deyfa tilveruna af því hún er svolítið erfið. Finnski róninn drekkur bara til að slökkva á heiminum. Svo liggur hann bara úti á götu og reynir að teygja sig í vodkaflöskuna sem er að renna út í götustein áður en hann rankar við sér aftur. Það er kannski ekki eðlismunur en ansi stór stigsmunur. Og þetta er einfaldlega bara eitthvað sem gæti fylgt alvöru kreppu. Þetta er þannig harmur.“ – toti@dv.is

aths. Það varð einhver misskilningur á búsetumálum fjölskyldunnar. Við förum til Oulu í Finnlandi á næsta ári, þar sem konan mín fer í tveggja ára nám.

Share to Facebook
Share to Google Plus