Misskilinn listamaður óskar eftir vinnu

February 25, 2010 in Fjallabaksleiðin

Og þá er bara að borða ruslið.

Ég er atvinnulaus frá og með 15. mars næstkomandi, þegar ég skila af mér þýðingu. Síðastliðin tvö ár fékk ég hálfs mánaðar ritlaun – mér þótti ég reyndar hafa mátt bíða lengi eftir þeim þegar ég loksins fékk eitthvað, en það er svo sem önnur saga.

Í dag fékk ég  bréf frá ritlaunasjóði þar sem mér var tjáð að því miður o.s.frv. Ekki þrjá mánuði, ekki hálft ár, ekki krónu. Mér þykir þetta auðvitað andskoti skítt – ég er einhvers staðar mitt á milli þess að vera raunverulega mjög reiður og alveg gersamlega miður mín. Ég hafði hálft í hvoru vonast til að fá jafnvel heilt ár, svona í dagdraumum sem maður nefnir ekki upphátt. Og að fá ekki neitt er helvíti skítt. Helvíti erfitt. Ég er atvinnurithöfundur og án launasjóðsins er ég eiginlega bara í ruglinu.

Það sem gerir þetta ennþá erfiðara er að ég sé ekki fram á að vera með bók í ár, sem aftur dregur mjög úr líkunum á að ég fái nokkuð næst – en ég stefni á langa skáldsögu fyrir jólin 2011.

Því er haldið fram í öllum umsóknartextum að valið byggi á greinargerð um fyrirliggjandi verkefni – sem þýðir að launin eru veitt fyrir óunnið starf, í orði. Á borði er þessu hins vegar öðruvísi háttað, einsog allir vita sem fylgjast með  úthlutunum sjóðsins – ritlaun eru veitt fyrir unnin verk í þeirri trú að von sé á álíka (góðum) verkum í framtíðinni.

Það er óopinbert leyndarmál að greinargerðin í ritlaunaumsókn er tómt bull – þær bækur sem þar er lýst verði sárasjaldan til, nema þegar um er að ræða hafin verk, sem er auðvitað alls ekki alltaf. Yfirleitt er þetta hrein og tær framtíðarmúsík. Á haustin, á umsóknartímabilinu, eru margir rithöfundar einmitt að skila af sér bók í jólaflóðið og varla nema með eitt tvö fræ að nýrri sögu í höfðinu. Ég skal alveg viðurkenna að ég hef, það ég man, ekki skrifað neitt af því sem ég hef sagst ætla að skrifa í þessum umsóknum – þó vel megi vera að mig misminni. En ég sest ekki niður með það skema og læt það stýra því hvert ég fer. Það er ómögulegt að segja frá skáldsögu fyrirfram – að skrifa skáldsögu er að komast að því um hvað hún fjallar og hvert hún fer. Það gerir maður ekki fyrirfram.

Og því er alveg eðlilegt að nefndin leggi áherslu á það sem þegar hefur verið skrifað og gefið út.  Á síðasta ári kom út þriðja skáldsagan mín, Gæska, sem hlaut einróma lof – sé fráskilið idiótískt rausið í Kollu og Páli – og Af Steypu, sem ég ritstýrði ásamt Kára Páli Óskarssyni, og er sýnisrit sem á sér engan sinn líka í íslenskri bókmenntasögu. Eins kaldhæðnislegt og það nú var, þá barst ritlaunaumslagið í póstinum með nýjasta TMM, þar sem er langur, kátur og naskur ritdómur um Gæsku eftir Björn Þór Vilhjálmsson, sem kallar hana fjallræðu um samtímann og eina áhugaverðustu skáldsögu síðasta árs. Auk þessa birti ég ljóð í tímaritum innanlands og utan, las upp á ótal ljóðahátíðum, þýddi bækur og ljóð, skrifaði um bókmenntir og vann almennt að framgangi bókmennta hér og þar, hingað og þangað, út um allt og alls staðar. Og samt var ég í fæðingarorlofi í 3 mánuði af tólf.

Ég er byrjaður á nýrri bók. Hef unnið í sirka mánuð. Hún hefur ekkert með þá bók að gera, sem ég sótti um ritlaun fyrir. En þessi bók verður varla skrifuð í ár. Þegar ég var bara aðeins yngri hefði ég líklega hrist þetta af mér með meira kæruleysi – rekið fingurinn út í loftið og hangið á yfirdrætti, skuldum og bótum á meðan ég skrifaði þessa bók. En ég á sex mánaða gamalt barn sem lifir ekki á hrísgrjónum og sojasósu þó pabbi hans geti það. Og því verð ég að finna mér vinnu. Ég hangi kannski á þýðingarpeningunum fram á vor en eftir það er ég einfaldlega ekki í góðum málum. Og ég kann ekki annað en að skrifa. Hef ekki gert annað en að skrifa í rúman áratug – öll mín fullorðinsár. Þegar ekki er annað í boði vaki ég á nóttunni og sef minna – sem ég veit ekki alveg hvort er leggjandi á fjölskylduna mína. Maður er ekki alveg mönnum sinnandi, þannig – ekki alveg með réttu ráði.

Það er líklega dónaskapur að telja sig eiga eitthvað skilið. Það er líklega óforskammað og hálfbrjálæðislegt. Ég nenni ekki að breytast í bitran rithöfund sem skrifar langar greinar í Morgunblaðið um hvað hann sé misskilinn – eða hvað hann sé fyrirlitinn – til að hnýta síðan við lofsamlegum umfjöllunum um sjálfan sig úr ritdómum. En það er aldrei að vita nema að ég geri það ef þetta pakk fer ekki að koma fram við mig af þeirri virðingu sem ég á skilið! (Djók! – nei, annars, ekki-djók. Jú, Djók! Nei, fjandinn hafi það – mér er fúlasta alvara, ég er atvinnulaus! Fokk. Nei, djók!)

Á morgun kemur svo í ljós hverjir fengu. Og þá einnig hverjir fengu ekki. Að ekki sé minnst á, hverjir sátu í nefndinni.

Þegar ég fékk ritlaun í fyrra skrifaði ég dálítinn þakkarpistil. Þessi pistill er dálítið takk fyrir ekki neitt. Ég er þannig stemmdur. Og ef ég má vera dálítið tilfinningasamur, þá langar mig líka að koma því að, að nefndarmenn, sem ég veit raunar ekki hverjir eru, eru menningarsnauðir bavíanar. Þetta segi ég hvorutveggja af reiði og sannfæringu. Nefndarmönnum er velkomið að vorkenna sjálfum sér, að verða fyrir beiskju minni í dag, en líklega hef ég þó gert þeim minna en þeir mér og það þó ég héldi áfram að uppnefna þá langt fram á sumar.

Auðvitað reddast þetta. Einhvern veginn skrifa ég bókina mína þótt ég fái ekki til þess ritlaun. Gæska seldist reyndar ekki nóg til þess að ég geti átt von á neinum launum frá Forlaginu (ég er enn að reyna að brjóta 400 bóka múrinn – kannski miðar nefndin við það?) en ég næ yfirleitt að skrapa einhverju saman hér og þar með upplestrum, til dæmis, og kannski greinaskrifum fyrir Grapevine og eitthvað. Eitthvað og eitthvað. Ekki fær maður greitt fyrir ljóðin sjálf. Eða varla. Þetta hefst á endanum. Helvítis. Draga andann. Upp. Upp. Upp.

Draga andann. Upp.

Share to Facebook
Share to Google Plus