Mín eina vonarglæta: Sölvi Björn Sigurðsson

April 15, 2010 in Fjallabaksleiðin

Sölvi Björn Sigurðsson.

Ég þyki ekki endilega mjög þokkafullur í öllum félagsskap og hef fyrir löngu gert mér grein fyrir því að ég er ekki allra – einsog heitir. Sumsé, hvernig sem á því stendur, er til fólk sem getur látið mig fara ótrúlega í taugarnar á sér. Það er því alveg spurning hvort nokkrum sé akkur í því að hafa mig með sér í liði í kosningabaráttu – ég gæti best trúað því að ægileg persóna mín styggi fleiri en hún laðar að. Á dögunum spurði mig rithöfundur hvern ég ætlaði að kjósa í formannskjöri RSÍ og þegar ég sagði það svaraði rithöfundurinn því til að fyrst svo væri ætlaði hann að kjósa hinn kostinn. Ég vil biðja þá sem lesa þessa ádrepu hérna að taka henni sem því sem hún er – persónulegri játningu minni á því hvers vegna ég ætli að kjósa Sölva Björn Sigurðsson – en rugli játningu minni eða skoðunum ekki saman við Sölva Björn, sem er mun betri og vandaðri maður en ég, eða brigsli mér um að vera eitthvað uppsigað við eldra fólk sem slíkt, og þaðan af síður Kristínu Steinsdóttur, þá ágætu konu og frábæra höfund.

Árið 1978 var kosinn nýr formaður til forystu Rithöfundasambands Íslands. Hann var 42 ára. Fæddur árið 1936.

Sex árum síðar var enn kosinn nýr formaður, nú 36 ára.

1988 var formaðurinn 33 ára.

1992 var formaðurinn 48 ára.

1994 var formaðurinn 52 ára.

1998 var formaðurinn 43 ára.

2006 var formaðurinn 59 ára. Hann lætur af embætti í ár, 63 ára.

Þeir sem gegnt hafa forystu í RSÍ síðustu þrjátíuogtvö árin, eða frá því ég fæddist – og frá fæðingarári Sölva Björns Sigurðssonar, sem nú býður sig fram til forystu sambandsins – fæddust á bilinu 1936 til 1955. Þetta er hin svonefnda ‘68 kynslóð, þeir sem voru ungt fólk – frá 13 til þrjátíuogtveggja ára – „byltingarárið mikla“, „sumar ástarinnar“.

Eina fólkið á Íslandi til að hafa gengið í fullorðinna manna tölu frá því um miðjan áttunda áratuginn.

Núverandi formaður RSÍ er ellefu árum yngri en formaðurinn árið 1978. Og Kristín Steinsdóttir, sem býður sig fram gegn Sölva, er ekki nema tíu árum yngri – 64 ára – hún er akkúrat helmingi eldri en Sölvi og einu ári eldri en núverandi formaður, Pétur Gunnarsson. Einhverjum þykir þetta kannski yfirborðslegur samanburður – að leggja fólk á vogarskálar eftir aldri – en það verður bara að hafa það. Mér hefur verið aldur íslenskrar menningar afar hugstæður frá því að Ásgeir H. Ingólfsson birti upplýsandi grein sína um úthlutanir úr launasjóði rithöfunda á Kistunni. Og á síðustu vikum hef ég meðal annars uppgötvað að ungir rithöfundar hafa engan áhuga á því að ganga í RSÍ – og það getur vart ráðist af öðru en að þeir finni ekki hið minnsta til þess að sambandið skipti þá máli.

Í sambandinu eru (skv. félagaskrá) ekki:

Kristín Eiríksdóttir, Kári Páll Óskarsson, Kristín Svava Tómasdóttir, Óttar Martin Norðfjörð, Haukur Már Helgason, Þórdís Björnsdóttir, Hugleikur Dagsson, Haukur Ingvarsson, Valur Brynjar Antonsson, Arngrímur Vídalín, Jón Örn Loðmfjörð, Ása Marín Hafsteinsdóttir, Bryndís Björgvinsdóttir, Ingólfur Gíslason, Örvar Þóreyjarson Smárason – og sjálfsagt er ég að gleyma ótal mörgum sem ættu að vera á þessum lista. Allt hefur þetta fólk gefið út tvær eða fleiri bækur sem teljast hafa ótvírætt listrænt gildi, einsog það er orðað í lögum sambandsins – og á því kost á inngöngu en velur að vera ekki með í stéttarfélaginu sínu. Þetta er bróðurparturinn af virkustu (og virtustu) höfundum Íslands undir 35 ára aldri.

Ég hef það á tilfinningunni að íslensk ritlist sé að verða ellidauð. En auðvitað hlýtur það að vera undarleg tilhugsun fyrir fólkið í RSÍ að formaðurinn geti verið yngri en flestir meðlimirnir – vorkjúklingurinn Sölvi Björn, sem, líkt og ég, er (næstumþví) miðaldra barnakerrupabbi með bumbu og stígandi kollvik.

En þetta þarf að útskýra frekar – eða undirstrika: að íslensk ritlist sé að verða ellidauð. Á þetta mætti taka hið þóttafulla 20. aldar svar og segja: Nei, bókmenntirnar eldast ekki þótt formenn rithöfundasambandsins eldist. Taka þessa frá sér numdu afstöðu að bókmenntir séu eitthvað sem standi handan við veruleikann en ekki einmitt á kafi í honum.

Formaður Rithöfundasambandsins er fulltrúi íslenskra höfunda út á við. Sambandið er hagsmunavörður okkar. Hver gegnir þar formannsstarfi hefur bein áhrif á það hver fær búið við efnahagsleg skilyrði sem leyfa honum eða henni að sinna list sinni án þess að þurfa að grípa til skúringakústsins í sjö tíma af hverjum átta tíma vinnudegi. Hagsmunabarátta rithöfunda snýst um að berjast fyrir þessu átta tíma næði. Gagnvart ríkinu, gagnvart forlögum, leikhúsum, útvarpi og öðrum fyrirtækjum sem greiða rithöfundum laun er sambandið fulltrúi baráttu okkar fyrir þessu næði; formaðurinn er talsmaður okkar og næðisins.

Það er ekki til neitt sem heitir veruleiki og svo eitthvað handan hans sem heitir skáldskapur. Sú afstaða er einungis til þess fólgin að efla þeim vald sem hafa það þegar og letja sókn annarra – svo valdið þurfi ekki að hafa áhyggjur af eigin stöðu. Hafðu ekki áhyggjur af ritlaunum, formannskjöri o.s.frv. því heilagar bókmenntirnar eiga að brenna innra með þér einsog lýsandi kyndill er bara umorðun á hæðnislegri speki Joes Hill: you’ll eat pie in the sky when you die. Og slíkri speki svarar maður bara með því að spegla fokkmerkið.

Umræðan um formannsstöðu Rithöfundasambandsins varpar að nokkru leyti ljósi á þær meinsemdir sem stýra allri umræðu í íslenskum bókmenntaaheimi, og þær má sjá í uppkokkuðum ástæðum fyrir því hvers vegna Sölvi geti ekki orðið formaður.

(Það eru raunar ekki margir sem tala gegn Sölva – ég hlýt að taka það fram svo ókunnugir telji ekki af orðum mínum að Sölvi sé níddur innan sambandsins. Mér sýnist sem svo að þetta hljóti að verða jafn slagur, án þess ég hafi þreifað mikið fyrir mér um það.)

Ástæðurnar sem andstæðingar Sölva finna uppá hjá sjálfum sér eru m.a. eftirfarandi

1. Að Sölvi sé reynslulaus.

Nú gæti einhver sagt að öldrunarrökum mínum hér að ofan sé í raun snúið á haus – að enginn munur sé á því að fólk segi Sölva of ungan til að stjórna, stýra, valda, og að segja Kristínu of gamla. En þar eru mér eignaðar skoðanir, kannski eðlilega, með einhverju tilgátuhoppi mætti alveg ætla mér að finnast Kristín of gömul til að stjórna – að hún sé óhæf sökum elliglapa. En ekkert er mér í raun fjær. Ég vil fyrst og síðast undirstrika að Sölvi er ekki barn eða unglingur – ekki reynslulaus – en umfram það vil ég benda á hugmyndina um representasjón. Fyrir mér snýst þetta ekki um aldur nema að svo miklu leyti sem þetta snýst um þessa representasjón. Yngra fólk – fólk sem er ekki alveg orðið miðaldra – á að eiga hlutdeild að íslenskri menningu og menningarstofnunum. Þannig eru Kristín og Sölvi að mínu mati bæði fyllilega hæf, en Kristín geldur þess að tilheyra þjóðfélagshópi sem er nú þegar ofrepresenteraður í íslensku menningarsamfélagi, rosknu fólki af ’68 kynslóðinni.

Burtséð frá þessu ættu allir að geta tekið undir að Sölvi er enginn reynslulítill smáhvolpur. Þrjátíuogtveggja ára gamall maður með tæplega tíu ára útgáfuferil, sem hefur lifað og hrærst í bókmenntaheiminum frá því hann var barn, er einfaldlega ekki reynslulaus. En í menningarheimi sem eldist stöðugt er hægt að halda því fram að allir sem yngri eru, séu börn langt fram undir fimmtugt (svo fremi sem það þjónar þeim hagsmunum að halda gömlu vinaklíkunni við völd).

2. Að Sölvi hafi ekki farið rétta leið að kjötkötlunum (altso: setið í stjórn).

Þetta er annar angi af fyrstu meinsemd. Sölvi hefur ekki reynslu af stjórnarstörfum í RSÍ og þar með kann hann ekki neitt. Hver sá sem hefur til að bera agnarögn af skynsemi – og hefur lesið einsog eina fundargerð frá RSÍ – áttar sig á því að þetta er tóm þvæla.

Í fyrsta lagi þá hefur Sölvi Björn góða yfirsýn yfir hagsmunamál rithöfunda einfaldlega fyrir að hafa verið strögglandi rithöfundur í rétt um áratug – mun ferskari yfirsýn, hefði ég haldið, en þeir sem komu ár sinni fyrir borð fyrir hartnær þremur áratugum síðan. Auk þess er sýn Sölva á hagsmunamál rithöfunda önnur en þeirra sem gegnt hafa embættinu síðustu þrjátíu árin – sýn hans er nýrrar kynslóðar, einmitt vegna þess að hann er heilum 23 árum yngri en sá yngsti til að hafa gegnt þessu embætti í ríflega þrjátíu ár.

Í öðru lagi þá eru félagsstörf af þessu tagi jafnan engin kjarnorkuvísindi. Formsatriði starfsins lærir maður einfaldlega á fyrstu vikunum. Restin byggir á almennri yfirsýn yfir rithöfundastarfið, ritlaunamálin og forlagsheiminn.

Í þriðja lagi þá er hvorki verið að tala um að endurnýja alla stjórnina (þótt það kæmi sjálfsagt heldur ekki mikið að sök) né að reka starfsmenn eða lögfræðinga sambandsins. Sölvi býður sig ekki fram á neinum menningarbyltingarsinnuðum forsendum. Hann ætlar alveg áreiðanlega ekki að taka alla höfunda fædda fyrir 1960, setja þá á fleka og ýta þeim áleiðis til Færeyja. Sölvi er betri maður en ég og auðveldari viðfangs – hann ætlar sér einfaldlega að verða fulltrúi allra rithöfunda á Íslandi – og mun án nokkurs vafa sækja í þann nægtabrunn reynslu sem fyrrverandi formenn og stjórnarmenn hafa að bjóða, á sama tíma og hann hlustar á sér yngri höfunda og leitar leiða til þess að sinna þeim svo þeim þyki einhver akkur í að vera með.

3. Að það megi ekki hrófla við ritlaunasjóði.

Uppúr 1982 urðu mikil læti út af launasjóði rithöfunda og munaði víst minnstu að sambandið splundraðist. Þetta er auðvitað þeim sem voru upp á sitt besta árið 1982 afar ferskt í minni. Því fólki rennur kalt vatn milli skinns og hörunds – það best ég hef getað merkt – þegar talað er um að sambandið hafi hina minnstu skoðun á úthlutun úr ritlaunasjóði, hvort heldur það er stökum úthlutunum eftirá eða reglunum um úthlutunina fyrirfram. Hlutverk Rithöfundasambandsins er að standa hljóðalaust á hliðarlínunum og sjá til þess að Rithöfundasambandið skiptist ekki í tvær fylkingar. En fyrir sakir sinnuleysis sambandsins gagnvart yngri höfundum hafa rithöfundar þegar tekið að skiptast í tvær fylkingar – þá eldri, sem una sér vel, og þá yngri, sem standa utan stéttarfélagsins vegna þess að þeir finna ekki fyrir því að sambandið sinni hagsmunum þeirra hvort heldur það er gagnvart forlögum, sjóðum, ríki eða öðrum aðilum.

Ef ég mætti brjóta trúnað við fáeina kunningja mína gæti ég sagt hér ótal sögur af því hvernig sambandið hefur lítið viljað eða nennt að hjálpa þeim fáu yngri höfundum sem þó eru aðilar að því – jafnan er öxlum bara yppt og sagt sådan er livet, get over it, okkur þykir það leitt.

Hér er ein svona saga, sem ég sagði og gat sagt af því ég átti þátt að henni sjálfur.

Ríkið er stærsti launagreiðandi íslenskra rithöfunda. Að láta einsog stéttarfélag rithöfunda eigi ekki að skipta sér af úthlutun ritlauna er sambærilegt því að leggja til að verkalýðsfélög sitji hjá við gerð kjarasamninga – svo það verði nú barasta ekki allt vitlaust í þjóðfélaginu. Þetta er botnlaus aumingjaskapur.

4. Að ellin sé sjálfsagt eðli valdsins.

Ég er nýkominn frá Póllandi, þar sem ég var á ferð með nokkrum íslenskum rithöfundum sem hvorki eru í sambandinu né fá ritlaun frá ríkinu – og tveimur myndlistarkonum. Þar heimsóttum við óhemju af galleríum, forlögum, listastofnunum og listasöfnum í þremur borgum. Það sem kom mér helst á óvart var hvað allir voru ungir. Fólkið sem stendur á bakvið nútímalistasafnið í Varsjá, sem eftir fimm ár mun flytja í nýtt 36 þúsund fermetra húsnæði (og er í bærilegu húsnæði nú þegar) – á stærð við Tate Modern – er á aldur við mig ef ekki yngra. Og þau fá að flippa. Næsta sýning verður til dæmis lokuð – bara hægt að sjá hana í gegnum rúður safnsins. Þau múruðu inni allan bókakost safnsins í öðru flippi. Pólsk menning tekur sig ekki jafn alvarlega og íslensk – pólskur menningarheimur leyfir sér.

Í Póllandi er ekkert sjálfsagt að sýningarstjóri í virðulegu galleríi, eða útgáfustjóri hjá forlagi, sé kominn yfir fertugt – og helst yfir fimmtugt. Varla er þetta vegna þess að ’68 kynslóðin standi þar veikum fótum – hún er allt að því tilbeðin, þetta eru Lech Walesa og félagar. En kannski er æskan ekki jafn fyrirlitin – ekki talin jafn grunnhyggin, skammsýn og heimsk – og manni þykir raunin í íslenskum menningarheimi.

Maður þarf kannski að sjá það með berum augum til þess að trúa því að einhver geti talist fullorðinn sem ekki gengur við staf. Að einhver geti talist fullgildur meðlimur í menningarheimi, sem ekki þiggur ellilífeyri.

Nú má ekki misskilja mig – það er ekkert gott við það að reynsla glatist – reynslu þarf að halda utan um og kynslóðir eiga að tala saman. En það á ekki að halda svo í reynsluna að ekkert nýtt geti myndast fyrren hið gamla er dautt, horfið og gleymt. Hinir eldri geta svo sem farið í gröfina með reynslu sína en þá situr samfélagið eftir reynslulaust. Að halda sambandi kynslóða lifandi er nefnilega ekki bara á ábyrgð hinna yngri – hinir eldri verða líka að gefa hinum yngri rúm til að tala. Og það ætti ekki að gerast fyrst þegar menn eru farnir að ganga í fertugt.

5. Að allir eigi að vera í gúddí-fíling.

Ég veit ekki hvernig á því stendur – varla eru neinir spunameistarar í þessu kapphlaupi – en af einhverjum orsökum hefur Sölva Birni verið brigslað um að stefna gegn Kristínu, frekar en að hún stefni gegn honum. Einhver hefur lagt það þannig upp og það hefur orðið ráðandi túlkun: Kristín ætti að vera sjálfkjörin en Sölvi (líklega af tómri illgirni) hefur ráðist gegn henni.

Á þennan hátt er hægt að láta einsog það sé Sölvi sem spilli því sem er mikilvægast íslenskum rithöfundum allt frá því einhver varð reiðari en þokkafullt þótti árið 1982: gúddí-fílingnum. Hér eru allir að reyna að vera almennilegir hver við annan þegar Sölvi Björn ryðst inn í partíið og byrjar að gera sig breiðan og … ég myndi segja velta við borðum ef ég væri ekki svona gagngert mótfallinn illa hugsuðum kristslíkingum.

Nú trúi ég því ekki að Sölvi ætli að standa í neinum menningarslátrunum, einsog áður segir – en það lýsir einhverri hysteríu að það megi ekki vekja máls á neinu sem hinn minnsti ágreiningur er um án þess að allir setji upp einhvern ægilegan óttasvip: nú verður allt vitlaust! Ég geri ráð fyrir að Sölvi vilji hrófla við einu og öðru – ég sé ekki betur en hann hafi ákveðnar skoðanir á framgangi Rithöfundasambandsins og framtíð. Ef hann hefði þær ekki – ef hans helsta markmið í formannsembætti væri að sitja á friðarstólum við allt og alla – þá fyrst hefði ég áhyggjur.

Eitt af því sem mælir í mót þeim spádómi mínum að Sölvi verði kosinn formaður RSÍ er skortur á kjósendum sem sjá sjálfa sig í honum. Stærstur hluti þeirra sem væru líklegir til að þykja Sölvi representera sig – þeir sem eru undir níræðu (djók!) – eru alls ekki með kosningarétt enda ekki aðilar að sambandinu. Á endanum verða þá kannski sífellt færri og færri sem hafa reynslu af því að vera í sambandinu – þar til loks verður enginn eftir. Í landi þar sem telst alls ekki óalgengt að byrja útgáfuferil upp úr tvítugu hlýtur að teljast furðulegt að nær engir höfundar undir þrítugu tilheyri Rithöfundasambandinu. Mér skilst raunar að einhver séns sé á því að fá samþykkta inngöngu í sambandið fyrir kjördag, 29. apríl, en þá þurfi innganga að vera meira og minna sjálfsögð – sem hún ætti að vera fyrir þá sem hafa gefið út tvær bækur, en ekki endilega fyrir þá sem hafa bara gefið út eina. Eða ef einhver vafi leikur á um ótvírætt listrænt gildi þeirra verka sem höfundur hefur staðið fyrir (ég gæti t.d. trúað að sambandið tæki upp á því að lyfta brúnum yfir umsókn frá Jóni Erni Loðmfjörð – enda voru flestir meðlimir sambandsins löngu orðnir gráhærðir þegar internetið vafði sér utan um heiminn).

Ofangreint lýsir því hvers vegna ég ákvað að kjósa Sölva áður en ég hafði lesið stefnuskrá hans. Sú afstaða mín efldist þegar ég hafði lesið téða stefnuskrá – og fái ég leyfi hjá Sölva skal ég birta hana hér á næstu dögum.

Share to Facebook
Share to Google Plus