Frá Sölva: Af hagsmunamálum rithöfunda

April 19, 2010 in Fjallabaksleiðin

Einsog ég hafði lofað birti ég hér stefnuskrá Sölva Björns Sigurðssonar vegna framboðs til formanns RSÍ.

Kæru félagar í Rithöfundasambandi Íslands.
.
Eins og mörg ykkar vita hef ég ákveðið að gefa kost á mér til formennsku í sambandinu þetta árið. Af því tilefni hef ég tekið saman nokkur atriði sem mér finnst gjarnan mega koma til umræðu í þeirri baráttu og starfi sem fyrir liggur á komandi árum. Hlutverk formanns er þar mikilvægt og vona ég að menntun mín í bókmennta- og útgáfufræðum, reynsla af starfi höfundar, þýðanda og ritstjóra, ásamt brennandi áhuga á hinum fjölmörgu hliðum bókmenntaheimsins, geri mér kleift að sinna embættinu af metnaði og dug fari svo að ég verði kosinn. Listi yfir baráttumál rithöfunda verður seint tæmandi en ég tel hér upp fáein atriði sem mér finnst vert að hafa í huga:
.
1. Staðið verði þétt að baki varðveislu launasjóðs rithöfunda og hann efldur og stækkaður, og nýliðun jafnframt tryggð.
.
2. Sambandið sýni fjölmiðlum fullt aðhald ef þörf er á, krefji þá t.d. um skýringar á því hvers vegna sé staðið sé fyrir kostnaðarsömum skoðanakönnunum um hvort leggja eigi niður listamannalaun. Hér fer lítt duldur áróður sem æsir fólk til andúðar í hagsmunamáli er varðar rithöfunda miklu, án þess að umræðunni fylgi ígrunduð rýni eða hún sett í heildarsamhengi. Eitt af hlutverkum sambandsins, og kannski ekki síst formanns, er að kynna almenningi þetta heildarsamhengi af krafti og einurð.
.
3. Lögð verði fram tillaga um skyldukaup almenningsbókasafna á ritum er uppfylla ákveðin skilyrði, líkt og þekkist í Noregi og fleiri löndum, höfundum til mikilla hagsbóta.
.
4. Tekið verði saman greinargott yfirlit um allt sem viðkemur fjármálum höfunda – skattflokka, tryggingagjald, lífeyrissjóð, framtalsgerð, útlagðan kostnað og annað slíkt – og þetta gert tiltækt á heimasíðu sambandsins. Birtur listi yfir einstaklinga og stofnanir er sérhæfa sig í fjármálum listamanna og geta aðstoðað félaga og veitt upplýsingar um hvaðeina er varðar þessi mál.
.
5. Unnið verði að því að koma á rammasamningum við kvikmyndaframleiðendur, svipaða þeim sem eru fyrir hendi við atvinnuleikhúsin, og höfundum gerðar upplýsingar tiltækar sem nota má til viðmiðunar við slíka samninga.
.
6. Fréttabréf sambandsins aukið og eflt svo úr verði gott félagsrit þar sem helstu nýmæli í bókmenntalífi landsmanna eru kynnt og félagar geta komið á framfæri málum er varða hag og hamingju íslenskra rithöfunda.
.
7. Unnið verði, í samstarfi við útgefendur og menningarstofnanir, að eflingu Hinna íslensku bókmenntaverðlauna með hækkun verðlaunafjár og lengra og metnaðarfyllra tilnefningaferli. Nýta tilvist verðlaunanna til að stefna útgefendum og höfundum saman á uppskeruhátíð bókmenntaheimsins – jafnvel svo að fleiri af þeim bókmenntaverðlaunum sem þegar eru fyrir hendi verði veitt við sama tilefni.
.
8. Stefnt verði almennt að því að glæða íslenska bókmenntaumræðu meira lífi og gera hana uppbyggilegri. Það er engum til gagns að sú litla umfjöllun sem hér er fyrir hendi í stóru fjölmiðlunum þurfi að snúast um „leiðinlegustu rithöfundana“ eða bækur sem gagnrýnendur nenna ekki að tala um og hrista bara hausinn yfir. Þessi neikvæðni er til vanþurftar og illskiljanleg af hendi þeirra er halda uppi menningarumræðu í landinu.
.
9. Sambandið leitist við að auka nýtingu þess erlenda menningarfjármagns er höfundum býðst í gegnum gáttir á borð við Kulturkontakt, Sókratesáætlunina, Menningaráætlun Evrópusambandsins og fleiri slíkar; að styrkur sambandsins sem einingar íslenskra höfunda auðveldi félögum að sækja í þetta fé og koma á verkefnum er nýtast íslensku höfundasamfélagi í heild.
.
10. Skoðað verði í þessu samhengi hvort opna megi alþjóðlegt rithöfundasetur á Íslandi, er nýtur alþjóðlegra rekstrarstyrkja, svipað þeim setrum er finnast víðs vegar um Skandinavíu, Eystrasalt og víðar í Evrópu. Hér gæfist öflugt færi á auknum tengslum við erlend höfundasamtök og framsetningu bókmenntaviðburða í lifandi og gróskumikilli miðstöð þar sem íslenskir og erlendir höfundar koma saman.
.
11. Staðið verði fast gegn hugmyndum Reykjavíkurborgar um að RSÍ greiði leigu fyrir Dyngjuveg 8. Hér er illa vegið að sambandinu án þess að nokkrar forsendur séu fyrir högginu.
.
12. Hafa „story-telling“ kvöld á Dyngjuvegi – koma á Sagnahátíð og leita jafnvel samstarfs við slíkar hátíðir erlendis, t.d. í Skotlandi.
.
13. Tryggja fulla þátttöku sambandsins í öllu því ferli er lýtur að umsókn Reykjavíkurborgar um að gerast Bókmenntaborg UNESCO – og nýta þetta tækifæri í tengslum við aðrar hugmyndir sem hér eru nefndar, og fleiri sem fæðast á næstunni með aukinni umræðu og samstarfi höfunda.
.
14. Koma á lestrarátaki í grunnskólum með þátttöku fjölmiðla og virkja þar höfunda til verks. Hér má ætla að Sókratesáætlunin geti komið að góðum notum.
.
15. Láta almenning vita að bókmenntir skipta máli, að útgáfuheimurinn sé þjóðþrifamál. Gleyma því ekki að afskriftir einstakra auðmanna í bankakerfinu nema 250 ára rekstri allra launasjóðanna til samans. Þiggjendur listamannalauna eru nokkur hundruð á hverju ári, og við getum vel fært rök fyrir því að starf okkar sé þjóðhagslega hagkvæmara en margt sem nýtur ríkulegri umbunar opinberra sjóða.
.
Með kærri kveðju og von um góða mætingu á aðalfundinn 29. apríl,
Sölvi Björn Sigurðsson

Dálítil umræða er hafin við pistilinn sem ég skrifaði um málið fyrir nokkrum dögum.

Share to Facebook
Share to Google Plus