Kraftur, Friður, Frelsi (meira röfl)

April 30, 2010 in Fjallabaksleiðin

Jæja. Nú þarf ég eiginlega að kategórísera. Millifyrirsegja. Nokkur atriði á dagskrá og höfuðið á mér snýst, mig svimar, annað hvort hef ég ekki drukkið nóg kaffi eða ég hef drukkið of mikið kaffi. Sef alltaf jafn undarlega. Í Svíþjóð gengur á með vorhretum og misvaranlegum loforðum um sólríkt sumar. Í blaðinu stóð að á Valborgarmessu (altso, í dag) yrði galið veður og með fyrirsögninni var mynd af þaulbakaðri konu í sólbaði. En svo er bara skýjað. Á morgun má ekki vera öskuský því ég þarf að fljúga.

Millifyrirsögn I: Formannskjör RSÍ

Íslensk fortíð.

Íslensk fortíð.

Kristín Steinsdóttir vann en ég hélt með Sölva Birni af vel tíunduðum ástæðum. Mér hefði í raun og veru þótt gleðiefni að einhver undir fimmtugu fengi að-„stöðu“ í íslenskri menningu. Ég hef ekki tekið það saman en tilfinningin er sú að allar nefndir, allir ritstjórar, allt fólkið með töglin og hagldirnar, fólkið sem aranserar praktísku hlutunum – sé í eldri kantinum. Þetta er sama afstaða og við höfðum fyrir hartnær áratug þegar við stofnuðum Nýhil – að íslensk menningarstofnun væri gömul og áhugalítil um annað en sjálfa sig. En það dregur ekkert af Kristínu og ég hef fulla trú á því fyrir fram að hún muni standa sig með prýði. Ég óska henni til hamingju með embættið og félögum mínum í Rithöfundasambandinu til hamingju með Kristínu.

Svona get ég nú verið húsum hæfur líka, inn á milli. Ég er enn með allan heiminn á hornum mér, en stundum hreyfi ég mig bara af meiri þokka. Meiri vals og minni rúmbu.

Ég tel auk þess að kosningabarátta Sölva hafi verið til þess að vekja verðskuldaða athygli á baráttumálum yngri rithöfunda. Við Sölvi verðum vafalaust komnir inn í hlýjuna eftir nokkur misseri og höfum meira að segja fengið að hlýja okkur aðeins á höndunum stöku sinnum – en það er óþolandi tilhugsun að yngri höfundum (en okkur Sölva) bíði önnur eins … uh … já bið. Bíði önnur eins bið eftir næði til skrifta. Því þetta er mannskemmandi.

Millifyrirsögn II: The Fjölís Prize for Literary Excellence

Í gær fékk ég viðurkenningu úr Fjölíssjóði. Ekki veit ég hver fann upp á þessu skáldlega nafni (nú er ég aftur byrjaður að röfla) – en ég hef ákveðið að á enska CV-inu mínu verði þetta kallað The Fjölís Prize for Literary Excellence. Fjölíssjóður er tilkominn vegna þeirra greiðslna sem Rithöfundasambandið veitir móttöku fyrir ljósritun í skólum og víðar. Allt er þetta auðvitað hálf kaldhæðnislegt í því ljósi að ef ég fengi að ráða mættu skólar ljósrita ókeypis.

Millifyrirsögn III: Sverð og skjöldur íslenskrar ljóðlistar: Mið-Ísland

Um þetta hef ég röflað slík ósköp á Facebook að takkarnir á tölvunni minni eru orðnir máðir. Í sem stystu máli er þetta svona: Sögueyjan Ísland er vefur sem settur var á fót til að kynna íslenskar bókmenntir erlendis, sérstaklega í tengslum við bókamessuna í Frankfurt árið 2011, þar sem Ísland verður heiðursgestur. Eitt af þeim verkefnum sem Sögueyjan Ísland sýslar nú með er „Ljóða-slamm“ úr Íslendingasögunum – þar sem þrjú þýsk ljóðskáld heimsækja Ísland og ferðast þar um ásamt íslenskum kollegum sínum. Á næsta ári verður átakið síðan endurtekið í Þýskalandi:

Þýsku og íslensku ungskáldin munu á vormánuðum 2011 taka þátt í fjölda bókmenntahátíða í Þýskalandi í aðdraganda bókasýningarinnar í Frankfurt þegar Ísland verður heiðursgestur sýningarinnar.

Í fyrsta lagi er konseptið heldur absúrd:

Þar munu þýsk og íslensk skáld spinna sinn eigin texta upp úr íslensku fornsögunum. Þrír þýskir rithöfundar eru væntanlegir til Íslands í maí í þeim tilgangi fá Íslendingasögur og Eddukvæðin beint í æð. Hugmyndin er að Þjóðverjarnir hitti hér íslensk skáld og fræðimenn, fari á söguslóðir Íslendingasagnanna og fái fjölbreytta sýn á bókmenntaarf Íslendinga. Markmiðið er að eftir sex daga reisu um Ísland verði gestirnir orðnir það sjóaðir í sagnaarfinum að þeir getið spunnið út frá honum eigin skáldskap.

Þýskum ljóðskáldum er boðið til Íslands til að fyllast einhverri norrænni andagift, sem þau munu síðan flytja í samstarfi við íslensk ljóðskáld út um allt Þýskaland – og sýna þannig og sanna frábærð Íslands (ég get ekki skilið þetta öðruvísi, þótt sjálfsagt heiti skáldin því öll að vera ægilega krítísk ef á þau verður gengið). Þetta er í sem stystu máli fasískt prójekt einsog um mætti skrifa langa pistla – þetta er hugmyndin um íslenskar bókmenntir sem landkynningu en ekki bókmenntakynningu.

Haukur Már Helgason sagði nýlega eftirfarandi í kommenti:

Í fáránlegri skýrslu Forsætisráðuneytisins frá vorinu 2008 um Ímynd Íslands er hvatt til samstarfs við bókaútgefendur og rithöfunda um ímyndarsköpun landsins, meðal annars verði rithöfundar hvattir til að skrifa „jákvæðar árangurssögur úr íslensku viðskiptalífi“.

Og manni dettur skyndilega í hug að þetta verði málið í Frankfurt. Að Frankfurt verði ein allsherjar Íslandsorgía, þar sem bókmenntirnar verða farartæki fyrir landið, fyrir grobbið – alla þessa óhuggulegu íslensku sem við þekkjum úr gorgeir forsetans og víðar (man einhver eftir því þegar einhver íslensk listastofnun sendi risastóran klakahnullung til Frakklands þar sem hann fékk að bráðna á götum Parísar?). Að Frankfurt verði eitt risastórt kokteilboð með starfsmönnum utanríkisráðuneytisins. Allir vitnandi í Njálu hægri vinstri.

En að hinu. Sem skiptir líka máli. Kjaftshögginu.

Íslensk framtíð.

Íslensk framtíð.

Fulltrúar hins unga íslenska skáldskapar, á túr um Þýskaland og Ísland, er grínistahópurinn Mið-Ísland: Bergur Ebbi Benediktsson, söngvari Sprengjuhallarinnar, Dóri DNA, rappari og Ugla Egilsdóttir, leikkona. Nú mál vel tengja list þessa þríeykis við ljóðlist með einum og öðrum hætti – Bergur Ebbi mun m.a.s. vera með ljóðabók á leiðinni – hipp hopp er náskyld frænka ljóðlistarinnar, uppistand og rapp eru tvímenningar slammsins. Og ef íslensk ungskáld nytu mikillar kynningar erlendis (og fyrir sakir full disclosure er rétt að nefna fict.is – sem er vissulega ágætt prójekt) þá væri kannski ástæða til þess að brjóta upp formið og senda grínista í staðinn fyrir ljóðskáld. En íslensk ungskáld búa í heimi þar sem fjölmiðlar fjalla ekki um bækur þeirra, þau eiga ekki nokkurn séns á ritlaunum, og afar sjaldan þess kost að lesa upp utan Reykjavíkur. Þau búa einfaldlega við afskaplega mikið áhugaleysi – og það hlýtur að vera helvíti sárt fyrir íslensk ungskáld að fá það í andlitið að þau séu ekki frambærileg erlendis.

Því maður hlýtur að spyrja sig hvers vegna gengið er framhjá fólki á borð við Kristínu Svövu Tómasdóttur, Sigurlín Bjarneyju, Kára Pál Óskarsson, Arngrím Vídalín, Hildi Lilliendahl, Bryndísi Björgvinsdóttur, Ragnhildi Jóhanns, Emil Hjörvar Petersen, Magnús Sigurðsson, Jón Örn Loðmfjörð – og ef meiningin er að velja fólk sem hefur EKKI gefið út bækur, hvað þá um Jón Bjarka Magnússon, Kára Tulinius eða ótal aðra sem hafa verið á senunni síðastliðin misseri? Þetta er líklega stærsta kynningartækifæri sem ungskáldum hefur boðist erlendis í áraraðir. Og þótt konseptið sé rugl mætti alveg vinna eitthvað almennilegt úr því – það má taka því sem tækifæri til að rústa (og þá meina ég ekki: gera gys að, heldur einmitt rústa – í merkingunni: Jón Örn slagandi um hálfdrukkinn æpandi á fólk á meðan starfsfólkið reynir að bera hann út).

Ég sé tvær mögulegar skýringar á þessu. Annars vegar gæti einhverjum (þeim sem skipulagði viðburðinn) fundist að íslensk ljóðskáld undir þrítugu séu einfaldlega drasl sem tekur varla að púkka upp á. Það mætti þá segja upphátt svo hægt væri að bregðast við því („Er þetta búið?“). Hins vegar gæti verið að sá sem skipulagði viðburðinn fylgist ekki með, sé hreinlega alls ekki með á nótunum, og hafi bara hent þessu saman í fljótheitum – hann eða hún hafi verið beðinn um að finna þrjú skáld til að para saman við Þjóðverjana og gripið það næsta besta, rekið augun í ungmennablaðið Monitor inni í mogganum einn laugardagsmorguninn og Eureka!

Þetta er kannski bara enn ein sönnunin um áhugaleysi íslenskrar bókmenntastofnunar – hún ýmist veit ekki af eða kærir sig ekki um höfunda undir þrítugu. Og snýr sér þess vegna að fólki sem er frægt fyrir annað – það er a.m.k. ungt. Einn af tveimur, tékk. „Allir vinna.“

Allt finnst mér þetta undarlegt og allt hryggir þetta mig.

Það er ástæða til þess að taka fram að ég röfla hér ekki fyrir eigin hönd. Ég les orðið upp víðar en ég nenni og verð áreiðanlega eitthvað í Þýskalandi í kringum útgáfu skáldsögunnar Eitur fyrir byrjendur á þýsku í haust. En mér finnst þetta óþolandi fyrir hönd þeirra ungskálda sem ég dái og m.a.s. hinna líka sem mér finnast léleg. Þá er ekki síður ástæða til að nefna að ekkert af þessu er gagnrýni á Mið-Ísland, Sprengjuhöllina, Halldór Kiljan Laxness, Bæjarins Bestu eða Mávahlátur – og ekki á Uglu, Berg eða Halldór. Þetta er ekki spurning um hvort þau séu hæfileikarík eða ekki. Og það álasar þeim enginn fyrir að hafa þekkst boðið – þetta er gott boð og mér skilst (skv. óstaðfestum baktjaldaheimildum) að þau fái greiddar 800 evrur bara fyrir Íslandslegginn, það er erfitt að neita slíkum boðum á síðustu og verstu, fyrir að leika ljóðskáld í nokkra daga, og það þótt þetta sé lygi og upphæðin sé mun lægri.

Og nú er ég vonandi búinn að röfla nóg um þetta mál. Búinn að röfla gat á þetta mál. Nú er óhugsandi að ég eigi nokkra vini eftir.

Millifyrirsögn IV: Eistland

Ég er að fara til Eistlands á morgun. Fyrst í ljóðaþýðingavinnubúðir í fiskiþorpinu Käsmu og síðan á Bókmenntahátíðina í Tallinn, þar sem ég kem fram fimmtudaginn 6. maí og laugardaginn 8. maí. Sunnudaginn 9. maí skemmtir síðan Einar Kárason.

Millifyrirsögn V: Hróarskelda

Búinn að bóka upplestur á Hróarskeldu í sumar. Þetta eru tveir viðburðir – annars vegar analóg textarímix á sviði með ægilegri viðargræju sem lítur út einsog risastór plötuspilari (meira um þetta síðar, ég held þetta sé hálfgert leyndarmál enn) og hins vegar upplestur á vegum krakkanna í Literatur På Scenen. Fyrsta og annan júlí. Ég held að ég sé þá fyrsta íslenska skáldið til að koma fram á Hróarskeldu. Ég hlakka mest til að sjá Motörhead. Og ég held að Lemmy hlakki mest til að sjá mig.

Share to Facebook
Share to Google Plus