Perspired by Iceland kynnir: Fréttatilkynningin er þjófnaður

May 10, 2011 in Ást er þjófnaður, Bækur, Uncategorized


Allur lestur er þjófnaður.

Öll hlustun er þjófnaður.

Allt áhorf er þjófnaður.

Útgáfufélagið og bónusklúbburinn Perspired by Iceland kynnir – í samstarfi við SLIS, Sumarbúðir listhneigðra sósíalista – sína fyrstu prentuðu afurð:

Ást er þjófnaður eftir Eirík Örn Norðdahl er ritgerðasafn um höfundarétt, þjófnað og framtíðina í ótal örlitlum hlutum, bók sem sett var saman einn helvítis mánuð 2011; ort, umbrotin, prentuð og dreift á þrjátíu dögunum (enda veröldin á undanhaldi og hver að verða síðastur).

Fyrstu orðin voru sett á blað 11. apríl, opinber útgáfudagur er 11. maí.

Ást er þjófnaður fæst á www.perspiredbyiceland.com og www.norddahl.org – sem rafbók eða pöntuð sem prentuð bók í fallegu vasabroti, einum 156 síðum. Rafbókin kostar á bilinu 5-15 evrur (eftir efnum og hentugleikum) en prentuð kostar bókin 17 evrur auk sendingarkostnaðar (ekki ber að taka verðlagningu sem afstöðu til Evrópusambandsins, alþjóðakapítalismans eða arabískra fræða, heldur sem hreinni og tilviljunarkenndri hentistefnu).

Eiríkur Örn Norðdahl er. Enn sem komið er og það sem eftir er. Hann hefur skrifað þrjár skáldsögur og sjö ljóðabækur, býr yfirleitt í Finnlandi en verður á Íslandi frá mánaðamótum og fram til haustskipa. Hann er ínáanlegastur á kolbrunarskald@norddahl.org

Perspired by Iceland er miðill um merkingu, helgimyndaspjöll, þjófnað og pólitískan rétttrúnað. www.perspiredbyiceland.com

Sumarbúðir listhneigðra sósíalista eru óárviss viðburður á Vestfjörðum, sem síðast var fagnað korteri í hrun, en næst verður fagnað á sumri komanda. Boðið verður upp á tófupylsur, heita bakstra og Müllersæfingar. Að venju verður kynjaskipt á daginn en blandað í svartan dauðann á kvöldin. Skráning fer fram í síma.

Hér er hægt að kaupa bókina (og lesa formálann).

Share to Facebook
Share to Google Plus