Fréttabréf: Frankfurt! Gautaborg! IWF! OMG! og Booby!

September 22, 2011 in Fréttir

Kæru vinir.

Næstkomandi laugardag tek ég þátt í bókamessunni í Gautaborg. Þar verð ég hluti af dagskrá Zebra ljóðmyndahátíðarinnar, í svonefndu Rum för poesi, þar sem ég mun lesa ljóð og Zebra kynnir valinn hluta af dagskránni frá því í fyrra – þar með talda ljóðmyndina Höpöhöpö Böks.

En Gautaborg er bara upphitun fyrir Frankfurt, þar sem dagskráin verður sem hér segir:

FIMMTUDAGUR / 13.10.
16:00 Upplestur og bókakynning á “Büchergilde Frankfurt”, (An der Staufenmauer 9, S- and U-Bahn: Konstabler Wache)
19:00 Upplestur á Íslandskvöldi á Eulengasse (Seckbacher Landstraße 16, U4 Seckbacher Landstraße)

FRIDAY / 14.10.
19:00 Hljóðaljóðagjörningur með Moniku Golla and Nikolaus Heyduck at AusstellungsHalle 1A (Schulstraße 1A/ U 1/2/3 Südbahnhof or U 4/5 Römer)  

SATURDAY / 15.10.
12:30 Upplestur í Íslandstjaldi bókamessunnar.
16:00 “Das blaue Sofa” – sjónvarpsumræður með Þórdísi Björnsdóttur og Andra Snæ Magnasyni.
20:00 Gegenbuchmasse/Andbókamessan (Café Exzess, Leipziger Straße 91, U4/U5: Dom/Römer)

Samhliða bókamessunni í Frankfurt kemur út ljóðasafnið IWF! IWF! OMG! OMG! en það inniheldur þýðingar Jóns Bjarna Atlasonar og Alexanders Sitzman á völdum ljóðum eftir mig. Franziska Schaum myndskreytir. Bókin kemur út hjá forlaginu kozempel&timm og hana er hægt að panta í forsölu á Tubuk.

Auk þess kemur út um svipað leyti ritgerðasafn á ensku sem nefnist Booby, Be Quiet! Það inniheldur ýmsar greinar og fyrirlestra, auk pistla sem ég skrifaði fyrir tímaritið Reykjavík Grapevine 2009-2011. Bókin kemur út hjá finnska forlaginu poEsia.

Þá er ástæða til þess að minna aftur á bókina Ást er þjófnaður, um höfundarétt og þjófnað, en prentútgáfan fæst tímabundið á 40% afslætti og rafbókin er enn sem fyrr boðin gegn frjálsu framlagi.

Að síðustu má nefna að ég mun taka þátt í Oslo poesi festival 12. – 14. nóvember.

Ég vona að þið hafið það sem allra best,
Eiríkur

ps. hér getið þið séð Dúó Harpverk og Tui Hirv flytja tónverk Páls Ragnars Pálssonar við ljóð mitt Hýperbólusetningu – en þau hafa nýlokið við upptökur á þessu verki auk annars við systurljóðið Parabólusetningu.

Share to Facebook
Share to Google Plus