Bækur

Á ÍSLENSKU

Hnefi eða vitstola orð (2013)

Hríðskotabyssukveðskapur!

– Egill Helgason, Kiljunni

Einu sinni sat ég í útlöndum og orti ljóð á meðan Ísland brann, bankar hrundu og ráðherrar buguðust. Einu sinni sat ég í útlöndum og orti ljóð og svitnaði á meðan ég endurhlóð fréttasíður í von um nýjar og betri byltingar. Einu sinni sat ég í útlöndum og orti ljóð og horfði á tekjur mínar verða að engu í gengisfimleikum. Þetta er það ljóð.

Illska (2012)

[H]ér er á ferðinni fallegt og viðamikið skáldverk, þrekvirki liggur mér við að segja, um laskaðar manneskjur sem leiðast um sjúklega veröld í allri sinni depurð – og dýrð.

– Björn Unnar Valsson, bokmenntir.is

[Illska] talar inn í kjarnann á þjóð sem hneigist til að forðast sannleikann um sjálfa sig

– Jón Bjarki Magnússon, DV

Allt er þetta svo vel gert, frumlegt og flott að það er eiginlega óhugnanlegt. [...] Klikkuð bók. Lesið hana!

– Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir, Fréttablaðinu

Skriðþungi mannkynssögunnar: Agnes Lukauskaite og Ómar Arnarson kynnast snemma á nístingsköldum sunnudagsmorgni í leigubílaröðinni í Lækjargötu. Þremur árum síðar brennir hann heimili þeirra til grunna, keyrir til Keflavíkur og flýgur úr landi.
Sagan hefst raunar löngu fyrr, sumarið 1941, þegar helmingi bæjarbúa litháíska smábæjarins Jurbarkas var slátrað í skógunum í kring.
Tveir langafar Agnesar voru þar – annar skaut hinn. Þremur kynslóðum síðar hefur Agnes gert helförina að miðpunkti lífs síns og sú þráhyggja leiðir hana á fund ísfirska nýnasistans og menntamannsins Arnórs.

Illska er bók um helförina og bók um ástina, um Ísland og Litháen, um Agnesi sem glatar sjálfri sér á milli þess sem Jón Baldvin viðurkennir sjálfstæði Eystrasaltslandanna og litháískir glæpamenn taka að starfa í Reykjavík, um Agnesi sem veit ekki hvort hún heldur með b-heimsmeisturunum í handbolta eða Bogdan Kowalczyk, um Agnesi sem elskar Ómar sem elskar Agnesi sem elskar Arnór.

Illska hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2012 og bóksalar kusu hana bestu skáldsögu ársins.

Ást er þjófnaður (2011)

Allur lestur er þjófnaður.

Öll hlustun er þjófnaður.

Allt áhorf er þjófnaður.

 

Ást er þjófnaður er safn stuttra ritgerða um höfundarétt og bókaþjófnað eftir Eirík Örn Norðdahl. Bókin var skrifuð og gefin út á einum helvítis mánuði um mitt ár 2011 með það fyrir augum að flækja umræðuna. Bókin kom út bæði sem prentgripur og sem rafbók gegn frjálsu framlagi á www.norddahl.org . Bókin fór einróma sigurför um netheima – var rænt, stolið og hnuplað einsog heitum lummum – þrátt fyrir að hafa hlotið litla athygli í hefðbundnari miðlum. Brot úr bókinni hafa birst á þýsku. Hún er nú í fyrsta sinn fáanlega í bókabúð á Íslandi – af holdi og blóði, pappamassa, lími og lamineringu. Bókin er 156 síður í litlu broti.

Gæska (2009)

Farsakennd ólíkindalæti kitla hláturtaugarnar í stórskemmtilegri skáldsögu Eiríks Arnar Norðdahl … Höfundur Gæsku er feikna stílisti sem þrátt fyrir látlausan flaum orða hefur hárbeittan, írónískan tón og gott vald á framvindunni og persónum sínum.

– Hrund Ólafsdóttir, Morgunblaðinu

Íhaldsþingmaðurinn Halldór Garðar vaknar og veröldin er allt önnur en þegar hann lagðist til svefns: Það skíðlogar í Esjunni og reykjarmökkinn leggur yfir Reykjavík. Austurvöllur er þéttskipaður mótmælendum hvernig sem lögreglan spúlar þeim burt. Skæðir sandstormar geisa. Konur hrapa ofan af byggingum og fletjast út á gangstéttarhellum. Ástandið fær svo á Halldór að hann læsir sig inni og skrópar í þinginu. En þegar ung marokkósk stúlka biður hann um að hjálpa sér að leysa foreldra sína úr klóm íslensku ríkisstjórnarinnar öðlast líf hans áður óþekktan tilgang.

Ú á fasismann (2008)

Ú á fasismann – og fleiri ljóð eftir Eirík Örn Norðdahl er einstök myndljóðabók. Hér gefur að líta safn myndljóða þar sem stjórnmál eru beruð fyrir börnum, framtíð bókmennta kortlögð á einfaldan en átakalegan hátt, hér eru myndrænar framburðaæfingar, ljóðræn mótmæli, hvatningaorð til alþýðu svo hvín í svitaholunum, perlur úr ljóðaperlum Jónasar og það sem hetjur Íslendingasagna gætu vel hafa sagt. Byltingin er vissulega ekkert teboð en við skulum samt úa saman á fasismann.

Þjónn, það er fönix í öskubakkanum mínum! (2007)

Hinn undarlegi fítónn og angurgapi íslenskrar ljóðalistar, Eiríkur Örn Norðdahl, galopnar níðþröngar sjónir hennar með bók sem á sér ekki hliðstæðu í bókaútgáfu hérlendis síðan Kalda stríðinu lauk: 200 blaðsíðna þrekvirki með engu nema ljóðum: Þjónn, það er Fönix í öskubakkanum mínum! Ljóðin í bókinni bera „hreinni, tærri maníu“ höfundarins órækt vitni: það er líkt og hver mergð innra með honum hafi sína eigin ljóðabók fram að færa, hverja með sínum hætti. Hættir Fönixins eru hins vegar án marka og skólaðir ljóðaunnendur geta nú farið að svipast um eftir hárkollum.

Nú í þessa tíð þarf eitthvað eins og öxulveldi hins illa, öxul yfir vötnin, öxul sem spannar Ísafjörð, flugstöð Leifs Eiríkssonar og Helsinki City, til að skjóta fallbyssukúlum í hnakkann á hversdagsleikanum, töfrunum og einfaldleikanum. Nú þurfum við hryðjutíð, fellalög og kannski ekki síst hreðjatök, því að þegar kemur að Estrógeni, þá sýnir Eiríkur að „less is more“.

– Valur B. Antonsson

Eitur fyrir byrjendur (2006)

Eitur fyrir byrjendur er ekki stór bók en hún fjallar um mikilvæga atburði.

 

– Þórdís Gísladóttir – Morgunblaðinu

Halldór og Herdís búa saman en hafa ekki kysst svo vitað sé. Þegar Herdís færir inn á heimilið varhugaverða pottaplöntu og kynjafræðinemann Högna tapar Halldór hæfileikanum til að fara úr húsi en fær því meiri áhuga á byrlun eiturs. Eitur fyrir byrjendur er skáldsaga sem fjallar á næman hátt um samlíf ungs fólks.

Blandarabrandarar (2005)

Hvernig er heimurinn í laginu?

Eins og mannshjarta, eins og lyklaborð, eins og morgunblöð og fréttablöð, eins og dagamunur, fjöll og firnindi. Fjöllin eru gerð úr bókstöfum, bókstafirnir eru gerðir úr rafhlöðum. Þekkingin sprettur í túni, túnið er allt í nösunum á Brahma, Brahma fer í heita pottinn á morgnana, potturinn er fullur af greinarmerkjum, morgnarnir eru fullir af fjöri.

Eins og þú veist.

Hugsjónadruslan (2004)

Hvílíkar hetjur! Hvílík saga! Þrándur er kominn um borð í Norrænu að hitta Maggí sem er póliamorískur Texasbúi með master í mannfræði – þau kynntust á Netinu. Nema hvað, á vegi hans verður ein af perlum Norður-Atlantshafsins, hinn engilbjarti Færeyingur Anní, og hann er ekki samur á eftir. Kominn til Kaupmannahafnar á þessi mikli hugsjónamaður úr vöndu að ráða í félagi við skrautlegt lið og góðvininn Billa.

Já, söguhetjan rekur sig illilega á að eftir 11. september er allt breytt. Nú leyfist engum að sofa hjá hugmyndum og hugsjónum á víxl nema hann vilji fá á sig druslustimpilinn. Hér ræður hispursleysið ríkjum, jafnt í ríki hugmyndanna sem kynferðisins.

Nihil Obstat (2003)

Blár heiður himinn (það er ekki að fara að hefjast stríð)

Höfug næturþögn (það er ekki að fara að hefjast stríð)

Skattalækkanir (það er ekki að fara að hefjast stríð)

 

Markateigurinn Nýhil kynnir rogginn fyrstu heiðvirðu ljóðabók nýs árþúsunds: Nihil obstat, eftir Eirík Örn Norðdahl.

Algjörlega sinnulaus um markalínur textategunda, forma og tungumála makar Eiríkur sig við samtímann, glottir við tönn og hlær en stynur ekki.

Heimsendapestir (2002)

Hér vantar ekkert á mælskuna, orðin ryðjast fram eins og kálfar á voru og ungæðislegur ákafinn minnir helst á Majakovskí í Skýi í buxum eða Rimbaud í Árstíðum í víti. Og bókmenntafíklinum hlær hugur í brjósti; hver var að segja að ljóðið væri dautt?

– Friðrika Benónýs

Höfundurinn, Eiríkur, uppfærir ljóðið og gerir það skiljanlegt og relevant fyrir alla þá sem neita að skilja af hverju hið íslenska ljóð þurfti endilega að nema staðar í “tímaleysu” ákveðins lönguliðins tímabils hvers hugsunarháttur og tilfinningar eru úreltar í dag.

– Gísli Magnússon

Eiríkur Örn Norðdahl, fæddur 1978, ber nú ábyrgð á bestu tíðindum íslenskrar ljóðlistar frá því við lærðum að lesa.

– Haukur Már Helgason

RITSTJÓRN / MEÐ ÖÐRUM

Af steypu (2009)

Bókstafir skríða í felur fyrir komandi fyrirsát, ljóðlistin tekur jóðsótt og fæðir nýja bók: Af steypu, fimmta vers í afbókaflokki Nýhils!

Af steypu meðhöndlar sjálfa meðhöndlun tungumálsins, setur efnið í fyrirrúm og spyr sig: Hvað á þetta allt saman eiginlega að þýða? Hvað er hægt að gera með ljóðlistinni? Myndljóð, konkretljóð, endurvinnsla, hömlur, konseptljóðlist – möguleikarnir virðast óþrjótandi. Bókin er svo stútfull af ljóðverkum og ritgerðum, bæði frumsömdum og þýddum, að bókahillur hreinlega svigna og fílefldir burðarþrælar Nýhils eru við það að kikna í hnjáliðum. Fullvíst má telja að svo veglegt rit um ljóðlist hafi ekki komið út á Íslandi í langan tíma.

Ritstjórar Af steypu eru Eiríkur Örn Norðdahl og Kári Páll Óskarsson.

Brandarablandarar – netbók (2008)

Með sviðið gras í nösum og hvínandi blóð í æðum kynnir Nýhil hina NÝJU LJÓÐLIST! – sem ekki bara er ókeypis heldur hreyfir sig, suðar, gargar og dansar! Rafbókin Brandarablandarar eftir Eirík Örn Norðdahl og Jón Örn Loðmfjörð er sjálfstætt framhald / endurvinnsla ljóðabókar Eiríks, Blandarabrandarar , frá árinu 2005 – stafrænt unnin með hljóðaljóðum og myndrænni flórritun, fjarritun og forritun, svo jafnvel teknókratana fer að klæja í ljóðanefið. Verandi einhverjir þeir mestu öðlingspiltar ísa lands skerja – mæðrum sínum og feðrum til óhaminna stoltkasta – hafa þeir Loðmfjörð og Norðdahl ákveðið að gefa alla sína vinnu við stórvirkið og leyfa þjóðinni ófjötraðri að njóta hinnar stafrænu ljóðlistar, dansandi og syngjandi bókstafa sem einskis beiðast annars en takmarkalausrar dásömunar landsins yndislegu karla og kvenna. Sjá hér.

Handsprengja í morgunsárið (2007)

Handsprengja í morgunsárið er bara snilld. Ingólfi og Eiríki tekst að skapa ljóð úr orðum ráðamanna sem vekja hjá manni óhugnanlega kátínu og réttláta reiði í sömu andrá. Langt síðan ég hef skemmt mér jafn mikið yfir ljóðabók.

Birgitta Jónsdóttir, skáld og þingmaður

Bomburnar eru byrjaðar að falla, sírenuvæl fyllir allar hlustir, vessar Íslendinga flæða niður torg og götur – það er kortér í kosningar og byltingin er á síðasta söludegi! Aldrei hefur riðið meira á að Nýhil, eina forlag Íslands sem eitthvað mark er á takandi, stolt eins og þaninn vindhani með brjóstið upp í norðangarra, kynni komandi dagskrárlið: Ljóðabókina Handsprengja í morgunsárið – baráttukvæði.

Af ljóðum (2005)

Af ljóðum er 180 síðna bók sem valhoppar um velli ljóðlistarinnar, knúsar hana og knosar. Í bókinni eru greinar, ljóð og ljóðaþýðingar eftir innlend og erlend séní. Efnisyfirlit má finna neðst í þessum pósti, og forsíðumynd fylgir póstinum sem viðhengi.

Bókin kom út í tilefni af fyrstu ljóðahátíð Nýhils.

Ritstjóri er Eiríkur Örn Norðdahl.

Edda styrkti útgáfu bókarinnar.

GEISLADISKAR

Einræðisherrarnir & fleiri hljóðaljóð

Fyrir skitnar þrjár evrur (480 kr.) geturðu eignast heil 30 hljóðaljóð, samin, framin og flutt af Eiríki Erni Norðdahl. Fyrir fjórar evrur í viðbót (1.100 kr. alls) geturðu fengið sendan disk (heimabrenndan með kápumynd) og þá er sendingarkostnaður innifalinn. Hér er meðal annars um að ræða alræmda einræðisherraseríu, framúrstefnulegar naglasúpur, finnsk voðaljóð, íslensk-amerísk þjóðkvæði, kreppusonnettu, valda blandarabrandara, skandinavísk látalæti og sautjándu aldar moðsuðu í nafni Æra Tobba.

BÆKUR Á ÖÐRUM TUNGUMÁLUM

Bækur á ensku
Bækur á sænsku
Bækur á þýsku

ÞÝÐINGAR

 

Friðlaus – Lee Child (2010)
Spádómar Nostradamusar – Mario Reading (2010)
Í frjálsu falli – Lee Child (2009)
Maíkonungurinn; úrvalsljóð – Allen Ginsberg (2008)
Doktor Proktor og prumpuduftið – Jo Nesbø (2008)
131.839 slög með bilum; ljóðasafn – ýmsir (2007)
Súkkulaði – Joanne Harris (2007)
Heljarþröm – Anthony Horowitz (2007)
Móðurlaus Brooklyn – Jonathan Lethem (2007)
Eminem – Anthony Bozza (2006)
Heimskir hvítir karlar – Michael Moore (2003)

Share to Facebook
Share to Google Plus

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

You may use these HTML tags and attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>