Um Eirík Örn Norðdahl

eirikur

Mynd: Ave Maria Mõistlik Smellið fyrir hærri upplausn.

Eiríkur Örn Norðdahl er rithöfundur, þýðandi og ljóðskáld. Hann hefur gefið út fjórar skáldsögur, nú síðast skáldsöguna Illska, sem hlaut Hin íslensku bókmenntaverðlaun og Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana. Illska er væntanleg á þýsku (Klett-Cotta), frönsku (Editions Metailie) og sænsku (Rámus). Auk þess hefur EÖN gefið út sex ljóðabækur, ritstýrt tveimur bókum um ljóðlist, gefið út safn ritgerða um ljóðlist á ensku og skrifað stutta bók um bókaþjófnað og höfundarrétt. Þess utan hefur hann þýtt fjölda bóka, þar á meðal valin ljóð eftir Allen Ginsberg, safn erlendra framúrstefnuljóða og skáldsöguna Móðurlaus Brooklyn eftir Jonathan Lethem, en fyrir þá síðastnefndu hlaut hann íslensku þýðingarverðlaunin 2008. Árið 2012 var Eiríkur staðarskáld í Vatnasafninu á Stykkishólmi, í boði Stykkishólmsbæjar og listasjóðsins Art Angel. Árið 2010 hlaut Eiríkur viðurkenningu úr Fjölíssjóði. Eiríkur er Bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar 2014-2015.

Í ljóðlist sinni hefur EÖN m.a. unnið úr evrópskum og norður-amerískum framúrstefnuhefðum, við sundurtætingu tungumálsins í myndrænar, hljóðrænar, félagslegar og málfræðilegar einingar sínar – og unnið með bæði myndljóð, hreyfimyndaljóð og hljóðaljóð. Hann vann sérstök aukaverðlaun á Zebra ljóðmyndahátíðinni í Berlín 2010. Eiríkur ferðast víða til þess að lesa upp ljóð sín og hefur m.a. komið fram á Dögum víns og ljóða í Slóveníu, Ars Poetica í Slóvakíu, Artes Vertentes í Brasilíu, FlarfFest í New York, Scream Festival í Toronto, Oslo Poesi Festival í Noregi, Stanza í Skotlandi (og samnefndri hátíð í Malmö), The North Wales International Poetry Festival, Copenhagen Poetry Festival, hinni frægu Roskilde Festival, Verbale Pupiller í Árósum, Nordic Summer í Litháen og Konrad bókmenntahátíðinni í Kraká. Ljóð hans hafa verið þýdd á tæplega 20 tungumál og ritgerðir hans hafa einnig birst víða um heim. Skáldsagan Eitur fyrir byrjendur var þýdd á bæði þýsku og sænsku og árið 2011 gaf finnska forlagið poEsia út ritgerðir hans á ensku, undir heitinu Booby, Be Quiet! Sama ár gaf þýska forlagið Kozempel & Timm út úrval ljóða hans í þýðingu Alexanders Sitzman og Jóns Bjarna Atlasonar, með myndskreytingum eftir Franzisku Schaum.

Árið 2006 fékk Eiríkur viðurkenningu í Ljóðstafi Jóns úr Vör, fyrir ljóðið Parabólusetning og árið þar á eftir fékk hann hin erótísku stílverðlaun lestrarfélagsins Krumma, Rauðu fjöðrina , fyrir kafla úr skáldsögunni Eitur fyrir byrjendur. Hann var svo aftur tilnefndur til Rauðu fjaðrarinnar árið 2009, fyrir brot úr skáldsögunni Gæska.

eirikur

Mynd: Aino Huovio. Smellið fyrir hærri upplausn.

Frekar um bækur Eiríks.
Ljóð á lyrikline.
Ljóð á PennSound.
Ljóð á UbuWeb.
Ljóð á Nokturno.
Ljóð á Youtube.

Share to Facebook
Share to Google Plus