Þríhjól í Svíþjóð
- fyrir Aino Magneu
Þetta er vekjarinn
og þetta klukkurnar.
Þetta eru logarnir
og þetta kveikjarinn.
Við glennum upp augun
í uppbótarskyni við málleysið.
Glennum upp augun til að sjást,
pírum augun til að hverfa.
Þetta eru ærnar
og þetta eyrun.
Þetta eru tárin
og þetta tærnar.
Á daginn brakar ekki í sófanum,
maturinn brennur ekki við.
Rýmið sem við getum hugsað
okkur er okkar.
Þetta eru reiðhjólin
og þetta vagninn.
Þetta er Svíþjóð
og þetta þríhjólin.
Eðli málsins samkvæmt
gerast andvökur um nætur.
Fólk sem geispar hrotum
geispar ást og geispar geispum.
Þetta er félagsmótunin
og þetta erfðirnar.
Þetta er mamma þín
og þetta pabbi þinn.
Þínar buxur eru of stórar
og mínar buxur of götóttar.
Þínar tær eru mínar tær
og þær eru allar of kræklóttar.
Þetta er hnúinn
og þetta hnefarnir.
Þetta er gerjunin
og þetta fúinn.
Við höldum í hattanna okkar,
stingum á okkur bleyjunum.
Vegurinn er beinn
en malbikaður hlykkjótt.
Þetta eru stellingarnar
og þetta tískubækurnar.
Þetta eru karlpungarnir
og þetta kellingarnar.
Borðin svigna og skiptiborðin skjálfa,
saurinn skiptir litum og þú viðrar þig milli máltíða.
Þú getur enn ekki staðið
og það get ég ekki heldur.
Þetta eru rúðurnar
og þetta úr plasti.
Þetta eru leiktjöldin
og þetta brúðurnar.
Í fyrstu er allt ókunnuglegt, svo ævintýralegt,
þreytt, spennandi, þreytt, stabílt og svo mjög óstabílt.
Einmitt þegar maður hélt sig
hafa snert endalok sögunnar.
Þetta eru öldurnar
og þetta nautnin.
Þetta er augnablikið
og þetta aldirnar.
Settu fæturna á gólfið,
hafi þeir ekki verið þar fyrir.
Og hlustaðu,
það pípir í tölvum, pípir í fólki.
Þetta eru rökin
og þetta tilfinningin.
Þetta eru gluggatjöldin
og þetta lökin.
Ég elska þig. Ég elska þig.
Ég elska þig. Ég elska þig.
Ég elska þig. Ég elska þig.
Ég elska þig. Ég elska þig.
Þetta eru lestirnar
og þetta engin.
Þetta eru kostirnir
og þetta lestirnir.
Það koma orð á eftir þessum orðum,
setningar í kjölfarið.
Það koma myndir
og innan í þeim aðrar myndir.
Þetta eru skipin
og þetta bátarnir.
Þetta eru lífin
og þetta drepin.
Þú ert með mig allan í litlafingri,
vísi- og baugfingri, löngutöng og þumli.
Og ég er bara með fingur fyrir þig.
Birtist áður í Tímariti Máls & menningar, 3. tbl, 2013.