Ég man eftir því að hafa rifist við vini mína í Ungum sósíalistum um alþjóðlegt bann við jarðsprengjum. Þetta var upp úr aldamótum einhvern tíma. Ungir sósíalistar voru gjarnan með frekar kategórísk svör á höndum og í þessu máli tönnluðust þeir á því að jarðsprengjur væru „vopn fátæka mannsins“ og tilgangurinn með banninu – sem var mjög í deiglunni á þessum tíma – væri einfaldlega að afvopna byltingarsinna með því að gera þeim illmögulegt að útvega sér ódýrustu og áhrifamestu vopn sem þeir hefðu völ á. Heimsvaldasinnar hefðu dýrari og fínni græjur í sínu vopnabúri og gætu því leyft sér að vera án jarðsprengja í baráttunni um brauð og frelsi. Þessi kenning náði eins langt og hún náði – og var áreiðanlega kúbönsk að uppruna, enda skilst mér að þar sé það fyrst og fremst rosalegt jarðsprengjubelti sem skilji herstöð bandaríkjamanna í Guantanamo frá sósíalíska alþýðulýðveldinu. En meðal þeirra sem neituðu að skrifa undir sáttmálann á sínum tíma voru – auk kúbana – flest fastaríki öryggisráðs SÞ, ekki vegna þess að þau væru háð því að nota jarðsprengjur, heldur vegna þess að þau höfðu hagsmuni af því að mega selja þær. Mér fannst þetta ekki beinlínis órökrétt – en mér fannst samt hitt líka rétt að jarðsprengjur færu hryllilega með saklaust fólk og gerðu það jafnvel áratugum saman eftir að stríðsátökum lauk. Og að það væri í sjálfu sér óásættanlegt. Þetta sá ég svo berlega síðar þegar ég bjó í Víetnam – þar er fólk nefnilega enn að stíga á sprengjur og tapa útlimum. Slíkum efasemdum var svarað með því að tilgangurinn helgaði meðalið – að byltingin væri ekkert teboð, einsog það var einhvern tíma kallað. Nema hvað. Mér varð hugsað til þessara röksemda um vopn fátæka mannsins þegar ég las nokkrar álitsgreinar í morgun um ástandið í Ísrael og Gaza. Þær áttu það flestar sameiginlegt að harma það ástand sem palestínumenn hafa mátt þola síðustu áratugina – því var jafnvel lýst sem hræðilegu, óásættanlegu og svo framvegis – en svo var einhverju bætt við um að stríðsmenn Hamas væru verri, hefðu með gjörðum sínum jafnvel „glatað mennskunni“, hugsanlega ætti að tala um þá sem „dýr“. Og ég verð að viðurkenna að ég byrja svolítið að svitna þegar fer að skína í viljann til þess að skilgreina mannfólk sem eitthvað annað en mennskt. Höfum samt hitt á hreinu. Aðgerðirnar síðasta laugardag eru eins hrottalegar og stríðsglæpir verða. Hamasliðar hafa skotið jafnt börn, sjúka og gamalmenni og reynt að valda Ísraelsmönnum – ekki bara hermönnum, ekki bara stuðningsmönnum Netanjahú, heldur bara hverjum sem er – eins miklum skaða og þeim var frekast unnt, og með þeim hætti að slái sem mestri ógn í hjarta þeirra sem voðaverkin beinast gegn. Með öllum tiltækum ráðum. Það er ekki kærleiksríkt – en það er því miður mennskt. Mótsögnin – sem er víst best að horfast í augu við þótt hún sé ógeðfelld – er síðan þessi: voðaverkin voru kannski eina verkfærið sem Hamasliðum stóð til boða til að reyna að hreyfa við óþolandi ástandinu – fátækum, menntlausum, einangruðum og án nokkurs annars pólitísks atbeinis en ofbeldis. Heimsbyggðin hefur fullkomlega brugðist þeim – ekki bara ár og ár, heldur í margar kynslóðir – og fylgst með af tiltölulega kaldranalegu hlutleysi þegar þeirra eigin saklausu börn og gamalmenni hafa verið skotin, sprengd, fangelsuð, pyntuð og svelt. Við sem stöndum utan deilunnar höfum löngu sætt okkur við að svona sé þetta bara. En höfum líka á hreinu að í þessari deilu – átökum, stríði, hvað maður vill kalla það – er bara annar aðilinn með töglin og hagldirnar, bara annar aðilinn getur beitt fyrir sig „siðmenntuðum“ stríðstólum, bara annar aðilinn getur stuðlað að nauðsynlegum umbótum. Hinn aðilinn býr í fangabúðum, er alinn þar upp og gerir áreiðanlega ráð fyrir að drepast þar, annað hvort sem fórnarlamb eða píslarvottur. Svo er hitt auðvitað jafn ljóst að þessar breytingar sem knýja á fram með ofbeldi geta orðið hverjar sem er, og langlíklegast að þær komi Gazabúum alls ekki til góða. Ísraelsk yfirvöld eru ekki beinlínis þekkt fyrir linkind. Kannski verður niðurstaðan bara sú að Gaza verði þurrkað út – Netanjahú hefur lofað að þurrka út Hamas, og ég er ekki viss um að honum sé treystandi til þess að gera mikinn greinarmun á saklausum og sekum, frekar en Hamasliðum. Kannski veðja Hamasliðar einfaldlega á að Netanjahú gangi nógu langt til þess að alþjóðasamfélagið verði nauðbeygt til þess að grípa fram fyrir hendurnar á honum (og að það sé hægt). Og kannski eru þeir löngu búnir að gefa upp alla von um einhvern „sigur“ – kannski ætla þeir bara að valda jafn miklum skaða og þeir geta, falla í dýrðarljóma og fá verðlaun í paradís. Ég horfði annars á viðtal í morgun við Isaac Asimov. Það var tekið eftir að fyrstu tvær Star Wars myndirnar voru komnar í bíó, en fyrir þá þriðju – það er að segja einhvern tíma í upphafi níunda áratugarins. Þar var Asimov beðinn um að spá fyrir um framtíðina í ýmsum efnum og reyndist merkilega sannspár – talaði um ljósleiðara og genatækni og að við myndum öll geta rekið okkar eigin sjónvarpsstöð – nema að hann var líka spurður um framtíð stríðsrekstrar og sagðist þá halda að eftir 30 ár (þ.e. fyrir 10 árum) myndum við sennilega hafa lagt niður allt slíkt. Að öðrum kosti værum við áreiðanlega búin að gera út af við mannkyn með öllu. Og þá veit maður ekki hvort maður eigi að líta á það sem klúður að hafa ekki tekist að leggja niður vopnaskak – eða hvort það sé þvert á móti varnarsigur að hafa ekki tortímt öllu lífi á plánetunni.
Yfirskegg
Bloggsíðan mín býður nú upp á að ég láti gervigreind skrifa titilinn fyrir mig. Titlarnir sem hún stakk upp á voru allir klénir og ófrumlegir, svo það sé nú bara sagt, en kannski mataði ég hana ekki á nógu óklénum og frumlegum upplýsingum um það sem ég ætlaði að skrifa. Kannski er meira að segja tímafrekara og erfiðara – meiri list – að mata gervigreindina á réttum upplýsingum til þess að fá góðan titil, en að búa bara til góðan titil sjálfur. Yfirskriftina. Sem er núna yfirskegg . Fyrir nokkrum vikum áttum við dóttir mín einlæga samræðu um orðið yfirskegg . Ég var að lesa fyrir hana bók og þar kom þetta fyrir – nema ég las alltaf yfirvaraskegg. Sem er miklu betra orð, þokkafyllra, lengra og nákvæmara. Og jú víst, lengra er oft betra, yfirskegg er nýsprok (newspeak) fyrir einfeldninga í tímahraki – vængstyttur viðbjóður. Nema hvað. Dóttir mín sem sagt tók eftir þessu og í stað þess að spyrja hvers vegna ég læsi alltaf „yfirvaraskegg“ spurði hún hvers vegna (í ósköpunum!) stæði alltaf „yfirskegg“ þegar „yfirvaraskegg“ væri ekki bara betra heldur líka fallegra og réttara. Við þessu átti ég svo sem ekkert annað svar en að taka undir, þetta væri undarlega skrifuð bók, en sem betur fer væri hægt að laga hana í upplestri. Á dögunum var ég svo að blaða í minni nýju skáldsögu og rak mig þá á þennan hroðbjóð. Það stendur sem sagt „yfirskegg“ í bókinni minni! Þetta verður að sjálfsögðu lagað í endurprentun, og ég sýni því fullan skilning ef þið viljið bíða þar til bókin er uppseld og endurprentuð, en ég er samt miður mín. Ég hélt fyrst að þetta hefði kannski gerst í prófarkarlestri, af því ég vil alltaf kenna öðrum um eigin fáræði, en finn þetta líka í nærri þriggja ára gömlu uppkasti – og þá hafði enginn snert það nema ég. Orðið kemur bara einu sinni fyrir, sem betur fer, og fallega orðið „yfirvaraskegg“ sömuleiðis einu sinni (það er meira að segja verið að tala um sama skeggið). Sennilega hef ég eitthvað verið að rembast – eða verið að máta mig við þetta og ekki verið kominn með sama ógeð og ég er með núna. *** Hér var stuð á helginni annars. Fullt af fólki í bænum til að taka þátt í dagskrá vegna útgáfu bókarinnar Menning við ysta haf – útgáfuhóf í Safnahúsinu, upplestur í Edinborg og stemning. Á sunnudeginum fékk ég svo Hermann Stefánsson og Oddnýju Eir (og hennar átta ára Ævar) í mat. Það var ekki minna gaman. Þau rétt komust svo heim til sín á mánudeginum áður en veðrið varð vitlaust.
Úr kúltíveruðum kindarhausnum (menning við ysta haf)
Næsta laugardag verður opnuð bókasýning í Safnahúsinu sem ég hef átt þátt í að stýra, ásamt starfsmönnum Bókasafns Ísafjarðar, ekki síst þeim Robertu Šoparaite og Eddu Kristmundsdóttur. Sýningin heitir þessu nafni, Úr kúltíveruðum kindarhausnum, og á henni má sjá fjölda bóka sem tengjast Vestfjörðum með ýmsum hætti – ljóðabækur eftir Vestfirðinga, vestfirskar barnabækur, vestfirskar bækur eftir höfunda sem eru af erlendu bergi brotnir (en slíkir eru t.d. nú í meirihluta á Vestfjörðum), bækur sem gerast á Ísafirði og svo framvegis. Þetta er auðvitað ekki nein heildarútstilling á slíkum verkum heldur dálítið sýni sem er ætlað að sýna breiddina. Sýningin er haldin í tilefni af útgáfu bókarinnar Menning við ysta haf: Lesið í sköpunarkraft Vestfjarða og Stranda í ritstjórn Birnu Bjarnadóttur og Inga Björns Guðnasonar, þar sem ég á greinarkorn um ísfirskar bókmenntir sérstaklega – það er úrvinnsla á þessari dellu sem ég fékk á heilann fyrir nokkrum misserum (og tengist auðvitað vinnunni við Náttúrulögmálin ). Verður hún opnuð samhliða útgáfufögnuði bókarinnar þar sem fram koma Ármann Jakobsson, Andrew McGillivray, Birna og Ingi Björn, Gunnar Þorri Pétursson og Oddný Eir Ævarsdóttir. Sú síðastnefnda mun fjalla um Eirík Guðmundsson heitinn en bókin er tileinkuð minningu hans, vors besta sonar, sem lést í fyrra langt fyrir aldur fram – en átti mikinn þátt í verkefninu og málþingunum sem bókin byggir á. Um kvöldið verður svo skemmtidagskrá í Edinborgarhúsinu. Þar verða flutt gömul og nú verk í bland – ég les sjálfur úr minni nýju bók en auk þess koma fram skáldin Helen Cova, Hermann Stefánsson, Oddný Eir, Ólína Þorvarðardóttir og nýjasta viðbótin í rithöfundasúpu Ísafjarðarbæjar, spennusagnahöfundurinn Jarosław Czechowicz, sem mun segja frá pólskum bókum sínum á ensku (ein hverra gerist einmitt á Ísafirði). Tónlistaratriði verða í fimum höndum þeirra Skúla mennska og Gosa. Dagskráin í Safnahúsinu hefst klukkan 15 en kvölddagskrá klukkan 20.
Hress
Síðan ég hætti að drekka kaffi er ég farinn að vera fremur syfjaður á kvöldin. Sem sagt, nokkuð fyrr en ég kæri mig um að vera syfjaður. Ég veit ekki hvað það á að þýða. Ég ætlaði reyndar aldrei að vera kaffilaus nema í mánuð og hann er löngu liðinn, mér hefur bara ekki tekist að ákveða hvenær fari best á því að ég byrji aftur á þessum dásamlega ósið. Kannski er ég bara að bíða eftir því að ég sakni þess nóg. Ég verð líka að viðurkenna að þótt ég hafi ekki alltaf sofið jafn vel frá því að ég hætti – og þótt ég hafi raunar byrjað að sofa betur strax í sumarfríinu í Montpellier – þá hef ég samt sofið betur en ég geri venjulega. Ég fékk fyrsta eintakið af Náttúrulögmálunum í hendurnar í vikunni. Hún er fjarska falleg. Svo falleg að ég hef ekki skilið hana við mig síðan ég fékk hana. Tek hana með mér í vinnuna á morgnana og heim á kvöldin. Ekki að ég sé að nota hana neitt, mér finnst bara gott að hafa hana hjá mér. Svo les ég upp úr henni á helginni – og sveifla henni framan í fólk. Aram lagaði kvöldmat upp úr Plokkfiskbókinni í dag. Hann bað sjálfur um að fá að laga mat einu sinni í viku og hefur gert lasagna og velskan héra (welsh rarebit) og fleira í haust. En mér þótti auðvitað sérstaklega vænt um að hann skyldi laga plokkfisk upp úr Plokkfiskbókinni. Og hann var líka óvenju góður – vel pipraður einsog mér finnst best. Annars er fátt að frétta nema rólegheitin.
Um reynslu
Sumir rithöfundar eiga það til að telja sammannlega reynslu sértæka reynslu – t.d. kvenlega reynslu og lýsa heiminum þannig að reynsla, sem allir ættu að geta tengt við, virðist fyrst og fremst tilheyra öðru kyninu. Og aðrir rithöfundar eiga það stundum til að telja að öll sértæk reynsla hljóti að vera sammannleg. Að það hljóti að vera hægt að heimfæra allt sem þeir hafi sjálfir upplifað upp á alla aðra.
Þetta er ekki alvitlaust þótt auðvitað séu þetta fyrst og fremst gildrur til að forðast. Það er ágætis þumalputtaregla að ef það virðast bara vera tveir valkostir í boði eru þeir jafnan báðir rangir – eða í öllu falli óþarflega takmarkandi. Í grunninn er öll reynsla sammannleg og ein af furðum mannkyns er hversu fær við erum um að skilja upplifanir sem við höfum ekki lent í sjálf. En við erum líka að sama skapi fljót að alhæfa um slíkar upplifanir, skilja bara klisjukenndustu útgáfu þeirrar upplifunar, fella hana í sama mót og missa af því að öll upplifun er í rauninni sértæk. Og hún er ekki bara sértæk þannig að t.d. konur eigi sameiginlegan reynsluheim sem karlar hafi ekki innsýn í, heldur þannig að hvert og eitt okkar hefur sína eigin sértæku reynslu. Það veit engin kona hvernig það er að fæða öll börn – bara þau sem hún hefur fætt sjálf, og sú upplifun getur verið marglaga og á ólíkum tímaskeiðum, hver fæðing er ekki bara misjöfn heldur er upplifunin af fæðingunni ekki sú sama og upprifjunin af fæðingunni o.s.frv. Þetta á við um alla persónulega reynslu, frá því ómerkilegasta til þess merkilegasta. Rithöfundastarfið gengur þannig alls ekki út á að setja sig í spor annarra þjóðfélagshópa þegar skrifað er um fólk sem tilheyrir öðrum þjóðfélagshópum, einsog gjarnan er haldið fram, heldur að setja sig í spor tiltekinna einstaklinga sem aldrei hafa verið til – en lifa þó sínu eigin heila lífi, margbrotnu og mismeðvituðu. Reynsla þessara einstaklinga þarf ekki að standa reikningsskil við reynslu annarra („raunverulegri“) einstaklinga – en hún þarf auðvitað að vera trúverðug.
***
Það er áreiðanlega að bera í bakkafullan lækinn að skrifa meira sænskt bókmenntaslúður – jafnt þó nú sé að bresta á með bókamessuhelgi í Svíþjóð. Ég skrifa auðvitað slíkt slúður reglulega og nú er Þórdís Gísla búin að skrifa tvær þannig færslur á fáeinum dögum . En í dag hefur bókmenntasvíþjóð logað – a.m.k. á Facebook – eftir að bókmenntaritstjóri Aftonbladet birti manifestó í morgun. Í þessu manifestói byrjar hann á því að segja að hann hugsi um bókmenntaheiminn sem tvö hverfi í stórri borg – annars vegar séu fagurbókmenntirnar í miðbænum en hins vegar vinsældabókmenntir í verslunarhverfi í útjaðri bæjarins. Svo kemur eitthvað alls konar um hámenningu og lágmenningu og eitt og annað um bækur sem sitji þarna á milli – brjóti niður múrana – og sitthvað um að þetta sé nú ekki nógu gott menningarástand, bókabúðum fækki, ekki nema 10% útgefinna bóka fái gagnrýni o.s.frv., það þurfi alltaf að velja og hafna. Svo klykkir hann út með því að af þessum ástæðum (!) hafi hann ákveðið að draga stórlega úr birtingu gagnrýni um fagurbókmenntir og einbeita sér frekar að vinsælli bókum, ekki síst genre-bókmenntum (krimmum, ástarsögum, teiknimyndasögum, sci-fi o.s.frv.
Nú vill auðvitað til að þetta eru þær bækur sem forlögin ýta mest undir – þær sem mest eru auglýstar, fá mesta dreifingu, keypt pláss í bókabúðum og á forsíðum netbókaverslana – og því finnst ýmsum nóg um að síðasta vígi fagurbókmenntanna, kúltúrsíður stóru dagblaðanna, sé að falla. Maður spyr sig líka hvað hafi breyst – kannski var einhvern tíma tími, einsog Will Self bendir reglulega á , þegar krefjandi fagurbókmenntir voru meira áberandi á metsölulistunum, en það var þá gullöld, eitthvað augnabliksástand. Doris Lessing var kannski vinsæl en hún seldi aldrei nema brotabrotabrot af því sem Sidney Sheldon seldi. En hún fékk ábyggilega fleiri ritdóma, meiri akademíska athygli, bækur hennar lifðu lengur í umræðunni og hún var almennt áreiðanlega tekin öðrum tökum – með þeim rökum, hélt ég, að það væri meira að spekúlera í. Það gerir varla minna úr afþreyingu að fullyrða að hún kalli síður á krufningu? Eða er það er ekki það sem gerir hana eftirsóknarverða sem afþreyingu? Sem þýðir auðvitað ekki að það sé tilgangslaust að spá í poppkúltúr (hér má skrolla upp og skoða aftur fullyrðinguna um það þegar það eru bara tveir valkostir í boði).
Þetta hefur annars þegar haft þær afleiðingar – fyrir utan pistlaraðir á Facebook, og m.a.s. nokkra í vefmiðlunum nú þegar – að einn gagnrýnandi blaðsins, með 40 ára starfsreynslu, sagði upp störfum með þeim orðum að starf gagnrýnandans fælist ekki síst í því að „bera kennsl á gæði og sortera burt ruslið“ og slíkt væri ekki í boði undir slíkri ritstjórn, og leiklistarritstjóri Aftonbladet hefur séð sig nauðbeygða til að lýsa því yfir á Facebook að hún muni ekki fara sömu leið og láta bara gagnrýna vinsælustu sýningarnar – heldur muni hún eftir sem áður láta gæði ráða för.
Hljóðbókasvindlið
Það er margt í sænsku umræðunni sem speglar þá íslensku þessa dagana. Annars vegar var SVT að sýna sjónvarpsþætti sem mér skilst að hafi verið mjög „trans-krítískir“, ef ekki hreinlega mjög transfóbískir – ég hef ekki séð þá en ég hef ekkert gott séð um þá, virðist hafa verið alveg hræðilegt fúsk ofan í allt annað, og nafnið eitt ætti líka að segja manni sitthvað: Transkriget . Sem hljómar einsog nafn á einhverri seventís exploitation mynd. Hins vegar er uppnám yfir ímyndaðri kynfræðslu í leikskólum í Malmö – og hafa yfirvöld þurft að margítreka að það sé ekki kennd NEIN kynfræðsla í leikskólum og þar með ekki heldur sú bók sem vefmiðlatröllin vísa í, þar sem þau debatera eigin ímynduðu lífssýn á netinu. Upplýsingaóreiða? Það held ég nú. *** Ég hef verið spurður hvort það komi ekki hljóðbók af Náttúrulögmálunum – sem hefði reyndar aldrei orðið fyrren næsta vor í fyrsta lagi. En ég get upplýst að það verða að minnsta kosti ekki upptökur í haust og sennilega verður einhver annar en ég fenginn til að lesa hana upp. Fólk eltir víst vinsæla upplesara á Storytel, frekar en höfunda. Svo verðum við bara að sjá hvað verður. Ég veit ekki alveg hvaða afstöðu ég á að hafa til Storytel – sem er reyndar sjálfstæð spurning, því hljóðbækur eru líka til sölu á Forlagsvefnum (þótt það seljist lítið af þeim). Heildartekjur mínar frá Storytel í fyrra, fyrir hlustun á átta titlum, náðu ekki 25 þúsund krónum samanlagt. Ég er alltaf að búast við því að hljóti að verða samið upp á nýtt – þetta geti ekki átt að vera svona – en það gerist aldrei neitt. Einhvern tíma fáruðust rithöfundar mikið yfir misnotkun á Hljóðbókasafni Íslands – sem lánar um 270 þúsund bækur á ári – af því það var (leiðréttið mig endilega ef þetta er rangt) ekki tekið með í úthlutun úr bókasafnssjóði og þar með ekki greitt fyrir útlánin. Þá var líka algengt að fólk væri að lána lykilorðið sitt og svona – ég þekki sæg af fólki sem er hvorki blint né lesblint og hafði í lengri eða skemmri tíma aðgang að hljóðbókasafninu. Og þess utan var bókasafnssjóður minni og þar með minna greitt per útlán. Nú er svo komið að höfundar fá jafnvel talsvert minna fyrir hverja hlustun á Storytel en þeir fá fyrir útlán á hljóðbókasafni – þótt það fari eitthvað eftir lengd bóka, ef ég skil formattið rétt (en það er líka frumskógur að skilja tekjumódel Storytel). Hildur Knútsdóttir segir hér frá því að hún fái 32 krónur fyrir hverja hlustun á Myrkrið milli stjarnanna , en 70 krónur fyrir Slátt (sem er lengri) – en 131 krónu fyrir hvert útlán í hljóðbókasafninu. Þá hlýtur maður að spyrja sig til hvers Storytel er eiginlega – og af hverju hljóðbókasafnið sé ekki bara opnað fyrir alla? Þá þyrfti að vísu að stækka bókasafnssjóð – en það er ábyggilega tittlingaskítur í stóra samhenginu. Ég hef hins vegar haft ákveðna búbót af því að lesa bækurnar mínar upp – bæði fyrir Forlagið og fyrir Storytel beint. Ég hef gert það í mínu heimastúdíói, í stúdíói Forlagsins, hjá Mugison í Súðavík, hjá forvera Storytel, Skynjun, og í sænsku stúdíói í Västeras. Það er ljúf vinna og kannski ekki frábærlega launuð, en ekki illa launuð heldur. Og ekkert í líkingu jafn illa borguð og streymið. Ég þekki höfunda sem setja ekki bækur sínar inná Storytel – og ég þekki höfunda sem hafa ákveðið að framleiða hljóðbækur sínar alveg sjálfir til þess að losna við milliliðina úr þessu ferli, selja svo Storytel tilbúna framleiðslu og fá meira fyrir hvert streymi. Flestir held ég að vilji samt „vera með“ – viðkvæði Storytel manna (a.m.k. í Svíþjóð) er að streymið sé „hrein viðbót“ við bókamarkaðinn, en á sama tíma og hljóðbókin er í sókn fækkar bókakaupendum. Stór hluti lesenda (alls ekki allir samt) hafa að hluta eða öllu leyti flutt sig inn á Storytel og stunda þar sína bókmenningu. Þar er ekki bara eftir tekjum að slægjast, þótt það þurfi augljóslega að bæta kjörin umtalsvert, heldur því sem er kannski stundum mikilvægara: áheyrn. Ekki þar fyrir að stundum langar mig líka bara að skrifa fyrir sjálfan mig og kannski mína sjö heitustu lesendur. Leevi Lehto sagði að það væri hámarkið – hann vissi sínu viti.
Hinsegin
Ég veit ekki hvað maður á að halda um umræðuna síðustu daga. Það sem fólk hefur ýmist kallað klámvæðingu skólakerfisins eða vísað í sem einhvers konar mannfjandsamlegan kynusla – að kennsluefni sé beinlínis ætlað að gera stráka að stelpum, stelpur að hommum, homma að kvárum og alla að kynlífsfíklum. Það eru ansi mörg lög sem maður þarf að skræla af vilji maður skilja hvað það er í raun sem gerir fólk svona pípandi brjálað – en í grunninn er þetta auðvitað einmitt bara „bakslag“ einsog fólk kallar það, bara ofstopafullt uppnám og óskiljanleg bræði, og sennilega mest úr ranni fólks sem hefur verið að fussa og sveia við eldhúsborðið heima hjá sér í nokkur ár en blæs nú út. Það er einsog það hafi verið gefið út skotleyfi – og ekki bara á transfólk heldur á frjálslyndi í kynferðismálum almennt. Svo það sé sagt. Ég er sannfærður um að kynfræðsluefni einsog það sem ég hef séð deilt síðustu daga – bæði til þess að skammast yfir því og til þess að fagna því – geti hreinlega bjargað mannslífum. Og einsog það væri ekki nóg að bjarga fáeinum mannslífum þá felst einfaldlega í því heilmikil menntun, fyrir hina sem eru ekki í lífshættu, og í menntun felst léttir, gleði, reisn. Börn þurfa nefnilega að læra að þekkja heiminn einsog hann er. Einsog hann birtist þeim í raunveruleikanum. Ekki einsog einhverjir neo-púrítanar myndu helst vilja að hann væri. Og það er ábyggilega voðalega erfitt fyrir marga en raunveruleikinn er samt sá að sum okkar eru trans – og sum okkar eru það löngu áður en þau verða kynþroska. Öll held ég þess utan að við séum að minnsta kosti pínulítið hinsegin (og öll pínulítið svona ). Þegar kemur að meintri klámvæðingu í námsefni er raunveruleikinn líka sá að börn snerta sig – kannski ekki öll, en mörg – og jafnvel stundum hvert annað, þau uppgötva heiminn hvort heldur sem er, og þau þurfa að vita að það er ekki rangt og ekki ljótt. Þau eiga ekki að þurfa að fyllast skömm yfir því. Og alveg einsog við hin þurfa þau að læra að þekkja mörk – bæði sín eigin og annarra. Það heitir ekki að „grooma“ börn – heldur að gefa þeim verkfæri til þess að skilja heiminn betur, til dæmis svo þau geti borið almennilega kennsl á það þegar á þeim er brotið. Barn sem skammast sín fyrir að hafa orðið fyrir misnotkun, af því allt svona „dóna“ er svo ljótt, segir nefnilega síður frá en það barn sem hefur ekki lært skömm og pukur púrítanana. En umræðan – ég veit ekki hvað þessi hystería er. Ég hef ekki síst áhyggjur af læsi – það er einsog margt fólk sé hreinlega ekki læst, eða vilji alls ekki lesa það sem ber fyrir augu, hafi engan áhuga á að skilja það, heldur haldi fast við rétt sinn til að túlka það allt út frá fordómum sínum eða fyrirframgefnum hugmyndum. Sjái því bara það sem það heldur fyrirfram að standi skrifað. Og vitundin leysist upp í sírenuvæl og reyk, lygar og ýkjur – og já, einmitt, gelt. Hystería er orðið. Mig langar að segja að þetta sé rosalega bandarískt – en það er frjálslyndið kannski líka – og kannski eru vesturlönd bara fyrir löngu orðinn svo mikill grautur að mörkin milli Ameríku og Evrópu hafa máðst út. Stundum líður mér einsog við séum í einhverju illa skrifuðu leikriti. Eða 30 ára gömlum Jerry Springer þætti. Og ef það er satt að við séum á sömu vegferð og Bandaríkjamenn, einsog manni sýnist – nema kannski nokkrum árum á eftir – þá þyrftum við nú fljótlega að reyna að finna einhvern góðan stað þar sem við getum beygt af leið. Og áð og rætt málin – horfst í augu, faðmast, dregið andann. Áður en þetta samfélag sem sagt fer á haugana. Því hér á okkur öllum að líða vel.
New Novel: The Natural Laws
In the early summer of 1925, the youngest, most beautiful and most reluctant bishop in the history of Iceland summons the country’s priests to the small town of Isafjordur. His purpose is to solidify the power of Christianity and suppress the spread of spiritualism. However, his schemes set off an unforeseen chain of events that span seven tumultuous days. Life in the town takes a sharp detour as inexplicable and catastrophic phenomena unfold, leaving the townspeople grappling with the question of whether the nature of these occurrences is scientific or divine. The Natural Laws is a captivating novel with a glittering tinge of fantasy that offers a distinctive and carnivalesque portrayal of life in a small Icelandic town. Fact and fiction are juggled freely, capturing the town’s atmosphere and local memories, to weave an exhilarating and thrilling narrative. Out in Icelandic with Mál og menning 21.10.2023.
Handled by Reykjavík Literary Agency . English test translation and synopsis available.
Náttúrulögmálin
„Hafið þér heyrt af þjóðtrú þeirri sem segir að ef sjö prestar og einn eineygður standi fyrir dyrum Ísafjarðarkirkju muni Gleiðarhjalli allur losna af Eyrarfjalli og hrynja yfir bæinn? Og þar með verði bundinn endi á alla mannabyggð á Ísafirði?“ Snemma sumars árið 1925 hefur yngsti, fegursti og jafnfram óviljugasti biskup Íslands, herra Jón Hallvarðsson, kallað til prestastefnu á Ísafirði. Megintilgangurinn virðist vera að storka þjóðtrú landans og sýna mátt kristindómsins frammi fyrir hindurvitnum, spíritisma og náttúruöflum. En með uppátæki sínu hleypir biskup af stað ófyrirsjáanlegri sjö daga atburðarás þar sem náttúra staðarins kallast á við náttúru mannsins. Náttúrulögmálin er skáldsaga sem gefur einstaka og karnivalíska mynd af kaupstaðarlífi Ísafjarðar á miklum umbreytingartímum í sögu þjóðarinnar og heimsbyggðarinnar allrar. Hér er brugðið á leik með heimildir og sögulegar staðreyndir í hrífandi og bráðskemmtilegri sögu. Mál og menning gefur út. Væntanleg um miðjan október.
Menningarelítan (lætur mig ekki í friði)
Um daginn var ég spurður hvort ég væri ekki í elítunni. Spurningin kom upp vegna þess að ég hafði ekki innanbúðarupplýsingar um tiltekið málefni. Og var sett fram í gríni. En síðan þá er einsog hugtakið menningarelíta hafi elt mig á röndum. Fyrst var það stutt brot sem ég fékk sent – af tik tok, af öllum stöðum – þar sem David Graeber ræðir um það hvers vegna fólk (eða allavega bandarískt fólk) hatar „the liberal elites“ en elskar herinn (eða er a.m.k. í support-the-troops stemmaranum). Í sem stystu máli og með sem fæstum útúrsnúningum rekur hann það til þess að fólk telji – að einhverju leyti réttilega, vill hann meina – að þótt það sé langsótt fyrir manneskju úr verkalýðsstétt að komast í álnir þá sé það samt ekki jafn langsótt og að verða til dæmis leikhúsrýnir hjá New York Times. Að hliðvarslan í bestu stöðurnar í bandarískri menningu sé svo kræf að þú sért líklegri til þess að verða ríkur (ef það er eina markmiðið) en að ná í gegn í menningunni. (Og að nepo-börnin gangi víðast fyrir). En auðvitað er líka hæpið að maður verði ríkur og þá stendur eftir spurningin um hvað maður geti í raun og veru gert – hvaða starf getur þessi manneskja fengið þar sem hún fær sæmileg laun, heilbrigðistryggingu og hlunnindi, og látið í leiðinni gott af sér leiða (eða a.m.k. talið sér trú um að hún láti gott af sér leiða). Hvar standa dyrnar opnar? Þar er ekkert í boði nema herinn. Þessu er auðvitað ekki eins farið á Norðurlöndunum. Eða á Íslandi. Hins vegar held ég að við getum alveg gefið þessu gaum og unnið gegn tendensinum. Fyrir mörgu fólki eru valdastöður í menningunni oft raunverulega mjög fjarlægar – og þær ganga augljóslega að einhverju leyti í arf. Mér finnst fólk á Íslandi – það sem gegnir þessum stöðum – oftar gera lítið úr valdi sínu en gangast við því. Það er bæði fölsk hógværð og blinda – sá sem er vanur því að ráða menningarstofnun eða geta sent lagið sitt beint í spilun eða mætt „af og til“ í Gísla Martein finnst það kannski ekkert merkilegt sjálfum – það verður eins konar núllpunktur. „Þetta er svo lítið land!“ Og fólk tekur því sem mjög alvarlegri ásökun ef að því er ýjað að menningarlífið stýri sér ekki bara sjálft eftir einhverjum náttúrulegum reglum um hæfi og hæfileika. Svo var það Louis Theroux, heimildamyndagerðarmaðurinn, sonur rithöfundarins Paul Theroux (og systkinabarn leikarans Justin Theroux, bróðir rithöfundarins Marcel Theroux, og frændi rithöfundanna Peters og Alexanders Theroux). Ég horfði á langt viðtal við hann á YouTube , þar sem hann talaði talsvert um mikilvægi þess að fá hjálp – að fólk þurfi aðstoð til þess að uppfylla drauma sína. Og að hann sjálfur – sem var alinn upp við ríkidæmi, af menntuðu fólki, sendur í dýran einkaskóla – hefði þrátt fyrir allt þetta forskot aldrei náð árangri ef það hefði ekki líka verið fyrir aðstoð fólks einsog Michael Moore, starfsfólks BBC og annarra sem hefðu séð í sér eitthvað (sem hann sá að sögn ekki sjálfur) og veitt honum ótal tækifæri. Og hvað það hlyti að vera óyfirstíganlega erfitt – eða bara ómögulegt – að ná árangri, komast í menningarelítuna, ef maður hefur ekki þetta forskot. Síðast í morgun rakst ég svo á grein sænska rithöfundarins Ola Larsmo, í tímaritinu Vi , þar sem hann spyr sig meðal annars hverjir það séu sem tilheyri þessari svokölluðu menningarelítu? Eru það allir sem taka bækur á bókasöfnum? Allir sem fara í sinfóníuna? Allir sem kunna á hljóðfæri? Allir sem auðga líf sitt með ríkisstyrktri menningu? Bara þeir sem vinna við að búa hana til? Tilefnið er hegðun og orðfar Sophiu Jarl, sem fer fyrir Moderaterna í borgarstjórn Norrköping, og hefur stundað þar menningarlegt niðurrif af skyldu tagi og kollegar hennar í Kópavogi. Henni hefur í þessu sambandi líka orðið tíðrætt um „ofdekruðu menningarelítuna“. Svo skrifar Ola Larsmo: „Maður gæti […] sagt að hin háleita menning sé staðurinn þar sem samfélagið talar við sjálft sig. Það skiptir ekki allt sem þar er sagt miklu máli. Það þurfa ekki allir að leggja við hlustir. En eftir því sem tíminn líður getum við séð að það er í þessari tjáningu, sem oft er talin útilokandi eða hreinlega skrítin af sinni samtíð, sem nýjar hugsanir um mennskuna, lífið og samfélagið hafa orðið mögulegar. Stundum hafa þær þær hæddar, stundum fagnað. En hverjir eiga þá að hafa aðgang að verkfærunum, orðunum, sjónarhornunum [sem menningin veitir]? Í að minnsta kosti sjötíu ár hefur svar menningarpólítikurinnar verið: allir. Af því það er ómögulegt að vita fyrirfram hver þarf þau eða hvenær.“ Svo bætir hann því við að í dag myndi ferðamálastofa Dyflinnar sennilega ekki vilja vera án Ulysses – sem mér finnst raunar veikja punktinn, af því réttlæting listaverks á ekki að vera í því fólgin að síðar meir verði hægt að mjólka úr því milljarða. Ekki þar fyrir að mig dreymir oft um að fara í Ulysses-ferð til Dyflinnar.