Fúsk

Í Svíþjóð geisar fúskfaraldur í bókmenntum – skilst mér á tveimur nýlegum greinum sem ég las ( hér og hér ). Annars vegar er um að ræða faraldur alls konar námskeiða í ritlist þar sem kennarar eru víst vægast sagt misvandaðir. Og hins vegar er faraldur af instagram-gagnrýni – sem sagt er að taki yfir bókmenntaheiminn (svo allir eru hættir að hlusta á atvinnugagnrýnendur). Það þarf enga menntun til þess að kenna ritlist og það úir og grúir af námskeiðum, bæði á netinu og í raunheimum, og þeim fylgir víst gjarnan einhvers konar loforð um „uppfyllingu draumsins“ – að nemandinn fái fljótlega eftir útskrift að lifa unaðslífi rithöfundarins, umlukinn aðdáun annarra með alla vasa fulla fjár. Ef sá árangur tefst eitthvað er oft líka til sölu „útgáfuþjónusta“ – þar sem kúnnarnir (því svona nemendur eru auðvitað fyrst og fremst kúnnar) geta annað hvort greitt fyrir „ritstjórn fagmanneskju“ og „aðstoð við sjálfsútgáfu“ eða hreinlega borgað fyrir útgáfu hjá því sem einhvern tíma var kallað vanity-pressa – forlag sem tekur greitt fyrir að gefa út höfunda sína. Í einhverjum tilvikum getur „forlagið“/„ritlistarskólinn“ aðstoðað þá við fjármögnun og hjálpað þeim að fá smálán. Það er svo Gabriella Håkanson sem skrifar um alvöru gagnrýnendur í Sydsvenskan – og kemur með marga punkta henni til varnar. Instagram-krítikin hverfi út í eterinn og því myndist engin uppsöfnuð þekking; gagnrýnendur í blöðum velji sér ekki bækur eftir áhugasviði einsog instagram-krítíkerar; og síðast en ekki síst sé bókagagnrýni í blöðum ekki fyrst og fremst meðmæli einsog instagram-krítíkin getur verið, heldur greining – ekki bara á bókmenntaverkinu heldur samhengi þess. Þetta síðasttalda held ég að sé mikilvægast og snýst ekki beinlínis um „eðli“ – það er ekkert sem segir að maður geti ekki skrifað alvarlega og úthugsaða krítík á instagram – heldur kúltúr, því það er eiginlega enginn sem gerir það (og ef það er einhver sem gerir það grefst viðkomandi augljóslega strax undir í algóritmanum). Dagblaðið getur líka valið að halda að þér vönduðu gæðaefni jafnvel þótt þú myndir bara troða í þig klikkbeitusykri ef þú fengir sjálfur ráðið. Instagram matar þig bara á sykurdrullunni ómengaðri. Ég veit ekki hvaða hliðstæður þetta allt gæti átt sér á Íslandi. Einhverjar, augljóslega. Fyrir að verða áratug ætlaði ég að fá bíómiða fyrir gagnrýnanda Starafugls á einhverja stórmynd en fékk neitun á þeim forsendum að bíókeðjan væri hætt að útvega gagnrýnendum miða – bara „inflúensarar“ fengju miða. Þá hafði ég aldrei heyrt þetta hugtak og fólk var ekki byrjað að tala um áhrifavalda. En frá viðskiptasjónarmiði meikar það auðvitað sens – þú vilt vekja athygli á myndinni og þá er miklu betra að fá eitthvað seleb til þess að birta mynd af sér við innganginn á bíóinu fyrir mynd – „ofsa peppaður!“ – heldur en að senda einhvern lúða í ljótri úlpu til þess að sitja út í sal, hugsa fyrst um myndina og skrifa SÍÐAN eitthvað þegar viðkomandi er búinn að HUGSA MÁLIÐ. Það kann bara ekki góðri lukku að stýra. Enn er samt bíórýni á stóru miðlunum. Svo er slatti af ritlistarnámskeiðum en þau eru nú flest held ég hugsuð fyrir almenning – og ekki til þess að fara í eitthvað meik. Þeir sem ætla í meikið fara væntanlega í ritlistina í HÍ? Eða? Ég hreinlega þekki þetta ekki nógu vel. Ég held að Bókasamlagið bjóði upp á svona útgáfuþjónustu – en veit svo sem ekki hvernig hún lítur út. Það er mjög lítið af instagram-gagnrýnendum – og fæstir birta neinn texta af viti eða myndbönd. Bara mynd af einni og einni bók. Það eru nokkrar bloggsíður og svo er fólk virkt á fb-síðum einsog bókagulli – þar fara bókameðmælin fram. *** Annars er fátt að frétta. Ég skilaði af mér handriti eftir athugasemdir í gær. Var ég búinn að segja einhvers staðar hvað bókin heitir? Er það kannski ennþá leyndarmál? Á laugardaginn þarf að ferma Aram. Borgaralega. Ég er með flensu (og neikvætt covid-próf). Suma daga er veðrið ágætt en aðra daga ekki. Og allt mallar þetta áfram bara.

Hin fráu og trylltu

Ég er á fremur undarlegum stað andlega – hugurinn á mér er í skrifaðri bók sem ég hnika til millimetra fram og aftur en það sækja fáar nýjar hugmyndir að mér. Ég sit yfir handritinu alla daga milli þess sem ég laga til á skrifstofunni minni sem var orðin alger svínastía. Meðal þess sem ég hef gert var að hækka skrifborðið mitt en rak mig þá á að stóllinn minn er eiginlega of lágur núna. Þetta er eitt af vandamálunum við það að vera nærri tveir metrar á hæð – mér veitist oft erfitt að láta venjulega hluti passa mér. Ég er búinn að gúgla öllum mögulegum skrifstofustólum en hef ekkert pantað, ekkert keypt, aðallega af því að ódýra uppþvottavélin sem við keyptum fyrir átta árum gaf upp öndina (í annað sinn á einu ári) og við ákváðum að laga hana ekki aftur og kaupa ekki heldur aðra ódýra og endingarlélega, heldur dýra og endingargóða, og hún kostaði meira en fyrsti bíllinn minn. Og raunar líka helmingi meira en annar bíllinn minn (Nissan Pulsar, 88 módel, sem ég keypti fyrir fyrirframgreiðsluna af fyrstu skáldsögunni minni – ekki samt 1988). En þá erum við auðvitað að bera saman þákrónur og núkrónur, sem er ekki alveg sanngjarnt. Sennilega læri ég bara að sitja í þessum lága stól í bili. Ég er líka að fara að ferma og þvælast um alls konar útlönd í fjölskylduerindum. Sem er auðvitað brjálæði í dýrtíðinni. Annað sem ég keypti mér nýlega – á leiðinni heim frá Grikklandi – eru almennilegir gönguskór. Slíka hef ég aldrei átt og þeir voru auðvitað líka alltof dýrir. Ég hef verið að ganga þá til síðustu daga – aðallega ráfað upp í hlíð og gengið inn í fjörð, í Bónus, í gegnum hið umdeilda kríuvarp. Í dag ætlaði ég að gera eitthvað svipað en endaði á að hangsa við sjúkrarúm Smára vinar míns, sem varð fyrir því óhappi í síðustu viku að falla niður af svölum – sögurnar sem hann sagði af bráðamóttökunni í Reykjavík voru svo æsispennandi, raunar mesta furða að nokkur lifi það af í Reykjavík að fara á spítala, að ég komst ekki út fyrren það var kominn tími til að skunda heim og elda mat ofan í lýðinn og enginn tími til að fara út að ganga. En þá kom í ljós að heima hjá mér yrði ekki horft á Succession í kvöld – einsog var planið – heldur haldinn bókaklúbbur. Sem kom mér ekki við – það eru engir karlar í þessum bókaklúbbi, raunar er ég ekki viss um að það séu neinir karlar í neinum bókaklúbbum eða saumaklúbbum eða gönguklúbbum eða neinu öðru skipulögðu félagsstarfi sem ég veit um, ef frá er talinn einn mjög fámennur klúbbur sem ég er í og fer á rúntinn svona sex sinnum á ári. Ég notaði tækifærið og hélt til fjalla. Einn, að sjálfsögðu, einsog karlmanna er siður, og í nýju dýru gönguskónum mínum. Þegar ég var kominn upp í Naustahvilft settist ég niður og horfði út yfir fjörðinn. Sólin var að stinga sér bakvið Eyrarfjall og ró kominn yfir bæinn – sem var stappfullur af túristum í dag. Skipið var farið en á Sundahöfninni voru nokkrir bílar að spóla í hringi með miklum tilþrifum og gat ég ekki betur séð en minnstu munaði nokkrum sinnum að þeir skyllu hver á öðrum, á einhverjum öðrum bílum eða á gámum, og ekki gat ég vel skilið heldur, þaðan sem ég sat, hvernig þeir sáu í gegnum reykmökkinn sem stóð upp af bílunum. Og þá mundi ég alltíeinu að Fast and the Furious er í bíó.

Spriklandsdagar, Óbragð og Biskops-Arnö

Ég eyddi tveimur dögum á bókamessunni í Þessalóniku – las upp nokkur ljóð úr Óratorreki, hlustaði á þýðingar Vicky Allysandraki, sat fyrir svörum á sviði ásamt alls konar gáfumennum, át góðan mat og drakk óhemju af bjór. Svo stökk ég upp í lest til Aþenu til þess að drekka meiri bjór og éta meiri mat og á föstudaginn verður (að öllum líkindum) pop-up viðburður um Illsku í bókaverslun í miðbænum. Þangað til er ég mestmegnis að reyna að fá ekki samviskubit yfir því að vera ekki að gera neitt. Því það var jú planið. Í gær rölti ég um miðbæinn einn og kleif svo Akrópólishæð með góðu fólki, át góðan mat og drakk bjór, leitaði að stuttermabol með mynd af Sókratesi en gekk út úr túristabúð með Clockwork Orange bol (af því hér eru allir grísku bolirnir bara með últra-violent spartverjum sem eru mér minna að skapi). Ég þarf eiginlega líka að kaupa mér buxur – þessar einu sem ég tók með mér eru orðnar ansi blettóttar. Ég er hálfnaður með Crossroads eftir Jonathan Franzen – nýbúinn með Óbragð eftir Guðrúnu Brjánsdóttur, sem ég var mjög ánægður með. Hún fjallar um kvíðasjúkling í ástarsorg sem leitar að ballans í lífinu með því að ganga í kakósöfnuð. Uppátækjasöm persónusköpun, gott tempó, æðisleg sviðsmynd og óhjákvæmileg átök milli þeirra sem eru í tengslum við náttúruna og þeirra sem eru komnir til að dýrka hana (og eigna sér hana, virkja hana í nafni kakókuklsins). Guðrún er líka ein þeirra sem komu á ungmennanámskeið í Biskops-Arnö þar sem ég var leiðbeinandi um fimm-sex ára hríð – þar til námskeiðið var lagt niður. Hún kom á fyrsta námskeiðið, 2013, og var snillingur strax þá. Ekki það – ég er líka mjög ánægður með Jonathan Franzen. Hann er mjög fínn. Þetta voru merkileg námskeið – Författarskolan för unga . Þar komu sem sagt saman efnileg ungmenni frá öllum norðurlöndunum til þess að eiga vikudvöl á þessari undarlegu eyju, Biskops-Arnö – sem er einhvern veginn í senn rétt hjá Stokkhólmi og á hjara veraldar – og fáránlegur kraftur í þessu oft. Mörg þeirra höfðu kannski aldrei sagt neinum að þau væru að skrifa og voru svo alltíeinu umkringd skrifandi jafningjum sínum. Við sem unnum þarna kenndum þeim áreiðanlega eitthvað smotterí, og héldum auðvitað utan um þetta, en ég held þau hafi mest kennt sér sjálf – og hvert öðru. Það eru líka ansi margir af íslensku krökkunum sem hafa haldið áfram að vinna að bókmenntum eða öðrum listum á einn veg eða annan. Rut Guðnadóttir var þarna t.d. og Ármann Örn úr Kef Lavík, Birgitta Björg í Ólafi Kram, Tanja Rasmussen sem stofnaði Kallíópu forlag 19 ára – og sem hefur unnið Nýjar raddir keppni Forlagsins, einsog einmitt Guðrún – Jóna Gréta Hilmarsdóttir sem skrifar (frábæra) kvikmyndakrítík í Morgunblaðið, mynd- og tónskáldið Þorsteinn Eyfjörð, fornfræðingurinn Sólveig Hilmarsdóttir og fleiri og fleiri. Þetta voru sennilega á bilinu 4-7 krakkar frá Íslandi eftir ári – hver öðrum merkilegri, líka þeir sem sneru sér að öðru. Við sem að námskeiðinu stóðum urðum öll mjög leið þegar það var lagt niður. Ef ég man rétt var 2018 síðasta árið. Norræna ráðherraráðið hefur þrengt mjög að fjármögnunarmöguleikum svona námskeiða. Það er meira að segja reglulega útlit fyrir að hið fræga Debutantseminarie, þar sem saman koma norrænir fyrstubókahöfundar og hafa gert síðan 1964, verði lagt niður. Þar hef ég bæði verið nemandi og kennari. Debútantanámskeiðið hefur samt með herkjum bjargast fyrir horn – hingað til – en það þarf líka að bjarga því árlega og alltaf með einhverjum hundakúnstum af því ráðið er eiginlega hætt að úthluta föstum verkefnastyrkjum. Allt á að vera nýtt og rekið fyrir lágmarksfé – svo dagskráin er rýrri, færri gestakennarar, styttri ferðir, ekki hægt að staðfesta neitt fyrren á síðustu stundu og svo framvegis. En jæja. Nú ætla ég að lufsast í sturtu og fara út að flannera.

Lágmarksvæntingar

Ég sá svo fallega einkaþotu á Reykjavíkurflugvelli í gær. Hún var dökkvínrauð og öll einhvern veginn vintage – og ég man að ég hugsaði að svona einkaþotu gæti Halldór Laxness hafa átt. Ef hann hefði átt ráð á einkaþotu, sem verður nú að teljast heldur ósennilegt, og var hann þó metsöluhöfundur á þeim tíma er bækur seldust mikið. Einhvers staðar las ég reyndar að gullöld bóksölu og frægðar höfunda hefði verið á níunda áratugnum – að á þeim tíma hefðu vissir höfundar verið sannkallaðar rokkstjörnur – ekki veit ég hvað er til í því og þaðan af síður af hverju það myndi stafa. Þá er sjónvarpsgláp í stöðugri sókn og fólk með fleiri og fleiri rásir og vídjótækin þess utan komin – og ég gæti best trúað því að þetta sé líka sá tími sem bíóhúsin eru sterkust. Að vísu er neysla almennt ábyggilega líka mjög mikil. Á níunda áratugnum gaf HKL út „Dagar með múnkum“ – það var alls ekki hans mesta metsölubók. Líklega er þetta bara tvatl. Höpöhöpö. Quatsch. Ég get allavega sagt ykkur, alveg einlæglega, að þriðji áratugur 21. aldarinnar er ekki gullöld bóksölu. Að minnsta kosti ekki sölu einstakra höfunda. Og ég játa auk þess fúslega að ég á ekki neina einkaþotu, þótt það sé vandræðalegt. Nú er meira að segja svo fyrir mér komið að ég ferðast til Grikklands á styrk sem dugir rétt svo fyrir farangurslausu flugi – ég er með svokallað „personal item“ með mér, lítinn bakpoka með fartölvu, kindli og nærbuxum. Fjórir leggir með þremur lággjaldaflugfélögum. En ég þarf þá ekki heldur að hafa áhyggjur af því að neitt þessara flugfélaga týni farangrinum mínum. Það má vera að það seljist fleiri titlar – að salan sé dreifðari. En sennilega er meira að segja heildarsalan miklu lægri. Á næsta ári eru 20 ár frá því ég gaf fyrst út skáldsögu og fyrirframgreiðslan hefur staðið í stað allan þann tíma. Hún er auðvitað dregin frá söluhagnaði og sú krónutala hefur eitthvað hækkað – per selt eintak – svo hún hefur ekki áhrif á hvað ég græði mikið eða lítið þegar allt er samantalið. En hún segir eitthvað um lágmarkssöluvæntingar forlagsins. Ég sit á Leifsstöð. Eða hvað hún heitir þessa dagana. Svaf í þrjá tíma í nótt, sem er ágætt fyrir mig – yfirleitt sef ég ekki neitt fyrir flug. Endaði gærkvöldið á að horfa á Con Air, sem ég sá mælt með á bloggi og hafði ekki séð lengi. Hún var fín – og miklu betri en sorpið sem ég horfði á þar á undan, Baby Driver, sem er samt með talsvert hærri einkunn á IMDB. Það liggur við maður hætti bara alveg að taka mark á almenningsálitinu þegar það missir svona marks. Sem minnir mig reyndar á að við, fólkið í þessu þjóðfélagi – eða a.m.k. fólkið í kringum mig – er löngu hætt að halda fram þeirri áður augljósu staðhæfingu að „fólk sé fífl“. Og þess í stað drögum við fram einn og einn, réttum yfir honum og kveðum svo upp dóm: „Þessi er fífl. Næsti.“ Og svo bíðum við bara öll með öndina í hálsinum þar til að okkur kemur. Þetta er tímafrekt – en sjálfsagt verður þetta eitt af þeim verkefnum sem ChatGTP gerir okkur kleift að vinna með meiri hraða og nákvæmni.

Postulahrossin

Það er hálfgerður millidagur eftir langa helgi. Ég er að fara suður á morgun og til Grikklands eldsnemma á fimmtudag. Skrifstofan er ennþá í rúst en ég nenni ekki að byrja að díla við hana. Ég er byrjaður að fá athugasemdir á bókina en ekkert byrjaður að bregðast við þeim enn. Og geri sennilega hvorugt fyrren ég kem aftur eftir tæpar tvær vikur. Ég reyni að telja mér trú um að það sé alltílagi en mér líður samt einsog hálfgerðu slytti. Svo er ég líka þreyttur eftir helgina. Á laugardeginum gekk ég til Bolungarvíkur og til baka (32 km) og fór svo í drykk hjá vinafólki – af því ég var óvænt barnlaus og stenst ekki freistingar. Á sunnudeginum var svo fertugsafmæli. Ég er kominn með dálitla göngudellu. Einhvern tíma snemma í vor var ég að hlusta á Will Self tala um „psychogeography“ og flannerisma og hann sagði ýmislegt sem ég tengdi við – eða ýmislegt sem ég vildi tengja við. Muninn á því að ferðast á milli staða (eða um sinn heim) fyrir eigin vélarafli eða í farartæki; og þetta að horfa á alltaf á heiminn í gegnum skjá (sem rúður auðvitað eru). Svo veit ég ekki hvort það er til marks um krísu eða þroska að vera að leita eftir meiri raunveruleikatengingu. Kannski er það bara til marks um eitthvert síðkapitalískt sálarástand. Mig langar – a.m.k. enn sem komið er – ekki neitt að ganga laugaveginn eða fara upp á mér ókunnug fjöll. Mig langar dálítið upp á fjöllin hérna í kring en mest langar mig bara að ganga til Flateyrar og Suðureyrar og Súðavíkur. Kíkja í sund eða borgara og rölta svo aftur til baka. Ég hef oft flannerað um borgir þegar ég er á ferðalagi og held því sjálfsagt áfram – finnst mjög gott að ganga um nýja heima og jafnvel bara ráfa eitthvað út í loftið. Ég á magnaðar minningar af því að ganga einn um Istanbul, sem dæmi, frá því klukkan 7 að morgni og fram að miðnætti – og varla stoppað nema til að fá mér að borða. Einu sinni ráfaði ég um Rio í fimm daga í röð – án þess að hitta neinn eða gera neitt sérstakt eða eiga eitthvað erindi annað en að ganga um. Það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom til New York var að ganga – með bakpoka – eftir Ocean Parkway endilangri. Hún er um átta kílómetrar. Það var fyrir misskilning, eiginlega, og í einhverri þotuþreytu – en það var líka dásamlegt. Einu sinni gekk ég líka frá Rejmyre til Vistinge, í Svíþjóð – sú leið er eins óáhugaverð og Istanbul er áhugaverð en göngutúrinn er af einhverjum orsökum ekki síður minnisverður. Það er eitthvað sem breytist þegar maður gengur svona leið í fyrsta sinn. Hún verður önnur – líka þegar maður svo keyrir hana seinna. Óshlíðina hafði ég að vísu hlaupið áður – út að krossi og til baka – en það er skemmtilegt að sjá hvernig hún eyðist ár frá ári. Á endanum verður hún kannski hálfófær – að minnsta kosti er útlit fyrir að á einhverjum kafla verði á endanum ekkert eftir af veginum eða kantinum. Ég hef vel að merkja óútskýrt antípat á Hopphjólum. Þau eru auðvitað annað vélarafl – þau eru aukin neysla, aukið drasl í þéttbýlislandslaginu, meira viðbót við bíla en staðgengill. Enn eitt appið. Enn ein áskriftin. En þau eru ekki skjár og þeim fylgir útivist og það eru ábyggilega ferðir sem fólk fer á hopphjólum sem það hefði annars farið á bíl. En ég gæti best trúað að það séu líka margar ferðir sem fólk fer á hopphjólum sem það hefði annars farið gangandi. Og maður á að ganga. Ekki síst einmitt af því það tekur aðeins lengri tíma og manni á ekki að liggja alltaf svona mikið á.

Af óbærilegu léttmeti tilverunnar

Ég verð alltaf svolítið snúðugur í framan þegar ljúflestrar- eða afþreyingarhöfundar kvarta undan því að sér sé mismunað í bókmenntaheiminum. Nýjasta dæmið er viðtal við Jenny Colgan í Morgunblaðinu – þar dregur hún reyndar ástarsagnahöfunda út fyrir sviga og segir þá verða fyrir meiri útskúfun en glæpasagnahöfundar eða vísindaskáldsagnahöfundar. Fái síður verðlaun eða viðurkenningar eða boð á bókmenntahátíðir. Og þó selji þeir helmingi fleiri bækur. Þetta sé ekkert nema kvenfyrirlitning. Ég held það sé einfaldast að segja að þetta með sé heilt yfir satt – þótt þetta sé líka eitthvað sem er að breytast. Ljúflestrarhöfundar birtast oftar og oftar á bókmenntahátíðum, fá oftar verðlaun og svo framvegis – en þeir sjást sjaldnar en a.m.k. fagurbókmenntahöfundar. Hvort þeir eru jaðraðir meira en t.d. krimmahöfundar þori ég ekki að segja. Svo er auðvitað skilgreiningaratriði hvar ljúflestrarbókunum lýkur og fagurbókmenntirnar hefjast, en ég held maður geti samt leyft sér að segja að þetta gildi á einhverjum þannig kvarða – eftir því sem þú skrifar af meiri fagurfræðilegum metnaði (og minna til þess einfaldlega að skemmta) því líklegri ertu til þess að fá verðlaun og boð á alvarlegri bókmenntahátíðir (vinsældahöfundar dómínera hins vegar yfir flestum bókamessum). Ég hafna því að þetta snúist um ástarsögur sem slíkar – enda er mjög mikið af alvarlegri fagurbókmenntum ástarsögur. Í sjálfu sér er síðan spurning hversu mikið bókmenntahátíðir eða verðlaunanefndir eigi að vera eltast við afþreyingarbókmenntir – ég er ekki viss um að Adam Sandler líti á það sem mikla móðgun við list sína að vera aldrei (eða sjaldan) boðið á Cannes; eða að fólkið sem stendur á bakvið Cannes líti á það sem hlutverk sitt að prómótera skemmtiefni Sandlers. Og það alveg jafnt þótt fólki finnist Happy Gilmore og Punch Drunk Love frábærar myndir – með talsverðan þunga. Ég held þvert á móti þá snúist hátíðir og verðlaunaveitingar einmitt um það að horfa framhjá vinsælu léttmeti til þess að vekja athygli á hinu – því sem fæst ekki sýnt í öllum bíóhúsum, á öllum streymisveitum eða stillt upp í stóra hauga á öllum flugvöllum, einsog t.d. bókum Jenny Colgan. Að þær séu oft beinlínis hugsaðar sem mótvægi við vinsældaköltinu eða þeirri hundalógík að vegna þess að einhver selji margar bækur sé viðkomandi augljóslega frábær og eigi að fá verðlaun og viðurkenningu. Afþreyingarhöfundarnir fá síðan auðvitað annað – þeir fá söluna og dreifinguna og þýðingasamningana sem fagurbókmenntahöfundar fá sjaldan eða aldrei. Þeir þéna margfalt á við meira að segja allra vinsælustu fagurbókmenntahöfunda, þótt þeir fái sjaldnar gullmiða á bækurnar sínar eða skrítna skúlptúra til að stilla upp í hillunum sínum. Og þeir fá líka athygli fjölmiðla – þótt þeir birtist sjaldnar í menningarkálfunum, sem eru hvort eð er að hverfa. Jenny Colgan hefur t.d. verið nefnd 115 sinnum á Vísisvefnum – mest í fréttum af vinsældalistum – en Colson Whitehead aldrei. Það er nú öll mismununin. Það er líka skrítið að Colgan skuli vísa til þess að það halli á ástarsöguna vegna þess að það séu aðallega eldri konur sem lesi þær. Eldri konur lesa nefnilega aðallega allt – ekki bara ástarsögur og léttmeti. Þær eru einfaldlega stærsti lesendahópur samtímans. Þú gætir allt eins sagt að ástæðan fyrir því að ólínulegar framúrstefnuskáldsögur njóti ekki sannmælis sé kvenfyrirlitning – af því það eru aðallega eldri konur sem lesa þær. Og ólínulegar framúrstefnuskáldsögur eiga sannarlega miklu erfiðar uppdráttar en léttar ástarsögur sem enda vel. Sjálfur gleðst ég mest þegar verðlaun og hátíðir vekja athygli á höfundum sem ég þekkti ekki – eða sem mér finnst að fleiri ættu að þekkja. Ég sé ekki alveg tilganginn með því að vekja athygli á Jenny Colgan – og minni tilgang með því að vekja athygli á Colson Whitehead en t.d. Mariönu Enriquez, sem er dásamleg og alltof fáir lesa. Auðvitað er samt ágætt að hafa stórstjörnur á borð við Colgan inn á milli og þær trekkja áreiðanlega helling – bókmenntahátíðir eiga að þjóna breiðum hópi. En mér finnst hálf absúrd að vinsælustu stjörnurnar séu að barma sér yfir hunsun og jaðarsetningu; og ég óttast miklu frekar að bókmenntaheimurinn verði of hallur undir vinsældaköltið heldur en hitt.

Ísfirskar bókmenntir

Í athugasemd við færslu gærdagsins skrifar einhver ókunnugur einstaklingur hvort ég geti hugsanlega listað upp „helstu Ísafjarðarbókmenntirnar“. Það er sjálfsagt mál þótt auðvitað verði maður að hafa ákveðinn fyrirvara á því – í fyrsta lagi er bæjarfélögum „úti á landi“ gjarnan gefið nýtt nafn í íslenskum bókmenntum – og þá verður maður að spyrja sig hvort bækur Guðmundar G. Hagalín um lífið í Tangakaupstað fjalli um Ísafjörð eða ekki. Aðrar gerast bara að litlum hluta á svæðinu eða hafa það einhvern veginn í bakgrunni. Ég á litla grein í bók sem kemur út í haust, á vegum verkefnisins Lesið í sköpunarkraft Vestfjarða, um birtingarmynd Ísafjarðar sem sögusviðs, og þegar ég skrifaði hana gerði ég þennan lista hér að neðan. Sumar gerast bara „á svæðinu“ – ég nota frekar víða skilgreiningu á „Ísafjörður“ sem fær (hæpna en staðgóða) réttlætingu í greininni sjálfri. Á listann vantar svo eitt og annað – margar ljóðabækur t.d. og Íslendingasögur og þvíumlíkt. Af því að listinn var bara gerður mér til hugarhægðar er ekki heldur allt staðfest á honum. Titill Höfundur Grein Staðsetning Tími Veður öll válynd (1925) GG Hagalín smásögur Á ekki við Samtími/fortíð Brennumenn (1927) GG Hagalín skáldsaga Tangakaupstaður Samtími Kristrún í Hamravík (1933) GG Hagalín skáldsaga Á ekki við Samtími/fortíð Ljósið í kotinu (1939) Óskar Aðalsteinn skáldsaga Ísafjörður (eða?) Samtími Grjót og gróður (1941) Óskar Aðalsteinn skáldsaga Ísafjörður (eða?) Samtími Skáldið á Þröm (1956) Gunnar M. Magnúss æviminningar Ísafjörður Fortíð/sögulegt Margs verða hjúin vís (1956) Arnrún frá Felli smásögur Sandfjörður/Brimtangi Samtími Strákarnir sem struku (1957) Böðvar frá Hnífsdal drengjasaga Eyrarfjörður Samtími Ævintýralegt jólafrí (1958) Böðvar frá Hnífsdal drengjasaga Eyrarfjörður Samtími Strákar í stórræðum (1959 Böðvar frá Hnífsdal drengjasaga Eyrarfjörður Samtími Fremstur í flokki (1960) Böðvar frá Hnífsdal drengjasaga Eyrarfjörður Samtími Segið nú amen, séra Pétur (1975) GG Hagalín skáldsaga Tangakaupstað Samtími (held ég) Þeir vita það fyrir vestan (1979) GG Hagalín æviminningar Ísafjörður X Fortíð/sögulegt Ekkert slor (1984) Rúnar Helgi skáldsaga Pláss Samtími Í flæðarmálinu (1988) Njörður P. Njarðvík smásögur Sleppt (/Fjörðurinn) Fortíð Múkkinn (1988) Eyvindur P. Eiríksson skáldsaga Sleppt (sýnist mér) Fortíð Dans í lokuðu herbergi (1989) Elísabet Jökulsdóttir ljóð [Veit ekki] Æviminning Hafborg (1993) Njörður P. Njarðvík skáldsaga Ísafjörður Fortíð Landið handan fjarskans (1997) Eyvindur P. Eiríksson skáldsaga [Raunveruleg örnefni] Fortíð Góðir íslendingar (1998) Huldar Breiðfjörð æviminningar Ísafjörður X Samtími Stjórnlaus lukka (1998) Auður Jónsdóttir skáldsaga Sleppt Samtími Þar sem blómið vex og vatnið fellur (1999) Eyvindur P. Eiríksson skáldsaga [raunveruleg nöfn] Fortíð Feigðarflan (2005) Rúnar Helgi skáldsaga Ísafjörður Samtími Himnaríki og helvíti (2007) Jón Kalman skáldsaga Plássið Fortíð Sjöundi sonurinn (2008) Jón Kalman skáldsaga Ísafjörður Samtími Harmur englanna (2009) Jón Kalman skáldsaga Plássið Fortíð Ég man þig (2010) Yrsa Sigurðardóttir skáldsaga Ísafjörður Samtími Hjarta mannsins (2011) Jón Kalman skáldsaga Plássið Fortíð Ariasman (2012) Tapio Koivukari skáldsaga Eyri (sennilega) Fortíð Illska (2012) EÖN skáldsaga Ísafjörður Fortíð Ósjálfrátt (2012) Auður Jónsdóttir skáldsaga Sleppt Samtími/fortíð 1983 (2013) Eiríkur Guðmundsson skáldsaga Sleppt (held ég) Fortíð Heimska (2015) EÖN skáldsaga Ísafjörður Framtíð Útlaginn (2015) Jón Gnarr æviminningar Ísafjörður Fortíð Ránið á Húnboga Höskuldssyni, alþingismanni (2016) Ófeigur Drengsson skáldsaga Á ekki við Samtími Átthagar Herdís M. Hübner æviminningar Ísafjörður Samtími Flóð H. Hagalín/ B. Thors leikrit Flateyri Fortíð Þorpið sem svaf (2018) Reynir Traustason smásögur Kvóteyri Fortíð Eftirbátur (2018) Rúnar Helgi skáldsaga Ísafjörður (held ég) Samtími (heldég) Hansdætur (2020) Benný Sif skáldsaga Arnarfirði Fortíð Brúin yfir Tangagötuna (2020) EÖN skáldsaga Ísafjörður Samtími Grísafjörður (2020) Lóa Hjálmtýs barnabók Ísafjörður Samtími Sterk (2021) Margrét Tryggva skáldsaga Ísafjörður Samtími Djúpið (2021) Benný Sif skáldsaga Sleppt (held ég) Fortíð Ilmreyr (2021) Ólína Þorvarðar skáldsaga Ísafjörður Fortíð Gratíana (2022) Benný Sif skáldsaga Arnarfjörður Fortíð Brimhólar (2022) Guðni Elísson skáldsaga sleppt Samtími Hildur (2022) Satu Rämö skáldsaga Ísafjörður Samtími Raven’s Nest (2022) Sarah Thomas skáldsaga Ísafjörður Samtími

Rúst

Skrifstofan mín er í rúst. Ég byrjaði eitthvað að endurskipuleggja hérna á mánudaginn og losaði mig við gamla lagerhillu án þess að hafa einu sinni pantað nýja vistlegri (billy) hillu í staðinn fyrir hana. Og nú eru bara haugar af bókum alls staðar sem vita ekkert hvar þær eiga að vera. Prentarinn minn er ótengdur og ekkert pláss fyrir hann nálægt tölvunni en ég þarf samt að prenta út örlítið erindi sem ég á að flytja á fundi forsætisráðherra um sjálfbærni á morgun. IKEA er rétt búið að tilkynna mér að hillan mín sé farin í póst þegar ég átta mig á því að mig vantar líka nýja gólfmottu. Sendingarkostnaðurinn er 5.800 per skipti – þetta hefði ég getað sparað mér. Ég er að reyna að spara allt – blankheitin eru að fara með mig. Í fyrradag ákváðum við Nadja t.d. að ég kæmi ekki með á ráðstefnu í Montpellier í ágúst. Hún er að vísu ekki hundrað prósent viss um að hún fari sjálf en líklega gerir hún það. Ég ferðast víst nóg í sumar hvort eð er. Í næstu viku fer ég til Grikklands og í júní fer ég til Englands með Aram í fermingargjafarferð að sjá einhvern YouTubara á sviði. Í júlí fer ég til Svíþjóðar til að hangsa með tengdafólki. Ég viðurkenni samt að ég syrgi dálítið þessa Frakklandsferð – ég hlakkaði til hennar. En sjálfbærnin spyr víst ekki að slíku. Ég get ekki lagt fjárhag fjölskyldunnar í rúst og sótspor sumarsins er löngu komið úr böndunum. Búinn að vera að lesa svolítið nýjar þýðingar. Ungi maðurinn eftir Annie Ernaux – ég las líka Staðinn í fyrra og ég bara … nei, þetta er ekki gott. Kannski er eitthvað í hinum bókunum eða í frumtextanum – ég útiloka það ekki. Mér finnst öll umræða um Ernaux og um bækur hennar fasínerandi – en ég sé bara ekki að bækurnar standi undir þeirri umræðu. Grafreiturinn í Barnes eftir Gabriel Josipovici fannst mér ekki heldur góð. Kramp eftir Maríu José Ferrada var hins vegar góð og líka Arfur og umhverfi eftir Vigdísi Hjorth. Ég hef verið að íhuga að gera aðra tilraun til þess að lesa Infinite Jest. Ég gafst upp á henni fyrir sirka tíu árum síðan – mjög fljótt, vel að merkja, var ekki kominn nema kannski 20 síður inn í doðrantinn. En DFW heillar mig samt – mér finnst gaman að hlusta á hann tala og hugsa. Eins þarf ég að lesa meiri Franzen – las víst aldrei nema Freedom. Árstíðafjórleikur Ali Smith er líka á dagskránni, meiri Zadie Smith, meiri Pynchon, Pale Fire á ég eftir og Shuggie Bain og fleira. Og Sjálfstætt fólk – kannski verður þetta árið sem ég les hana loksins. Annars hef ég fengið mikinn áhuga á gönguferðum og langar af þeim sökum að lesa Psychogeography eftir Will Self. Ég ætla að flannera í sumar, þótt ég komist ekki til Frakklands að gera það – er að hugsa um að ganga svolítið á milli bæja bara. Kannski ég flanneri líka í Þessalóniku og Aþenu í næstu viku. Og svo þarf ég að lesa Raven’s Nest eftir Söruh Thomas. Hún gerist á Ísafirði – og ég les allt sem tilheyrir ísfirskum bókmenntum.

Dagur 96: Búinn

Ég er búinn. Handritið er komið í yfirlestur. Annað hvort er ég úti á þekju eða þetta er það besta sem ég hef skrifað. Með þeim tveimur fyrirvörum þó 1) ég gæti sannarlega verið úti á þekju og 2) ég trúi eiginlega ekki á hírarkískar mælingar á bókum. Nema kannski metsölulistana, þeir eru þó konkret og segja ekkert nema það sem þeir segja: hvaða bækur seljast mest. Og blaðsíðutalið (þessi er heillöng!) Allt hitt er bara einhver sirkus. Ekki síst huglægur samanburður manns sjálfs á eigin bókum. Sennilega er ég bara að reyna að lýsa minni eigin ánægju. Ég er mjög kátur. Það var líka gaman að skrifa hana. Að minnsta kosti bróðurpartinn af tímanum. Annars hræðilegt. Þjáning, satt best að segja. Þetta er í senn gleðileg bók og ógleðileg – einsog veisla sem fer stöðugt úr böndunum. Og kannski líka alvarlegri bók heldur en ég ætlaði að skrifa, sem reyndist gleðilegt þegar allt kom til alls. Það síðasta sem ég gerði var að setja saman þetta kort hérna að ofan. Það er unnið upp úr korti frá 1913 en lítillega breytt svo það passi við 1925. Þetta er vel að merkja engin síldarbók eða Salka Valka, þótt bæði síld og saltfiskur komi við sögu. Hjartað í henni er 100 manna prestastefna og gömul þjóðsaga sem segir að ef „sjö prestar og einn eineygður“ komi saman fyrir dyrum Ísafjarðarkirkju hrynji Gleiðarhjalli. Hún er mjög rækilega staðsett á Ísafirði eina viku sumarið 1925 en það eru engar sögupersónur í henni sem hafa verið til í alvöru – öllu raunverulegu fólki var skipt út fyrir miklu raunverulegra fólk. Ég er búinn að skila henni en nýi ritstjórinn minn tekur ekki til starfa fyrren á mánaðamótum. Í næstu viku þarf ég að semja og flytja eitt erindi, sem er fyrsta aukaverkefnið sem ég tek að mér í ár. Svo er ég að fara til Grikklands og að fara að ferma dreng (borgaralega) og þarf að dytta aðeins að húsinu og svona. Sofa og svona.

Dagur 93: Hanastél á jarðhæð

Af og til langar mig bara að skríða í fósturstellingu og sofa í svona tvö ár. Eða ganga í jökulinn. Ég er hér um bil næstum svo gott sem búinn. Og þá hellist eitt og annað yfir mig. Ég sé glitta í eftirbókartómið. Á sama tíma er ég auðvitað langt í frá búinn – það hefur enginn lesið neitt af þessu, ef frá eru taldar nokkrar síður sem Nadja fékk síðasta sumar. Ég veit ekki einu sinni ennþá hver kemur til með að vera ritstjórinn minn. Kannski segir viðkomandi mér að breyta öllu. Gefa þessu fimm ár til viðbótar. Fá mér aðra vinnu. Ganga í jökulinn. En handritið fer samt úr húsi á föstudag. Hvað sem tautar og raular. Einhver hluti af mér vildi óska þess að ég sæi það svo aldrei aftur. Það færi bara út í heim og kæmi mér ekki við lengur – ég gæti kannski fengið einhvern ungverskan höfund til þess að „fylgja því eftir“ og í staðinn gæti ég fylgt eftir bók eftir þennan ungverska höfund. Mætt í ungversku Kiljuna, ungversku bókamessuna – jafnvel farið í opinskátt einkaviðtal í ungverska Mannlífi. Ég sveiflast reyndar mjög á milli þess að vilja í alvöru bara vera í útlöndum allt jólabókaflóðið og að vilja pakka bókum í skottið á bílnum og keyra hringinn til þess að lesa upp í öllum mögulegum krummaskuðum. Sprikla og sprikla. Eins sveiflast ég á milli þess að vilja ekki halda nokkurs konar útgáfuhóf og hins að halda eitt heima, annað úti í bæ á Ísafirði og þriðja í Reykjavík. Og þess að vilja helst ekki svara neinum spurningum um innihaldið og vilja semja tveggja tíma powerpoint fyrirlestur um það. Þegar ég skilaði handritinu að Einlægum Önd – sem ég gerði vel að merkja eftir að ég hafði skilað Frankensleiki, sem ég kláraði á undan – ákvað ég að mig langaði að starta einhverri hefð við handritsskil. Því það er þrátt fyrir allt eini staðurinn í ferlinu sem gerist einhvern veginn í friði – áður en sagan verður pródúkt, meðan hún er ennþá bara sagan og hefur ekkert gildi nema gildið í sjálfri sér. Nadja stakk upp á því að við myndum fara og fá okkur kokteil – við vorum í Örebro – og á hverju ári þyrftum við að finna okkur stað sem væri hærra uppi. Planið var að byrja á jarðhæð – sem hefði auðvitað helst þurft að vera kjallari, svo gera mætti ráð fyrir löngum ferli og mörgum bókum – en svo voru engin sæti laus á jarðhæð kokteilbarsins í Örebro svo við enduðum á annarri hæð. Sem þýðir að í ár þarf ég að vera hærra en á annarri hæð. Ég ætlaði að fara til vina minna sem búa á annarri hæð aðeins uppi í brekku – með þeim rökum að þá ætti ég þriðju hæðina enn eftir til góða – og hræra sjálfur kokteil en svo reyndust þau upptekin. Nú veit ég ekki hvernig ég leysi þetta. Hugsanlega kalla ég barinn bara jarðhæðarbar af því við fengum kokteilinn afgreiddan á jarðhæð og fer og fæ mér kokteil á Húsinu – sem er hálfri hæð yfir jörðinni. Eða segist eiga jarðhæðarbarinn eftir og fer á Hótelið eða á Verbúðina í Bolungarvík. Það er auðvitað breyting á prinsippi en ég er sveigjanlegur maður. Þá ætti ég líka eftir kjallarabar. Ég er 45 ára og hef sirka 20 sinnum skilað handriti – ef frá eru taldar þýðingar og ritstjórn og samstarfsverkefni – á 21 árs ferli. Ef ég skrifa 30 bækur í viðbót áður en ég drepst, 95 ára grafomaníker, gæti þetta orðið mjög erfitt ef ég sýni mér ekki líka ákveðna linkind í túlkun á skilmálum. Annars fallast mér eiginlega hendur strax við tilhugsunina um að skrifa heila aðra bók í viðbót við þessa. Hvað þá þrjátíu. Ég er, einsog maður segir, gersamlega búinn á því. Ég er búinn að bæta á mig 15 kílóum frá því ég byrjaði á bókinni, þar af 10 bara síðustu þrjá mánuði. Ég get varla gengið upp tröppurnar heima án þess að verða móður. Skrifstofan mín hefur breyst í ruslakistu af matarleifum og glósumiðum og bókahrúgum og drasli sem ég veit varla hvaðan kom. Í sjálfu sér er það auðvitað bara viðeigandi. En fyrsta verkefnið sem tekur við – þegar ég er búinn að fá mér kokteil og vera þunnur í sundi eina helgi – er að reyna að endurheimta svolitla reglu í líf mitt. Og jafnvel heilsuna líka.