Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar: Frankensleikir tvítilnefndur

Frankensleikir hlaut á dögunum tvær tilnefningar til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar – annars vegar í flokki frumsaminna verka og hins vegar fyrir myndlýsingar. Fimmtán bækur voru voru tilnefndar í þremur flokkum. Tilnefnd frumsamin verk Kollhnís eftir Arndísi Þórarinsdóttur Útgefandi: Forlagið Frankensleikir eftir Eirík Örn Norðdahl Útgefandi: Mál og menning Allt er svart í myrkrinu eftir Elísabetu Thoroddsen Útgefandi: Bókabeitan Ófreskjan í mýrinni eftir Sigrúnu Eldjárn Útgefandi: Mál og menning Héragerði: Ævintýri um súkkulaði & kátínu eftir Lóu H. Hjálmtýsdóttur Útgefandi: Salka Verk tilnefnd fyrir myndlýsingar Héragerði: Ævintýri um súkkulaði & kátínu eftir Lóa H. Hjálmtýsdóttur Útgefandi: Salka Eldgos eftir Rán Flygenring Útgefandi: Angústúra Leitin að Lúru eftir Margréti Tryggvadóttur og myndlýsing eftir Önnu C. Leplar Útgefandi: Mál og menning Mamma kaka eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur Útgefandi: Salka Frankensleikir eftir Eirík Örn Norðdahl og myndlýsing eftir Elías Rúna Útgefandi: Mál og menning Tilnefndar þýðingar Einu sinni var mörgæs eftir Magda Brol, þýðandi: Baldvin Ottó Guðjónsson Útgefandi: Kvistur bókaútgáfa Uppskrift að klikkun: Hjartasósa, hafgúuheilar og gvakamóri við leiðindum eftir Dita Zipfel, þýðandi: Jón St. Kristjánsson Útgefandi: Angústúra Ósýnilegur gestur í múmíndal eftir Cecilia Davidsson og Filippa Widlund eftir sögu Tove Jansson, þýðandi Gerður Kristný Útgefandi: Mál og menning Brandur flytur út eftir Sven Nordqvis, þýðandi: Ásta Halldóra Ólafsdóttir Útgefandi: Kvistur bókaútgáfa Maía og vinir hennar eftir Larysa Denysenko og Masha Foya, þýðandi: Magnea J. Matthíasdóttir Útgefandi: Vaka-Helgafell *** Jafnframt var veitt sérstök viðurkenning Bókmenntaborgarinnar fyrir „mikilvægt starf í þágu lestrarmenningar barna“ og fóru þau til Yrsu Þallar Gylfadóttur, Iðunnar Örnu og útgáfunnar Bókabeitan fyrir bókaflokkinn Bekkurinn minn. Í dómnefnd voru: Sunna Dís Jensdóttir, tilnefnd af Bókmenntaborginni (formaður), Ragnheiður Gestsdóttir, tilnefnd af FÍT og Arngrímur Vídalín, tilnefndur af RSÍ.

Dagur 89: Viðburðurinn fer fram á ensku

Ég er búinn að prenta bókina út. 551 síða í handriti. Tæplega 140 þúsund orð. Ég á eftir að skrifa allra síðustu síðurnar – geri það um miðja næstu viku, þegar ég er búinn að lesa þetta vandlega (ég á 200 síður eftir) og færa inn breytingar. Svo tekur við ritstjórnarvinna fram á haust. *** Bókmenntahátíð er í næstu viku. Þar er margt áhugavert. Haukur Már og Örvar og Kristín Eiríks og Kristín Svava – nærri þriðjungur íslenskra þátttakenda er fyrrum kjarnameðlimir í Nýhil. Svo er ég mjög hrifinn af síðustu bók Colsons Whitehead. Vigdisi Hjorth hef ég hitt nokkrum sinnum og setið í panel með (hún man samt aldrei eftir að hafa hitt mig) og hún er hræðilega skemmtileg. Bókin hennar Mariönu Enriquez á íslensku var líka stórbrotin. Og fleira og fleira. Ég kemst ekki suður – út af bókinni og út af því að ég verð einn heima með krakkana og út af því að strax á eftir þarf ég að fara til Grikklands á bókamessu. Ég tók eftir því að nær allir viðburðir bókmenntahátíðar eru haldnir á ensku. Á einum viðburði er „boðið upp á þýðingar“ – en það er viðburður á frönsku, haldinn af Alliance Francaise. Frakkar eru auðvitað ekki jafn hrifnir af heimsvaldastefnu enskrar tungu og Íslendingar (hin stóra bókmenntahatíðin í Reykjavík heitir ekki einu sinni íslensku nafni – Iceland Noir). Svo er einn viðburður á norsku og dönsku. Fljótt á litið er hugsanlega bara einn einasti viðburður á íslensku – eða bara á íslensku – samtal Gyrðis Elíassonar og Halldórs Guðmundssonar. Hugsanlega líka samtal katalónskra þýðenda og 1-2 upplestrakvöld. Meira að segja samtal Pedros Gunnlaugs Garcia og Auðar Jónsdóttur er auglýst þannig að viðburðurinn fari fram á ensku. Kannski heldur einhver að Pedro kunni ekki íslensku? Eða er þetta fyrir einhverja agenta? Nema þetta sé innsláttarvilla. Ég hef farið á mjög margar bókmenntahátíðir og það er undantekning – sem fólk biðst þráfaldlega afsökunar á – ef viðburðir eru haldnir á ensku án túlks. Auðvitað er þetta ódýrara og minna vesen og kunna ekki allir ensku hvort eð er? En það væri áreiðanlega minna vesen líka að skrifa á ensku og gefa út á ensku. Íslenskar bókmenntir hljóta að standa og falla með því að einhver púkki upp á þetta blessaða tungumál. Þetta er ótrúlega lúseralegt. Mig langar samt að sjá margt þarna og þarf eiginlega að kanna hvort viðburðir verði ekki í streymi. *** Annars var Frankensleikir tilnefndur til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar. Ég er auðvitað af reykvískum ættum – pabbi minn var einu sinni Reykvíkingur. Eða er Reykvíkingur – þið yrðuð að spyrja hann. En þetta er mjög gleðilegt. Elías Rúni var síðan tilnefndur sérstaklega líka í myndlýsingaflokki svo bókin er tvítilnefnd.

Dagur 78 af 100: Blúsnám

„Vestræn“ menning er óttalegur bastarður og eitt af því sem vert er að velta fyrir sér þegar menningarnám kemur til tals er hvenær eitthvað hættir að vera „nám“ og verður manns eigið. Hvenær það er svo að segja „fullnumið“. Hvenær tilheyrir kebabið manni – og hvenær hættir það þar með að vera „exótískt“ líka? Eða palestínuklúturinn? Einu sinni virtist manni sem hroðalokkar (svonefndir dreddar) væru fullnumdir af hvítum en síðan gerðist eitthvað – þeir voru sendir heim, einsog hver önnur handrit. Fyrir nokkrum árum var gert grín að kínversk-amerískri konu fyrir atlögu sína að hvítri konu sem ætlaði á dansleik í kínverskum kjól – það þótti svipað hallærislegt og þegar Lena Dunham setti sig upp á móti því að hvítt fólk borðaði sushi – en svo hef ég ekki mikið orðið var við svona kjóla síðustu árin. Kannski eru þeir horfnir. Er enn verið að selja Homogenic Bjarkar í sömu umbúðum ? Eru til íslenskar k-popphljómsveitir? Geta þær verið til? Einhver skaut því að mér um daginn í gríni hvernig ég héldi að því yrði tekið ef Straight Outta Compton yrði sett upp sem söngleikur með öllum helstu röppurum landsins í blackface. Þeirri spurningu þarf væntanlega ekki að svara en það sem sló mig við tilhugsunina var að Emmsjé Gauti og Erpur skólabróðir minn (og aðrir rapparar landsins) þurfa ekki að mála sig í framan til að útlit þeirra og atferli beri ramman „keim“ af menningarnámi. Þessi búningur – frá klæðnaði að orðfæri og líkamsbeitingu – er menningarnám. En þar er fullnumið, held ég. Að minnsta kosti er mjög langt síðan ég heyrði einhvern fetta fingur út í það og þegar það var gert – sem var á tíunda áratugnum – var það ekki menningarnámið sjálft sem þótti rasískt heldur viðbrögðin við því og orðfærið sem var notað til þess að fordæma það. Og ég held þess utan að Erpur og Gauti „séu bara svona“ – að svipta þá því væri að svipta þá sinni menningu og gera þá að einhverjum öðrum. Ég man eftir pistli eftir ungan Hauk Má – sennilega einum af Víðsjárpistlunum, sem hann nefnir í nýlegum minningarorðum sínum um Eirík Guðmundsson – sem gekk sirka út á að í raun ættu Njáll á Bergþórshvoli og Gunnar og Hlíðarenda lítið í honum, þeir væru ekki hans menning, heldur væri hann einfaldlega, og einlæglega, alinn upp af Bob Dylan og Bítlunum. (Haukur er auðvitað 20 árum eldri en jafnaldrar sínir – en við höldum okkur samt við sjöunda áratuginn hér af því það er þægilegt). Nema hvað. Bob Dylan fékk nóbelsverðlaunin fyrir að „skapa nýja ljóðræna tjáningu úr bandarískri sönghefð“. Þetta afrekaði hann með linnulausu menningarnámi – ekki síst úr tónlist bandarískra blökkumanna. Þetta held ég að sé ekki umdeilt og er sannarlega ekkert sem Dylan hefur mótmælt. Þvert á móti hefur Dylan, líkt og margir samtímamenn hans, verið duglegur að vísa til þess arfs, til Roberts Johnson, Bukka White, Blind Lemon Jefferson – og jafnvel nefnt þá í lögum sínum, „nobody sings the blues like Blind Willie McTell“ und so weiter. Fyrstu plötur hans voru líka mikið til blús-kover (það er svolítið undarlegt að tala um að kovera þjóðlög – en það er annar debatt). Hann var reyndar ekki endilega alltaf jafn duglegur við að kreditera hetjurnar sínar á plötum – t.d. kennir hann lag sem er (líklega) eftir Big Bill Broonzy og Jazz Gillum við útsetningu eftir Eric von Schmitt. En þá útsetningu, það plokk, lærði Eric von Schmitt einfaldlega af Reverend Gary Davis – og er stíllinn mjög einkennandi fyrir hans spilamennsku. Allir fimm eiga þeir talsvert í laginu en einungis hvítu mennirnir fá nafnið sitt á það. Það er ekki bara svívirða heldur líka nánast regla á þessum tíma (og þegar blökkumaður fékk nafn sitt skráð var það oft Willie Dixon, sem var bassaleikari og upptökustjóri hjá Chess og lét setja sitt nafn á óhemju af standördum frá öllum helstu stjörnum stúdíósins – og það eru víst einhver áhöld um það hvort hann hafi samið mikið í öllum þeim lögum, þótt hann hafi áreiðanlega verið fínt tónskáld – en það er önnur og lengri saga). Þjóðlagatónlistin á þessum upphafsárum Dylans gekk út á þetta og hafði gert í fleiri áratugi – kannski árhundruð, kannski alltaf. Þjóðlagasöngvarinn átti að þvælast um sveitir landsins og læra ný lög til þess að syngja með sínu nefi og til þess að hræra saman við önnur lög svo úr yrðu ný. Dylan er stundum kallaður póstmódernisti í þessu – en þá eru Robert Johnson og Muddy Waters líka póstmódernistar. Því þeir voru allavega jafn þjófóttir. Í árdaga upptökualdar virkaði það líka þannig að ef einhver tók upp hittara var víst að sami myndi gera 10 framhaldsútgáfur – til þess að mjólka vinsældir hins fyrsta; hugsið um Aerosmith-ballöðurnar sem ráku hver aðra allan tíunda áratuginn og hljómuðu allar meira og minna eins – og annar hver starfandi músikant myndi taka upp sín eigin tilbrigði með misnýjum texta. Í grunninn er þetta alltaf menningarnám – og gleðilegt, stórkostlegt – og verður ekki verulega sárt fyrren sá sem hærra situr í samfélagshírarkíunni fer skyndilega að græða meira á því en sá sem kenndi honum músíkina. Muddy Waters og Howlin’ Wolf fannst áhugi ungra hvítra breta á tónlist sinni dásamlegur – það höfðu allir misst áhugann á þeim í Bandaríkjunum og hvítu bretarnir voru duglegir við að benda á Muddy og Wolf sem fyrirmyndir sínar, draga þá með sér á túr og jafnvel í sjónvarpssal (þar sem blökkumenn voru ekki aufúsugestir annars) – alveg þangað til, einsog Muddy Waters orðaði það, hann var farinn að horfa á einkaþotur Rolling Stones og Cream fljúga heimsálfa á milli yfir höfuð sér meðan hann mátti enn þola að rúnta milli klúbba í Chicago á skitnum kadilják. Ég held að fólki finnist það hálffáránleg hugmynd í dag að það sé einhvers konar svívirða að hvítt fólk spili blústónlist. En mörgum fannst það þá – hvítu millistéttinni þótti það skelfilegt, svörtu millistéttinni (sem var hætt að hlusta á blús) fannst það vandræðalegt, svörtum tónlistarmönnum fannst það mest skrítið, en svörtum aktífistum fannst það glæpur. Enn fáránlegri er hugmyndin um að einhver spili blúslausa tónlist, því áhrif blússins – bókstaflega það hvaða nótur þú getur spilað, hvernig þú spilar þær, hvernig stefin líta út og hrynjandin; fyrir utan vinnulagið, þessa stelihrærigrauta og fagurfræði tónlistarmannsins sem hættulegs utangarðsmanns – ganga þétt í gegnum nánast alla nútímahryntónlist. Blús er grunnurinn í djassi og R&B sem er grunnurinn í soul sem er grunnurinn í fönki sem er grunnurinn í diskó. Og blús er grunnurinn í rokki – öllum mögulegum tegundum þess. Blús er náskyldur hipphoppi. Og svo framvegis og svo framvegis. Frá upphafi er blús líka hræringur úr afrískri hryntónlist á evrópsk hljóðfæri – og undir áhrifum frá alls kyns annarri þjóðlagatónlist (á tímabili var m.a.s. mjög vinsælt að jóðla í blús), tin pan alley lagasmíðum og sérstakri tegund þrælasöngs sem varð líklega til í Bandaríkjunum. Einsog til að undirstrika það allt saman var maðurinn sem er gjarnan kallaður „faðir deltablússins“ – Charlie Patton – ekki svartur nema í aðra ættina, og líklega Cherokee (en hugsanlega mexíkóskur eða hreinlega evrópskur) í hina. Og hinn faðirinn – sá sem skapaði djassaðri blúsinn – W.C. Handy var tónlistarskólamenntað tónskáld, jakkalakki sem samdi músík með penna, og hann heyrði blúsinn fyrst sem fullorðinn maður þegar hann sat á brautarstöð og hlustaði á einhvern fátækling gutla úti í horni fór svo heim og endurskapaði það fyrir borgarhljómsveit. Aftur að upphaflegu spurningunni. Hættir menningarnám nokkurn tíma að vera menningarnám – getur menning sem er numin af öðrum þjóðfélagshóp nokkurn tíma orðið „okkar“? Ég held að svarið blasi við og að það sé já. Blústónlist er þægilegt dæmi – en hún er bara eitt dæmi, þetta á við um rosalega, rosalega, rosalega margt annað í menningu „okkar“. Hún tilheyrði einu sinni tilteknum afkima, tilteknum undirokuðum þjóðfélagshópi; hún var innbyrt og endurleikin og stolin af öðrum betur settum þjóðfélagshópi sem elskaði hana og virti (mestmegnis) og lagði mikið upp úr því að vera „ekta“; það olli umtalsverðum sárindum og var fjárhagslega og félagslega óréttlátt. Og svo rann hún saman við bókstaflega allt – meðal annars vegna þess að eðli hennar var þannig að hún var góð til sambræðslu, hafði alltaf verið teygjanleg og til í tjútt. Og afleiðingin er sú að meira að segja þeir sem hlusta ekki á neitt sem þeir myndu kalla „blús“ – meira að segja þeir sem hata blús – eru aldir upp á blússkyldri músík og blúsafbrigðum sem væri ekki til án þessa menningarnáms. Ég veit í sjálfu sér ekki hvort maður „á“ þá menningu sem mótar mann – kannski er menningin ekki „okkar“, kannski er menningin einfaldlega „við“. Ég myndi síðan gjarnan vilja halda því opnu að það sem gerist þegar einhverjir lúðar mála á sér augun til þess að syngja ítalskar óperur um Japani verði kallað eitthvað annað en „menningarnám“ – kannski bara vaudeville? Því þótt menningarnám sé sannarlega próblematískt og endurspegli þá valdastrúktúra sem þjóðfélag okkar byggir á værum við öll fátæk og heimsk og stirð án þess, og hitt – að gera það af vanvirðingu og frekju; frekar en bara illa, því vond list og klaufaskapur er oft guðdómlegra en nokkuð annað – þarf eiginlega að heita eitthvað annað.

Dagur 72 af 100: Góður bissniss

Óvænt Reykjavíkurferðin dró nóg úr tempóinu hér í Draumaverksmiðjunni til þess að ég hef bætt tíu dögum við þá níutíu sem ég gaf mér til að komast út á enda bókarinnar og eru þeir þá sléttir hundrað. Markið er sem sagt sett á 25. apríl. Mig langar alltaf að segja bara að það gangi ágætlega. Og það gerir það, svona mestan partinn. En ég er líka dálítið misjafn milli daga og ekki bara í skrifunum. Í gær missti ég til dæmis stjórn á skapi mínu. Ég var á leið í vinnuna eftir snjóþunga nótt og það var ekki göngufært á gangstéttum svo ég gekk eftir miðri Silfurgötu. Við enda götunnar var kyrrstæður bíll þar sem tveir menn, bílstjóri og gangandi vegfarandi töluðust við. Þegar þeir luku samræðum sínum gaf bílstjórinn mjög hressilega í – svona einsog hann væri að sýna sig fyrir vini sínum, fannst mér, þótt ég geti auðvitað ekkert vitað um það. Og svo brunaði hann í áttina að mér. Eftir Silfurgötunni er sannarlega ekki 15 km hámarkshraði, þótt hann sé það í mörgum hliðargötum – sem eru vistgötur. Mér gremst reglulega að fólk skuli bruna niður Tangagötuna. En í Silfurgötunni er samt 30 km hámarkshraði – maðurinn var sennilega strax kominn vel yfir það, og gangstéttir voru ófærar – og þarna er grunnskóli og skólalóð. Í stað þess að stökkva upp í skafl gerði ég það sem ég geri eiginlega aldrei. Ég veifaði bílnum að stoppa (eða fórnaði höndum með „hvað í andskotans ósköpunum ertu að gera“ svip í framan) og svo hellti ég mér yfir aumingjans manninn. Hann sagði fátt – það er reyndar alls ekki víst að ég hafi hleypt honum mikið að – aðallega sagði hann bara „ég veit“ nokkrum sinnum – en ég lét dæluna ganga og slúttaði þessu með hinum fleygu orðum „Skammastu þín bara!“ og skálmaði svo í burtu. Eftir á er ég eiginlega bæði stoltur af sjálfum mér og fullur af skömm. Og held ég eigi bæði skilið. Þannig er nú lífið mótsagnakennt stundum. *** Annars hefur orðunum „öld efans er lokið“ slegið niður í höfuðið á mér ítrekað alla vikuna. Ég held þetta hljóti að vera satt, fyrst ég hugsa þetta svona ítrekað. En kannski eru þetta líka ýkjur. Með þessu á ég ekki við – að svo miklu leyti sem ég veit sjálfur hvað ég á við með fjögurra orða áráttuhugsun (segi ég, talsmaður efans!) – að fólk sé hætt að efast heldur að fólk efist ekki út á við um eigin hugsanir, gjörðir, ætlanir. Það sé ekki lengur merki um heimsku að vera ófær um að sýna að maður efist. Þetta er meðal annars sjáanlegt í stóru Falak-Frostason deilunni, þar sem þátttakendur kepptust/keppast um að efast ekki. Ekki um sinn málstað, ekki um sínar hetjur, ekki sínar gjörðir, sín orð, fortíð sína, framtíð, nútíð, ekki um neitt. Og þá er ég ekkert endilega að tala um Frostason og Falak sjálf – þótt ég undanskilji þau ekki – heldur það fólk sem tók til máls þeim til varnar, hífði upp fána og blés í herlúðra, mikið til án þess að hafa kynnt sér meira um málið en eldfim slagorð samherja sinna og ósanngjarnt hnjóð andstæðinganna. En til þess að allrar sanngirni sé gætt, þá fer nú einmitt mest fyrir þessu tvennu. Sennilega er ástæðan fyrir þessu einföld, og hana hef ég áreiðanlega nefnt áður. Sá sem efast í loftslagi samtímaumræðunnar – eða geðslagi samtímaumræðunnar, öllu heldur – gefur slíkt færi á sér að viðkomandi gæti allt eins sagst hafa skipt um skoðun. Hafi hann engan málstað að verja er fólk þess utan fljótt að lýsa viðkomandi hálf vitfirrtan. Svo hjálpar ekki til að margt af því fólki sem tekur til máls hefur beinlínis atvinnu af málstað sínum. Með því á ég ekki við að það trúi ekki á hann – en það hefur augljóslega áhrif, ef ekki „raunveruleg“ þá „lævís“ eða „sálfræðileg“ að lifibrauð manns hangi á spýtunni. Oftar en ekki gengur starfið líka út á að „vekja umræðu“ og „sækja athygli“ – á meðan sá sem vill rækta efa sinn gerir það heldur í næði. Og kannski má halda því til haga að fólk sáir alveg efa – bara ekki um neitt af því sem það hefur hugsað sjálft, bara það sem aðrir hafa hugsað. Heldur um orðspor náungans, fyrst og fremst. Sem er einmitt, í minni bók, merki um heimsku ef ekki hreinlega óheiðarlegt innræti. *** Jæja. Rantríkur Rant Rantdahl hefur lokið máli sínu. Ég loggaði mig alls ekki inn til að segja um þetta. Svona er nú nútíminn stjórnlaus. Ég ætlaði að deila með ykkur tímariti sem ég fann á Tímarit.is og heitir Fonnið . Ég rakst á þetta í gær þegar ég var að athuga hvort mér væri óhætt að nota orðið „bissniss“ í bókinni minni – sem gerist 1925. Afstaða mín til tungutaksins í bókinni er vel að merkja sú að ég sé sennilega líklegri til að gera málið óeðlilega fornlegt en hitt; og ég held að það sé svona almennt það sem fólk gerir þegar það skrifar um fortíðina. Það færir hana nokkrum áratugum of langt aftur í tímann og alltíeinu segir enginn „líka“ og allir bara „einnegin“. En afstaða mín er líka frekar afslöppuð – ég er að skrifa nútímamál með örlitlum blæbrigðum, ekki það mál sem var skrifað 1925. Stundum koma hins vegar upp orð eða orðasambönd sem ég vil nota en finnst einsog gætu hugsanlega stuðað einhverja lesendur – í stað þess að hugsa að það sem stuði lesendur stuði þá hvort sem ég hef rétt eða rangt fyrir mér, sem væri eðlilegast, fer ég á tímarit.is og kanna málið svo ég geti bara sent lesendum mínum tölvupóst og sagt: „Sko! Hvað sagði ég!“ Nema hvað. Ég get glatt ykkur með því að það var hægt að segja „bissniss“ árið 1925 – og það var notað víðar en í Fonninu . Ég verð hins vegar einnegin að valda ykkur vonbrigðum og viðurkenna að ég notaði það ekki. Þess gerðist einfaldlega ekki þörf. Það er því einu orðinu færra í þessari alltof löngu bók og því fagna allir, sérstaklega þeir sem þurfa að eiga tíma aflögu til þess að lesa þessar löngu bloggfærslur mínar. Fonnið var gefið út í einu tölublaði árið 1921 í smábænum Foldar í Manitoba. Að vísu var það fyrst gefið út handskrifað en svo prentað – þannig að til eru tvær útgáfur. Orðið bissniss kemur fyrir í svohljóðandi auglýsingaljóði fyrir „Lundar Billiard-rúm“: Þegar lífið er töff
þegar bissniss er sló
þegar heimurinn aktar sem fúl,
þá má kaupa hér snöff
þá fæst tikket á sjó
þá má drekka og pleia hér púl, Í eðlilegu samfélagi myndi þetta kalla á ítarlega rannsókn á því hvort Megas hafi logið til aldurs. Í eins konar ritstjóragrein stendur svo: Enda þótt vér, sem rennum þessu bissnissi ríalæsum að það er ekki mikið í því að fara inn fyrir blaða- mensku, og vitum að það muni verða töff á þessum hörðu tímum, þá höf- um vér samt dísædað að taka tjans á því vegna þess að vér erum reddí að sakrifæsa miklu til þess að seiva íslenzka tungu og kípa málið hreint og óbjagað.

Stærsti plankinn í plattforminu, sem vér stöndum á, er því verndun íslenzkunnar: eiginlega er það meira enn einn planki, því hann kovrar alt plattformið. Vér vonum að allir landar söpporti okkur í þessu fæti; að bissnissmenn bæjarins styðji Fonnið með auglýsingum og margir aðrir patrónæsi það á ýmsan hátt. Fonnið intendar að lyfta hugum mann upp á hærra plan og edjúkeita þá á marga vegi. Fonnið akseptar ekki neinar greinar um jarðneska pólitík eða kirkjumál, en það verður fyrsta blað- ið sem hefir ríporters á öðrum hnöttum og poblíserar njús þaðan; öll önnur blöð hafa hingað til verið svo konservatív að halda sér við jörðina, en svoleiðis gengur ekki lengur. Ýmislegt efni er þarna annað, aðallega ljóð, en líka stuttar fréttir frá öðrum plánetum (já, öðrum plánetum) og tilkynningar úr sveitinni í kring. Þá má kannski kalla eftirfarandi klausu „hagsmunaskrá“. Editorinn að Fonninu var innveitaður fyrir söpper hjá bankamanitjernum á föstudagskvöldið ásamt Rev. Leo og eru þeir figgeraðir fyrir mestu fiókætur í táninu. Söpperinn fór næs fram og var ekkert expensis sparað. Því miður kom aldrei út nema þetta eina tölublað. Mér finnst þetta kannski sérstaklega skemmtilegt af því sumar setningarnar þarna eru bókstaflega einsog þær gætu hafa komið upp úr þrettán ára syni mínum eða vinum hans í gær. Sagnir einsog „intenda“ og „ríalæsa“ og jafnvel nafnorð einsog „ríporters“ og „tánið“ – þó kannski helst ef þeir eru að ræða um eitthvað í tölvunni. Fonnið getið þið í öllu falli lesið á Tímarit.is.

Dagur 64 af ?: Áhyggjur mínar af borgarastéttinni

Við komumst fram og til baka. Krakkarnir spiluðu á Nótunni við góðan orðstír. Í Hörpu veitti ég því athygli að búið var að pissa undir allar klósettskálarnar karlamegin. Þetta olli mér heilabrotum – ef ekki hreinlega áhyggjum. Hvað er að verða um borgarastéttina? hugsaði ég. Er þetta kannski einhver afleiðing af covid? Á veitingastaðnum var ég ávarpaður á ensku og þegar ég svaraði á íslensku sagði þjónninn: „Ó, ég hélt … lopapeysan“ og benti á peysuna mína. Fyrir aldarfjórðungi var hún minn stolti dreifara-fáni, nú er þetta fyrst og fremst til merkis um að maður sé ekki innfæddur. Ég þarf kannski að kaupa mér skyrtu. Eða ekki – kannski bara alls ekki, hreint ekki. Í bókabúð keypti ég Arf og umhverfi eftir Vigdísi Hjorth og var spurður í afgreiðslunni hvort ég væri Eiríkur. Ég játti því. Þetta þótti börnunum mínum forvitnilegt og ég fékk kærkomið tækifæri til að útskýra fyrir þeim að pabbi þeirra væri frægur í bókabúðum. Svo mjög raunar, að minnstu munaði að fólk bæri á mig kennsl. Og eina ástæðan fyrir því að konan var í vafa hafi verið sú að ég hef bætt á mig tíu kílóum við þessi blessuðu bókarskrif og er hættur að raka mig. Ég gekk svo í flasið á Páli Baldvini í annarri bókabúð. Hann þekkti mig strax og spurði – mjög hissa – hvað ég væri að gera í borginni. Páll var reyndar í mjög góðu skapi. Ég var hins vegar með allt á hornum mér – og minnti á PBB annó 2006 í Kiljunni – veifaði handritinu fúllyndur framan í hann og sagðist ekkert geta skrifað út af þessu Nótu-dæmi. Ég sé fyrir mér að í ritdómi sínum næsta haust (ef þetta hefst fyrir haustið og Auður Jónsdóttir verður ekki búin að reka hann af Heimildinni) muni Páll nefna að sennilega hefði þessi bók mátt við meiri vinnu – að minnsta kosti góðri helgi í mars, það sé hreinlega einsog tempóið hafi fallið þegar höfundurinn þurfti óvænt að fara til Reykjavíkur. Lomma hittum við Aram í pizzu. Hann lét mig svo fá gamlan Nýhil-lager sem ég mun raða í hornið á skrifstofunni minni sem Elísabet, leigusali minn, arkitekt og listapatrón, kallar „óseldu bækurnar hans Eiríks“ – nú stækkar sá haugur sem sagt umtalsvert og þar með niðurlæging mín að geta ekki selt þetta. Mest er af Af steypu og Handsprengju í morgunsárið – sem eru samt bestu bækurnar mínar. Ég náði jafn lítið að vinna og ég hélt ég myndi gera. Settist þrisvar niður í yfirlestur – einu sinni í Hörpu, einu sinni á Hressó og einu sinni á Oddsson í Skeifunni (þar sem við Aram gistum). Í fyrstu lotunni, þegar ég las byrjunina, fylltist ég miklu vonleysi. Sennilega var þar um að kenna samblandi af þreytu og því einfaldlega að þetta er ekki nógu gott. Byrjunin er ómarkviss (ég veit það hljómar undarlega fyrir sumum að ég kalli skrif mín ómarkviss, af því þau eru stundum svolítið út um allt, en það á samt að vera á þessum vaðli tiltekið form, there’s a method to the madness og það allt saman) og hreinlega leiðinleg og klunnaleg. Mér til talsverðrar gleði rætist nú úr þessu „fljótt“ (eftir svona 50 síður) og allt fer að virka svona meira og minna einsog það á að gera. Og þegar ég var búinn að hvíla mig varð mér líka ljóst að þessar 50 síður get ég hæglega lagað – það er auk þess til marks um að ég sé ekki út á þekju að ég komi auga á svona og sé fær um að fyllast vonleysi og sjálfshatri yfir því. Verst væri að taka aldrei eftir neinu.

Dagur 61 af 90: Kompaní andans

Orðið sem kom fyrst upp í hugann var „snafu“. En sennilega meinti ég snurða. Að snurða hefði hlaupið á þráðinn. Snafu er amerískt hermannaslangur og stendur víst fyrir „status nominal all fucked up“. Þetta vissi ég ekki áðan, en þetta veit ég nú. Sennilega er þetta slangur of nýlegt til þess að hafa borist til Íslands í gegnum Miðnesheiðina og því hef ég það að öllum líkindum úr bíómyndum. Snafu hefur hlaupið á þráðinn. Börnin eru að koma fram með tónlistarskólanum á Nótunni í Hörpu á helginni. Til stóð að Nadja færi með þeim – ég fór síðast, og stóð rúmlega fjölskylduvakt meðan hún var að æfa fyrir Vasagönguna – en hún fékk covid í byrjun vikunnar. Við hin sluppum vel að merkja öll, sjö, níu, þrettán og það allt saman – fengum að vísu flensu fyrir tveimur vikum, áður en Nadja fór í Vasagönguna, og testuðum okkur ekki af því það var enginn með covid í kringum okkur þá og það var ekki til neitt próf heima. Kannski var það covid. Ég veit ekki hvort ég næ að vinna neitt – mun sjálfsagt reyna það og a.m.k. taka með mér útprent af einhverjum köflum til þess að lesa yfir. Ef eitthvað er að marka reynsluna mun rofið kosta mig dálítinn skriðþunga hið minnsta. Í versta falli verð ég að byrja að lesa mig aftur í gegnum alla þræði alveg frá byrjun sem er sjálfsagt verk upp á viku til tíu daga. Í besta falli verða bara fyrstu tveir-þrír dagarnir svolítið hægir. Í martraðarfalli missi ég allan kontakt, fyllist vonleysi og verð að fresta bókinni um ár (sem er reyndar ekkert óhugsandi líka þótt allt gangi upp og ég klári 15. apríl). Þetta er samt pínu erfitt fyrir sjálfsmyndina. Að hafa ekki getað haldið þetta út – að hafa ekki tekist að setja bókina í forgang þann tíma sem til stóð. Níutíu daga. Ég er ekki mjög góður í að gera ekki það sem ég hef einsett mér – sennilega er ég það sem heitir að vera „ósveigjanlegur“. Og ástæðan fyrir því að ég gerði þetta var meðal annars sú að mér gekk illa að „finna tíma“ – það voru alltaf einhverjar bókmenntahátíðir, fjölskylduskyldur, veikindi, ritgerðaskrif, greiðar eða persónuleg og samfélagsleg hátíðahöld að trufla. Já og heilt jólabókaflóð fyrir bók sem ég var auðvitað löngu búinn að skrifa. Og tónlistardillan – sem segja má að sé miðaldurskrísan mín og er sennilega með skemmtilegri þannig, en vill sjúga svolítið upp starfsorku og athygli mína. Ekki svo að skilja að ég sinni ekki skyldum mínum við fjölskylduna eða mæti ekki á hljómsveitaræfingar. En ég er ekki að semja neitt eða taka upp eða læra flókin ný lög eða nýja tækni og ég hef alveg látið vera að reyna að laga gólfhitann í eldhúsinu, sem klikkaði, eða sinna öðru viðhaldi og tek ekki til nema ég sé orðinn viðþolslaus (stundum, þegar ég er valtur, er einsog fljótlegasta leiðin til þess að beisla kaosið í sálinni á mér sé með því að beisla hluta-kaosið í kringum mig). Og þótt ég hafi afþakkað lengri ferðir fram í maí hef ég samt alveg stokkið til í eitthvað innanbæjarsmotterí og svona. Afþakka öll ritgerðaskrif en held áfram að blogga. Und so weiter. Það er auðvitað ekkert skiljanlegra en að plön gangi ekki eftir. Vonbrigðin snúast sennilega mest um prinsippið. Og já það var augljóslega alltaf val að sleppa því bara að fara suður. Aram er að tromma með sveitinni en kennarinn hans hefði alltaf getað hlaupið í skarðið eða við sent hann með vini. Aino (sem skilur bassann eftir heima og er að syngja í kórnum) hefði annað hvort getað farið með flugi og við dömpað henni á vini í Reykjavík en því hefði sennilega fylgt að hún þyrfti að sleppa vinnusmiðjum sem hana langar í og mér finnst hún eiga skilið að fara á. En mig langaði samt að leyfa mér þetta. Níutíu daga í röð. Það hefur alltaf verið í mér þráður sem vill öllu til kosta. Let it burn , meðan ég fæ að skrifa í friði. En það er líka í mér furðu mikil jarðtenging inn á milli og ég á mjög erfitt með tilhugsunina um að valda fólkinu sem treystir á mig vonbrigðum. Fjölskyldufrummanninum í mér finnst einsog ef hann standi sig ekki muni siðmenningin hrynja. Skáldfrummanninum finnst einsog hef hann standi sig ekki muni bókmenningin hrynja. En jafnvel þótt allt fari á versta veg drepst enginn þótt ég klári ekki þessa bók í vor. Það er samt svo skrítið að til þess að skrifa hana er einsog einhver hluti af mér þurfi að trúa því að svo sé. Og sá hluti er eðlilega með böggum hildar og mjög vonsvikinn með okkur hina – í þessu kompaní andans sem er tilvera mín. En hann fær bara ekki að ráða að þessu sinni. Kannski næst.

Dagur 56 af 90: Skásetningar

Er ég ennþá að telja dagana rétt? Ég held það. Ég mætti ekki í vinnuna fyrren á hádegi í dag. Síðustu dagar hafa verið svolítið intensífir. Ofan í vinnu við bókina var hljómsveitaræfing með tveimur nýjum lögum á fimmtudag, á föstudag var frumsýning á Volaða land eftir Hlyn Pálmason og ég fenginn til þess að taka viðtal við aðstandendur á eftir, og í gær opnaði Danni vinur minn, Daníel Björnsson ásamt Önnu Hrund Másdóttur og Jóhannesi Atla Hinrikssyni, sýningu í Gallerí Úthverfu. Ég fór beint úr opnuninni í kvöldverðarboð og svo á Rocky Horror sýningu menntaskólans. Var kominn seint í háttinn. Best er þegar ég kemst upp með að sinna engu nema bókinni. Og í sjálfu sér alveg nógu intensíft, enda farið að draga nær endalokunum – án þess þó að þau séu ljós, sem þýðir í senn að ég dragnast með 100 þúsund orð af uppsöfnuðum vandamálum á bakinu, sem ég þarf að henda reiður á, og að kvíðinn yfir því að allt hrynji og ekkert gangi á endanum upp er í hámarki. Ég er drukkinn á því sem er komið og mér þykir mjög vænt um það – senu fyrir senu, karakter fyrir karakter – og tilhugsunin um að það gæti allt endað á að fara til andskotans kvelur mig. Það væri reyndar ágætis titill á bókina. Farið til andskotans . Fyrst hún má hvorki heita Himnaríki og helvíti , Bjargræði eða Jón – sem væri auðvitað best, en er víst frátekið. Svo hef ég eytt óþarflega miklum tíma í að hugsa um Madömu Butterfly. Sérstaklega fyrir mann sem hefur satt best að segja mjög takmarkaðan áhuga á óperum. En það eru allir að tala um þetta og hvað á ég þá að gera? Ég þyrfti eiginlega að setjast niður með Per vini mínum í Malmö, sem er mikill óperukarl, til að fá innsýn í þetta. En mér finnst ekki síst forvitnilegur þessi hræringur í umræðunni – hvernig hugtök eins óríentalismi, nýlenduhyggja og „yellow-face“ – sem er í grunninn amerískar áhyggjur af vaudeville-rasisma – lenda öll í einum graut, svo að uppsetning fyrrum nýlenduþjóðar á 130 ára gamalli ítalskri óperu sem byggð er á bandarískri smásögu, sem segir frá amerískum lautinanti sem svíkur 15 ára gamla japanska konu í ástum – og sú smásaga er vel að merkja byggð á skáldsögu eftir franskan flotaforingja um svipað efni, sem aftur er talið að sé að miklu leyti sjálfsævisöguleg – verður til þess að vekja áhyggjur af því að Japanir séu orðnir fórnarlömb fordóma í nýlendustefnubransanum. En einsog einhver kannski veit þá eru Japanir fyrst og fremst nýlenduherraþjóð og saga þeirra mjög blóðug. En á móti kemur að Japanir töldust undirmálsfólk sem innflytjendur í Bandaríkjunum – einsog allt litað fólk (líka s-evrópubúar), og urðu svo fyrir gríðarlega aukinni heift og fordómum í seinni heimsstyrjöldinni, sem voru svo endurleiknir í nýrri uppsetningu með léttúðarfyllri undirtónum á níunda áratugnum þegar Japanir voru að gera sig gildandi í bandarískri kaupsýslu, í bíómyndum einsog Gung Ho og öðru álíka efni. Mér finnst blasa við að það sé úr þeirri átt sem áhyggjurnar koma. Og þá má alveg halda því til haga líka að máttugasta „nýlendustefna“ samtímans birtist í því hvernig mannsandinn um gervalla jarðkringluna hefur verið kólóníseraður af amerísku gildismati í gegnum nær fullkomin yfirráð á allri afþreyingu og bróðurparti hins meira krefjandi listaheims að auki. Í þessum debat um óperuna mætast líka þeir sem vilja engu breyta – engum þóknast í nafni listarinnar – og þeir sem eru ævinlega tilbúnir til að bukka sig og beygja fyrir minnstu aðfinnslum. Og allir jafn vissir um að þeir séu hinir einu sönnu verndarar listar og mannúðar. Listin gengur auðvitað að miklu leyti út á þessa jafnvægisgöngu – að þóknast engum og þóknast öllum, helst bæði í einu, tæla og ögra, sefa og sjokkera. Og ágætt að hafa í huga að fyrsta útgafa Madömu Butterfly var flopp, svo Puccini settist niður og lagaði hana – og gerði það meira að segja nokkrum sinnum, eftir því sem ég kemst næst. Til þess einmitt að þóknast áhorfendum síns tíma, sem höfðu einsog við vitum mjög sérstaka sýn á austurlönd, séða úr samtímanum, en mjög eðlilega fyrir sinn tíma. Svo það er allavega ágætis fordæmi fyrir Íslensku óperuna, ef hún skyldi vilja fresta sýningunni og endurskoða hana, móta að löngunum og þrám og áhyggjum sinna gesta. Þetta eru eiginleg of mörg lög af merkingu til þess að það verði rætt af einhverju viti nema í mjög löngu máli. Sem ég er augljóslega ekki að fara að gera, og ekki einu sinni fær um að gera. En þótt ég sé almennt lítið gefinn fyrir það að bera blak af Íslandi finnst mér samt blasa við að af þessum þjóðum sem hlut eiga að máli – Ítalíu, Frakklandi, Bandaríkjunum, Japan og Íslandi – séu nýlenduskuldir Íslands áberandi lægstar. Annars mæli ég með skrifum Ármanns Jakobssonar um Enid Blyton, Roald Dahl og nýlendustefnuna .

Dagur 54: Móralíseringar

Einhvern tíma var litið til listanna eftir svörum við siðferðislegum álitaefnum. Sögur innihéldu móralskan boðskap – og þá er ég ekki að tala bara um barnabækur, heldur klassíkina. Kanónuna. Moby Dick. Karamazovbræðurna. Hroka og hleypidóma. Alvöru höfundar voru móralistar og flestar alvöru sögur voru sögur sem áttu (meðal annars) að hjálpa fólki að skilja rétt frá röngu og stöðu sína gagnvart því sem var rétt og rangt. Ekki bara til þess að banna fólki – ekki láta þráhyggjur þínar fyrir hvítum hvölum steypa þér og öllum í kringum þig í glötun – heldur líka til þess að leyfa því –  vingastu við tattúveruð hörundsdökk vöðvatröll, það er ekki allt sem sýnist og þau gætu orðið þínir tryggustu vinir . Sögur voru í með leiðarvísar – ekki kannski boðorð, heldur tilraunastofa þar sem skoða mátti afleiðingar mannlegrar breytni og bera hana upp að ljósinu. Þetta hélt áfram að vera satt út 20. öldina, þótt verkefnið yrði að mörgu leyti sífellt meira krefjandi, á köflum mjög ofbeldisfullt, færi á endanum að snúast meira um að kryfja siðferðið og galla siðferðisboðskapsins, afhjúpa hræsnina sem oft fylgdi mestu móralistunum, en að viðhalda því eða stuðla einfaldlega að „betri“ breytni. Að einhverju leyti hefur þetta síðan snúist við. Í stað þess að listirnar reyni að leiðbeina okkur um rétta og ranga breytni í lífinu, (eða kryfja hana), snýst lífið (í listum) nú að talsverðu leyti um að ræða rétta og ranga breytni við framkvæmd listaverka. Í stað þess að benda á glæpina eru listaverkin orðin glæpirnir – eða í það minnsta meintir glæpir. Og eins undarlega og það kannski hljómar er líklega samtímis mjög langt síðan listin sjálf var jafn íhaldssöm – fagurfræðilega, siðferðislega og heimspekilega. Svona heilt yfir – þótt á þessu séu eðlilega undantekningar. Ég var nýbúinn að fletta vikugömlum Mogga þar sem tvær af fjórum síðum fóru í að ræða representasjón – ein síðan var um hvít óskarsverðlaun, hin um konur sem hljómsveitarstjóra – og hafði verið að velta því fyrir mér einfaldlega hversu hátt hlutfall menningarumfjöllunar færi í þessar pælingar þegar ég rak augun í umræðuna um Madömu Butterfly uppsetningu óperunnar. Og hugsaði: nei sko, nýr skandall, spennandi. Ég myndi seint halda því fram að þessar umræður – eða þessi umræða, þetta er mikið til sama umræðan í nýjum búningi – eigi ekki að fara fram eða séu ekki mikilvægar. Sannarlega hefur a.m.k. engin lausn fundist eða samningar náðst – engin fljót verið brúuð, flest okkar standa meira að segja á báðum árbökkum. Ég er – í bili a.m.k. – bara að velta því fyrir mér hversu plássfrek hún sé og hvort hún taki yfir aðra umræðu um menningu (og hver sú umræða þá væri – man það einhver?) Og ég er ekki að hugsa bara um þessi tilteknu mál – heldur ekki síður kúltúrbarnaumræðuna, umræðuna um fatlaða í leikhúsi, aflýsingu og endurkomu dónakalla í hinum ýmsu listgreinum, innflytjendur í bókmenntum, sérstök bókmenntaverðlaun kvenna o.s.frv. o.s.frv. Í sjálfu sér er ekki heldur hægt að halda því fram að þetta sé ekki umræða um „merkingu listarinnar“ – kannski er þetta djúpstæðasta umræðan um merkingu listarinnar sem okkur er boðið upp á í smelldrifnu fjölmiðlunum. Hvað segir listin okkur og hvernig, hver eru mörk hennar? Hins vegar sakna ég þess stundum að umræðan sjálf sé vitrænni, eða hugrakkari, í meira samflútti við veruleikann – því svörin um að listin sé ósnertanleg, allir eigi rétt á að stunda hana, mikilvægi tjáningarfrelsisins verði seint ofmetið og „gæðin“ verði að ganga fyrir eru kannski ekki röng, en þau eru líka banöl og ófullnægjandi nema þeim sé fylgt eftir með einhverri ástríðu, að þeir sem flíka þeim fórni einhverju fyrir listina og að þau hætti að verðlauna meðalmennsku, mótmæli því jafnvel á torgum þegar meðalmennskan er verðlaunuð, henni hampað og fagnað, frekar en að hvískra flissandi í hornum. Og sýni okkur þannig að listin sé heilög, frekar en að halda því bara fram.

Dagur 51: Koffín og kolvetni

Þetta hefur alveg áreiðanlega verið stefnulausasti dagurinn hingað til. Ég er eiginlega bara búinn að vera að væflast og það sem ég skrifaði er sennilega að hluta til nothæft en það er líka einmitt augljóslega stefnulaust – á leiðinni ekkert, breytir litlu, rétt hnýtir smá hnút og lognast svo út af í átakalausri vinsemd. Kannski er þetta afleiðing af gærdeginum. Morguninn var pródúktífur og eftir hádegi hitti ég Sigþrúði – fráfarandi ritstjóra minn – og Jón Yngva, hennar ektamaka, og fór með þau í ferð um sögusvið bókarinnar. Við byrjuðum hér á skrifstofunni þar sem heill veggur er undirlagður af gömlum ljósmyndum, stóru bæjarkorti, úrklippum úr dagblöðum og allra handa glósum af myndræna taginu. Svo gengum við í gegnum bæinn og ég fór í gegnum hina ýmsu þræði bókarinnar. Ef frá er talið upphaf handritsins sem Nadja las síðasta … vor? Getur verið að það sé svo langt síðan? Allavega, ef frá er talið það og einstaka kryptísk athugasemd, hefur enginn fengið að vita neitt um þessa blessuðu bók. En nú sem sagt rakti ég bara allt sem ég mundi – eins langt og það náði, því ekki veit ég enn hvar þetta endar eða hvernig þræðirnir verða hnýttir saman, því þótt þetta sé ekki þannig séð „plottuð bók“ þá verður hún nú samt að koma heim og saman – og það var áreiðanlega meira slítandi en ég gerði mér grein fyrir í gær. Ástæða þess að ég fór út í þessar útleggingar er ekki síst sú að nú þarf Sigþrúður að finna nýjan ritstjóra fyrir mig – og þessa bók, réttara sagt, og þá getur skipt máli að eðli hennar liggi að einhverju leyti fyrir. Ég er heldur ekki í frábæru ásigkomulagi. Sef illa, ét mikið og óhollt og leyfi þráhyggjunum svolítið að stýra ganginum á mér. Það er ástand sem mér finnst að mörgu leyti gefandi – einhvers staðar hangir það saman að maður sinni sjálfum sér og vellíðan sinni illa þegar maður lifir að miklu leyti í öðrum heimi, þegar mest áríðandi vandamálin í lífi manns eru þau sem tilheyra skáldskapnum og allt annað mætir afgangi – í ofanálag finnst mér stundum einsog sköpunargáfan gangi fyrir koffíni og ódýrum kolvetnum – en það er líka slítandi því manni hrakar og á endanum klárast þrekið og þá getur maður sennilega valið um að missa vitið eða taka sig taki. Og þegar maður tekur sjálfan sig taki er hætt við að maður missi takið á hinu. Trappar niður koffínið og dettur úr gír. Ég er að vísu ekki í neitt sérlega góðum gír í dag. Þrátt fyrir koffín og kolvetni og allt hitt. Ég er svolítið lost og blúsaður – hef afvegaleiðst um internetið og potast áfram í handritinu frekar en að skálma. Ég hef lítið lesið allra síðustu daga, annað en mína eigin bók, kannski er rótin þar – ég leiðist oft út í heilalaust gláp þegar Nadja er í burtu. Verkefni morgundagsins er að finna skriðþungann minn aftur.