Jæja. Ég ætla að byrja daginn á því að vakna. Krakkarnir eru farnir í skólann og ég sit einn í ljóslausri stofunni heima á Tangagötu – það birtir smám saman en annars er tölvan helsti ljósgjafinn. Nadja fór til Svíþjóðar í fyrradag til þess að taka þátt í Vasagöngunni sem er á sunnudag. Ég er búinn með fyrsta kaffibolla dagsins en ég er enn í náttbuxunum – hafandi trassað að setja buxur í þvott um hríð eru allar góðu buxurnar mínar núna í þvottakörfunni. Allar verandi þessi tvö pör sem mér þykja þolanleg. Ég á sennilega þrjú pör í viðbót – einar eru of þröngar, einar með gati og einar eru gallabuxur sem ég nota eiginlega bara þegar ég er að vinna við eitthvað karlmannlegra en að delera upp úr mér sögum og ljóðum. Ég kaupi mér sjaldan föt – og ef frá eru taldar lopapeysurnar sem mamma prjónar á mig fæ ég þau eiginlega aldrei gefins. Og aldrei – einsog sumir – eitthvað afgangs úr skápunum hjá öðrum. Af því ég er tveir metrar og passa ekki í neitt – ekki einu sinni það sem kemur beint úr búðinni. Ég er grannur að upplagi og misvaxinn, með hlutfallslega ívið lengri búk og styttri fætur en nokkrum manni er hollt, sem þýðir að ég á eiginlega enga boli sem ná yfir naflann á mér sem eru ekki líka einsog sirkustjald utan á mér. *** Í gær var ritstjórinn minn hjá Forlaginu hækkaður í tign. Sigþrúður Gunnarsdóttir er nú orðin framkvæmdastjóri. Sem þýðir að ég er munaðarlaus. Hjá Nýhil voru vinir mínir bara ritstjórarnir mínir – og ritstjórn bara jafn mikil og maður kallaði eftir og einhver hafði tíma til að sinna. Fyrsti ritstjórinn minn hjá stærra forlagi var Kristján B. Jónasson – sem ritstýrði Hugsjónadruslunni , Michael Moore þýðingunum (sú seinni kom aldrei út) og las yfir Ginsbergþýðingarnar og Eitur fyrir byrjendur . Þegar Forlagið lenti í hakkavél markaðarins varð ég munaðarlaus. Það var þá 2006. Á tímabili var ég næstum farinn inn á Uppheima en svo þegar Silja Aðalsteins byrjaði á Forlaginu fór ég inn með henni, 2008. Hún ritstýrði mér til 2013 – Hnefi eða vitstola orð var síðasta bókin okkar saman – og þá tók dóttir hennar, Sigþrúður við. Það eru þá fimm ár hjá Silju og áratugur hjá Sigþrúði. Ég get ekki verið annað en afar þakklátur fyrir þennan tíma – það er lykilatriði að eiga góðan ritstjóra og ekki síður að eiga góðan málsvara innan forlagsins, þegar maður kemur með asnalegar hugmyndir einsog að skrifa matreiðslubók um plokkfisk eða barnabók um samansaumaðan jólasvein sem prumpar glimmeri. Eða óþægilegar bækur einsog Hans Blæ. Þá þarf maður að eiga hauk í horni og það þykist ég hafa átt. Að því sögðu held ég að Sigþrúður verði líka frábær framkvæmdastjóri – ég treysti henni hundrað prósent til þess að standa með bókmenntunum í stórsjó markaðsfrekjunnar. Nú sem fyrr. En ég er sem sagt munaðarlaus. Ég veit ekki einu sinni hvort það standi til að ráða fleiri ritstjóra. Ég vona í það minnsta að það verði ekki færri ritstjórar per bók – Íslendingar eiga margfalt heimsmet í ritstjóraafköstum, og það bara dugar. Og ef það á að fækka höfundum vona ég að allir hinir verði reknir fyrst. Djók! Svo er spurning hvað verður um Tímaritið. Ég reikna með því að Sigþrúður segi sig frá því líka, án þess að ég viti neitt um það. Þá gæti verið að Elín Edda taki það bara yfir sjálf – eða það verði eitthvað meira stokkað upp. Það er ekki víst að Halldór Guðmundsson – Don Corleone íslenskrar menningar, kallaði ég hann um daginn – og félagar séu búin að leggja þennan kapal, þetta er kannski kapall í vinnslu. *** Ég er meira en hálfnaður með átakið í bókinni og hún er næstum orðin jafn löng og ég hélt hún yrði. Altso – þegar ég ætlaði að klára „fyrsta handrit“ 15. apríl reiknaði ég með því að hún yrði um það bil 90 þúsund orð. Nú stendur handritið í 88 þúsund orðum og ég á ábyggilega 30 þúsund orð eftir áður en þetta kemur allt heim og saman. Það getur augljóslega náðst á næstu 43 dögum – en umfangið gæti gert eftirleikinn tímafrekari. Það verður heldur ekki fyrren síðasta orðið birtist sem ég veit hversu vel þetta hangir saman – hvað ég þarf mikið að endurskrifa. Og ég veit ekki heldur fyrren síðasta orðið birtist hvað orðin verða mörg. Kannski er þetta 250 þúsund orða bók og þá verður bara að hafa það. Ástæðan fyrir því að ég tala lítið um söguþráðinn eða sögusviðið eða stemninguna er kannski bara leyndarhyggja. Ég veit ekki alveg ennþá hvað mér er óhætt að segja án þess að skemma söguna. Augljóslega verður á endanum að segja eitthvað en í þetta sinn langar mig líka að fólk komi að henni svolítið kalt. Ekki kannski ískalt en kalt samt. Ég vil ekki klaga of miklu. Mér finnst líka enn sem komið er að hlutlausa lýsingin á henni kalli fram hugmyndir um annars konar bók en hún er. Að minnsta kosti líður mér þannig núna. Það er reyndar ekki einsog þetta blogg sé lesið af þúsundum – nema kannski þegar ég er í ádeilugírnum og fæ gjallarhorni fjölmiðlanna þröngvað upp á mig. Ég held ég hafi nefnt hérna að bókin gerist sumarið 1925, hún er ekki realísk – hugsanlega er hún meira að segja andrealísk, í sömu merkingu og Gösta Berlings Saga er andrealísk, uppgjör við jarðbundnari frásagnir, og raunar líka rómantískari frásagnir (eða ákveðna tegund af rómantík) – það er mjög mikið af prestum í henni og ég get bætt við án þess að skemma neitt að fjallið sem ég hef verið að mynda frá því síðasta haust, fjallið sem fylgir nær öllum færslum hérna, spilar stórt hlutverk. Já og svo er ég sennilega búinn að ákveða titilinn – en um hann þegi ég í bili.
Dagur 43 af 90: Stosbúðarlífið
Nú á að fjarlægja rasísk ummæli úr James Bond bókunum. Ég hef ekki slegið því upp hverjar þessar breytingar eru. En þetta sannar svo sem það sem maður sá fyrir sér með þetta Roald Dahl mál um daginn – þetta snýst ekki um listina, afskræmingu á listinni, eða „uppfærslu“ listarinnar, heldur um að stórfyrirtæki vilja vernda tiltekið vörumerki frá ásökunum sem gætu reynst kostnaðarsamar. Eins konar forvarnir gegn slaufunarmenningu. Og ég held það sé alveg sama hvaða dillur komast í tísku stórfyrirtækin sem fara með réttinn á þessum sögum munu alltaf vilja laga þær að smekk kaupenda á hverjum tíma. Og telja sig í rétti með það – enda er þetta ekki list, þetta er fjárfesting, og þeim finnst þetta jafn sjálfsagt og að mála veggina á fasteignum sínum. Þetta sýnir manni líka að fordómar – eða annar úreltur hugsunarháttur – eru ekki alltaf eins. Ruglið í Ian Fleming bókunum er annars eðlis en ruglið í Roald Dahl bókunum. Í einhverjum skilningi eru þetta samt alltaf falsanir. Og þær ræna mann tækifærinu til að flissa að þessu. Ég hef lesið nokkrar Ian Fleming bækur og þær eru mjög skemmtilegar einmitt þannig – man eftir því að hafa lesið upphátt kafla fyrir Hildi Lilliendahl fyrir löngu síðan, þar sem Bond er að velta vöngum yfir því hvers vegna franskar konur séu með fallegri nafla en aðrar konur, og kemst að þeirri niðurstöðu eftir talsvert grufl að í þessu sem öðru vandi frakkarnir sig, og franskir fæðingarlæknar hljóti að leggja sig mjög fram þegar þeir klippa á naflastrenginn, ólíkt kollegum þeirra í öðrum löndum sem enga virðingu bera fyrir fegurðinni. Þessu fylgdi hláturkast sem ég hefði ekki viljað vera án. En svo verður kannski einn daginn alveg jafn hlægilegt að sjá fyrir sér James Bond á ströndinni að velta því fyrir sér hvers vegna þessar bikiníklæddu frönsku konur séu svona vel menntaðar og máli farnar, röggsamar og duglegar. *** Ég horfði á Martin Amis í viðtali hjá Clive James á dögunum – mjög mikil gáfumannarúnksería frá Clive sem heitir „In the library“ og er þrátt fyrir mikla tilgerð svolítið frískandi í samanburði við þá sjónvarpsþáttagerð sem manni er alla jafna boðið upp á. Þar fara þeir félagar á talsvert flug í að gera lítið úr Louis-Ferdinand Celine, sem var sannarlega hræðilegur gyðingahatari – ef ekki bara einlægur nasisti – en þeir sem sagt smurðu ofan á að þeir hefðu nú eiginlega aldrei komist í gegnum Ferðin til enda næturinnar . Sem mér fannst svolítið fyndið. Ekki af því hún sé ekki dálítið torf heldur bara að þessar týpur, af öllum týpum, skildu detta í „mér fannst nú Woody Allen aldrei neitt fyndinn“ gírinn. Ferðin til enda næturinnar er annars einhvers konar meistaraverk, minnir mig – reyndar ábyggilega 20 ár síðan ég las hana, það sem lifir í minninu er fullkomlega explósífur texti, logandi og brennandi og brjálaður. En hver veit – kannski hefur hún ekki elst betur en Þú lifir aðeins tvisvar eftir Ian Fleming. *** Ég leit í barna–moggann í hádeginu og gerði þá uppgötvun að verðlaunagripir Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Bókmenntaverðlauna Andabæjar eru eins. Ég veit ekki alveg hvað ég vil að þið gerið með þessar upplýsingar – en uppnám væri kannski vel þegið. Mér finnst að DV eigi að skrifa um þetta. Hugsanlega er þetta efni í innslag í Lestinni. *** Allt gengur vel. Í bókinni sem sagt. Ég þarf að segja eitthvað um það líka. Suma daga er ég mjög ringlaður reyndar – ég vakna enn á nóttunni í rugli, síðast fór ég að leita að mjög mikilvægri ritgerð sem hét „Frá vosbúð til stosbúðar“ (stosbúð er stytting á stofubúð og á við tilveruna í stofum í íslenska þéttbýlinu í upphafi 20. aldarinnar). Þar var lykillinn að öllu. Og svo komst ég auðvitað að því, vaknaður, kominn fram úr og byrjaður að gúgla, að þessi ritgerð er ekki til og „stosbúð“ er ekkert orð heldur órar. Og ég er enn lyklalaus. Aðra daga hef ég verið svolítið bugaður. Lufsulegur. Uppgefinn. Tætingslegur. Suma daga á ég erfitt með að treysta framvindunni og vil fara að skipta mér af hlutum sem ég á ekki að skipta mér af. En jafn marga daga hef ég líka verið kátur og glaður.
TMM: „Ógeðslegasta barnabók sem ég hef lesið“
Arngrímur Vídalín skrifar um Frankensleiki í nýjasta Tímarit Máls og menningar og var vægast sagt kátur: Þetta er án nokkurs efa ógeðslegasta barnabók sem ég hef lesið. Þetta er svona barnabók sem væri bönnuð innan sextán ára ef hún væri bíómynd. […] Ekki sá ég fyrir mér að líkamshorror yrði nokkru sinni hluti af íslenskri barnabókmenntasögu en hingað erum við komin og skyndilega virðist (næstum) allt vera hægt. […] Ég finn engan ljóð á bókinni, ekkert sem mér þætti betra að væri öðruvísi. Ég sé enga leið til að hún gæti orðið betri en hún er. […] Þetta er bók sem gleður og mun halda áfram að gleðja á komandi jólahátíðum, um leið og hún vekur með okkur síendurtekna furðu og þessa nagandi spurningu: Hvern djöfulinn er ég að lesa? Lesið dóminn allan á heimasíðu Tímaritsins .
Dagur 37 af 90: Gengi Dahls
Sagt hefur verið frá því í fréttum að málfari í nýjum útgáfum af barnabókum Roalds Dahls hafi verið hnikað til í samræmi við siðferði breyttra tíma. Þannig er fólk í bókunum ekki „feitt“ lengur heldur bara „stórt“, ekki „ljótt“ heldur bara „rosalegt“ og bætt er við sérstakri málsgrein til þess að taka fram að þótt nornirnar í Nornunum séu sköllóttar, þá geti fólk verið sköllótt af mörgum öðrum ástæðum en af því það sé nornir, og það sé nú bara alltílagi. Verandi sköllóttur get ég tekið undir þetta. Maður getur meira að segja verið bæði sköllóttur og annálað illmenni og samt ekki norn, einsog ég þykist hafa margsýnt fram á. Auk þess hafa verið tekin til dæmi um breytingar þar sem vísunum í heimsbókmenntir, sem fallið hafa úr móð, er skipt út fyrir heimsbókmenntir sem þykja enn vera í móð. Matthildur les ekki lengur Joseph Conrad – höfund Heart of Darkness og Nostromo – og nóbelsverðlaunahöfundinn Rudyard Kipling heldur Jane Austen og John Steinbeck, sem þykja enn sem komið er húsum hæf – en það styttist áreiðanlega í að einhver rifji upp stuðning Steinbecks við Víetnamstríðið og það hvernig Jane Austen ber ábyrgð á hegemóníu hins heterónormatífa ástarsambands. Alveg burtséð frá því hvort þetta er rétt eða rangt – því auðvitað er þetta rangt, þetta er glæpsamlega rangt og þess utan svo frámunalega heimskuleg aðferð til þess að fást við fordóma að það ætti umsvifalaust að svipta alla sem komu nálægt henni bæði bókmennta- og aktífistaleyfinu um alla eilífð – þá veltir þetta upp ákveðnum og áhugaverðum spurningum um það hvað það er sem gefi bókmenntum gildi sitt. Hvort það sé bara framvindan, til dæmis? Auðvitað er það rétt að sögur, ekki síst barnasögur, hafa lengi verið í munnlegri geymd og þær hafa breyst mjög í áranna rás. Hins vegar er saga bókmennta nútímans annars eðlis og stórvirki þeirra bókmennta byggja á fleiru en hinum eiginlega söguþræði – þá skiptir ekki mestu máli hvað gerist í sögunni, plottpunktarnir, heldur einmitt hvernig sagan er sögð. Þar skiptir orðfæri og stíll eðlilega lykilmáli. Og þá breytir engu þótt bókum sé stundum breytt í bíómyndir eða sögur endurgerðar á annan hátt – um slíka gjörninga gilda allt aðrar reglur en endurútgáfu á upprunalegum verkum. Hafandi lesið nokkrar bækur eftir Roald Dahl, bæði fullorðins og barnabækur, hefði ég sem lesandi talið að stærsti kostur þeirra – og stærsti galli – sé þessi auðþekkjanlega höfundarödd, hvers helsta einkenni er fremur kvikindisleg lífssýn. Sögumenn Dahls eru í senn saklausir og hrottalegir, einfaldir og veraldarvanir, og það skín í gegnum allt orðfæri. Sú Matthildur sem les Joseph Conrad og hugsar að einhver sé feitur og sköllóttur er önnur Matthildur en sú sem les Steinbeck og finnst allir bara geggjað flottir, nákvæmlega einsog þeir eru. Sú síðari er kannski þroskaðri og meira næs – en það er ekki víst að það geri hana að jafn góðri sögupersónu. Það er nefnilega ekki sami hluturinn. Einsog flestir höfundar sem nokkuð er varið í reynir Dahl líka að forðast hlutlaus orð og hlutlausar lýsingar – enda hlutleysi í texta líka lífleysi, eða allavega hugleysi. En burtséð frá því hvort smekkur manns hallast að slíkum texta eða hinu „tilgerðarlausa“ stílleysi – hinum ósýnilega stíl, sem svo mjög er í tísku – þá hljóta allir að geta sammælst um að það hvernig svona bækur eru skrifaðar er of mikið grundvallaratriði til að það megi bara undir höfuð leggjast þegar þær eru hreinsaðar í nafni viðkvæmnisráðs Netflix (sem á höfundarréttinn að bókum Dahls). Og nei, það er ekki sambærilegt við það þegar Astrid Lindgren gefur sjálf leyfi til þess að einu og einu orði í Línu Langsokk sé hnikað til – bara alls ekki, af og frá. Að síðustu – og alveg burtséð frá stíl – þá held ég að það sé stórhættulegt að börn, og hvað þá fullorðnir, komist aldrei í kynni við siðferði annarra tíma, að þau upplifi siðferðið einsog það er á uppeldistíma þeirra sem eilíft og óbreytanlegt, svo yfir allan vafa hafið, raunar, að því megi beita sem réttmætu leiðréttingatóli á minnstu yfirsjónir fyrri tíma. PS. Það eru ekki bara hjartgóðu mannréttindasinnarnir hjá stórfyrirtækinu Netflix sem haga sér svona heldur hefur Disney nú látið taka stórbók Dons Rosa um Ævi og störf Jóakims Aðalandar úr framleiðslu vegna þess í tveimur sögunum birtast myndir sem þykja niðrandi.
Dagur 34 af 90: Sparimerkin
Í fyrrinótt vaknaði ég og fór á fætur. Klukkan hefur sennilega verið að ganga fimm og ég hafði legið milli svefns og vöku í einhvern tíma – bylt mér aftur og aftur með hugmynd í höfðinu, varla vitað hvort mig var að dreyma eða ekki. Ég teygi mig oft í símann um nætur og bæti einhverju á mjög, mjög langan lista af glósum sem ég skrapa alltaf af endrum og eins, en þessi hugmynd var einhvern veginn stærri og ég var þess utan ekki alveg viss hvort að hún – eða eitthvað bergmál af henni – væri kannski í sögunni nú þegar. Ef satt skal segja var ég ekki heldur alveg með það skýrt í kollinum hver þessi hugmynd væri – en hún hafði eitthvað að gera með „kvenfélagið“ og „sparimerkin“ og hún var lykilatriði fyrir lausnina á sögunni, þetta var hugmyndin sem fengi allt til að ganga loksins fullkomlega upp, og ég var með þráðinn í hendinni – þurfti ekkert að gera nema að toga almennilega í hann áður en hann skryppi undan. Og þá fór ég á fætur, ráfaði niður og fór að leita að tölvunni minni – sem fannst eftir drjúgt korter undir púðum í sófanum þar sem einhver (ég ætla ekkert að fullyrða neitt um hver) hafði verið að nota hana til að horfa á Julie & The Phantoms. Ég þreif hana með mér inn í eldhús og stillti henni upp á lífrænu ruslakörfuna okkar sem stendur uppi á eldhússkenknum. Þetta hljómar kannski undarlega en þarna geymi ég oft tölvuna ef ég er að horfa/hlusta á eitthvað meðan ég elda – uppá síðkastið hef ég t.d. horft/hlustað á mikið af höfundaviðtölum á YouTube – og þar er hún í þægilegri hæð fyrir mig standandi. Og stundum skrifa ég eitthvað smá – ég er alltaf að skrifa eitthvað smá, les yfir málsgrein meðan ég bíð eftir krökkunum, bæti inn einhverju smáatriði milli sjónvarpsþátta á kvöldin og krydda bókina milli þess sem ég krydda kvöldmatinn. Ég byrjaði á því að leita að „kvenfélögum“ í skjalinu – það var eitthvað smávegis um kvenfélög en ekkert sem ég vissi ekki hvað var eða hvert átti að leiða og alls ekkert sem tengdist neinum sparimerkjum. Þá leitaði ég að sparimerkjum og fann hvorki tangur né tetur af þeim – ég hafði greinilega enn ekkert skrifað um nein sparimerki. Loks ætlaði ég þá að skrifa glósuna, svo ég gæti skrifað sparimerkjahugmyndina almennilega seinna, koma hugmyndinni frá mér, fyrst hún var greinilega enn ekki komin á blað – ég vissi að hún yrði löng, svo ég dró andann djúpt, kannski kæmist ég ekkert aftur í rúmið fyrir fótaferðartíma – og þá rann alltíeinu upp fyrir mér að sparimerkin voru alls ekki til árið 1925. Sem er sögutími bókarinnar. Og ekki einu sinni næstum því til – skyldusparnaður kom ekki til fyrren ríflega 30 árum síðar. Ég skrifaði samt hjá mér „kvenfélög“. Og síðan fór ég aftur að sofa.
Dagur 32 af 90: Óeirðir
Einsog lesendur Fjallabaksleiðarinnar vita erum við svefnguðirnir ekki miklir vinir og eigum af og til í blóðugum erjum. Síðustu árin hefur það oftast snúist um einhvers konar áráttuhugsanir – ég get legið og hugsað um einfaldasta hlut, stutta melódíu eða setningu, aftur og aftur og aftur klukkustundum saman, án þess að mér sé fært að sleppa takinu. En þar á undan var það lengi vel svonefnd fótaóeirð sem hélt mér vakandi. Fótaóeirð, fyrir þá sem ekki þekkja til, er einhvers konar ójafnvægi í járn- og dópamínbúskap líkamans sem veldur undarlegri kláða- eða kitltilfinningu í fótum, og stundum öðrum útlimum líka, svo maður verður að hreyfa sig. Þetta getur byrjað vægt og manni dugað að sparka út í loftið en endar sjaldan þar og fyrren varir er maður farinn á fætur og byrjaður að ganga um gólf. Ef maður gengur nógu lengi kaupir maður sér smá auka kyrrstöðutíma í rúminu sem hægt er að nota til að festa svefn. Sofni maður vaknar maður ekki endilega af fótaóeirðinni – þótt það geti sannarlega gerst – heldur sparkar áfram út í loftið og getur þessi svefn af þeim sökum orðið ansi þunnildislegur. En þó betri en ekkert. Fyrsta skýra minningin mín af fótaóeirð – þar sem ég veit að þetta var fótaóeirð – er frá því ég er svona 26 ára. Sem er vel að merkja mjög ungt, flest fólk verður ekki fyrir þessu fyrren löngu síðar á ævinni. Þá lá ég undir sæng í rúminu á sunnudagskvöldi eftir eitthvað djamm, með tölvuna í fanginu að horfa á óeftirminnilegt hollywoodsorp af PirateBay, og muldi yfir mig snakk í kósíheitunum. Og sem sagt var með svona undarlegan kláða – sem ég man samt ekki sem ókunnuglegan, þetta var „æi þarna þessi skrítnu kláðaóþægindi“, kannski hef ég verið með þetta frá unglingsárunum – og neyddist til að stinga fótleggnum undan sænginni og láta hann hanga fram af rúmstokknum niður á gólf. Af því fótaóeirðin elskar ekkert meira en lárétta limi, lét hún mig síðan mestmegnis í friði. Gott ef ég svaf ekki bara með fótlegginn svona fram úr. Þetta byrjaði svo af einhverri alvöru í kringum þrítugt – kannski í tengslum við þær eðlilegri svefntruflanir sem verða við það að eignast barn. Árunum 2009 til 2012 eyddi ég að miklu leyti í næturráp. Þá vissi ég líka orðið hvað þetta var og prófaði alls konar sem internetið mælti með – járntöflur, magnesíum, hamslaust bananaát, teygjur og æfingar – en án árangurs. Það var ekki fyrren að ég lenti í öðrum heilsubresti – þegar við Nadja skildum áramótin 2012-2013 (við tókum aftur saman síðar) át ég ekkert í mánuð og missti 17 kíló. Þegar ég var að jafna mig eftir þetta fór ég líka að hreyfa mig, sem ég hafði eiginlega aldrei gert, og upp frá því dró allsvakalega úr fótaóeirðinni. En hún lætur alltaf á sér kræla af og til samt. Í gegnum árin hef ég uppgötvað alls konar triggera. Til dæmis get ég ekki notað antihistamínlyf án þess að verða mjög illa haldinn. En antihistamínlyf eru t.d. ofnæmislyf, hóstasaft (pektólín) og … svefnlyf! Einu sinni var ég í San Francisco með Nödju og út af veseni með flugið varð úr að við millilentum í Stokkhólmi, tókum þar við krökkunum á flugvellinum frá tengdapabba, flugum áfram til Íslands, keyrðum beint vestur og krakkarnir byrjuðu í skóla daginn eftir. Þar sem mjög reið á að ég – sem var einn um að vera með bílpróf á þessum tíma – væri ekki mjög þreyttur þegar við kæmum fór ég í apótek, bandarískt apótek, þar sem hægt er að fá allt milli himins og jarðar án lyfseðils, og hugsaði mér gott til glóðarinnar. Ég bað um besta svefnlyfið, og aðeins það besta – sem svo hafði þá aukaverkun að ég gat ekki einu sinni setið í fluginu frá San Francisco til Stokkhólms, hvað þá sofið. Annar trigger eru langvarandi legutímabil. Ef ég fæ slæma flensu og fer lítið fram úr dögum saman minnir hún alltaf á sig. Í síðustu viku lagðist ég veikur á miðvikudag og var á föstudagskvöld bærilega vongóður um að komast í Superbowl veislu hjá amerískum vinum mínum á sunnudagskvöldið. En þá sem sagt byrjaði þetta. Ég svaf ekkert yfir helgina, nokkrar klukkustundir á sunnudagskvöld, ekkert aftur á mánudagskvöldið, nokkrar klukkustundir á þriðjudagskvöldið og svo loksins bærilega í nótt. Það er alveg óhætt að segja að ég sé svolítið tætingslegur. Þetta er sem sagt allt formáli að því hvers vegna vinnuvikan mín hefur verið svolítið skrítin. Nú er í sjálfu sér ekkert alltaf hræðileg hugmynd að vinna svolítið þreyttur og ringlaður. Þá fær maður óvæntar hugmyndir og getur sökkt sér í söguna af átrúnaði sem maður getur ekki alltaf þegar maður er fyllilega vakandi – mörkin milli veruleika og skáldskapar mást einfaldlega með minni fyrirhöfn. En að sama skapi er allt analýtískt í heilanum á manni – allt sem lýtur að skiljanlegri setningagerð eða strúktúr – í einum graut. Maður fær frábærar hugmyndir og ryður þeim út úr sér af ástríðu – en situr svo eftir og starir á það sem birtist á skjánum eða blaðinu og veltir því fyrir sér hvort þetta séu setningar eða bara hrúgur af orðum. Og svo vinnur maður í þessum orðahrúgum þar til það sem átti að standa þarna kemur í ljós. Til þess að bæta gráu ofan á svart er maður þá samtímis ófær um að leggja nokkurt mat á gæði þess sem maður var að skrifa – fyrren maður kemur að borðinu bærilega úthvíldur. Flestir höfundar skilst mér að skrifi mörg eiginleg „uppköst“. Þeir skrifa heila bók einu sinni, setjast svo aftur niður yfir fyrstu síðunni og skrifa alla bókina aftur, og svo í þriðja sinn, jafnvel fjórða, fimmta, sjötta og svo framvegis. Þegar þannig er unnið hentar svefnleysisástandið líklega ágætlega til þess að vinna í fyrsta uppkasti – þessum hráa texta sem er fyrst og fremst byggingarefni í hitt. Ég er hins vegar þeim ósköpum gerður að geta þetta ekki. Ef ég skrifa hráan texta og kem að honum aftur mörgum vikum eða mánuðum seinna finnst mér hann bara hræðilegur – og ég hræðilegur að hafa skrifað hann – og hendi honum áður en nokkur maður sér hann og uppgötvar hvað ég er hræðilegur. Eða þá, sem er sennilega jafn algengt, að ég hugsa að það sé nú eitthvað í þessu, byrja að skrifa „annað uppkast“ og uppgötva strax í öðrum kafla að í þessum endurskrifum hef ég sveigt svo hrottalega af leið að hráefnið í köflum 3-34, sem ég hef verið að vinna að síðustu mánuði, er nú ónothæft. Flestar persónurnar dauðar, aðalfókus sögunnar allt annars staðar, sögutíminn annar og svo framvegis. Af þessum sökum hef ég vanið mig á það síðustu 20 árin að klára að skrifa kaflana mína jafn óðum. Ég skrifa nokkrar málsgreinar, lít yfir þær, skrifa nokkrar í viðbót, samræmi og laga, skrifa aftur, skrifa meira, lít aftur á byrjunina, editera o.s.frv. Ég skrifa sem sagt öll uppköstin mín meira og minna samtímis. Þegar ég er kominn með fleiri en 10-20 síður af texta þarf ég svo að fara að gæta mín að bakka ekki of langt, byrja ekki vinnudaginn á byrjun bókarinnar af því annars kemst ég aldrei að auða svæðinu, sem á eftir að fylla upp í, áður en vinnudeginum lýkur, og þar með miðar sögunni ekkert áfram. Þetta þýðir ekki að þegar ég svo setji punkt geti ég bara sent söguna í prentun. Það koma oft upp alls kyn strúktúrvandamál sem þarf að leysa og oft hef ég þurft að endurskrifa stóra hluta – fram yfir Heimsku endurskrifaði ég alltaf sirka síðasta þriðjung allra minna skáldsagna. Og þegar ég segi endurskrifa meina ég einmitt þetta sem ég lýsti áðan – þá sting ég pennanum niður á einum stað og skrifa söguna í aðra átt, með öðru niðurlagi. Í þeim tilvikum vissi ég hvar ég vildi að bókin endaði en ekki fyrren ég var búinn að skrifa einhvern annan endi fyrst. En ég get ekki nema ýtt mjúklega við pennanum og beðið kurteislega – það er alltaf að endingu hann sem ræður þessu. Hvað sem líður flensum og fótaóeirðum gengur nýja bókin vel. Ég hef haldið dampi alla dagana – en kannski slegið slöku við í glósum og slíku, sem gæti kostað mig ef næstu vikur verða ekki líka pródúktífar. Sagan hefur lengst töluvert – áætluð lengd er nú 120 þúsund orð en ekki 90 einsog var hérna þegar ég lýsti því yfir að ég væri hálfnaður. Til samanburðar er Brúin yfir Tangagötuna 45 þúsund orð – Hans Blær er 95 þúsund orð og Illska er 165 þúsund orð. Þetta þýðir auðvitað ekki að nýja bókin – sem ég hef ekki nefnt enn, ég er ekki bara að leyna ykkur titlinum – verði 120 þúsund orð. En fyrsta handrit verður nálægt því og áreiðanlega ekki styttra. Svo er hún þannig sköpuð að hún gæti hæglega blásið út og skroppið saman í eftirvinnslu. Það er talsvert af alls konar útúrdúrum og aukaupplýsingum – en ég held líka að allt það sé órjúfanlegur hluti af minni fagurfræði og beinlínis það sem „mínir“ lesendur búist við og vilji. Og ég hef ekkert á mót því að verða við því heldur. Svo er bara að vona að ég sofi bærilega næstu 58 dagana. Því þrátt fyrir allt hið ágæta sem fylgt getur svefnleysinu er þetta nú engu að síður umtalsvert auðveldara ef maður sefur á nóttunni.
Dagur 24 af 90: Mungó
Stærsti kosturinn við að vera lasinn rithöfundur er að þurfa ekki að fara fram úr til að byrja að vinna. Maður teygir sig bara í íbúfendunkinn, fartölvuna og kókflöskuna, treður svolítið af extrakoddum undir bakið á sér og byrjar að ljúga. Stærsti ókosturinn er að höfuðverkurinn – sem maður losnar aldrei alveg við, sama hvað maður tekur margar íbúfen – hægir á allri hugsun og hefur áhrif á hjartað, á tilfinningalífið, sem smita sér inn í bókina. Það vildi til að það fyrsta sem ég þurfti að skrifa í dag var lýsing á manni sem vaknar við óútskýranlegar þjáningar (ekki hræðilegar – bara óútskýranlegar). Á morgun þyrfti ég helst að skrifa gleðilegri kafla en hef litla von um að mér verði batnað að ráði. Þetta er hræðileg flensa (ekki óútskýranleg, bara hræðileg) og ég verð áreiðanlega flatur í nokkra daga til. Annar ókostur, sem hefur ekki bara með starfið að gera, er sá að þegar ég er lasinn hef ég skerta einbeitingu til lesturs. Það er mjög miður – því það myndi sannarlega gylla sótthitavímuna að geta gleymt sér í bók. Ég get alveg lesið en ekki nema svona hálftíma í senn. Ég er líka að lesa mjög góða bók – The Book of Dave eftir Will Self, sem fjallar um alkóhólíseraðan og lífs-reiðan leigubílstjóra í foræðisdeilu sem verður á að skrifa hálfgerða biblíu í geðrofi, um „ the knowledge “ (gatnakerfið í Lundúnum) og foreldrajafnrétti (þar sem hallar pínupons á konur). 500 árum síðar í post-apokalyptísku og kynjaskiptu samfélagi Lundúnaborgar er bók Daves orðin að raunverulegu trúarriti. Og stefnir í uppgjör. Mikið af samræðunum í bókinni eru skrifaðar á framtíðar-cockney mállýsku sem er ekki alveg fyrir lasna heilann í mér að greiða úr – þótt það sé mjög ánægjulegt annars. Iss tym, Runti, Carl cooed, tym fer yer slorta, yeah? Ve Acks partë ul B eer vis tariff or ve nex, an Eye gotta tayk yer bak 2 ve manna.
– Slorwa, the moto said wonderingly, slorwa.
– Thass rì, Runti, slorta. Weel uze yaw meet 2 feed ve Ack an iz dads, yer oyl fer vair woonz, an yul be wiv Dave á lars, yeah.- In Nú Lundun.
– Yeah, thass rì, Carl said, kissing Runti delightedly, in Nú Lundun. Will Self segir sjálfur einhvers staðar að skáldsagan (sem slík, listformið) sé fullkomlega sjálfstæð heild í þeim skilningi að hún kenni manni að lesa sig sjálf, allar upplýsingar sem maður þarf eigi að vera í henni sjálfri. Að ef maður rekist á orð sem maður skilji ekki eigi maður ekki að smella á kindilinn sinn til að fá skilgreininguna (eða „a brief video where trained thespians act it out“) – það er óeðli og Will Self hatar tölvur – heldur eigi maður að bíða þess að orðið birtist aftur í nýju samhengi og útskýri sig þannig smám saman. Svona einsog maður lærir flest orð, eiginlega, við sem erum með Gutenbergheila. En í Book of Dave er samt orðalisti aftast upp á fleiri, fleiri blaðsíður. Hins vegar er satt að þetta venst hratt – og í raun þarf maður ekki orðalistann nema bara rétt til að koma sér af stað í algengustu hugtökunum (mikið af orðunum eru úr leigubílabransanum en fá nýja merkingu – headlight er t.d. sólin o.s.frv.). Annað sem ég hef tekið eftir er að Self, sem hatar líka Harry Potter bækurnar, kallar geðsjúkrahúsið sem Dave fer inn á „St. Mungo’s hospital“. En það sjúkrahús er, eftir því sem ég kemst næst, hvergi að finna nema í þessari bók – og svo auðvitað í Harry Potter bókunum.
Dagur 16 af 90: Að segja eitthvað
Ég held að það sé þreytumerki að mig langar mest að tjá mig bara um Eflingardeiluna. Eða Brotkast Frosta Logasonar. Eða eitthvað annað af því sem er í deiglunni. Instagram vikunnar. Gengi landsliðsins á HM – er það búið? Erum við hætt að rífast um það? Ég sá að fyrirliði danska landsliðsins – sem datt í það eftir sigurinn – lét hafa eftir sér að mannshöfuð væri þungt. Það er nú eitthvað sem taka mætti upp hér á þessum síðum. Fyrst: vinnuskýrsla. Ég hef náð lágmarkinu alla daga. Tvisvar hef ég tvöfaldað það – sem er nokkuð sem ég forðast, ég vil ekki gera þetta á sprettum – og í bæði skiptin var það föstudagur. Hvað sem það á að þýða. Álíka oft hefur lágmarkið náðst með herkjum, sem er ekki heldur optimalt. Í gær vaknaði ég með höfuðverk og pirraður og byrjaði daginn á ritstjórnarmóð sem kostaði mig þúsund orða holu sem ég svo vann upp. Alveg þar til fyrir svona fjórum dögum svaf ég vel en þá datt ég úr sinki og hef verið illa haldinn af svefnleysi síðan. Í nótt gafst ég bara upp og fór á fætur – með viðlagið í Los Ageless eftir St. Vincent á viðstöðulausri lúppu í höfðinu („how can anybody have you and lose you and not lose their mind too“). Settist niður og skrifaði í næturþögninni og var búinn með lágmarkið fyrir klukkan 7. Ég hlustaði á Will Self flytja fyrirlestur í gær. Eða horfði á 5 ára gamla upptöku af slíkum fyrirlestri, réttara sagt. Þar var hann á kunnuglega svartsýnum nótum og fannst mjög lítið til alls konar koma. Meðal annars sagði hann að stærstu bækur samtímans – þær tvær bækur sem hefðu verið stærsta „water-cooler augnablikið“ í vestrænum (eða bara breskum) bókmenntum síðustu áratugi væru ómerkilegar. Bækurnar sem fönguðu ímyndunarafl þjóðanna, fólksins við vatnskælanna, sem allir höfðu skoðun á. Aðra þeirra – Söngva Satans – hefði eiginlega enginn lesið og það væri óþarfi því hún væri ekki góð og það vísaði aldrei neinn til hennar „sem bókmenntaverks“ því við vissum að hún væri ekki góð. Hina hefðu allir lesið og mjög margir hreinlega upphátt – Harry Potter og viskusteinninn , og ekki væri hún skárri. Það sem hefur elst verst úr þeim ranti er merkilegt nokk varnarræða hans fyrir JK Rowling, sem hann segir að allir séu sammála um að sé afskaplega viðkunnanleg og vel gefin kona, sem enginn skilji hvernig hafi getað skrifað svona hræðilega sögu. Það var ekki löngu eftir þetta að Rowling fór í Twitter-meltdown og eftir það hefur eiginlega engum dottið í hug að kalla hana viðkunnanlega – en margir raunar orðið til þess að verja bækurnar sem góðar þrátt fyrir að höfundurinn sé skass. Will Self sagði fleira. Til dæmis að ritlistin – sem hann kennir, vel að merkja – sé eins konar dvalarheimili skáldsögunnar, þangað sem hún hafi komið til þess að kalka í friði og drepast. Hann, sem leiðbeinir fólki á doktorsstigi, hló líka mjög innilega að því að hægt sé að taka doktorsgráðu í ritlist – og að fólk sem er að klára sína fyrstu skáldsögu sé látið skrifa 35 þúsund orð um sitt eigið skapandi ferli. Einsog maður viti eitthvað um það, hafandi skrifað eina andskotans skáldsögu. Hann talaði líka illa um Philip Roth og vísaði því eiginlega á bug að nokkur skyni gefinn maður gæti eytt nægum tíma í að hugsa um Norman Mailer, hvað þá lesa hann, til að vera illa við hann. Og fleiri – hann talaði illa um of margt til þess að ég geti rakið það allt hér. Í grunninn snerist fyrirlesturinn – sem hafði yfirskriftina Skáldsagan á tímum Trump – um að skáldsagan væri þýðingarlaus, tími hennar væri liðinn, og kæmi ekki aftur. Ekki vegna þess að listformið væri dautt eða einskis virði heldur vegna þess að stærstur hluti fólks hefði ákveðið að sér stæði á sama um hana. Fólk hefði kannski aldrei lesið mjög mikið en allir hefðu haft áætlanir um að gera það einhvern daginn – I’ll read the classics when I retire, sagði fólk. Og trúði því, sem Self segir að sé vitleysa, að innra með öllum sé a.m.k. ein skáldsaga. Allir geti skrifað eina skáldsögu. Af því það hafi verið álíka gerningur að segja einhvern skáldsögulausan og að segja viðkomandi sálarlausan. Slík hafi verið staða skáldsögunnar meðan hún hafði þýðingu fyrir þjóðfélagið. Nú þykist fólk ekki einu sinni lesa lengur. Mér varð oft hugsað til þess sem ég las einhvern tíma í vetur um að gagnrýnendur – og í þessum skilningi held ég að Will Self teljist gagnrýnandi – sem hafa trú á menningunni leyfi sér að vera svartsýnir og neikvæðir, en þeir sem hafi í raun litla trú á henni finnist þeir stöðugt þurfa að tala hana upp, styrkja hana, hugga hana: þú getur þetta, þú ert frábær . Nú er ég ekki að segja að Will Self sé í raun bjartsýnismaður sem hafi óbilandi trú á menningunni sem hann úthúðar – en ég fæ það á tilfinninguna að hann sé að prófa hana, athuga hvað hún þolir, á þeirri forsendu að ef hún þoli ekki álagið sé hún einskis virði hvort eð er. Hann sparkar og á hálft í hvoru von á því að draslið falli saman – þá er hann í versta falli frjáls. Svo er hann auðvitað líka bara að skemmta og velta sér upp úr eigin tilfyndni – sem er talsverð. Af skyldum meiði er svo óttinn við fagurfræðileg átök. Að finnast maður ekki þurfa að dæma listaverk út frá forsendum listamannsins sem skapaði það, heldur leyfa sér að dæma það út frá sínum eigin. Þá getur maður til dæmis sagt: Hér er allt frábærlega gert, allt gengur upp sem listamaðurinn ætlaði sér, og þetta stenst fullkomlega samanburð við álíka listaverk, en þetta er engu að síður íhaldssamt, gamaldags, tilgangslaust og maður ætti heldur að lesa fyrirmyndirnar. Hér er alls ekki síður við akademíuna að sakast en popúlismann – akademían kallar jafnvel ekki annað „fagleg vinnubrögð“ en þau vinnubrögð sem ganga út frá ætlun listamannsins, a.m.k. fyrst og fremst ef ekki einni saman. Ég held að þetta sé sérstaklega algengt í minni menningarheimum þar sem maður er hreinlega óvanur því að allir teknískir fletir listaverks gangi upp – allt er gert af svolitlum vanefnum – og þá klappar maður ósjálfrátt bara fyrir því að ljósin hafi virkað, enginn hafi sungið falskt, leikararnir ekki dottið, rithöfundarnir stafsett rétt og svo framvegis. Sem er auðvitað líka verðskuldað – stór hluti listarinnar snýst um að renna ekki á rassgatið of oft – en í hamaganginum gleymum við stundum að verkið sem við fengum í hendurnar hafði kannski annan tilgang en að ganga teknískt upp. Það átti kannski líka að segja manni eitthvað. *** PS. Hér verður hugsanlega bloggað dálítið stopult næstu vikurnar. Ég minni á póstlistann (sjá hér að neðan) fyrir þá sem vilja ekki þurfa að endurhlaða þessa síðu á tíu mínútna fresti alla daga.
Dagur 9 af 90: Til punkts
Mig minnir að það hafi verið Thomas Mann sem sagt var um að hann hefði alltaf staðið upp frá skrifborðinu við sama orðafjölda, jafnvel þótt hann væri í miðri setningu. Mér finnst líklegt að hann hafi skrifað með penna svo hann hefur þá stöðugt þurft að vera að telja. Ég geng ekki svo langt og þarf ekki að telja sjálfur. Oft kemst ég í stuð við að fara í gegnum textann í annað sinn og byrja að fita hann og sjá á honum alls konar skemmtilega vinkla en ég reyni að stramma mig samt af – það er drjúgt að eiga þann innblástur til góða þegar maður sest niður næst, andlaus og illa sofinn. Ég svaf reyndar vel í nótt – sem er einsog lesendur þessa bloggs vita kraftaverki næst. Kominn tíund í gegnum þetta átak og þótt ég hafi sinnt mínu finnst mér ekki einsog ég sé tíund nær marki og er strax farinn að íhuga hvort ég eigi að framlengja átakið eða breyta skipulaginu einhvern veginn. Líklega eru það ótímabærar áhyggjur. Hluti af mér þráir heitt að klára þessa bók fyrir vorið svo það megi gefa hana út í haust. Annar hluti af mér vill helst aldrei klára hana og alls ekki vera með í þriðja jólabókaflóðinu í röð. Sá hluti er sennilega líka tilfinningalega markaður af því að þegar ég byrjaði á þessari bók ákvað ég að nálgast hana einsog þetta væri síðasta bókin mín – eða hugsanlega bara sú eina. Skyldar hvatir hafa sprottið upp í mér áður – alls ekki alltaf að vísu og ég hef aldrei verið jafn meðvitaður um tilfinninguna. Eða hvað maður kallar það. Kenndina. Ákvörðunina. Hvötina. Þetta er löngun til þess að tala út – komast til botns – og kannski líka þrá eftir því að hvíla sig, án þess að finna til skyldunnar að grípa strax í næstu sögu. Og líka löngun til að vera um kyrrt. Þegar ég byrjaði lýsti þetta sér praktískt í því að ég ákvað að smíða sögusvið sem ég gæti jafnvel endurnýtt mörgum sinnum – þar sem segja mætti margar sögur, þar sem ég gæti sest að til frambúðar. Nú tveimur árum síðar finnst mér í sjálfu sér ólíklegt að sviðsmyndin standi af sér ósköpin sem þar dynja á – eða að þar verði sagðar fleiri sögur – og ekki undarlegt að þeirri uppljómun fylgi ákveðinn heimsslitabragur. Ég smíðaði heiminn og ég sé hann fyrir mér þurrausinn með vorinu og því fylgir léttir og ótti. Ég vil kannski tala til punkts en ég óttast líka merkingu punktsins og það sem er handan hans.
Dagur 6 af 90: Miðjan og markið
Zadie Smith segir að í miðri skáldsögu verði höfundurinn hugsjúkur og allt annað hverfi sjónum hans. Öll samskipti litist af því sem er að gerast í sögunni – eða hún hreinlega taki yfir. Allar fréttir í blöðunum hafi beint með söguna að gera. Öll tónlist streymi beint inn í hana. Makar breytist í risastórar semíkommur og börn verði þankastrik. Í raun sé ekkert til nema bókin. Mér varð hugsað til þessa áðan þegar ég leit upp í miðri setningu og sá þetta: Þetta eru auðvitað geðþóttatölur – eitthvað slump. En ég er þá hálfnaður að slumpuðum endalokum. Ég veit ekki hvort ég hef nokkurn tíma séð Nödju breytast í semíkommu en ég kannast við tilfinninguna um að finnast allt sem maður rekst á einhvern veginn tengjast því sem maður er að gera – og engin tengsl verða nógu langsótt, allt brúast með hægð. Kannski er þetta skylt því þegar fólk fellur fyrir samsæriskenningum um eðlufólk og frímúrara – eða lendir í geðrofi. Alltíeinu hverfist allur heimurinn um bókina og allt sem getur truflað hana – sem er fátt – vekur óstjórnlega gremju, en allt sem frjóvgar hana – sem er næstum allt – vekur óstjórnlega kátínu. Zadie Smith tekur vel að merkja fram að miðja skáldsögunnar sé ekki endilega landfræðileg miðja hennar – ekki akkúrat þegar maður er búinn að skrifa helming orðanna. Hún getur verið hvar sem er í ferlinu. Fyrir sumum er hún kannski í endurskriftunum – fyrir öðrum þegar heimildavinnunni er lokið, strax og fyrsta orðið er sett á blað. Og sennilega birtist hún mér í þessari sögu einmitt þarna fyrir 5-6 þúsund orðum þegar mér fannst skyndilega – eftir tveggja ára streð/pauf/dútl/þrældóm – stefnan og heimurinn orðin nógu skýr til þess að ég gæti bara sett allt í botn og keyrt áfram. Ég get ekki lýst því með orðum – og er það þó mitt fag – hvað þetta er fullnægjandi tilfinning. Helst vildi ég vera hér að eilífu og komast aldrei út á enda, klára aldrei þessa sögu. En þessi saga er af tiltekinni stærð – þótt sú stærð sé slumpuð – og sennilega er það, ef ég á að vera heiðarlegur við sjálfan mig (og ykkur), líka hluti af gleðinni: að sjá í mark.