Dagur 4 af 90: Súrdeigsmaður

Allt gengur einsog … í sögu (hehe). Þanniglagað. Fyrstu tvo dagana var innblástur bærilegur, í gær var hann ekki alveg nógu góður – en það sem mér tókst að skrifa var samt sennilega mjög gott og mikilvægt þótt það væri erfitt að koma því í orð – og í dag var ég eiginlega bara búinn að „öllu“ fyrir klukkan 11. Með „öllu“ meina ég þá það sem ég ætlaði mér. Búinn að dagsverkinu. Í stað þess að þramma bara áfram einsog sköpunarferlið væri járnmaður ákvað ég að nálgast það einsog súrdeigsmóður, baka úr þessu sem ég skóflaði upp í morgun, en skilja líka helling eftir í krukkunni, mata hana með einhverju, og sjá hvort það verður ekki allt sprúðlandi af sköpunargleði hérna á morgun líka. Ég hef líka nóg annað að spekúlera – pota í strúktúrinn, krota hjá mér glósur fyrir einn stóran nýjan þráð, og svo hef ég bara gott af því að lesa aðeins. Ég leit líka á viðtöl við Jonathan Franzen og Don DeLillo að gamni. Í dag eru þeir mitt vatn og hveiti. Það er ekki alveg vandkvæðalaust að blogga um ritstörf þegar maður vill helst ekki láta of mikið uppi um hvað maður er að skrifa. Það er alveg hugsanlegt að ég hafi nefnt það eitthvað á netinu – af og til hef ég verið spurður á förnum vegi og það er upp og ofan hvort ég sný mig bara út úr því, segist ekkert vilja gefa upp, eða blaðra öllu um söguþráð, helstu persónur, fyrirætlanir mínar og hvernig þessar persónur vilja stundum ekki hlýða mér. Kannski hef ég meira að segja sagt eitthvað í viðtölum – ég myndi alveg trúa mér til þess! Ég hef mjög litla stjórn á sjálfum mér. En það er auðvitað mjög misráðið. Í raun og veru ætti maður kannski aldrei að segja neitt og kannski ekki heldur gefa neitt út – bókmenntir eru mjög prívat, svona þegar ég hugsa út í það. En ég hef samt frá ýmsu áhugaverðu að segja. Ég er t.d. að íhuga að taka allt bláa kennaratyggjóið af strúktúrblöðunum mínum – sem hanga upp á vegg svo ég geti horft á bókina úr fjarlægð – og skipta því út fyrir gult kennaratyggjó. Ég er meira að segja búinn að kaupa gult kennaratyggjó. Mér er sagt að það haldi betur. Glósurnar mínar eru nefnilega alltaf skakkar og stundum losna þær og detta á gólfið. Ekki eru þetta nú þungir miðar samt. Svo þarf ég að kaupa svartan tóner í prentarann minn – hef aldrei gert það áður – en það reið fjárhagnum næstum að fullu að kaupa þetta gula lúxus kennaratyggjó svo ég veit ekki. Kannski get ég bara prentað í gulu og bláu fram á vor. ps. Ef maður vill fá tilkynningar um fleiri álíka færslur – og geta þannig fylgst með því hvernig kennaratyggjó- og tónerævintýrum mínum vindur fram – er eyðublað hér fyrir neðan.

90 dagar

Ég hef tekið ákvörðun um að hætta að paufast í skáldsögunni minni og setja mér einhver raunveruleg markmið, einsog það heitir í sjálfshjálparbókunum. Síðustu misserin hef ég mikið sinnt öðru – greinarskrifum, bókarkynningu, ferðalögum, lagasmíðum, heimasíðugerð, húsnæðisviðhaldi og veseni – ofan í oft mjög ómarkvissa heimildavinnu. Eða bara leyft mér að standa álengdar og íhuga hana án þess að koma miklu í verk. Oft hreinlega engu svo vikum skiptir. Kannski er þetta eitthvert form ritstíflu – einhver átakaflótti. Mig langar að þessi bók verði góð. Mjög mikið. Ég má ekki til þess hugsa að hún verði það ekki. Mér þykir of vænt um það sem er komið, um persónurnar og konseptið og stemninguna og ég vil ekki klúðra þessu. Ég svo sem lagði upp með að gefa mér góðan tíma – drífa mig ekki, heldur leyfa henni að klárast á sínum eigin hraða. Og það hefur áreiðanlega í og með verið hollt en nú er samt nóg komið af drolli. Samkvæmt áætlun er ég sirka hálfnaður í gegn – eftir tvö ár – en ég gef mér þrjá mánuði til þess að klára. Þetta er auðvitað ekki sanngjarn samanburður, tvö ár annars vegar og þrír mánuðir hins vegar, af því heimildarvinnan er öll í þessum tveimur árum og langflestar kreatífar ákvarðanir – auk þess sem ég hef hent óhemju af texta og glósað. Og þetta er alveg gerlegt. Ég þarf ekki að skrifa að meðaltali nema um 600 orð á dag. En þá þarf ég líka að skrifa 600 orð á dag alla daga, sem er ekki alveg jafn auðvelt og það gæti virst samt. 1000 orð er svona klassískt markmið fyrir fimm daga vinnuviku – sumir skrifa 2000-3000 orð skilst mér. Sumir skrifa líka alltaf, alla daga. Kerouac náði 5700 orðum á dag þegar hann skrifaði On the Road – 120.000 orðum á þremur vikum. En hann svaf heldur ekki og var á eiturlyfjum – og það var um þetta ævintýri sem Truman Capote sagði „That’s not writing, that’s typing“. Bloggfærslan mín hérna um daginn – þar sem ég rak starfsferilinn í grófum dráttum frá því ég ákvað að byrja að skrifa og þar til það var orðið sæmilega stabílt – var einmitt í þeirri lengd og skrifuð á einum degi. Og það var einmitt ekki writing, það var mest bara typing. Ég skrifa frekar hægt. Eitt af því sem mér finnst erfiðast við að skrifa er að halda einbeitingu til lengri tíma. Ef ég þarf að sinna einhverju öðru í marga daga á milli – t.d. fara á einhverja bókmenntahátíð eða skrifa einhverja grein – reynist mér oft erfitt að komast aftur inn í handrit. Það getur tekið marga daga, jafnvel vikur. Og í átakinu við að komast aftur inn enda ég líka oft á því að breyta einhverju lykilatriði – kannski bara einhverju í tóninum, kannski í strúktúr, nú síðast bætti ég inn karakter sem þarf að vera með frá byrjun bókar – sem svo kallar á það sem er komið verði endurskrifað. Hvað um það. Ég hef nú ýtt frá mér öllum öðrum verkefnum, klárað eða aflýst – og tek engin ný að mér. Ég fer ekki neitt úr bænum og tek ekki frí. Ekki á helgum, ekki á páskum, ekki einu sinni á maskadaginn. Næstu 90 dagana – eða 88 dagana, ég byrjaði í gær – ætla ég að komast út á enda í þessari helvítis bók. Ég lofa svo að láta ykkur vita hvernig það gengur, svona um það bil jafn óðum.

Ófleygur

Lífið gengur sinn vanagang og ég veit ekki hvort ég hef frá nokkru að segja. Það er föstudagurinn þrettándi. Fyrir viku var þrettándinn föstudagur. Ég svaf sama og ekkert í nótt – tvo tíma kannski. Þetta er að verða svolítið þreytt. Ég er að verða svolítið þreyttur. En þetta eru ekki beinlínis tíðindi. Á morgun ætlum við meðlimir aðdáendaklúbbs Tyrfings Tyrfingssonar að fara til Reykjavíkur á Sjö ævintýri um skömm . Menningarreisa. Og í kvöld ætlum við sem ekki erum þegar farnir suður að hita upp með Villibráð í Ísafjarðarbíói. Það eru tíðindi. Mér hefur gengið bærilega að berja saman grein mína um ísfirskar bókmenntir í vikunni. Ég hef stundum haldið því fram (og er ekki mín frumlega hugmynd) að þegar maður skrifi og endurskrifi verði textinn á endanum gáfaðri en maður sjálfur – stærri og fallegri. En ég hef verið að taka eftir því upp á síðkastið að frumdrögin eru oft umtalsvert vitlausari en maður sjálfur. Maður þarf að byrja á því að gefa sér leyfi til að vera vitlaus – og muna svo að láta þar ekki staðar numið. Margir flaska á þessu. Annað eða þriðja uppkast er svo á pari við mann sjálfan og fjórða og fimmta farið fram úr manni. Hver skilur þetta, hugsa ég þá – þetta er alltof gáfulegt fyrir svona götustrák einsog mig. Hver skrifaði þetta eiginlega? Þá óttast ég líka að ég sé farinn að bulla, að skáldskapurinn sé að hlaupa með mig í gönur – stundum gef ég þá í og stundum dreg ég úr, allt eftir því hvernig er stemmdur. Ég er reyndar líka óvenju vitlaus svona illa sofinn – að ekki sé talað um ómyndarlegur og samanskroppinn. Ófleygur. Það er líka einhver nístandi óþefur af mér sem minnir á aceton og er sennilega svitalykt. Svo er Jeff Beck látinn. Það á ekki af manni að ganga.

Gísli Hjartar

Það er frábært viðtal við Andra Ólafsson í hlaðvarpinu Eftirmál um Gísla Hjartarmálið . Þar segir hann frá upplifun sinni af því að skrifa „afdrifaríkustu frétt fjölmiðlasögunnar“ einsog Jakob Bjarnar kallar það í fyrirsögn, þegar Gísli var sakaður um barnaníð og settur á forsíðu DV undir fyrirsögninni „Einhentur kennari sagður nauðga piltum“. Það er bíó að lesa um havaríið svona eftir á og Andri virðist fær um að sjá þetta furðu skýrt – sem mér hefur þótt fáir gera. Hann segir að auðvitað hafi blaðið ekki drepið Gísla, einsog margir héldu fram, en kemur líka inn á mikilvægan punkt: eftir á að hyggja, ef maður horfir á þetta alveg kalt, nokkrum árum seinna þá skapaðist það ekkert bara af þessari einu frétt. DV hafði verið mjög áberandi og umdeilt í umræðunni í langan tíma fram af þessu. Í hugum margra var þetta kornið sem fyllti mælinn. Fólk var búið að fá upp í kok af þessu blaði og vildi það bara í burtu. Ég man eftir því að hafa fundist stemningin á blaðinu – sem ég var áskrifandi að – skemmtilega hortug í fyrstu. Þetta var götustrákablað og maður tók það oft upp og hló hryssingslega að því hvað þeir gátu gengið langt. Þeir hlífðu engum. Fólk fékk alls konar uppnefni og varð að fastagestum – einn hét „hestariðillinn“ eða eitthvað álíka, svo var „ofbeldissystirin“, „kafteinn kókaín“ og þar fram eftir götunum. Innanum var alls konar rugl – t.d. var Gillzenegger með pistla um fótbolta sem gengu mest út á að kalla útlenska knattspyrnumenn þroskahefta. Ég held að þessi stemning hafi verið klöppuð upp af ákveðinni þórðargleði – og jafnvel réttlætiskennd – og blaðamennirnir spiluðu með. Þegar á leið missti almenningur hins vegar smekkinn fyrir þessu, eftirbragðið var beiskt, og ég held að sjálfsmorð Gísla hafi verið spádómurinn að uppfyllast: fyrr eða síðar drepur sig einhver í þessum hamagangi . Svipuðu hefur verið haldið fram með metoo vel að merkja – að þar sigri kapp stundum forsjá – og rétt einsog þar mun, þegar að því kemur, sá sem drepur sig fyrst og fremst hafa drepið sig sjálfur og ástæðan verður sennilega bara einmitt sú sem Andri nefnir í viðtalinu: viðkomandi getur ekki horfst í augu við afleiðingar gjörða sinna. Þótt auðvitað sé líka til í dæminu að fólk drepi sig vegna skammar sem það á ekki skilið – einsog þegar Benny Fredriksson, framkvæmdastjóri borgarleikhússins í Stokkhólmi, drap sig fyrir fimm árum eftir ásakanir um „óviðeigandi hegðun“, en hann varð sannarlega fyrir einhvers konar einelti fjölmiðla. Gengið var mjög hart að honum á mörgum vígstöðvum á þriggja mánaða tímabili sem endaði með sjálfsmorði – hann var síðar sýknaður í öllum rannsóknum, fjölmiðlar (Aftonbladet þar fremst í flokki) kærðir og sakfelldir fyrir framgang sinn, og borgarleikhúsið í Stokkhólmi veitir nú árlega 1,5 milljón í menningarstyrki í minningu hans. Þessu var auðvitað öfugt farið með Gísla – hann drap sig strax og þetta komst í fjölmiðla. Eða eiginlega nóttina áður. Og hann var alveg áreiðanlega sekur. Ég þekkti Gísla ágætlega þótt ég hefði ekki heyrt þennan orðróm fyrren rétt áður en þetta kom í DV. Ég kynntist honum þegar ég var barn og bar út til hans þetta sama blað – Dagblaðið Vísir. Þá bönkuðu blaðabörn upp á einu sinni í mánuði til að rukka blaðið og Gísli bauð mér stundum inn og gaf mér kók á meðan hann skrifaði tékkann – sem var tímafrekara fyrir hann en tvíhent fólk. Hann var svona „hress karl“, síblaðrandi og gerandi gamni sínu. Og hann var umkringdur strákagengi – svona mest á aldrinum 14-18 á að giska, einhverjir yngri og einhverjir eldri. Sumir voru a.m.k. með bílpróf og maður sá þá oft á bílnum hans. Marga þeirra var hann með í einhvers konar heimanámsaðstoð – þótt mér hafi á sínum tíma þótt það pínu langsótt að stilla honum upp sem kennara, þá var það ekki alveg út í hött. Það voru strákar úr þessu gengi sem urðu fyrir barðinu á honum – og aðrir strákar úr þessu gengi sem vörðu hann harðast þegar ásakanirnar komu fram. Fljótlega eftir að ég réði mig sem blaðamann á Bæjarins besta stoppaði Gísli mig á götu og bauð mér á rúntinn með sér. Sem var vel að merkja óvenjulegt – ég þekkti hann ekki meira en bara til að spjalla mjög stuttlega á förnum vegi. Gísli vildi ræða við mig um blaðamennskuna. Hann var sjálfur fyrrverandi blaðamaður á Vestfirðingi og Skutli og ætlaði að ráða mér heilt. Gísli sagði að Sigurjón, ritstjóri Bæjarins besta, væri – einsog flestir blaðamenn – alger aumingi sem þyrði aldrei að tækla neitt mál af alvöru og ef ég ætlaði mér einhvern feril í þessu starfi skyldi ég fyrst af öllu sætta mig við þá staðreynd að alvöru blaðamaður gæti ekki átt neina vini, en safnaði þess heldur óvinum. Sjálfur hefði hann aldrei hlíft neinum, enda væri samfélagið rotið inn að kjarna – það væru til menn sem hann hefði skrifað um og afhjúpað fyrir áratugum síðan sem hefðu aldrei fyrirgefið honum og myndu aldrei gera það. Og það væri alltílagi, það væri bara eðli starfsins. Þegar Gísli drap sig sló það mig auðvitað strax að hann hefði líklega ekki farið mýkri höndum um sig sjálfur – kannski sá hann aldrei forsíðu DV en hann sá hana kannski fyrir sér. Og þá var hún kannski bara í hans anda. Þetta mál kom annars inn á borð hjá mér nokkrum vikum fyrr. Hugsanlega var það milli jóla og nýárs – kannski rétt fyrir jól. Og þegar ég segi „kom inn á borð hjá mér“ þá meina ég hornborðið á Langa Manga einhvern tíma milli tvö og þrjú á laugardagskvöldi. Gísli var ekki nefndur á nafn – fólkið sem kom til mín var aðstandendur og vildi vita hvort Bæjarins besta gæti gert eitthvað með upplýsingar af þessu tagi . Þá var ritstjórnarstefna Bæjarins besta þveröfug við ritstjórnarstefnu DV – í sakamálum birtum við ekkert nema opinber gögn og ég sagði fólkinu að ef það yrði kært myndum við strax birta frétt en án kæru væri engin frétt. Ég er ekki frá því að svona hafi ritstjórnarstefnan verið víðar – jafnvel hjá sumum landsblöðunum – og kannski hafði þetta pólaríserast einmitt út af DV. Þetta hefur auðvitað breyst mjög mikið síðan – sérstaklega eftir metoo. Þetta byrjaði svo auðvitað allt með kæru – og kemur mér á óvart svona eftir á að það líða hátt í tvær vikur frá kæru og þar til þetta er komið í DV. Og ekki kom þetta í BB allan þann tíma enda birtum við eiginlega bara fréttatilkynningar, hagstofufréttir og endursögðum rifrildi úr bæjarpólitíkinni – og vissum ekkert um neinar kærur. Ég man svo ekki hvenær ég heyrði að þetta væri Gísli, að það væri komin fram kæra eða að það hefði verið gerð húsleit hjá honum – kannski var það bara daginn áður, þegar Andri var byrjaður að hringja, og kannski kvisaðist það út eitthvað fyrr. Ég man allavega að áður en ég fór úr vinnunni daginn áður vissi ég að þetta yrði í blaðinu daginn eftir – ætli DV hafi ekki falast eftir ljósmyndum frá BB? – það hafði verið rætt hvort við ættum að hringja eitthvað og grennslast fyrir, sennilega hafði einhver hringt í lögguna og ekkert fengið staðfest og það látið þar við sitja. Fljótlega eftir að ég mætti í vinnuna daginn eftir spurðist síðan út að Gísli hefði stytt sér líf en það var líklega ekki komið í fréttir fyrren seinnipartinn. Eitthvað var svo skrifað um málið á BB-vefinn, endursagnir úr DV og kannski af fleiri miðlum, en ekkert af því endaði í prentaða blaðinu – að hluta til áreiðanlega af praktískum ástæðum. Gísli drap sig þriðjudaginn 10. janúar og þá hefur verið búið að setja blaðið sem kom út morguninn eftir – BB var aldrei beinlínis að springa af nýjustu fréttum. Viku síðar var þetta bara orðið of gamalt – en þá fjallaði nafnlausi dálkurinn Stakkur lítillega um málið, vottaði aðstandendum Gísla samúð en sagði DV sannarlega eiga rétt á sér þótt það færi fram úr sér og að nærgætni væri þörf og la tí da. Kannski var þetta síðasta alvöru upphlaupið fyrir samfélagsmiðla. Í dag eru svona læti í einhverjum skilningi algengari – en kannski daufari líka? Við veðraðri? Andköfin æfðari? Og nánast absúrd tilhugsun að stór fjölmiðill hafi setið á skúbbi í bróðurpartinn úr sólarhring til þess að geta birt það á prentaðri forsíðu daginn eftir.

Fleipur

Ég fór með alls konar fleipur um Sterk Margrétar Tryggvadóttur hér í fyrradag. Sem ætti að kenna manni að tjá sig ekki um bækur sem maður hefur ekki lesið – að treysta ekki bara á lýsingar annarra. Í fyrsta lagi er bærinn fyrir vestan alls ekki ótiltekinn, einsog ég hélt fram, heldur bara Ísafjörður undir sínu eigin nafni. Ég náði ekki alveg tímalínunni en ef ég misskildi ekki þá gengur aðalsöguhetjan, Birta, í grunnskóla á Ísafirði og byrjar svo í MÍ en hættir og fer suður í Tækniskólann, í kjölfar þess að bestu vinir hennar rjúfa trúnað og slúðra því út um allt að hún sé trans. Í öðru lagi býr Birta ekki á Ísafirði heldur er hún sveitastelpa – mér fannst innanúr Djúpi en ég held það komi ekki fram. Selbjörg hljóma í öllu falli einsog þau gætu verið nálægt Hrafnabjörgum. Hún sækir skóla með skólabíl. Í þriðja lagi eru Ísfirðingar eða Djúpmenn ekki allir drullusokkar þótt þeir séu sannarlega látnir gegna hlutverki „hins fordómafulla“ í þessari sögu – engum þeirra kynnumst við mikið en Birta er greinilega trámatíseruð af atlæti sínu í sveitinni og á Ísafirði, þar sem fólk slúðrar um hana annars vegar og sýnir henni fálæti eða kemur fram við hana einsog hún sé eitruð hins vegar. Ekki virðist vera neitt kynsegin fólk í skólanum eða í bænum – sem auðvitað er í raunveruleikanum, sem og í grunnskólanum – heldur er Birta mjög ein. Kennararnir í Menntaskólanum á Ísafirði – þar sem Birta vill allt gera til þess að sækja aldrei tíma framar – eru líka rænulausir og virðast ekki frekar en nemendurnir vita neitt hvernig þeir eigi að taka henni. Ekki er heldur vikið orði að Veigu Grétarsdóttur, ísfirsku transkonunni sem var mjög áberandi í bæjarfélaginu (og landinu öllu) einmitt á sögutímanum og árunum þar fyrir – réri kajak rangsælis í kringum Ísland sumarið 2019 og var þá í öðrum hverjum fréttatíma. Auk Birtu hittum við tvo Vestfirðinga í eigin persónu í bókinni. Annars vegar einn af æskuvinum Birtu, Geir, og hins vegar pabba hennar. Báðir eiga það sameiginlegt að „skilja þetta nú ekki“ og hafa brugðist illa við áður en virðast vera af vilja gerðir til þess að „mennta sig“ og gera betur í framtíðinni. Þeir eru kannski sveitalubbar en þeir eru með hjartað á réttum stað. Hið sama verður ekki sagt um móður Birtu og hinn æskuvin hennar, Pétur – sem virðast lítið vilja leggja á sig í þessum efnum – og áhugavert að þessi pör, pabbinn og mamman annars vegar og Geir og Pétur hins vegar, skuli spegla svona hvort annað. Foreldrar Birtu slá mann reyndar sem miklu eldra fólk en þau eiginlega geta verið – ég held að aldur þeirra komi ekki fram. Þau eru á móti „fínum mat“ á veitingastöðum, drekka gallsúrt kaffi, éta þegjandi yfir útvarpsfréttum og hafa aldrei ferðast neitt nema einu sinni til Danmerkur. En ef Birta er fædd um það bil 2002 – sem mér sýnist að gæti verið raunin (bókin gerist í janúar-febrúar 2020) – þá gætu foreldrar hennar þess vegna verið milleníalar. Það verður í öllu falli enginn búmer af því einu að vera bóndi. Það fólk sem Birta hittir í Reykjavík er ekki sama marki brennt – hvort sem þeir sem um ræðir eru foreldrar eða systkini vinkvenna og elskenda, pólskir sambýlismenn, erítreskar og rúmenskar sambýliskonur, vinnuveitendur, samnemendur eða aðrir. Meira að segja vondu kallarnir í bókinni virðast ekki tiltakanlega illa haldnir af transfóbíu sem slíkri – og eru þeir þó mjög vondir. Annars er nóg af öðrum klisjum þarna líka. T.d. Reykjavíkurklisjum – það er viðstöðulaust slabb í bókinni. Og trans klisjum – Birta er auðvitað í forritun. Og stelpuklisjum – þær stöllurnar, Birta, Jóhanna og Blær eru alveg fáránlega fullkomnar, með 9,5 í öllu og þegar Jóhanna stingur upp á því að skrópa svo þær Birta geti farið í sleik segist Birta heldur bara vilja bíða og fara í sleik seinna. Þetta er í sjálfu sér ekki óviðeigandi í ungmennabók – eða bara reyfurum, og öllum bókum að einhverju marki – þar sem hið kunnuglega veitir ákveðna fró. Klisjur og alhæfingar eru líka haldreipi. Svo eru klisjur auðvitað ekki átomatískt réttar eða rangar – þær eru bara endurteknar. Sterk er síðan vel að merkja eiginlega meiri unglingareyfari en hún er þroskasaga trans stúlku. Þunginn liggur ekki síst í glæpaplottinu og samfélagslýsingin er miklu breiðari en sem nemur málefnum trans fólks – bókin fjallar í raun ekki minna um aðstæður erlendra verkamanna á Íslandi. Og minnir um margt á gamaldags ævintýrabækur – Enid Blyton kemur upp í hugann – einsog Birta nefnir reyndar á einum stað í skemmtilegri athugasemd. Loks ber að hafa í huga að Ísafjörður eða Vestfirðir koma ekki mikið við sögu – eru bara í bakgrunni – og fá bara þessa áherslu hér í mínum skrifum vegna þess að ég er sérstaklega að spekúlera í því hvernig Ísafjörður og nágrenni birtist í íslenskum bókmenntum almennt.

Staðleyseyri í Skutulsfirði

Fyrir eitthvað rúmlega ári síðan gerði ég skurk í því að lesa bækur sem gerast á og í kringum Ísafjörð eða voru skrifaðar hér eða af höfundum héðan. Þetta eru í sjálfu sér engin ósköp – a.m.k. ekki bækurnar sem gerast hérna – kannski 40-50 bækur, gróft talið. Ég hef litla yfirsýn yfir smásögurnar og veit bara um fáeinar ljóðabækur sem eru skrifaðar hér – eða nota þetta sögusvið –  og sennilega eru ljóðabækur gjarnan staðlausir stafir. Gerast í innra lífinu eða sjálfu tungumálinu eða á einhverju konseptsviði. Ég bloggaði aðeins um þennan lestur í fyrra og upp úr því var ég narraður til að skrifa grein – án þess að vita raunar hvað það væri sem ég vildi segja. Ég er byrjaður á greininni en veit það ekki enn. Kannski skiptir það ekki öllu og kannski er það mjög misráðið. Það kemur væntanlega í ljós bara. En ég átti alltaf nokkrar „ísfirskar bækur“ eftir og úr því er ég að bæta nú. Þar bar hæst síðustu tvær bækurnar í þríleik Jóns Kalman og Útlaginn eftir Jón Gnarr. Svo uppgötvaði ég nýlega að ein Ísafjarðarbók Hagalíns –  Segið nú amen, séra Pétur – hafði farið framhjá mér og að Sterk eftir Margréti Tryggvadóttur væri með kaupstað á svæðinu í baksýnisspeglinum. Ég veit enn ekki hvort hún gerist þar nokkuð – rakst bara á þetta brot úr (annars mjög jákvæðum) ritdómi Arngríms Vídalín á vef Tímarits Máls og menningar : Eitt er þó minna sannfærandi og það er skerandi andstæðan milli Vestfjarða og Reykjavíkur, því svo virðist sem Birta mæti sama og engum fordómum eða háðsglósum fyrir sunnan. […] Þannig lítur Reykjavík út eins og paradís við hliðina á heimabyggð Birtu þar sem fordómar og illt umtal grasserar. Þessar andstæður þóttu mér heldur svarthvítar. Bærinn er ekki nefndur – en þar er a.m.k. 10. bekkur í grunnskóla svo það fækkar valkostunum. Kannski eru fleiri vísbendingar í bókinni, sem er á náttborðinu hjá mér, en ég ræði hana hér ekki að öðru leyti en út frá þessum orðum Arngríms. A.m.k. í bili. Þetta er auðvitað klassískt þema – íhaldssami sveitalubbinn. Og kannski má það oft til sanns vegar færa – í öllu falli held ég að það blasi við að í stærra samfélagi sé auðveldara að umkringja sig sínum líkum og þá getur jaðrað fólk notið sín betur, ekki vegna þess að samfélagið sé ekki íhaldssamt eða fordómafullt, heldur vegna þess að það er auðveldara að komast hjá því að rekast á þá samfélagslegu krafta. Maður sækir aðra bari, aðra viðburði, aðra dansleiki og fer jafnvel í aðrar kirkjur. Það eru álíka mörg fífl í öllum samfélögum, en maður verður mismikið var við þau. Stærsti kostur og stærsti galli smærri samfélaga er að þar lifa allir og hrærast í einum graut – þar getur bæjarróninn rifist við kvótakónginn á barnum og skúringakellingin verið í bókaklúbb með kvenforstjóranum (samt eru bara konur í flestum bókaklúbbum, vel að merkja). Þessu fylgir ákveðin viðsýni og umburðarlyndi – innsýn í ólíkar veraldir – en líka árekstrar. Maður kemst t.d. ekki undan því að hitta líka þá sem hafa gert manni eitthvað (eða þá sem maður hefur sjálfur gert eitthvað). Hins vegar má alveg halda því til haga líka að sumarið áður en Sterk kom út var vinkona mín Veiga Grétarsdóttir, fjallkona bæjarins, og í ræðu sinni sagði hún hvergi betra að vera trans en á Ísafirði . Svo sennilega hefur Margrét bara verið að hugsa um Bolungarvík eða Patreksfjörð! Ég er svo kominn hálfa leið inn í Harm englanna sem höfðar talsvert betur til mín en Himnaríki og helvíti gerði – nema ég sé bara sjálfur betur stilltur inn á þessa rómantík. Ég er auðvitað svag fyrir henni – JKS er með Tom Waits sem eitt helsta fagurfræðimódel og fáa menn hef ég tignað jafn ákaft og hann – þegar vel tekst til hittir Jón á allar þær taugar, svo manni finnst maður í senn geta öskrað niður norðanáttina (sem lemur miskunnarlítið á húsinu í dag) og rifið upp úr freðinni jörðinni hreinustu ljóð, en þegar illa tekst til er þetta einsog að fá sama TW viðlagið aftur og aftur í 9 klukkutíma streit. Sem er auðvitað þeim mun verra ef maður elskar TW heitt – þá finnst manni klæmst á fegurðinni. Þetta er líka spurning um í hvaða stemningu maður er sjálfur, hvað maður er móttækilegur. Í öllu falli tekst mér að gleyma mér í Harminum á máta sem mér tókst aldrei í H&h . Sem mig grunar reyndar að hafi eitthvað að gera með lausari strúktúr – það er einsog ég þoli frekar hið hástemmda ef strúktúrinn er „lífrænni“. Annars er eitt af því áhugaverðasta við allar þessar bækur hversu oft er farið í kringum örnefnin – ýmist með því að búa til ný heiti á bæi og fjöll eða með því að tala bara um „þorp“ eða „bæ fyrir vestan“ eða eitthvað álíka. Maður gæti ímyndað sér að þetta væri algengara hjá einhverjum utanbæjarlúðum sem eru bara alls ekki kunnugir staðháttum – en Rúnar Helgi og Njörður P. Njarðvík gera þetta líka. Rúnar í Ekkert slor og Njörður í Í flæðarmálinu – en báðir negla sig svo vel að merkja betur á tiltekinn stað í seinni bókum sínum. Og svo Hagalín auðvitað sem kallaði Ísafjörð alltaf Tangakaupstað. Þetta á svo eðlilega ekki við um æviminningar, einsog Útlagann eða Skáldið á Þröm, eða sögulegar skáldsögur einsog Dauðamenn eftir Njarðvík eða stríðsárabækur Sindra Freyssonar. Það er helst að erlendir höfundar einsog Satu Rämö – sem er að vísu Ísfirðingur líka – noti Ísafjörð fyrirvaralaust sem fyrirmynd, geri sér þar sitt eigið sögusvið milli fjallanna, með sínum eigin sögupersónum, sem eiga sér ekki endilega neinar fyrirmyndir í fólkinu á svæðinu, það best ég veit a.m.k. En staðurinn heitir sínu nafni, göturnar sínum nöfnum. Svona svipað og flestir gera þegar þeir skrifa sögur sem gerast í Reykjavík. Ég hef farið svipað að sjálfur og myndi líða mjög undarlega með skálda upp nýtt nafn á bæinn – nema ég væri að skrifa einhvers konar fantasíu. Við Satu eigum auðvitað bæði heima hérna – en það átti Hagalín líka, lengst af (en Njörður og Rúnar eru vel að merkja expat-höfundar á höfuðborgarsvæðinu). Ég veit ekki hvaða merkingu þetta hefur. En væntanlega er þetta svipað og þegar maður notast við fólk sem fyrirmyndir og vill hafa fjarvistarsönnun –  þetta ert ekki þú! – jafnvel þegar það blasir við. Ætli fólk upplifi þá að bæjarbúar – Ísfirðingar jafnt sem aðrir, því þetta á við um alla smábæi í íslenskum bókmenntum, og jafnvel bíómyndum líka – séu hálfgerður „einstaklingur“ sem muni hugsanlega bregðast við, móðgast, fyrtast? Eða viljum við gjarnan – við lesendur – að bækur gerist í hálfgerðum staðleysum, gætu verið hvar sem er, og bæir séu of „mikið staðir“ – það sé auðveldara að láta fólk ráfa um borgir, jafnvel litlar borgir einsog Reykjavík, í nafnleysi og staðleysu? Í mörgum tilvikum geta höfundar alls ekkert þrætt fyrir sinn fyrirmyndarfjörð. Stundum eru jafnvel önnur örnefni „rétt“ og oft eru kynlegir kvistir af svæðinu, öllum kunnugir, auðþekkjanlegir. Einhvern veginn finnst mér sjálfsagt að það fólk fái ný nöfn af því það er verið að láta það gera alls konar hluti sem það hefur kannski aldrei gert (fátt held ég að rithöfundum sárni samt jafn mikið og þegar þeir eru sjálfir notaðir svona í skáldskap annarra – undir nafni eður ei) – það verður sögupersónur . En ég næ hinu samt ekki alveg, þessari hvöt til að skipta um eða breiða yfir nöfnin á bæjunum. Næ bara ekki taki – ekki einu sinni nóg til að mynda mér almennilega skoðun á því. Sem er sem sagt það sem ég er að reyna að gera í þessari blessuðu grein minni.

Bókaárið

Við komum heim í gærkvöldi. Beint í þriðjudagstilboð á Hamraborg. Svo matur hjá mömmu og pabba í kvöld. Sem er ágætt – ekki síst út frá sparnaðarsjónarmiðum, ég er víst nær gjaldþroti en lífi sýnist mér á reikningsyfirlitunum sem ég skoðaði út um annað augað í morgun (með báðar hendur fyrir andlitinu). Eyðslumegrun var svo skellt á listann yfir áramótaheitin. Það kemur margt til. Við höfum keypt alveg fáránlega mikið af bókum síðustu mánuði – ég hef verið alltof duglegur að éta á skyndibitastöðum í hádeginu og spreða svo í kvöldmatinn. Svo er bara dýrt að fara til útlanda um jólin – dýrt að vera ekki heima hjá sér. Dýrt að vera múltíkúltí. Dýrt að halda jól. Nú myndi ég leggja út net fyrir aukaverkefnum ef ég væri ekki þegar með eitt sæmilega stórt aukaverkefni á borðinu hjá mér – sem ég get varla beðið eftir að losna við svo ég komist aftur í bókina mína. Ég fór í gegnum lestrarárið mitt í morgun. Einsog ég hef nefnt voru þetta sléttar 300 bækur sem ég las í fyrra. Þar af voru 166 skáldsögur, 63 ljóðabækur, 5 teiknimyndasögur, 24 smásagnasöfn, 8 æviminningar, 3 ævisögur (ritaðar af þriðja aðila), 16 bækur almenns eðlis, 3 örsagnasöfn, 1 leikrit, 6 glæpasögur og 4 sjálfshjálparbækur. Og 1 barnabók – allt fyrir 12 ára og eldri sirka var talið með skáldsögunum. 170 af höfundunum voru karlar, 120 voru konur, 9 bókanna voru skrifaðar af höfundum af fleiri en einu kyni og 1 var skrifuð af kvári. 243 bókanna voru á íslensku, 36 voru á ensku, 20 voru á sænsku og 1 var á norsku. 175 bókanna voru íslenskar að uppruna – 25 voru bandarískar, 17 voru sænskar, 14 voru franskar, 7 voru rússneskar, 6 voru finnskar, 6 argentínskar, 6 enskar, 4 skoskar og 4 norskar, 3 voru ítalskar og jafn margar írskar og mexíkóskar, tvær voru úkraínskar og jafn margar kólumbískar, pólskar, hollenskar, austurrískar og svissneskar. Eina las ég bók frá Kúbu og jafn margar frá Grænlandi, Kína, Ungverjalandi, Júgóslavíu, Marokkó, Nígeríu, Kanada, Danmörku og Spáni. Eina bók las ég líka sem merkt var gervallri Asíu. 31 hlustaði ég á. Þrjár las ég upphátt. Nítján voru rafbækur, þar af þrjár lesnar á síma og 16 á kindli. 31 bók var ég ekki að lesa í fyrsta sinn. Lengsta bókin var líklega Fjallkirkjan (sem ég taldi sem eina bók þótt hún sé tæknilega séð fimm) og sú stysta einhver ljóðabókanna – kannski Humm eða Urta. En „stærð“ bóka er auðvitað frekar afstæð. Eftirminnilegast var að kynnast höfundum sem ég hafði ekki lesið áður, einsog Ali Smith, Ninu Berberova og Gunnari Gunnarssyni. Þá las ég og endurlas svolítið af bókum Alains Mabanckou – sem er fæddur í Kongó en telst með frönskum bókmenntum í upptalningunni hér að ofan. Kynntist konum sem skrifuðu á Ísafirði fyrir meira en öld – einsog Herthu Schenk Leósson og Arnrúnu frá Felli. Tók líka sveitunga minn Guðmund G. Hagalín fyrir, einsog Rúnar Helga, Bennýju Sif, Njörð P. og fleiri sem skrifað hafa um Ísafjörð. Las í fyrsta sinn myndasöguna Palestine eftir Joe Sacco. Féll fyrir Amelie Nothomb og Torgny Lindgren. Rakst á finnska bókmenntahátíð sem ég hafði sjálfur sótt í skáldsögunni Monu eftir Polu Oloixarac. Alls konar sænska kunningja í Klubben eftir Matildu Voss Gustavsson – og íslenska vini í eigin bókum, einsog Björk Þorgrímsdóttur, Steinar Braga, Hauk Má Helgason, Kristínu Eiríksdóttur, Ófeig Sigurðsson, Hermann Stefánsson og fleiri. Í Civilizations eftir Laurent Binet er mannkynssögunni breytt þannig að Freydís Eiríksdóttir – dóttir Eiríks Rauða – verður eftir í Ameríku og skilur þar eftir sig járngerðarlist og ónæmi fyrir sjúkdómum (þegar Kólumbus mætir er honum slátrað og innfæddir ameríkanar fara í víking til Evrópu). Colson Whitehead náði mér loksins í Harlem Shuffle. Ferrante náði mér líka en missti mig svo bara aftur. Ég fékk ljóðlistartryllinginn minn frá Birtu Ósmann, Alejöndru Pizarnik, Steinunni Arnbjörgu og Jóhanni Hjálmarssyni (merkilegt nokk), ljóðlistarskerpuna frá Lousie Glück og Sjón – rifjaði svo upp ljóð Einars Más á hljóðbók (og fékk svo veruleikahnykk þegar síminn hringdi og á línunni reyndist sami Einar Már og ég var að hlusta á, í sama síma, með sömu rödd). Fór til Færeyja með Hannesi Péturssyni, til fv. austantjaldslandanna með Vali Gunnarssyni, inn í myrkrið með Conrad og út í Flatey með Bergþóru Snæbjörns. Mælti mér svo mót við Ursulu LeGuin á árinu 2002 (hún lagði af stað 1971 en ég kom bara héðan). Endurlestrar ársins voru verk Eiríks Guðmundssonar annars vegar – sem lést í haust og er sárt saknað – og White Noise eftir Don Delillo, sem var síðasta bók ársins og upptaktur að nýrri mynd sem ég horfði á á nýársdag (og gladdi mig mjög). Ég ætlaði að velja bók ársins en það er ekki nokkur vinnandi vegur, ef ég á að segja ykkur alveg einsog er. Þetta voru ekki allt bækur ársins en mjög margar þeirra voru það.

Gott nýtt ár

Nadja var týnd þegar nýja árið gekk í garð. Hún hafði skotist til baka eftir glasinu sínu – það stóð til að skála í almenningsgarði hér við hliðina, meðan við fylgdumst með flugeldunum – og vissi hreinlega ekki hvar við vorum. Kannski vorum það þá við sem vorum týnd, frekar en hún? Í millitíðinni hafði Aino misst glasið sitt og fengið mitt í fyrirframgreiddan arf. Ég var of penn til að drekka beint úr flöskunni fyrren einhver hafði sagt að ég mætti það. En strax og ég fékk merki sleppti ég algerlega af mér beislinu. Maður er nú ekki partýdýr fyrir ekki neitt. *** Annars gekk þetta allt friðsamlega fyrir sig hér í Skarpnäck. Í Vällingby, í norðvestur-Stokkhólmi, var maður skotinn til bana um kvöldmatarleytið. Þetta hafa verið svolítið ofbeldisfull jól. Það var einn maður drepinn á aðfangadag og annar á gamlársdag – ofan í nokkrar skotárásir og nokkrar sprengjur. Allt eru þetta víst hefndaraðgerðir vegna morðsins á rapparanum Einár í fyrra – en hann var drepinn þegar hann átti að vitna fyrir rétti gegn Vårbynätverket sem hafði rænt honum og niðurlægt nokkru áður. En Vårbynätverket er það gengi sem fór einna verst út úr aðgerðum lögreglunnar 2020 í kjölfar þess að Encrochat var krakkað – einsog ég hef nefnt hérna stundum kostuðu þær aðgerðir talsverðan óstöðugleika á svarta markaðnum með meðfylgjandi ofbeldi. Þetta er allt voða mikið einsog að lesa handritið að The Wire. Nema með aukavídd þessara Grammyverðlaunuðu rappara einsog Einárs og Yasin – þeir fá leiðina úr göturæsinu í glamúrinn til þess að virka styttri, grunar mig. *** Ég hef enn ekki strengt neitt áramótaheit. Ég er alltaf í einhverjum átökum (pönn!) og stend svona við meiripartinn af því sem ég ætla mér en ég er ekki búinn að útlista fyrir mér næstu mánuði að öðru leyti en að mig langar að sinna vinnunni minni og éta minna af óhollum mat og meira af hollum. Svo ætla ég að lesa færri bækur. Ég las 300 bækur í ár – sléttar – og það er meira en manni er hollt. Ætli 100 sé ekki passlegt? Þær mega alveg vera lengri en þær sem ég las í ár – ég las talsvert af nóvellum, en gæti svo sem alltaf lesið fleiri ljóðabækur og lesið þær betur en ég geri. Ég gef bókum ekkert alltaf séns – reyndar er alveg rannsóknarefni hvers vegna ég nenni stundum að grafa og grafa og pæla og pæla og stundum bara alls ekki. Hvað veldur því að maður treystir höfundi til að verðlauna erfiðan lestur? Ég hef lesið bækur í næstum 40 ár og ég veit það bara ekki. Annars er ég að hugsa um að velja bækur ársins á næstu dögum. Sem er þá ekki úr útgáfu ársins heldur bara þessum sem ég las – hvað hafi verið eftirtektarverðast, hvaða höfunda ég ætli að lesa meira, hvað hafi komið mér á óvart o.s.frv. Höfundur bókar ársins á Fjallabaksleiðinni fær engin verðlaun og er hugsanlega ekki einu sinni á lífi og sennilega ekki íslenskur. Þetta er samt mikill heiður, ég fer ekki ofan af því. *** Hvað um það. Gleðilegt ár kæru vinir. Sjáumst hress í stríðinu/stuðinu á nýja árinu.

Fórnarlömb aðstæðna

Eru þetta ólympíuleikarnir í sjálfsvorkunn? spyrja tröllin. Viljið þið ekki bara fara að grenja líka? Fair point , svara ég, alþjóðlegur glaumgosi, úr fílabeinsturni mínum í Skarpnäck. Tilgangurinn með færslu gærdagsins – fyrir utan að vera rant ósofins manns sem þótti lúalega snúið út úr orðum sínum – var að vísu ekki að kalla fram vorkunn heldur að benda á í (nauðsynlegum) smáatriðum hvað þetta getur verið langt ferðalag. Og svo það misskiljist ekki þá er þetta langt ferðalag fyrir (svo gott sem) alla. En það er ekki þar með sagt að það sé jafn langt fyrir alla. Og svo hitt misskiljist ekki heldur þá var þetta sannarlega ekki leiðinlegt og aldrei þjáning – ég hef, einsog allir, upplifað minn skerf af þjáningu en það var aldrei vegna þess að ég fengi ekki listamannalaun, útgáfu, viðurkenningu og verðlaun. Stundum var það meira að segja skemmtilegast þegar mótlætið var mest – að minnsta kosti í öruggri fjarlægð og í baksýnisspeglinum. Þegar rætt er um Nýhil eða Starafugl (eða Tíu þúsund tregawött eða SLIS eða Alþjóðlegu ljóðahátíðina eða margt annað sem ég hef sýslað) verður líka að taka með í reikninginn að þetta eru stofnanir sem ég – ásamt öðrum – kom á laggirnar. Ekki stofnanir sem réðu mig í vinnu – ekki prójekt sem voru fjármögnuð af öðrum, fæst þeirra voru einu sinni fjármögnuð – heldur stofnanir sem ég fann upp á og lagði til botnlausa sjálfboðavinnu og peninga. Því fylgir nokkuð menningarauðmagn – og vald – þegar því hefur verið komið á laggirnar, en það er samt ekkert trompspil í samræðu þegar maður vill láta einsog ég hafi fengið allt upp í hendurnar. Ég hef fengið ýmislegt upp í hendurnar, en ekki þetta. Leitið betur, segi ég. *** Við vöknuðum snemma og skildum börnin eftir heima á meðan við Nadja og Lehmus fórum á Moderna Museet til að sjá sýningar Hilmu af Klint og Nan Goldin – auk fastasýningarinnar auðvitað. Það var ansi magnað. Ég er á báðum áttum með það hvort það hafi verið rétt ákvörðun að skilja krakkana eftir heima. Nan Goldin hefði kannski verið full ágeng fyrir þau en margt í fastasýningunni og hjá Hilmu af Klint hefði sennilega vakið áhuga þeirra – og a.m.k. mín börn fá ekki tækifæri til að sjá svona mjög oft. Á móti kemur að það var margt fólk og biðröðin inn á Hilmusýninguna var áreiðanlega hálftími – þau fóru að sofa eftir miðnætti í gær og hefðu garanterað verið mjög þreytt. Við vorum nógu þreytt sjálf – ég sofnaði að vísu fyrstur en er enn að jafna mig eftir fyrri nótt (ég verð vel að merkja oft andvaka og það hangir ekki bara saman við þetta kúltúrbarnarugl). Í staðinn sváfu þau til hádegis og léku tölvuleiki. *** Í fyrrakvöld – fáeinum tímum eftir að ég bloggaði um ofbeldið í Skarpnäck – var líka framin skotárás á Gubbängen, sem er hér skammt frá, og svo sjö mínútum síðar sprengd sprengja í Farsta, sem er aðeins lengra undan (samt bara svona kortersgangur, held ég). Það er ekki laust við að manni bregði meira við flugeldasprengingarnar (sem heyrast af og til) en maður er vanur. Ekki veit ég hvernig þetta verður annað kvöld. Þetta var önnur skotárásin í Gubbängen þennan dag. Fyrr um daginn hafði verið skotið á svalir í sama fjölbýlishúsi þar sem býr þekktur glæpamaður. Um kvöldið var svo skotið á hurð í húsinu – 25 skotum – en gerandinn hafði farið íbúðavillt og skaut öllum sínum skotum á hurðina hjá áttræðum einstæðum karli. Lögreglan gefur ekkert upp um hvort skotárásirnar tengist (sem þær gera auðvitað) né hvort þær hangi saman við sprengjuna í Farsta – sem er líklegt en ekki víst. Enginn meiddist í þessum árásum en margir eru skeknir. Tveir voru handteknir á flótta – fyrir að skjóta á hurðina – 15 ára og 14 ára strákar, einu og tveimur árum eldri en Aram. Þeim 14 ára var sleppt fljótlega en hinn situr enn í varðhaldi. *** Annars kemur bíómynd upp úr White Noise á Netflix í kvöld. Ég er að lesa hana aftur af því tilefni. Sennilega er þetta besta bók allra tíma. Ég dýrka hana. Og hlakka mjög til að sjá myndina.

Viltu ekki bara sjá brjóstin á mér líka?

Það er hægt að hætta á Facebook en það hefur lítið að segja þegar þeir sem þar mæla tala svo hátt að það heyrist í DV, Morgunblaðinu og Fréttablaðinu samtímis. Ég ætla ekki að munnhöggvast við vinkonu mína, Auði Jónsdóttur, sem ég hef þekkt í átján ár og hefur fram til þessa aldrei gert mér neitt. Ég vil frekar beina fólki að hlusta bara á viðtalið þar sem við mættum bæði – hjá Lóu Björk í Lestinni, sem sá um yfirheyrsluna – og skora á fólk að finna þar nokkurn fót fyrir því að ég hafi sagt nema brotabrot af því sem Auður virðist halda að ég hafi sagt, ef hún lýgur ekki upp á mig vísvitandi. Ég tel mig hafa reynt að halda því spjalli málefnalegu og ég held að það tali alveg fyrir sig sjálft. Ég get alveg haldið þeirri umræðu áfram en það væri þá gjarnan á öðrum forsendum en þeim að ég sé að bídra til hins viðvarandi lífsharms Auðar Jónsdóttur, sem hefur aldrei notið sannmælis í þessu þjóðfélagi fyrir okkur hælbítunum. *** Smá viðvörun. Þetta er mjög löng bloggfærsla. Ég hef skrifað bækur sem voru styttri. Sennilega er meðalþriðjudagsmogginn styttri en þessi bloggfærsla. Ég veit ekki fyrir hvern ég skrifaði hana en mér fannst ég þurfa að halda þessu til haga. Ég svaf ekkert í nótt fyrir einhverjum áráttuhugsunum. Þetta er bara einsog það er. *** Ég man eftir augnablikinu sem það hvarflaði fyrst að mér að ég gæti orðið rithöfundur. Ég var 18 ára, það var í Kaupfélaginu á Ísafirði og ég stóð við núðlusúpurekkann. Ég tók eftir því að pakkinn kostaði 39 krónur og ég hugsaði: „Ef að máltíð kostar ekki meira en þetta er allt mögulegt. Ég verð aldrei svo illa staddur að ég geti ekki slegið einhvern um 39 krónu lán.“ Ég þekkti engan sem hafði lifibrauð sitt af listum – hafði aldrei hitt þannig manneskju og aldrei séð þær nema á sviði eða í sjónvarpinu. Ég þekkti engan sem vann við að gefa út bækur eða halda tónleika – eða einu sinni prófarkarlesa. Þegar ég var unglingur með rokkstjörnudrauma botnuðu þeir alltaf í því að ég gæti kannski rekið hljóðfæraverslun þegar ég yrði stór. Foreldrar mínir mættu öllu tali um bókmenntalíf með raunsæinu – listir væru áhugamál og maður þyrfti að fara í skóla og „ná sér í menntun“ eða að minnsta kosti „hafa eitthvað í bakhöndinni“ og stundum varð talið pirraðra og meira í ætt við „hættu þessum draumórum“. Það var ekki af neinni fúlmennsku – þau þekktu ekki frekar en ég neitt fólk sem hafði lifibrauð sitt af listum. Fólk vann – það hafði fyrir því – og það var ekki alltaf gaman. Þau vissu líka af eigin reynslu að lífið gat verið barningur – pabbi hafði verið að miklu leyti á eigin fótum frá því fyrir landspróf og mamma varð ólétt átján ára. Þau voru raunsæ vegna þess að þau þurftu að vera það. En svo stóðu þau vel að merkja með mér hvað sem leið úrtölum – og oft ískyggilegu ástandinu á mér – einsog þau hafa alltaf gert. En það var enginn í mínu lífi sem hafði „óbilandi trú“ á mér eða bara hvatti mig áfram formálalaust. Ég man líka eftir augnablikinu sem ég ákvað að sama hvað það kostaði ætlaði ég að skrifa. Það var þremur árum síðar. Ég hafði verið á puttaferðalagi með fjölkærri kærustu um Evrópu, sofið í runnum fyrir utan bensínstöðvar og étið ógrynni af núðlusúpu og bagettum, þegar kærastan dömpaði mér í Genf. Ég var á síðustu aurunum mínum og vissi ekkert hvað ég ætti að gera. Í tíu daga bjó ég undir Cornavin lestarstöðinni með öðrum heimilisleysingjum borgarinnar – í horninu mínu var pönkari með hund og eldri kona sem gaf alltaf hundinum að borða áður en pönkarinn vaknaði. Á daginn ráfaði ég um borgina í ástarsorg, fullkomlega stefnulaus í lífinu. Mánuðina á undan hafði ég upplifað nóg til þess að fylla nokkra doðranta af hálfsjálfsævisögulegu rugli og þegar ég fann loks stefnu var það þessi, að skrifa um það. Sem ég gerði reyndar aldrei nema að litlu leyti – ætli ég hafi ekki ætlað að spara það í eitthvað einlægt opnuviðtal, sem svo aldrei kom. Síðustu aurana notaði ég til þess að kaupa lestarmiða til Berlínar þar sem norsk vinkona mín bjó í stórri kommúnu. Hún leyfði mér að búa á gólfinu í herberginu sínu. Ég fékk mömmu til að selja rafmagnsgítarinn minn svo ég ætti fyrir mat og senda mér ritvél sem var til heima – þetta er nógu langt síðan til þess að það var í alvöru bara skynsamlegasti kosturinn – og hófst handa. Við þessa ritvél sat ég í þrjá mánuði þar til rafmagnsgítarspeningarnir kláruðust og svo yfirdrátturinn og ég hraktist heim í unglingaherbergið mitt til að borga skuldirnar áður en þær féllu á foreldra mína. Ég fór aftur að vinna í rækjunni og á sambýli og sá til þess að þau – sem voru ábyrgðarmenn – hættu að fá gula miða í mínu nafni. Og skrifaði meðfram. Snemma um vorið flutti ég til Færeyja þar sem ég var atvinnulaus við skriftir í tvo mánuði og vann síðan í skipasmíðastöð og skrifaði meðfram í þrjá mánuði til viðbótar. Um haustið skráði ég mig í íslensku í HÍ en mætti sama og ekkert – nema í ritlistina hjá Nirði – og var annars heima eða á Þjóðarbókhlöðunni að skrifa. Þann vetur bjó ég í litlu risherbergi við Hringbrautina sem var allt undir súð. Það var klósett fram á gangi en ekkert baðherbergi – ég fékk af og til að fara í sturtu hjá vinum og kunningjum en var annars mest bara illa lyktandi. Og skrifandi. Ég var ekki með ísskáp og ef égát ti mat hengdi ég hann út um gluggann – oft fraus hann og þá setti ég hann inn í fataskáp þar sem hann morknaði. Mér hafði tekist að drekka út öll námslánin mín á fyrstu vikunum og lifði mest á hrísgrjónum með sojasósu og bakkelsi sem Orri vinur minn færði mér eftir vaktir í bakaríi. Leigan var tíu þúsund á mánuði og ég þurfti oft að fara og selja eitthvað – allt geisladiskasafnið mitt fór til Valda – til þess að eiga fyrir henni. Fyrir jólin gaf ég út þrjú smásagnahefti sem ég prentaði sjálfur um nætur í fjölritunarvél á skrifstofu sem vinur minn hafði aðgang að og seldi síðan á Laugaveginum til þess að eiga fyrir tóbaki og hrísgrjónum. Þegar jólaprófin komu átti ég ekkert erindi í nein próf, fékk engar einingar og yfirdrátturinn gjaldféll – náminu var sjálfhætt. Ég fór að vinna á sambýli í Garðabæ og skrifaði meðfram. Það var um þetta leyti sem ég hitti fyrst Kristján B. Jónasson. Vinur minn, prófessorasonur úr vesturbænum, vann við umbrot hjá Máli og menningu og við höfðum einhvern tíma hitt hann saman. Þegar ég mætti á fyrirlestur um verk Michels Houellebecq hjá Alliance Francaise og var Kristján þar. Áður en fyrirlesturinn byrjaði spurði Kristján hvort ég væri ekki ungskáldið sem hann hefði hitt og hvað ég væri að fást við. Ég sagðist vera byrjaður að þýða Allen Ginsberg og bætti því svo hratt við að eitthvað yrði maður að fást við. Það vantaði bara að ég henti í eitt „ef mig skyldi kalla“. Þegar fyrirlesturinn svo hófst kom í ljós að hann var allur á frönsku, en ég hafði sest þannig að ég komst ekki með góðu móti út – a.m.k. ekki án þess að vekja athygli á sjálfum mér – og því sat ég bara allan tímann og þóttist skilja hvað fram fór. Um þetta leyti komst ég aftur í fjölritunarvélina góðu og prentaði fyrstu ljóðabókina mína, Heilagt stríð , sem ég seldi mest á börum fyrir bjór og tóbaki og hrísgrjónum. Þá var heitið „Nýhil“ sennilega þegar orðið til en bókin var ekki merkt neinu útgáfufélagi enda Nýhil enn sem komið er ekkert nema þetta heiti og kjaftagangur milli mín, Hauks Más Helgasonar, Gríms Hákonarsonar og Hallvarðs Ásgeirssonar. Um sumarið var yfirdrátturinn greiddur og tími til kominn að safna nýjum skuldum. Ég fór til Þrándheims þar sem ég leigði herbergi í kommúnu og hélt áfram að þýða Ginsberg – mest atvinnulaus en tók nokkra daga í garðvinnu, man ég. Þegar ég var kominn á vonarvöl sótti ég um bætur og notaði þær svo til þess að komast til Helsinki þar sem mér hafði verið lofað hálfu starfi sem kokkur á leikskóla í Helsinki og búsetu á eldhúsgólfinu hjá vini mínum – sem bjó í nemendaíbúð með tveimur öðrum (sem voru eitthvað minna hrifnir af manninum sem bjó alltíeinu á eldhúsgólfinu þeirra). Seinna fékk ég vinnu líka við að þrífa káeturnar hjá Viking Line – og var þar eini hvíti maðurinn í 80 manna starfsliði, sem segir sennilega sitt um kjörin. Ég kláraði Ginsberg þýðingarnar, fékk synjun á þær frá Kristjáni – sem sagði þær þó vel gerðar – þýddi þá Sagði Mamma eftir Hal Sirowitz, sem ég taldi miklu markaðsvænni bók, var boðið heim um jólin í boði foreldra minna og það fyrsta sem ég sá í bókabúðinni var Sagði Mamma eftir Hal Sirowitz í þýðingu Aðalsteins Ásbergs. Ég hafði ekki einu sinni náð að senda mínar þýðingar inn. Þegar ég kom til Ísafjarðar var mér gert ljóst að gulu miðarnir í póstkassa foreldra minna væru orðnir fullmargir og mér því eiginlega ekki fært að fara aftur út til Helsinki eftir jól – enda hvorug vinnan lengur í boði, ég hefði farið upp á von og óvon. Mamma gat hins vegar útvegað mér vinnu sem afleysingakennari í Grunnskólanum, sem ég þáði. Þar vann ég líka sjaldan fram yfir tvö á daginn og gat þá farið á Sjallann þar sem ég sat við skriftir og keðjureykingar fram á kvöldmat og kom svo aftur eftir kvöldmat og skrifaði og reykti fram að lokun. Á þessum tíma er ég að klára aðra ljóðabók og langt kominn með Hugsjónadrusluna . Í ágúst komu Heimsendapestir út. Enn og aftur prentaði ég hana sjálfur en nú í alvöru prentsmiðju – H-Prent á Ísafirði – og það að degi til. Kápuna, sem var heil ljósmynd, framkallaði Dóri vinur minn á verkstæði Listaháskólans í Helsinki – ég borgaði efniskostnað og batt bókina inn. Þetta var fyrsta bókin mín sem ég sendi fjölmiðlum og sú fyrsta sem fékk umfjöllun. Þetta var líka fyrsta bókin sem kom út undir merkjum Nýhils. Um haustið fékk ég aftur námslánayfirdrátt og flutti til Berlínar til að læra amerískar bókmenntir við Freie Universität. Ég náði aldrei svo langt að koma inn í þann skóla en mætti í nokkra þýskukúrsa og tórði á þriggja mánaða námslánum í níu mánuði. Þennan vetur blómstraði Nýhil – það bættust við margir félagar og við héldum mánaðarleg listakvöld á stað sem hét Versuchstation. Við leigðum staðinn og greiddum leiguna með því að reka barinn – en við fengum ágóðan af hverjum seldum bjór. Við reyndum að fá styrk frá sendiráðinu – þetta voru íslenskir menningarviðburðir – til þess að kovera leiguna svo við gætum átt bjórpeningana en fengum synjun. Það var líka þennan vetur sem ég fékk fyrstu dómana mína sem voru í ökkla eða eyra – fimm stjörnur og hauskúpur og ekkert annað. Í janúar fékk ég svo synjun um listamannalaun. Síðustu mánuðina áttum við Haukur Már – sem bjuggum saman – ekki fyrir leigunni og vorum búnir að fá nokkrar útburðartilkynningar þegar ég flutti út og fékk inni hjá vinkonu minni síðustu vikuna. Grímur Hákonarson, einn af stofnmeðlimum Nýhils, bjó í Prag á þessum tíma en kom nokkrum sinnum að heimsækja okkur í Berlín. Hann fékk þá hugmynd að Nýhilkvöldin væru styrkvæn og spurði hvort hann ætti ekki að sækja um styrk til þess að gera eitthvað með þetta – sem hann svo gerði. Um vorið fékkst þessi styrkur og alltíeinu vorum við komin með pening til þess að ferðast um landið og halda „ljóðapartí“. Sem við vissum enn ekkert hvernig við ættum að útfæra. Eina færa leiðin heim – fjárhagslega – reyndist vera að taka rútu til London og fljúga þaðan. Sem við og gerðum. Þegar heim var komið byrjuðum við að safna saman öllu fólki á okkar reki sem við höfðum áhuga á og þá fjölgaði enn meira í Nýhil svo skyndilega vorum við orðin ansi stór hópur. Á túrinn fóru auk okkar fjórmenninganna, Örvar Smárason, Kristín Eiríksdóttir, Steinar Bragi, Ófeigur Sigurðsson, Valur Brynjar Antonsson, Þórdís Björnsdóttir, sænska skáldið Sara Hallström, Pétur Már Guðmundsson, Böðvar Yngvi Jakobsson, Inga Björk Ingadóttir, Haukur Ingvarsson, Bjarni Klemenz Vesterdal. Og ég er ábyggilega að gleyma einhverjum. Ég gaf líka út þriðju ljóðabókina mína, Nihil Obstat , sem var prentuð á eigin kostnað hjá Letri, sem þá var til húsa í lítilli geymslu í fjölbýlishúsi. Við töluðum gjarnan um Nýhil sem möguleikaverksmiðju. Mörg okkar kunnu eitt og annað fyrir sér í útgáfu – höfðu vit á pappír eða umbroti eða hönnun eða myndlist eða yfirlestri eða prófarkarlestri eða dreifingu eða voru bara dugleg að halda á kössum. Svo skiptum við með okkur verkum og dreifðum þunganum svo enginn þyrfti að sligast. Fyrstu árin – og lengst af – þurftu samt allir að borga sína eigin prentun. Nýhil hafði engin fjárráð og flestir komu út í mínus. Þetta gerðum við ýmist af því okkur langaði ekki inn á stóru forlögin eða að vera undir þá mafíu komin eða af því við fengum ekki inni í þeirri sömu hlýju – og stundum var bara dagamunur á því hver ástæðan var. Ég bjó í Reykjavík um haustið og vann á Grund meðfram skrifum. Leigði kjallaraíbúð í Hlíðunum með Varða. Ég hafði fengið synjun á Ginsberg þýðingarnar hjá öllum helstu forlögum en eftir ítrekun hafði Kristján B. fallist á að ráða mig frekar til þess að þýða Heimska hvíta karla eftir Michael Moore, sem var á þessum tíma langstærsta verkefni sem ég hafði fengið frá nokkurri menningarstofnun, og það best launaða. Í kjölfarið fékk ég líka smá aukapening fyrir að skrifa greinar í Mannlíf fyrir eiginkonu Kristjáns, Gerði Kristnýju, og fyrir að skrifa klámsögur í Bleikt & Blátt, sem ég hafði komist í í gegnum Hauk Ingvarsson, en vinur þess prúða manns var ritstjóri þar. Bleikt & Blátt var vel að merkja á þessum tíma eina tímaritið á Íslandi sem borgaði fyrir frumsamdan skáldskap – TMM var í stuttu fríi. Þrátt fyrir allt þetta og vinnuna á Grund náði ég illa endum saman og var almennt bara sorgmæddur og leiður og kom litlu í verk. Um áramót flutti ég aftur vestur þar sem ég fékk vinnu sem næturvörður á Hótel Ísafirði. Það var áður óþekktur lúxus að geta skrifað í vinnunni. Í þetta sinn fór ég ekki aftur í unglingaherbergið mitt heldur leigði nær gluggalausa kjallaraíbúð við Fjarðarstræti – með sístífluðu klósetti og gólfum sem voru veggfóðruð (gólffóðruð?) með gömlum Andrésar Andar blöðum. Árið 2004 byrjaði svo á annarri synjun um listamannalaun. Um vorið fékk ég hins vegar þau skilaboð frá Kristjáni B. að Mál og menning geti hugsað sér að gefa út skáldsöguna mína. Ég var líka í mjög góðri aðstöðu á hótelinu til þess að klára hana og þegar hún kom út – bók hjá „alvöru“ forlagi – var ótrúlega margt sem breyttist nánast á einni nóttu. Ég man t.d. eftir því að mamma eins vinar míns í Reykjavík, sem hafði aldrei litið við mér og raunar þótt ég frekar lúseralegur, vildi alltíeinu fara að bjóða mér í mat með fjölskyldunni. Einar Már nikkaði til mín á götu. Einar Kárason kom að máli við mig á bar (reyndar aðallega til að segja mér að ég væri óttalegur asni, en það er önnur saga). Auður Jónsdóttir hringdi í mig til að segja mér að hún hefði ekki skemmt sér svona vel yfir bók síðan hún las Aulabandalagið. Ég fór í viðtöl og það voru teknar af mér myndir. Og svo framvegis. Ég man líka að mér var í fyrsta sinn boðið í partí þar sem meirihluti gestanna hafði verið í fjölmiðlum. Það var tíu ára útgáfuafmæli Gerðar Kristnýjar. Þar lenti ég í samræðum við tvo meiriháttar menningarpostula sem voru að hrósa skáldsögunni minni á sama tíma og þeir útskýrðu fyrir mér að ég væri vonlaust ljóðskáld þegar Sjón bjargaði mér með því að vinda sér upp að mér til að spyrja hvar hann gæti komist yfir Nihil Obstat og lýsti yfir hrifningu sinni á Heimsendapestum . Ég endaði samt á að drekka mig pöddufullan og fara svo að verja rétt vændiskvenna til að selja sig við einhverjar miðaldra konur (sem voru sennilega alls ekki jafn gamlar og mér fannst þær þá). Við fremur lítinn orðstír, einsog gengur. Hvað um það. Mér fannst ég fara með himinskautum – þótt dómar væru enn sem fyrr allir í ökkla eða eyra. Svo kom 2005 og árlega listamannalaunasynjunin kippti mér aftur niður á jörðina. Salan á Hugsjónadruslunni hafði líka verið talsvert undir væntingum (allt undir þúsund, sagði Kristján, að væru vonbrigði – hún seldist í 700 eintökum – og ég reyndist í skuld við forlagið). Um vorið var mér hins vegar í fyrsta sinn boðið að lesa upp í útlöndum. Auður Jónsdóttir – þá nýbakaður handhafi Íslensku bókmenntaverðlaunanna – bauð mér á HC Islandus hátíðina í Kaupmannahöfn og bjó ég hjá henni og manni hennar í nokkra daga og las upp ásamt fleiri Íslendingum og nokkrum Dönum á einhverri krá. Ferðin er eftirminnileg þótt uppákoman hafi ekki endilega verið það og mér þótti gaman að kynnast Auju og Tóta. Sumarið áður hafði ég hóað í nokkur ungskáld, kunningja mína, til þess að fá ábendingar um erlend ljóðskáld sem væru á lífi – samtímafólk – á þessum tíma var þetta ekkert sem maður gat gúglað og svo sannarlega voru þau ekki til í bókabúðum. Einn þeirra benti mér á Christian Bök sem ég fékk strax mikla dellu fyrir og fannst hreinlega lífsspursmál að ég myndi hitta. Í einhverju bríaríi skrifaði ég svo styrkumsókn til þess að halda „alþjóðlega ljóðahátíð“ í Reykjavík í nafni Nýhils og um jólin þegar ég fékk lítinn styrk sótti ég um annan og fékk hann líka. Hátíðin var haldin sumarið 2005 en peningarnir dugðu bara rétt svo fyrir fimm flugmiðum og tveimur herbergjum á gistiheimili. Hin skáldin gistu hjá vinum – Billy Childish, sem var kostaður af Sjóklæðagerðinni Ægi upp í peninga sem þeir skulduðu víst Offa (gegn því skilyrði að farið yrði leynt með styrkinn, en leyndin hefur fyrnst!), bjó heima hjá Offa, sem flutti út til að rýma fyrir honum. Christian Bök bjó heima hjá einhverri vinkonu Vals Brynjars minnir mig. Og hvort Anna Hallberg fékk ekki inni í Norræna húsinu. Christian þurfti að fá greiðslu sem hann fékk í beinhörðum peningum beint af ólöglega barnum sem við rákum í Klink og bank. Aðrir fengu ekki greitt, það fékk enginn að fara út að borða eða neitt annað – og ég tók mér ekki krónu í laun, enda var hún ekki til. En það var ógeðslega gaman. Sennilega var það um vorið sem ég gafst upp á Andrésar Andar íbúðinni og keypti mér íbúðina í Öldunni – á 100% húsnæðislánum í boði Framsóknarflokksins, enda átti ég ekki fyrir neinni útborgun. Ég gafst líka upp á næturvarðarstarfinu eftir miklar svefntruflanir og tilboð um vinnu sem blaðamaður á Bæjarins besta. Þar vann ég 8-17 alla virka daga en skrifaði fram á nótt. Núðlupakkinn hafði sennilega tvöfaldast í verði þegar hér er komið sögu en ég var staðráðinn í að láta það ekki buga mig. Um haustið gaf Nýhil út ljóðabókaseríuna Norrænar bókmenntir – níu bækur eftir jafn mörg skáld – sem var styrkt af Landsbankanum, sem keypti einn pakka fyrir hvert bókasafn á landinu og koveraði þannig kostnaðinn. Á þessum tíma var kominn upp sá draumur að Nýhil gæti orðið alvöru forlag og jafnvel greitt höfundum fyrir verk sín frekar en að þeir þyrftu að borga fyrir að koma þeim út. Loks bar til þetta ár að forlagið Bjartur réð mig til þess að reka fyrir sig undirforlag sem fékk nafnið Traktor. Díllinn var að ég fengi 500 þúsund krónur sem áttu að kovera allt – hvað gæti ég gert með þetta? Ég leysti það með því að borga sjálfum mér engin laun, en ráða sjálfan mig á tæplega hálfum taxta til þess að þýða Móðurlausa Brooklyn eftir Jonathan Lethem (sem ég, bláeygur, hélt að yrði hittari) og eyða restinni í að gefa út fyrstu skáldsögu Ófeigs Sigurðssonar, Áferð . Í sem stystu máli seldist Áferð lítið sem ekkert, Móðurlaus Brooklyn var stoppuð á leið til útgáfu og forlagið var lagt niður um áramót. Árið 2006 byrjaði kunnuglega – á synjun um listamannalaun. Um sumarið styrktu foreldrar mínir mig um tveggja vikna dvöl í íbúð á Laugavatni svo ég gæti lokið við Eitur fyrir byrjendur . Kristján var búinn að lesa uppkast og gefa athugasemdir en það vantaði eitthvað uppá. Ég var í góðu yfirlæti á Laugavatni – ef frá er talið að varla var hægt að fara úr húsi fyrir flugum – fannst ég mjög „alvöru“ og kláraði bókina vandræðalaust. Á leiðinni til baka kom ég við í borginni og skilaði lokahandritinu á USB-lykli – og skildi Kristján þannig að bókin kæmi út um haustið. Tæpum tveimur mánuðum síðar las ég samantekt um jólabókaflóðið í Fréttablaðinu þar sem bókar minnar var ekki getið. Ég skrifaði Kristjáni og spurði hverju sætti og hann sagðist þá ekki telja bókina hæfa til útgáfu og best væri að bíða. Ég held enn í dag að ég hafi hreinlega gleymst – fallið milli skips og bryggju í einhverju Eddu-miðlunar kaosi – í öllu falli hafði enginn þá haft samband við mig vegna bókarinnar í heila tvo mánuði og athugasemdirnar sem ég hafði fengið á fyrsta handritið voru alls ekki mjög róttækar og úr þeim hafði verið unnið. Ég var bara að bíða eftir að fá próförk. Svo örugg var sem sagt staða mín „inni í hlýjunni“. Ég tók þessu mjög illa og varð upp úr því forlagslaus á ný. Eða – „forlagslaus“ – því Nýhil var að gefa út skáldsögur í fyrsta sinn þessi jól, eftir Bjarna Klemenz og Hauk Má, og ég náði – með fádæma klíkuskap – að troða mér þar inn og fá bókina útgefna. Ég fékk meira að segja 50 þúsund króna fyrirframgreiðslu. En mestu skipti að bókin kom út. Hún seldist aðeins verr en Hugsjónadruslan en fékk betri dóma – og var fjórum árum síðar fyrsta bókin mín sem kom út í þýðingu. Löngu seinna keypti svo Mál og menning aftur réttinn af bókinni og restina af lagernum. Þetta haust var líka önnur ljóðahátíð Nýhils haldin á svipuðum forsendum og sú fyrsta – með heimagistingum og skítareddingum – en í þetta sinn hafði Landsbankinn aftur látið okkur fá einhverja smápeninga í gjörninginn. Auk þess fékk ég mitt annað þýðingagigg – að þýða ævisögu Eminems eftir Anthony Bozza. 2007 byrjaði einsog svo oft á synjun um listamannalaun. Við Nadja vorum hins vegar byrjuð að slá okkur upp svo það kannski fékk minna á mig – mér fannst ég ósigrandi og var farinn að venjast þessum synjunum hvort eð er. Nadja hafði komið og heimsótt mig um jólin – ég fór til Helsinki að hitta hana í febrúar, við trúlofuðum okkur, ég flutti út í apríl og við giftum okkur í ágúst. Við höfðum vel að merkja þekkst síðan við vorum fimmtán ára – þótt við hefðum aldrei verið par. Þegar ég flutti út gerði ég enga tilraun til að sækja um verkamannavinnu heldur sendi pósta á alla sem ég þekki í von um „verkefni“. Nú var að duga eða drepast. Ég átti enn peningana sem ég hafði fengið fyrir Eminemþýðinguna og svo var alltaf yfirdrátturinn – krónan var sterk og íbúðin okkar lítil og ódýr. Og ég var heldur ekki einn, heldur vorum við nú í liði (þótt Nadja væri bara á námslánum). Ég fékk líka um þetta leyti fyrstu viðurkenninguna á ferlinum – þarna á níunda starfsári. Það var Rauðu fjöðrin – stílverðlaun lestrarfélagsins Krumma – og svo skömmu síðar aukaverðlaun í Ljóðstafi Jóns úr Vör. Harkið leysti ég með því að þýða Heljarþröm eftir Anthony Horowitz og Súkkulaði eftir Joanne Harris. Bjartur ákvað auk þess að gefa út Móðurlausa Brooklyn (eftir að skipt hafði verið um yfirstjórn í því fyfirtæki) – en því fylgdu eðlilega ekki neinir meiri peningar. Hins vegar tókst mér að selja fyrirfram talsvert af eintökum af fimmtu ljóðabókinni minni, Þjónn, það er Fönix í öskubakkanum mínum! (sjöttu ef Handsprengjan er talin með – en hún var samstarfsverkefni og svolítið spes). Ég seldi hana á þúsundkall stykkið og sendi út milljón tölvupósta – spammaði sama fólkið margsinnis, alla póstlista sem ég fann – og þótt það væri lítil framlegð af hverju seldu eintaki þá kom ég í fyrsta sinn ekki út í mínus eftir útgáfu og þurfti ekki að leggja út fyrir prentkostnaði fyrirfram. Þá var þetta fyrsta ljóðabókin mín sem fékk frekar jákvæða dóma en neikvæða. Við þetta bættist að fékk ég líka að lesa aðeins upp í Helsinki – sem var þá oft greitt – og kynnti Ísland í skólum og skrifaði aðeins í útlensk blöð í krafti þess að ég væri „íslenskur rithöfundur“ – sem var nokkuð sem ég gerði alls ekki mikið á Íslandi. Þá fékk ég líka upplestra í Danmörku og Noregi. Það var á sólardaginn – og fullt hús af sólarpönnukökugestum frá öllum heimshornum í íbúðinni okkar í Helsinki – að mér bárust þau boð að ég hefði fengið sex mánaða listamannalaun. Á þessum tíma var þetta ekki á netinu heldur var sent bréf á lögheimili mitt hjá foreldrum mínum á Íslandi og mamma hringdi í mig til að spyrja hvort hún ætti að opna umslagið. Eftir níu ára þjark við ritstörf ofan á launavinnu – frá sambýlum og rækjuverksmiðjum yfir í hótel, elliheimili og héraðsfréttablaðið – hafði mér mér tekist að koma frá mér tveimur skáldsögum og sex ljóðabókum og nú var loks farið að rofa svolítið til. Ofan í sex mánaða listamannalaun fékk ég síðan Íslensku þýðingarverðlaunin fyrir Móðurlausa Brooklyn . Þá höfðu ráðamenn á forlaginu Uppheimum haft samband og spurt hvort ég gæti hugsað mér forlag þeirra til framtíðar. Mér leist ágætlega á það og við gerðum samkomulag um að ég myndi þýða fyrir þá framhald Súkkulaðis , og þeir myndu gefa út sjöundu ljóðabókina mína og Ginsberg þýðingarnar þá um haustið – og svo yrði ég áreiðanlega tilbúinn með skáldsögu ári síðar. Þá brá svo við að Silja Aðalsteinsdóttir var ráðin til Máls og menningar – ég hafði aðeins skrifað fyrir Tímaritið (eina grein og tvo ritdóma minnir mig) og hún hafði fylgst með bókunum mínum og spurði hvort ég myndi ekki „fylgja sér“ yfir á forlag. Ég sagði henni einsog var að ég hefði verið með munnlegt samkomulag við Uppheima en mér hugnaðist betur að fylgja henni, enda hafði ég kynnst henni – og hún oft klappað mig upp og staðið með mér þegar aðrir gerðu það ekki. Ég samþykkti því að fara með skáldsöguna til hennar – og fannst satt að segja talsverð upphefð að. Bæði að það væri haft samband við mig svona – og að það væri Silja sem gerði það. Ég hafði samband við Uppheima og lét vita að ég myndi fylgja Silju að ári. Uppheima slaufuðu þá Ginsberg, Súkkulaðiframhaldinu og ljóðabókinni. Þetta kom mér kannski ekki alveg í opna skjöldu en ég hafði þó vonað að ég myndi a.m.k. halda þýðingarverkefnunum. Ég sagði Silju þetta í panikki og hún kom því til leiðar – dásamlegi skriðdrekinn sem hún er – að forlagið tók upp slakann, gaf út Ginsberg (sem það hafði hafnað 2002, 2003 og 2005), ljóðabókina Ú á fasismann og réðu mig til að þýða barnabók eftir hinn þá lítt þekkta norska höfund, Jo Nesbø, Doktor Proktor og prumpuduftið . Silja bætti svo um betur persónulega og keypti fyrir mig flugmiða til Íslands svo ég gæti komið og lesið úr bókinni. Eftir mjög magurt fyrsta ár í Helsinki var útlit fyrir að nú væri að birta til. En þá kom krónufallið – sem byrjaði eiginlega akkúrat um sama leyti og ég fékk listamannalaunabréfið og náði svo sínum trylltustu hæðum um haustið – og íslenski gjaldeyririnn minn fuðraði bara upp, svo sennilega vorum við enn verr stödd fjárhagslega, þótt innkoman ætti að heita meiri og ferillinn í meiri blóma, a.m.k. á pappírunum. 2009 fékk ég aftur 6 mánaða ritlaun og var kampakátur. Nadja var líka ólétt og ég var farinn að koma talsvert fram á ljóðahátíðum hér og þar í Evrópu og N-Ameríku og þótt tekjurnar af því væru æði mismiklar þá naut ég samt ákveðinnar velgengni, að mér fannst í fyrsta sinn á þessum þá tíu ára ferli. Allar tekjur í erlendum gjaldeyri voru líka enn vel þegnar. Ég þýddi tvær skáldsögur eftir Lee Child, þær fyrstu á íslensku og um sumarið fluttum við til Svíþjóðar þar sem Nadja ætlaði að taka mæðraorlofið og skömmu síðar fór ég að þýða reyfarann Spádómar Nostradamusar eftir Mario Reading. Það var að mörgu leyti hræðileg reynsla. Í fyrsta lagi fannst mér bókin skelfileg – ég hefði aldrei átt að taka verkefnið að mér – og í öðru lagi þá var Aram Nói nýfæddur og ég svaf mjög lítið og vorkenndi sjálfum mér mjög mikið að vera í þessu eilífa harki – alltaf blankur, alltaf í panikki, fannst einsog ég gæti aldrei eirt mér augnabliks hvíldar án þess að sökkva til botns einsog steinn. Að ef ég drægi andann myndi ég vakna aftur í rækjuverksmiðjunni. Sennilega er líka ekkert einsog barneignir í því að kveikja á panikkinu í manni – ég get alveg verið svangur, ég get alveg étið núðlusúpur og neitað mér um ýmislegt, en ég legg það ekki jafn glatt á börnin mín. Mér hafði tekist að klára Gæsku áður en við fluttum og hún kom út um haustið en fékk sannkallaða útreið í Kiljunni. Kolbrún og Páll Baldvin voru í essinu sínu, tóku okkur Óttar Martin saman í kippu – við fengum ekki sitthvorn dóminn, heldur var báðum stillt upp saman og sagt: þessar bækur, þær eru drasl. Og hlegið ofan í það. Og þá hataði ég bókmenntalífið næstum jafn mikið og ég elskaði nýfæddan son minn (samt bara næstum). Afleiðingin var sú að ég kreisti úr mér þessari reyfaraþýðingu – mjög hægt, af því mér bókstaflega sortnaði fyrir augum við vinnuna, hataði hvert orð sem ég las og þýddi, fansnt bókin niðurlæging við sjálfan mig og bókmenntirnar og allt sem var fagurt, en ég kreisti samt, þetta var einsog að vera með svæsið andlegt harðlífi – og ýtti svo á send um leið og ég var búinn án þess einu sinni að lesa það yfir. Ég bara megnaði það ekki. Silja– sem þá hafði verið ötull bandamaður minn í þessu stríði í nokkur ár, og komið því til leiðar að ég fengi aðeins hærri taxta meira að segja – húðskammaði mig fyrir þetta. Sennilega ekki jafn mikið og ég átti skilið en úr varð samt að ég myndi taka mér langt hlé frá þýðingum, sem höfðu þó verið bróðurparturinn af tekjum mínum í tvö og hálft ár. Ég hef enga skáldsögu þýtt síðan. 2010 hófst svo á því að ég fékk synjun um listamannalaun. Nýbúinn að semja um að ég væri hættur að þýða. Nýorðinn faðir. Nýbúinn að gefa út skáldsögu sem seldist í 600 eintökum, sem dugði ekki til að ég fengi krónu umfram fyrirframgreiðsluna frá árinu áður (og skildi mig raunar eftir í mínus gagnvart forlaginu, enn eina ferðina). Bara þrjár af bókum mínum – sem voru tíu talsins – höfðu komið út annars staðar en hjá Nýhil, forlaginu sem ég stofnaði sjálfur og rak ásamt fleirum, og sem kostuðu mig í nær öllum tilvikum meiri pening en ég fékk fyrir þær. Út árið lifðum við á mæðraorlofspeningunum hennar Nödju. Í ágúst fékk ég að skrifa pistla í Smuguna fyrir einhverja smápeninga og svo bókadóma í Spássíuna – sem kom út kannski fjórum sinnum. Enn hafði ég líka smáplokk af greinaskrifum og upplestrum erlendis. Á þessum tíma var ég óútgefin utan Íslands en kominn með nokkuð orðspor í ljóðakreðsum erlendis fyrir greinaskrif og upplestra á hljóðaljóðum. Ég skrifaði líka pistla í Reykjavík Grapevine um ljóðlist – sem ritstjórinn viðurkenndi að væri sennilega verst launaða giggið í bænum. Og svo fékk ég óvæntan styrk frá Fjölís. En mestmegnis vorum við bara mjög fátæk. Töldum hvern einasta eyri. Um vorið fluttum við til Oulu þar sem Nadja skipti úr mæðraorlofi yfir í námslán og þann vetur var stærsta rifrildið okkar út af Scanpan pönnu sem ég hafði keypt án þess að hafa samráð við Nödju. Og var áreiðanlega misráðið en ég man líka hvað mér fannst mikið til mín koma þegar ég gekk út úr búðinni með þessa helvítis pönnu. Mér fannst ég vera maður. Maður sem getur keypt pönnu, það er ekki svo ónýtt. Síðan mætti ég Nödju á strætóstoppistöð og hún spurði hvað þetta væri og ég skammaðist sín svo mikið að ég fór næstum að grenja. Og varði mig svo með kjafti og klóm. Í október kom ég inn ljóðmyndinni Höpohöpö Böks á Zebra Poetry Film Festival í Berlín. Hún vann til verðlauna – Special Mention – sem voru því miður einu verðlaunin sem fylgdu engir peningar. Um haustið fór ég í feðraorlof – verandi sjálfstætt starfandi og fátækur fékk ég lágmarksgreiðsluna. Mig minnir að upphæðin hafi verið 79 þúsund krónur á mánuði (nóg fyrir 8 Scanpan pönnum). Ég var heima með Aram fram til 17 á daginn og skrifaði meðan Aram svaf. Svo kom Nadja heim úr skólanum og ég fór á bókasafnið og skrifaði ótruflaður til 19 og fór þá heim – yfirleitt var ég búinn að elda kvöldmatinn áður en ég fór. Ég ætlaði að vera í sex mánuði en gafst upp eftir þrjá. Sama haust kom líka fyrsta bókin mín út erlendis. Þýska forlagið Kozempel & Timm gaf út Eitur fyrir byrjendur . Hún og IWF! IWF! OMG! OMG! sem er safn af ljóðum úr ólíkum bókum og kom út árið eftir eru einu bækurnar sem það forlag gaf út. Ég fékk 9 mánaða ritlaun 2011. Á tólf árum – hafandi skrifað þrjár skáldsögur, sjö ljóðabækur, þýtt tólf bækur og tvö leikrit, skrifað óteljandi greinar, og ritdóma stofnað smáforlag og ljóðahátíð, og performerað hljóðaljóð um allan heim – hafði ég fengið samanlagt heilt ár af listamannalaunum. Að fá nú níu mánuði á launum var eiginlega engu líkt. Ég var búinn að vera svo reiður og vonsvikinn svo lengi – fannst í alvöru að ég væri ekki að þessu fyrir neinn nema sjálfan mig og þetta væri farið að kosta mig og fjölskyldu mína alltof mikið. Með einu pennastriki breyttist þetta. Að minnsta kosti út árið (því þegar maður er vanur að eiga ekkert duga 9 mánaða laun manni auðveldlega í 12 mánuði).
Peningana notaði ég meðal annars til þess að fara til Jurbarkas um haustið í rannsóknarferð vegna Illsku (en þangað hafði ég fyrst farið til að flytja fyrirlestur og lesa hljóðaljóð 2008) og svo til þess að fara í tveggja vikna residensíu í Visby á Gotlandi jólin eftir (en ég komst ekki frá á neinum öðrum tíma – fór annan í jólum). Svo notaði ég þá líka til að gefa út á eigin kostnað lítið kver um höfundarrétt sem kom út á vegum SLIS (Sumarbúða Listhneigðra Sósíalista) um vorið. Um svipað leyti gaf svo finnskt forlag út safn ritgerða minna um ljóðlist – á ensku – undir nafninu Booby, Be Quiet! Ég fékk svo aftur 9 mánuði árið eftir. Ég var farinn að ferðast enn meira en áður til að lesa upp og farinn að skrifa fyrir merkilegri rit – meðal annars Klassekampen í Noregi, sem borgaði almennilega – og þótt mér liði af ýmsum ástæðum ekki vel þá hafði það ekki með efnahag minn að gera. Um vorið lauk ég við Illsku og sendi á forlag. Hún var, einsog einhver kannski man, mjög löng og Gæska hafði fengið óblíðar viðtökur í Kiljunni og lítið selst. Illska var líka undarleg að forminu til og á forlaginu var fólk hikandi um hvort það væri hægt að gefa hana svona út og þótt hún þætti held ég almennt góð – jafnvel „geggjuð“ – gekk mér illa að fá staðfest að hún kæmi út um haustið, sem mér þótti á þessum tímapunkti bókstaflega lífsspursmál að hún gerði. Þá keypti ég mér flugmiða til Íslands til að fara á fund – sem er enn sem komið er í lífi mínu það mest grand sem ég hef gert. Ég settist niður með Silju og Jóhanni Páli á Bræðraborgarstígnum, við ræddum málin – ég sagðist vilja fá þetta skriflegt, eða ég neyddist til að þreifa fyrir mér annars staðar líka – og við sættumst á að bókin kæmi út, en í svokallaðri royal-kilju – sem eru þessar stærri kiljur með aðeins betri pappír en sumarkiljurnar – af því hinu fylgdi óforsvaranlegur kostnaður (mér sárnaði svo dálítið að sjá að Ófeigur vinur minn kom út sama haust með álíka stóra bók í harðkápu, þótt ég gleddist auðvitað fyrir hans hönd). Þegar fyrsta upplagið svo seldist upp var hún endurprentuð í harðkápu (enn í dag hafa flestar skáldsögur mínar hjá MM/Forlaginu komið fyrst út í kilju – bara Gæska, Einlægur Önd og Hans Blær hafa komið fyrst í harðkápu).
Í ágúst þetta ár rak svo hval á fjörur mínar þegar ég fékk þriggja mánaða residensíu á Stykkishólmi með launum í dollurum – sem voru upprunalega miðuð við listamannalaun, en einsog gengið stóð fyrir hrun, svo í raun voru þau tvöföld, þrír mánuðir á verði sex. Þar var ég þegar Illska kom út og síðan hef ég ekki staðið í viðlíka harki og fyrstu 13 árin á ferlinum, og hvað þá fátækt einsog ríflega helminginn af þessum árum – þótt ég þurfi stundum að nurla til að ná saman fyrir reikningunum og lifi af og til um efni fram og hafi aldrei átt afgang. Það er bara normalt. Lífinu lauk auðvitað ekki heldur þarna – haustið 2012 – það heldur áfram að vera barningur bæði prívat og opinberlega, ég hef skilið og veikst og floppað, en líka tekið saman aftur, batnað og unnið fleiri sigra en ég á skilið. Það er alltílagi og kemur ekki málinu við.