Lækna-Tómas skrifar grein í Fréttablaðið í dag um hvað hann sé ofsóttur og vitnar út og suður. Einhver efaðist víst um kynhneigð hans. Öðrum fannst hann tala niður til Vestfirðinga (hann er fáránlega patróníserandi og ég skil ekki fólk sem sér það ekki – byrði hvíta mannsins er alveg að sliga hann). Svo klykkir hann út með að það sé fáránlegt að kalla hann óvin Vestfjarða – hann sem hafi þvælst hér út um öll fjöll og firnindi. Sem er svolítið einsog að koma því að – í umræðu um atvinnuhagsmuni blökkumanna – að maður eigi allar plöturnar með James Brown. Geta þessir negrar ekki bara spilað á bassa? Það er heiðarleg atvinna og öllum er sómi og gleði af henni. Tónlistin er þeim líka í blóð borin. *** Einhver sagði að það þyrfti að búa til klúbb eða hasstagg fyrir fólk sem er ekki hlynnt virkjunum en meikar samt ekki Lækna-Tómas. *** Það er lenska nútildags að krossfesta sjálfan sig með allra verstu dæmunum um það sem hefur verið sagt um mann. Allir sem „lenda í umræðunni“ – ég tala nú ekki um þeir sem kasta sér í hringiðuna einsog þeir séu eina fólkið á jarðríki sem hafi velt fyrir sér verðmætum og hagsmunum – fá ein og önnur ummæli um sig á kaffistofum samtímans, athugasemdakerfunum. Og innlitið á kaffistofuna er ekki alltaf gott – þar er allt látið flakka og menn spæna sig upp í alls kyns kjafthátt og vitleysu. Sennilega var þetta miklu verra einu sinni. Mig minnir að Ólafur Ragnar Grímsson hafi einhvern tíma verið spurður hvort hann tæki ekki „umræðuna á netinu“ nærri sér og hann hafi svarað því til að maður sem hefði mestmegnis stundað kosningabaráttu með því að þvælast milli beitningaskúra á Vestfjörðum færi nú ekki að fölna yfir kommentakerfunum. *** Það segir kannski sitt. Og ekki endilega allt gott um sveitunga mína. Eða – þessi talsmáti er kannski ekki alltaf taktískastur. Heimurinn er hrifnari af fínhreyfingum og kurteisi en hann var einu sinni. Sú stemning hefur ekki borist jafn rækilega hingað. Því miður og sem betur fer. *** Nú á að boða til „borgarafundar“ á Ísafirði í lok mánaðarins. Um laxeldi, Teigskóg og Hvalárvirkjun. Ég meika það ekki alveg heldur. Pétur Markan vinur minn í Súðavík talar um „herkvaðningu“ – þá fæ ég mikinn aulahroll. Í hvaða hjólför erum við að fara? Já – sérfræðingarnir að sunnan eru patróníserandi og já millistéttin í Reykjavík virðist ekki alveg á því að hagsmunir okkar skipti máli. En ég er ekki viss um að hergöngumarsar séu málið. *** Ég skil heldur ekki hvers vegna það er verið að rugla þessu öllu saman í eitt. Samgöngumálum, raforkumálum og atvinnumálum (þótt þau tengist í umhverfismálunum). Svona fundur er sennilega bara upp á stemninguna og ekkert annað. Það er enginn tími til þess að ræða þrjú svona stór mál á einu bretti (jú, ókei, Teigsskóg á ekkert að þurfa að ræða lengur – tvö mál). Það er verið að búa til falskan pakka – smygla öllu inn á einu bretti. *** Ég er mótfallinn Hvalárvirkjun. Ég held það hafi komið fram hér áður. Frábærir fossar og það allt. Ég væri hlynntur henni, hins vegar, ef það væri gulltryggt – með aðgerðaáætlun, fjármögnun, lögum, öllu sem til þarf – að hún myndi laga raforkuástandið í fjórðungnum. Þá mætti loka þessum fossum fyrir mér og Tómas gæti bara farið eitthvert annað að ganga – til dæmis í Hornstrandafriðlandið með Nanný og Rúnari. Það er hins vegar ekki. Og mér finnst ástæðulaust að kasta þessum fossum í eitthvað veðmál, sem er líklegra en ekki að við töpum. *** Laxeldið. Hlynntur því. Var ég búinn að koma því að einhvern tíma? Mér finnst það liggja beint við og held að allir sem kynntu sér það – og á annað borð kæra sig um að fólkið hérna njóti líka vafans (því auðvitað eru áhættur í öllu) – myndu sjá það. Enda flest fólk skynsemdarfólk. *** Teigsskóg ætti bara ekkert að þurfa að ræða lengur. Nenni því ekki einu sinni.
Untitled
Ég byrjaði vinnudaginn á því að lesa grein um einkavædda barnavernd í Noregi. Punkturinn var ekki sá sem hann er yfirleitt þegar ég les um barnavernd í Noregi – að hún sé oft á tíðum ótrúlega gröð í að fjarlægja börn af heimilum – eða bara að furða sig á því að hægt væri að einkavæða barnavernd, sem er svo sem ástæða til að skrifa nokkur þúsund dagblaðapistla. Heldur að fyrirtækin á „barnaverndarmarkaðinum“, sem sennilega reka barnaheimili frekar en að taka ákvarðanir um að fjarlægja börn af heimilum, séu meira og minna á vegum fyrirtækja sem eru skráð í einhverjum Tortólum. Í fréttinni kom fram að gróðinn af meðalbarnaverndarfyrirtæki sé allt að þrefaldur á við meðalgróðann í öðrum brönsum í Noregi. *** Fyrst hélt ég að ég væri að verða geðveikur. Eða í það minnsta fá sótthita. Svo fór ég að velta því fyrir mér hvort að norskan mín væri bara ekki betri en þetta – þetta gæti varla staðist. *** „Ifølge en rapport gruppen har bestilt fra De Facto kunnskapssenter for fagorganiserte, er lønnsomheten i barnevernet større enn i noen annen bransje i Norge. Ifølge rapporten har de fem konsernenes totalrentabilitet ligget på 22-23 prosent i perioden 2011-2015, mens gjennomsnittet for alle næringer lå på 7-8 prosent.“ – VG *** Og ég bara .. ha? Ha? *** Ég gúglaði norska barnevernet til að lesa mér til um þessa „einkavæðingu“ – eða útboð – og önnur niðurstaðan var þá frétt af BBC sem fjallaði einmitt um að norska barnaverndin væri umdeild vegna þess að hún færi of geyst í að fjarlægja börn af heimilum – sérstaklega þegar foreldrarnir væru innflytjendur. Og einhvern veginn get ég ekki látið vera að hugsa að þetta tengist – þótt nefndin sé á vegum ríkisins og barnaheimilin á vegum einkaaðila. Að börnin séu seld. *** En ég tek fram að ég hef ekkert vit á þessu – var bara að uppgötva þetta – og til að taka af allan vafa (þetta vefst svolítið fyrir fólki) þá er allt sem birtist á þessari síðu „blogg“ en ekki „grein“ og þaðan af síður „ritgerð“ eða „fréttaskýring“. *** Þetta er bara dagbókin mín og ég er bara að hugsa. *** En það er mikill misskilningur á Íslandi – og sennilega minnkandi dönskukunnáttu um að kenna – að það sé eitthvert norrænt módel eftir. Það er löngu farið á haugana.
Untitled
Í gær spratt upp umræða um þjóðsönginn á Facebook – Óttari Martin fannst eitthvað pínu nasískt að syngja um „Íslands þúsund ár“ í ljósi hugmynda um þúsundáraríki Hitlers. *** Hugmyndin um þúsundáraríkið er auðvitað ekki frá Hitler. Þúsundáraríkið er úr biblíunni (og hugsanlega/sennilega eldra) – það sem tekur við eftir síðari komu Krists. Þá hefur öllum syndurum verið tortímt og á jörðinni búa einungis réttlátir og Jesús ræður ríkjum í þúsund ár, eða þar til lokadómur er kveðinn upp. Sirkabát, minnir mig. *** Þetta á sér augsýnilega samsvörun í hreinleikahugmyndum Hitlers. *** En þúsundáraríkið er líka vísun í hið heilaga rómverska ríki – þýska keisaraveldið – sem stóð í nærri því þúsund ár, frá 962 til 1806. Sem einhvers konar fordæmi fyrir stöðugleika og langdrægni. *** Þúsund ár Íslands – í þjóðsöngnum – hefur svo ekkert að gera með þetta, annað en að árafjöldinn er sami og ein þjóðremba er öðrum skyld. En það er svolítið einsog með hakakrossinn – sem nasistar fundu ekki upp, og er til dæmis afar venjulegur í Víetnam, þar sem ég bjó um hríð, en manni finnst hann samt óþægilegur. Það er ekki beinlínis spurt um einhver rökræn tengsl, enda virka symból og hugtök ekki bara rökrænt – óþægindin geta verið alveg þau sömu. *** Þess vegna var hakakrossinn til dæmis fjarlægður úr Eimskipalógóinu. *** Svo er ekkert óhugsandi að Matta hafi verið hugsað til þúsundáraríkis Krists eða hins heilaga rómverska ríkis þjóðverja. Hugrenningartengslin eru til staðar strax og maður talar um þúsund ára líftíma ríkis. Og Matta var vissulega nokkuð hugsað til guðs. *** Hins vegar hjó ég eftir þeim hugmyndum í þessari samræðu, sem komu mér á óvart, að íslensk þjóðernishyggja – eða þjóðernishyggja 19. aldarinnar, ættjarðarrómantíkin – væri einhvern veginn alveg fullkomlega óskyld því sem gerðist í Þýskalandi og víðar í Evrópu á þriðja og fjórða áratugnum. Hefði ekkert með uppgang nasismans í Evrópu að gera. Það væri jafnvel fáránlegt að gera því skóna – því Lofsöngur hefði verið ortur löngu fyrir tíma Hitlers. *** Um það er auðvitað að segja: húmbúkk. Hitler gerðist ekki í sögulegu tómi og nasisminn var ekki hreinþýskt fyrirbæri og ættjarðarrómantík var ein af grunnstoðum hans. Um þetta hafa verið ritaðar ótal bækur. Það voru ekki bara nasistar á Íslandi heldur og nasískir straumar í hinum ýmsustu kreðsum. Og eru enn – þeirra má til dæmis sjá mjög greinilega stað í allri bjúrókrasíu sem tengist hælisleitendum, flóttamönnum og innflytjendum. *** Það þýðir vel að merkja ekki að allir sem syngi með í þjóðsöngnum á fótboltaleikjum séu nasistar. Því fer raunar fjarri. Það eru ekki bein tengsl – ekki einu sinni slippery slope – en það er samt absúrd og sennilega hættulegt að hafna skyldleikanum með öllu, einsog manns eigins þjóðernishyggja geti aldrei haft chauvinískar afleiðingar vegna þess að maður sjálfur sé svo almennilegur og meini svo vel. Það eru góðar og gildar ástæður fyrir því að fólk hefur – sérstaklega síðustu 60-70 árin – haft varann á gagnvart ættjarðarástinni/þjóðernishyggjunni. Hún hefur víða leitt menn í gönur, ekki bara í Þýskalandi – og leiðir þá enn í gönur. *** Shalom Auslander skrifaði einu sinni að vildi maður skilja nasista yrði maður fyrst að átta sig á því að stefnan byggir ekki (fyrst og fremst) á hatri, heldur á von – von um betri heim. Að tilfinningarnar sem liggja nasismanum til grundvallar eru ekki (bara) froðufellandi vitleysa, heldur margt af því fallegasta sem við eigum: ástin, samstaðan, fegurðin og – einsog Adorno benti á – ljóðlistin. *** Og þá er ég ekki heldur að segja að allir sem lesi ljóð séu nasistar. Ekki einu sinni allir sem skrifa ljóð eru nasistar. En ég er að gangast við því að fegurðin sé próblematísk – hún sé ölvandi og svipti mann jafnvel dómgreindinni á köflum, og manni beri að umgangast hana af varúð og virðingu. *** Kannski er samt skrítnast að syngja þjóð sinni lof, þegar maður skammast sín fyrir hana – hvernig hún agerar pólitískt, hvernig hún sendir sína aumustu út á guð og gaddinn, á þeirri forsendu að þeir tilheyri ekki „okkur“ – og það alveg jafnt þótt sumir þegnanna séu góðir í fótbolta og það sé gleðiefni.
Untitled
Það hefur ekki farið hátt en í dag er svokallaður Daloon dagur. *** Það er haugur af Óratorrekum á skrifborðinu mínu. Ég datt alveg úr sölugírnum þegar ég fór til Skandinavíu í júní. En hún er til og það er bara að hafa samband ef mann langar í áritað eintak. Ég ætti að reyna að brenna eitthvað suður fyrir jólin, þegar flóðið er komið í gang, og lesa svolítið. Mér var boðið á Litlu Ljóðahátíðina, sem hefði verið fyrirtak, en afþakkaði til að mæta í afmæli Arams Nóa – en mér var ekki boðið á Bókmenntahátíðina, sem var pínu skúffelsi, en sennilega hentar nú samt betur að gera þetta seinna í haust. *** Eiginlega meikar samt ótrúlega lítið sens að bjóða mér á bókmenntahátíð. Það búa nær allir íslenskir rithöfundar í kallfæri við miðbæ Reykjavíkur – en það þyrfti að borga undir mig flug og gistingu. Það þarf að vísu að gera alltaf þegar það koma höfundar hingað vestur, en við búum þá ekki við að geta valið úr öllum hinum fyrir ekkert nema upplestrargjaldið. *** Ég held ég ljúgi því ekki að ég hafi aldrei fengið borgað flug eða gistingu suður. Ég fer 3-4 sinnum á ári til Frakklands og 6-7 sinnum til norðurlandanna og 1-2 eitthvað annað og það er allt borgað. Að meðtöldu flugi til Reykjavíkur og gistingu þar ef þarf (eða á flugvallarhótelinu í Keflavík, þar er ég reglulega gestur). En í útlöndum er líka minna framboð af mér, svona almennt. Ég enda alltaf í borginni hvort eð er, með reglulegu millibili. Þetta er svolítið einsog með ókeypis upplestrana – ef það eru nógu margir sem lesa upp ókeypis þýðir ekkert fyrir hina að biðja um að fá borgað. Þá er maður ekkert beðinn. *** Ég hef vel að merkja fengið flug og gistingu víða annars staðar á Íslandi. Eða bensín greitt. Svo til allan hringinn. En ekki til Vestmannaeyja. Ég hef aldrei komið til Vestmannaeyja og finnst það leiðinlegt. Ég hef alltaf haft það á tilfinningunni að mér muni líka vel við Vestmannaeyjar, hvað sem líður klisjunni um að þeir hati listamenn – það eru alveg áreiðanlega fleipur. *** Og ég á nú yfirleitt einhvern innan handar sem getur leyft mér að gista á sófanum hjá sér í Reykjavík. Ég er bara svo einrænn og verð meira einrænn með árunum að mér finnst erfitt að hafa ekkert afdrep – einhvern vegg til að stara á aldeilis einn og yfirgefinn. *** Ég þarf að spyrja Lomma hvort hann og Kristín Svava séu ekki með neitt á prjónunum í haust. Þegar ég var á leiðinni út í sumar las ég upp á Café Catalinu í Kópavogi. Það var mjög gaman. *** Svo er ég reyndar alltaf í útvarpinu líka. Lestin spilar úr Óratorreki af og til. *** Og ég er svolítið ferðaþreyttur. En það eru fáar utanlandsferðir í kortunum í haust og ég er með bók og ætti að reyna að minnsta kosti að sýna dálítinn lit í jólabókaflóðinu, þótt það hafi verið „vorbók“.
Untitled
Þegar við fórum á Ricky Gervais standöppið í Hörpu í vor eyddi hann alveg absúrd löngum tíma í að ræða PC-gengið sem þolir ekki húmor og vill frið frá því að láta stuða sig. A.m.k. þegar „vissir hlutir“ eru til umræðu – sennilega er listinn kyn, kynþættir og trú (nánar tiltekið Islam). Ég hef alveg dálitla samúð með þessu sjónarhorni, og kannski alveg ríflega og oft yfirdrifna, en mér fannst punkturinn samt alltof einfaldur til að eyða svona miklum tíma í hann. *** Þetta er að verða mantra hjá grínistum líka – Stefán Karl er að fara með standöpp og steig á vagninn í síðustu viku. Og ekki bara hvítir gagnkynhneigðir karlar heldur, vel að merkja, einsog er stundum látið. *** Ég held þetta snúist um sjónarhorn. Grínistar – einsog sumir aðrir listamenn – vinna vissulega við að stuða fólk og dilla sér á grensunni milli hins siðlega og ósiðlega. Grín er iðulega bölvaður dónaskapur. Það er oft á tíðum hýpóþetískt á mjög gróteskan hátt og ryðst í gegnum viðkvæmustu svæði mannlífsins – og veitir okkur kaþarsis. Ég man eftir að hafa lesið í ritgerð um húmor á tímum helfararinnar að Gyðingarnir í fangabúðunum og fangaverðirnir hafi mikið til verið að segja sömu brandarana. Þú veist, hvað kemur maður mörgum Gyðingum fyrir í Volkswagen, og svo framvegis. En brandarinn er augljóslega ekki sami hluturinn – húmor, einsog öll list og öll mannanna verk, litast af samhengi sínu, einmitt vegna þess að tilvist okkar sem slík er aldrei merkingarlaus. *** En vegna þess að grínistar vinna á þessari erfiðu línu fá þeir sennilega ansi ríflegan skerf af versta og heimskulegasta PC-röflinu. Ég man eftir að hafa verið á standöppi hjá Jonas Gardell í Svíþjóð fyrir 7-8 árum þar sem hann var að segja sögur af blogginu sínu. Einhverjum mánuðum fyrr hafði hann verið að rannsaka hommaklám (hann er hommi sjálfur) – „rannsaka“, ég held að gæsalappirnar hafi verið með, en minnir að það hafi líka verið eitthvað stærra samhengi, hann var í alvöru að forvitnast um eitthvað. Og hann bloggaði um myndband sem hann hafði fundið þar sem karlmaður gerir gat á melónu, setur smokk í gatið og ríður svo melónunni. Gott og vel – í kjölfarið fylltist svo kommentakerfið af velmeinandi fólki sem byrjaði að útskýra fyrir honum að klám væri einhver ljótasta birtingarmynd kvenfyrirlitningar í samtímanum. Og það skipti engu máli þótt hann ítrekaði að þetta hefði verið hommaklám, af einum karlmanni, að ríða melónu og „engin kona hefði orðið fyrir skaða við gerð myndbandsins“. *** Ég held sem sagt að ef maður er grínisti – að minnsta kosti þess lags grínisti sem dansar á þessari frægu línu og nógu þrjóskur til að gera sér ekki sérstaklega far um eitthvað virtue signaling, til að láta vita að maður sé góður gæi en ekki nasisti – þá fái maður ansi mikið af heimskulegu kvabbi í eyrun sem við hin dauðlegu og ófyndnu heyrum sjaldnast af nema við gerum okkur far um að lesa þannig þræði. *** Ég þekki annars fullt af fólki sem kallar PC „skáldskap“ eða „fake news“ – oftar en ekki í einhverjum merkingarlitlum skylmingum við Jakob Bjarnar – og ég á alveg svolítið bágt með að átta mig á því hvort það fólk þekkir bara engan sem er PC eða er svo PC sjálft að það sjái ekkert athugavert við neitt af þeim umkvörtunum, finnist þær aldrei vera overboard og hvað þá ríða húsum, og það fólk verður þá sennilega bara alls ekki vart við nein átök í samfélaginu. Eða eitthvað.
Untitled
Í kvöld lagaði ég lambakjöt. Getur maður sagt það? Það hljómar bærilega á sænsku. Á maður að segja „í kvöld eldaði ég lambakjöt“. Í fyrsta sinn á ævinni, held ég (ég elda mjög lítið kjöt almennt). Þetta var með allra bestu máltíðum sem ég hef eldað/lagað. Lambið var svona: 900 grömm – ég held það hafi heitið framhryggsvöðvi eða eitthvað svoleiðis.
1 msk broddkúmen
2 tsk malað kóríander
2 tsk anísfræ
1/2 tsk cayenne
Pipar og salt
Slatti af ghee (eða bara olíu eða smjöri)
1 laukur
1 msk tómatpúrra
2 bollar kjúklingakraftur
1 dós plómutómatar (400 ml)
1 dós kjúklingabaunir (400 ml)
1 pakki þurrkaðar apríkósur (tæplega bolli)
2 kanelstangir
1 msk raspaður engifer
2 tsk raspaður sítrónubörkur
Hellingur af ferskum kóríander. Ég byrjaði á því að skera kjötið gróflega af beinunum, blanda því vel saman við broddkúmenið, kóríanderinn, anísfræin, cayennepiparinn og pipar og salt, og brúnaði svo allt í gheeinu – líka beinin og kjötið sem var á þeim. Svo steikti ég grófskorinn laukinn með meira ghee og tómatpúrru. Þegar hann var orðin mjúkur hellti ég öllu nema ferska kóríandernum út í pottinn, leyfði suðunni að koma upp og stakk svo öllu í 90 gráðu heitan ofn í … sennilega fjórar klukkustundir. Tók út, hitaði einu sinni hressilega og hrærði kóríandernum út í. Með þessu hafði ég heimagerðar pítur og couscous með myntu. Ég gleymdi að taka mynd. Þið getið bara gúglað „moroccan lamb“ – þetta leit þannig út.
Untitled
Starafugl er farinn aftur á flug. Það er gleðiefni. Að vísu er fyrsta gagnrýni tímabilsins alls ekkert gleðiefni. Það er aldrei gaman að birta neikvæða rýni (með örfáum undantekningum). En neikvæða gagnrýnin hefur líka sinn stað, gegnir sínu hlutverki, og án hennar er merkingarlaust að tala um gæði í menningu. Svo verður auðvitað að taka með í reikninginn að gagnrýni er og á að vera persónulegt mat – helst með faglegri innsýn – en gæðamatið er alltaf súbjektíft, lesendur eru ólíkir, hafa ólíkar forsendur. *** Og það skiptir vef um menningarrýni ótrúlega miklu máli að þau sem á hann skrifa geri það hreinskiptið og af nokkru hugrekki. *** Í gær skrifaði ég stuttan pistil hér um að það ætti alls ekki að taka mark á mér. Því fylgdi löng og mikil umræða á Facebook, sem verður ekki endurflutt hér, nema til að árétta að líf án skáldskapar er ekkert líf. *** Eitt af því áhugaverða við að gefa út sömu bókina í mörgum löndum eru allar ólíku spurningarnar sem maður fær. Nú keppast grískir blaðamenn við að spyrja mig hvort að kommúnismi og nasismi séu bara sitthvor hliðin á sama peningnum – og ég keppist við að svara því að slíkur þvættingur, slíkur reginmisskilningur á hugmyndafræði, baráttunni fyrir betra lífi og stjórnmálum, sé nú eiginlega ekki svaraverður (sem gerir ekki glæpi Stalíns eða húmorsleysi vinstrimanna neitt betri).
Untitled
Ég trúi ekki á nonfiction. Og ég skil ekki að nokkur nenni að fást við slíkt. Og nei, ég hef aldrei skrifað neitt helvítis nonfiction. *** Ég rek mig stundum á að fólk heldur að ég sé alltaf alveg hvínandi brjálaður, húmorslaus og ekkert nema illska alla daga. Þetta er ekki satt. Ekkert gæti verið fjær sanni. En ég hef ákveðið að láta það ekki á mig fá þótt þið séuð svona domsaraleg og auðvelt að koma ykkur úr jafnvægi. *** Kannski er þetta bara vegna þess að ég segi helvítis. Helvítis helvítis. Og andskotans. En ég meina ekkert með þessu. *** Styttist í intensífa helgi. Maður minn.
Untitled
Því er stundum haldið fram að túristabylgjan á Íslandi gæði landið aukinni fjölbreytni. Að við njótum nú samneytis við alls kyns ólíkt fólk – allra þjóða kvikindi, beinlínis. En þegar ég horfði yfir mengið einsog það birtist mér sýnist mér hópurinn eins hómógen og hægt er að hugsa sér. Þetta er fólk á sama aldri – 55 til 70 – hvítt og einstaka sinnum asískt, forréttindafólk úr efri millistétt (já, það er búið að segja mér að það sé ljótt að minnast á að ekonómískar forsendur fólks séu ólíkar), í sams konar fötum með sams konar lífssýn (sýnist mér úr fjarlægð). Það er milt í skapi en of bergnumið til þess að taka eftir nærumhverfi sínu. Það gapir á fjöllin og gengur svo beint fyrir reiðhjól dóttur minnar, sem nær með naumindum að afstýra stórslysi. Það upplifir húsin sem dúkkuhús – liggur á gluggum, gengur inn og spyr hvort hér „búi einhver“ – upplifir náttúruna sem afskekktan heimsenda þar sem óhætt sé að kasta af sér hlandi og saur (því hver á svo sem leið hér um aftur fyrren í fyrsta lagi á næstu öld?). *** En já, nú hljóp ég svolítið út undan sjálfum mér. Ég ætlaði bara að benda á hversu mikið túristarnir líkjast hver öðrum. Sérstaklega skemmtiferðaskipafólkið. Þeir eru miklu líkari hver öðrum en við einangraðir eyjaskeggjar eða útnárahillbillíar erum líkir innbyrðis. Ísafjörður er aldrei eins einsleitur og þegar hann fyllist – og já hann fyllist þegar tæmt er úr tvö þúsund manna skemmtiferðaskipi yfir bæinn – af túristum. *** Það er mikilvægt að ferðast þótt við – ekki síst ég – ferðumst alltof mikið. Mér skilst að Vestfirðir séu stóriðjulausir – og nei laxeldi er ekki stóriðja, það er búskapur, en hugsanlega og sennilega er hæpnara að láta einsog skemmtiferðaskipin séu ekki stóriðja. Mengunin úr þessum skipum er í það minnsta stórfengleg – alveg sturluð. Og þau fá ekkert rafmagn í höfn, til þess er engin aðstaða – hvorki hér né í Reykjavík skilst mér – heldur ganga bara mótorarnir allan sólarhringinn.
Untitled
Einar Kárason úthúðaði mér – eða Starafugli/Sterafugli – á Facebook (hann fékk slæman dóm í vor sem hefur hangið á forsíðu í sumarfríinu). Snæbjörn danski dásamar Þórdísi Gísladóttur á blogginu sínu. Bragi Ólafsson „hjólar í“ Stefán Mána á sínu bloggi. Þarf ég þá ekki að tjá mig um einhvern kollega minn í bókmenntaheiminum? *** Mér sýnist trendið vera að tjá sig um einhvern yngri. Ungskáld. *** Ég man (óljóst en greinilega) að Sverrir Norland skrifaði einu sinni fordómafullan pistil á Facebook um fólk sem hleypur í dýrum skóm eða íþróttabolum, en ekki gömlum skóm sem það keypti í tíunda bekk – voru einhvern tíma hvítir eða bláir en eru gráir í dag – og ljótasta bolnum í skápnum. *** Fólk sem er annað hvort ungt og þarf ekki að hafa áhyggjur af að meiða sig eða með líkama sem voru einfaldlega gerðir fyrir hlaup hleypur kannski þannig til fara. Í dag hlaupa miklu fleiri, til dæmis ég. Og við þurfum bara spelkur og fjöðrun og klæði sem „anda“. *** Ég var rosa reiður þegar ég las þetta og er enn. *** Ef ég hleyp í lélegum skóm meiði ég mig nefnilega (fann ekki nýju skóna mína í fyrradag og hljóp í gömlum = er núna haltur og get ekki hlaupið næstu sirka tíu dagana). *** Ef ég hleyp án svitabands sé ég ekkert fyrir svita og er rauður í augunum í viku. Ef ég hleyp í venjulegum sokkum fæ ég viðbjóðslegar blöðrur sem valda mér gríðarlegum sársauka. *** Ef ég hleyp meira en 7-8 kílómetra í bómullarbol blæðir úr geirvörtunum á mér. Það blæðir! Er það þetta sem unga kynslóðin í íslenskum bókmenntum vill? Að það blæði úr geirvörtunum á mér? Ég missi sjónina og verði ógöngufær, með rifna vöðva, sinar, molnuð hné og blóðugar tær? *** Og er ég kannski ekki nógu góður til að verðskulda þráðlausa heddfóna? Vill Sverrir Norland kannski að ég fari út að hlaupa með vasadiskóið sem ég keypti mér fyrir blaðburðarpeningana mína þegar ég var 11 ára? Eða kannski plötuspilarann sem ég erfði frá foreldrum mínum (þegar þau fengu sér nýjan, þau eru enn á lífi). Ég get bara hlaupið í kringum hann. *** Eða ber mér kannski einhver siðferðisleg skylda til þess að „hlusta á alheiminn“. Er ég að „misskilja“ hlaupanautnina? *** Ég get líka sleppt því að þvo mér með sápu á eftir og bara nuddað hlandi í handakrikana á mér. Það kemur víst út á eitt, er náttúrulegra, „sögulega rétt“ og sennilega heilögum Sverri þóknanlegra. *** Það eru að minnsta kosti alveg hreinar línur að ég læt ekki Sverri Norland – eða nokkurn annan – „níða af mér skóinn“.