Það er komið haust. Mig vantar bókahillur á skrifstofuna. Ég át snúð í kaffitímanum og keypti mér teikaveikaffi í frauðplastbolla vegna þess að ég NENNTI EKKI að hella upp á kaffi í vinnunni. Sena þrjú í Hans Blævi er nánast endurskrifuð – og þar með er ég búinn að endurskrifa mig fram að hléi, held ég, og henda lifandis ósköpum af texta. Ég ætla samt að halda mig fyrir hlé næstu dagana, manni liggur nefnilega ekkert á. Í gær fór ég út að hlaupa og reif einhvern andskotann í hægri kálfanum og haltra nú. Eða – ég sit í augnablikinu, en til dæmis þegar ég fer á klósettið þá haltra ég. Starafugl fer í loftið eftir viku. Á næstu helgi á Aram afmæli, ég fæ heimsókn frá finnlandssænskum vinum (sem eru að koma á bókmenntahátíð) og Vigni úr Ligeglad og Svörtum á leik.
Untitled
Nú keppist fólk við að fordæma bardagann í gær – McGregor vs. Mayweather – það er að segja þeir sem eru ekki uppteknir af að fordæma Ungfrú Ísland. Það sló mig reyndar að sennilega þætti mér óþægilegra – og óeðlilegra – að keppa í vinsældum og viðkunnanlegheitum en fýsískri fegurð. Smeðjuskapur er hugsanlega verri en anorexía. *** Eða ekki. *** Sennilega óþægilegast samt að keppa í að láta berja sig í smettið. *** Ekki að maður geti ekki verið vinsæll án þess að vera með smeðjuskap. Kannski er það jafnvel alls ekki líklegt til vinsælda. Mér finnst bara tilhugsunin sjálfum mjög óþægileg – martraðarkennd – að reyna að sannfæra næsta mann um að ég sé almennilegri náungi en sá þarnæsti. *** Þá skil ég boxarana betur. Sem keppa í kjafthætti. Það er löng hefð fyrir því að keppa í ókurteisi, tillitsleysi og hroka í (bardaga-)íþróttum – einsog til að koma hinum náunganum úr jafnvægi. Eftir bardagann höfðu þeir Írinn og Ameríkaninn ekkert nema fallegt hvor um annan að segja. Ég held að það sé líka hefð. Þetta er allt eftir bókinni. *** Það er alltílagi þótt það sé tilgerð í kjafthætti. Eða – hún á heima þar. En tilgerð í vinalegheitum er dauðasynd. *** Ég get ekki að því gert að finnast dálítil stéttafyrirlitning í afstöðu hinna hugsandi stétta – eða mórölsku stétta – til alþýðuskemmtunar einsog þessa bardaga í nótt. Sérstaklega var ein grein, sem margir deildu, leiðinleg – bara svona viðstöðulaust rant um hvað þeir væru vont fólk, hvað þetta væri allt takkí og hvað þeir græddu mikla peninga á þessu (það er ekkert verra að græða pening sem skemmtikraftur/íþróttamaður en að … gera svo ótal margt annað sem fólk verður milljarðamæringar á). Gott ef titillinn var ekki ÞESSI BARDAGI ER ALLT SEM ER AÐ HEIMINUM Í DAG og hann smættaður niður í einhvers konar svartir-ofbeldismenn vs. trumpískir rasistar. Lose-lose fyrir móralska liðið. *** En þessar stellingar allar saman – bravadoið, smaragðarnir á beltinu, sjóið, kjafthátturinn, PC-leysið (diet rasisminn, diet kvenfyrirlitningin) – er allt tjáningarmáti þess sem þarf útrás. Og þá er ég ekki að tala beinlínis um bardagamennina – eða rokkstjörnurnar sem spila svipaða leiki – heldur aðdáendurna og kúltúrinn í kringum fenómenið síðustu öldina eða tvær. Þetta er ég-er-valdlaus-og-vinn-70-tíma-vinnuviku-við-ömurlegt-færiband-og-það-gera-líka-allir-sem-ég-þekki-og-nú-langar-mig-að-horfa-á-einhvern-berja-einhvern-stemning. Af því það er valdeflandi. *** Og já – þetta er í grunninn heteró karlakúltúr, einsog stelpurnar á bikiníunum ættu að gera manni ljóst – en þetta eru ekki kúltúr valdakarla, ekki feðraveldið í þeim skilningi (en feðraveldið í öðrum; einsog við erum öll feðraveldið). Þetta er Grand Theft Auto, Wolfenstein og Guns N’ Roses, Bukowski, Eminem og James Brown, First Blood og Rocky (!) – og jájá, það er oft siðferðislega ámælisvert, en ekki svo að maður eigi ekki að geta náð upp í nef sér fyrir því. *** Annars horfði ég ekki á bardagann. Ég þoli ekki að sjá blóð. Svo var þetta líka um miðja nótt og ég er miðaldra ljóðskáld sem þarf á sínum nætursvefni að halda.
Untitled
Við héldum kokteilboð í gær. Með drykkjaseðli. Það mátti fá Blóðmaríu, Daquiri, Mojito, Smash, G&T, Negroni og Caipirinha. Það er óhætt að segja að þetta hafi mælst vel fyrir. Og verður áreiðanlega endurtekið við tækifæri. *** En þessu fylgdi óneitanlega nokkur subbuskapur. *** Í kvöld ætlum við að rúlla saman víetnamskar vorrúllur. Það tengist kokteilboðinu með þeim hætti að hvorutveggja er frekt á ferskar kryddjurtir – sem við eigum nokkuð af og myndu skemmast ef við værum ekki sífull að gúffa í okkur víetnömskum mat. *** Það er rigning og rok. Aram gistir hjá vini sínum í nótt og Aino og Nadja eru í sundi í Bolungarvík. Ég nennti ekki til Bolungarvíkur. Hefði farið með ef þær hefðu farið í sund hérna. Er að spá í að fá mér bara lúr. Ég er pínu þunnur.
Untitled
Allt telur (frá núll til tíu) Þegar þú vaknar á morgnana –
án þess að ég hafi gert ráð fyrir öðru
eða verði þess einu sinni var;
það er varla þú verðir vör við það sjálf
– og læðist geispandi niður tröppurnar
sem við eigum sjálf
í húsinu sem við eigum sjálf
til að hella upp á kaffi
í mokkakönnunni okkar
á spanhellunni okkar
og það er gólfkalt
í eldhúsinu okkar,
(eða þú gleymir að borða morgunmat) það telur. Þetta telur allt. Ég vil að þú vitir að ég myndi aldrei
eitra fyrir þér, ekki einu sinni
þótt ég vaknaði fyrstur, það skiptir máli
að þú vitir það, sért minnt á það
því það er mér sem er treyst
fyrir eldamennskunni á þessu heimili
og ég vil auðvitað að mér sé treyst
þótt ég hafi stundum brugðist þér
og öðrum, auðvitað, maður bregst.
Annars er svo margt sem ég myndi aldrei
gera þér að mér entist varla ævin
í að telja það allt upp. Ég biðst
velvirðingar á hinu. Það telur líka, vonandi, að ég vil vel. Það telur
og telur þegar ég loks vakna líka
þegar þú ert farin – um stund –
og ég drekk kalt kaffið
sem þú skildir eftir á eldavélinni
svo ljúffengt
sætt og svalandi,
ekki að ég sé að telja
það er enginn að telja
og okkur er flökkufært um heiminn
án reikningslistarinnar
enda ekki á leiðinni neitt sérstakt
nema bara saman
út í loftið, lífið og himintunglin
og þurfum því ekki
að reikna neinn kúrs
ekki einu sinni þegar
ég er hérna einn
því ég er aldrei einn hérna. Það telur, einsog allt hitt,
þetta telur allt,
og leggst á eitt einsog summan
af tveimur óreiðum,
stólum og fötum og bókum
og leikföngum á tvist og bast;
já og meðan ég man, ég átti alltaf eftir að sækja
þarna stólana upp í skóla
og súrdeigsmóður upp á Seljalandsveg,
þarf svo að fara í búðina og
við sjáumst heima upp úr sex,
takk fyrir síðustu tíu. Þinn,
Eiríkur
Untitled
Aino fór í flegnu á leikskólann í morgun. Sennilega er hún að búa sig undir að verða hæstaréttarlögmaður. Einsog Magnús frændi hennar. Ekki veit ég hvernig hún beit þetta í sig – ekki er hún á Facebook. Sennilega eru hasstöggin bara unga fólkinu svo í blóð borin að þau þurfa ekki einu sinni internet til þess að finna fyrir skandölunum. *** Ég reyndi að útskýra fyrir henni að við værum ekki í Svíþjóð lengur. Á Íslandi er ekki veður til að vera í flegnu. En það tjóir auðvitað ekkert að röfla í unga fólkinu, það fer sínu fram. *** Mér sýndist í gær sem það væri búið að slátra öllu laxeldi í Ísafjarðardjúpi. Niðurstaða nefndar sem var skipuð um málið var að selja Djúpið fyrir heilbrigðisvottorð á önnur svæði. En svo skilst mér að það eigi eftir að taka tillit til mótvægisaðgerða – til dæmis útsetningu stórseiða – og það sé bara frekar líklegt að þegar það verði tekið með í reikninginn verði opnað fyrir þetta á sömu forsendum og á öðrum opnum svæðum. *** Þótt sennilega sé hér von á reiðum Facebookurum með prófílmyndir af laxapyntingum og þrugl um úrgang og orkufrekt og ósamkeppnishæft laxeldi á landi eða ótímabæra framleiðslu á geldfiski (sem væri sennilega erfitt að selja; vegna GMO-hræðslu) ætla ég ekkert að segja um það í bili – ef það fólk væri móttækilegt fyrir upplýsingum hefði það löngu skilið það allt. Það tekur bara mark á þeim vísindum sem því hentar. Vísar í hálfar Hafró skýrslur og hálfa norska reynslu – talar um erlent eignarhald á A en finnst það engu skipta í B – og bla bla bla. *** Eitt af því sem vekur ítrekað athygli mína í þessum málum – og ég er ekki viss um að maður átti sig almennilega á nema maður eigi framtíð sína og sinna barna á svæðinu – eru stóru drættirnir, þessi endurtekna pólitíska hreyfing, ár eftir ár, mál eftir mál: Hvernig hagsmunum Vestfirðinga er fórnað fyrir svo til alla aðra hagsmuni. Ef það er eitthvað – þrjár manngerðar laxveiðisprænur, sem hafa aldrei talist merkilegar, og telja lítinn lax sem er blendingur úr 5-6 öðrum ám og var ekki til fyrir einum litlum mannsaldri – þá vegur það þyngra en framtíð byggðarinnar. *** Frá því ég var lítill strákur hefur byggðin alltaf verið í mótvindi – fyrst og fremst sunnanátt, þannig er það bara þótt mörgum þyki óþægilegt að heyra það, og ég vilji ekki gera lítið úr þætti sumra heimamanna heldur. Hér er ekki einu sinni hægt að leggja vegarspotta án þess að það veki úlfúð í Reykjavík. Af því kjarrið er mikilvægara en byggðin. Laxveiðisprænurnar eru mikilvægari en byggðin. Er skrítið þó fólki hérna finnist að því sé ætlað að lifa lífinu í stasis – varðveitt í kvoðu eða ís, bara svo fremi sem ekkert breytist. Best væri ef hér væri ekkert nema rómantískir smábátasjómenn á styrk – já og kaffihús og airbnbarar. *** En já. Ég ætlaði ekki að byrja á þessu röfli aftur. Ætlaði ekki að fara að endurtaka mig. *** Ég velti fyrir mér stöðu Framsóknarflokksins í þessu öllu saman. Bæði hugmyndafræðilega – frá því vinstriflokkarnir gerðust borgaralegir, í þeirri merkingu þess orðs sem vísar til borgarinnar sem fyrirbæris, sem framtíðar, sem hugsjónar, er Framsóknarflokkurinn sennilega eini stjórnmálaflokkurinn á landinu sem beinlínis hefur þá hugmyndafræði að styrkja byggðina í landinu – og út frá þeim popúlísku sjónarmiðum sem hafa verið ær og kýr þess flokks, kannski frá upphafi en í öllu falli síðustu árin og áratugina. *** Stundum er sagt að stóru línurnar í pólitík samtímans séu milli „óupplýstrar“ landsbyggðar og „upplýstra borgarsamfélaga“. Þessi greining er orðuð svona í fjölmiðlum – og af punditum – sem eiga fyrst og fremst rætur að rekja til borgarsamfélagsins. Og já – við finnum fyrir því þegar við erum kölluð óupplýst, það er hvorki næs né sanngjarnt þegar rætt er um raunverulega hagsmuni og hugsjónir sem skarast. En þegar hagsmunir okkar eru ítrekað látnir lönd og leið – áratug eftir áratug, bókstaflega – stundum fyrir algeran tittlingaskít, elur það á örvæntingu og bræði sem sprettur af viðstöðulausri tilfinningu fyrir vanmætti gagnvart eigin örlögum, að manni séu „allar bjargir bannaðar“. Vestfirðingar ætluðu að „gera eitthvað annað“ – sleppa álverum og olíuhreinsunarstöðvum, lýstu sig stóriðjulausa, og ætluðu að fara í sjálfbæra og vottaða matvælaframleiðslu. En þetta „eitthvað annað“ er aldrei nógu gott. *** Og hvað gerir reitt fólk? Hvað gerir svikið fólk? Ef það er ekkert í boði nema bitlingastjórnmálamenn – þá kýs reitt og svikið fólk þá stjórnmálamenn sem ætla þó að kasta í það sjálft einhverjum bitum. Það er ekki hægt að ætlast til þess að fólk sem getur ekki treyst því að samfélagið standi með þeim kjósi gegn hagsmunum sínum. *** Svo er auðvitað alltaf á borðinu að draga í land með stóriðjulausa Vestfirði. Hvað sem manni finnst um stöðuna fyrir austan – hvað hún kostaði umhverfið, hvað hún kostaði í beinhörðum peningum – þá hafði hún jákvæð áhrif á atvinnuástandið og tekjur heimamanna. Kannski dugar ekki að takast á við ástandið með einhverjum bændaskap einsog fiskeldi – kannski þarf bara big guns, fólk með einhverja alvöru peninga á bakvið sig sem getur bara keypt kúlulánadrottningarnar. Þá værum við að díla með hagsmuni sem eru stærri en okkar eigin – ef við erum bara nógu miklir umhverfissóðar fáum við nógan skriðþunga til að trompa þá sem vilja frysta hér alla framþróun. *** Og jájá, við erum að verða ansi beisk. Og það byrjaði ekki í gær. *** Það er hægt að stinga upp á þúsund lausnum í kaffihúsaspekingastíl – frjálsum strandveiðum, auknum byggðakvóta, skattaafsláttum, fleiri einyrkjum, o.s.frv. – en það breytir engu um að þær lausnir sem eru á borðinu, hvort sem er í atvinnu- eða samgöngu- eða menntamálum eða hvað það er, eru aldrei nógu góðar.
Untitled
*** Þetta er það sem ég er að fást við. Leikverkið verður frumsýnt í mars en sagan mun fylgja mér lengur – þetta verður líka skáldsaga og hugsanlega kemur hún ekki fyrren 2019. Í öllu falli ekki fyrren í fyrsta lagi haustið 2018. *** „Eiríkur, er ekki stafsetningarvilla í tilkynningunni?“, spurði vinur minn í gær. Og átti við orðið „hán“. Hans Blær er hán – ekki hún, ekki hann, heldur hán. Það beygi ég svona: Hán
Hána
Hánum
Hánar. *** Hans Blævi beygi ég svona: Hans Blær
Hans Blæ
Hans Blævi
Hans Blævar *** Einhvern tímann var hán byggt á Milo Yiannopolous – en það er ansi langt síðan. Og það eru fleiri einstaklingar skyldleikaræktaðir við Hans Blævi núorðið – hán raðar á sig ættingjum, bæði úr röðum góða fólksins og vonda fólksins, og á sennilega eftir að bæta á sig nokkrum til viðbótar. *** Ég er búinn að skrifa fyrsta handrit að leikritinu en er að endurskrifa það (hættan er auðvitað sú að ég breyti einhverju drastísku og allur kynningartextinn fari á hliðina, en það verður þá bara að hafa það – það skiptir meira máli að verkið verði rétt en að kynningartextinn verði það). Þetta er móralskt jarðsprengjusvæði og ég hef ekki nokkurn rétt til að vera þar. En rithöfundurinn er í sjálfu sér alls staðar í óleyfi – við þetta vinnur maður, tilfinningalegt, siðferðislegt og pólitískt trespassing. *** Ég er að reyna að gæta mín á að verða ekki of sínískur samt. Maður vinnur líka við að elska, láta sér þykja vænt um fólk og bera virðingu fyrir því. Sem er erfitt þegar aðalsöguhetjan – sú sem maður elskar meira en allar hinar – er viðundur og illmenni. Hán er ekki viðundur eða illmenni fyrir að vera trans – það er hánum sennilega ekkert nema siðferðisleg fjarvistarsönnun, átylla til þess að geta leyft sér að níða skóinn af gapandi réttlætisriddurum, hluti af tröllalátunum. Og þar með alls ekki víst að hán sé trans – í eiginlegum skilningi þess hugtaks, að hán hafi leiðrétt kyn sitt frekar en bara skipt vegna þess að það hentaði. *** Það hentar hánum að vera transi því það eitt og sér gerir íhaldsbullurnar vitlausar. Og það hentar hánum að vera transi því að vinstraliðið kann ekki að hantera í hánum fasismann. *** Hans Blær er fyrst og fremst tröll. Allt annað í persónu hánar tekur mið af því af því að hán vill gera fólk vitlaust. *** Þetta er fréttatilkynningin: Hafið þið nokkurn tíma spurt ykkur hvaða eiginleika manneskja þyrfti að hafa til þess að þið gætuð verið þess fullviss að viðkomandi væri að öllu leyti, innra sem ytra, óferjandi skíthæll og viðundur?
Og ef ekki – Hvers vegna í ósköpunum ekki? Hans Blær Viggósbur er gjálífiströll með uppleysta sjálfsmynd, ofvirka tískuvitund og egó í hjartastað. Hán er glundroðamaskína í fjölkynja líkama sem lifir fyrir það eitt að storka heiminum og trekkja upp hina viðkvæmu. Allt frá því hán komst fyrst í tæri við hamstrahjól fjöl- og félagsmiðlunar hefur Hans Blær verið á milli tannanna á þjóðinni, sem sýpur hveljur og skríkir til skiptis, en skemmtir sér alltaf vel. Þegar upp kemst að Hans Blær hefur notað nauðgunarmeðferðarheimilið Samastað til þess að svala afbrigðilegum fýsnum sínum er hugsanlegt – rétt svo hugsanlegt – að samfélagið hafi loks fengið nægju sína og þjóðin sé hætt að flissa. Óskabörn ógæfunnar og Eiríkur Örn Norðdahl unnu síðast saman að leiksýningunni Illska sem hlaut sex tilnefningar til Grímunar, þar á meðal sýning ársins og leikrit ársins. Nú matreiða þau ískalt lík tröllasamfélagsins ofan í gapandi vandláta skolta ofurmeðvitaðra hipsterkúreka og réttlætisriddara – á besta stað í borginni – og bera það fram snyrtilega niðursneitt á nýuppþvegnu silfurfati. Skemmtið ykkur í guðanna bænum vel. Þetta verður tótal hatefest.
Untitled
Ég hef aldrei barið nasista. Svo ég viti. Ég hef reyndar barið svo lítið af fólki að það er ólíklegt að það hafi gerst óvart heldur. Þegar ég hugsa út í það hef ég sennilega ekki barið neinn. Ekki einu sinni þegar ég var barn. Ég slóst nokkrum sinnum á grunnskólalóðinni og a.m.k. einu sinni fyrir utan ball – en var þá aðallega barinn sjálfur. *** Ég vona samt oft að nasistar verði barðir. Mér finnst þeir eiginlega ekki eiga neitt betra skilið. Ég er heilt yfir friðarsinni – en mér finnst samt ekki að það eigi að leyfa ISIS að vaða uppi. Eða nasistum. Sennilega væri heillavænlegast ef ofbeldisfólk – og þeir sem hóta ofbeldi, sem nasistar gera, stjórnmálastefna þeirra gengur út á að beita fólk óheyrilegu ofbeldi – væri einfaldlega tekið úr umferð. Stefnan væri bara ólögleg – á einhverjum kvarða auðvitað. Ég á ekki við að það ætti að fangelsa fólk fyrir að senda (kaldhæðnislausar) hitlerskveðjur. En það mætti kannski sekta fyrir það, svona einsog að kasta sígarettustubbum eða fara yfir á rauðu ljósi. Sama mætti svo gilda um klerka sem mæla með kynfæralimlestingum stúlkubarna eða öðru „heiðursofbeldi“. *** Það er ekki gert. Ég skil sosum punktinn líka með tjáningarfrelsið. Og vil ekki gera lítið úr honum – heimurinn er fullur af mótsögnum og þetta er ein af þeim. Tjáningarfrelsið er ekki absolút, hefur aldrei verið það – og spurningin er alltaf hvar eigi að draga línuna frekar en hvort eigi að draga hana. Sumir tala um „tjáningarfrelsi en …“ fólkið – en staðreyndin er sú að þjóðfélagið allt styður þá afstöðu. Ég man varla eftir einum einasta manni sem styður fullkomlega og algerlega óheft tjáningarfrelsi. *** En tjáningarfrelsisumræðuna er ekki heldur hægt að taka án þess að ræða um plattform. Ef við segjum að það sé gott og gilt að skrifa greinar sem gera lítið úr helförinni eða mæla með því að stórir þjóðfélagshópar – hvort sem það eru hvítir karlar, múslimar, kellingar, gyðingar eða aðrir – verði upprættir með öllu, þá eigum við eftir að ræða hvort það sé eðlilegt að slíkar greinar séu birtar. Altso – ef Vísir neitar að birta slíka grein af því hún sé hroðbjóður (sem hún er) er þá Vísir að ritskoða eða bara ritstýra ? Er Vísir að „banna ákveðnar skoðanir“ eða bara að viðhalda ákveðnum standard – reka mannúðlega ritstjórnarstefnu, standa vörð um lýðræðisþjóðfélagið? *** Þetta er málið þegar rætt er um hluti einsog hvort Milo Yiannopolous megi tala á bandarískum kampus. Fólkið sem mótmælir mótmælir því ekki að hann megi segja það sem hann vill – fólk segir miklu verri hluti úti um allt. Það mótmælir því að honum sé veittur aðgangur að plattformi sem því þykir vænt um – það mótmælir því að standardinn sé lækkaður. Svona einsog fólkið sem segir upp Morgunblaðinu af því að Davíð fær að blogga yfir ritstjórnargreinarnar. Nema hvað það er auðveldara að segja upp mogganum en að skipta um háskóla. *** Eða hvort nasistatímaritið Nya Tider fái að vera með á bókamessunni í Gautaborg. Eða hvort nasistasamtökin Norræna mótstöðuhreyfingin (SIC! – svona þýddu íslenskir meðlimir hreyfingarinnar nafnið á íslensku, enda kunna þeir ekki íslensku) megi marsera í gegnum miðbæinn í Gautaborg á sama tíma – þeir kalla það „stærstu göngu þjóðernissósíalista á norðurlöndum frá seinni heimsstyrjöld“. *** Þegar rasistaáróður á borð við kröfugöngur nasista eða aðgang þeirra að fjölmiðlum er ræddur er hann yfirleitt ræddur út frá heimamönnum – eða út frá hvítu fólki. Spurt er: Er sennilegt að þessi grein hérna á Vísi geri fleira hvítt fólk að rasistum? Þetta er í sjálfu sér góð og gild spurning en ég er ekki viss um að svarið sé alltaf já – kannski oftar ekki. En það verður líka að spyrja hvaða áhrif það hafi á hina – hvaða áhrif það hafi á hörundsdökkt fólk á öllum aldri að það verði fullkomlega eðlilegt að dagblöðin spyrji hvort þau séu verð lífs, trúar eða vegabréfs. Og ég held að þau áhrif séu ívið verri – ég ímynda mér a.m.k. að ég tæki því afar, afar illa ef svo væri rætt reglubundið um mig eða börnin mín, systkini og foreldra. *** Á lögreglan að banna svonalagað? Eða réttara sagt – á hún að sleppa því að leyfa svonalagað – til dæmis gönguna? Því enginn gengur án leyfis frá lögreglunni. Það er óhugsandi að ganga einsog þessi í Gautaborg í september fari fram með friði og spekt – og eiginlega óhugnanlegri tilhugsun að hún geri það en að allt fari í bál og brand. Of mörgu fólki stendur of mikil ógn af „stefnunni“. Ég vona að ég lifi ekki að sjá þann dag þegar ekki verða átök um kröfugöngu hundruð ef ekki þúsunda yfirlýstra þjóðernissósíalista í einni af helstu borgum norðurlanda. Þá hefur eitthvað mikið farið úrskeiðis. *** Og ef gangan fer ekki fram með friði og spekt er þá lögreglan að veita ófriðnum samþykki sitt? Með því að veita nasistum gönguleyfi lofar hún að tryggja öryggi þeirra. Og verður þannig peð í höndum ókræsilegustu „stjórnmálamanna“ samtímans.
Untitled
Ef fer sem horfir verð ég ekki búinn að taka upp úr töskunum fyrren seint næsta vor. Mikið rosalega sem maður getur dröslast um með af drasli. Og þvílíkt magn af farangri sem okkur tekst alltaf að troða í þennan oggulitla bíl sem við eigum. *** Svo kom líka meira dót. Pantaði græjur á heimilið á dögunum og þær voru úti á pósthúsi. Byrjaði á að renna Appetite í gegn og nú er ég að hlusta á Callas syngja Verdi. Það eru pínu skitsó skipti en mjög gott. *** Ég verkaði líka wokpönnuna sem ég keypti í San Francisco og klippti til botnhringinn svo hann passi á gasið hjá mér. Þetta er svakalegur gripur. Kostaði 20 dollara. Í kvöld verða núðlur! *** Ég er annars einsog í þoku allur. Svaf bærilega í nótt en styttra en ég hefði þurft en þó a.m.k. tveimur tímum lengur en Nadja sem þurfti að mæta í vinnu klukkan 8. Aino heimtaði að fara beint á leikskólann, sem var auðsótt, og Aram hvarf út með Hálfdáni Ingólfi og ég reikna varla með að sjá hann aftur fyrren ég fer og leita hann uppi.
Untitled
Ég er hafður fyrir rangri sök á víðlesnu dönsku bloggi (sem er skrifað af nýbornum auðnuleysingja). Þar segir að ég hafi eitthvað á móti afþreyingarbókmenntum. Það er af og frá. Ég er róttækt mótfallinn vondum bókum og markaðsafstöðu til gæða bókmennta. Bókabransinn skítur í deigið þegar hann gefur út og dreifir inn á annað hvert heimili ömurlegum bókmenntum undir fölsku yfirskini – það er bara þannig. Það á jafnt við um reyfara og ástarsögur og hámódernískt listlíki. Vondar bækur hafa svo þeim mun verri áhrif á heiminn, vellíðan hans og menntun, eftir því sem þær lenda á fleiri heimilum og ber fyrir fleiri augnkúlur. *** Við komumst heim. Ég svaf ekkert í vélinni frá Newark til Stokkhólms einsog til stóð – fékk heiftarlega fótaóeirð og gat varla setið megnið af fluginu. Sennilega hefur antihistamín þessi áhrif á mig. Ég keypti einhverjar svefntöflur af því tagi fyrir flugið – og fékk sömu áhrif síðasta haust þegar ég tók ofnæmislyf af svipaðri tegund. Vond tímasetning. En ég lagðist á bekk í 7-Eleven og svaf aðeins meðan við biðum eftir að krökkunum yrði komið á Arlanda. Komin til Íslands keyrðum við beint heim. Ferðalagið – fyrir okkur Nödju – tók nákvæmlega 36 klukkustundir, upp á mínútuna. Lögðum af stað 4.20 að nóttu í San Francisco og komum til Ísafjarðar 23.20 að kveldi daginn eftir – sem er þá 16.20 í SF. *** Bona notte.
Untitled
Dagur fimm og sex. Samt vorum við eiginlega í viku. Sennilega taldi ég ekki með fyrsta daginn af því við komum seint. *** Á fimmtudagsmorgun tókum við Hop-on Hop-off rútuna yfir Golden Gate brúna og gengum þaðan nokkra kílómetra meðfram hraðbrautinni til Sausalito. Þar fengum við einhverja allra bestu hamborgara sem við höfum smakkað og ég hlóð niður Uber appinu – pantaði bíl sem fór með okkur í Muir Woods National Park. Við röltum um í þjóðgarðinum í nokkra klukkutíma og dáðumst að trjám, þefuðum út í loftið og reyndum að ímynda okkur hvaða lyktir þetta væru – ein var sæt og berjalík og var rædd í þaula. Við gengum ansi langt og mikið upp í mót. En eftir viku á röltinu í SF erum við að verða ansi vön því að ganga upp í mót. *** Það er ekki hægt að taka Uber frá Muir Woods, því það er ekkert símasamband, og því neyddumst við til að taka leigubíl sem var á svæðinu. Það var nokkuð dýrara, já og svo fór hann með okkur lengra. Eiginlega var það alveg fáránlega dýrt. Við áttum miða í góð sæti á Phillies vs. Giants á AT&T leikvanginum og vildum ekki missa af honum svo við létum okkur hafa það. Ég þarf bara að skrifa þjónustufulltrúanum mínum og fá hann til að skipta upp næsta visareikningi. *** Fyrstu þrjú korterin átum við pylsur og reyndum að geta okkur til um reglurnar og rifja upp það sem við vissum úr Bull Durham, Major League og hvað hún nú heitir aftur myndin með Geenu Davis og Madonnu. A league of their own. There’s no crying in baseball, sagði maðurinn á næsta bekk við okkur – og vitnaði í Tom Hanks. *** Þótt maður hafi aldrei séð hafnaboltaleik veit maður nú ansi margt. En að lokum byrjaði sessunautur Nödju að útskýra fyrir okkur það sem við ekki skildum – ekki síst hvernig stigataflan virkar, hvað allar tölurnar þýða, en líka alls kyns smáatriði í reglunum. Við spjölluðum svo við hann – Randy Weiss – það sem eftir lifði leiks. Hann er tæplega sextugur fiðluleikari, samkynhneigður gyðingur og hafnaboltaáhugamaður. Hann fór með okkur á rölt um völlinn og sýndi okkur stórkostlega útsýnisstaði – bæði yfir völllinn og borgina – og hélt viðstöðulausan, fræðandi og skemmtilegan fyrirlestur um íþróttina og arkítektúrinn. Hann var alger guðsgjöf, þessi maður, og er. Þegar leiknum lauk (með sigri okkar manna í Giants) ákváðum við að hittast aftur í morgunverð í The Mission. *** Sjálf fórum við á barinn við hliðina á hótelinu – frekar sjabbí bar með enskt væb, einhvern veginn furðulegt að sjá þannig bar hálftóman og reyklausan en í SF fer fólk bara á hreina og fallega hanastélsbari þar sem tónlistin er í botni (ég er ekki (bara) gamall; ég hef aldrei þolað bari þar sem ekki er hægt að tala saman – ég drekk til að tala og hlusta). Og drukkum nokkur hanastél áður en við héldum í háttinn. *** Daginn eftir mæltum við okkur mót við Randy á The Thorough Bread Bakery – ég fékk með pulled pork samloku sem á ekkert skylt við sykursullið sem maður kaupir á norðurlöndunum. Almennt borðar fólk í SF frekar hollan mat sýnist mér. Í einni 7-Eleven búð sem við heimsóttum voru tvær vesælar tveggja lítra kókflöskur úti í horni, en heill ísskápur af náttúrulega gerjuðu kombucha (ég fékk mér rauðbeðukombucha). *** Hófst svo mikill göngutúr um The Mission – sáum Dolores Park, veggjamálverkin, ræddum við veggjamálara, skoðuðum sundhöll, átum kínverskt á Mission Chinese, skoðuðum fallegustu húsin, fórum inn í Women’s Building (og hálfa leiðina inn á NA-fund), átum eftirrétt á Bi-Rite Ice Cream og ræddum allt milli himins og jarðar. Þegar leiðir skildi um eftirmiðdaginn fórum við Nadja í góða hirði þeirra SF-búa, litum í Sci-Fi bókabúð, hefðbundna bókabúð (ég keypti Look eftir Solmaz Sharif), drukkum kaffi og röltum aftur upp á hótel. Þá pökkuðum við og fórum út að borða á mjög góðan víetnamskan veitingastað, litum við á Antique Vibrator Museum (sem reyndist nú bara ofurvenjuleg kynlífstækjaverslun) og vorum farin að sofa upp úr miðnætti. *** Nú er ég í flugvél. Við vöknuðum rétt rúmlega fjögur að nóttu og flugum frá SF til Newark klukkan 7. Ég horfði á I, Daniel Blake áðan – er enn að melta, en sennilega er hún fyrst og fremst sönn og maður hefur gott af því að sjá hana. Það er hægt að læra fleira af bíómyndum en hafnaboltareglur. *** Við fengum ekki að sitja saman í vélinni – en fyrir tilviljun horfði Nadja á sömu mynd. Sennilega erum við orðin svona samstillt eftir ferðalagið. Það var a.m.k. ekki vegna þess að úrvalið væri takmarkað. ***
Við sitjum í Newark í tvo tíma og fljúgum svo til Stokkhólms. Þar lendum við klukkan sjö að morgni. Upp úr tíu kemur tengdapabbi með krakkana, við umpökkum á Arlanda og fljúgum til Íslands klukkan 14. Þegar við lendum í Keflavík tökum við rútuna til Reykjavíkur – bíllinn okkar hefur staðið á BSÍ í tvo mánuði – og keyrum vestur. Ég átta mig ekki á því hvað þetta er langt ferðalag, en sennilega hartnær fjörutíu tímar. Og það verður gott að koma heim. Og gott að sofa. *** PS. Póstað í Newark: Þvílíkt ömurðarkaos sem þessi flugvöllur er, fari hann norður og niður og snúi aldrei aftur.