Í gær gerði ég tvenn mistök. Hin fyrri voru að segja að við Aram hefðum gist á sófanum hjá Hauki Má þegar við vorum í Berlín. Það gerðum við alls ekki. Við gistum í vellystingum í rúminu hans Hauks Más en Haukur Már svaf sjálfur í ponsulitla sófanum sínum, einsog Kristur krossfestur í jötunni, svo við mættum öðlast góðan svefn. *** Seinni mistökin gerðust á hlaupum í Rejmyreskógi. Ég taldi mig hafa hlaupið sömu leið og venjulega – sem ætti að vera tæplega 7 km hringur – og var satt best að segja ekki mjög vel fyrirkallaður í þá vegalengd, enda lifað á pizzum og kebab og límonaði og bjór í marga daga. En eftir fjóra kílómetra kom ég að sveitabæ sem ég hef aldrei komið að áður. Ég ákvað því að hlaupa bara sömu leið til baka. En þá kom ég ekki aftur á sama stað og ég hafði hlaupið frá, heldur út á hraðbraut. *** Mér fannst sennilegt að nú væri ég norðan við Rejmyre og hljóp því í suðurátt í von um að rekast fljótlega á einhvers konar skilti því til staðfestingar. Eftir 5-6 kílómetra birtist loks skilti og þá kom í ljós að ég var sunnan megin við bæinn og átti að hlaupa í norður en ekki suður. Batteríið í úrinu – sem er með GPS en engu korti – kláraðist þegar ég var kominn 16 km og þá átti ég eftir um 5 km. *** Ég viðurkenni að hljóp ekki alla leiðina. Sérstaklega ekki þessa síðustu 5 km. En ég fór þá sem sagt sirkabát hálfmaraþon, illa fyrirkallaður. Sem er það lengsta sem ég hef farið vel fyrirkallaður – þá undirbjó ég mig mánuðum saman, alla Víetnamdvölina, og hljóp einn af síðustu dögunum. Á miklu betri tíma, að vísu, en samt. *** Ég er í lélegu formi samt. Ég gerði þetta bara á þrjóskunni. *** Í morgun ætlaði ég að taka strætó til Vistinge til að ná öðrum þaðan til Norrköping áður en ég stökk í lest til Malmö. En þá var búið að loka öllum strætóstoppistöðvum í Rejmyre vegna bæjarmarkaðarins. Úr varð heljarinnar hasar, hlaupandi pungsveittur á lúnum leggjum um sveitarfélagið, áður en svili minn kom auga á mig og brást skjótt við – pikkaði mig upp á bílnum sínum og skutlaði mér út á þjóðveg. Þetta hafðist og ég er í lestinni. *** Líf mitt er eitt viðstöðulaust ævintýri. *** Þessir harðstjórataktísku messíasarkomplexar sem hrjá leiðtoga í einkareknu góðgerðar- og umönnunarstarfi eru rannsóknarefni. Eða í öllu falli ástæða til að gaumgæfa rekstrarmódelið. Í sjálfu sér eru þetta að mér sýnist misalvarleg dæmi – sennilega er engin ástæða til að bera saman Stígamót, Hjallastefnuna og Fjölskylduhjálp, við alvarlegri dæmi einsog Landakotsskóla, Breiðavík og Byrgið, en tendensinn er þarna. Einræðisherrastemningin. *** Kannski er hún líka skyld því sem gerðist í alþýðulýðveldunum. Því sem gerist þegar mannúðarstarf verður svo byltingarkennt eða svo réttlátt (eða sjálfsréttlátt, einsog sjálfumgleði heitir á ensku) að ekkert má hamla því; allt verður að láta undan svo ruðningsvélin geti haldið áfram óvéfengjanlegu mannúðarstarfi sínu. Árangur áfram, ekkert stopp, einsog önnur mannúðarmaskína orðaði það um árið. *** Mér hefur líka alltaf þótt skrítið að svo stór hluti góðgerðar- og umönnunarstarfs sé á vegum sjálfseignarstofnana, félaga og fyrirtækja. Mér finnst það til marks um að hið opinbera sé ekki að sinna einhverju sem það ætti að vera að sinna. Í mörgum tilvikum borgar hið opinbera fyrir starfsemi félaganna – en sennilega miklu minna en það myndi gera ef það tæki yfir starfsemina.
Untitled
Ein helsta vísbendingin um að maður búi í stéttasamfélagi er að sumt fólk virðist halda að allir aðrir hafi það jafn gott og það sjálft. Til dæmis þegar Össur Skarphéðinsson heldur að „venjulegt fólk“ geti skottast um heiminn fyrir lítið fé – og það hafi ekki að gera með stöðu hans eða tekjur, heldur með uppgang „deilihagkerfisins“. *** Annað dæmi er að því finnst ákveðin vinna vera fyrir neðan virðingu þeirra. Einsog þegar Agli Helgasyni finnst fásinna að „venjulegt fólk“ eigi að skanna vörurnar sínar sjálft í stórmörkuðum. Því venjulegt fólk vill ekki „vinna á kassa í Bónus“. *** En auðvitað vinnur venjulegt fólk á kassa í Bónus. Og venjulegt fólk getur ekki leyft sér að ferðast út um allar trissur án þess að setja efnahag sinn á hliðina – hvað sem líður „deilihagkerfinu“ (sem er auðvitað ekki deilihagkerfi heldur harðkjarna markaðshagkerfi). *** Og þetta skrifar maður sem skottast um heiminn, vill ekki vinna á kassa í Bónus og AirBNBar heimili sitt á meðan hann eyðir sumrinu í Svíþjóð. Sem er sennilega ekki mikið ódýrara en að eyða því á Folegandros eða Boston, þótt flugmiðinn kosti minna. *** Þetta hefur að vísu meira með stöðu mína að gera en stétt – að minnsta kosti í þeirri merkingu að ég hef frekar lágar tekjur (langt, langt undir landsmeðaltali). En ég fæ ansi mikið af ókeypis flugmiðum vegna starfs míns. *** Mig grunar samt að ég hafi það betra en flestir. Í það minnsta betra en mjög, mjög margir. *** Í sumar fer ég í tvígang í eiginlegt frí. Annars vegar var helgarferðin til Berlínar með Aram – við keyptum okkur ódýrasta miða með Norwegian, án þess að tékka inn farangur, og gistum á sófanum hjá Hauki Má. Óvæntasti og dýrasti liður ferðarinnar var að við neyddumst til þess að leggja í dýrara stæði á Arlanda en við ætluðum – ódýru stæðin voru öll full – og það setti okkur næstum á hliðina. *** Í hinu fríinu förum við Nadja til San Francisco í sex daga. Það er um miðjan ágúst, rétt áður en við komum heim. Nadja fékk flugmiðana í jólagjöf (og ég leitaði einfaldlega að ódýrustu tilboðunum eitthvert út fyrir Evrópu). Þar er deilihagkerfið svo langt á veg komið að það er ódýrara að búa á hóteli en á AirBNB. *** Sennilega hefði ég ekki efni á neinu af þessu ef ég ynni á kassa í Bónus. Eða ef ég væri næturvörður á hóteli eða blaðamaður á héraðsfréttablaði, einsog ég var, eða starfsmaður í skipasmíðastöð, rækjuvinnslu, sambýli, leikskólakokkur eða ræstitæknir í skemmtiferðaskipi, einsog ég hef líka verið, og svo sannarlega ekki sem öryrki eða sjúklingur, sem ég hef blessunarlega aldrei verið. *** Ég hef verið sjálfstætt starfandi rithöfundur í tíu ár um þessar mundir og af þeim árum hefði ég kannski getað leyft mér eitthvað svona lagað í tvö. Tvö önnur gat ég varla leyft mér að taka strætó. *** Samt hef ég alltaf verið venjulegt fólk.
Untitled
„Pabbi, hvað þýðir porn?“ *** Við erum rétt fyrir utan smábæinn Nykil í Svíþjóð. Sem minnir óneitanlega á Nýhil en er ekki Nýhil heldur Nykil. Hér eru tveir sumarbústaðir, stöðuvatn og náttúra. Hér dokum við ekki, enda væri það úr takti við allt, heldur förum til Rejmyre strax seinnipartinn. *** Við Aram komum frá Berlín í nótt klukkan þrjú eftir 3 1/2 klukkustundar bíltúr frá Arlanda. Í Berlín dvöldumst við tvær nætur í góðu yfirlæti hjá Hauki Má. *** Fyrsta daginn fórum við í dýragarðinn. Eftir nokkra klukkutíma þar fór skyndilega að rigna mikið, á endanum var hálfgert flóð á vissum stígum. Við flúðum aftur til Neukölln, fengum okkur kebab og fórum á nýju Spidermanmyndina í bíó. Eftir bíó lásum við Mómó, Aram fór að sofa og við Haukur sátum á svölunum fram eftir nóttu. *** Seinni daginn fórum við á DDR safnið, skoðuðum Sjónvarpsturninn og múrinn, drukkum límonaði í sólinni og átum meira á imbißi á Danziger Strasse. *** Það var mikið rætt um ofurhetjur í ferðinni. Það er óhætt að segja að ferðin hafi verið mjög vel heppnuð og við feðgar báðir í skýjunum. *** Und mit Menschen. A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Jul 23, 2017 at 6:32am PDT //platform.instagram.com/en_US/embeds.js *** Það fyrsta sem gerðist samt – fyrsta kvöldið, þar sem við Aram sátum í neðanjarðarlestinni á leiðinni að hitta Hauk, var að ég frétti að gömul vinkona mín frá Ísafirði hefði látið sig hverfa, stytt sér leið, eða hvernig maður orðar það þegar maður vill ekki nota ljótustu orðin. Hún er allavega ekki til lengur og allir sakna hennar mjög og óhætt að taka undir það sem sagt hefur verið um glaðværð hennar í leik og starfi. *** Hún vann á bókasafninu og var alltaf glöð að sjá alla. Heilsaði öllum einsog þeir væru gamlir vinir nýkomnir úr löngu ferðalagi. Þegar við vorum ung vann hún á Sjallanum – á því tímabili þegar ég kom þangað nærri daglega til að drekka kaffi, reykja og skrifa. Og við spjölluðum alltaf. Hún var í mörg ár líka kærasta eins af bestu vinum mínum. *** Óskiljanlegt og hryllingur eru orð sem koma upp í hugann en sem fyrr duga engin orð beinlínis – eða nándar nærri – til þess að útskýra neitt um það hvers vegna ung manneskja í blóma lífsins velur að segja skilið við það. *** Okkur líður ekki alltaf nógu vel. Við þurfum að huga betur hvert að öðru. *** Þeir sem eftir standa eru sennilega í öllu litrófi tilfinninganna – ást og sorg og reiði og undrun og ekki-undrun og öllu hinu. Við sem eftir stöndum, meina ég. Og samúð og samhugur til þeirra sem stóðu henni næst. Þvílíkur botnlaus harmur. *** Aram þekkti hana líka og við ræddum þetta í ferðinni. Ég ætlaði ekkert að fara að tala um þetta við hann en það varð samt einhvern veginn að gerast. „Svona er lífið stundum“, sagði hann við mig í gær í bílnum, þegar ég var augljóslega leiður að reyna að tala mig í gegnum þetta. Stundum er hann svo miklu eldri en ég og þótt það kannski breyti engu, að svona sé lífið stundum, þá er það líka alveg satt. Svona er lífið stundum. *** Ég verð í Rejmyre í nótt og aðra nótt, fer síðan til Malmö að lesa upp á einhverjum reiðhjólatúr – þetta er eitthvað nýmóðins bókmenntaprógram – og svo til Halmstad til að spjalla í bókabúð. Og þaðan til Biskops-Arnö að kenna ritlist. Hasarinn heldur áfram.
Untitled
„Eiríkur, það er fullt af fólki að tala illa um þig á Facebook.“ *** Það er komið fullt af kommentum á byggðafærsluna. Þar er fólki mikið í mun að sannfæra mig um að Hvalárvirkjun sé léleg byggðastefna og að Reykjavíkurflugvöllur sé fyrir (sumum) Reykvíkingum. Hvorutveggja kemur fram í pistlinum. Hvalárvirkjun er vonlaus byggðastefna – flugsamgöngurnar er lengri samræða. *** Svo fæ ég líka heilu facebookþræðina í innboxið mitt. Á einum þeirra er mér líkt við reyðfirskan hreppstjóra frá 2003 og ég í ofanálag uppnefndur „sjálfskipaður talsmaður brothættra byggða“. Svo er klykkt út með að ég eigi hætta að vera með allar þessar blammeringar síknt og heilagt og reyna að vera svolítið kurteisari og málefnalegri. *** Annars er áhugavert að þeir sem biðja aðra að hafa sig hæga, sýna stillingu, draga ekki óþarfa víglínur, mála ekki skrattann á vegginn o.s.frv. eru undantekningalítið þeir sem hafa valdið – þeir sem hafa annað hvort engu að tapa eða trúa því ekki að þeir geti eða muni tapa. Þetta er svona „vertu ekki alltaf að æsa þig kelling“ málflutningur. *** Það er voðalegt að láta steypa Facebook svona yfir sig, eiginlega. Rifrildisfuglabjarg. Þegar hugur manns er heiður. Mér finnst ekki nærri jafn gaman að debatera við fólk og mér þótti einu sinni. Mörg þessara rifrilda gæti maður líka skrifað sjálfur – sumt fólk talar bara og hugsar einsog vélar, segir sömu hlutina aftur og aftur á sama háttinn og ævinlega áður. Bla bla bla. *** Fólk segir líka að þeir sem hverfi af landsbyggðinni geri það ekki vegna atvinnumissis eða slaks efnahagslífs heldur vegna þess að þar sé svo mikið fásinni. Þetta er eitt af sándbætunum í umræðunni. Einsog ef það bara opni fleiri kaffihús og verði haldnar fleiri listahátíðir þá hætti fólksfækkunin. Sennilega hjálpar það nú til, en myndin er flóknari. *** *** Þetta er glæra úr fyrirlestri Kristins Hermannssonar á málþingi um byggðamál sem var haldið á Flateyri nú í maí. Guli reiturinn er samfélag þar sem efnahagslíf er sterkt og búsetugæði mikil. Þar við hliðina er verbúðin – það er Ísafjörður í denn, þegar útgerðin var sem sterkust, mikil atvinna, skítnóg af peningum en talsvert lítið um að vera (nema fyllerí á helgum). Þegar útgerðin hrundi – og fjöllin tóku til við að drepa íbúana sem bjuggu undir þeim – hrundu samfélögin. Þeim blæddi fólki. Ef að búsetugæði hefðu verið meiri hefði fólk kannski staldrað aðeins lengur við. *** Í dag eru búsetugæði á Ísafirði mjög mikil – það er eiginlega alveg fáránlega mikið við að vera miðað við stærð bæjarfélagsins. Ég held að efnahagurinn á Ísafirði sjálfum sé að mörgu leyti fínn líka – atvinnulíf er fjölbreytt og örvilnan í lágmarki. En það er eitthvað erfiðara í nágrannabyggðunum. Fólksfækkun í Ísafjarðarbæ er samt ekki nema um 10 manns á ári. Með þessu áframhaldi tæmist bærinn á 360 árum. Það er auðvitað ekki gott og við vildum heldur að bæjarbúum fjölgaði – en þetta er heldur ekkert panikkástand. *** Jæja. Nóg um þetta. Þarf að koma mér í flug.
Untitled
Ég gekk í bæinn og hlustaði á Póetrý Gó. Þetta er strax orðin hefð. Ég veit ekki hvað ég geri þegar þættirnir klárast. *** Nema í þetta sinnið gekk ég í bæinn í Manchester! *** Sigurður Pálsson var til viðtals um flanerí. Viðtalið var áhugavert og Fríða og Brynja sleipari og styrkari en í fyrsta þættinum (sem var samt fínn). Þær spurðu meðal annars hvort flaneríið væri einhvern veginn tengt sveitagöngutúrnum, sem Sigurður taldi ekki – eða í öllu falli fannst honum mikilvægara að ræða það sem skildi flaneríið og sveitagöngutúrinn að. Ég hafði – fram að því og á meðan og á eftir – verið að velta því fyrir mér hvort flaneríið væri ekki einhvers konar arftaki sveitagöngutúrsins og afleiðing af flutningi sveitapilta í borgina. Þeirra sem eru vanir að rölta bara af stað. Það eru engir stígar í náttúrunni og einmitt þannig flanerar maður um borgir – einsog það séu engar leiðir. *** Sveita pilta . Það kom einmitt skýrt í ljós undir lok þáttar að Brynja – ég held það hafi verið Brynja, ekki 100% viss um að ég þekki raddir þeirra nógu vel til að skilja í sundur – taldi flaneríið ekki vera fyrir konur, að minnsta kosti ekki óvopnaðar. Eiginlega var lokahnykkurinn svolítið tráma bara – ég veit ekki hvort ég á að tala um óttaþjóðfélag eða bara raunsætt þjóðfélag eða hvað. *** Ég held að bóhemían hafi alltaf verið hættuleg. Og kannski er þá þjóðráð að vera með hníf í vasanum. Felgulyklar, einsog Brynja stakk upp á, eru of stórir og ómeðfærilegir, hrútskýrlýsi ég hér með yfir. Og hafiði það. *** Flaneríið er kannski skylt því líka – þessum traustsleik sem kynslóðir bóhema hafa tekið þátt í. Að sleppa öllum borgaralegum öryggisprótókolum (fyrir utan hnífinn) og kasta sér út í lífið á þeirri forsendu að í raun og veru sé maður ósæranlegur, sennilega ódrepandi og jafnvel ódauðlegur, hvað sem líður öllum sönnunargögnum um hið gagnstæða, frá Rimbaud til Lí Pó til Virginiu Woolfe til Bon Scott til Amy Winehouse. *** Og ennfremur: að maður verði ekki öðrum til ógagns, til sára. Maður meiði ekki. En kaosið er auðvitað þess eðlis að ekkert af því stendur. Fólk meiðir hvert annað í stjórnleysinu. Og maður meiðir sig. Og fólk meiðir sjálft sig ekki síst. Í kaosinu. Sönnunargögnin eru mýmörg. *** Sem þýðir ekki að það geti ekki verið þess virði. En það er ekki ókeypis. Hvað sagði James, hýsill minn í gærkvöldi, um Jim Morrison og fleiri af sama kalíberi – eitthvað um að þau hefðu sýnt að það væri í lagi að þjást? *** Og kannski búum við ekki í óttaþjóðfélagi heldur óttalausu þjóðfélagi. Þjóðfélagi sem hefur úthýst óttanum. Úthýst áhættunni. Kannski fáum við kikkin okkar annars staðar. Og kannski fáum við engin kikk og erum bara hrædd í staðinn. *** En flaneríið er líka áhugavert í ljósi smábæjar eða -borgargöngutúrs sem millistigs milli hreins sveitagöngutúrs og hreins flanerís. *** Hreint flanerí á sér stað í mannfjölda þar sem þú þekkir engan en nærð samt einhvers konar anonymus sambandi við lífssystkin þín – hitt fólkið í heiminum. Og það virðist vera sátt um að ef þetta fólk ber kennsl á mann – ef það kemur of nálægt, eru kunningjar eða kviðmágar, einsog gerist á minni stöðum – þá rofni flaneríið. Og óravíddirnar birtast manni kannski ekki aftur fyrren fólkinu hefur fækkað svo að enginn er eftir lengur – maður er bara einn á berrössuðu fjalli að flandra. Eða fjölgað svo að fólkið hættir að vera fólk og verður hrein náttúra. *** Ég held ég eigi annars mjög gott með að hunsa umhverfi mitt. Kannski er það vegna þess að ég er alinn upp í smábæ. Ég get alveg farið í göngutúr um Ísafjörð án þess að þekkja neinn. Hvað þá í Reykjavík. Maður bara sleppir Laugaveginum og fer ekki inn í Kringluna. En þá er auðvitað færra fólk í kringum mann. *** Ég man samt eftir köfnunartilfinningu í reykvískum kreðsum – að þær væru svo litlar, og maður ætti svo mikið undir þeim. Ég man eftir því að vera tvítugur inni á Sirkus eftir nokkrar vikur í borginni og átta mig á því að þarna inni voru allir kviðmágar. Og þarna höfðu sömu kviðmágarnir setið kvöld eftir kvöld frá því ég flutti í bæinn. Það beinlínis þyrmdi yfir mig, ég bað fólk að hafa mig afsakaðan og fór heim. Þeir sem þekkja mig vita að ég er illa haldinn af ekki-fara-heim-fyrren-allt-stuðið-er-búið-syndróminu svo þetta var alvarlegt. *** Kannski fannst mér einsog ef ég myndi misstíga mig innanum þetta fólk – syni og dætur frægra listamanna, virtra fræðimanna, prófessora, söngvara o.s.frv. – þá ætti ég hreinlega ekki afturkvæmt. *** Það sem mér finnst auðvitað furðulegast var að … nú ætlaði ég að segja að ég hafi aldrei fundið fyrir köfnunartilfinningu fyrir vestan en það er ekki alveg satt. Ég man meira að segja eftir vikum þar sem ég bókstaflega nennti ekki úr húsi af því ég vildi ekki hitta ákveðið fólk. En hún birtist einhvern veginn öðruvísi. Kannski var bara ekki sami látaleikur í gangi – á Ísafirði vita allir að þeir deila rými með fólki sem hefur andlit, nöfn, sögu. Í Reykjavík skapast (fyrir mér) einhvers konar dissonans þar sem fólk hagar sér einsog það byggi í nafnleysi. *** Af því mér er sagt að um það sé rætt á Facebook vil ég koma því á framfæri, að líkt og stóð í pistlinum sem nú er þráttað um, þá er ég sennilega mótfallinn Hvalárvirkjun – hef ekki kynnt mér þessi mál alveg í þaula, það verður að viðurkennast, en mér heyrist fólk sem ég treysti til að vita betur en ég (og sem ég treysti pólitískt) halda því fram að þetta sé rugl. Og það er fólk fyrir vestan, vel að merkja. Sennilega er hún rugl sem kemur engum til góða nema kapítalinu. *** En pistillinn fjallaði sem sagt alls ekkert um það. Ég held að internetið sé einhvers konar ólæsismaskína. Fólk starir á internetið, starir á stafina, en les ekki neitt. **** Vel að merkja sýnist mér hreinleikaorðræðan koma alveg jafn vel í ljós í fiskeldismálinu. Og þar er ég eindregið þeirrar skoðunar að laxveiðimannaáróðurinn sé hystería. Þar er einfaldlega verið að stöðva atvinnuuppbyggingu með illa rökstuddum upphrópunum. *** Keypti mér fjórar nýjar bækur. *** Kaputt, sem ég er búinn með en vil eiga – var með eintak í láni, skila reyndar hugsanlega þessu þar sem hitt hefur ekki farið alveg nógu vel í bakpokanum. *** The Skin eftir sama höfund (Curzio Malaparte) sem er framhald Kaputt. *** The Argonauts eftir Maggie Nelson og allir eru alltaf að mæla með. Sennilega mun mér finnast hún óþolandi bara þess vegna. Ég er rosalega illa haldinn af finnast-allt-ömurlegt-sem-öðrum-finnst-kúl syndróminu. Meira að segja afgreiðslukonan í búðinni hélt langa ræðu yfir mér um gæði bókarinnar. *** Tomorrow I’ll Be Twenty eftir Alain Mabanckou. Ég hef ekkert lesið eftir hann ennþá og hann hefur að mér sýnist litla athygli vakið á norðurlöndum. A.m.k. miðað við hvað hann er stór í Frakklandi og í Bretlandi. Ég hitti hann líka einu sinni með Eric Boury, á einhverri hátíð í Frakklandi. Ég veit ekki hvort ég ætti heldur að segja að hann sé viðkunnanlegur eða brjálæðislegur töffari . Sennilega er hvorutveggja frekar nákvæmt. *** Í kvöld klukkan 19 er upplestur í The Other Room. Þar verðum við þrír Íslendingar – auk mín eru það Ásta Fanney Sigurðardóttir og Vala Thorodds, einsog hún er þekkt hér í útlandinu. Við erum að leggja heiminn að fótum okkar.
Untitled
Ég gleymdi að nefna í gær – þegar ég var að tala um Póetrý Gó og ljóð og göngutúra – að Nadja er nýbúin að segja mér frá útvarpsþætti sem hún hlustaði á og fjallaði um brjálæðislegustu göngukeppni í heimi. Í sem stystu máli gengur hún bara út á að ganga saman í rólegheitunum þar til allir nema einn hafa gefist upp. Maður fær samtals 25 mínútur á hverjum sex klukkustundum til að sinna klósetti, plástrum, fæðu og slíku – á palli sem fylgir göngunni. Göngunni er haldið á 5 km hraða. *** Keppendum ber saman um að það skipti ekki endilega mestu að vera í góðu formi heldur að vera svolítið klikkaður í hausnum. Líka að það sé alltaf auðveldara í annað sinn en fyrsta. Sumir segja að maður þurfi að geta verið sósíal – talað við hina – en aðrir segja að best sé að vera sjálfum sér nægur. Maður þarf að vera þrjóskur. Þarf að geta hanterað svefnleysið. *** Íþróttamenn segja að það sé erfitt að keppa þegar maður er hvorki að reyna við hraða né viti hvenær keppnin er búin – hvað maður þarf að fara langt. Algert mændfokk. *** Og svo bara blæðir manni úr fótunum. Úr blöðrunum. Fær illt í hnén. Verki í mjaðmirnar. Og svo framvegis. Og heldur bara áfram. Gefst ekki upp. Metið er 89 klukkustundir. *** Hvernig ljóð ætli maður semji á 89 klukkustunda göngutúr? *** Ég er á Arlanda. Ákvað að borða ekki hamborgara – ég ét alltaf hamborgara á ferðalögum. Fékk mér kjúklingasalat. Það var ábyggilega geggjað hollt. Það voru bulgur í því! *** Mér var bent á að pistill minn um verndarstefnu reykvísku millistéttarinnar í garð landsbyggðarinnar hefði valdið smá fjaðrafoki. Ég veit ekki hvað ég nenni að kommentera á það. Einhver sagði víst að það mætti ekki smætta reykvísku millistéttina svona. Niður í tekjur sínar og félagslegar aðstæður, reikna ég með. Einsog þetta sé fólk sem eigi eitthvað sameiginlegt. Einhverja tiltekna lífssýn. Þá styttist nú bara í gúlagið, hreinlega. *** Annars heyrist mér (ég fæ þetta í endursögn) flestir hafa misst af mikilvægasta punktinum og fest sig þess í stað í tvatli um flugvöllinn og hvalárvirkjun – sem voru dæmi ekki kjarni. Kjarninn er að þessi djöfuls exótísering er ofbeldi. Ísafjarðardjúp er ekki bara fallegt – það er líka lífæð samfélagsins sem þar býr. Það er ekkert samfélag á Íslandi sem ekki leggur nokkrar byrðar á umhverfi sitt – og það er ekkert samfélag á Íslandi sem leggur jafn miklar byrðar á umhverfi sitt og Reykjavík. *** Það er líka voðalega ódýrt að yppta bara öxlum yfir fólksfækkun, horfnum tækifærum, og biðja bara um „fjölbreytt atvinnulíf“ (það er alla jafna, held ég, kóði fyrir „getiði ekki selt okkur eitthvað skran þegar við komum í heimsókn“). Þegar það kostar mann ekki neitt sjálfan. En ef maður segði: Má virkja þessa á ef það gæti bjargað byggðinni í Kvosinni, er sennilegt að annað hljóð kæmi í strokkinn. *** Fjölbreytt atvinnulíf er líka kóði fyrir „ekki þetta tiltekna sem við ætlum að banna ykkur núna af því við getum það“. Heldur allt hitt. Svona einyrkjadót. *** Ég hugsa meira að segja að það mætti rækta eins mikinn lax og fólki sýndist við strendur landsins – ógeldan og sprautandi sæði sínu um allar trissur – ef það gæti bjargað byggðinni í Vatnsmýrinni. Sem er ekki einu sinni orðin byggð ennþá. *** En lífið í Árneshreppi, á Þingeyri, jafnvel á Ísafirði, er abstraksjón. Það er ekki alvöru líf. Þar býr ekki alvöru fólk. Þar búa bara kynlegir kvistir. Þegar þeir eru orðnir nógu fáir er hægt að setja þá bara á sveitarstyrk. *** Ekki að ég nenni neitt að kommentera á þetta! Ha! *** Patróníserandi kærleikur. Hann er að sumu leyti verri en grímulaust hatur. Við því getur maður allavega brugðist. *** Þegar snýr að náttúrunni er þetta ekki spurning um hver hafi séð fossana við Hvalárvirkjun. Reykvíkingar eiga alveg jafn mikið tilkall til fegurðarinnar í landinu og fólkið í Árneshreppi. En þegar kemur að hagsmununum – hver þarf á innspýtingu að halda, hver berst fyrir lífi sínu og hver er bara að reyna að græða – og valdinu – hver hefur aðgang að þingflokkum, hinni opinberu umræðu, fjármunum o.s.frv. – þarf að greina upp á nýtt. Þar kemur fólk ekki jafnt að borðinu. Sannleikurinn er sá að þar hafa sumir meira vald en aðrir, og sumir meiru að tapa en aðrir. *** En jájá. Það má auðvitað ekki smætta fólk niður í hagsmuni sína eða vald eða láta einsog það hafi nokkra hagsmuni eða völd. *** Ég ætla að fara og kaupa mér svolítið kaffi. Og finna hliðið mitt.
Untitled
Heja Sverige! A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Jul 17, 2017 at 12:04pm PDT //platform.instagram.com/en_US/embeds.js *** – Can I take your order, sir?
– Is this … wow … is this Sweden-Germany?
– Yes.
– And it just started?
– Uh … no, it’s halftime.
– Oh wow.
– Would you like to order? The kitchen is closing soon.
– Oh, wow, is it so late? What is simple for the kitchen to make?
– Well it’s not closed yet, so you can order it all. It’s not a problem.
– Oh, wow. Wait, is it women playing?
– Yes. It’s women.
– Even better!
– [Yfirlætislega] Yes.
– Are these the best?
– What do you mean?
– Are these the best players?
– In the world?
– Yes, or in Germany and Sweden. Is this the World Cup? ‘Cause they don’t have that every year, do they?
– Uh, I’m not sure.
– Is it the World Cup?
– Uh, yes, I think it’s the World Cup.
– Ok, wow. That’s great. Amazing.
– Would you like to order?
– Yes, wow, please, I’ll have the tacos. Are they good?
– They’re very good. And to drink?
– Do you have that german thing, the weize?
– Uh …
– Hefeweiz …
– I’m not sure, wait …
– Wow, wait, here it is. Weissbier. That’s my favorite.
– I can get you one of those.
– Wow. Great. Bitte schön.
– No problem. *** [Á meðan á næsta borði] – Nej, nej, det går inte. Så spelar man inte. Ingen disciplin!
– Scheisse! Scheisse!
– Rammstein!
– Sverige, Sverige über alles!
Untitled
Ég hef svo miklar áhyggjur af þessum leik á morgun. Í fyrra birtist stutt viðtal við mig á forsíðu Liberation í Frakklandi: «L’Islande va vous écraser», sagði ég. Við munum tortíma ykkur! *** Lógíkin var eftirfarandi. Ég sá jafnteflisleik Íslands og Frakklands 1998. Sat fyrir aftan markið, nánast í fanginu á Fabian Barthes, þegar Ríkharður Daðason vippaði boltanum yfir hann. Ég missti svo algerlega af jöfnunarmarki Frakka. En frá 1998 til 2016 tvöfaldaði íslenska landsliðið getu sína árlega. Og ef Frakkar gætu sagt hið sama ættu þeir kannski séns. Annars myndum við tortíma þeim. *** Þetta eru sólítt rök. *** Ég veit ekkert um fótbolta (hvorki karla- né kvennabolta) en þetta eru samt sólítt rök. Það sér hver maður. *** En þau eiga ekki við um kvennalandsliðið. Þar töpuðum við þrjú-eitt 2009 og bæði liðin hafa bætt sig nokkuð síðan. Bæði eru á viðstöðulausri uppleið. Og helvítis Frökkunum er spáður sigur á þessu móti. *** Í dag fór familían til Finspång. Börnin hafa þá ekki sofið í sama húsi tvær nætur í röð í meira en viku. Ég verð í Råby í nótt og fer til Manchester á morgun. Kem aftur á fimmtudag, fer með Aram til Berlínar á föstudag (til að skoða pöndur, köngulóarmenn, stjörnur, kebab og gráhærðan mann sem þeysist nær fertugu). *** Ég gekk í bæinn. Hlustaði á nýja ljóðapoddkastið Póetrý gó. Byrjunin var rosaleg – ég þrammaði áfram og gaggaði „vá!“ aftur og aftur. Það reyndist svo ljóð eftir Lawrence Ferlinghetti en ekki einhvern óuppgötvaðan snilling en það var samt geggjað og það var vel þýtt af öðrum þáttarstjórnanda. *** Ég var sammála flestu sem sagt var um ljóðlist en fæstu af því sem sagt var um dýr. Nei, annars, það er lygi – mér fannst lokapunkturinn um sorglegu hundana góður en það var kannski meira um ljóð. En sú hugmynd sem kattaeigendur hafa um að þeir séu jafningjar kattanna sinna – en ekki eigendur þeirra – er biluð. Og kemur enda ekki upp nema þegar kattaeigendur ræða fordóma sína fyrir hundaeigendum. *** Ég er alinn upp við alls konar dýr. Ketti, hunda, gullfiska, hamstra, kanínur, páfagauka og svo framvegis. Í dag eru foreldrar mínir meira að segja með hænur. Valur bróðir, sem býr við hliðina á mér, missti annan af hundunum sínum á dögunum – Loki var orðinn ansi gamall, hans er sárt saknað. En Freyja lifir enn. Kanínurnar, sem hann var með til manneldis, dóu allar – ég held þær hafi ekki meikað návígið við hundana (þeir eru mjög stórir). Svo á hann líka kött. Pabbi á líka kött – bengalkött sem er með einhvers konar gigt núorðið. Þyrfti eiginlega að eignast hjólastól. *** En ég meika ekki dýr. Ég nenni þeim ekki. Sennilega kláraði ég bara dýrakvótann minn sem barn. *** Póetrý gó fjallar um göngutúra og ljóðlist. Ég geng ekki mikið. Eða – ég geng ekki mikið í þeim tilgangi að vera í göngutúr. Stundum ákveð ég að ganga eitthvert í staðinn fyrir að hjóla, taka strætó eða keyra. Ég geng sennilega mjög mikið, sérstaklega þegar ég er á ferðalögum, sem er alltof oft. En ljóðræni göngutúrinn er ekkert sem ég þekki úr eigin lífi. *** Mér varð hugsað til myndljóðabókarinnar Maps eftir Söruh Cullen. Hún batt einfaldlega penna einsog pendúl inn í kassa (ef ég man rétt) og gekk svo með kassann og leyfði pendúlnum að krota á blaðið. *** *** Wordsworth var líka gönguskáld. Sagðist fá 90% af öllum sínum hugmyndum á göngu. Gekk líka um stóran hluta Evrópu. Þrammaði um alpana. Og orti auðvitað An Evening Walk, Adressed To A Young Lady. *** […] In thoughtless gaiety I coursed the plain,
And hope itself was all I knew of pain;
For then, the inexperienced heart would beat
At times, while young Content forsook her seat,
And wild Impatience, pointing upward, showed,
Through passes yet unreached, a brighter road.
Alas! the idle tale of man is found
Depicted in the dial’s moral round;
Hope with reflection blends her social rays
To gild the total tablet of his days;
Yet still, the sport of some malignant power,
He knows but from its shade the present hour.
But why, ungrateful, dwell on idle pain?
To show what pleasures yet to me remain,
Say, will my Friend, with unreluctant ear,
The history of a poet’s evening hear? […] *** Ég hleyp auðvitað. Og syndi. Sennilega hugsa ég mest meðan ég syndi. Á hlaupunum sprengi ég hugsanir mínar með Guns N’ Roses og AC/DC og Judas Priest. Af því að stundum þarf maður bara að sprengja í sér hugsanirnar. Þær eru stórhættulegar. En í sundlaugum eru engir heddfónar. Þótt ég sé reyndar farinn að synda með tölvuúr á handleggnum sem segir mér hversu margar ferðir ég er búinn að fara. En það bjargar mér bara frá því að vera stanslaust teljandi – „Fimm, fimm, fimm“ í hverju sundtaki þar til ég sný við og þá „Sex, sex, sex“ og þar fram eftir götunum. Nú get ég hugsað um ljóð á sundi! *** Mér er annars mikið hugsað til tímans þessa dagana. Við Aram Nói erum að lesa Mómó. Að sumu leyti er ég algerlega á valdi grámennanna. En það detta samt inn augnablik inn á milli þar sem ég verð alger Beppó. Eða alger Gígí. En það hvarflar líka að mér að í því sé fólgin dálítil sjálfelska. Ef ég festist í því að vera Beppó eða Gígí þýðir það ekki að fötin fari aldrei í þvottavélina, kvöldmaturinn verði aldrei eldaður eða reikningarnir aldrei borgaðir. Það lendir bara á næsta manni. Sem endar svo kannski bara útbrenndur og úttaugaður, heilsulaus á heilsuhæli, eða hreinlega í öndunarvél, hjartaþræðingu og heilablóðfalli á meðan ég nýt lífsins með fætur upp í loft. *** En ég held samt að maður verði að kunna að slappa af. Og gæta sín á að láta ekki aðra pikka upp slakann fyrir sig. Þetta er ballansgangur. *** Útgefendum sem langar að gefa út Remember Europe fjölgar dag frá degi. Það er eiginlega algert rugl. Þessi bók er algert rugl. Hver vill eiginlega gefa út svona vitleysu? *** Mér finnst varla að maður geti kallað sig karlmann núorðið ef DV er ekki búið að slá því upp hvað manni finnst um Robert Downey. *** Í dag hafði samband við mig valinkunnugt ljóðskáld. Hán spurði hvers vegna ég væri ekki meira „á netinu“. Ég sagðist blogga daglega og hán sagðist ekki lesa bloggið mitt en myndi hugsanlega bæta úr því í framtíðinni. *** Það vill enginn lesa blogg. Sérstaklega ekki svona löng blogg um ekki neitt. Um kvennafótbolta og ljóðlist. *** Korter í að Svíþjóð-Þýskaland hefjist. Ég þarf að koma mér á einhvern sportbar. Hér er enginn fótbolti.
Untitled
Við Aino og Nadja fórum í bæinn í dag. Þegar við komum heim og borðuðum kvöldmat – heim er hjá mági mínum, sem var ekki heima – spurði Aram hvað við hefðum gert og Nadja rakti það fyrir honum, þegar Aino hafði þvertekið fyrir að nenna því. *** Við gengum hálfa leiðina í bæinn – Aino hjólaði. Tókum strætó restina. Svo fórum við í H&M og enga venjulega H&M heldur fyrstu, orginal H&M verslunina hér í Västerås. Ég keypti mér ný sólgleraugu, í stað þeirra sem ég gleymdi í Hald – fjölskyldan er sammála um að sólgleraugun í Danmörku hafi verið fallegri. Ég keypti mér líka bláar buxur. Fyrstu bláu buxurnar mínar, sem eru ekki gallabuxur. Aino fékk sér rauðar sokkabuxur með glitri og dálítið af hárteygjum. Aram fékk nýjar sparibuxur. Nadja hætti við að kaupa sér peysu á síðustu stundu og gekk út tómhent. *** Næst fórum við á Espresso House, sem er óspennandi kaffihúsakeðja. Fyrir þessu voru tvær ástæður. Annars vegar er Västerås óttalegur svefnbær um helgar, það lokar allt snemma, og við hugsuðum að svona keðja væri sennilega opin aðeins lengur. Hins vegar var rigning og Espresso House var handan við götunnar. *** Þegar við komum á Espresso House voru átta mínútur í lokun. Svo við fórum á aðra óspennandi keðju – þar sem ég hef stundum setið við vinnu, af því netið er áreiðanlegra en á skemmtilegri kaffihúsum – Wayne’s Coffee. Þar átum við filodeigsrúllur og drukkum kaffi og ávaxtasafa og bara svona höngsuðum. *** Loks fórum við í Hemköp og keyptum í kvöldmatinn. Ég gerði miðlungsgott sjávarréttapasta úr hráefninu. Ég á að geta betur. *** „Þetta var ekki góð saga“, sagði Aram. „Þetta átti ekki að vera góð saga, þetta er bara það sem við gerðum í dag“, sagði Nadja. „Samt ekki góð saga“, sagði Aram. *** Ég fór líka út að hlaupa í morgun. Tvo hringi í skóginum. Það er alveg merkilegt að það virðist engu máli skipta hvað ég hleyp mikið ég er alltaf í jafn ömurlegu formi. *** Sjálfur gerði Aram vel að merkja ekkert nema spila tölvuleiki og lesa Andrés. Ég skil ekki hvaða stælar þetta eru í honum. *** Svo er lífið heldur ekki keppni!
Untitled
Ég er ekki andlega fær um annað á ferðalögum en að éta og blogga. Einstaka sinnum les ég. En það er eitthvað við að vera in transit. Ég bara dett út. Sem er ekki nógu gott því ég eyði núorðið stórum hluta af lífi mínu í einhverjar helvítis millilendingar og rugl. *** Ég þarf að fara að kaupa mér eitthvað að borða. Ekki vegna þess að ég sé svangur. Því fer fjarri. Heldur af því að það er það sem ég geri á flugvöllum. *** Upphaflega ætlaði ég að fara heim á morgun. Eða til Västerås. Heim í merkingunni „til fjölskyldunnar“. Where the heart is. Og þá hefði ég farið með lest. Eytt öllum deginum í lest og komið skömmu fyrir miðnætti. Það var skyndihugdetta að fara heim í dag – í ljósi þess að við kláruðum bókina og það var ekkert á dagskránni hjá okkur í dag. Nema að bíða. *** Þetta er hryllilega óumhverfisvænt. Ég er með vistspor á við lítið þorp. Ef ég myndi hætta að ferðast væri markmiðum Parísarsamkomulagsins náð. Med det samme. Einsog þeir segja hérna. Med det samme! *** Ég er að verða svolítið peppaður fyrir EM. Ég veit maður á ekki að segja svona, en sennilega töpum við samt fyrsta leiknum. Það er vont fyrir móralinn. Það væri rosa bratt að vinna Frakka. En ég er samt peppaður. Og held auðvitað með Svíþjóð til vara. Og auðvitað getum við unnið Frakka. Ég er ekki að segja það! Við bara vinnum Frakka. *** Svo er Gunnar Nelson held ég að fara að berja einhvern í kvöld. Mér finnst þessar barsmíðar alltaf pínu erfiðar. Samt er einhver skemmtilegasti íþróttaleikur sem ég hef horft á bardagi með George Foreman og ungum boxara sem ég man ekki hvað hét. Samt eitthvað rangt við barsmíðar. Sennilega eru þær samt verstar fyrir þá sem taka þátt í þeim. Það er óþarfi að ég sé að vorkenna mér að Gunnar Nelson sé að lemja fólk.