top of page
Illska-scaled.jpg
BruinyfirTangagotuna_72pt.jpg
frankensleikir.jpeg
Einlægur Önd.png
Oratorek_72pt.jpg
Plokkfiskbokin1.jpg
thjonn-thad-er-fonix-i-oskubakkanum-minum.jpg

Þetta var ævintýralegt ár, svona í baksýnisspeglinum að minnsta kosti. Ég fór til Grikklands í vor og tók þátt í bókmenntahátíð á Mamma Mia-eyjunni Skopelos – át feta, drakk ouzu og hlustaði á bouzouki-leik síreykjandi verta. Fór þaðan beint til Napólí í góðra vina hópi – að drekka vín og éta pasta. Með undraverðum árangri. Átti góða viku með fjölskyldunni úti í sveit fyrir utan Ekenäs/Tammisaari í Finnlandi, aðra í Helsinki og allavega tvær til í Eystra-Gautalandi og Vestmannalandi. Það var í sumar. Við Nadja gerðum okkur líka sérferðir til Malmö og norður til Skellefteå og Sundsvall. Í haust ráfaði ég svo um Kraká með vestfirskum kennurum og Katowice með pólskum skáldum. Og árinu lauk ég étandi og drekkandi í Bangkok, Ayutthaya og Koh Phayam.


Ég lék, söng og dansaði í Fiðlaranum, fyrst í Edinborgarhúsinu og svo í Þjóðleikhúsinu, spilaði á bassa með Gosa, fyrst á Dokkunni á páskum og svo í Stúdíó RÚV með vorinu, hélt sóló-ljóðagigg og fór í gegnum ferilinn á bókasafninu á Ísafirði, stofnaði Tom Waits hljómsveit með 11 snillingum og setti upp heiðurstónleika í Edinborgarhúsinu. Ég lærði að díla við bandalausan fimm strengja Ibanez bassa og líka við kontrabassann hans Dúa vinar míns (sem kveikti mikinn kláða). Ég hélt áfram að læra frönsku og er orðinn bærilega læs og get skrifað bréf með orðabók þótt ég tali lítið. Ég kláraði ljóðabók sem kemur út snemmvors og byrjaði á alls kyns öðrum bókum – sumum, kannski flestum, sigldi ég nú bara í strand en aðrar eru að malla. Ég tók hlaupin – sem ég hef stundað í 12 ár – alvarlegar og ákvað að stefna á maraþon næsta haust. Fyrsta skrefið í því ferli var að koma sér í 10k form og náðist það í miðnæturhlaupinu hérna um daginn. Ég seldi réttinn á Heimsku til Póllands, þar sem hún kemur út í vor, og Náttúrulögmálin til Svíþjóðar. Því verður að vísu ekki neitað að ég var svolítið leiður að Náttúrulögmálin skildu ekki fara víðar og beinlínis í ástarsorg vegna viðskilnaðar við franska útgefandann minn – en sjálfshjálparviska ársins var líka sú að reyna að einblína frekar á bjálkann sem ég á en flísarnar sem ég á ekki. Plokkfiskbókin var svo tekin fyrir hjá uppáhaldssjónvarpskokkinum mínum – Kristni „Soð“ Guðmundssyni. Sú bók er koluppseld og eiginlega orðin fágæti.


Ég veit ekki alveg hvað ég las margar bækur – bókabókin varð eftir á Íslandi og ég byrjaði ekki að nota Goodreads fyrren eftir mitt ár – en ég las a.m.k. þær tólf sem ég ætlaði mér og af þeim standa Ulysses, Njála og Infinite Jest óneitanlega upp úr. Og raunar miklu fleiri auðvitað. Ég kannski hripa niður betra lestraruppgjör þegar ég er kominn heim. Ég byrjaði að nota lesgleraugu eftir lesturinn á Ulysses – sem er ekkert skrítið, Joyce varð sjálfur staurblindur af að skrifa hana. Af þeim sem voru ekki á listanum hugsa ég áreiðanlega mest um La Pelle eftir Malaparte.


Ég veit svo sem ekki hvað er síðan framundan. Annað en að ég kemst vonandi þetta maraþon í haust og ég ætla til Írlands í Ulyssesferð og ljóðabókin kemur út og það væri gott að komast í resídensíu til að skrifa í friði og ró og vonandi fæ ég að spila einhverja músík með fólki og vonandi tekst mér að leggja fyrir til að kaupa mér ódýran kontrabassa. Ég er ekki alveg búinn að útfæra lestrarmarkmið ársins en ég ætla að lesa bækur á öllum málum sem ég ræð nokkurn veginn við – sem eru þá sænska, enska, franska, þýska, norska og danska auk íslensku. Þýska bókin verður að vera fremur létt, ég hef ekki lesið að ráði á þýsku í næstum 20 ár – norsku og dönsku les ég aldrei en ætti að ræða bærilega við, norska bókin verður áreiðanlega Hamsun (nema ég reyni við Knausgaard, sem ég hef reyndar aldrei fallið fyrir). Og sænska bókin – ég les nú reyndar alltaf nokkrar sænskar bækur á hverju ári, en sú sem ég ætla að velja fyrir þetta – verður einhver langur klassíker, kannski jafnvel fleiri en einn. Kannski Jerúsalem eftir Selmu Lagerlöf (sem er í eftirlæti hjá Nödju) og einhver Strindberg. Ég er alltof illa að mér í sænskri klassík. Franska bókin verður að vera erfiðari en það sem ég hef lesið en samt ekki of þung – ég treysti mér ekki í Proust alveg strax. Kannski vel ég hana ekki fyrren eftir mitt ár – sé til hvað ég tek miklum framförum á þeim tíma. Það er nú ekki ensk bók en ætli Töfrafjallið verði ekki „enska bókin“ (ég les annars alltof mikið á ensku, en þar er úrvalið líka mest) – af því hana á maður að hafa lesið og hana hef ég ekki lesið. Danska bókin verður bók sem ég man ekki hvað heitir eða hvað fjallar um en það er bók sem fjarska gáfuð kona gaf mér einu sinni – hún tók við mig viðtal þegar Illska kom út i Danmörku og rétti þessa bók að mér og sagði: þetta verðurðu að lesa. Og var mjög sannfærandi. Mig minnir að bæði konan og bókin hafi verið af rússneskum uppruna. Og þótt ég muni ekki hvað bókin heitir veit ég hvar hún er í hillunni. Íslenska bókin verður ekki heldur íslensk, en á íslensku, og það er Hringadróttinssaga – sem ég hef ekki lesið áður og sem ég er að lesa núna með Aram (hann kláraði fyrstu bókina síðasta dag ársins og ég byrjaði lestrarárið 2025 á henni).


Annars óska ég öllum lesendum bara gleðilegs árs.

Recent Posts

See All

Niðurtalning

Ef allt fer að óskum kemur ljóðabókin mín út í mars. Hún átti einu sinni að heita mjög ljóðrænum titli en á endanum ákvað ég að láta...

Samhengislítill næturvaðall

Klukkan er að verða sex. Ég hef verið vakandi frá þrjú. Aldrei þessu vant ekki vegna þess að ég sé andvaka heldur vegna þess að ég er að...

Comments


natturulogmalin.jpg
hnefi löng.jpg
HansBlaer_72.jpg
BLANDARABRANDARAR.jpg
bottom of page