top of page
Illska-scaled.jpg
BruinyfirTangagotuna_72pt.jpg
frankensleikir.jpeg
Einlægur Önd.png
Oratorek_72pt.jpg
Plokkfiskbokin1.jpg
thjonn-thad-er-fonix-i-oskubakkanum-minum.jpg

Tómt baðkar

Ég er loksins vaknaður eftir svefnlitla nótt. Að vísu vaknaði ég líka fyrr í morgun og kom krökkunum út í lífið – þau eru ekki á listamannalaunum og geta ekki leyft sér að fara aftur í rúmið ef þau sofa illa. Sem ég held reyndar að þau geri blessunarlega aldrei. Ætli það sé þess vegna sem við höldum að börn séu saklaus? Af því þau sofa svo vel. Börn eru ekki saklaus. Nema mín börn auðvitað, mín börn eru saklausa undantekningin sem sannar regluna. Þess vegna sofa þau svona vel.


En ég er sem sagt á listamannalaunum og gæti sofið allan daginn alla daga ef ég kærði mig um. Að vísu myndi ég sennilega ekki fá mikið oftar úthlutað ef ég léti það eftir mér. Og svo hefur það reyndar ekki heldur höfðað til mín, svefnlífið, hvernig sem á því stendur – þótt ég vildi gjarna sofa svolítið betur svona heilt yfir, þá langar mig alls ekki að sofa lengur. Og sennilega myndi ég heldur sleppa því að sofa en að sleppa því að skrifa (sem er það sem ég fæ listamannalaun fyrir að gera).


Ég var spurður að því á helginni hversu vel ég myndi pluma mig án listamannalauna. Ég held ég hafi aldrei náð að svara – það voru fleiri til svars og það kom bara ekki að mér – en svarið er bara alls ekki neitt. Þau eru 90% allra minna tekna og þótt ég sé á fullum launum þá eru þau lág og ég mjaka mér í gegnum lífið með yfirdráttarlánum og hundakúnstum einsog allir aðrir í þessum bransa. Ef ég fengi ekki listamannalaun myndi ég bara þurfa að finna mér aðra vinnu. Og það er ekki vegna þess að ég skrifi ekki af og til vinsælar bækur, því það hef ég sannarlega gert – það er bara horlús sem fæst fyrir það. Mér reiknast til að heildartekjur mínar af Náttúrulögmálunum hafi farið í að mæta verðbólgunni – á svona fimm mánuðum.


Ekki það ég ætli að fara að breyta þessu bloggi í blogg um efnahagsmál. Eða mín persónulegu fjármál. Og ef satt skal segja hef ég meiri áhyggjur af andagift minni en efnahag og ekki bara vegna þess að án andagiftarinnar missi ég áreiðanlega listamannalaunin. Einsog ég hef nefnt hér fyrr er ég búinn að keyra mörgum skáldsögum á vegg í ár – þetta hefur verið hræðilegt ár, mér líður einsog tappinn hafi verið tekinn úr mér og allt hafi lekið út, einsog tómu baðkari í vatnslausu húsi. Eða kannski er ég ekki baðkarið heldur þessi sem liggur á botninum og spriklar.


Blessunarlega á ég ljóðabókina sem er á lokametrunum og kemur út í vor – hún heldur í mér sköpunarlífinu. Það má ekki gera of lítið úr því. Ég er ánægður með hana og ég get eytt dögum mínum í að vinna við hana svo ég þarf ekki bara að bora í nefið – en ég er löngu búinn að skrifa flest ljóðin, svo það er meira ritstjórnarvinna en frumskrif og þeir mótorar eru alveg í lagi, það er ekki að ég geti ekki barið saman setningar eða lagað til myndlíkingar eða séð hvað virkar og hvað virkar ekki, mig vantar bara hugmynd af þeirri stærð að hún haldi saman bók, að hún haldi brennandi báli í ástríðu minni í 100 til 700 blaðsíður, að lágmarki þrjá mánuði og helst ekki meira en sautján ár. Kannski kemur sú hugmynd bara ekki af því ég er ekki búinn að skila af mér ljóðabókinni. Og kannski er það alveg sanngjarnt. En það hjálpar mér ekkert í baráttunni við örvæntinguna.


Þetta eru auðvitað ekki fullkomlega ókunnugar slóðir. Ég hef skrifað vitleysu og hent handritum áður, ég hef örvænt, ég hef setið vikum saman og starað á tóman tölvuskjá með ekkert fyrir stafni annað en að hugsa um hvað ég sé vitlaus og hæfileikasnauður. Og svo myndast glufa í skjánum, færist litur í veröldina, orð í heiminn og saga fæðist. Það gerist. Þetta er ekki ferli sem er hægt að þvinga mikið fram – það er hægt að kreista út úr sér „einhverja bók“ með því að raða upp nógu mörgum orðum en það er ekki hægt að kreista út úr sér bókmenntaverk sem gleður einhvern, sem gæðir veröldina einhverju nýju. Það er hægt að mæta í vinnuna. Það er hægt að lesa bækur. Fara í göngutúra eða út að hlaupa. Það er hægt að leita uppi einhver ævintýri. Það er hægt að tala við fólk. Það er hægt að skrifa „Einu sinni var“ og prófa að máta eitthvað orð aftan við það. „Einu sinni var hestur? Einu sinni var kjallari? Einu sinni var kjánaprik sem vissi bara ekkert hvað hann átti af sér að gera?“ Og á endanum gerist eitthvað. Ég veit það vel – svona fræðilega séð, sögulega séð – en aftur gerir það mér bara ekkert gagn hér og nú.

Recent Posts

See All

Opin

Dagskráin á Opinni bók var frábær í ár. Helmingur höfunda var heimamenn – Didda, mamma og Gylfi Ólafsson – og helmingur gestir – Offi,...

Comments


natturulogmalin.jpg
hnefi löng.jpg
HansBlaer_72.jpg
BLANDARABRANDARAR.jpg
bottom of page