top of page
Illska-scaled.jpg
BruinyfirTangagotuna_72pt.jpg
frankensleikir.jpeg
Einlægur Önd.png
Oratorek_72pt.jpg
Plokkfiskbokin1.jpg
thjonn-thad-er-fonix-i-oskubakkanum-minum.jpg

Allt í réttri röð


Það er alls konar sem mig langar að ræða, flest bókmenntatengt. Nú langar mig að segja „Tökum þetta í réttri röð“ en átta mig á því að ég veit ekkert hver „rétt röð“ er. Þetta er því tilviljunarkennd röð.


***



Nóbelsverðlaunin til Han Kang. Mér heyrist nær allir sem ég þekki vera sammála um að Grænmetisætan sé stórkostleg bók (ef frá er talinn Sverrir Norland sem skilaði óvæntu séráliti á Facebook). Hins vegar eru ekki allir jafn sammála um að aðrar bækur hennar séu jafn góðar eða hvort heildarverkin sem slík haldi „nóbelsgæðum“ – hvað sem nóbelsgæði nú annars eru. Ég hef ekki lesið hana ennþá en á – í kaupfélagi við eiginkonu mína – tvær bækur sem fóru beint á náttborðið.


Stundum hefur mér þótt leiðinlegt að nóbelsverðlaunin falli í skaut höfundum sem eru of vinsælir – þau þjóni betur tilgangi sínum með því að fara til höfunda sem maður hefði sennilega ekki uppgötvað annars, víkki sjóndeildarhring okkar hinna bókelsku. Nú voru mín fyrstu viðbrögð þveröfug, af einhverjum orsökum – ég bara gladdist og fannst sem að kannski þyrftu þau af og til að fara til höfunda sem njóta almannahylli einmitt til þess að við skildum að þetta snerist ekki um vinsældir. Maður gæti verið vinsæll og samt frábær, gæti verið óþekktur og samt frábær, bókmenntir væru einfaldlega mældar á öðrum og annars konar vogarskálum.


Viðbrögðin verða hins vegar öðruvísi í bókmenntaheiminum þegar þetta er höfundur sem flestir hafa lesið og þegar myndað sér skoðun á. Þá er víst að einhverjir fagni og aðrir hvái. Skemmtilegasti textinn sem ég hef lesið um þessi verðlaun hingað til er eftir vin minn, rithöfundinn Mats Kolmisoppi, og birtist í Göteborgs Posten í morgun – Akademien belönar småborgerlig ersatzlitteratur – og hann er sko ekki kátur. Fyrst og fremst er textinn þó um nýjustu bók Han Kang og Mats játar sjálfur að hafa notið Grænmetisætunnar.


Rúnar Helgi fékk að mér þótti ósanngjarna útreið í Kiljunni fyrir bók sína Þú ringlaði karlmaður. Nú má fólki auðvitað finnast það sem því finnst um bækur og þótt ég væri ósammála niðurstöðu Þorgeirs og Árna Matt var það fyrst og fremst lýsing þeirra á bókinni – að þetta væri samantekt á kynjafræði sem allir ættu að þekkja (og eiginlega geta meðtekið með því einu að spyrja næstu konu), og að Rúnar kæmist að þeirri niðurstöðu helst að konur þyrftu bara að vera meira næs við karla – sem var einfaldlega röng, rangur lestur, röng túlkun og röng útlegging. Ég bara skil ekki hvar þeir fundu þessa niðurstöðu. Ef hún er í bókinni fór hún framhjá mér.


Sjálfum þótti mér þetta góð bók og ekki síst af því hún er heiðarleg og einlæg og hún fjallar um mann sem er að mörgu leyti öðrum ólíkur – bæði er persónuleg upplifun hans á kynjahlutverkum í gegnum tíðina mjög oft á ská – og svo er hann örgeðja og krítískur að eðlisfari, ólíkur fólki að upplagi, tilbúinn til þess að þrátta en líka gjarn á að verða sár í þrætunum, og í ofanálag býsna góður í að sjá þessa þætti í eigin fari og díla með þá. Hann berst eiginlega á tveimur vígstöðvum – annars vegar til þess að verja sig og hins vegar til þess að fella sig. Og hann er alltaf bæði lítill og stór – og leyfir þeirri mótsögn að spíra án þess að vilja beinlínis leysa úr henni.


Ég er líka ósammála því að þetta sé bók fyrir karlakarla, án þess að ég sé endilega viss um að ég viti hvað það er – þetta er allavega ekki bók fyrir Brynjar Níelssonar týpurnar. Ég held þetta sé bók fyrir fólk sem vill eiga í heiðarlegum samræðum við sjálft sig og aðra – en geri lítið fyrir þá sem vilja helst alltaf flauta leikinn af áður en hann hefst. Og þetta er ekki bók fyrir fólk sem vill bara vera sammála – einfaldlega vegna þess að þetta er ekki bók sem er einu sinni alltaf sammála sjálfri sér.


3.

Það var í fréttum að nemendur við MA vilji láta taka skáldsöguna Blóðberg eftir Þóru Karitas af námsskrá skólans – enda innihaldi hún lýsingar á grófu kynferðisofbeldi og það geti verið erfiður lestur fyrir þá nemendur sem hafi orðið fyrir sambærilegri reynslu. Trigger, svokallaður. Skilji ég langa og ítarlega fréttina rétt setja nemendur sig ekki upp á móti fræðilegu efni með svipuðu innihaldi – og myndu áreiðanlega ekki bregðast eins við því að bækur Þórdísar Elvu, Á mannamáli og Handan fyrirgefningarinnar, væru settar fyrir – sem hlýtur þó að teljast hrottalegur lestur.


Í grunninn er þetta ekki bara spurning um trigger, vanlíðan og öryggi, heldur líka um hlutverk skáldskapar í menntakerfinu, og um læsi sem slíkt. Ég held sjálfur að það sé meinhollt að takast á við ógnir í skáldskap – bæði þær sem maður hefur upplifað sjálfur og þær sem maður þekkir ekki nema í gegnum skáldskapinn, og ég skal ekki fara í grafgötur með að mér finnst viðbrögðin benda til lélegs læsis (í merkingunni að ráða við að lesa alvöru hluti). Vísitölunemandanum er boðið upp í erfiða en lærdómsríka – andlega, tilfinningalega og vitsmunalega – glímu. Með því að taka bókina af námsskrá hefur möguleiki þess lærdóms líka verið tekinn af námsskrá – þótt halda verði því til haga að bókin er (a.m.k. enn sem komið er) enn til á skólabókasöfnum og fólki frjálst að nálgast hana sjálft (en þá verður að halda því til haga líka að allar kannanir sína að afar fáir menntskælingar nálgast bækur nema tilneyddir). En svo verður enn fremur að halda því til haga að það er alls ekki víst að allir ráði við slíka glímu – þótt ólíklegt sé að hún ríði þeim að fullu getur hún vel verið þeim skaðleg. En það getur líka átt við saklausara námsefni – og það er ekki hægt að halda því fram fyrir hönd allra að fræðiefni eða önnur umræða um kynferðisofbeldi geti ekki verið mjög triggerandi líka. Ég átta mig á því að það geti verið viðkvæmt að biðjast undan námsefni sem maður ræður ekki við af einhverri ástæðu en ég held að það sé farsælli lausn en hitt að sótthreinsa kennslustofur af óþægindum – nám er ekki bara þægindi, það er líka fólgið í erfiðleikum og átökum við erfiðleika.


Ég spyr mig líka hvort þetta þýði að skáldskapur sé „of alvöru“ – altso of kraftmikill – og þar með verði að gera undantekningu fyrir hann, hann meiði of mikið; eða hvort hann sé „ekki nógu alvöru“ og þar með sé óþarfi að leyfa honum að vera stuðandi og særandi. Hann sé – einsog ég held að mörgum finnist – skemmtiefni og skraut en ekki aðferð til þess að takast á við veruleikann.


Ég spyr mig líka hvort þetta eigi bara við um lýsingar á kynferðisofbeldi. Nú eru fleiri og fleiri nemendur í íslenskum menntaskólum sem hafa hreinlega upplifað stríð – hvað hefur það að segja fyrir skáldverk um seinni heimsstyrjöldina, sem ég þykist vita að séu stundum lesin í menntaskólum (mesti grikkur sem nokkur hefur gert mér er reyndar þegar MH-ingar voru látnir lesa allar 540 blaðsíðurnar í Illsku fyrir um áratug – twitter fylltist af leslötum gelgjuþrungnum gremjutístum svo vikum skipti)? Verður bara hægt að hafa næs – triggerlausar, öruggar – bækur á námsskrá? Er það það sem við viljum hafa fyrir börnunum – að bókmenntir séu krútt fremur en kaþarsis, konfekt fremur en leið til þess að takast á við angist mennskunnar – grenja yfir henni, hlæja að henni, skilja hana, skynja hana?


Ég las líka frétt um að foreldrar væru mikið að ritskoða barnabækur ofan í krakkana sína – þetta var brot úr lengra spjalli sem ég heyrði ekki en dæmið sem var tekið í textanum var úr Einari Áskeli, að foreldrið drægi alltaf úr reiði föðurins. Þetta fannst mér mjög fyndið. Ég kannast í sjálfu sér alveg við að hafa hoppað yfir eitthvað – man samt ekki lengur nein dæmi – en að milda hinn milda föður Einars Áskels fannst mér alveg í það mesta.


Ég las fyrir börnin mín annað hvort kvöld, í kaupfélagi við eiginkonu mína sem átti hin kvöldin (og las aðrar bækur, á sænsku), í 13 ár, alls konar bækur – við skiptumst á að velja. Í sumum bókunum voru hrottar. Í Randalín og Munda var reykt. Það birtust kynþáttafordómar, sem við einfaldlega ræddum. Í ævintýrabókum Davíðs Þórs voru kynlífslýsingar sem ég roðnaði upp í hársrætur við að lesa. Stundum voru höfundarnir (*hóst*rowling *hóst *) pípandi fordómafífl. Og við ræddum það líka Ég lagði mikið upp úr því að hafa vondukallaraddirnar sem voðalegasta – að leyfa rússíbananum að vera rússíbani – og stundum vorum við öll í hálfgerðu taugaáfalli á eftir, allir dauðhræddir. Og þegar allir voru búnir að ná andanum var beðið um meira.


Margar bókanna voru gamaldags. Sumar vandræðalaust. Aðrar ekki og þær voru það þá á ólíkan hátt – augljósast eru einfaldlega úreld viðhorf, feitabollugrín og þannig lagað. En svo voru líka bækur einsog Sitji Guðs englar sem nístu mann inn að beini – þar eru senur sem óhugsandi er að lesa þannig með eða án barna án þess að tárast. Af því þær eru um sársaukann sem fylgir því að vera til. Og þannig bækur kenna manni að þjást án þess að bugast.


En bækur með úreldum viðhorfum kenna manni líka eitt mjög mikilvægt – þær kenna manni að viðhorf breytast. Að mórall heimsins er ekki statískur. Að það sem er rangt í dag getur verið rétt á morgun og öfugt. Að það sem virkar á einn veg getur virkað á annan. Og að það sé ekki heldur sjálfsagt að allt sé rétt í dag og hafi verið rangt áður. Ég á ekki við að það þurfi að taka brjálæðislega heimspekilegan debatt um það við lítil börn – kannski er nóg að furða sig bara á því hvað pabbi Einars Áskell sé alltíeinu hvass, þetta sé nú óþarfa læti (sögupersónur geta verið gallaðar einsog fólk), láta skína í manns eigin afstöðu – en maður ætti ekki að fela það fyrir börnum að veruleikinn hefur ekki alltaf verið eins, það hafa ekki alltaf gilt sömu reglur, því þá gætu þau farið að halda að þær reglur sem gildi núna eigi að standa um aldur og ævi. Og þannig, börnin góð, verða íhaldsmennirnir til.


5.

Nú er mjög lítill tími áður en ég þarf að vera mættur í Ísafjarðarbíó. Kvikmyndahátíðin PIFF er í gangi. Í gærkvöldi fékk ég þann heiður að spjalla við Spessa um mynd sína Afsakið meðanað ég æli. Sem fjallar einsog frægt er um tónleika sem Megas hélt árið 2019. Myndin er einfaldlega afbragð – auga Spessa fyrir römmum og myndbyggingu er auðvitað legendary, en hún hefur líka tempó sem er ekki hægt að ætlast til af manni sem hefur lítið fengist við sagnalist. Og svo fær hún auðvitað aukna vídd af því sem gerist svo – myndin sýnir Megas sem ídolið sem hefur verið að fella íkon í 50 ár, manninn sem hefur sprengt helgar kýr í loft upp, með dónaskap, tilfyndni og – ekki síst – með fegurð; hann er umvafinn hæfileikaríkustu tónlistarmönnum landsins og endar í standandi uppklappi í stappfullri Hörpu. Augnabliki eftir að tónleikarnir voru haldnir var þetta allt orðið óhugsandi – flestir viðmælendur hefðu áreiðanlega bara fengið kvef þegar þeir áttu að koma í viðtal og honum hefði tæplega tekist að selja nema fjörutíu sæti í sal. Íkonafellandi ídolið fallið sjálft og myndin einhvers konar bautasteinn um mann sem þjóðin þráir að gleyma.

Recent Posts

See All

Samhengislítill næturvaðall

Klukkan er að verða sex. Ég hef verið vakandi frá þrjú. Aldrei þessu vant ekki vegna þess að ég sé andvaka heldur vegna þess að ég er að...

Comments


natturulogmalin.jpg
hnefi löng.jpg
HansBlaer_72.jpg
BLANDARABRANDARAR.jpg
bottom of page