top of page

Að klára ljóðabók er góð skemmtun

Eiríkur Örn Norðdahl.
Mynd: Björgvin Hilmarsson.

Ég ætlaði að fara að segja að ég hefði ekki gert neitt af viti alla vikuna en svo áttaði ég mig á því að það er tómt kjaftæði. Ég kláraði til dæmis ljóð sem ég held ég sé bara frekar ánægður með. Þetta ljóð verður líka til þess að klára nýja ljóðabók sem ég hef verið með í smíðum, eða samningu, eða yrkingu, eða hvað maður segir. Hana hefur vantað ljóð og nú er það komið og þetta virkar einsog heild.


Nýja ljóðið verður samt ekki síðast í bókinni, heldur fyrir miðri bók. Elsta ljóðið er 11 ára gamalt en hin ort einhvern tíma eftir 2020 – þetta eru bara fimm ljóð á tæplega 70 síðum og talsvert færri orð en í síðustu ljóðabók, Óratorrek, sem var þétt skrifaður orðaflaumur á 130 síðum. („Ég segi alltaf færri og færri orð“ – djók).


Óratorrek kom út 2017 og ef ég kem þessari nýju út næsta vor, sem ég held að sé gerlegt, þá líða átta ár á milli ljóðabóka. Mér dauðbrá þegar ég áttaði mig á þessu. Man eftir að hafa einhvern tíma kallað Einar Má has-been – á opnun Ljóðabókaverzlunar Nýhils 2005 eða 2006; við hann sjálfan vel að merkja, ég var ekki að baktala hann heldur stríða honum – fyrir að láta líða sjö ár á milli ljóðabóka. Og nú er ég bara orðinn þetta has-been sjálfur. Poetic justice FTW einsog alltaf.


Fyrir mér hefur alltaf vakað að bækurnar mínar séu innbyrðis ólíkar, sérstaklega finnst mér skipta máli að ljóðabækurnar eigi sína eigin rödd – nóg líkjast þær víst bara fyrir að ég skuli skrifa þær – og kannski tekur bara lengri tíma að finna sér nýtt form og læra á það eftir því sem maður hefur gert það oftar, gengið meira á birgðirnar sem maður fæðist með.


Ég á áreiðanlega eftir að hata þessa bók oft áður en ég gef hana út – og kannski líka eftir að hún er komin út – en ég ætla að njóta þess að vera bara ánægður með hana núna.


Annars fór vikan mest í skriffinnsku og bréfaskriftir.


Ég byrjaði líka aftur á Goodreads eftir að hafa lesið einhverja grein um að bestu samfélagsmiðlarnir væru þeir sem snerust um eitthvað áhugamál annað en hégóma fólks, beturvitahátt og almenna athyglissýki – ég hef góða reynslu af Strava og Duolingo og bætti þessu við í símann minn og ef vel gengur ætla ég líka að byrja á Letterboxd. Ég startaði Goodreads reikningnum fyrir einhverjum árum og byrjaði bara á því að setja inn skrilljón bækur sem ég hef lesið en nennti svo ekkert að halda áfram. Hins vegar hafa alls konar bækur sem ég hef verið að lesa á kindlinum skráðst sjálfkrafa inn og þar á meðal heilt bókasafn af bókum um blústónlist sem ég byrjaði nú á að markera sem lesið – að ég hefði klárað þær – en kannski halda vinir mínir á Goodreads að ég hafi lesið 40 bækur um blústónlist á einni viku, það gæti líka verið, ég las þær samt flestar svona 2021-22. Síðan ég klárað Infinite Jest um daginn hef ég hins vegar bara lesið seinni tvær bækurnar í New York trílógíunni og Le Parfum des Fleurs la Nuit eftir Leïlu Slimani – trílógíuna var ég að endurlesa og hún var betri en mig minnti. Parfum er eins konar safn ritgerða – eins konar A Room of One's Own fyrir nýja öld – sem segir meðal annars af því þegar Slimani lét læsa sig inni á safni í Feneyjum yfir nótt.


Já og las upp. Myndina hér efst tók Björgvin Hilmarsson þegar ég hitaði upp fyrir Glæpasagnaspjall Satu Rämö og Yrsu Sigurðardóttur á Bókasafni Ísafjarðar. Með nýja ljóðinu.

Comments


natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page