top of page
Illska-scaled.jpg
BruinyfirTangagotuna_72pt.jpg
frankensleikir.jpeg
Einlægur Önd.png
Oratorek_72pt.jpg
Plokkfiskbokin1.jpg
thjonn-thad-er-fonix-i-oskubakkanum-minum.jpg
hnefi löng.jpg
HansBlaer_72.jpg
BLANDARABRANDARAR.jpg

Beiskja og vanþakklæti (eða „take this job and shove it“)


Ísafjörður virðist eiga upp á pallborðið í menningarlífinu þessi misserin – og ekki bara tónlist þótt það sé kannski það sem bærinn er þekktastur fyrir. Ekki er nóg með að bíómynd Snævars Sölva, Ljósvíkingar, sé að slá öll met heldur hefur reyfarinn Hildur eftir Satu Rämö líka farið með himinskautum og nú stefnir í að Þú ringlaði karlmaður eftir Rúnar Helga verði aðaldebatbók ársins. Ætli kirkjutúrinn hans Mugisons sé ekki síðan stærsti tónlistarviðburður ársins? 100 kirkjur í 100 póstnúmerum. Segjum það. Didda (Guðlaug Jónsdóttir) er svo að koma með sína aðra barnabók, Baukað og brallað í Skollavík – sú fyrri fékk tilnefningu til íslensku bókmenntaverðlaunanna – og mamma (Herdís Hübner) er að gefa út ævisögu Auriar Hinriksson, Ég skal hjálpa þér.


Ef við leggjum svo Vestfirðina alla undir mætti bæta við útgáfunni Skriðu á Patreksfirði – þar koma tvær ljóðabækur út á fimmtudaginn, heimkynni eftir Þórð Sævar Jónsson og Svefnhof eftir Svövu Þorsteinsdóttur. Svo var Margrét S. Höskuldsdóttir að senda frá sér reyfara sem gerist í Ísafjarðardjúpi, í heimavistarskólanum á Reykjanesi og í Laugardal eftir því sem ég kemst næst. Sá heitir Í Djúpinu – titillinn minnir kannski einhvern á skáldsöguna Djúpið eftir Bennýju Sif sem kom út fyrir þremur árum og gerist í sama skóla.


***


Ég er ekki að gera neitt. Að minnsta kosti ekki að skrifa um Ísafjörð. Og ekki „með bók“ í haust – þótt ég sé „með“ sennilega fjórar bækur þá kemur engin út fyrren í fyrsta lagi í vor. Náttúrulögmálin var líka svo löng að það er eiginlega enginn búinn með hana þótt hún hafi komið út í fyrra.


Svo hef ég líka nóg að gera við að skrifa þessa h*$#*s ritlaunaumsókn. Ég var ekki byrjaður um daginn þegar ég var að senda einhverjar (léttar og óverðskuldaðar) pillur á Einar Kárason sem var að kvarta undan þessu. Nú er þetta að gera mig vitlausan og ég er orðinn einsog Einar Kárason í fimmta veldi.


Ég ætla líka að vera pínu tilætlunarsamur og koma upp um skefjalausa forréttindablindu mína með því að segja að mér finnist asnalegt – ef ekki fáránlegt – að þurfa að sækja um vinnuna mína á 12 mánaða fresti og vita aldrei hvort ég verði á launum á næsta ári. Það er tómt mál um það að tala að íslenskir rithöfundar – hugsanlega með svona 2-3 undantekningum – geti haft nema smotterí upp úr bóksölu. Mér hefur oft á þessum aldarfjórðungi gengið vel en aldrei komist neitt nálægt því að þéna nema skít og kanil. Við erum fámenn þjóð og prósentan sem maður fær erlendis er miklu lægri – og það er litlar aukatekjur að hafa nema maður vilji vera í stöðugu harki (og þá skrifar maður minna), megnið af því er líka hræðilega launað.


Ég er ekki að tala endilega um að það ætti að veita fólki listamannalaun í 36 mánuði – sem hefur stundum verið gert – heldur að það ætti bara að setja fólk á föst laun. Segja fólki bara: Hana, þú ert ráðin(n), ekki gleyma að mæta í vinnuna. Ekkert öllum og engum strax – en á einhverjum tímapunkti hlýtur að vera eðlilegt að maður fái bara djobbið. Það er hægt að tekjutengja launin þannig að þau verði ekki óþarfa viðbót við einhverjar ægilegar sölutekjur (sem allar dreymir auðvitað um) en þetta er bara rugl. Að vera að detta í fimmtugt og vita aldrei fyrren um áramót hvort ég sé í vinnu, hvort ég sé í hálfri vinnu eða engri vinnu – það þýðir að ég býð fjölskyldunni minni líka sífellt upp á þetta. Förum við í sumarfrí? Verða börnin áfram í tónlistarskóla? Verða bara hrísgrjón og sojasósa í matinn í maí? Ég hef það alveg ágætt núna – en ég hata þetta, að sjá aldrei nema í mesta lagi tólf mánuði fram í tímann (og einsog núna ekki nema þrjá – og þeim fækkar og fækkar þar til enginn er eftir). Þetta er ástæðulaust nema til þess að gera mig vitlausan.


Ég skil heldur ekki alveg forsendurnar. Ég hef gefið út nánast bók á ári í aldarfjórðung – og gerði það líka áður en ég naut nokkurrar velvildar hjá sjóðnum (sem ég hef þó gert um góða hríð). Þarf ég að sanna eitthvað frekar að mér sé alvara með því að starfa að bókmenntum? Hefur fólk áhyggjur af því að ef ég fengi bara laun án þess að sækja um vinnuna mína árlega þá myndu bækurnar versna? Þarf nauðsynlega sönnun fyrir því að ég kunni enn að fylla út umsókn og áfangaskýrslu? Eða er vandamálið að ég gæti til dæmis veikst og átt erfitt með að skrifa í einhvern tíma – þá væri náttúrulega hræðilegt að ég hefði einhverjar tekjur, skiljanlegt að fólk svitni yfir því, veikt fólk á helst bara að drepast. Eða er fólk stressað yfir því að ég gæti þegið tekjur og hreinlega hætt að skrifa? Farið að klóra mér í rassinum frá morgni til kvölds.


Ég veit það ekki. Þetta umsóknarferli ertir kannski bara einhverjar gremjutaugar í mér. En ég er vel að merkja ekki bara að tala um sjálfan mig – þótt ég sé eðlilega í aðalhlutverki á míns eigins bloggi! Fyrr mætti nú vera. Þetta myndi líka gera Einari lífið bærilegra og auðvitað er enn fáránlegra að Gyrðir Elíasson sé launalaus út af einhverju skriffinnskurugli. Og það myndi spara ríkinu umsýslukostnað í kringum umsóknir. Fyrst og fremst leiðist mér þetta. Leiðist árleg betlferðin. Mér finnst hún niðurlægjandi.

Comments


natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page