Blúsplötur ársins 2020
Það er ekki nema mánuður frá því ég ákvað að skoða blúsárið og gera einhvers konar lista yfir bestu plötur ársins. Einsog allir hinir tónlistarbloggararnir. Það er ekki ósvipað að leita að góðum nýjum blúsplötum og að finna góðar nýjar ljóðabækur – ég elska bæði ljóð og blús en verð samt að viðurkenna að það er furðu mikið af efni sem … tja höfðar ekki til mín, skulum við segja, til þess að vera ekki með neinn ruddaskap á þessu annars virðulega bloggi. Það kom mér síðan gleðilega á óvart að ég mér tókst að finna tíu plötur – og raunar ríflega það – sem mér þykja verulega góðar og það var ekki einu sinni neitt æðislega erfitt. Sennilega hefur samtímablúsinn það betra en ég hélt.
Einsog nærri öll ár frá 1970 voru langflestar blúsplötur ársins af því taginu þar sem stórsveit leikur undir, lagasmíðarnar renna hver inn í aðra, og sólóin eru aldrei minna en korter. Þetta er gjöðbilað þegar sannur virtúós heldur um sólógítarinn – og annars ágætt en bara í litlum skömmtum. Sem betur fer er frekar fljótgert að sía það efni einfaldlega út. Joe Bonamassa gaf út ágæta þannig plötu í ár, fyrir þá sem fíla það – Royal Tea – en hún er ekki á þessum lista. Sá sem komst næst því að vera með var Dion með plötuna Blues With Friends, þar sem Bonamassa kemur raunar við sögu, en líka Paul Simon, Rory Block, Billy Gibbons, Samantha Fish og fleiri. Bob Dylan gaf út Rough and Rowdy Ways, sem er að mörgu leyti frábær – þótt hún sé líka svolítið bara Dylan-samur-við-sig-dæmi – en það er líka bara annað hvert lag á henni blúslag.
Lucinda Williams var líka á mörgum topplistum með Good Souls Better Angels og það er áreiðanlega mjög umdeilt en mér fannst sú plata bara alls ekkert sérstök. Og miklu meira generískt ameríkana en blús. Shemekia Copeland gaf út mikla drottningarskífu – og hún er ofsaleg söngkona – en lagasmíðarnar heilluðu mig ekki nóg og textasmíðarnar voru svolítið of topikal fyrir minn smekk, einsog raunar hjá Lucindu líka og víðar. Ég skil að maður sé í öngum sínum yfir Trump – en ég get ekki svona ljóðrænt mál yfir hvað hann sé mikið dick einsog í „Man Without a Soul“ hjá Lucindu eða „Money Makes You Ugly“ eftir Shemekiu (sem lyktar líka af pie-in-the-sky-speki). Textinn við „Apple Pie and a .45“ er reyndar svolítið fyndinn – þótt lagið taki sig svolítið of alvarlega til að bera húmorinn (og þetta á áreiðanlega ekki að vera fyndið).
Apple pie and a .45 Mama’s readin guns n ammo Sippin lemonade Baby’s in the backyard Tossin hand grenades Grandpa’s shootin dinner Some possum and some squirrel Last night they ended up shooting Our neighbor’s baby girl Everybody’s so upset Every person in the town But that can\’t bring a life back After it’s shot down
Ben Levin, Frank Bey og Don Bryant voru báðir með góðar plötur sem komust ekki á listann. Catfish Keith var með plötu sem var svolítið of fyrirsjáanleg – skorti aðeins karakter en hefði getað farið betur, fanta kassagítarleikur. Fantastic Negrito var með einhvers konar tilraun til formbyltingar – sem endaði í ágætis plötu sem fór samt of langt út fyrir rammann, missti tengslin við einhvern blúskjarna.
Ég hef auðvitað ekki verið að hlusta á nýjar blúsplötur í allt ár, heldur fyrst og fremst gamlar, og sennilega ber listinn þess merki að ég er ekki 100% með á nótunum. Ég fór í gegnum aðra árslista, sló upp tónlistarmönnum sem ég hef haft mætur á og reyndi að sjá hvað og hvort þeir hefðu verið að gefa út í ár. Endaði með kannski 40-50 plötur sem ég skar fljótt niður í um 20, sem ég hlustaði betur á og endaði svo með þessar tíu hér að neðan. Ég er búinn að endurraða fyrstu fimm plötunum margsinnis en síðari tíu plöturnar hafa meira og minna setið kyrrar í sínum sætum. Ég held ég sé sáttur í dag en myndi ábyggilega endurraða aftur á morgun.
____________________________________________________________________
1. Bobby Rush – Rawer Than Raw
Rawer Than Raw er ein af þremur plötum á þessum lista sem inniheldur lag eftir Skip James. Það segir sennilega sitthvað um minn smekk. Bobby Rush er fæddur 1933 sem gerir hann 87 ára – og aldursforseta á listanum. Hann hefur verið að gefa út tónlist frá því upp úr 1970 en leikið hana meira og minna alla ævi. Það var þó ekki fyrren fyrir fjórum árum að hann vann sín fyrstu Grammy-verðlaun – skömmu eftir að hafa vakið athygli í blúsheimildarmyndinni The Road to Memphis sem Richard Pearce leikstýrði en Martin Scorsese pródúseraði.
Bobby hefur í fleiri áratugi ferðast um og leikið tónlist – keyrir sína eigin rútu og spilar meira og minna linnulaust. Yfirleitt hefur hann verið að spila með hljómsveit en á síðustu árum hefur hann einfaldað settið og „farið í ræturnar“ – og leikið blúsinn einsog hann lærði hann í æsku. Þetta er a.m.k. þriðja þannig platan – en sú fyrsta hét bara Raw.
Hér eru alls konar klassíkerar. Fyrir utan Hard Times eftir Skip James er Down in Missisippi eftir JB Lenoir, Honey Bee eftir Muddy Waters og fleiri. Í flestum lögunum er Bobby bara einn á gítar, stappandi fót, munnhörpu og rödd – útsetningarnar eru í senn hefðbundnar og sérviskulegar, einsog vera ber í þessari músík. Það er líka gaman að þótt hann spili roots blús þá eru lögin ekki öll sótt til þriðja eða fjórða áratugarins – heldur í hans eigin rætur, sem liggja nær þeim sjötta og sjöunda.
Bobby hefur ótrúlega magnaða rödd – sem nýtur sín miklu betur í einfaldari útsetningum – og gítarleikurinn er sólítt og tilfinningaríkur, en sjaldan skrautlegur eða hégómlegur.
____________________________________________________________________
2. Bettye Lavette – Blackbirds
Það fer meira fyrir reynsluboltum en vaxtarsprotum á þessum lista. Og kemur kannski ekki á óvart. Það er ekki endilega spurning um að blúsinn sé að deyja, einsog maður gæti ímyndað sér, heldur hefur hár aldur lengi verið virtur og jafnvel til marks um að eitthvað sé meira ekta – það sé raunveruleg reynsla að baki, raunverulegur blús, og viðkomandi sé búinn að gjalda sitt – paid his dues. Blúsinn er varla tíu ára þegar hann þykir jafn gamall syndinni og hefur glatað öllu nýjabrumi. Nýliðun í frægðarhöll blússins á sér ekki síst stað meðal ellilífeyrisþega. Þrír þeirra sem eru á þessum lista voru nánast óþekktir fyrir 15 árum.
Bettye Lavette er fædd 1946 og Blackbirds er í grunninn drottningarblús, af skóla Bessie Smith og Ma Rainey, en með alls kyns módern þreifingum. Sándið er oft seventís, slatti af wah wah gítörum og einhverjum farfísum. Röddin er gömul og brostin og reynd – en sannarlega segi ég yður, það er varla neinn sem syngur svona fallega, af jafn yfirveguðum og svölum harmi. Bettye byrjaði að gera tónlist 16 ára en sló ekki í gegn almennilega fyrren 2005 – sem er aftur þetta með aldurinn. Á meðan það hefur enginn áhuga á fertugri rokkstjörnu eru blúsarar oft ekki raunverulega áhugaverðir fyrren eftir sextugt.
Það er ekki heiglum hent að leika eftir Strange Fruit – og enginn mun nokkurn tíma gera það einsog Billie Holiday. En þetta er samt fáránlega gott – og ég tek hattinn ofan fyrir pródúsentinum sem fer öfuga leið við svo til alla nútildags og drekkir ekki þessari fögru rödd í bleytu (reverb og echo) heldur leyfir henni að njóta sín á þurru landi:
____________________________________________________________________
3. Jimmy „Duck“ Holmes – Cypress Grove
Jimmy „Duck“ Holmes er fæddur 1947 og sagður vera síðasti Bentonia-blúsarinn. Mér skilst að það séu fremur hæpnar forsendur fyrir því að kalla Bentonia-blúsinn sína eigin stefnu. Rætur hans og sánd teygja sig í öllu falli langt út fyrir Bentonia og lengst af var annars konar blús vinsælli í þeim bæ. Í grunninn er tónlistin skyld delta eða köntríblús en leikin í myrkri opinni moll-stillingu á gítar – yfirleitt D-moll eða E-moll – og þekktasti tónlistarmaðurinn sem lék bentoniablús var Skip James sem lærði hana af Henry Stuckey. Duck er sagður hafa lært hana líka af Stuckey – en hann hefur samt bara verið rétt 19 ára þegar Stuckey deyr. Sennilega er ekki hægt að vera Bentonia blúsmaður nema maður komi frá Bentonia – þar búa um 400 manns – og helst að hafa lært á gítar hjá Henry Stuckey.
Hvað um það. Platan Cypress Grove kom út seint 2019 (nógu seint til að vera með á þessum fyrsta árslista blúsbloggsins) og inniheldur meðal annars slangur af lögum eftir téðan Skip James. Dan Auerbach úr Black Keys pródúserar og leikur undir hér og þar – Marcus King birtist líka í nokkrum lögum, meðal annars á slide-gítar sem myndi fá Derek Trucks til að svitna. Það er mikið attitúd í þessu og ekki búið að hreinsa gamla manninn of mikið til – einsog verður oft raunin þegar yngra fólk fer að „leggja sitt af mörkum“.
____________________________________________________________________
4. Rory Block – Prove It On Me
Rory Block er fædd 1949. Fjórtán ára gömul kynntist hún gítarleikaranum Stefan Grossman, sem þá var átján ára. Þau voru bæði miklir deltablúsaðdáendur og voru fljótlega flúin að heiman til að finna síðustu „alvöru“ deltablúsleikarana og læra við fótskör þeirra – sem þau gerðu. Fyrsta plata þeirra, 1967, er kennsluplata – þar gengur Rory undir listamannsnafninu Sunshine Kate. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og þau eru löngu hætt saman – Stefan Grossman varð einn helsti blúsgítarkennari í heimi og sennilega er enginn, nema kannski Rory Block, sem hefur á valdi sínu jafn marga ólíka deltablússtíla. Rory hefur hins vegar ekkert fengið við kennslu (svo ég viti) og hefur aðallega verið að spila lög eftir aðra – með sínu nefi.
Síðustu árin hefur hún gefið út hverja plötuna á fætur annarri þar sem hún tekur fyrir einhvern sérstakan listamann og leikur lög hans með sínu nefi. Á Prove It On Me leikur hún bara lög eftir konur úr blússögunni – eða í öllu falli lög sem konur hafa gert fræg – Elvie Thomas, Memphis Minnie, Ma Rainey, Madlyn Davis og fleiri. Hér er meira köntrí-töts en í mörgu af því sem hún gerir – hún er gjarnan frekar ofsafenginn deltablúsari og misþyrmir gítarnum oft með miklum bravúr, lætur strengina poppa og gítarinn hrýna, en þetta er ljúfara dæmi.
____________________________________________________________________
5. Cristina Vane – Old Played New
Cristina Vane er ung – ég finn samt ekkert fæðingarár fyrir hana. Líklega á þrítugsaldri. Platan Old Played New er sjálfsútgefin og hefur alls ekki farið hátt. Ég rakst á titilinn á árslista Ted Gioia (þar sem var merkilega lítið um blús) og féll strax fyrir henni. Þetta er sex laga plata með lögum eftir Skip James, Son House, Charley Patton, Rev. Robert Wilkins, Blind Willie Johnson og Cristinu sjálfa. Tónlistin er no bullshit delta blús – bara söngvari og resonator-gítar – sándið er hrátt en spilamennskan fremur fáguð. Fyrsta lagið – Jesus Make Up My Dying Bed – er sama lag og Dylan kallar In My Time of Dying á fyrstu plötu sinni. Annars er þarna Banty Rooster, Cypress Grove Blues, Preachin\’ Blues, That\’s No Way To Get Along og You Think You Know, sem er frumsamda lagið.
Þann 18. desember síðastliðinn gaf Cristina svo út aðra plötu – The Magnolia Sessions – sem ég hef ekki náð að hlusta á svo heitið geti. Annars virðist hún vera í harki og hefur gefið út þrjár breiðskífur og þrjár stuttskífur síðustu árin – og á helling af alls konar efni á YouTube, mikið kover af klassískum blúsum.
Cristinu tekst að fara einhvern fínan milliveg – hún dregur fram sætuna í lögunum án þess að fara í Larkin-Poe sætt, og dregur fram hörkuna án þess að detta í tilgerð. Hún er frábær gítarleikari og útsetningarnar fara annan milliveg milli þess að vera lærðar og stílíseraðar og þess að vera frjálsar og kaotískar.
____________________________________________________________________
6. Watermelon Slim – Traveling Man
Watermelon Slim er fæddur 1949. Hann syngur, leikur á munnhörpu og gítar – hóf víst tónlistarferil sinn á sjúkraspítala í Víetnam þar sem hann fann gamlan víetnamskan gítar til að leika á og byrjaði að gefa út plötur nokkrum árum síðar. Það gekk brösuglega og einsog margir á listanum náði hann ekki miklum vinsældum fyrren hann var farinn að reskjast svolítið. Það eru sextán ár frá því hann lagði dagvinnunni sem vörubílstjóri og tók að helga sig tónlistinni einni saman og hann náði talsverðum vinsældum með plötunni Church of the Blues sem kom út í fyrra.
Traveling Man er live plata með alls konar lögum héðan og þaðan. Uppáhalds mitt er þetta, sem er raunar af Church of the Blues (en eftir Cat Iron frá 1958), sem var einmitt í stúdíóútgáfu á Church of the Blues. Þetta er mikið koveraður klassíker en ég held hreinlega að enginn leiki það betur en Watermelon Slim. Þessi útgáfa er ekki alveg eins á Traveling Man en nógu nálægt.
____________________________________________________________________
7. Elvin Bishop & Charlie Musselwhite – 100 Years of the Blues
Bishop er fæddur 42 og Musselwhite 44. Sá fyrrnefndi var lykilmaður í The Paul Butterfield Blues Band en sá síðari er einn af fyrstu hvítu blúsmönnunum til að vinna sér inn nokkuð nafn – og frægastur fyrir plötuna Stand Back! Here Comes Charlie Musselwhite\’s Southside Band með ódauðlegri blúsútgáfu af Christo Redemptor eftir Duke Pearson.
100 Years of the Blues er bara þeir tveir og píanóleikari a.m.k. megnið af tímanum – þeir leika gömul lög eftir sjálfa sig og aðra. Svo sem ekki nein formbylting en það er sennilega ekki það sem neinn er að leita að hér. Þetta hangir – og flýgur – á óumdeilanlegum talent og sjarma.
____________________________________________________________________
8. New Moon Jelly Roll Freedom Rockers – Volume 1
Hér kemur Charlie Musselwhite aftur við sögu en auk hans eru í sveitinni Luther Dickinson, Cody Dickinson, Jimbo Mathus, Alvin Youngblood Hart og Jim Dickinson (sem er píanóleikari og pabbi hinna tveggja Dickinsona – sem sjálfir eru frægir úr North Mississippi Allstars). Platan var tekin upp árið 2007 en týndist – þetta var algert aukaprójekt, tekið upp á 2-3 dögum á einhverju hlöðulofti og það spáði enginn sérstaklega í það fyrren upptökurnar dúkkuðu óvænt upp og reyndust vera svona líka æðislegar. Platan hefur fengið frábæra dóma hvarvetna – einsog Musselwhite og Bishop platan fyrir ofan hana á listanum er eiginlega alveg fáránlegt að þessar týpur geti bara sest niður í góðu tómi og dritað þessu niður nánast fyrirhafnarlaust. (En fyrirhöfnin er þá auðvitað áratugir af einhverju striti – það bara fer ekkert fyrir því). Jim Dickinson lést fyrir rúmum áratug og missti alveg af þessari velgengni – en hafði svo sem notið velgengni áður.
____________________________________________________________________
9. Robert Cray – Have Mercy! og That\’s What I Heard
Ég debateraði svolítið við sjálfan mg hvort ég ætti að leyfa Have Mercy! að vera með. Þetta er live-plata tekin upp árið 1978 en ekki gefin út fyrren í ár. Robert Cray er þess utan með aðra breiðskífu í ár, That\’s What I Heard, sem er líka ansi þokkaleg. Ég ákvað loks að leyfa þeim báðum að deila einu sæti. Það er líka sérstaklega gaman að hlusta á þær saman – annars vegar upphafið að ferlinum og hins vegar, ja hann er nú sennilega langt frá endalokunum, unglamb á þessum lista (fæddur 1953), en náði hápunkti ferils síns fyrir ríflega 30 árum síðan. Það vill til reyndar að það tímabil – níundi áratugurinn – er vont tímabil í blússögunni, aðallega vegna þess að pródúksjónfagurfræðin sem þá var allsráðandi, hreint sánd og mikið af choruseffektum og öðrum álíka viðbjóði, hentar blúsnum illa. En Have Mercy! er tekin upp áður en það kom allt til sögunnar – eða allavega áður en það var farið að vera skylda – og That\’s What I Heard ber í sjálfu sér merki ofpródúksjónar en er engu að síður ekki nærri því jafn „sveipuð munúð“ og eitís dótið. Og Robert er rosalegur þegar það er ekkert rugl að þvælast fyrir honum. Ég bíð svo bara eftir rótaplötu frá honum á næstu árum.
____________________________________________________________________
10. Marcus King – El Dorado
Jæja. Loksins unglamb. Vínberið í pylsuendanum. Sennilega nokkuð yngri meira að segja en Cristina Vane – fæddur 1996. Og ábyggilega eini tónlistarmaðurinn hérna sem nokkuð lét finna fyrir sér á hefðbundnum listum. Aftur er það Auerbach sem pródúserar – og Marcus var gestur á plötu Duck sem var nefnd hér að ofan. Einsog við má búast er talsvert af fuzz-tónum hérna, eins strengs riffum, en mætti kannski stundum vera hrárra fyrir minn smekk – minna överdöbb, minna reverb. Það er líka hellingur af John Mayer fíling hérna – og Dereck Trucks – og spurning hvort hann eigi ekki bara eftir að finna sig dálítið. King er með flotta rödd og sans fyrir lagasmíðum, þótt þær vanti stundum eitt skref í frumleika – blúslög þola betur að frumleikinn liggi í útsetningum og þunga sándsins en King á það til að leiðast út í poppaðri smíðar og þær bera bara ekki jafn mikið. En hann er ofsalega sterkur gítarleikari og það er hellings pótensjall í þessu.
Comments