Bókadómur: I\'d Rather be the Devil: Skip James and the Blues eftir Stephen Calt
Nehemiah „Skip“ James er sennilega sú af blúshetjum 20. aldarinnar sem var minnst þekktur meðan hann lifði. Eiginlega vissu bara ótrúlega fáir að hann væri til fyrren hann „fannst“ aftur árið 1964 – í sama mánuði og Son House – og hann var minniháttar fígúra í blúsendurreisninni við hliðina á hinum og átti bágt með að framfleyta sér í sínum fábrotna lífsstíl alveg þangað til að Cream tóku upp I\’m So Glad (sem hann er skrifaður fyrir en samdi ekki nema að hluta – einsog margir blúsar er það mikið byggt á öðru lagi). Og svo dó hann bara augnabliki seinna. Ég held ég fari rétt með að einsog Skip hafi Mississippi John Hurt ekki notið velgengni í æsku – en hann var súperstjarna á hippakaffihúsunum (enda ólíkt ómþýðari en hinir). Bukka White var alltaf mallandi – hætti aldrei að spila, var með í leiknum þótt hann væri misþekktur eftir tímabilum. Og það var ekki erfitt að finna hann – maður þurfti ekki nema spyrja náfrænda hans, B.B. King. Son House gaf ekki út vinsælar plötur en var samt vinsæll og þekktur á sínum heimaslóðum, átti þekkt lög sem aðrir gerðu vinsæl, og umgekkst (og kenndi) óhemju mörgum yngri blúsurum – og lærði sjálfur af Charlie Patton. Svo naut hann þess – eða, ég veit ekki hversu mikil nautn það var honum – að vera með mjög góða og virka umboðsmenn á sjöunda áratugnum sem komu honum á framfæri og héldu honum gangandi. Dick Waterman var beinlínis í fullri vinnu við að halda honum passlega fullum og sjá til þess að hann kæmist milli gigga og svona, seldi ekki gítarinn fyrir brennivíni og eitthvað (hann var gersamlega stjórnlaus bytta, ef eitthvað er að marka frásagnirnar).
Skip er fæddur sama ár og Laxness, 1902, og var aldrei kallaður annað en Skippy fyrren plötuútgefandinn hans stytti það fyrir hann árið 1931 (á móti kemur að hann kallaði upptökustjórann, Art Laibley, aldrei annað en Artie). Hann var tregur til að koma og taka nokkuð, sennilega af því hann hafði það ágætt og lifði lífi sem kallaði ekki beinlínis á athygli – hann var melludólgur, sprúttsali og ofbeldismaður. Stephen Calt gerir því skóna í ævisögu hans að hann hafi hugsanlega átt yfir höfði sér dauðadóm í Atlanta – en það eru mestmegnis getgátur. Mamma hans var þjónustukona í húsi plantekrueiganda og Skip er alinn upp „í húsinu“ og leit alla tíð niður á blökkumenn – hafði meira að segja á orði við Calt að það væri ástæðulaust að koma fram við sig einsog hann væri hvítur, þótt hann teldi sig nú heilt yfir hafa lunderni hvíts manns (annað en allir þessir óþolandi blökkumenn í kringum hann). En hann tók nú samt upp nokkur lög og þóttist viss um að verða nú heimsfrægur.
Plöturnar (tvö lög per plötu – 9 plötur) seldust hins vegar ekki rassgat og voru sennilega líka þrykktar í mjög litlu upplagi. Tvær þeirra – 22-20 Blues / If You Haven\’t Any Hay og Devil Got My Woman / Cypress Grove Blues hafa samt ratað upp í hendurnar á Robert Johnson, sem gerir 22-20 að 32-20 Blues og notar margt úr Devil Got My Woman í bæði Hellhound On My Trail og Come On In My Kitchen. Þegar menn fara svo að skoða Robert Johnson fyrir alvöru seint á sjötta áratugnum og uppgötva þetta finna þeir þessi örfáu eintök sem enn voru til af plötum Skips og falla í stafi – líkt og þeir höfðu gert yfir upptökum Son House. Það jók svo mjög á gildi Skips í þessum fámenna harðkjarna blúsplötusafnara að plöturnar voru gríðarlega sjaldgæfar. Þeirra Skips og Son House er síðan lengi leitað og finnast einsog áður segir báðir í júní, 1964. Son House finnst langt að heiman, í Rochester, New York – blindfullur og illa spilandi, en nær fljótt talsverðu af sinni gömlu færni (meðal annars með aðstoð Alan Wilson, síðar í Canned Heat). Skip finnst á spítala í Tunica, Missisippi.
Gítarstíll Skips er talsvert erfiðari viðfangs en stíll Sons House – sem er svolítið random, taktfastur, villtur, eiginlega er Son House pönkari – og hann verður aldrei sams konar gítarleikari og hann var árið 1931. Hann spilar hægar og með meiri trega, fingurnir láta ekki alveg að stjórn. Calt finnst minna til þessa koma en ég verð að vera ósammála. Ef maður ber þessa öldrun saman við til dæmis það hvernig ungu gítarleikararnir 1964 – *hóst* Eric Clapton *hóst* – hafa elst þá er ekki spurning í mínum huga hver hefur vinninginn. En ég myndi vilja bæta um betur og segja bara að Skip hafi hreinlega elst mjög vel – og njóti mjög góðs af betri upptökutækni, sem hafði miklu minna að segja fyrir blúshrópara einsog Son House eða Bukka White. Hann er meiri blús-shredder árið 1931 en það er meiri dýpt í upptökunum 1964-1969 – hann nýtur sín betur þegar díteilarnir í rödd og spilamennsku eru skýrari. En báðar hafa augljóslega sinn sjarma – mér finnst Skip 1964 ekki hafa minni hæfileika en 1931, þeir eru bara aðeins öðruvísi í laginu.
Lagið byrjar eftir mínútu formála á þýsku:
Það er margt sem drífur á daga Skips á árunum frá 1931 til 1964 þótt hann sé ekki frægur og leggi ekki stund á tónlist nema af og til. Hann gerist meðal annars aðstoðarpredikari pabba síns, stórtækur sprúttsali (í skjóli „vináttu“ við plantekrueiganda) og allra handa dólgur. Á einu tímabili rekur hann skemmtistað úti í sveit og Calt rekur sögu af því hvernig ein helsta hættan við þennan rekstur var að verða rændur. Strategían gekk þá gjarna út á að slökkva á steinolíulampanum – það virðist yfirleitt bara hafa verið einn – og ræna svo peningakrukkunni af barnum í skjóli myrkurs. Skip gerði því að forgangsatriði að gæta lampans og hafði hann alltaf alveg hjá sér. Einu sinni sem oftar brjótast síðan út slagsmál á skemmtistaðnum. Einhver dregur upp byssu og fer að skjóta og ein kúlan splundrar lampanum við hliðina á Skip. Í myrkrinu tryllist okkar maður, teygir sig í haglarann og byrjar að drita út í sal og yfir dansgólfið þangað til „allir voru farnir eða dauðir“ einsog sagan segir.
Á þessum árum og alveg langt fram eftir ævi gekk Skip alltaf með byssu (og gekk síðar mikið á eftir Calt með að útvega sér vopn, sem hann lét vera, meðal annars fyrir orð eiginkonu hans, Lorenzo, sem óttaðist að hann myndi drepa sig í einhverju bræðikastinu). Þótt það fari alls konar sögum af blúsurunum þá segir Calt (sem ætti að vita það) að Skip sé eini blúsarinn sem hann viti til að hafi alltaf verið vopnaður. Skip játaði líka á sig alls konar morð og talaði um ofbeldisgjörðir sínar algerlega hiklaust og það er sennilega alveg ástæðulaust að efast um að hann hafi drepið marga, þótt hann hafi kannski líka sagt fiskisögur inn á milli. Og fyrri eiginkona hans, Mabel, átti nokkrar sögur sjálf af því að stinga menn til bana og skilja þá eftir í skurðum. En vegna þess að þau hafa sennilega látið duga að drepa svarta karlmenn sem öllum var meira og minna slétt sama um á þessum tíma hafði þetta aldrei neinar sérstakar afleiðingar (annað en að Skip átti mikið af óvinum). Hugsanlega hefur hann samt drepið hvítan mann í Atlanta og þess vegna aldrei þorað aftur þangað – en það eru allt hreinar getgátur (sem koma til af sterkum tilfinningum hans í garð Atlanta, þess að hann sagði hreint út að hann ætti eftir að segja svakalegustu sögurnar sínar, og þess að hann sagðist aldrei hafa verið í Atlanta – sem er vitað að er ósatt).
Árin sem hann starfar sem predikari eru líka áhugaverð. Skip ólst ekki upp hjá föður sínum og á í sams konar sambandi við hann og margir „yfirgefnir synir“ – hann dýrkar hann og vill allt gera til að fá viðurkenningu hans. Þetta er mjög ólíkt Skip annars, einsog þið getið kannski ímyndað ykkur. Faðir hans hefur lítinn áhuga á honum og veitir honum aldrei neina viðurkenningu að ráði og þetta virðast hafa verið svolítið erfið ár fyrir Skip (einsog flestir mannhatarar er hann djúpt tilfinningalegt svöðusár sjálfur – grét í faðmi kvenna sinna um nætur en setti upp hörkusvip á daginn). Skip er alltaf að einhverju leyti trúaður og spilar líka gospel – og þykist vita að blússpilamennskan sé Guði alls, alls ekki þóknanleg. Reyndar er líka áhugavert að athuga hvað hann upplifir sjálfur sem syndugt líferni – og er að sögn Calts ekki einsdæmi fyrir Skip heldur almennt í trú blökkumanna í Mississippi (og hvítra auðvitað líka, en á annan, skipulagðari, distanseraðri og rasjónalíseraðri hátt). Það er að segja – Skip leit aldrei á það sem neitt vandamál að hann hefði drepið fullt af fólki af því fólkið sem hann drap átti það nú eiginlega bara skilið. Þetta voru þjófar og aumingjar. Barátta hans við syndina snerist um að hætta að spila blúslög, hætta að drekka brennivín og hætta að nota tóbak. Einhvers staðar þar á eftir kom svo að hætta hóreríi (Calt segir að prestarnir hafi sjálfir verið svo fjölþreifnir að það hafi gjarnan mætt afgangi að predika gegn slíku). Að hætta að drepa aumingja sem áttu það skilið kom kannski einhvers staðar á eftir því að vera ekki að gera góðlátlegt at í vinum sínum. Eða þannig.
Og kemur þá að fyrirferðarmestu persónu þessarar ævisögu Stephens Calt um Skip James – sem er Stephen Calt sjálfur. Mánuði eftir að þeir Son House og Skip James uppgötvuðust spiluðu þeir á Newport Folk Festival. Að sögn höfðu skipuleggjendur aldrei heyrt í Skip James en hleyptu honum á svið fyrir orð annarra – blúsnördanna sem allt vissu. Einn af blúsnördunum úti í sal – sem hafði lítið að segja baksviðs – var hinn átján ára gamli Stephen Calt. Hann er nógu mikið nörd til að þekkja til Skips, leitar hann uppi og kynnist honum og þeir ná vel saman – sennilega vegna þess að lunderni þeirra beggja er frekar svart. Ef eitthvað er að marka Calt lá Skip ekki hlýtt orð í brjósti til nokkurs manns og það er alveg ljóst af bókinni að hið sama átti við um Calt, sem beinlínis eys úr skálum beiskju sinnar yfir allt og alla, þar með talinn Skip James – sem á í besta falli fjögur góð lög, tímalausa klassíkera vissulega, en er annars skíthæll og fífl sem gerir hlutina með hangandi hendi, og allt sem hann gerir eftir upptökurnar 1931 er leiðinlegt og það var mikil bölvun fyrir Calt að hengja sig svona á hann. Robert Johnson er líka leiðinlegur, Alan Wilson er sikkófant og fífl, Bukka White og Son House eru hæfileikalausir æpandi fábjánar sem fljóta á misskildum tónlistaráhuga bláeygðra hvítra manna einsog Dick Waterman og blúsendurreisnarsinnanna (= vina Calts frá þessum tíma) sem gera engan greinarmun á góðri og vondri tónlist. Og ekki þolir Calt samt neina aðra tónlist heldur – ræðurnar sem hann heldur yfir folk-hreyfingunni eru ofsalegar. Honum finnst bara allt ömurlegt.
Þetta veitir bókinni bæði svolítið skemmtilegan blæ og er ótrúlega þreytandi. Svona einsog munurinn á því að hlæja að korters viðtali við Kára Stefánsson og hinu að sitja fastur við hliðina á honum í 7 tíma flugferð meðan hann malar viðstöðulaust. Mér fannst gaman að fá þessa krítísku vídd í byrjun – rak mig fyrst utan í þegar hann fór að gera lítið úr upptöku Roberts Johnson á Hellhound on My Trail og ofbauð svolítið þegar hann talar um T-Bone Walker sem eitthvað eftirstríðsfyrirbæri sem allir eru löngu búnir að gleyma (sem er bara ekki satt – ég er enginn T-Bone maður en hann er samt frægur og ég skil alveg að sumir fíli hann). Og listinn er lengri – Sonny og Brownie fá sinn skamt, Lightning líka, Chicagoblúsinn sitt o.s.frv. Þegar hann fer síðan að tala um hvað Alan Wilson sé mikið fífl að dirfast að halda á gítar í návist meistara Skip James, einsog þeir séu þarmeð blúsmenn af sama kalibera, og rekja það hvernig Skip hafi sagt baksviðs að Alan væri feitur og maður gæti ekki spilað blúsinn ef maður væri feitur var ég alveg byrjaður að jæja svolítið duglega með sjálfum mér. Síðustu 60-70 blaðsíðurnar var ég alveg kominn með upp í kok, farinn að leggja bókina frá mér á fimm mínútna fresti til að trufla Nödju með einræðum um hvað þessi maður væri mikið fífl að halda einræður um hvað aðrir væru mikil fífl (ég sá ekki íróníuna í því þegar ég var að þessu – en ég hef séð ljósið nú!).
En. Þetta er eina ævisaga Skip James og Calt hafði mikinn aðgang að honum og bókin er sannarlega fróðleg – þótt hann líka gjarn á að taka bara því sem Skip segir sem heilögum sannleik. Þegar Skip fer að afsaka slælega spilamennsku með því að hann sé viljandi að spila illa svo hann geti borið því við þegar hann mætir drottni að hann hafi ekki spilað blúsinn af innlifun – og það sé því ekki blús – og Calt tekur því sem einlægri afstöðu hans frekar en bulli úr manni sem er beiskur yfir því að fingurnir á honum láti ekki að stjórn, þá finnst manni hann sekur um allt það bláeyga sakleysi sem hann sakar aðra blúsendurreisnarbræður sína um.
Altso. Frábær músíkant, einn sá allra besti, samt frekar glataður gaur – en alinn upp á vargöld í vondum heimi. Fróðleg bók og skemmtileg á köflum, skrifuð af manni sem hefði aðeins mátt slaka á lífsbeiskjunni.
Aukaefni:
Þetta er lagið sem Skip byggir I\’m So Glad á. Glöggir munu taka eftir því að þessi maður er ekki einu sinni blökkumaður. Ég get bætt því við að þetta er alls ekki blúslag – það er m.a.s. á mörkunum hjá Skip.
32-20 Blues er útgáfa Roberts Johnson á 22-20 Blues. Robert breytir því svolítið og þar á meðal kaliberi vopnsins. Það er gaman að geta þess að hinn vani byssumaður Skip James henti þessu lagi að sögn saman á örfáum klukkustundum – og kaliberið sem hann notaði, 22-20, er bara rugl. Það eru ekki til neinar 22-20 byssur. 32-20 er hins vegar bara klassík – bæði Colt og Winchester framleiddu þannig vopn.
Það væri synd að segja að þetta kover hafi gert Skip ríkan en hann átti allavega fyrir helstu sjúkrahúsreikningum og leigunni. Það má segja Clapton og félögum það til hróss að þeir hafi skráð lagið á hann. Stones voru ekki svo næs með t.d. Love in Vain eftir Robert Johnson. Svo eru auðvitað mýmörg dæmi um að menn hafi gert lögin að sínum eigin – einsog deltablúsararnir gerðu sjálfir. Mikið af því sem Led Zeppelin voru kærðir fyrir voru jafn mikið þeirra eigin sköpunarverk og orginalarnir sem þeir hermdu eftir voru sköpunarverk þeirra sem fyrir þeim voru skráðir – sama á við um Dylan, sem sagði sjálfur að sítatið væri einn af hornsteinum blússins. Dylan skráði líka sín hreinni kover á upprunalegu höfundana – líka þegar hann útsetti og hagræddi einu og öðru, einsog í See That My Grave is Kept Clean eftir Blind Lemon Jefferson, sem segja má að Dylan hafi hreinlega blúsað upp, það er blúsaðra með honum en Lemon).
Þessi Beck ábreiða er úr Wim Wenders myndinni Soul of a Man – sem er önnur í seríu mynda sem Martin Scorsese pródúseraði. Því miður er ekki allt lagið – það er feidað út í leikara að mæma Skip James.
Þetta er skemmtileg útgáfa. Hér snýr Bonnie laginu á haus. Í staðinn fyrir að syngja „I\’d rather be the devil / than be that woman\’s man\” þá syngur hún „I\’d rather be the devil / than be a woman to that man“.
Commentaires