top of page
Illska-scaled.jpg
BruinyfirTangagotuna_72pt.jpg
frankensleikir.jpeg
Einlægur Önd.png
Oratorek_72pt.jpg
Plokkfiskbokin1.jpg
thjonn-thad-er-fonix-i-oskubakkanum-minum.jpg

Drullan og framandgervingin

Það er allt á kafi í drullu. Falla aurskriður úr fjöllunum allt í kringum okkur. Áðan rakst ég á vin minn sem var búinn að sitja fastur – í ágætis yfirlæti, held ég – milli tveggja skriða í Ísafjarðardjúpi frá því á mánudag. Í gær féllu a.m.k. tvær skriður á veginn út í Hnífsdal – og Eyrarfjall iðar allt. Það er lokað milli bæja og bæjarhluta á kvöldin. Ég man ekki eftir svona ástandi. Enda er veðrið óvenjulegt. Hlýtt og mikil úrkoma. Á venjulegu ári værum við bara að drukkna í snjó.


Ég reyni að láta sem minnst á því bera að ég hafi eitthvað verið að skrifa um þessa hluti í fyrra – og raunar skrifað hálft fjallið af stað – enda er þetta ekki mér að kenna.


***


Ég hef aldrei tekið það saman en mig grunar að það fari meiri pappír í að prenta út ljóðabókahandrit en skáldsagnahandrit. Ég held að ég prenti skáldsögurnar mínar ekki út í fullri lengd nema tvisvar – kannski þrisvar. Nýju ljóðabókina hef ég ábyggilega prentað 20 sinnum og er hvergi nærri hættur. Það geri ég til að geta krotað í með penna. Sem þýðir ekki að ég editeri ekki í tölvunni líka. Sumt verður bara ljósara á pappír og annað verður ljósara á tölvuskjá. Og raunar er líka hægt að breyta um leturtegund og skipta um ritvinnsluforrit og gera alls konar trix og hundakúnstir til þess að sjá ljóðin upp á nýtt. Kannski er þetta svipað og þegar þeir sem pródúsera músík hlusta á hana í ólíkum hátalarategundum – mixa hana fyrst í fyrsta flokks stúdíóhátölurum, hlusta svo á hana í bílnum, í símahátölurunum, heima í eldhúsi, lélegum heyrnartólum, góðum heyrnartólum, og laga hana til svo að hún „virki“ við allar mögulegar aðstæður.


Að vísu verða ljóðin sennilega mest lesin í þeirri leturtegund sem verður í bókinni. En þetta er samt aðferð til þess að tryggja einhver heilindi. Til að sjá brestina. Svo les maður þau upphátt. Fyrir annað fólk – prófar þau á áheyrendum. Í einrúmi. Tekur þau upp og hlustar á þau. Les þau línu fyrir línu. Les alla bókina hratt – svona rétt tæplega skimar (þetta gerði ég áðan, það er annar taktur, önnur upplifun). Flettir henni fram og aftur og les erindin öll í vitlausri röð – handahófskenndri. Hvernig ganga erindi 12 og erindi 2 saman? En erindi 17 og 8? Hvernig er bókin afturábak? Hvernig er hún ef maður les bara hægri síðurrnar á opnunum? Ég hef líka prófað að þýða stök erindi og ljóð á önnur mál sem ég kann til þess að fá betri tilfinningu fyrir þeim. Allt til þess að ala á einhverri mónómaníu gagnvart textanum og til þess að gera hann nýjan fyrir sjálfum sér – rétt passlega ókunnuglegan, svo maður geti ímyndað sér að þetta sé eftir einhvern annan, aftengt egóið (sem minnir auðvitað á trixið að leggjast á handlegginn á sér þangað til hann sofnar og fróa sér síðan – af því það sé næstum einsog að vera ekki einn að þessu).


Og svo geri ég ekki neitt. Fer út að hlaupa. Geri jóga. Kaupi í matinn. Stari út í bláinn. Kæli hugann, kæli hjartað, kæli augun, kæli fingurna, og kem svo aftur að handritinu til þess að gera þetta allt aftur.

Comentarii


natturulogmalin.jpg
hnefi löng.jpg
HansBlaer_72.jpg
BLANDARABRANDARAR.jpg
bottom of page