top of page
Illska-scaled.jpg
BruinyfirTangagotuna_72pt.jpg
frankensleikir.jpeg
Einlægur Önd.png
Oratorek_72pt.jpg
Plokkfiskbokin1.jpg
thjonn-thad-er-fonix-i-oskubakkanum-minum.jpg

Dýraríki

Það eina sem ég veit um hesta er að maður á aldrei að standa fyrir aftan þá nema maður vilji láta þá drepa sig með afturfótasparki.

Þegar ég fer út að hlaupa í suðaustur-Asíu lendi ég iðulega í einhverjum ... hvað á ég að kalla það, ævintýrum, samskiptum, útistöðum? – við dýr. Ég kannast ekki við að þetta eigi við í öðrum heimshlutum sem ég hef hlaupið í. Og þó – einu sinni réðst á mig hundur þar sem ég var að hlaupa við Dónárbakka og hélt mér föngnum með ofsa sínum um hríð, meðan drukkinn eigandi hans bað mig í guðanna bænum að vera rólegan (mig, sem stóð grafkyrr, sem frosinn hreinlega, og hefði ekki getað verið rólegri, a.m.k. ekki á ytra byrðinu).


Ég sagði sjálfsagt frá því í greininni sem ég skrifaði um Víetnamdvöl okkar fjölskyldunnar í TMM – og allt gott fólk hefur lesið og lagt á minnið – þegar ég fældi buffalahjörðina og þegar kýrin reyndi að stanga mig út af göngustígnum og ofan í hrísgrjónaekrurnar (hrísgrjónaekrur eru á votu). Og frá horuðu villihundunum sem hunsuðu mig alltaf, hreinlega einsog ég væri ekki til, meðan þeir sleiktu viðbjóð úr göturæsinu; frá lausu varðhundunum sem trylltust þegar ég hljóp framhjá og eltu mig geltandi þar til þeim fannst ég kominn hæfilega langt frá heimili sínu. Og hér um daginn hafði ég áreiðanlega á orði að ég hefði hlaupið fram á hest sem þveraði göngustíginn – hann var að vísu bundinn og alls ekki með neina stæla. En sama dag var ég líka að hlaupa eftir auðu ómalbikuðu bílastæði og steig næstum því á hund sem lá þar sofandi – ljósbrúnleitur og samlitur þurrum jarðveginum. Hann gerði nú ekki meira en að spretta á fætur og varð mér meira bylt en honum. Korteri áður hafði laus varðhundur – tælenskur, ekki víetnamskur – einmitt elt mig geltandi um skeið (og þá var ég auðvitað að hlaupa niður blindgötu og þurfti að læðast framhjá honum aftur örskömmu síðar, undir illu auga). Við stíg einn spratt eitthvað stórt í gegnum sefið og skaust út í ána – ég held það hafi verið varanus salvator, eðla nokkur sem er ríflega metri yfirleitt og við sáum við önnur tilfelli, en ég sá það ekki vel. Við enda þess stígs kom ég svo út á hanamarkaðnum, bakdyramegin, við mikla furðu hanasölumanna sem skildu ekkert hvaðan þessi tveggja metra Íslendingur kom, kófsveittur og grettur af glímu við hitann og fæturna á sjálfum sér og dýraríkið í bænum.


Nema hvað. Í gær var ég að hlaupa í Benchakitti garðinum í Bangkok. Þetta er fallegur garður umleikis stöðuvatn – myndin sem fylgdi síðustu færslu er tekin þar – og þarna er gjarnan mikið af hlaupurum í kringum ljósaskiptin. Og þá sópaðist eitthvað undan fæti mér, eitthvað mjúkt en dálítið þungt í því, dálítill súbstans, og ég leit niður og sá þar stóreflis rottu þeysast áfram nokkra metra undan (óviljandi) sparki mínu og skjótast svo inn í runnana strax og ferðinni lauk, af umtalsvert meiri snerpu en ég sýndi þarna úti á hlaupastígnum.


Svona nokkuð gerist aldrei á gönguferðum, bara þegar ég hleyp, og bara í Suðaustur-Asíu. Eða við Dónárbakka.

Recent Posts

See All

Samhengislítill næturvaðall

Klukkan er að verða sex. Ég hef verið vakandi frá þrjú. Aldrei þessu vant ekki vegna þess að ég sé andvaka heldur vegna þess að ég er að...

Comments


natturulogmalin.jpg
hnefi löng.jpg
HansBlaer_72.jpg
BLANDARABRANDARAR.jpg
bottom of page