Enn ein ísfirsk skáldsaga: Ekkert slor
Það seigflýtur allt í heilabúinu á mér í dag. Einsog grautur í hvolfdri skál. Í vísitöluvikunni er ég fremur góður á mánudögum – ferskur eftir helgina, með nýjar hugmyndir til að vinna úr og starfsþrek til að sinna þeim. Það eru yfirleitt miðvikudagar sem leggjast verst í mig. Þá er farið að súrna í hugmyndunum – svo hressist ég þegar nær dregur helginni.
En í dag er mánudagur og ég er ekkert ferskur, bara tregur.
Í gær las ég enn eina ísfirsku skáldsöguna – sem einnig var prentuð í Ísrúnu þótt Forlagið gæfi hana út (og mamma mín setti hana). Þetta var Ekkert slor, fyrsta skáldsaga Rúnars Helga, sem sagt er að gerist í „Plássi“ einu sem er mjög Ísafjarðarlegt og persónur eru kallaðar eitt og annað þótt Ísfirðingar þykist geta borið á þær kennsl, ekki síst „Hemma“, sem er eiginlega bara Maggút heitinn ljóslifandi kominn. Rúnar segir sjálfur í viðtali á þessum tíma að sjái maður „beinar fyrirmyndir“ að sögupersónunum verði maður að gera það á eigin ábyrgð – en auðvitað verði sögupersónur ekki til úr engu, fremur en fiskafurðir.
Maggút var nágranni minn alla barnæskuna, góðvinur pabba og rak okkur krakkana af túninu fyrir framan húsið sitt oft á dag, stamandi og gargandi. „A a a andskotans krakrakkakrakkagemlingar!“ Af því að við vorum að spila fótbolta og hann lagði bílnum sínum alveg þarna hjá og það hefur áreiðanlega gerst af og til að boltinn færi í bílinn.
Húsið stendur reyndar ekki lengur – strætó keyrði á það á tíunda áratugnum og það skekktist allt – og á túninu byggði sonur Maggúts sér myndarlegt hús, svo nú leikur enginn þar fótbolta. En það er önnur saga. Rúnar Helgi „nær honum“ andskoti vel – of vel til að eiga góða fjarvistarsönnun fyrir því að hafa ekki nýst við „beinar fyrirmyndir“ – ekki bara staminu heldur talsmátanum og karakternum öllum, hvernig hann var stöðugt að rífast við alla en samt aldrei af neinum illindum. Eða a.m.k. sjaldan. Þessum undarlega gorgeir, sem var einhvern veginn þess eðlis að manni þótti vænt um hann – sem er nú yfirleitt ekki tilfellið með gorgeir. Ég gæti best trúað því að sagan væri sönn af því þegar hann veðjar brennivíni upp á að togarinn sé með undir 180 tonn – hann sjái það á stestestefninu stefninu – og gefur sig ekki þegar þau reynast 184, enda sé alltaf vivivitlaust tatalið talið uppúr þessu hehehelvíti.
En Ekkert slor er fleira en Maggút. Ekkert slor birtir safn skyndimynda frá einu sumri í slorinu – það er farið inn og út úr heilabúum ólíkra sögupersóna sem allar eiga það sameiginlegt að vinna í „Fiskhúsinu“ svo úr verður býsna góð lýsing á vinnustað og verkafólkinu sem þar starfar. Fáeinir þræðir ganga í gegnum bókina þótt framþróun sé í sjálfu sér lítil, á þessum stutta tíma, ekki síst kemur greddan í ungu strákunum oft við sögu. En líkt og í Grjóti og gróðri eftir Óskar Aðalstein er sárasta augnablik bókarinnar fósturlát konu – sem hér kennir sér sjálf um að hafa unnið of mikið og þannig valdið fósturlátinu. Í Grjóti og gróðri ætlar Bjarni bækill að drepa sig fyrir að hafa verið svo mikill aumingi að konan hans hafi þurft að slíta sér út og því misst fóstur, en hér er það eiginmaðurinn, togarasjómaður, sem stappar stálinu í sína niðurbrotnu konu.
Annars er þetta ekki örlagasaga. Að minnsta kosti ekki örlagasaga einstaklinganna. Margir hafa að sönnu unnið í Fiskhúsinu lengi og eru samvaxnir einhvers konar slorstriti en tilfinningin sem maður fær af lestri bókarinnar er að þeir geti auðveldlega snúið sér að öðru striti annars staðar án þess að sjálft verksmiðjulífið breytist mikið – þau eru peð sem eiga sér örlög, en þau eru ekki bundin frystihúsinu, þar sem maður kemur í manns stað, og þau geta hæglega fengið vinnu í öðru slori annars staðar. Að minnsta kosti ein sögupersóna er þegar horfin að öðru þegar sögu lýkur – eða við það að stinga af. Frystihúsið virðist stærra en þau og þótt stórveldistíð þeirra í íslensku menningarlífi hafi liðið undir lok fljótlega eftir sögutíma bókarinnar, sér þess hvergi stað þarna.
En svo litast sýn manns á þessa bók, sem kom út 1984 (sama ár og Verbúðin hefst), eðlilega líka af því að þekkja söguna. Ungt fólk í svona störfum á þessum tíma hefur horfið úr þeim – það var þegar miklu minna um vinnu fyrir ungt fólk þegar ég reyndi að fá vinnu í fiski (og fékk svo í rækju) 6-7 árum seinna. Frystihúsin reyndust ekki eilíf og þeir sem hófu vinnu þarna á níunda og tíunda áratugnum hurfu langflestir að öðru áður en langt var um liðið.
Einn skemmtilegasti kafli bókarinnar er kaflinn þegar skemmtiferðaskipið birtist og túristarnir flæða yfir bæinn „einsog engisprettur“ (sem eru einmitt nefndar til leiks í Brúnni yfir Tangagötuna líka, af svipuðu tilefni). Ekki endilega vegna þess að það sé besti kaflinn – kannski er honum meira að segja ofaukið í söguheimi bókarinnar, við lestur árið 1984, það er ekki útilokað – heldur vegna þess að ég var sjálfur búinn að gleyma að þessar skipakomur hefði verið byrjaðar (ég var náttúrulega bara sex ára) – svo þetta verður allt dálítið súrrealískt. Og heimsóknin verður líka táknræn þegar hún er skoðuð í ljósi orða verkalýðsforingjans Hallgríms Jónmundssonar í sjómannadagsræðunni:
... því hljótum við að óska þess að einhver atvinnuvegur skapist í landi sem leyst geti sjómennskuna af hólmi sem þýðingarmesti atvinnuvegur þjóðarinnar ...
Ég sé á blöðum að bókin hefur fengið hlýrri móttökur hjá eldri kynslóðinni en þeim yngri – Erlendur í Mogganum og Jón Þ. Þór skrifa lofsamlega um hana – en hinn ungi Páll Valsson, sem er þá 24 ára, ári yngri en höfundurinn Rúnar Helgi, og skrifar í Þjóðviljann, ber sig illa af lestrinum þótt hann taki fram að bókinni sé ekki alls varnað. Finnst honum bæði að sagan segi sér lítið sem ekki hafi verið vitað fyrir og að frásagnaraðferðin mistakist og Rúnari hefði farnast betur ef hann hefði fylgt færri persónum lengur eftir. Það er kannski fullseint í rassinn gripið að fara að rífast við Pál um þetta núna, þegar hann er skriðinn yfir sextugt, en ég er ósammála þessu. Mér finnst styrkur bókarinnar einmitt liggja í því að láta ekki hið einstaka glepja sig – er þetta ekki líka Faulknerískt? Ég veit ekki hvort Rúnar hefur verið lagstur í Faulkner þegar hann skrifar Ekkert slor en hann er auðvitað mikilvirkastur íslenskra Faulkner þýðenda – og svo hefur Haukur Ingvars nýlega sýnt fram á sérstök tengsl Faulkners við vestfirskar bókmenntir í gegnum Guðmund Daníelsson og Hagalín og mér finnst alveg ástæða til að skoða hvort Grjót og gróður og Ekkert slor megi ekki teljast þar með, bæði vegna næms eyra Óskars og Rúnars fyrir töluðu máli, og þeirri áherslu sem lögð er á það, og fyrir að flakka milli margra sögupersóna til þess að lýsa stærra „ástandi“ eða „sögusviði“. Óskar staðnæmist að vísu við heimilismenn og Rúnar fer ekki út fyrir heilabú starfsmanna Fiskhússins – hvorugur tekur til ólíkra stétta, kynþátta eða heillrar sveitar – en frásagnaraðferðin er engu að síður ekki óskyld aðferð Faulkners (og Guðmundar).
Í öllu falli er það frásagnaraðferðin sem veitir bókinni listrænt gildi sitt og hefur hana upp úr því að vera einfalt melódrama eða þorrablótsrevía um graða karla. Maður þarf að sönnu að fylla upp í ýmsar eyður sjálfur sem lesandi, sem er sjálfsagt auðveldara ef maður hefur einhverja innsýn í þennan heim en ætti ekki að vera neinum þrautalestur, og sumar persónurnar minna á aðrar – sem er nú bara frekar raunsætt, og væri ekki öðruvísi þótt vinnustaðurinn væri skrifstofa uppi í háskóla. Það geta heldur ekki allir verið Maggút.
Comments