top of page
Illska-scaled.jpg
BruinyfirTangagotuna_72pt.jpg
frankensleikir.jpeg
Einlægur Önd.png
Oratorek_72pt.jpg
Plokkfiskbokin1.jpg
thjonn-thad-er-fonix-i-oskubakkanum-minum.jpg

Halla Tómasdóttir og tignun iðjuleysisins


Eitt af því sem hefur breyst frá því við hættum að eiga samskipti í eigin persónu að hugtakið „mitt hægri“ og „þitt hægri“ hættu að skipta máli, og kannski líka að meika sens. Svona er þetta líka í leikhúsinu – það kenndi mér Þórhildur – sviðshægri og sviðsvinstri. Skjáhægri og skjávinstri. Ég nefni þetta vegna þess að ég var að bæta nafni á blogglistann hérna hægramegin – þar bloggar Þorsteinn Vilhjálmsson. Annars smelli ég oft á þessa hlekki sjálfur og þar er furðu lítið bloggað. Ástríðan endar öll í gapinu á Zuckerberg. En þetta eru fínir bloggarar þegar þeir taka sig til.


Ég hef líka verið of mikið á FB sjálfur upp á síðkastið. Kosningarnar kölluðu mig út á torg að hlusta á mannamálið. Nú er mál að hvíla sig.


***


Sú spurning leitaði oft á mig dagana í kringum kjördag hvort Halla Tómasdóttir væri menningarlaus. Það sem kallaði á þessa hugsun var ákveðið yfirbragð – silkiklútakonan er í mínum fordómaheimi einskonar öfugmæli við menningarkonuna, kulturtanten, konuna sem les allt, sér allt, heyrir allt, drekkur það í sig, kona dýptarinnar. En auðvitað eru það fordómar og ég gengst við því þótt ég orði þá upphátt. Og þegar maður er haldinn fordómum þarf maður að kynna sér málin. Kosningarnar snerust svo mikið um Katrínu að mér finnst nánast einsog ég viti ekkert um Höllu T – nema að hún hafi verið hjá Auði Capital og Viðskiptaráði. Jú og Pepsi og M&M.


Í kosningabaráttunni nefndi Halla aðspurð um sína eftirlætis bók sjálfshjálparritið Lífsreglurnar fjórar – viskubók Tolteka eftir Don Miguel Ruiz. Sem er ekki til að minnka fordómana – ég á það til að hvítna í framan þegar fólk byrjar að tala um sjálfshjálparbækur. Ef illa liggur á mér hvítna ég á hnúunum líka.


Ég ætlaði að fara að kynna mér þessa bók en komst þá að því að þótt hún hefði komið út á 52 tungumálum og selst í skrilljónum eintaka hefur hún varla verið ritdæmd af neinum fjölmiðli með sjálfsvirðingu. Hún var á metsölulista New York Times í áratug án þess að blaðið sæi neina ástæðu til þess að taka hana til skoðunar. Ef satt skal segja, segir það ekki minna um fjölmiðlana en bókina. En það læknar mig ekki heldur af neinum fordómum.


Í grunninn sýnist mér þetta vera útfærslur á fjórum heilræðum 1) Farðu óaðfinnanlega með mál þitt 2) Ekki taka hlutunum persónulega 3) Ekki draga ályktanir (!) 4) Gerðu alltaf þitt besta. Bókin fær mjög háa meðaleinkunn á Goodreads og Amazon og margar stórstjörnur í Hollywood og víðar hafa lesið hana og mæla með henni, sumar segja hana hreinlega hafa bjargað lífi sínu. Þeir sem gagnrýna hana segja gjarnan að hún sé einfeldningsleg, og nefna dæmi einsog þegar höfundur virðist segja að fólk geti nánast kennt trúgirni sinni og neikvæðni um ef það fær krabbamein.



Vitnað án ábyrgðar eftir Goodreadsumfjöllun.


Einsog frægt er gat Halla ekki svarað – í sjónvarpsþætti á Stöð 2 – hvert Grettir hefði synt eftir eldi, hvaða biskup hefði verið hálshöggvinn í Skálholti, hverjir hefðu keppt um ástir Helgu fögru, hvar Gunnar Hámundarson hefði átt heima, hvort Seltjarnarnes væri í Reykjavík eða hvað aðalsöguhetja Engla alheimsins hefði heitið („elska þessa bíómynd“ sagði hún þó). Hún svaraði engu rétt nema söguhetjunni í Sjálfstæðu fólki og stóð sig áberandi verst frambjóðanda – sem er kannski stress. Ég kannast vel við það sjálfur að vita ekkert í svona keppnum og er raunar frekar minnislaus – hefði vel getað gleymt að Gunnar í Hlíðarenda var Hámundarson í hita leiksins og hefði sennilega klikkað á bæði Gretti og Helgu fögru. Tek þó fram að ég mundi það sem enginn frambjóðandi mundi – aðalsöguhetja Englanna heitir Páll.


En menning er ekki bara bókmenntasmekkur og -saga. Mér var sagt að Halla hefði sótt mikið af stuðningi sínum til ungs fólks og gert það í krafti tik-toks – og var þá bent á þetta myndband.


Ég er ekki mjög tik-tok læs en söguþráðurinn sem blasir við mér er: Tveir verslóspaðar með sólgleraugu mæta á kjörstað á Land Rover Discovery, grýta bíllyklunum í stelpu – sem er væntanlega einhvers konar bílastæðavörður – hrinda svo annarri, gefa hver öðrum fimmu og fara og kjósa girl boss Höllu T. „Ungir kjósendur, mætum og kjósum. Framtíðin er okkar.“


Kannski er ég af missa af einhverju. Ég spurði tik-tok læsara fólk sem tjáði mér einfaldlega að kapítalismi og kvenfyrirlitning væru í tísku á tik-tok. Það hljómar ... uh ... lógískt? En kannski ekki mjög „presidential“ eða „kúltíverað“.


Í gær tók Halla svo á móti þjóðinni af svölum heimilis síns. Í ræðu sinni gerðist hún menningarleg og vitnaði í ljóðskáldið Mary Oliver – sem gladdi mig. Línurnar sem hún vitnaði í eru niðurlagið í ljóðinu The Summer Day.

„Ljóðskáldið Mary Oliver spurði í frægum ljóðlínum, segðu mér, hvað ætlar þú að gera við þitt eina villta og verðmæta líf? Ég valdi að gefa kost á mér til að þjóna okkar þjóð. Og mig langar til að spyrja okkur mikilvægrar spurningar. Hvað ætlum við að gera við okkar villta og eina verðmæta land?“

Þetta eru mjög fleyg orð og það er gjarnan einmitt vitnað til þeirra við einhver svona tilefni – einsog carpe diem, að maður verði að grípa tækifærin og takast á við stórar áskoranir, þora að láta vaða, verða forseti og svo framvegis. En sú túlkun er pínu á ská við sjálft ljóðið, vel að merkja – þetta er algeng útlegging, en eiginlega ómöguleg ef maður skoðar allt ljóðið, sem hljómar svona (í minni þýðingu):


Sumardagurinn


Hver skapaði heiminn?

Hver skapaði svaninn og svartbjörninn?

Hver skapaði engisprettuna?

Þessa engisprettu, á ég við –

þá sem stökk upp úr grasinu

þá sem étur sykur úr lófa mér,

sem færir kjálkana fram og aftur frekar en upp og niður

sem mænir í kringum sig með risavöxnum og margbrotnum augum sínum.

Nú lyftir hún fölum framhandleggjum sínum og þvær sér vel í framan.

Nú lætur hún smella í vængjunum og svífur á brott.

Ég veit ekki vel hvað bænin er.

Ég kann að taka vel eftir, að falla niður

í grasið, að fara á hnén í grasinu,

að vera iðjulaus og náðug, að stjákla yfir engi,

og það er það sem ég hef gert í allan dag.

Segðu mér, hvað annað hefði ég átt að gera?

Deyr ekki allt að lokum og þar að auki of snemma?

Segðu mér, hvað ætlar þú að gera

við þitt eina, villta og verðmæta líf.


Ljóð hafa auðvitað ekki eina rétta merkingu en fyrir mér er þetta ljóð tignun iðjuleysisins – ekki ákall um mikilfengleikann. Að maður staldri við, slaki á, njóti tilvistarinnar án þess að krefja hana um stöðuga ávöxtun – án þess að gera afrekakröfu á sjálfan sig. Sem er auðvitað frábær boðskapur. Ekki síst í dag.

Recent Posts

See All

Herregud

Það eru kirkjur framan á a.m.k. þremur bóka minna (ég er ekki sjálfur viss með fjórðu, er þetta kirkja? ) – og bara á þeim íslensku, ég...

Lestrargæska

Það var pistill um samfélagsmiðilinn Goodreads í Heimildinni um daginn og hversu hvimleitt það væri að þar væru sumar bækur ekki skráðar...

Comentarios


natturulogmalin.jpg
hnefi löng.jpg
HansBlaer_72.jpg
BLANDARABRANDARAR.jpg
bottom of page