top of page
Illska-scaled.jpg
BruinyfirTangagotuna_72pt.jpg
frankensleikir.jpeg
Einlægur Önd.png
Oratorek_72pt.jpg
Plokkfiskbokin1.jpg
thjonn-thad-er-fonix-i-oskubakkanum-minum.jpg

Herregud

Það eru kirkjur framan á a.m.k. þremur bóka minna (ég er ekki sjálfur viss með fjórðu, er þetta kirkja?) – og bara á þeim íslensku, ég man ekki eftir neinni kirkju á þýddri bók eftir mig. Ég rak augun á þetta bara í gær, bætti nýlega inn þessum kápumyndum hérna á kantinum og var eitthvað að gægjast á þær. Samt koma kirkjur eiginlega bara við sögu í einni – þeirri nýjustu. Að vísu er Hörpu breytt í risastóra mosku í Gæsku en það er engin moska eða kirkja framan á þeirri bók. Bara fullt af fésum.


***


Ég settist niður með 15 ára syni mínum í gær og hjálpaði honum að taka kosningapróf. Það var vel að merkja hann sem bað mig um þetta, ég var ekki að troða þessu upp á hann, og ég gerði mitt besta til þess að presentera einfaldlega sem flestar hliðar allra mála af hlutleysi – þótt hann þekki mig auðvitað nógu vel til að vita hitt og þetta um skoðanir mínar – og margtuggði það ofan í okkur báða að þetta væru flókin mál, snerust ekki endilega um rétt eða rangt, en samt væri þess í raun krafist að maður segði af eða á. Maður getur t.d. ekki bæði styrkt Úkraínu í varnarstríði sínu við Rússland og ekki styrkt það (þetta fannst okkur báðum vera ein af erfiðustu spurningunum). Og já svona próf eru ótrúlegar einfaldanir en nei það á ekki að svara þeim samt einsog Sigmundur Davíð sem skrifaði langar ritgerðir undir öll sín svör um hvað spurningarnar væru miklar einfaldanir og það væri ekki hægt að svara þessu – það er verið að fiska eftir einföldum prinsippum vegna þess að einföld prinsipp skipta kjósendur máli, ef maður vildi orðhengilshátt myndi maður bara hringja í Sigmund og leyfa honum að láta dæluna ganga.


Við ræddum líka að það væri mikilvægt að maður festist ekki í skoðunum sínum – það tæki langan tíma að mynda sér ígrundaðar skoðanir á einhverju og þótt maður svaraði einhverju á einn veg í svona prófi mætti maður skipta um skoðun daginn eftir. Þetta á vel að merkja ekki jafn vel við þingmenn, sem ber ákveðin siðferðisleg skylda til þess að fylgja þeim hugsjónum sem þeir eru kosnir til að fylgja, og ættu helst ekki að skipta um skoðanir á daglegum basis. En sem kjósandi og hugsandi mannvera vill maður vera dálítið fluid – ég sé enga ástæðu til að kenna drengnum „flokkshollustu“ þótt sumum finnist eiginlega engin pólitísk dyggð vera æðri. Það er ekki galli á lýðræðinu að fylgið skuli vera á meira flakki en áður, heldur kostur – hollustu verður maður að vinna sér inn.


Við rákum okkur líka á að í raun var lítið af spurningum um sumt – það var t.d. ekkert spurt um menningarmál. Og svo svara frambjóðendur augljóslega ekki endilega alltaf bara því sem þeim finnst sjálfum heldur milda það, svara því sem er líklegt til vinsælda – enda vilja þeir láta kjósa sig. Ef marka má kosningaprófið eru t.d. allir flokkar hlynntir því að hækka lágmarkslaun. Ekki vegna þess að þeir ætli allir að hækka lágmarkslaun heldur vegna þess að fólk á lágmarkslaunum er kjósendur og það vill fá atkvæðin þeirra.


Þegar hann var búinn að svara öllu sátum við heillengi og fórum yfir svör ólíkra frambjóðenda – allra sem við könnuðumst við. Það var líka gott fyrir hann (og mig) að sjá hvað er mikið af fólki í framboði, hvað maður hreinlega þekkir marga frambjóðendur persónulega í svona litlu landi, hvað valdið er nærri manni – hann hefur unnið með einum á Tjöruhúsinu, það býr einn í húsinu á móti okkur, einn hefur kennt honum í grunnskóla, annar er pabbi bekkjarfélaga hans, einn er mamma bekkjarfélaga systur hans og svo framvegis. Og þarna gefst manni líka tækifæri til þess að fá innsýn í aðrar hliðar frambjóðendanna – hvaða tónlist þeir hlusta á og hvaða bækur þeir halda upp á. Við skoðuðum sérstaklega þá sem hann var mest sammála og þá sem hann var minnst sammála – ég man ekki hvað hann hét, sem fékk lægstu prósentuna, en hann hlustaði á fína músík og hafði ágætis smekk á kvikmyndum og bókmenntum. Það er líka lexía í því. Þá var augljóst að sumum flokkum átti hann enga samleið með og öðrum meiri – og svo voru frambjóðendur eins flokks (*hóst* framsóknarflokksins *hóst*) einfaldlega út um allt á rófinu.


Við vorum ábyggilega hátt í þrjá tíma að dunda okkur við þetta og hann var samt – eðlilega – alls ekki viss á eftir hvað hann myndi kjósa ef hann fengi að kjósa núna. Ég skil það, er sjálfur búinn að vera í viðstöðulausu kosningaprófi í 30 ár og veit enn ekki hvað ég á að kjósa.


***


En með þessari yfirferð í gær komst ég allavega að því að frambjóðendur a.m.k. þriggja flokka nefndu bók eftir mig sem sína eftirlætis bók – svo ég, sem er mjög auðskjallaður, er búinn að þrengja hringinn í Samfylkingu, Viðreisn og VG. Nema auðvitað að samkvæmt prófinu er ég mest pólitískt sammála Sósíalistum, VG og Pírötum – en mér finnst fullreynt með VG í bili, formaður Pírata í kjördæminu er vægast sagt lítill aðdáandi minn (þótt ég sé reyndar nokkur aðdáandi hennar, þá er ég samt of hégómagjarn, kannski bara of mikil smásál, til að kjósa hana) og Sósíalistar hafa bara ekki tekið neina afstöðu til bóka minna, enn sem komið er (ég er að vísu ekki búinn að fínkemba þennan lista og það er alveg opið að einhver sósíalisti hafi t.d. nefnt ... segjum bara Blandarabrandara ... sem sína eftirlætisbók). Raunar hef ég það á tilfinningunni – þótt ég hafi ekki tekið það saman – að Sósíalistar og Píratar eigi það sameiginlegt að hafa mest nefnt einhvern amerískan fantasíulitteratúr, sem er heimur sem ég hef litla sem enga innsýn í.


Ætli sé þá ekki bara best að kjósa Framsókn?

Recent Posts

See All

Lestrargæska

Það var pistill um samfélagsmiðilinn Goodreads í Heimildinni um daginn og hversu hvimleitt það væri að þar væru sumar bækur ekki skráðar...

Opin

Dagskráin á Opinni bók var frábær í ár. Helmingur höfunda var heimamenn – Didda, mamma og Gylfi Ólafsson – og helmingur gestir – Offi,...

Comments


natturulogmalin.jpg
hnefi löng.jpg
HansBlaer_72.jpg
BLANDARABRANDARAR.jpg
bottom of page