Lestrargæska
Það var pistill um samfélagsmiðilinn Goodreads í Heimildinni um daginn og hversu hvimleitt það væri að þar væru sumar bækur ekki skráðar – t.d. eldri ljóðabækur – og höfundur pistilsins, hún heitir Fríða og er alveg áreiðanlega Þorkelsdóttir, sagðist stundum kinoka sér við að lesa þær, af því það kostaði hana hluta af dópamínkikkinu að geta ekki merkt þær sem lesnar. (Þetta eru áreiðanlega ýkjur enda hefur sama Fríða áður birst í fjölmiðlum sem sérstakur safnari sjaldgæfra ljóðabóka).
Já, já, ég sagði kinoka, það þurfti einhver að gera það. Annars hefði það úrelst. Nú er það aftur í umferð.
Allavega. Nú er ég búinn að lesa Glerþræðina eftir Magnús Sigurðsson – sem er sennilega ástæðan fyrir því að sagnorðið kinoka er svona ofarlega í orðabankanum, Magnús skrifar skemmtilega fornt mál og vitnar mikið í enn fornara mál – og hálfa Innanríkið eftir Braga Ólafsson – sem er sennilega ástæðan fyrir því að ég er alltaf að grípa svona fram í fyrir sjálfum mér, sem ég geri svo sem alveg annars, en kannski ekki alveg jafn mikið og núna – og hvorug þeirra er á Goodreads. Nú halda vinir mínir á Goodreads (sem eru meðal annarra áðurnefnd Fríða sem er áreiðanlega Þorkelsdóttir) að ég hafi hreinlega gefist upp á bókmenntaheiminum, eða í öllu falli þessum miðli, Goodreads, með enga bók skráða „currently reading“ og hafandi ekkert klárað síðan ég lauk við Karitas án titils í síðustu viku.
***
Ég er alveg að hætta að vera þunnur eftir síðustu helgi. Það ætti að hafast fyrir næstu helgi ef ég er duglegur að drekka steinefnadrykki og fæ sæmilegan svefn. Þetta er allt að koma.
Ég týndi brúnu leðurhönskunum mínum á laugardag. Þá keypti ég í Tösku- og hanskabúðinni við Laugaveg fyrir þremur árum daginn eftir að ég týndi mjög svipuðu pari, sem ég hafði sennilega fengið gefins, eftir upplestur á Höfn í Hornafirði. Það kvöld hafði ég líka setið að sumbli með aldavini mínum Ófeigi Sigurðssyni – þá var hann áheyrandi á upplestri hjá mér, einsog ég var áheyrandi að upplestri hjá honum á laugardag (annars mæta höfundar lítið á upplestra annarra nema það séu útgáfuhóf og það sé áfengi í boði eða þeir eigi sjálfir að koma fram eða þeir séu hreinlega í ástarsambandi með viðkomandi höfundum, sem er reyndar furðu algengt) – og við ekkert hist í millitíðinni.
Ég ætla ekki einu sinni að segja að ég hafi reynt að leggja saman tvo og tvo, enda hef ég aldrei vitað minn aldavin uppvísan að öðru en fullkomnum heiðarleika, þótt hann sé svolítið stríðinn, ég hef heldur ekki verið í neinu ástandi þessa daga til þess að leggja saman tvo og tvo – kannski helst ég hafi ímyndað mér í þynnkurofunum að einhver, alls ekki Ófeigur, væri að safna brúnum leðurhönskum af mér og ætlaði svo að skila þeim öllum í einu þegar safnið væri orðið hæfilega stórt til þess að húmorinn í því væri öllum ljós – og þótt ég hafi aldrei fundið hanskana sem ég týndi á Höfn þrátt fyrir að hafa snúið aftur á veitingastaðinn þar sem þeir týndust þá fann ég parið sem ég týndi á laugardag strax og ég spurði eftir þeim. Þeir voru bara á barnum. Málið telst að fullu leyst.
***
Næst á dagskrá er svo Svört messa. Því fylgir líka dálítil saga (þessi anekdótustemning hans Braga er mjög smitandi).
Ég vaknaði einn laugardagsmorgun í sumar – það var síðasta skipti sem ég var svona þunnur, eftir brúðkaup vinar míns, ég hef verið venju fremur meðvitaður um heilsuna alveg síðan – með fjögur missed calls frá ónefndum kollega mínum, frægum manni sem ég hafði ekki heyrt frá síðan við settumst niður til að semja um frið á Næsta bar klukkan svona fimm að nóttu fyrir áreiðanlega 20 árum. Þá höfðum við maðurinn ekki hist nema einu sinni eða tvisvar – og varla hægt að segja að við höfum hist, ég hafði verið viðstaddur einhverja upplestra hans, að vísu mjög einbeittur enda einlægur aðdáandi, en hann hafði verið eitthvað ósáttur við eitthvað sem ég hafði skrifað um íslenska ljóðlist (sem ég þreyttist ekki á að níða á þessum árum, sem var áreiðanlega mjög þreytandi fyrir aðra). Hvað um það. Ég er einsog ég hef áreiðanlega nefnt ægilegur símaslóði og hringdi aldrei til baka, ætlaði alltaf að skrifa honum, gerði það ekki, en fyrir fáeinum vikum hringdi hann aftur. Og þá bara svaraði ég.
Erindið var upphaflega ekki að segja mér að lesa Svarta messu en á endanum var það samt það sem einhvern veginn varð aðalatriðið og mig er farið að gruna að það hafi alltaf staðið til. Að hann hafi hringt til þess að fá mig til þess að lesa Svarta messu, fyrst ég reyndist ekki hafa gert það áður. Ég er allavega búinn að lofa að lesa Svarta messu og gefa skýrslu. Ég veit ekki hvort kolleganum finnst bókin sjálfum góð og ætlar að sjá hvort ég hafi ekki áreiðanlega líka smekk fyrir henni – eða hvort honum finnst hún léleg og vill fá staðfest að það sé rétt hjá sér. Nema hann búist við því að ég hafi öndverða skoðun á henni en hann og hann vilji grípa mig við einhverja smekkleysu (þetta er ekki vísbendingaleikur, kolleginn tengist Smekkleysu ekki neitt, nema bara einsog allar íslenskar bókmenntir – eða allar bókmenntir heimsins – hanga í sama streng). Það gæti líka verið – kannski er það sennilegast, nú þegar ég hugsa út í það – að hann vilji bara vita eitthvað allt annað en hvort mér finnst hún góð eða léleg, eitthvað loðnara, fagurfræðilegra, heimspekilegra en þumal upp eða þumal niður og það gæti verið að Goodreads sé strax farið að takmarka skilning minn á bókmenntaverkum við fimm stjörnu skalann.
Svört messa eftir Jóhannes Helga er ekki heldur á Goodreads.
Recent Posts
See AllÞað eru kirkjur framan á a.m.k. þremur bóka minna (ég er ekki sjálfur viss með fjórðu, er þetta kirkja? ) – og bara á þeim íslensku, ég...
Dagskráin á Opinni bók var frábær í ár. Helmingur höfunda var heimamenn – Didda, mamma og Gylfi Ólafsson – og helmingur gestir – Offi,...
Comments