top of page
Illska-scaled.jpg
BruinyfirTangagotuna_72pt.jpg
frankensleikir.jpeg
Einlægur Önd.png
Oratorek_72pt.jpg
Plokkfiskbokin1.jpg
thjonn-thad-er-fonix-i-oskubakkanum-minum.jpg

Maður lærir að dúlla sér

Stundum líður mér einsog 9/10 hlutar rithöfundastarfsins snúist um að vera bara lost og vita ekkert hvað maður á af sér að gera. Í ár eru 25 ár – aldarfokkinsfjórðungur – frá því ég ákvað að ég myndi eyða ævinni í þetta og mér finnst einsog ég ætti að vera farinn að venjast þessu. Þá var ég í Berlín þar sem ég hafði endað í kjölfar þess að ég fór í danskan kennaraskóla, sem var rekinn af blöndu af hálfgölnum hippum og til þess að gera albrjáluðum stalínistum, droppaði út úr honum fyrirvaralaust ásamt bandarískri pólí-kærustu, fór á puttaferðalag um Evrópu sem endaði með því að mér var dömpað í Genf – þar sem ég bjó undir Cornavin lestarstöðinni, með heimilislausu fólki, í viku, áður en ég stökk upp í lest og fann mér athvarf hjá norskri vinkonu minni í Berlín (sem vissi ekki að það væri von á mér – af því það var svo erfitt að ná í fólk á þessum tíma). Þangað kom ég mánuði fyrir 10 ára afmæli múrfallsins – ég var 21 árs, ekki í skóla, ekki í sambandi, ekki í vinnu, átti enga peninga, bjó inn á vinkonu minni sem bjó sjálf í kommúnu (eða stóru WG) með 10 öðrum – og sirkabát alveg lost. Ég segi ekki að þetta hafi alltaf verið jafn mikið villuráf í rugli – og þessi ákvörðun sem ég tók – sem var skýr og ákveðin, þetta er tiltekið augnablik, tiltekin uppljómun, og fólst meðal annars í því að fá mömmu til að senda mér ritvél – var vel að merkja ekki villuráf heldur einmitt stefna, átt, markmið, ástríðufullt og af festu. Og kannski snýst starfið þá einfaldlega um að marka sér stefnu – með því fororði að markið óljóst, óvíst, síbreytilegt. Fegurðin? Sannleikurinn? Eða öllu heldur – fegurðin! Sannleikurinn! Stundum líka réttlætið! Stundum hefur það bara verið tungumálið – einhver leikur, einhver dans, brot og bygging merkingar og merkingarleysis. Og stundum hefur það bara verið leigan, maturinn og bjór, sígó og kaffi fyrir afganginn. Stundum: að verða dáður! Glory! Verðlaun!


En oft – oftast – alla venjulegu dagana – er þetta einn af tveimur eltingaleikjum. Sá fyrri snýst um að finna bók. Hvað langar mig að skrifa um og hvernig langar mig að skrifa um það? Sá seinni snýst um að komast frá fyrsta orðinu að því síðasta. Þeir renna reyndar mikið til saman á ákveðnu stigi – maður veit ekkert hvort mann langar að skrifa einhverja bók, eða hvort hana langar að láta skrifa sig, fyrren maður er búinn að skrifa a.m.k. 10-20 þúsund orð og láta þau hvíla aðeins. Þá kemur maður aftur að bókinni og áttar sig á því hvort hún er fokheld eða ekki og oft – alltof oft – reynist hún löngu fokin út í veður og vind.


Hér skrifar sem sagt maður sem var að koma að fjórða spýtnabrakinu í ár – nýkomin á skrifstofuna eftir sumarfrí, og hér er ekkert nothæft til að vinna með. Og það er ofan í ábyggilega 20 ágætis hugmyndir sem komust aldrei af stað. Ég ætla ekkert að ljúga því að neinum að þetta er svolítið bugandi. En kannski er þetta bara eðlilegt eftir 2023 – ég skrifaði óhemju fyrri part ársins, einsog andsetinn maður, og skilaði af mér 600 blaðsíðna doðranti – sem ég fylgdi svo eftir með öllu sem ég átti. Það mátti kannski bara búast við því að það tækið lónið smá tíma að fyllast aftur. Og íslenska akkorðstempóið – helst bók á ári – er brjálæði og ekki til þess að stuðla að því að bækur verði eins góðar og þær geta orðið. Ég veit bara ekki alveg hvað ég á að gera af sjálfum mér meðan ég bíð þess að lónið fyllist – og nei, svarið er ekki að taka að sér fullt af nýjum verkefnum eða setja sér fullt af spennandi markmiðum. Sennilega er svarið einmitt þveröfugt – manni þarf að leiðast svolítið hressilega. Stara út í geim í nokkra mánuði í viðbót, klóra sér í nefinu og dæsa.


Þetta er líklega það sem Lilja Sigurðardóttir kallar að „dúlla sér“ við bók í tvö ár (í viðtali á RÚV um daginn – þar sem fram kom að þess þyrftu nú krimmahöfundarnir ekki). Og kemur auðvitað til af því að við þurfum að fá nýja hugmynd í hvert skipti. Annars held ég að tvö ár sé of stutt fyrir margar bækur og að ég gefi sjálfur út oftar en ég ætti að gera. Ég var þrjú ár að skrifa Náttúrulögmálin – það var í það minnsta þótt lokaspretturinn hefði kannski aldrei getað verið minna intensífur en hann var – ég var ekki að keppast við að koma út bókinni fyrir haustið heldur keppast við að halda þræði, halda dampi. Kannski þarf maður að skrifa hratt – en maður þarf að hugsa hægt og miða í ró og næði áður en maður byrjar. Og gæta sín á því að rembast ekki við að klára hálfdauðar hugmyndir til þess að „skrifa eitthvað“ heldur finna þær sem trylla mann sjálfan, þær sem verða áríðandi í sjálfum sér. Þetta verður að fá að taka sinn tíma. Og svo þarf líka að gefa sér tíma til að klára. Setningarnar þurfa allar að vera góðar.


Auðvitað eru bækur aldrei alveg tilbúnar – það er hægt að dúlla sér við þær að eilífu án þess að þær verði „gallalausar“ og ekki markmið í sjálfu sér að þær verði 100 þúsund fullkomin orð í fullkominni röð, galdur sagnabókmennta liggur í einhverju öðru, jafnvel í kaosinu, agnúunum, ástríðunni frekar en fáguninni, og alls ekki í því að geðjast öllum, alls ekki í lægsta samnefnara, alls ekki í almennum vinsældum. Og kannski er það einmitt vandamálið – það sem gerir mann svona lost – að þurfa að finna upp þennan galdur upp á nýtt í hvert skipti.


Og svo veit ég reyndar líka alveg að finni ég það sem ég þarf að finna – hvað sem það nú er – þá gæti þess vegna verið tilbúin bók fyrir áramót. En það gæti líka alveg tekið mig heilt ár í viðbót að finna það sem ég þarf að finna. Og þá verður eiginlega bara að hafa það.

Recent Posts

See All

Regnboginn

Ég hafði séð fyrir mér að lesa kannski svona 100 síður af Gravity's Rainbow í dag. Ég er búinn með 17 og finnst einsog ég hafi lesið...

Í hjartanu

Leikurinn endaði 3-1 fyrir óheppni minni. Fluginu í gær var aflýst. Ég fékk samt fría gistingu á gömlu loftleiðum og kvöldmat og tók því...

Comments


natturulogmalin.jpg
hnefi löng.jpg
HansBlaer_72.jpg
BLANDARABRANDARAR.jpg
bottom of page