Markaðsmál og lífsvaka
Það er ótímabært að sýna ykkur kápuna á nýju ljóðabókinni minni. En ég er búinn að sjá hana. Og nokkrir starfsmenn Forlagsins eru búnir að sjá hana. Börnin mín eru líka búin að sjá hana. Ég er meira að segja búinn að setja hana sem skjámynd á símanum mínum en það sér aldrei neinn símann minn nema ég. Annað fólk á ekkert með að vera að glápa á símann minn. Það er aldrei að vita hvað annað það gæti komið auga á.
Nú er ég farinn að hugsa einsog markaðsmaður. Ef ég myndi sýna ykkur kápuna á ljóðabókinni núna mynduð þið bara vera komin með leið á henni þegar hún kemur út í byrjun mars. Þá mynduð þið sjá hana í bókabúð, augun myndu reika yfir hana, og ef þau staðnæmdust þá væri það bara í augnablik og bara til þess að hugsa: Var ég ekki búinn að lesa þessa? Jú, ég var áreiðanlega búinn að lesa hana. Mjög kunnugleg.
***
Á morgun ætla ég að keyra til Akureyrar til þess að taka þátt í Lífsvöku Ásgeirs H. Ingólfssonar, vinar míns, annað kvöld. Ásgeir er með illvígt krabbamein og hefur fengið einhvers konar dauðadóm frá læknum – þótt hann haldi í einhverja von – og af því tilefni hefur hann kallað saman gamla vini og samstarfsmenn. Til skemmtunar. Ljóðakvöld, listakvöld, kveðjustund, baráttufundur – ég fer án þess að vita neitt í hvað stefnir og ég veit ekki hvort það er hægt að gera þetta öðruvísi. En vegna þess að við Ásgeir – sem var í Nýhil á sínum tíma, a.m.k. um skeið – eigum marga sameiginlega vini verður þetta líka hálfgert ættarmót. Það eru margir að fara sem ég sé alltof sjaldan. Sem eykur á þessa undarlegu blöndu gleði og sorgar.
Einhvern tíma fyrir tveimur áratugum vorum við í Nýhil spurð hver væri munurinn á gamaldags níhilista og þesstíma nýhilista, fyrir utan yfsilonið, og svöruðum því til að gömlu níhilistarnir hefðu sökkt sér í svartholin áður en búið var að finna upp skammtafræðina. Með skammtafræðinni hefðum við uppgötvað að ef maður sökkvir sér nógu djúpt í svarthol kemur maður upp einhvers staðar annars staðar. Ef maður mætir því óttalaus og án þess að hika er með öðrum orðum í því fólgin nokkur von. Og talsverð fegurð.
Hvað sem öðru líður og hvernig sem allt fer finnst mér einsog Ásgeir hafi nú þegar sannað þessa kenningu með tiltæki sínu.
Recent Posts
See AllÉg sá því haldið fram um daginn að mennirnir sem nauðguðu Gisèle Pelicot hafi verið venjulegir. Þessu til sönnunar var tiltekið við hvað...
Ef allt fer að óskum kemur ljóðabókin mín út í mars. Hún átti einu sinni að heita mjög ljóðrænum titli en á endanum ákvað ég að láta...
Comments